Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 02010138


I. Hinn kærði úrskurður og málsatvik



1. Fyrirhuguð framkvæmd



Í matsskýrslu er kynnt lagning nýs vegar um Kolgrafafjörð milli Berserkseyrar og Vindáss í Eyrarsveit. Framkvæmdaraðili er Vegagerðin. Lagðir eru fram 3 kostir á legu vegarins. Leið 1, valkostur Vegagerðarinnar, felst í byggingu nýs 7,3 km langs vegar frá Berserkseyri að Vindási yfir Kolgrafafjörð milli Kolgrafaodda og Hjarðarbólsodda ásamt 230 m langri brú. Leið 2 er 12 km löng og fylgir núverandi vegi um Kolgrafafjörð að stærstum hluta inn Kolgrafafjörð en innst í Kolgrafafirði er vegurinn fluttur út í sjó með byggingu brúar og fyllingu. Leið 3 er 13,5 km löng og fylgir veglínu núverandi vegar og felst sá kostur í uppbyggingu hans. Efnisþörf er áætluð 613.000 m3 vegna leiðar 1, 350.000 m3 vegna leiðar 2 og 260.000 m3 vegna leiðar 3. Hönnunarhraði vegar er 90 km/klst og reiknað burðarþol 11,5 tonna ásþungi. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist árið 2002 og verði lokið árið 2004.




2. Hinn kærði úrskurður



Skipulagsstofnun kvað þann 16. janúar 2002, upp úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar var að fallist væri á fyrirhugaða lagningu Snæfellsvegar um Kolgrafafjörð í Eyrarsveit og Helgafellssveit samkvæmt leiðum 1, 2 og 3 eins og þeim er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila með því skilyrði að tryggt verði að því sem næst óbreytt vatnsskipti verði í Kolgrafafirði að loknum framkvæmdum.




3. Kröfur kærenda



Ráðuneytinu bárust þrjár kærur vegna framangreinds úrskurðar Skipulagsstofnunar. Kæra dags. 16. febrúar 2002 frá Jóhanni H. Níelssyni hrl. f.h. Hreins Bjarnasonar og kærur frá Gunnari Njálssyni dags. 17. febrúar 2002 og Reyni Bergsveinssyni dags. 16. febrúar 2002.



Í kæru Jóhanns H. Níelssonar hrl. f.h. Hreins Bjarnasonar eru gerðar eftirfarandi kröfur:





Í fyrsta lagi að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði metin ógild.



Í öðru lagi er þess krafist að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fyrir að nýju á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum. Þess er krafist að mat á umhverfisáhrifum fari fram að nýju á hinni fyrirhuguðu lagningu vegarins og þeim áhrifum sem vegarlagningin mun hafa á náttúru og dýralíf á svæðinu og þá verði höfð í huga þau áhrif sem vegkanturinn og þó sérstaklega grjótvarðar vegfyllingar sem verður komið fyrir utan á vegkantinum, hafa á umhverfið sem nýtt visthverfi fyrir mink. Þá er þess krafist að könnuð verði áhrif sem hugsanleg aukin minkagengd hefur á dýralíf í Kolgrafafirði og æðarvarp á jörðunum Berserkseyri, Kolgröfum og e.t.v. fleiri jarða.



Í þriðja lagi er þess krafist að kæran fresti réttaráhrifum áðurnefndrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar og þeim framkvæmdum við lagningu vegarins sem fyrirhugaðar eru.



Í kæru Gunnars Njálssonar er kærð sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að leyfa efnistöku úr Mjósundsnámu í Berserkjahrauni.



Reynir Bergsveinsson krefst þess í kæru sinni að umhverfisráðherra felli úr gildi þann hluta úrskurðar Skipulagsstofnunar sem gerir ráð fyrir vegi og brú yfir Kolgrafafjörð milli Kolgrafaodda og Hjarðarbólsodda, í matsskýrslu kallað leið 1.



Í II. kafla er gerð nánar grein fyrir einstökum kæruatriðum og málsástæðum.




4. Umsagnaraðilar



Með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum voru framangreindar kærur sendar þann 26. febrúar 2002 til umsagnar Skipulagsstofnunar, Náttúruverndar ríkisins, Vegagerðarinnar, Eyrarsveitar og Helgafellssveitar og þann 27. febrúar til Breiðafjarðarnefndar. Frestur til að veita umsagnir var til 11. mars 2002. Umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun þann 3. maí 2002, Náttúruvernd ríkisins þann 21. mars 2002, Vegagerðinni þann 11. mars 2002, bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar þann 8. mars 2002, hreppsnefnd Helgafellssveitar þann 7. mars 2002 og Breiðafjarðarnefnd þann 6. mars 2002. Að auki barst bréf frá Héraðsnefnd Snæfellinga þann 14. mars 2002.



Framangreindar umsagnir voru sendar til kærenda til athugasemda með bréfi ráðuneytisins þann 7. maí 2002. Athugasemdir bárust frá Jóhanni H. Níelssyni hrl. f.h. Hreins Bjarnasonar þann 13. maí 2002, frá Gunnari Njálssyni þann 14. maí 2002 og frá Reyni Bergsveinssyni þann 7. júní 2002.





II. Einstök kæruefni og umsagnir um þau



1. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar



Gunnar Njálsson telur í kæru sinni að forstjóri Skipulagsstofnunar, Stefán Thors, hafi verið vanhæfur til að fjalla um mál þetta, þar sem hann sé náfrændi Jóns Thors, eiganda þess lands þar sem Mjósundsnáma í Berserkjahrauni er.



Skipulagsstofnun telur í umsögn sinni ekki unnt að taka afstöðu til þessa kæruatriðis þar sem engin rök séu færð fyrir því hvers vegna meint vanhæfi eigi að vera fyrir hendi.




2. Umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar



2.1. Áhrif á menn og samfélag



2.1.1. Landnotkun



Reynir Bergsveinsson gagnrýnir að í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi ekkert komið fram varðandi þangnytjar, siglingar flutningaskips og þangöflun. Telur kærandi að Skipulagsstofnun hefði átt að kanna þetta atriði. Telur kærandi að lokun Kolgrafafjarðar hafi áhrif á vöxt þangs og þara þó að þar verði 230 m löng brú. Auk þess telur kærandi að lokun fjarðarins muni koma í veg fyrir nýtingu þangmiða sem eru innan við veginn, þar sem ekki verði hægt að sigla undir brúnna.



Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að engin athugasemd hafi borist frá þörungaverksmiðjunni á Reykhólum né heldur frá viðkomandi sveitarstjórn varðandi þetta efni. Því hafi stofnunin kveðið upp úrskurð sinn á grundvelli fyrirliggjandi gagna.



Náttúruvernd ríkisins bendir á í umsögn sinni að í tillögu að matsáætlun sem send var Skipulagsstofnun hafi ekki verið gert ráð fyrir að könnuð væru áhrif vegalagningar yfir Kolgrafafjörð á þangnýtingu í firðinum. Bendir stofnunin á að samkvæmt reglugerð um mat á umhverfisáhrifum sé almenningi heimilt að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna og við matsskýrslu en svo virðist sem engar ábendingar hafi komið fram um þetta atriði. Náttúruvernd ríkisins tekur þó undir með kæranda að í matsskýrslu hefði verið æskilegt að fjalla um áhrif á þangnýtingu í Kolgrafafirði, enda verði að teljast mikilvægt að fjallað sé um hagsmuni allra aðila.



Í umsögn Vegagerðarinnar segir: ?Á meðan á vinnu við matsáætlun, rannsóknum vegna mats á umhverfisáhrifum, gerð matsskýrslu og kynningu Skipulagsstofnunar á framkvæmdinni stóð bárust engar athugasemdir um þangnytjar á svæðinu. Mjög óheppilegt er að þessar athugasemdir hafi ekki borist fyrr til að hægt hefði verið að fjalla um þær í matsskýrslu.


Samkvæmt niðurstöðu Líffræðistofnunar háskólans (bls. 79-80 í matsskýrslu) mun framkvæmdin ekki hafa áhrif á fjörur í Kolgrafafirði nema á vegstæðinu sjálfu og í Hópi en þar mun fjörulíf ekki vera með sérstökum hætti. Framkvæmdin mun því ekki hafa áhrif á vöxt þangs og þara í firðinum. Vegagerðin hefur kannað hæð dráttarbáts og þangöflunarpramma og kom í ljós að þeir munu komast undir brúna á fjöru."



Reynir Bergsveinsson bendir í athugasemdum sínum á að það verði til mikils óhagræðis fyrir þangöflunarmenn að þurfa að bíða eftir fjöru til að komast að þangmiðum Kolgrafafjarðar innan brúar. Einnig bendir hann á að þess sé ekki getið í umsögn Vegagerðarinnar við hvaða sjávarhæð hafi verið miðað við framangreinda mælingu og upplýsingar vanti um hæð brúar og þangöflunarpramma.




2.1.2. Samgöngur og umferðaröryggi



a. Veðurfar


Reynir Bergsveinsson telur í kæru sinni að ein megin orsök þess að æskilegast sé að velja leið 1 sé veðurfarið. Þar sem leiðin sé mjög dýr hefði Skipulagsstofnun átt að leggja til frekari athugun á veðurfari á svæðinu. Bendir kærandi á að veðurathugun hafi aðeins staðið í 177 daga. Samkvæmt matsskýrslu hafi tvö umferðaróhöpp af völdum óveðurs orðið á mælingartíma en í báðum tilvikum hafi einungis legið fyrir upplýsingar um vindstyrk í fjarðarbotni en ekki á Hjarðarbólsodda. Engan veginn sé fram komið að leið 1 sé hættulaus.



Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að ekki einungis veðurfar ráði því að framkvæmdaraðili hafi viljað að leið 1 væri farin. Í hinum kærða úrskurði komi vissulega fram að leið 1 verði best varðandi snjóalög og vindstrengi en einnig komi þar fram að leiðin sé styst og að slysahætta verði þess vegna minni.



Um þetta atriði segir í umsögn Náttúruverndar ríkisins: ?Í matsskýrslu eru bornar saman þrjár hugsanlegar veglínur um Kolgrafarfjörð en veglína 1 er talin ákjósanlegasti kosturinn, einkum með tilliti til veðurfars. Fram kemur að tvær veðurathugunarstöðvar hafi verið settar upp í Kolgrafarfirði, önnur við veginn í botni fjarðarins og hin á Hjarðarbólsodda. Mælingar fóru fram í 177 daga á tímabilinu september 1999 til maí 2000. Sérstök áhersla var lögð á að kanna sviptivindi sem oft valda vandræðum í botni fjarðarins. Eins og bent er á í rökstuðningi með kæru segir í matsskýrslu frá tveimur umferðaróhöppum sem áttu sér stað í Kolgrafarfirði veturinn sem mælingar fóru fram. Fram kemur að í bæði skiptin hafi mælingar aðeins farið fram í fjarðarbotninum en ekki á Hjarðarbólsodda. Ekki kemur fram hvers vegna aðeins var mælt á öðrum staðnum. Ætla má þegar veðurfar spilar stórt hlutverk við val á veglínu hljóti þær kröfur að vera gerðar að veðurfarsgögn séu sambærileg fyrir alla valmöguleika. Svo virðist ekki vera í þessu tilviki, a.m.k. ekki umrædda daga þegar umferðaróhöppin tvö áttu sér stað. Í ljósi þessa telur Náttúruvernd ríkisins að eðlilegt hefði verið að kalla eftir skýringum á þessum þætti rannsóknanna."



Vegagerðin segir í umsögn sinni að margar aðrar ástæður en veðurfar liggi að baki ákvörðunar Vegagerðarinnar um að velja leið 1. Aðalástæðan sé stytting vegalengda og þar með betri og öruggari samgöngur sem hafa muni jákvæð áhrif á samfélagið.



Í umsögn sinni vísar Vegagerðin til bls. 1 í skýrslu Haraldar Ólafssonar veðurfræðings sem gerði athuganir á veðurfari á svæðinu. Þar segir: ?Það sem hér fer á eftir byggir í fyrsta lagi á veðurathugunum frá tveimur sjálfvirkum veðurstöðvum í botni Kolgrafafjarðar og á tanga utarlega í firðinum. Stuðst er við athuganir Veðurstofu á nálægum veðurstöðvum og auk þess átti höfundur viðtöl við Ragnar Haraldsson, bifreiðarstjóra í Grundarfirði og Arnór Kristjánsson bónda og landpóst á Eiði í Kolgrafafirði sem kunnu vel að segja frá veðurfari og snjóalögum.


Sjálfvirka veðurstöðin í botni fjarðarins er staðsett í reit sem afmarkast af þjóðveginum í suðri og austri, firðinum í norðri og Slýá í vestri. Stöðin var staðsett m.a. með það fyrir augum að greina óveður af suðri sem vitað er að stundum verða í Kolgrafafirði. Ytri veðurstöðin var sett við fyrirhugað vegarstæði utarlega á Hjarðarbólsodda, en hann gengur út í fjörðinn vestanverðan. Er sú stöð staðsett um 6 km NNV við stöðina í botninum. Á Hjarðarbólsodda er nokkuð opið fyrir ýmsum áttum og gefur stöðin að líkindum eins góða mynd og unnt er að fá af veðri þar sem hugsanlegur vegur gæti legið yfir fjörðinn.


Sökum erfiðleika við fjarskipti sem tengjast m.a. skemmdum á endurvarpstækjum á Breiðafirði í óveðri haustið 1999 vantar nokkuð upp á að gagnasöfnun hafi verið samfelld. Fyrir liggja gögn frá báðum veðurstöðvunum eftirtalin tímabil: 26.09.99-29.10.99, 31.12.99-29.02.00 og 10.03.00-31.05.00 og byggir túlkun mælinganna fyrst og fremst á þeim tímabilum. Gögn voru heimt með síma, nema framan af, en þá voru gögn frá stöðinni í fjarðarbotninum vistuð í safnara og síðan sótt. Dálítið var um 10-20 mínútna göt í mælingum frá ytri stöðinni og var fyllt í þau með hefðbundnum aðferðum. Koma þau lítt að sök vegna þess hversu stutt þau vara. Skráning á meðalvindi, mestu vindhviðu, raka, hita og loftþrýstingi var gerð á 10 mínútna fresti á báðum stöðvunum. Augljósar villur í gögnum voru hverfandi fáar."



Vegagerðin telur í umsögn sinni að með því að koma fyrir vegriðum á vegfyllingu og brú verði lítil hætta á að bílar fjúki út af veginum.



Bæjarstjórn Grundafjarðarbæjar telur í umsögn sinni að leið 1 sé tvímælalaust besti vegkosturinn. Mikilvægir hagsmunir séu tengdir umræddum framkvæmdum fyrir byggð á svæðinu og öryggi vegfarenda. Langtímaáhrif vegagerðarinnar verði þau að allt norðanvert Snæfellsnes verði eitt atvinnu- og skólasvæði. Telur bæjarstjórnin vegstæðið öruggara fyrir vegfarendur vegna jafnari og betri hæðarlegu og minni sviptivinda. Jafnframt muni framkvæmdin hafa jákvæð áhrif á fyrirhugaða hitaveitu frá Berserkseyrarodda til Grundarfjarðar. Bæjarstjórnin telur kæranda ekki hafa sýnt fram á að ónógar rannsóknir hafi átt sér stað og álítur að sumt sem kærandi tilgreini sé byggt á misskilningi. Vegagerðin hafi með sínum rannsóknum sýnt fram á að leið 1 sé öruggasti kosturinn með tilliti til veðurfars.



b. Vegur að Kolgröfum


Reynir Bergsveinsson telur í kæru sinni að Skipulagsstofnun hafi skort gögn til að fallast á nýjan veg heim að Kolgröfum. Kærandi bendir á að vegurinn muni liggja um varpland og auk þess sé þarna heppilegt túnstæði fyrir Berserkseyri sem komið geti í stað túna sem spillast með vegagerðinni.



Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að framkvæmdin hafi í för með sér breytingu á heimreiðinni að Kolgröfum, sem lengist með tilkomu nýs vegar. Stofnunin hafi talið í úrskurði sínum að engin þeirra veglína sem um var fjallað í mati á umhverfisáhrifum hefði veruleg neikvæð áhrif á menn eða samfélag. Rask á landbúnaðarlandi verði mest af leið 1 en þó ekki verulegt.



Í umsögn Náttúruverndar ríkisins segir: ?Í matsskýrslu kemur fram að ný heimreið verði lögð að Kolgröfum og í teiknihefti með matsskýrslu er hún sýnd á myndum. Nýja leiðin liggur frá stöð 3000 á veglínu 1, suður yfir framræst votlendi og mógrafir í landi Berserkseyrar, og sameinast núverandi þjóðvegi um miðja vegu milli stöðva 3000 og 4000. Svo virðist sem ekki sé fjallað sérstaklega um þennan nýja veg í matsskýrslu né gerð grein fyrir hugsanlegum umhverfisáhrifum af hans völdum. Þrátt fyrir það telur Náttúruvernd ríkisins að Skipulagsstofnun hafi ekki skort gögn til að fallast á umrædda heimreið, sbr. fylgigögn með matsskýrslu. Stofnunin tekur þó undir þá afstöðu kæranda þess efnis að eðlilegast hefði verið að nota núverandi þjóðveg sem heimreið að Kolgröfum. Þannig má hlífa umræddu beitilandi og koma í veg fyrir óþarfa röskun á landslagi."



Vegagerðin segir í umsögn sinni að allar heimreiðar og tengivegir séu sýnd sem lína á teikningum 6-9. Þar sem þær séu ekki fullhannaðar hafi verið tekin ákvörðun um að sýna þær á þennan hátt. Heimreiðar séu mun mjórri en þjóðvegir, fylgi betur landi og liggi yfirleitt ekki eins hátt yfir aðliggjandi landi. Áhrif af lagningu þeirra nái því ekki yfir breitt svæði. Samkvæmt teikningu 12 muni heimreiðin að Kolgröfum ekki liggja yfir þéttasta æðarvarpið. Vegagerðin tekur fram að við vinnu á mati á umhverfisáhrifum hafi verið haft samráð við landeigendur um staðsetningu heimreiða.




2.2. Gerð korta af sjó og landi



Reynir Bergsveinsson telur í kæru sinni að Skipulagsstofnun hefði átt að krefjast þess að á gögnum sem sýna sjávardýpi væru sömu forsendur og venjulegt er að nota við sjómælingar.



Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að stofnunin telur þetta atriði ekki þarfnast umsagnar.



Í umsögn Vegagerðarinnar segir: ?Það er rétt sem fram kemur hjá kæranda að á sjókortum er hæðin 0 u.þ.b. hæðin á meðalstórstraumsfjöru. Ástæðan fyrir þessu er sú að sjófarendur þurfa að fá upplýsingar um dýpi miðað við fjöru til að geta siglt með fullu öryggi óháð sjávarföllum. Öll kort af landi sem útgefin eru af Landmælingum Íslands eru hins vegar með hæðina 0 í meðalsjávarhæð. Fyrir þessu er löng hefð enda meðalsjávarhæð jöfn hringinn í kringum landið en hæðin á meðalstórstraumsfjöru háð muni á flóði og fjöru sem er um 4 m í Reykjavík en innan við 2 m á Austurlandi. Vegagerðin hefur ávallt notað sama hæðarkerfi á landi og í sjó enda væri annað mjög önugt. Vegagerðin hefur aldrei vitað til þess að þetta orsakaði misskilning enda virðist kærandi hafa skilið þetta rétt. Á mynd 23 sést sjávarfallið mjög vel og á teikningu 15 sést einnig mjög vel afstaða brúarinnar miðað við hæð á sjó. Það má síðan að lokum geta þess að dýptarmælingar Vegagerðarinnar af innanverðum Kolgrafafirði hafa, að beiðni Sjómælinga Íslands, verið sendar til Sjómælinga Íslands enda er hér um að ræða nákvæmustu dýptarmælingu sem gerð hefur verið af firðinum. Ef Sjómælingar Íslands birta sjókort af Kolgrafafirði þá munu þeir að sjálfsögðu gefa þar upp dýpi miðað við meðalstórstraumsfjöru."




2.3. Áhrif á gróður og dýralíf



Í kæru Jóhanns H. Níelssonar hrl. f.h. Hreins Bjarnasonar er vakin sérstök athygli á því að hvorki í matsskýrslu né í úrskurði Skipulagsstofnunar sé vikið að því hvort vegalagningin hafi áhrif á búsetuskilyrði minks og ef svo væri hvaða mótvægisaðgerðir kæmu helst til greina til þess að koma í veg fyrir slys vegna röskunar á lífríki svæðisins sem greinilega sé álitin náttúruperla á alþjóðlegan mælikvarða. Að mati kæranda eru grjótvarðir garðar af þeirri gerð sem áformað er að koma fyrir í Kolgrafafirði ákjósanleg heimkynni fyrir mink og nær ómögulegt að vinna minkinn við þær aðstæður. Þessu til stuðnings vísar kærandi til álits Reynis Bergsveinssonar sem hafi áratuga reynslu við minkaveiðar og athuganir á atferli dýra. Telur kærandi að áhrif minks á lífríki kunni að verða umtalsverð og því sé nauðsynlegt að gera athuganir á eftirtöldum atriðum:


a. Hvernig ástandið er fyrir framkvæmdina.


b. Áætlun um það hvernig ástandið yrði eftir framkvæmdirnar.


c. Mat á því hvaða áhrif breytt ástand kynni að hafa á lífríkið og náttúrufar almennt.



Þar sem framangreindra atriða hafi ekki verið gætt uppfylli matskýrsla framkvæmdaraðila ekki skilyrði laga og telur kærandi að ógilda eigi úrskurð Skipulagsstofnunar og fresta framkvæmdum þar til niðurstaða er fengin um þau vafaatriði sem bent hefur verið á. Að mati kæranda er ljóst að ef aukin búsetuskilyrði fyrir mink í grjótvörðum vegfyllingum í og við Kolgrafafjörð verða til þess að veruleg spjöll verða á umhverfinu, þá verða slík spjöll óafturkræf í skilningi l-liðar 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.



Í kæru Reynis Bergsveinssonar kemur einnig fram sambærileg gagnrýni á matsskýrslu framkvæmdaraðila og úrskurð Skipulagsstofnunar um áhrif af völdum minks. Bendir hann á að Vegagerðin standi fyrir vöktun á lífríki Gilsfjarðar síðan þar var gerður garður og brú yfir fjörðinn. Telur kærandi að leggja hefði átt fram upplýsingar úr þeirri vöktun.



Skipulagsstofnun telur í umsögn sinni að stofnunin hafi við meðferð hins kærða úrskurðar, farið að ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar nr. 671/2000 um sama efni. Í umsögninni segir: ?Stofnunin bendir á að við undirbúning hins kærða úrskurðar var m.a. leitað umsagnar Náttúruverndar ríkisins um fyrirhugaða framkvæmd. Í umsögninni kom ekkert fram um hættu á fjölgun minka á framkvæmdarsvæðinu. Á kynningartíma matsskýrslu komu heldur engar athugasemdir fram sem lutu að áhrifum framkvæmda á mink, hvorki frá kæranda né öðrum. Þannig kom mat á hugsanlegri minkafjölgun ekki til álita við undirbúning hins kærða úrskurðar. Varðandi þetta atriði vill stofnunin jafnframt benda á að kærandi hafði tækifæri til að koma að athugasemdum sínum við matsáætlun framkvæmdaraðila annars vegar meðan hún var enn í vinnslu hjá framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr. 14. gr. rg. 671/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og hins vegar á meðan Skipulagsstofnun hafði matsáætlunina til athugunar, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu rg. Hefði kærandi gert það hefði framkvæmdaraðila borið að taka afstöðu til hinnar framkomnu athugasemdar í matsskýrslu sinni, skv. 4. tl. 2. mgr. 18. gr. rg. Þar sem engar slíkar athugasemdir lágu fyrir við vinnu vegna matsskýrslunnar taldi Skipulagsstofnun skýrsluna fullnægjandi þegar hún barst stofnuninni til meðferðar skv. 10. og 11. gr. laga 106/2000, sbr. VII. kafla rg. 671/2000."



Í umsögn Náttúruverndar ríkisins um þetta atriði segir: ?...telur stofnunin að í ljósi reynslunnar séu ákveðnar líkur á að minkur setjist að í grjótvarnargarði meðfram nýjum vegi yfir Kolgrafarfjörð og af þeim sökum aukist líkur á að æðarvarp í landi Berserkseyrar og Kolgrafar verði fyrir tjóni. Náttúruvernd ríkisins telur þó ekki að veglagning Snæfellsvegar um Kolgrafarfjörð þurfi að ganga undir nýtt mat á umhverfisáhrifum því að mati stofnunarinnar gefur matsskýrsla fullnægjandi upplýsingar um lífríki m.t.t. þeirra þátta sem matsáætlun framkvæmdarinnar gerir ráð fyrir. Í stað þess að efna til nýs matsferlis leggur stofnunin til að kannaðir verði möguleikar á mótvægisaðgerðum til að takmarka aðgang minks að grjótvarnargarðinum. Í því skyni væri hægt að auka minkaveiðar báðum megin varnargarðs, t.d. með gildrum, og einnig væri hægt að kanna möguleika á að koma fínriðnu neti yfir garðana. Einnig telur stofnunin mikilvægt að fylgst verði með breytingum á æðarvarpi og þéttleika minks á svæðinu í kjölfar framkvæmda."



Í umsögn Náttúruverndar ríkisins kemur fram að stofnunin telur mikilvægt að umhverfisráðuneytið skeri úr um hvort ekki sé eðlilegt að lögð verði fram vöktunaráætlun sem miðar að því að fylgjast með hugsanlegum breytingum á lífríki, s.s. fjölda minka, fuglalífi, vatnsbúskap votlendissvæða og vatnsskiptum í Kolgrafarfirði.



Vegagerðin segir í umsögn sinni: ?Þann 13. febrúar 2001 sendi Vegagerðin drög að matsáætlun til allra landeigenda á svæðinu. Engar athugasemdir bárust frá Hreini Bjarnasyni (fylgiskjal 18 í matsskýrslu) eða öðrum varðandi mink á svæðinu. Í samþykktri matsáætlun fyrir framkvæmdina er rannsóknum vegna dýralífs lýst á bls. 18-19. Þar er ekki minnst á að rannsakað verði hvaða áhrif framkvæmdin gæti haft á mink.


Meðan á gerð matsskýrslu stóð sátu fulltrúar Vegagerðarinnar 3 fundi með landeiganda Berserkseyrar. Þar var rætt um núverandi ásókn bæði refa og minka. Engar sérstakar athugasemdir komu þá frá landeiganda vegna þessa. Þegar matsskýrsla var auglýst hjá Skipulagsstofnun bárust ennfremur engar athugasemdir frá landeiganda.


Vegagerðin fékk Vistfræðistofu Líffræðistofnunar Háskólans til að gera rannsóknir á dýralífi sem raskast gæti vegna framkvæmdarinnar. Talið var að framkvæmdin hefði lítil áhrif á dýr með mikinn hreyfanleika, eins og mink.


Vegagerðin hefur víða um land byggt grjótvarðar vegfyllingar við vötn og veiðiár, yfir firði og í fjörum. Samdóma álit manna er, að því er virðist, að erfitt sé að veiða minka í grjótfyllingum. En almennt er ekki talið að þessar grjótfyllingar hafi áhrif á stofnstærð minks, sem sennilega stjórnast aðallega af fæðuframboði. Vegagerðin hefur ekki fengið kærur í þessu sambandi vegna þessara grjótfyllinga sem byggðar hafa verið um allt land. Samkvæmt upplýsingum frá Grundarfjarðarbæ voru veiddir 33 minkar síðastliðin 6 ár í landi Kolgrafa og Berserkseyrar. Í umsögn Eyþórs Björnssonar bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar, dags. 8. mars 2002, um stjórnsýslukærurnar segir: ?Varðandi áhyggjur kærenda um að minkur setjist að í garðinum þarf að grípa til ráðstafana ef svo reynist. Það er skylda sveitarfélaga að sjá um meindýraeyðingu. Því yrði það á þess hendi að auka veiðiálag m.a. með því að koma fyrir gildrum við enda garðsins."


Meðal annars af þessari ástæðu og því að stofnstærð minks ráðist fyrst og fremst af fæðuframboði, hefur Vegagerðin ekki talið ástæðu til að fara út í frekari rannsóknir á mink í grjótvörðum vegfyllingum."


Í umsögn Vegagerðarinnar segir einnig: ?Við vöktun á lífríki Gilsfjarðar fyrir og eftir þverun fjarðarins hafa ekki verið gerðar rannsóknir á hvaða áhrif grjótvarin vegfyllingin yfir fjörðinn hefur haft á fjölda minka á svæðinu. Vegagerðin er nú fyrst með þessari kæru að fá athugasemdir um að mink hafi fjölgað í nágrenni vegfyllingarinnar. Ekki er hægt að staðfesta með vísindalegum rökum þá staðhæfingu að mink hafi fjölgað verulega í Gilsfirði.


Rétt er að geta þess að upprennsli sjávar vegna öldugangs getur leikið um nánast alla grjótvörn vegfyllingarinnar þó háð flóðhæð og ölduhæð á hverjum tíma. Hæð grjótvarnar hannast miðað við upprennslishæð hönnunaröldu. Því er ekki líklega að alltaf séu 4-5 metrar af brimvörninni upp úr sjó á háflæði. Því eru takmörk fyrir því hversu stórt ættaróðal minka hún getur orðið."



Með umsögn Vegagerðarinnar fylgdi greinargerð Róberts Stefánssonar hjá Náttúrustofu Vesturlands, um framangreint kæruatriði. Í samantekt þeirrar greinargerðar segir: ?Vegfyllingar, sem komið verður upp vegna byggingar vegar yfir Kolgrafafjörð, munu að líkindum ekki bæta búsetuskilyrði minks á svæðinu til muna, enda stjórnast þéttleiki minka sennilega fyrst og fremst af fæðuframboði. Hins vegar mun árangur af minkaveiðum sennilega minnka vegna þess hversu erfitt er að vinna minka í stórgrýttum urðum. Það gæti haft í för með sér aukið tjón af völdum minks í æðarvörpum á svæðinu. Mikilvægt er að nota þessa framkvæmd til að afla upplýsinga um mögulegar breytingar á þéttleika og/eða áhrifum minks á æðarvörp."



Í umsögn bæjarstjórnar Grundafjarðarbæjar er minnt á að það sé skylda sveitarfélaga að sjá um meindýraeyðingu. Því yrði það á þess hendi að auka veiðiálag m.a. með því að koma fyrir gildrum við enda garðsins.



Breiðafjarðarnefnd tekur undir það í umsögn sinni að í ljósi reynslunnar séu einhverjar líkur á tjóni á æðarvarpi og leggur því til að gerðar verði viðeigandi mótvægisaðgerðir til að takmarka aðgang minks að grjótgarðinum og að fylgst verði með breytingum á æðarvarpinu og þéttleika minks á svæðinu.





2.4. Áhrif á landslag og jarðmyndanir



2.4.1. Gögn um röskun á landi



Reynir Bergsveinsson telur í kæru sinni að í matsskýrslu séu rangar stærðartöflur varðandi röskun á landi vegna framkvæmdanna. Telur kærandi að Skipulagsstofnun hefði átt að biðja um leiðréttar tölulegar staðreyndir. Kærandi bendir á að látið sé að því liggja að ekki verði röskun á öðru landi en nákvæmlega því sem fer undir veg. Hið rétta sé að það land sem Vegagerðin eigni sér meðfram veginum sé líklega í allt 60 m breitt. Það svæði verði afgirt og því ekki nytjað á neinn hátt. Því sé röskun er varðar landeigendur og landbúnað þrisvar sinnum meiri en fram komi í matsskýrslu.



Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að á helgunarsvæðum vega sé ekki um röskun að ræða, heldur takmarkanir á heimildum til framkvæmda, sbr. 33. gr. vegalaga. Þar komi fram að byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, megi ekki staðsetja, nema með leyfi Vegagerðarinnar, nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega.



Í umsögn Náttúruverndar ríkisins segir: ?Í kafla 1.4 í matsskýrslu kemur fram að vegstæði Snæfellsvegar telst vera 60 m breitt og það nær 30 m frá miðlínu vegar til hvorrar áttar. Eins og kærandi bendir á er tafla í matsskýrslu sem sýnir flatarmál nokkurra landslagsgerða sem fara undir veg ef veglína 1 um Kolgrafafjörð verður valin. Um er að ræða gróið land (ræktað og óræktað), leirur og fjörur, sjó (með minnst 0,5 m dýpi) og núverandi vegstæði. Töflur 18, 19 og 20 sýna hins vegar flatarmál votlendis sem verður raskað vegna veglagningar, á veglínum 1, 2 og 3. Þar kemur fram flatarmál votlendis sem fer undir veg og flatarmál votlendis á áhrifasvæði vegarins, þ.e. þegar miðað er við 20 m beggja vegna vegar. Í matsskýrslu er ekki fjallað um flatarmál lands sem verður fyrir röskun m.t.t. landbúnaðar. Að mati Náttúruverndar ríkisins hefði þó verið rétt að gera það til að koma til móts við hagsmuni allra aðila sem að málinu koma."



Vegagerðin segir í umsögn sinni: ?Eins og kemur fram í töflu 6 er sundurliðunin byggð á magnreikningum. Við útreikninga á flatarmáli svæðis sem raskað verður vegna framkvæmdarinnar var veghönnunarforrit Vegagerðarinnar látið reikna út flatarmál þess svæðis sem vegur, fyllingar og skeringar ná yfir.


Girðingar meðfram vegum eru að oftast í um 20 m fjarlægð frá miðlínu vega. Vegagerðin nýtir sér yfirleitt ekki þann möguleika sem gefinn er í vegalögum að girða í 30 m fjarlægð frá miðlínu. Það svæði sem afgirt verður beggja megin Kolgrafafjarðar mun verða um 40 m breitt."



2.4.2. Áhrif á Hóp, Kolgrafarodda og Berserkseyrarodda



Reynir Bersveinsson bendir í kæru sinni á að Hópið, Kolgrafaroddi og Berserkseyraroddi myndi eina heild. Sú áhrifamynd sem sett sé fram í matsskýrslu sé í meginatriðum röng, en þar komi fram að Hópið verði því sem næst óspillt eftir framkvæmd. Bendir kærandi á að fyrirhugað sé að grafa skarð í oddann til að tryggja full fallaskipti en það tryggi um leið eyðileggingu hans. Óttast kærandi einnig að þang muni berast í suðlægum áttum inn í Hópið og rotna þar með tilheyrandi ólykt. Einnig bendir kærandi á að á vorin iði allt þetta svæði af lífi. Í Hópið komi æðarfugl í tilhugalífi og varpsvæði fyrir 2-4000 fugla sé þar í nágrenninu. Telur kærandi að með vegarlagningu verði Hópið eyðilagt sem vettvangur æðarfugla, sem ætissvæði rauðbrystinga og sem skjól í vorhretum og stórviðrum fyrir allt að 1000 margæsir. Að mati kæranda hefði Skipulagsstofnun átt að sjá mikilvægi þessa svæðis við skoðun þeirra gagna sem fylgdu umhverfismati og hafna leið 1 sem vegkosti.



Skipulagsstofnun telur í umsögn sinni að um sé að ræða skoðun kæranda og þar sem engin framkomin gögn styðji þær fullyrðingar sem fram komi í kærunni sé stofnuninni ókleyft að veita umsögn um slíkt.



Í umsögn Náttúruverndar ríkisins segir: ?Í matsskýrslu kemur fram að til að takamarka áhrif á leirur í Hópi verði sett ræsi í veginn sem liggur yfir það og gerð rás í rifið á Kolgrafarodda. Með þessum aðgerðum eiga vatnsskipti að vera tryggð í Hópinu. Náttúruvernd ríkisins telur rétt að sett verði fleiri en eitt ræsi í veginn yfir Hóp, helst nokkur, því þannig sé öruggt að vatnsskipti haldist og áhrif framkvæmdarinnar á leirur afmarkaðar af því svæði sem lendir undir vegi. Stofnunin telur að með því að tryggja full vatnsskipti í Hópinu sé líklegt að breytingar á lífríki verði engar eða sáralitlar."



Vegagerðin tekur undir með kæranda að Hópið og Kolgrafaoddi sé afar fallegt svæði. Reynt hafi verið að staðsetja veginn þannig að hann skaði svæðið sem minnst. Ljóst sé að ef brúa eigi Kolgrafafjörð þurfi að byggja veg á milli Hjarðarbólsodda og Kolgrafaodda og þá sé ekki hjá því komist að leggja veg yfir Hópið.


Síðan segir í umsögninni: ?Í matsskýrslu er víða fjallað um leirurnar í Hópi, m.a. á bls. 93 , 101, 104, 106 ? 108 123 og 132. Á bls. 104 segir að útlit Hópsins breytist töluvert. Á bls. 132 kemur fram að viðkvæmasti hluti framkvæmdasvæðisins er í Hópi. Hvergi er sagt að Hópið verði því sem næst óspillt eftir framkvæmd.


Vegagerðin telur æskilegt að grafa skarð í Kolgrafaodda til að tryggja að vatn geti flætt inn og út úr þeim hluta Hópsins sem lendir innan veglínunnar (sbr. bls. 34, 93 og 103). Fyrirhugað er að tryggja vatnsskiptin með því annars vegar að setja ræsi í veginn þar sem hann liggur yfir Hópið og hins vegar að gera 10 m breiðan skurð í rifið á Kolgrafaodda þar sem hann liggur á milli Hópsins og Kolgrafafjarðar. Tryggt verður að vatnsborð Hópsins verði óbreytt."



Vegagerðin telur í umsögn sinni að það sé afar ólíklegt að meira þang berist inn í innanvert Hópið um 10 m breitt skarð í Kolgrafaodda en nú berst inn í innanvert Hópið um 200 m breitt op á milli Kolgrafaodda og Berserkseyrarodda. Vegagerðin telur að aðalatriðið sé að tryggja full vatnsskipti inn í Hópið. Ef það sé gert berist svo mikið af ferskum sjó inn í Hópið á hverju sjávarfalli að skilyrði til rotnunar eigi ekki að vera frábrugðin frá því sem þau eru í dag.



Fram kemur í umsögninni að Hjarðarbólsoddi er meðal sérstæðustu eyra á norðanverðu Snæfellsnesi og telst því sérstæð jarðmyndun fyrir þetta svæði. Hann teljist þó ekki til sérstakra landslagsgerða sem beri að vernda sé þess kostur, sbr. 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Leirurnar í Hópi teljist hins vegar til slíkra landslagsgerða.



Að lokum segir í umsögn Vegagerðarinnar um þetta kæruatriði: ?Ljóst er að Vistfræðistofa Líffræðistofnunar Háskólans notaði vísindalegar aðferðir við rannsóknir sínar á fuglalífi. Á bls. 74 í matsskýrslu er talningum á fuglum í fjörum og á sjó lýst og athugunum á varpfuglum á hugsanlegum veglínum.


Þéttleiki fuglatalninga var mun meiri en Vegagerðin hefur áður látið gera vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda. Oftast er talið nóg að telja fugla í fyrirhugaðri veglínu einu sinni. Vegna sérstöðu svæðisins hvað varðar alþjóðlegt gildi fyrir fuglalíf var lögð mikil áhersla á að kanna fuglalífið í Kolgrafafirði vel. Talningar fóru fram 11 sinnum yfir sumarið frá 20. apríl til 11. september 1999 og tók hver talning 4-5 stundir. Ýmist var talið á háflóði eða háfjöru."



2.4.3. Efnistaka úr Mjósundsnámu



Í kæru Gunnars Njálssonar er kærð sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að leyfa efnistöku úr Mjósundsnámu í Berserkjahrauni. Vísar kærandi til þess að Berserkjahraun sé á náttúruminjaskrá og Mjósundshraun einnig. Jafnframt sé fyrirhugað námasvæði á jaðri þess svæðis sem friðað var með lögum nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar. Kærandi vísar einnig til a-liðar 37. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999, þar sem segir að forðast skuli röskun eldvarpa, gervigíga og eldhrauna eins og kostur er. Að mati kæranda eru í Mjósundshrauni einstæðar jarðmyndanir þar sem hraun hefur runnið út í fjörðinn og þar er einnig svokallaður Arnarklettur, sem kærandi óttast að geti hrunið. Telur hann hættu á gífurlegum umhverfisspjöllum ef opnuð verður náma á þessum stað. Kærandi bendir á að í matsskýrslu sé ekki minnst á hvaða leið verði notuð til að flytja efnið að brúarstæðinu í Kolgrafafirði. Efast hann um að gamla Mjósundsbrúin þoli slíka flutninga, en að hans mati hafi brúin verndargildi sem fyrsta brúin sem byggð var yfir fjörð á Íslandi.



Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að hvorki Breiðafjarðarnefnd né Náttúruvernd ríkisins hafi lagst gegn námum í Berserkjahrauni og Mjósundshrauni í umsögnum um framkvæmdina. Í úrskurði stofnunarinnar á bls. 15 komi fram að framkvæmdaraðili hafi talið sig gera ýtrustu ráðstafanir, þ.e. að vernda jarðfræðimyndanir og -minjar án þess að verja til þess óeðlilega miklu fjármagni. Við þessar skýringar framkvæmdaraðila hafi Breiðafjarðarnefnd ekki gert athugasemdir. Skipulagsstofnun bendir jafnframt á að við umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Snæfellsvegar verður að afla samþykkis Breiðafjarðarnefndar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um vernd Breiðafjarðar.



Síðan segir í umsögn Skipulagsstofnunar: ?Hvað varðar tilvitnun kæranda til ákvæðis laga nr. 44/1999 um náttúruvernd telur stofnunin að það ákvæði leggi ekki skilyrðislaust bann við efnistöku á svæðinu ef sveitarstjórn leiti umsagnar hjá náttúruverndarnefnd og Náttúruvernd ríkisins áður en framkvæmdaleyfi er veitt skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 2. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga. Þá stuðli 48. gr. sömu laga jafnframt að því að tjóni á landlagsmyndum verði haldið í lágmarki auk þess sem fram kemur í hinum kærða úrskurði (bls. 16) að ákvörðun um efnistöku hafi verið tekin í samráði við landeigendur og eftirlitsráðgjafa Náttúruverndar ríkisins á svæðinu. Stofnunin telur því að niðurstaða hins kærða úrskurðar sé í fullu samræmi við ákvæði framangreindra laga."



Skipulagsstofnun tekur í umsögn sinni ekki afstöðu til athugasemda kæranda um Mjósundsbrú þar sem fullyrðingar kæranda þar að lútandi séu ekki studdar neinum gögnum. Hvað varðar athugasemdir kæranda varðandi Arnarklett vísar stofnunin til þess sem áður er fram komið í umsögninni um aðkomu Breiðafjarðarnefndar að málinu.



Í umsögn Náttúruverndar ríkisins um framangreint kæruefni segir: ?1. Í Mjósundshrauni er gömul náma þar sem um 2 m þykkur gjallkargi hefur verið unninn ofan af hrauninu. Í tengslum við vegagerð á leið 1 yfir Kolgrafarfjörð stendur til að vinna í námunni grjót til rofvarnar og að mala grjót í efra burðarlag og klæðningu. Námusvæðið mun að mestu afmarkast af röskuðu og ógrónu svæði þar sem námuvinnsla fór áður fram, en það er um 17.000 m2 að flatarmáli. Áætlað er að vinna um 10 m þykkt lag af hrauninu eða um 2 m niður fyrir vatnsborð sem mældist í borholum. Því mun myndast tjörn á námubotninum. Áætlað flatarmál vinnslusvæðis verður á bilinu 10-12.000 m2. Rétt vestan við námusvæðið er hraunbolli með ísaltri tjörn. Hann er umlukinn grónum hraunkanti. Við efnisvinnslu verður skilinn eftir hraunrimi milli nýju tjarnarinnar og ísöltu tjarnarinnar. Þannig er komið í veg fyrir að hugsanleg mengun frá vinnuvélum berist út í Hraunsfjörð. Einnig mun hraunriminn takmarka áhrif höggbylgna frá sprengingum á lífríki og hugsanlega lekt úr innri hluta Hraunsfjarðar.



Í kæru Gunnars Njálssonar kemur réttilega fram að Berserkjahraun er á Náttúruminjaskrá, sbr. svæði nr. 227 Berserkjahraun, Hraunsfjörður og nálæg vötn, og ennfremur fellur það undir ákvæði 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Þrátt fyrir það fellst Náttúruvernd ríkisins á að efni verði tekið úr námunni við Mjósund, enda er þar um að ræða raskað svæði sem er til lýta í landi. Að mati stofnunarinnar verður með efnistökunni hægt að ganga frá svæðinu og fella það betur að umhverfinu en það gerir nú.



2. Í matsskýrslu segir að svonefndum Arnarsteini verði ekki raskað við námuvinnsluna. Samkvæmt upplýsingum sem Náttúruvernd ríkisins fékk hjá Jarðfræðistofunni Stapa eru líkur á að Arnarsteinn eða brúin yfir Mjósund verði fyrir skemmdum af völdum sprenginga í námunni sáralitlar eða engar. Náttúruvernd ríkisins telur ekki að forsendur séu fyrir því að það sem kemur fram í matsskýrslu standist ekki. Náttúruvernd ríkisins bendir á að í reglugerð nr. 684/1999 um sprengiefni er kveðið á um hámarksbylgjuhraða við mannvirki."



Vegagerðin segir í umsögn sinni um þetta atriði: ?Á auglýstum athugasemdatíma matsskýrslunnar komu fram athugasemdir frá Gunnari Njálssyni sem Vegagerðin svaraði. Sumt af því sem hér er svarað hefur því komið fram áður. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að náman í Mjósundum er þegar opin. Efsta lag hraunsins hefur verið fjarlægt og er svæðið til mikilla lýta. Hlutar svæðisins hafa verið notaðir sem geymslusvæði fyrir rusl.


Jaðri hraunsins þar sem það nær út í sjó verður ekki raskað, aðeins verður raskað svæði sem þegar hefur verið raskað. Á bls. 24-26 í matsskýrslu er efnistökusvæðinu og efnisvinnslunni lýst. Þar kemur fram að raskað svæði í hrauninu er um 1,7 ha að stærð en efnistakan mun aðeins ná yfir 1-1,2 ha. Auðvelt verður því að aðlaga námuna að aðliggjandi landi án þess að fara út fyrir raskað svæði. Efnisvinnslan verður 10 m djúp og mun myndast 1-2 m djúpt vatn í námubotninum.


Í matsskýrslu kemur fram að engin efnisvinnsla mun fara fram í Mjósundum (sbr. bls. 25). Allt efni úr námunni verður flutt í námu B við Berserkseyri, þar sem mölun og efnisvinnsla mun fara fram á athafnasvæði sem merkt er á mynd 7.


Vegagerðin telur að sú lýsing á námuvinnslunni og umhverfisáhrifum hennar sem koma fram í matsskýrslu séu fullnægjandi. Vegagerðin telur að námuvinnsla á svæðinu muni hafa jákvæð áhrif á landslagið í Mjósundum og telur myndir 5, 6, 16 og 17 í matsskýrslu styðja það álit. Til að neikvæð áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið verði sem minnst verður viðeigandi mótvægisaðgerðum beitt, sbr. bls. 96 í matsskýrslu.


Náttúruvernd ríkisins sér um að lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd sé framfylgt. Eins og kemur fram í matsskýrslu (bls. 24 og 94) hefur Náttúruvernd ríkisins ekki lagst gegn námuvinnslu í Berserkjahrauni og í fylgiskjali 1 með matsskýrslu kemur fram að með efnistökunni væri hægt að ganga frá svæðinu þannig að það félli betur að umhverfinu.


Á bls. 25 í matsskýrslu er fjallað um leit að öðrum grjótnámum. Þar kemur fram að ákvörðun um efnistöku hafi verið tekin í samráði við landeigendur og eftirlitsráðgjafa Náttúruverndar ríkisins á Vesturlandi.


Hraunsfjarðarbrúin við Mjósund er ekki á núverandi Snæfellsnesvegi, þar sem byggð hefur verið ný brú á Hraunsfjörð. Verndun þessarar brúar hefur ekki borið á góma og er hún ekki á lista yfir steypt mannvirki á Íslandi sem fyrirhugað er að vernda. Vegagerðin mun tryggja nægjanlegt burðarþol hennar vegna fyrirhugaðra grjótflutninga. Fyrirhugaðar sprengingar í grjótnámi munu ekki hafa nein áhrif á hana.


Eins og kemur fram á bls. 25 og 97 í matsskýrslu verður Arnarkletti ekki raskað. Til að koma í veg fyrir að klettinum verði raskað mun Vegagerðin ekki dýpka námuna næst Arnarkletti. Gert hefur verið ráð fyrir að skilja eftir um 30 m breitt svæði frá námujaðrinum að klettinum. Með þessum aðgerðum verður komið í veg fyrir að áhrif af völdum sprenginga muni eyðileggja Arnarklett."



Hreppsnefnd Helgafellssveitar og bæjarstjórn Grundafjarðarbæjar telja í umsögnum sínum að grjótvinnsla í Berserkjahrauni komi til greina þar sem fyrirhugað er að vinna grjót á svæði sem þegar hefur verið raskað og tryggt verði að gengið verði þannig frá námunni að ásýnd svæðisins verði betri en nú er.



Fram kemur í umsögn Breiðafjarðarnefndar að nefndin lítur svo á að Mjósundsnáma sé utan verndarsvæðis Breiðafjarðar og nefndin hafi því ekki lögsögu er varðar þetta kæruefni.




2.5. Endurheimt votlendis



Náttúruvernd ríkisins bendir í umsögn sinni á umfjöllun í úrskurði Skipulagsstofnunar um


endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerðar. Í umsögninni segir: ?Í matsskýrslu Snæfellsnesvegar um Kolgrafarfjörð segir m.a. að jafn mikið votlendi og tapast við framkvæmdina verði endurheimt í samráði við nefnd um endurheimt votlendis. Vegagerðin hafi verið í sambandi við nefndina og hafi árið 2001 unnið að endurheimt votlendis á um 83 ha lands vegna framkvæmda sem eru í gangi og í undirbúningi. Í umsögn Náttúruverndar ríkisins um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er þessum áformum um mótvægisaðgerð fagnað. Í úrskurði Skipulagsstofnunar kemur m.a. fram stofnunin telji ekki réttlætanlegt að byggja niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum á mótvægisaðgerðum sem ekki hafa verið skilgreindar og ekki er vitað um áhrif af. Því sé ekki hægt að líta á endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerð vegna framkvæmdar nema fyrir liggi skilgreint svæði sem unnt væri að endurheimta og jákvæð afstaða þeirra sem fara með forræði viðkomandi svæðis. Í úrskurðarorðum kemur hins vegar fram að fallist er á framkvæmdina eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila með því skilyrði að því sem næst óbreytt vatnsskipti verði í Kolgrafarfirði að loknum framkvæmdum."



Náttúruvernd ríkisins bendir á að fordæmi séu fyrir því að Skipulagsstofnun hafi, í tengslum við mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda, farið fram á að endurheimt sé jafnmikið votlendi og raskast við fyrirhugaðar framkvæmdir. Þar hafi það ekki verið fyrirstaða fyrir endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerð að framkvæmdaraðili hafi ekki forræði yfir sambærilegu svæði. Hvað varðar val á svæðum til að endurheimta hafi Vegagerðin haft samráð við nefnd um endurheimt votlendis en Náttúruvernd ríkisins eigi fulltrúa í þeirri nefnd.



Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að Vegagerðin hafi þegar endurheimt votlendi á nokkrum stöðum á Vesturlandi í samráði við nefnd um endurheimt votlendis og Náttúruvernd ríkisins vegna framkvæmda sem eru í gangi og í undirbúningi. Vegagerðin telji það skyldu sína að standa við þau loforð sem gefin eru í matsskýrslu.



Náttúruvernd ríkisins telur í umsögn sinni brýnt að kannað verði hvort fljótandi vegur yfir votlendissvæði á leið 1 virkar, þ.e. hvort vatnsskipti og gróðursamsetning í mýrunum haldist óbreytt eftir veglagningu. Fram kemur í úrskurði Skipulagsstofnunar að af hálfu Vegagerðarinnar séu ekki uppi áætlanir um vöktun til að kanna áhrif framkvæmdarinnar á votlendi í Kolgrafafirði, en í gangi séu tvö rannsóknarverkefni sem tengjast votlendi og vegagerð á Vesturlandi og muni niðurstaða úr þeim vonandi auka skilning á áhrifum vegagerðar á votlendi. Náttúruvernd ríkisins bendir á að veglína 1 fer yfir hallamýri en ósnortnar hallamýrar eru víðast hvar orðnar fátíðar á láglendi og ekki komi fram á hvers konar votlendissvæðum framangreindar rannsóknir Vegagerðarinnar fara fram.




2.6. Lög um vernd Breiðafjarðar



Reynir Bergsveinsson telur í kæru sinni að með úrskurði sínum gangi Skipulagsstofnun gegn markmiði laga nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar. Vísar kærandi til verndaráætlunar sem samin hafi verið fyrir Breiðafjörð og staðfest af umhverfisráðherra. Þar komi fram að taka Breiðafjarðarnefnd þurfi að beita sér fyrir því að ekki verði farið út í framkvæmdir nema að undangengnum rannsóknum á náttúru og menningarminjum og tryggt verði að farið verði að lögum þar að lútandi.



Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að framkvæmdir á því svæði sem lög um vernd Breiðafjarðar ná til séu heimilar með samþykki Breiðafjarðarnefndar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.





III. Niðurstaða



1. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar



Í kæru Gunnars Njálssonar er því haldið fram að forstjóri Skipulagsstofnunar sé vanhæfur í úrskurði sínum vegna skyldleika við eiganda landssvæðisins við Mjósundsnámu. Meint vanhæfi er ekki stutt öðrum rökum en þeim að um skyldleika sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins mun framangreindur skyldleiki ekki vera með þeim hætti að falli undir 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem segir að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls: ?Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar." Ráðuneytið bendir á að við meðferð mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar hjá Skipulagsstofnun nýtur Vegagerðin stöðu aðila í málinu í skilningi stjórnsýslulaga en ekki eigendur þess lands þar sem framkvæmdin er fyrirhuguð. Í matsskýrslu er eigenda landsins hvergi getið. Eins og nánar er gerð grein fyrir í kafla 2.4.3. hér á eftir var niðurstaða Skipulagsstofnunar hvað varðaði Mjósundsnámu í samræmi við umsögn Náttúruverndar ríkisins um málið. Að mati ráðuneytisins eru því engar þær aðstæður fyrir hendi sem fallnar eru til þess að draga óhlutdrægni forstjóra Skipulagsstofnunar í efa með réttu, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.




2. Umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar



2.1. Áhrif á menn og samfélag



2.1.1. Landnotkun - áhrif á þangnytjar



Í matsskýrslu er ekki fjallað um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á þangnytjar í Kolgrafafirði. Í tillögu að matsáætlun sem framkvæmdaraðili sendi Skipulagsstofnun þann 19. mars 2001 var ekki gert ráð fyrir að könnuð væru áhrif vegalagningar yfir Kolgrafafjörð á þangnýtingu í firðinum og engar athugasemdir þess efnis bárust Skipulagsstofnun á kynningartíma framkvæmdarinnar.



Í 18. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 671/2000 er ákvæði um efni matsskýrslu. Samkvæmt c-lið 2. tölul. 2. mgr. 18. gr. skal í matsskýrslu, eftir því sem við á, vera lýsing á framkvæmdasvæði og áætluðu áhrifasvæði fyrirhugaðrar framkvæmdar, s.s. landslagi, gróðurfari, byggð og landnotkun. Í matsskýrslu á bls. 80 kemur fram að leið 1 mun ekki hafa áhrif á lífríki í fjörum Kolgrafafjarðar nema á vegstæðinu sjálfu. Áhrifin yrðu umfangsmest í Hópi, en þar mun lífríki í fjörunni ekki vera með sértökum hætti. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að hæð dráttarbáts og þangöflunarpramma hafi verið könnuð og þeir muni komast undir brúna milli Kolgrafaodda og Hjarðarbólsodda á fjöru. Að mati ráðuneytisins er ekkert sem bendir til að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa áhrif á þangnytjar í Kolgrafafirði.




2.1.2. Samgöngur og umferðaröryggi



a. Veðurfar


Eins og fram kemur í matsskýrslu fékk Vegagerðin Harald Ólafsson veðurfræðing til að gera veðurathuganir í Kolgrafafirði. Settar voru upp tvær veðurathugunarstöðvar í firðinum, önnur við veginn í botni fjarðarins og hin á Hjarðarbólsodda. Sérstök áhersla var lögð á að kanna sviptivindi sem oft valda vandræðum í botni fjarðarins. Einnig var rætt við staðkunnuga. Mælingar fóru fram veturinn 1999-2000. Fram kemur í skýrslu Haraldar að sökum erfiðleika við fjarskipti sem tengjast m.a. skemmdum á endurvarpstækjum á Breiðafirði í óveðri haustið 1999 vanti nokkuð upp á að gagnasöfnun hafi verið samfelld. Fyrir liggi gögn frá báðum veðurstöðvunum eftirtalin tímabil: 26.09 1999 - 29.10 1999, 31.12 1999 - 29.02 2000 og 10.03 2000 - 31.05 2000 og byggir túlkun mælinganna fyrst og fremst á þeim tímabilum. Umferðaróhöpp þau sem nefnd eru í kæru og matsskýrslu á bls. 120 urðu utan þessara tímabila. Að mati ráðuneytisins byggir matsskýrsla á fullnægjandi gögnum til að meta veðurfar á svæðinu. Fram kemur á bls. 119 í matsskýrslu að samanburður mælinga á vindhraða í botni Kolgrafafjarðar og á Hjarðarbólsodda kemur í meginatriðum heim og saman við frásagnir heimamanna og það sem almennt er vitað um vind í grennd við fjöll.



b. Heimreið að Kolgröfum


Fram kemur í matsskýrslu að leið 1 stefnir út af núverandi Snæfellsvegi beint neðan við bæinn Berserkseyri ytri. Þar fer hún fyrst yfir tún í landi Berserkseyrar og því næst yfir móa sem ræstir hafa verið fram. Móarnir eru notaðir sem beitiland og á svæðinu er æðarvarp. Síðan liggur leiðin á fyllingu yfir leirur og lítið lón sem nefnist Hóp. Þaðan liggur leiðin yfir Kolgrafafjörð frá Kolgrafaodda. Á á teikningum 6-9 sem fylgja matsskýrslu er heimreiðin að Kolgröfum sýnd liggja þvert á leið 1 yfir fyrrnefnda móa í landi Berserkseyrar.



Fram kemur í umsögn Vegagerðarinnar að heimreiðar séu sýndar sem lína á teikningum 6-9 en þær séu ekki fullhannaðar. Heimreiðar séu mun mjórri en þjóðvegir, fylgi betur landi og liggi yfirleitt ekki eins hátt yfir aðliggjandi landi. Áhrif af lagningu þeirra nái því ekki yfir breitt svæði. Vegagerðin tekur einnig fram að við vinnu við mat á umhverfisáhrifum hafi verið haft samráð við landeigendur um staðsetningu heimreiða.



Ráðuneytið telur ljóst af gögnum málsins að rannsóknir á gróðri og fuglalífi á áhrifasvæði framkvæmdarinnar ná til þess svæðis þar sem fyrirhugað er heimreiðin að Kolgröfum muni liggja. Ráðuneytið fellst því ekki á þá fullyrðingu kæranda að Skipulagsstofnun hafi skort gögn til að fallast á framangreinda vegalagningu.




2.2. Gerð korta af sjó og landi



Við gerð matsskýrslunnar og fylgigagna hennar miðar Vegagerðin hæðina 0 við meðalsjávarhæð eins og almennt er gert á kortum af landi. Við gerð sjókorta miðast hæðin 0 hins vegar almennt við meðalstórstraumsfjöru. Ráðuneytið gerir engar athugasemdir við það að Vegagerðin noti sama hæðarkerfi á landi og sjó við gerð matsskýrslunnar enda væri annað frekar til þess fallið að valda misskilningi að mati ráðuneytisins.




2.3. Áhrif á lífríki



Leið 1 liggur í gegnum æðarvarp í landi Kolgrafa og Berserkseyrar og er reiknað með að framkvæmdin hafi áhrif á varpið, sbr. umfjöllun á bls. 49-50 í matsskýrslu. Þar er þó ekki vikið að hugsanlegum áhrifum af völdum minks sem sest gæti að í grjótvarnargarði vegfyllingarinnar, í næsta nágrenni við æðarvarpið. Engar athugasemdir þess efnis bárust framkvæmdaraðila eða Skipulagsstofnun frá landeigendum á kynningartíma matsskýrslu, þrátt fyrir nokkuð samráð Vegagerðarinnar og landeiganda um staðsetningu veglínu leiðar 1 vegna æðarvarpsins, sbr. fylgiskjal 18 og 19 með matsskýrslu.



Fram kemur í umsögnum Náttúruverndar ríkisins og Breiðafjarðarnefndar að í ljósi reynslunnar séu ákveðnar líkur á að minkur setjist að í grjótvarnargarði meðfram nýjum vegi yfir Kolgrafafjörð og af þeim sökum aukist líkur á að æðarvarp í landi Berserkseyrar og Kolgrafar verði fyrir tjóni. Leggja framangreindir umsagnaraðilar til að gripið verði til viðeigandi mótvægisaðgerða vegna þessa og að fylgst verði með breytingum á æðarvarpi og þéttleika minnks á svæðinu í kjölfar framkvæmda.



Í greinargerð Róberts A. Stefánssonar hjá Náttúrustofu Vesturlands, sem fylgdi umsögn Vegagerðarinnar, kemur einnig fram að líklega eigi áhyggjur kærenda að nokkru leyti rétt á sér, en beinar rannsóknir á þéttleika minka í kjölfar vegfyllinga hafi ekki verið gerðar. Þó sé almennt talið að fæðuframboð ráði mestu um þéttleika minka. Því sé ekki líklegt að miklar breytingar verði á fjölda minka á umræddu svæði. Hins vegar sé erfitt að vinna mink í stórgrýttum vegfyllingum og því geti árangur af minkaveiðum orðið minni. Telur greinarhöfundur að einu raunhæfu mótvægisaðgerðirnar væri notkun dauðagildra, sem komið væri fyrir þar sem fyllingar koma að landi.



Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, segir að þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóraembættis, að minkaveiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum minka er sveitarstjórn skylt að ráða menn til minkaveiða. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar gefa viðkomandi sveitarstjórnir árlega skýrslur til veiðistjóraembættisins um minkaveiðar og kostnað við þær, hver á sínu svæði, og endurgreiðir ríkissjóður þá allt að helming kostnaðar við veiðarnar eftir því sem nánar er ákveðið í fjárlögum. Fram kemur í umsögn bæjarstjórnar Grundarfjarðar að það verði á hendi sveitarfélagsins að auka veiðiálag ef nauðsyn krefur, m.a. með því að koma fyrir gildrum við enda grjótvarnargarðsins.



Ráðuneytið telur því ljóst að það verði í höndum viðkomandi sveitarstjórnar að tryggja nægar minkaveiðar á svæðinu og að þannig verði komið eins og kostur er í veg fyrir tjón á viðkomandi æðarvarpi og öðru lífríki í nágrenninu. Vegna nálægðar æðarvarpsins við fyrirhugaða vegfyllingu telur ráðuneytið rétt að Vegagerðin láti gera könnun á þéttleika minks í nágrenni vegfyllingarinnar áður en framkvæmdir hefjast og fylgst verði með breytingum á þéttleikanum og æðarvörpunum tveimur í fimm ár eftir að framkvæmdum lýkur í samráði við Veiðistjóraembættið, Náttúrustofu Vesturlands og landeiganda, þannig að unnt verði að bregðast við með viðeigandi aðgerðum aukist þéttleiki minks vegna framkvæmdanna.




2.4. Áhrif á landslag og jarðmyndanir



2.4.1. Gögn um röskun á landi



Á bls. 31 í matsskýrslu Vegagerðarinnar er yfirlit yfir raskað svæði vegna vegagerðar um Kolgrafafjörð byggt á magnreikningum. Þar hefur verið reiknað út flatarmál þess svæðis sem vegur, fyllingar og skeringar ná yfir. Að mati ráðuneytisins eru viðkomandi útreikningar í samræmi við forsendurnar og ekki villandi á neinn hátt. Annarsstaðar í matsskýrslunni koma fram upplýsingar um helgunarsvæði vegarins skv. 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 og stærð áhrifasvæðis vegarins í votlendi (töflur 18-20).




2.4.2. Áhrif á Hóp, Kolgrafarodda og Berserkseyrarodda



Fram kemur á bls. 93 í matsskýrslu að veglínan á leið 1 liggur þar sem áhrif á leirur í Hópinu ættu að verða minnst. Vegagerðin hyggst setja ræsi í veginn þar sem hann liggur yfir Hópið og opna rifið á Kolgrafaodda milli Hóps og Kolgrafafjarðar til að tryggja vatnsskipti í Hópinu. Þess verði gætt að vatnsborðið verði óbreytt. Þannig ættu áhrif framkvæmdarinnar á leirurnar að afmarkast af því svæði sem lendir undir veginum. Náttúruvernd ríkisins telur í umsögn sinni að með því að tryggja full vatnsskipti í Hópinu sé líklegt að breytingar á lífríki verði engar eða sáralitlar. Að mati ráðuneytisins er gerð nægjanleg grein fyrir áhrifum framkvæmdarinnar á framangreint svæði í matsskýrslu.




2.4.3. Efnistaka úr Mjósundsnámu



Í matsskýrslu kemur fram að fyllingarefni fyrir vegaframkvæmdir í Kolgrafafirði verður tekið úr skeringum af vegsvæði og úr námum. Ein af þeim námum sem fyrirhugað er að taka efni úr er í Mjósundahrauni (Berserkjahrauni) rétt austan við gömlu brúna yfir Hraunsfjörð. Um er að ræða gamla námu og er námusvæðið ógróið. Námusvæðið mun að mestu afmarkast af þessu raskaða svæði og er um 17.000 m2 að flatarmáli. Áætlað er að vinna um 10 m þykkt lag af hrauninu og mun myndast grunnt vatn á námubotninum. Við hlið námasvæðisins er hraunbolli með ísaltri tjörn og mun gróinn hraunkantur skilja nýju tjörnina frá þeirri náttúrulegu. Við hraunkantinn er svokallaður Arnarklettur og verður honum ekki raskað við námavinnsluna.



Að mati ráðuneytisins hefur fyrirhugaðri efnistöku úr Mjósundsnámu og áhrifum hennar verið nægjanlega lýst í matsskýrslu. Ráðuneytið telur með hliðsjón af gögnum málsins ekkert benda til þess að Arnarklettur eða gamla Mjósundsbrúin kunni að vera í hættu vegna námavinnslunnar. Berserkjahraun er á náttúruminjaskrá auk þess sem eldhraun njóta sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Í ákvæðinu felst að fara skuli að með gát gagnvart vissum náttúrufyrirbrigðum en í því felst ekki fortakslaust bann við röskun. Námusvæðinu hefur þegar verið raskað og fram kemur í umsögn Náttúruverndar ríkisins að það sé til lýta á landi. Ráðuneytið tekur undir það álit Náttúruverndar ríkisins að með efnistökunni verði unnt að ganga frá svæðinu og fella það betur að umhverfinu en það gerir nú.




2.5. Endurheimt votlendis



Náttúruvernd ríkisins bendir á í umsögn sinni til ráðuneytisins mikilvægi þess að endurheimt verði votlendi og að skorið verði úr um hvort endurheimt votlendis sem mótvægisaðgerð sé háð því skilyrði að framkvæmdaraðili hafi aðgang að eða hafi forræði yfir sambærilegu svæði. Stofnunin fer fram á að ráðuneytið kveði skýrt á um endurheimt votlendis í úrskurði sínum. Þar sem mál þetta hefur verið kært telur ráðuneytið rétt að taka ábendingu Nátturuverndar ríkisins til efnislegrar umfjöllunar þó ekki sé gerð um það krafa í kærum. Áður hefur verið fjallað um sama álitaefni í úrskurði ráðuneytisins frá 13. maí 2002.



Í i.-lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er mótvægisaðgerð skilgreind á eftirfarandi hátt: ?Aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif". Endurheimt votlendis telst mótvægisaðgerð í skilningi framangreindra laga enda er slíkri aðgerð ætlað að bæta fyrir þær skerðingar sem verða á votlendi vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga er stöðuvötnum, tjörnum sem eru a.m.k. 1000m2 að stærð og mýrum og flóum sem eru a.m.k. 3 hektarar að stærð, veitt sérstök vernd. Í alþjóðlegri samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf, svokallaðri Ramsar-samþykt, sbr. auglýsing í C-deild Stjórnartíðinda, nr. 1/1978, er votlendi skilgreint sem mýrlendi, ár, vötn, tjarnir, fjörur og grunnsævi allt niður á 6 metra dýpi. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um náttúruvernd sem lagt var fram á 123. löggjafarþingi segir að vernd votlendis sé löngu tímabær og að ákvæði 37. gr. sé ætlað að stuðla að henni. Samkvæmt alþjóðlegum samningum eða samþykktum sem Ísland hefur fullgilt er skylt að varðveita og endurreisa búsvæði sem eru í hættu eða hefur verið spillt svo sem votlendi. Ákvæði samnings um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu, svokallaðs Bernarsamningsins, sbr. auglýsing í C-deild nr. 17/1993, kveða til að mynda á um að gera skuli viðeigandi og nauðsynlegar og stjórnarfarslegar ráðstafanir til þess að tryggja verndun lífsvæða villtra plöntu- og dýrategunda og til að vernda lífsvæði sem eru í hættu. Í Ramsar samþykktinni sem áður er getið, er kveðið á um vernd votlendissvæða. Á sjöunda aðildarríkjafundi samningsins var samþykkt ályktun um endurreisn votlenda, sem hvetur ríki til þess að huga að endurreisn raskaðra votlendissvæða og sérstaklega þegar teknar eru ákvarðanir um röskun óraskaðra votlendissvæða. Í 8. gr. samningsins um líffræðilega fjölbreytni, sbr. C-deild nr. 11/1995 segir að aðildarríki samningsins skuli eftir því sem hægt er og viðeigandi endurbyggja og lagfæra spillt vistkerfi.



Framangreindum lagaákvæðum og alþjóðasamningum er varða votlendi er ætlað að stuðla að vernd þess. Ráðuneytið telur því mikilvægt að framkvæmdaraðili endurheimti votlendi til að bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðili hefur sjálfur lagt áherslu á að votlendi verði endurheimt og verður því að líta svo á að hann telji ekkert vera því til fyrirstöðu að það verði gert. Skal framkvæmdaraðili í samráði við Náttúruvernd ríkisins því endurheimta votlendi á Vesturlandi sem er a.m.k. til jafns að flatarmáli og það votlendi sem raskast eða verður fyrir áhrifum við fyrirhugaða framkvæmd. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili leggja fram áætlun um endurheimt votlendisins.



Fram kemur í gögnum málsins að í gangi eru á vegum Vegagerðarinnar rannsóknir sem tengjast votlendi og vegagerð á Vesturlandi. Ráðuneytið telur ekki efni til að krefjast þess af framkvæmdaraðila að hann láti gera könnun á því hvort vatnsskipti og gróðursamsetning í mýrunum haldist óbreytt eftir lagningu svokallaðs fljótandi vegar á leið 1, eins og lagt er til í umsögn Náttúruverndar ríkisins.




2.6. Lög um vernd Breiðafjarðar



Ljóst er að leita þarf leyfis Breiðafjarðarnefndar fyrir framkvæmdum á því svæði sem fellur undir lög um vernd Breiðafjarðar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Af gögnum málsins má sjá að haft hefur verið samráð við nefndina við undirbúning málsins og tekið hefur verið tillit til athugasemda hennar. Nefndin á síðan eftir að taka endanlega afstöðu til framkvæmdanna í samræmi við 2. mgr. 6. gr. Ráðuneytið telur enga ástæðu til að ætla, með hliðsjón af umsögn Breiðafjarðarnefndar, að úrskurður Skipulagsstofnunar gangi gegn markmiðum laga um vernd Breiðafjarðar eins og haldið er fram í kæru.



Með vísun til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri úrskurð Skipulagsstofnunar frá 16. janúar 2002 með þeim skilyrðum að auki sem grein er gerð fyrir í úrskurðarorði.




Úrskurðarorð



Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 16. janúar 2002 um mat á umhverfisáhrifum vegalagningar um Kolgrafafjörð milli Berserkseyrar og Vindáss í Eyrarsveit skal óbreyttur standa að viðbættum eftirfarandi skilyrðum.





1. Vegagerðin láti gera könnun á þéttleika minks í nágrenni vegfyllingarinnar áður en framkvæmdir hefjast og fylgst verði með breytingum á þéttleikanum og nálægum æðarvörpum í fimm ár eftir að framkvæmdum lýkur í samráði við Veiðistjóraembættið, Náttúrustofu Vesturlands og landeiganda.



2. Framkvæmdaraðili endurheimti í samráði við Náttúruvernd ríkisins votlendi á Vesturlandi a.m.k. til jafns að flatarmáli við það votlendi sem raskast eða verður fyrir áhrifum við fyrirhugaða framkvæmd. Framkvæmdaraðili skal leggja fram áætlun um endurheimt votlendis áður en framkvæmdir hefjast.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum