Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 1. júlí 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, og B, gegn barnaverndarnefnd C vegna beiðni kærenda um að taka í fóstur D, sem barnaverndarnefndin synjaði, nr. 13/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með tölvubréfi 2. júní 2015 skaut E hdl., fyrir hönd A og B, ákvörðun barnaverndarnefndar C frá 1. júní 2015, vegna beiðni kærenda um að taka D, í varanlegt fóstur, til kærunefndar barnaverndarmála. Stúlkan er barnabarn kærenda. Með hinni kærðu ákvörðun var beiðni kærenda synjað. Stúlkan var þá á fósturheimili eins og fram kemur í bókun barnaverndarnefndarinnar. Þar kemur jafnframt fram að barnaverndarnefndin telji mikilvægt að raska ekki stöðugleika stúlkunnar og að hún fari í varanlegt fóstur til fósturforeldranna. Beiðni kærenda um að taka stúlkuna í varanlegt fóstur var því synjað.

Kærendur krefjast þess að kærunefnd barnaverndarmála ákveði að þau fái að taka stúlkuna í varanlegt fóstur og vísa til 1. mgr. 6. gr., sbr. 67. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Af hálfu barnaverndarnefndar C er vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga sé hin kærða ákvörðun hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds.

I. Helstu málavextir

Stúlkan D er í fóstri á vegum barnaverndarnefndar C. Barnaverndarnefndin úrskurðaði 24. mars 2014 um vistun D utan heimilis og jafnframt að farið yrði fram á að móðir stúlkunnar skyldi svipt forsjá hennar. Stúlkunni var komið fyrir á neyðarheimili og síðar á fósturheimili hjá núverandi fósturforeldrum. Umsókn kærenda um að gerast fósturforeldrar var tekin fyrir á fundi barnaverndarnefndar C 26. maí 2014 þar sem bókað var að barnaverndarnefndin gæti ekki mælt með því að kærendur tækju barnið í fóstur, sbr. 66. gr. barnaverndarlaga. Kærendur sóttu um fósturleyfi til Barnaverndarstofu sem veitti kærendum leyfi til þess að taka eitt barn í fóstur og í kjölfarið barst barnaverndarnefndinni beiðni kærenda um að taka D í fóstur. Var sú beiðni tekin fyrir á fundi nefndarinnar 26. janúar 2015 og bókað að beiðni kærenda yrði tekin fyrir þegar niðurstaða lægi fyrir hjá dómstólum í forsjármáli móður D. Var hún svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms F þann X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands þann X.

Á fundi barnaverndarnefndar C 1. júní 2015 var mál kærenda tekið fyrir að nýju og bókað að beiðni þeirra um að taka stúlkuna í varanlegt fóstur væri synjað.

Í kæru kærenda kemur fram að með vísan til 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, sbr. 67. gr. sömu laga, sé ákvörðun barnaverndarnefndar C kærð til kærunefndar barnaverndarmála. Kemur fram að kærendur telji að með hinni kærðu ákvörðun hafi barnaverndarnefndin brotið alvarlega á stúlkunni með því að vista hana á heimili svo fjarri eldri systkinum sínum, en eldri systkini hennar tvö séu vistuð hjá föðurömmu sem búi stutt frá móðurömmu.

II. Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kærenda um að taka D í varanlegt fóstur og synjun barnaverndarnefndarinnar á þeirri beiðni.

Í kæru er vísað til kæruheimildar í 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga, sbr. og 67. gr. sömu laga. Þar er enn fremur vísað til þess að kærð sé sú ákvörðun barnaverndarnefndar C að synja beiðni kæranda um að fá að taka barnabarn sitt í fóstur en barnið sé í fóstri á vegum nefndarinnar. Þá er og vísað til þess að með ákvörðun sinni hafi barnaverndarnefndin brotið alvarlega á stúlkunni. Fram kemur einnig af hálfu kærenda að hvorki sé tímabært né eðlilegt að vinna að svo miklum tengslarofum stúlkunnar við fjölskyldu sína. 

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga er hlutverk kærunefndar barnaverndarmála afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til hennar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum. Í III. kafla reglugerðar um kærunefnd barnaverndarmála nr. 1007/2013 eru taldar upp þær ákvarðanir og úrskurðir barnaverndarnefnda sem kæranlegir eru til kærunefndar barnaverndarmála.

Í 33. gr. barnaverndarlaga er fjallað um umsjá barns sem er vistað utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd, sem tekið hefur við umsjá eða forsjá barns með heimild í lögunum, gera skriflega áætlun um trygga umsjá barnsins. Foreldrar sem sviptir hafa verið forsjá barns eiga ekki aðild að málum er varða ákvarðanir um úrræði barni til handa að undanskildum málum er varða ákvörðun um umgengnisrétt. Val barnaverndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis samkvæmt 25. og 27.–29. gr. barnaverndarlaga er ekki kæranlegt til kærunefndar barnaverndarmála eða annars stjórnvalds samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laganna.

Í XII. kafla laganna er fjallað um ráðstöfun barna í fóstur. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. er með fóstri í lögunum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í a.m.k. þrjá mánuði þegar foreldrar fara ekki lengur með forsjá barns af ástæðum sem tilgreindar eru nánar í lagaákvæðinu, þar á meðal þegar foreldrar hafa verið svipt forsjá barns með dómi. Markmiðið með fóstri er samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum barnsins. Um val á fósturforeldrum er fjallað í 67. gr. laganna. Barnaverndarstofa veitir barnaverndarnefndum fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur sendi beiðni til Barnaverndarstofu og velji fósturforeldra úr hópi þeirra sem eru á skrá samkvæmt 1. mgr. í samráði við stofuna. Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins. Í 67. gr. kemur ekki fram að ákvarðanir samkvæmt lagagreininni sæti kæru til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga annast Barnaverndarstofa leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum samkvæmt XII. kafla laganna. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga hefur Barnaverndarstofa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd laganna og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir. Barnaverndarstofa hefur jafnframt eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður ekki séð að sú ákvörðun sem kærð hefur verið geti á grundvelli barnaverndarlaga verið kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt því ber að vísa kæru kærenda frá kærunefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru A og B vegna ákvörðunar barnaverndarnefndar C um að synja beiðni kærenda um að taka barnabarn þeirra, D, í varanlegt fóstur er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira