Hoppa yfir valmynd

Nr. 430/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 430/2018

Miðvikudaginn 13. mars 2019

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með tölvupósti 30. nóvember 2018 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B 21. nóvember 2018 vegna umgengni hennar við sonarson sinn, C. Greinargerð með kæru barst með bréfi 6. desember 2018. Er þess aðallega krafist að umgengni kæranda við drenginn verði á þriggja mánaða fresti en til vara að umgengni verði á fjögurra mánaða fresti, eins og kærandi tilgreinir nánar í kröfugerð sinni fyrir úrskurðarnefndinni og lýst er í kafla II hér á eftir.

Kærandi A, föðuramma drengsins, stendur ein að kærunni þó að hinn kærði úrskurður varði umgengni beggja föðurforeldra við drenginn.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

C er fæddur X og er því X ára gamall. Hann lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Hann er í styrktu fóstri en með styrktu fóstri er átt við að sérstök umönnun og þjálfun fari fram á fósturheimili í tiltekinn tíma. Styrkt fóstur á við þegar barnið á við verulega hegðunarerfiðleika að stríða vegna geðrænna, tilfinningalegra og annarra vandamála af því tagi og uppfyllt eru skilyrði til að vista barnið á heimili eða stofnun samkvæmt 79. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Drengurinn hefur verið hjá núverandi fósturforeldrum frá X . Kærandi er [...]amma drengsins.

Afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum drengsins hófust þegar hann var X mánaða gamall en hann var þá í umsjá foreldra sinna. Drengurinn var fyrst vistaður utan heimilis frá X til X og aftur frá X til X . Hann var tekinn úr umsjá foreldra í X er hann var tæplega X ára gamall. Drengurinn var vistaður á D, þar til hann fór á fósturheimili í X. Til fósturrofs kom og fór drengurinn aftur á D í X. Þar var gert mat á þörfum og vanda drengsins en hann fór á núverandi fósturheimili í X. Foreldrar drengsins voru sviptir forsjá hans með dómi Héraðsdóms B X sem staðfestur var í Landsrétti X.

Í hinum kærða úrskurði segir að í X hafi verið gerður samningur við [...]foreldra um umgengni við þau dagpart aðra hvora helgi frá klukkan 11 til 20. Þá hafi [...]foreldrar haft umgengni við drenginn X en hann átti að gista hjá þeim X til X og X til X. Samið hafi verið um að hann væri hjá foreldrum sínum yfir daginn. Drengurinn hafi síðar greint frá því að hann hafi gist hjá foreldrum sínum yfir X en það hafi verið án samráðs við starfsmenn barnaverndar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að [...]foreldrar hafi mætt í umgengni sem drengurinn hafi haft við foreldra sína eftir að hann var vistaður hjá núverandi fósturforeldrum. Hafi það einnig verið án samráðs við og samþykkis starfsmanna Barnaverndar B. Eftir umgengnina hafi drengurinn verið í miklu ójafnvægi. Hegðun hans á fósturheimilinu hafi versnað til muna og hafi haft veruleg áhrif á þau markmið sem sett hafi verið í styrktu fóstri og miðað að því að bæta hegðun hans og líðan. Afstöðu fósturforeldra hafi verið aflað og hafi þau haft áhyggjur af því að það yrði of mikið álag fyrir drenginn ef mikil umgengni yrði við [...]foreldra. Hafi fyrirkomulag umgengni því verið endurskoðað.

Samkomulag náðist ekki á milli Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og [...]foreldra um umgengnina og var því úrskurðað í málinu samkvæmt 74. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við [...]foreldra sína A og E, tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti á heimili[...]foreldra. [...]foreldrum er ekki heimilt að bjóða foreldrum drengsins í heimsókn á meðan drengurinn er í umgengni.“

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að úrskurður Barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi. Hún fer aðallega fram á að umgengnin verði á þriggja mánaða fresti, laugardag eða sunnudag frá kl. 11 til 20 á heimili [...]foreldra án eftirlits og að drengnum sé heimilt að hringja í [...]foreldra sína ef hann óskar eftir því. Til vara er gerð krafa um að umgengni drengsins verði á fjögurra mánaða fresti, laugardag eða sunnudag frá kl 11 til 20 á heimili [...]foreldra án eftirlits og að drengnum sé heimilt að hringja í [...]foreldra sína ef hann óskar eftir því. Í báðum tilvikum skuldbindur kærandi sig til þess að sjá til þess að foreldrar drengsins séu ekki á heimili þeirra [...] þegar drengurinn er þar í umgengni.

Kærandi sé mjög náin drengnum. Hann hafi dvalið langtímum saman á heimili kæranda og eigi hann sérlega gott og náið samband við afa sinn. Þau rök sem notuð séu til að minnka umgengni kæranda við drenginn séu því ekki sérlega haldbær. Telji kærandi að eðlilegt sé að barn sýni einhver viðbrögð við því að hitta foreldra sína og afa og ömmu. Væri nánast óeðlilegt ef barn sýndi ekki einhver viðbrögð í hvaða formi sem þau kæmu þar sem um sé að ræða barn sem skilji hvorki aðstæður sínar né viðbrögð.

Það geti verið skaðlegt fyrir drenginn til langs tíma að slíta alfarið tengsl hans við kæranda á þessum tímapunkti. Það sé ekki annað en tengslarof sem verði þegar barni sé meinað að hitta ömmu sína og afa í aðeins tvær klukkustundir tvisvar sinnum á ári. Drengurinn hafi ávallt átt athvarf og skjól hjá kæranda og það geti valdið honum óbærilegum tilfinningalegum skaða til frambúðar að rjúfa þessi tengsl.

Kærandi telur að það séu fyrst og fremst hagsmunir drengsins að viðhalda sambandi hans við ömmu sína og afa eins og hún leggi til. Tillögur kæranda séu mjög hóflegar hvað umgengnistíma varði og telji hún að sá tími sé til þess fallinn að viðhalda þeim tengslum sem drengurinn eigi við [...]foreldra og alls ekki ósamrýmanlegur þörfum hans né andstæður hagsmunum hans að nokkru leyti. Leiða megi líkur að því að það tengslarof sem drengurinn sé látinn sæta valdi honum frekar skaða en hitt, sér í lagi í ljósi þess nána sambands sem drengurinn eigi við afa sinn.

Í úrskurði barnaverndarnefndar sé vísað til umgengni drengsins við foreldra sína í X og þess að [...]foreldrar hafi komið í heimsókn til foreldranna til að hitta drenginn. Kærandi hafi ekki verið meðvituð um að þau mættu ekki fara í heimsókn til foreldranna á meðan drengurinn væri þar. Hegðun drengsins eftir þá heimsókn hafi ekkert með það að gera að kærandi hafi komið, heldur það að foreldrar drengsins hafi verið að tala við drenginn um ferð til útlanda og hann hafi komist í uppnám vegna þess.

Réttur barns til að umgangast og eiga samveru við [...]foreldra sína sé ótvíræður, sbr. 1. mgr. 74. gr. bvl. Rök starfsmanna barnaverndar um að nauðsynlegt sé að skerða þann rétt vegna þess að drengurinn hafi í eitt skipti sýnt af sér erfiða hegðun gangi gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og bvl. um að ekki skuli gengið lengra en þörf sé á.

Krafa kæranda um umgengni á þriggja mánaða fresti frá kl. 11 til 20 laugardag eða sunnudag geti ekki talist óhófleg í skilningi laga né í andstöðu við hagsmuni drengsins. Þvert á móti telji kærandi nauðsynlegt að drengurinn fái að viðhalda þeim tengslum sem hann eigi nú þegar við [...]foreldra.

Það komi skýrt fram í viðtali talsmanns við drenginn að hann vilji hitta [...]foreldra en kærandi telji ljóst að þrátt fyrir að hann hafi verið spurður að því hvort hann vilji hitta þau tvisvar á ári og hann hafi jánkað því, þá sé hann bara X ára gamall og geri sér enga grein fyrir því í hverju það felist og því ekki hægt að beita því sem vilja drengsins.

Með vísan til ofangreinds sé ljóst að það sé drengnum til hagsbóta að komið verði á meiri umgengni við [...]foreldra í ljósi þeirra sterku tengsla sem séu á milli þeirra.

 

III.  Afstaða Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 15. janúar 2019 er vísað til þess að málefni drengsins hafi verið til vinnslu hjá barnaverndinni allt frá því að hann var um X gamall, vegna alvarlegrar vanrækslu foreldra hans. Á þeim tíma er drengurinn hafi farið úr umsjá foreldra sinna X hafði hann í X verið vistaður tímabundið utan heimilis. Hann hafi farið til fósturforeldra í F X og til hafi staðið að hann yrði vistaður þar í varanlegu fóstri. Til fósturrofs hafi komið og drengurinn flutti af fósturheimilinu X. Drengurinn hafi þá verið vistaður á D, og dvalið þar þar til hann fór til núverandi fósturforeldra X í styrkt fóstur í X ár.

[...]foreldrar hafi verið mikill stuðningur fyrir foreldra drengsins og hann sjálfan á meðan drengurinn var enn í umsjá foreldranna. Í X hafi [...]foreldrar óskað eftir umgengni við drenginn sem þá hafi verið vistaður á D. Bókað hafi verið á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B X að [...]foreldrar teldust nákomin drengnum í skilningi bvl. og það væri mat starfmanna að það þjónaði hagsmunum drengsins að hafa umgengni við þau. Einnig hafi verið bókað að umgengni yrði dagpart á laugardegi eða sunnudegi kl. 11 til 20 aðra hvora helgi. Í bókun starfsmanna hafi komið fram að [...]foreldrar væru afar ósátt við málsmeðferð Barnaverndar B í máli drengsins og að ólíklegt væri að þau settu foreldrum drengsins þau mörk að koma ekki í heimsókn á meðan á umgengni drengsins við [...]foreldra stæði. Í bókuninni hafi einnig komið fram að skilyrði fyrir umgengninni væri að foreldrar drengsins kæmu ekki á heimili [...]foreldranna á meðan drengurinn væri þar í umgengni. Umgengni hafi verið með þessum hætti þar til að drengurinn hafi farið í styrkt fóstur í X. Drengurinn hafi á sama tíma notið umgengni við foreldra sína sem fram hafi farið á heimili þeirra á tveggja vikna fresti. Á umræddu tímabili hafi eftirlit verið með umgengni drengsins við foreldra en umgengni hans við [...]foreldra hafi verið án eftirlits. [...]foreldrar hafi einnig átt umgengni við drenginn X. Hafi drengurinn átt að gista hjá [...]foreldrum X til X og X til X en starfsmenn barnaverndar hafi samið um það við [...]foreldra og foreldra drengsins að hann væri hjá foreldrum sínum yfir daginn. Drengurinn hafi síðar greint frá því að hann hefði gist hjá foreldrum sínum X, en það hafi verið ákvörðun sem [...]foreldrar hafi tekið án samráðs við starfsmenn barnaverndar og hafi verið í andstöðu við það sem bókað hafi verið á meðferðarfundi starfsmanna X.

Á meðan drengurinn hafi dvalið á D frá X til X, í kjölfar fósturrofsins, hafi verið gert endurmat á greiningum hans. Í endurmatinu, sem dagsett sé X, komi fram að staða drengsins og vandi væru flókin. Saga hans geri það að verkum að erfitt sé að meta hvaða afleiðingar aðstæður hans hafi haft á þroska hans, færni og líðan. Niðurstöður endurmats hafi sýnt að drengurinn skimaðist á einhverfurófi og kvað matsaðili mikilvægt að þverfaglegt teymi skoðaði hann betur. Fram hafi komið að ekki væri hægt að útiloka að vandi drengsins væri tilkominn vegna tengslaröskunar. Skörun einkenna á einhverfu og tengslaröskun væri allnokkur og því mikilvægt að skoða drenginn með nákvæmari mælitækjum. Að svo stöddu væri það álit sálfræðings að erfiðleikar hans samrýmdust betur einhverfurófsröskun en tengslaröskun. Niðurstöður matslista hafi þótt benda til allnokkurra erfiðleika varðandi hegðun, einbeitingu og félagsfærni. Umönnun drengsins og uppeldi yrði krefjandi og kallaði á mikla þekkingu, færni og umburðarlyndi. Hann mundi sjálfur þurfa á mikilli lífs- og félagsfærniþjálfun að halda, auk stöðugs eftirlits og aðhalds vegna fiktáráttu sinnar og ríkrar tilhneigingar til að taka hluti sem aðrir ættu. Hvar sem hann komi til með að búa þurfi viðkomandi fjölskylda mikla ráðgjöf, stuðning og leiðsögn til að vel megi fara.

Drengurinn hafi farið í styrkt fóstur í X. Ákveðið hafi verið í samráði við foreldra að drengurinn hefði umgengni við þau einu sinni í mánuði í fjóra tíma í senn. Umgengnin hafi ekki verið undir eftirliti. Fósturmóðir drengsins hafi upplýst starfsmann um það í tölvupósti X að [...]foreldrar drengsins hefðu mætt í umgengni drengsins við foreldra X. Eftir þá umgengni hefði drengurinn farið úr jafnvægi og sýnt mjög erfiða hegðun, bæði á fósturheimilinu og í skólanum. Hann hafi verið reiður og í miklu uppnámi.

[...]foreldrar drengsins hafi óskað eftir umgengni við drenginn í styrktu fóstri og hafi verið fjallað um beiðni þeirra á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B X. Í bókun meðferðarfundar komi fram að drengurinn hefði sýnt erfiða hegðun í kjölfar umgengni þar sem [...]foreldrar hans hafi verið viðstödd. Fósturforeldrar hefðu lýst því að hegðun hans hefði verið slæm á fósturheimilinu, í skóla og í tómstundum. Fram komi í bókuninni að samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum hefði hegðun drengsins á heimlinu lagast nokkrum dögum eftir umgengnina. Í bókun meðferðarfundarins komi fram það mat starfsmanna að drengurinn væri í þörf fyrir stöðugleika og öryggi og að ljóst væri að fara yrði mjög varlega varðandi umgengni. Starfsmenn hafi talið að rífleg umgengni við [...]foreldra gæti orðið til að raska stöðugleika drengsins og væri líkleg til að hafa þær afleiðingar að hegðun hans yrði afar erfið sem aftur hefði mjög neikvæð áhrif á líf hans. Hafi starfsmenn lagt til að umgengni við [...]foreldra yrði tvisvar á ári í tvær klukkustundir undir eftirliti á heimili [...]foreldra og að foreldrum drengsins yrði ekki heimilt að vera viðstödd umgengnina. [...]foreldrum var kynnt bókunin en þau féllust ekki á tillögur starfsmanna.

Samkvæmt upplýsingum frá fósturmóður X hafi drengurinn rætt við ömmu sína og afa í síma þegar hann hafi átt umgengni við foreldra sína X. Hafi fósturmóðir lýst mikilli breytingu á drengnum frá því degi fyrir umrædda umgengni og hvernig hegðun hans hafi verið eftir umgengnina. Sagði hún hegðun hans ekki eins slæma og í kjölfar umgengninnar sem [...]foreldrar hafi verið viðstödd en fram kom að drengurinn hefði verið mikið utan við sig, talað við sjálfan sig, grett sig og sótt mikið í það að vera einn. Þá hefði hann verið mjög fjarrænn. Sagði fósturmóðir að miðað við fyrri reynslu tæki það drenginn um hálfan mánuð að jafna sig.

Málið hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B 30. október 2018. Fyrir fundinn hafi legið greinargerð starfsmanna 19. október 2018 þar sem meðal annars komi fram að eftir að drengurinn hafi verið vistaður í styrktu fóstri hafi orðið miklar framfarir hjá honum. Þá kom fram að fósturforeldrar drengsins hafi talið umgengni hans við [...]foreldra hafa slæm áhrif á hegðun hans, bæði á fósturheimilinu og í skólanum, og erfitt væri að fylgja eftir markmiðum styrkts fósturs í allt að tvær vikur í kjölfar umgengni. Í greinargerðinni komi fram það mat starfsmanna að drengurinn væri í þörf fyrir stöðugleika og þyrfti á öryggi að halda, auk þess sem hafa yrði í huga að markmið styrkts fóstur væri að bæta líðan drengsins og hegðun, bæði náms- og félagslega en það væri það mikilvægasta fyrir drenginn. Að mati starfsmanna yrði að fara mjög varlega varðandi umgengni.

Drengnum hafi verið skipaður talsmaður vegna fyrirtöku málsins á fundi barnaverndarnefndar. Í skýrslu talsmanns X komi fram að drengurinn hafi tekið miklum framförum á þeim tíma sem talsmaður hafi hitt drenginn. Í skýrslu talsmanns komi fram að drengurinn hefði verið fámáll um hagi sína áður en hann var vistaður á fósturheimili og upptekinn af því sem var að gerast í hans daglega lífi. Þá hafi drengurinn verið stuttorður varðandi afstöðu sína um umgengni við [...]foreldra. Hafi hann tekið afar vel í að hitta þau, sagði það gaman og það væri allt í lagi að hitta þau tvisvar á ári á heimili þeirra.

Vísað er til þess að í hinum kærða úrskurði taki Barnaverndarnefnd B undir framangreint mat starfsmanna. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga í málinu hafi nefndin talið að drengurinn væri í þörf fyrir stöðugleika og öryggi og að horfa yrði til markmiða með styrktu fóstri drengsins. Þá hafi barnaverndarnefndin verið sammála því mati starfsmanna að fara yrði mjög varlega varðandi umgengni og að rífleg umgengni við [...]foreldra gæti orðið til að raska þeim stöðugleika sem skapast hefði í lífi drengsins í styrktu fóstri. Nefndin hafi bent á að mikið hefði gengið á í lífi drengsins undanfarin ár og ljóst væri að mikill óstöðugleiki hefði verið í kringum hann til langs tíma. Drengurinn hefði upplifað ítrekaðar vistanir utan heimilis, auk þess sem til fósturrofs hefði komið hjá fyrrum fósturforeldrum hans. Í bókuninni segi jafnframt að drengurinn hafi náð góðum árangri í styrktu fóstri og líðan hans virtist mun betri en hún hefði áður verið. Nefndin hafi talið að lítið mætti út af bera til að ógna góðri líðan drengsins. Það hafi jafnframt verið mat nefndarinnar að mikilvægt væri að viðhalda þeim stöðugleika sem fósturforeldrar drengsins hefðu náð að skapa í kringum hann í styrktu fóstri og taldi nefndin að einungis væri hægt að gera það með því að takmarka umgengni drengsins við [...]foreldra í samræmi við tillögur starfsmanna Barnaverndar B.

Markmiðið með styrktu fóstri drengsins sé meðal annars að tryggja að hann öðlist þá lífsleikni og færniþjálfun sem hann þurfi til þess að geta aðlagast á fósturheimili og í samfélaginu. Þá eigi að stuðla að því að drengurinn fái þann stuðning sem hann þurfi til þess að geta aðlagast og aukið lífs- og félagsfærni sína. Hafi miklar framfarir orðið hjá drengnum frá því að hann fór í styrkt fóstur en hann fái mikið utanumhald á fósturheimilinu og í skóla. Fagaðilum, skóla og fósturforeldrum beri saman um að drengurinn hafi tekið miklum framförum á tímabili styrkts fósturs. Það sé mat Barnaverndar B að mikilvægt sé að viðhalda þeim árangri sem náðst hafi. Á meðan drengurinn sé vistaður á fósturheimili séu hagsmunir hans þeir að hann fái að byggja upp sambönd og traust á fósturheimilinu og upplifa stöðugleika og festu í lífi sínu. Barnavernd B telji að hagsmunir drengsins séu best tryggðir með þeirri ákvörðun sem tekin hafi verið með hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefndin telji að við úrlausn málsins hafi verið tekið tillit til vilja drengsins að því marki sem unnt sé til að hagsmunir hans verði tryggðir á þann hátt sem mælt sé fyrir um í lögum. Að mati nefndarinnar sé niðurstaðan í fullu samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 12/2013, og það sem sé drengnum fyrir bestu. Þá álíti nefndin einnig að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og barnaverndarréttar hafi verið gætt við ákvarðanatöku nefndarinnar, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í ljósi alls framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi er fyrir hönd Barnaverndar B gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

IV. Afstaða C

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins frá X 2018 en talsmaður hitti drenginn á fósturheimili. Talsmanni var falið að kanna vilja drengsins til umgengni við kærendur og hvort hann vildi hitta þau í umgengni. Einnig að fá fram afstöðu hans til að hitta [...]foreldra tvisvar á ári.

Í skýrslunni kemur fram að drengurinn vilji hitta [...]foreldra sína. Aðspurður um hvernig það væri að vera með þeim hafi drengurinn sagt það gaman. Þegar hann hafi verið spurður að því hvort hann vildi hitta þau aftur hafi hann tekið afar vel í það. Talsmaður hafi spurt drenginn að því hvernig honum fyndist að hitta þau bara tvisvar á ári og þá heima hjá þeim. Drengurinn hafi sagt að honum fyndist það í lagi eins og ekkert væri eðlilegra.

 

V.  Afstaða fósturforeldra

Í bréfi fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar X kemur fram að þegar drengurinn hafi hitt [...]foreldra í umgengni við foreldra á síðasta ári hafi hegðun hans verið mjög slæm. Hann hafi hitt foreldra sína fyrir og eftir þann tíma og hafi hegðun hans ekki breyst með sama hætti og þá.

Drengurinn hafi farið í umgengni við foreldra undir eftirliti X. Í umgengninni hafi hann heyrt í [...]foreldrum í síma að hans sögn. [...]foreldrar beri því við samkvæmt greinargerð lögmanns þeirra að þau hafi ekki verið meðvituð um að þau hafi ekki mátt hitta drenginn í umgengni við foreldra á síðasta ári. Það sé tæplega hægt að álykta annað en að það væri þá ljóst núna að samskipti væru heldur ekki í boði í þessari umgengni. Samkvæmt því sem drengurinn segi hafi amma hans hvatt hann til að vera óþægur í skólanum og á fósturheimili til að fósturforeldrar gæfust upp á honum og sendu hann frá sér. Hafi þau talið honum trú um að á endanum myndi hann aftur fara til foreldra sinna. Þetta sé í samræmi við það sem hann hafi sagt eftir að hann hafi hitt [...]foreldra í umgengni við foreldra á síðasta ári.

Varðandi rétt barns til umgengni við [...]foreldra samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl., sem lögmaður kærenda vísi til í greinargerð sinni, sé rétt að benda á að það sé réttur barns að njóta umgengni við nákomna en ekki sé tiltekið sérstaklega um rétt til umgengni við [...]foreldra. Í 2. mgr. 74. gr. bvl. sé talað um umgengni við nákomna sé það barninu til hagsbóta, sbr. einnig athugasemdir við þá grein í frumvarpi til bvl. Þar komi einnig fram að það sé barnaverndaryfirvalda að meta hver sé nákominn í skilningi laganna.

Að mati fósturforeldra sé ljóst að samskipti eins og lýst sé hér að framan séu drengnum alls ekki til hagsbóta þar sem það liggi fyrir að hann muni verða í umsjá barnaverndaryfirvalda til 18 ára aldurs. Þessi skilaboð sem drengurinn fái frá [...]foreldrum séu til þess gerð að valda honum kvíða og óöryggi og vinna gegn hagsmunum hans og möguleikum til að ná sem fyrst stjórn á erfiðri hegðun.

Það sé ekki regla að barn í fóstri sýni erfiða hegðun eftir umgengni við foreldra eða aðra nákomna. Ef ekki sé samvinna um að vinna að hagsmunum drengsins, og foreldrar eða aðrir nákomnir vinni á móti markmiðum fósturs, sé ekki við öðru að búast en að drengurinn verði óöruggur um sína stöðu. Þar sem samvinna sé um að vinna að hagsmunum barns á milli allra aðila séu ekki líkur á að hegðun versni til muna hjá barni eftir umgengni, sérstaklega þegar það viti hver staða þess sé og ekki sé verið að veita því upplýsingar um að hún breytist við erfiða hegðun.

Með vísan til framangreinds sé það afstaða fósturforeldra að umgengni við [...]foreldra þurfi að vera í lágmarki og ætíð undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar B.

 

VI.  Niðurstaða

Málið varðar kröfu kæranda um umgengni við [...]son sinn, C, en hann er X ára gamall. Foreldrar drengsins voru sviptir forsjá hans með dómi Héraðsdóms B X sem staðfestur var í Landsrétti X. Drengurinn hefur verið í styrktu fóstri hjá fósturforeldrum sínum frá X.

Með hinum kærða úrskurði 21. nóvember 2018 var ákveðið að drengurinn hefði umgengni við báða [...]foreldra tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti á heimili þeirra. [...]foreldrum væri ekki heimilt að bjóða foreldrum drengsins í heimsókn á meðan drengurinn væri í umgengni. Í úrskurðinum er byggt á því að markmið með styrktu fóstri væru meðal annars að tryggja að drengurinn fengi þá lífsleikni- og færniþjálfun sem hann þurfi til þess að geta aðlagast á fósturheimili og í samfélaginu. Miklar framfarir hafi orðið hjá honum frá því að hann fór í styrkt fóstur en hann fái mikið utanumhald á fósturheimilinu og í skóla.

Um aðild að kærumáli vegna umgengnisréttar samkvæmt 74. gr. bvl. gilda ákvæði 8. mgr. þeirrar lagagreinar, sbr. 41. gr. laga nr. 80/2011 og 13. gr. laga nr. 85/2015, en þar segir að þeir sem umgengni eigi að rækja geti skotið úrskurði samkvæmt þessari grein til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi á því aðild að kærumálinu.

Í máli þessu liggur fyrir að báðir [...]foreldrar voru aðilar að málinu fyrir lægra stjórnsýslustigi, þ.e. Barnaverndarnefnd B. Var þeim úrskurðuð umgengni tvisvar sinnum á ári á sameigninlegu heimili þeirra. Aðeins [amma] kærði úrskurð barnaverndarnefndar. Hér verður því að gæta sérstaklega að því hvort skilyrðum kæruaðildar kæranda einnar sé fullnægt. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til að fá henni breytt eða fellda úr gildi nema annað leiði af lögum eða venju. Í 8. mgr. 74. gr. bvl. kemur fram að þeir sem umgengni eigi að rækja geti skotið úrskurði samkvæmt 74. gr. til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í hvorugu þessara lagaákvæða er gert skylt, þegar aðilar eru fleiri en einn, að allir eða báðir  séu aðilar að kærumáli. Við úrlausn á því hvort kærandi geti ein átt aðild að kærumálinu verður að líta til þess sem fyrir liggur í málinu og hvernig kærandi hefur lagt það fyrir úrskurðarnefndina. Kærandi krefst þess fyrir úrskurðarnefndinni að umgengni við drenginn fari fram á heimili [...]foreldranna eins og hún lýsir nánar í kröfugerð sinni, þrátt fyrir að [...]afi drengsins uni hinum kærða úrskurði. Kærandi byggir jafnframt á því að réttur barnsins til að umgangast og eiga samveru við báða [...]foreldra sína sé ótvíræður og til þess fallinn að efla og viðhalda þeim sterku tengslum sem drengurinn hafi við þau. Kærandi hefur heldur ekki hagað málatilbúnaði sínum fyrir úrskurðarnefndinni á þann hátt að hún telji sig eiga sjálfstæðan rétt til umgengni við drenginn þrátt fyrir að hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndarinnar kveði á um sameiginlegan umgengisrétt [...]foreldranna. Kröfugerð kæranda og málatilbúnaður hennar samræmist þar með ekki því að hún standi ein að kærumálinu. Úrskurðarnefndin telur að þessu gættu að aðild kæranda einnar að kærumálinu leiði til óvissu um réttarstöðu [...]foreldranna hvað varðar hinn umdeilda umgengnisrétt og umfang hans sem kveðið var á um í hinum kærða úrskurði. Af þessu leiðir að vísa ber málinu frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

 

Úrskurðarorð

 

Kæru A á úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 21. nóvember 2018 varðandi umgengni A og E við [...]son þeirra, C, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

F.h. úrskurðarnefnefndar velferðarmála

Lára Sverrisdóttir

Hrafndís Tekla Pétursdóttir                                                      Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira