Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 01080157

I.

Hinn kærði úrskurður og málsatvik

1. Fyrirhuguð framkvæmd

Í matsskýrslu Reyðaráls hf. er kynnt fyrirhuguð bygging og rekstur allt að 420 þúsund tonna álvers ásamt allt að 223 þúsund tonna rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði, Fjarðarbyggð. Gert er ráð fyrir að álver og rafskautaverksmiðja verði byggð í sjálfstæðum áföngum. Í fyrri áfanga er gert ráð fyrir 240.000-280.000 tonna álframleiðslu á ári og í síðari áfanga stækkun í 360.000-420.000 tonna ársframleiðslu. Miðað er við að afköst rafskautaverksmiðju í fyrsta áfanga verði 167.000 tonn á ári af rafskautum og afköstin verði aukin í 223.000 tonn á ári í öðrum áfanga. Ætlunin er að álverið og rafskautaverksmiðjan verði staðsett á iðnaðarsvæði á jörðunum Hrauni og Sómastaðagerði við norðanverðan Reyðarfjörð.

Þann 11. maí 2001 tilkynnti Reyðarál hf. hina fyrirhuguðu framkvæmd til Skipulagsstofnunar. Framkvæmdin var auglýst opinberlega og lá frammi til kynningar frá 25. maí til 6. júlí 2001.

2. Hinn kærði úrskurður

Skipulagsstofnun kvað þann 31. ágúst 2001, upp úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar var, í ljósi framlagðra gagna framkvæmdaraðila, umsagna, sérfræðiálits og athugasemda, að fallist væri á fyrirhugaða framkvæmd með eftirfarandi skilyrðum:

1. Ekki verði búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hefst.

2. Við umhverfisvöktun verði fylgst með styrk PAH-efna í lofti, ákomu PAH-efna á jörð og afrennsli í sjó og uppsöfnun í sjávarseti og lífverum innan sem utan skilgreindra þynningarsvæða.

3. Kæruefni

Ráðuneytinu bárust tvær kærur vegna framangreinds úrskurðar Skipulagsstofnunar, þ.e. kæra NAUST-Náttúruverndarsamtaka Austurlands og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Kærurnar bárust báðar þann 5. október 2001, innan lögbundins kærufrests.

Gerð er grein fyrir efnisatriðum kæranna í kafla II og eru þau þar flokkuð eftir því hvaða þætti í úrskurði Skipulagsstofnunar þau varða.

3.1. NAUST - Náttúruverndarsamtök Austurlands

Aðalkrafa NAUST er að úrskurður Skipulagsstofnunar þar sem fallist er á fyrirhugaða byggingu allt að 420 þúsund tonna álvers og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju á Reyðarfirði í tveimur áföngum verði úr gildi felldur og um leið hafnað framkvæmdinni sem lýst er í matsskýrslu Reyðaráls hf.

Varakrafa NAUST er að aðeins verði heimiluð bygging fyrri áfanga álverksmiðju án rafskautaverksmiðju.

Þrautavarakrafa NAUST er að hafnað verði byggingu rafskautaverksmiðju.

3.2. Náttúruverndarsamtök Íslands

Krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands er þannig orðuð:

"Krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands er að Reyðaráli og Norsk Hydro verði gert skylt að leggja fram nauðsynleg gögn til þess að Hollustuvernd ríkisins geti metið hvort sú tækni sem nýtt er í rafskautaverksmiðju Norsk Hydro í Sunndal sé betri eða verri kostur en sú sem fyrirhugað er að nýta í Reyðarfirði. Verði niðurstaða Hollustuverndar ríkisins sú að Sunndal-tæknin sé betri skal Reyðaráli gert skylt að nýta þá tækni enda skal besta fáanlega tækni nýtt.

Verði hinsvegar niðurstaða Hollustuverndar ríkisins sú að Sunndal-tæknin muni leiða til verulegrar aukningar PAH-mengunar í sjó krefjast Náttúruverndarsamtökin þess að umhverfisráðherra hafni fyrirhugaðri rafskautaverksmiðju Reyðaráls til þess að koma í veg fyrir verulega aukningu í losun mengandi efna sem verksmiðjunni óhjákvæmilega þá fylgir.

Einnig krefjast Náttúruverndarsamtök Íslands þess umhverfisráðherra veiti aðeins tímabundið leyfi til starfrækslu kolarafskautaverksmiðju sem gildi einungis þar til sýnt er að Norsk Hydro eða aðrir stórir álframleiðendur muni endurnýja vinnslurásir með nýjum gerðum rafskauta sem valda engri eða margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda og PAH-mengun".

4. Umsagnaraðilar

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum voru framangreindar kærur sendar þann 9. október 2001, til umsagnar Fjarðarbyggðar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Hollustuverndar ríkisins, Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnunar og Reyðaráls hf. Frestur til að veita umsagnir var til 26. október 2001. Umsagnir bárust frá Fjarðarbyggð með bréfi 25. október 2001, Heilbrigðiseftirliti Austurlands með bréfi 25. október 2001, Hollustuvernd ríkisins með bréfi 9. nóvember 2001, Veðurstofu Íslands með bréfi 25. október 2001, Skipulagsstofnun með bréfi 29. nóvember 2001 og Reyðaráli hf. með tveimur bréfum 23. október 2001.

II.

Einstök kæruatriði og umsagnir um þau

1. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar

1.1. Rafskautaverksmiðja

Í úrskurði Skipulagsstofnunar kafla 5.8. (bls. 133) segir:

"Umhverfisáhrif álverksmiðju í Reyðarfirði eru margvísleg en að mati Skipulagsstofnunar er þar tvennt sem vegur þyngst þ.e. annars vegar áhrif á loft og sjó og hins vegar áhrif á samfélag. Fyrirhuguð rafskautaverksmiðja kemur að mati Skipulagsstofnunar til með að hafa í för með sér umtalsverða losun mengunarefna, einkum brennisteinsdíoxíðs og PAH-efna. Í umsögnum og athugasemdum hefur verið á það bent að meta ætti umhverfisáhrif rafskautaverksmiðju sérstaklega. Þar sem framkvæmdaraðili hefur lagt framkvæmdina fram til athugunar Skipulagsstofnunar með þeim hætti að um eina heildarframkvæmd sé að ræða, þar sem ekki verði skilið á milli álversins og rafskautaverksmiðjunnar, og lagt áherslu á að ekki sé hagkvæmt að reisa og reka álverksmiðju af fyrirhugaðri stærð án rafskautaverksmiðju hefur Skipulagsstofnun fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir í einu lagi og telur ekki heimilt að skilja á milli einstakra framkvæmdaþátta í niðurstöðu úrskurðarins."

Í kafla 5.2.6. (bls. 115) úrskurðarins bendir Skipulagsstofnunin á að umfjöllun um rafskautaverksmiðju og áhrif hennar í matsskýrslu Reyðaráls hf. hefði mátt vera ítarlegri. Þrátt fyrir það taldi stofnunin að framkvæmdin í heild væri ásættanleg m.t.t. umhverfisáhrifa.

Að mati NAUST bar Skipulagsstofnun að setja það skilyrði við mótun matsáætlunar framkvæmdaraðila að sérgreind matsáætlun og matsskýrsla yrði gerð um rafskautaverksmiðjuna eða henni væri að minnsta kosti haldið skýrt afmarkaðri í matsskýrslu að því er byggingu, rekstur og losun mengandi efna varðar. Eins og málefni rafskautaverksmiðju eru lögð fyrir í matsskýrslu sé erfitt, ef ekki útilokað, að átta sig á áhrifum verksmiðjunnar sem sérstakrar einingar og þá um leið hvort hún er réttlætanleg sem viðbót við álverksmiðju á Reyðarfirði.

NAUST telur að skv. 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sé það meginregla ef um er að ræða fleiri en eina matsskylda framkvæmd á sama svæði, að þá skuli meta hverja þeirra sérstaklega. Undantekning frá þeirri reglu sé heimiluð þannig að ráðherra geti, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega. Bendir NAUST á að engin slík ákvörðun ráðherra liggi fyrir og því hafi borið að meta rafskautaverksmiðjuna sérstaklega, en samtökin telja óumdeilt að rafskautaverksmiðjan sé matsskyld framkvæmd útaf fyrir sig, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum og viðauka við þau.

NAUST bendir á að Skipulagsstofnun hafi í úrskurði sínum fjallað um fyrirhugaðar framkvæmdir í einu lagi með þeim rökum að framkvæmdaraðili hafi lagt framkvæmdina fram til athugunar stofnunarinnar með þeim hætti að um eina heildarframkvæmd væri að ræða. Jafnframt hafi framkvæmdaraðili lagt á það áherslu að ekki væri hagkvæmt að reisa og reka álverksmiðju af fyrirhugaðri stærð án rafskautaverksmiðju. NAUST telur þessa niðurstöðu Skipulagsstofnunar ekki geta staðist, m.a. vegna þess að hagkvæmni og efnahagsleg rök séu ekki viðfangsefni mats á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir:

"Skipulagsstofnun telur ekki að túlka beri heimildarákvæði 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum þannig að meta verði sérstaklega umhverfisáhrif hvers framkvæmdaþáttar ef unnt er að skipta fyrirhuguðum framkvæmdum upp í fleiri en eina framkvæmd, sem hver um sig væri matsskyld. Í hinu kærða tilviki var ekki heldur um slíkt að ræða, þar sem afstaða framkvæmdaraðila var frá upphafi sú að um eina framkvæmd væri að ræða, sem ekki yrði ráðist í án rafskautaverksmiðju."

Í umsögn Reyðaráls hf. um þetta atriði segir:

"Í tillögu að matsáætlun sem lögð var fram við upphaf vinnu við mat á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði var tekið fram að metið yrði hvort álver án rafskautaframleiðslu væri hagkvæmur kostur. Það mat leiddi í ljós að svo var ekki og því er litið á rafskautaframleiðslu sem hluta af matskyldri framkvæmd en ekki sjálfstæða tengda framkvæmd. Tilvísun kæranda til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 á því alls ekki við í þessu samhengi. Til viðbótar er rétt að vekja athygli á túlkun kæranda á 2. mgr. 5. gr. á sér ekki hliðstæðu meðal þeirri fræðimanna, sem fjallað hafa um efnið."

Reyðarál hf. telur jafnframt í umsögn sinni að það hefði ófyrirséðar afleiðingar í umhverfisrétti á Íslandi ef gefa ætti framkvæmdaraðilum kost á að skipta framkvæmd upp í frumþætti en með því móti yrði í vissum tilvikum unnt að komast hjá matsskyldu þar sem hún væri annars fyrir hendi.

2. Umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar

Að mati NAUST mun bygging og rekstur 420 þúsund tonna álverksmiðju og 233 þúsund tonna rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði valda umtalsverðum umhverfisáhrifum í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða. Í köflum 2.1. og 2.2. hér á eftir er gerð grein fyrir þeim rökum sem kærendur færa fyrir þeirri niðurstöðu, úrskurði Skipulagsstofnunar og umsögnum um hvert kæruatriði fyrir sig.

2.1. Mengun lofts og sjávar

2.1.1. Veðurfar og landfræðilegar aðstæður

Í úrskurði Skipulagsstofnunar um veðurfar, landfræðilegar aðstæður og loftgæði í Reyðarfirði segir í kafla 5.2.1. (bls. 104):

"Í matsskýrslu kemur fram að veðurfarsaðstæður í Reyðarfirði mótist mjög af landslagi fjarðarins ásamt návist úthafsins. Á vissum tímabilum geti loftmassi lokast af innan fjarðarins vegna hringstreymis. Við slíkar aðstæður séu skilyrði óhagstæð með tilliti til loftdreifingar. Logn og stöðugt andrúmsloft eða hægviðri með breytilegri vindátt og mögulegri hringrás sama loftsins innan fjarðarins geti einnig skapað óhagstæð skilyrði til loftdreifingar. Logn sé algengast um nætur að sumarlagi."

NAUST telur að vegna landfræðilegra aðstæðna og veðurskilyrða sé Reyðarfjörður ekki til þess fallinn að þar séu staðsettar mengandi risaverksmiðjur eins og þær sem hér um ræðir.

Einnig telur NAUST í kæru sinni að rannsóknir sem mikilvægar forsendur matsskýrslu byggja á, m.a. veðurfarsrannsóknir til ákvörðunar svonefnds þynningarsvæðis, séu ófullnægjandi. Samfelldar (sjálfvirkar) veðurathuganir hafi aðeins verið gerðar á fyrirhuguðum verksmiðjustað frá vorinu 1998, og á fáeinum öðrum stöðum í grenndinni frá júní 2000. Sé það alltof stuttur tími til að fá traustar niðurstöður til að byggja á loftdreifingarspá.

Varðandi framangreint vísar Skipulagsstofnun í umsögn sinni til bls. 115 í hinum kærða úrskurði, en þar segir: "Lagðir hafa verið fram nákvæmir útreikningar á loftdreifingu mengandi efna á grundvelli veðurmælinga í Reyðarfirði árin 1998-2000. Skipulagsstofnun telur ekki útilokað að skapast geti óhagstæðari veðurskilyrði en þau ár sem lögð eru til grundvallar spám um dreifingu mengandi efna. Á það sérstaklega við um skammtímastyrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti. Miðað við þessa óvissu í forsendum dreifingarspár, upplýsingar sem settar eru fram í framlögðum gögnum Reyðaráls hf., umsagnir Hollustuverndar ríkisins og Veðurstofu Íslands og ákvæði í frumdrögum að starfsleyfi Reyðaráls hf. telur Skipulagsstofnun ljóst að töluverðar líkur séu á því að styrkur brennisteinsdíoxíðs geti náð heilsuverndarmörkum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 1999/30/EC á þynningarsvæði verksmiðjunnar en innan þess eru býlin Framnes og Hólmar."

Jafnframt tekur Skipulagsstofnun fram í umsögn sinni að nauðsynlegt sé að fylgjast gaumgæfilega með styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis eins og Hollustuvernd ríkisins hafi lagt til. Þannig verði unnt að ganga úr skugga um að þær spár sem hafa verið lagðar fram í matsskýrslu um mengun í andrúmslofti gangi eftir. Ennfremur að Reyðarál hf. tryggi að á iðnaðarsvæðinu verði kröfur um vinnustaðamörk varðandi styrk brennisteinsdíoxíðs í lofti ávallt uppfylltar.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur síðan fram að það hafi verið niðurstaða mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði og úrskurðar stofnunarinnar að framkvæmdin uppfylli gildandi viðmiðanir og kröfur um mengunarmörk.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir að dreifing loftmengunar í djúpum fjörðum sé minni en á opnum svæðum. Miðað við forsendur í matsskýrslu og fyrirliggjandi gögn telji stofnunin að loftmengun verði undir umhverfismörkum utan þynningarsvæðis. Að mati Hollustuverndar ríkisins er ekki ástæða til að breyta úrskurði Skipulagsstofnunar vegna þessa atriðis.

Að auki segir í umsögn Hollustuverndar ríkisins:

"Hollustuvernd ríkisins telur að fyrirliggjandi verðurgögn séu fullnægjandi til að spá fyrir um loftdreifingu mengunarefna viðkomandi tímabil. Byggt er á veðurgögnum frá 4-6 veðurathugunarstöðvum í Reyðarfirði og nágrenni hans, má benda á að þetta eru bestu veðurfarsupplýsingar sem til eru um veðurfar í íslenskum fjörðum. Ávallt má deila um hvort gögn séu nægjanleg til að spá fyrir um langtímaáhrif en stofnunin telur fyrirliggjandi gögn nægilega góð til að gera varfærna loftmengunarspá."

Reyðarál hf. telur í umsögn sinni að niðurstöður dreifireikninga eru að jafnaði varfærnar sökum þeirra forsendna og aðferðafræði sem þar er beitt. Þetta hafi m.a. verið staðfest með mælingum umhverfis aðra stóriðju hér á landi. Því sé engin ástæða til að ætla að stærð þynningarsvæðis umhverfis álverið í Reyðarfirði sé vanmetin.

2.1.2. Mengunarefni í útblæstri og frárennsli frá álveri og rafskautaverksmiðju

2.1.2.1. Almennt

1. Mengunarefni í útblæstri

Í úrskurði Skipulagsstofnunar, kafla 5.2. (bls. 104) segir:

"Mat á losun mengandi efna í andrúmsloft og dreifingu mengunar frá rekstri fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði byggist á áætlaðri losun mengunarefna frá álverinu, miðað við bestu fáanlegu tækni í kerskálum, málmsteypu og rafskautaverksmiðju og hreinsivirkjum þeim tengdum, viðmiðunarmörkum mengunarefna og niðurstöðum útreikninga á dreifingu mengunarefna í andrúmslofti sem styðjast m.a. við niðurstöður veðurmælinga í Reyðarfirði."

Síðan kemur fram í kafla 5.2.2. (bls. 104-5), að við framleiðslu áls myndist vetnisflúoríð (HF), rykbundið flúoríð (Fryk), brennisteinsdíoxíð (SO2), svifryk (PM10), koldíoxíð (CO2), fjölflúorkolefni (PFC), fjölhringa arómatísk kolefnissambönd (PAH-efni) og köfnunarefnisoxíð (NOx). Við bökun forskauta losnar ryk, brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisoxíð, PAH-efni og flúoríð.

2. Mengunarefni í frárennsli

Í kafla 5.3. (bls. 116) í úrskurði Skipulagsstofnunar segir:

"Mat á losun mengandi efna í sjó frá rekstri fyrirhugaðs álvers og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði og dreifingu mengunar byggist á áætlaðri losun mengunarefna í frárennsli frá verksmiðjunni, sérstaklega frá vothreinsibúnaði og fyrirhuguðum urðunarstað fyrir m.a. kerbrot á iðnaðarlóðinni, viðmiðunarmörkum mengunarefna og niðurstöðum útreikninga á dreifingu mengunarefna í sjó sem styðjast m.a. við niðurstöður mælinga á sjávarstraumum, hitastigi og seltu í Reyðarfirði."

Síðan segir í kafla 5.3.2. (bls. 116-7):

"Í matsskýrslu kemur fram að frárennsli frá vothreinsun álvers innihaldi einkum svifagnir, flúoríð (F), fjölhringa arómatísk kolefnissambönd (PAH og B(a)P) og brennisteinsdíoxíð (SO2). Sigvatn frá kerbrotagryfju á iðnaðarlóð innihaldi einkum flúoríð (F), óbundið cýaníð (CN-) og ýmis önnur efni sem er safnað í ræsi og leidd saman við frárennsli frá vothreinsun. Ennfremur verður kælivatn, hreinsað húsaskólp og yfirborðsvatn frá iðnaðarlóðinni leitt til sjávar í samræmi við reglugerðarkröfur."

2.1.2.2. Magn mengunarefna - áhrif á landnotkun

NAUST telur að fyrirhugað álver og rafskautaverksmiðja við Reyðarfjörð muni hafa í för með sér mikla mengun á stóru svæði. Vísa samtökin því til stuðnings til matsskýrslu framkvæmdaraðila og úrskurðar Skipulagsstofnunar. Þar komi fram að mikil mengun muni verða frá umræddum verksmiðjum, bæði í lofti, láði og legi og muni það hafa veruleg takmarkandi áhrif á landnotkun, bæði á landi varðandi búsetu og í sjó með tilliti til sjávarnytja, einkum innan þynningarsvæðis. Beri að hafa í huga að mörg umræddra mengunarefna, þar á meðal þau hættulegustu eins og PAH-sambönd, safnist upp í náttúrunni á rekstrartíma ráðgerðrar verksmiðju, meðal annars í sjávarseti. Geti þetta t.d. gert að engu hugmyndir um fiskeldi í Reyðarfirði og haft margvísleg neikvæð áhrif, beint og óbeint, á matvælaiðnað.

Í umsögn sinni um kæru NAUST tekur Skipulagsstofnun fram að bygging álverksmiðju í Reyðarfirði hafi veruleg takmarkandi áhrif á landnotkun, sérstaklega innan þynningarsvæðis verksmiðjunnar á landi varðandi búsetu og beit, en einnig innan þynningarsvæðið í sjó m.t.t. sjávarnytja. Skipulagsstofnun bendir á að það muni hvíla á sveitarstjórn og Hollustuvernd ríkisins við leyfisveitingar og eftirlit að starfsemi verði ásættanleg m.t.t. öryggis og heilsu og að mótvægisaðgerðum verði fylgt eftir. Jafnframt ítrekar stofnunin að ekki hafi áður verið ráðist í byggingu rafskautaverksmiðju eða álvers af þessari stærðargráðu og því sé mikilvægt að áhrif starfseminnar verði vöktuð frá upphafi.

Í umsögn sinni vísar Skipulagsstofnun einnig til umfjöllunar á bls. 134 í hinum kærða úrskurði þar sem m.a. segir: "Styrkur mengunarefna í sjó í Reyðarfirði einkum fjölhringa arómatískra kolefnissambanda, PAH-efna, mun aukast og verða yfir bakgrunnsgildum í stærstum hluta fjarðarins. Áhrif PAH-efna sem eru skaðleg lífverum, verða merkjanleg í seti og sjávarlífverum umhverfis útrás frárennslis frá álverinu."

Síðan segir:

"Skipulagsstofnun telur í ljósi umsagnar Hollustuverndar ríkisins að gera megi ráð fyrir því að þau umhverfismörk fyrir PAH-efni sem tekið er mið af í loftdreifingarspám séu sett þannig að styrkur PAH-efna og ákoma þeirra á landi og í afrennsli í sjó verði ásættanleg m.t.t. fólks og lífríkis sem og að þynning PAH sé ásættanleg innan þynningarsvæðis verksmiðjunnar. Í ljósi umsagna Hollustuverndar ríkisins og Hafrannsóknastofnunarinnar telur Skipulagsstofnun nauðsynlegt að Reyðarál hf. leggi mat á það magn PAH-efna sem komi til með að falla til jarðar með úrkomu yfir vetrarmánuðina og geti borist til sjávar með leysingavatni, þannig að unnt sé að ganga úr skugga um að þær spár sem hafa verið lagðar fram í matsskýrslu um mengun í sjó gangi eftir."

Skipulagsstofnun fjallar í kafla 2.1.1. hér á undan um skammtímastyrk brenninsteinsdíoxíðs í andrúmslofti, en stofnunin telur töluverðar líkur á því að styrkur brennisteinsdíoxíðs geti náð heilsuverndarmörkum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 1999/30/EC á þynningarsvæði verksmiðjunnar en innan þess eru býlin Framnes og Hólmar. Í úrskurðinum er því það skilyrði sett að ekki verði búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hefst. Jafnframt leggur stofnunin áherslu á nauðsyn þess að fylgjast gaumgæfilega með styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis. Jafnframt tryggi Reyðarál hf. að á iðnaðarsvæðinu verði kröfur um vinnustaðamörk varðandi styrk brennisteinsdíoxíðs í lofti ávallt uppfylltar.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir:

"Hollustuvernd ríkisins benti á það í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar að öllum aðilum verði að vera ljóst að innan þynningarsvæðis munu áhrif vegna losunar mengunarefna frá álverinu verða greinanleg. Þynningarsvæði eru skilgreind í 3. gr. reglugerðar nr. 785/1999 sem sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.

Skipulagsstofnun er sá aðili sem úrskurðar um það hvort áhrif framkvæmda eru umtalsverð og sá úrskurður byggir á því meðal annars hversu þynningarsvæðið er stórt."

Síðan segir í umsögn Hollustuverndar ríkisins:

"Hollustuvernd ríkisins er sammála því að miðað við forsendur skýrslunnar geti styrkur SO2 farið yfir heilsuverndarmörk innan þynningarsvæðisins, en ekki utan þess. Hollustuvernd ríkisins benti á þetta í umsögnum sínum til Skipulagsstofnunar og benti á mótvægisaðgerðir.

Hollustuvernd ríkisins setur skilyrði um losunarmörk sem fyrirtækið verður að uppfylla í starfsleyfi."

Í umsögn Veðurstofu Íslands í kafla 2.1.5. um mengunarvarnir hér að aftan kemur fram að stofnunin telur ástæðu til að óttast að skammtíma SO2-mengun (sólarhrings- og klukkustundargildi) geti stundum við óhagstæð veðurskilyrði reynst óþægilega há í þéttbýlinu í Reyðarfirði.

2.1.3. Stærð þynningarsvæðis - nálægð við byggð

NAUST bendir á að innri mörk þynningarsvæðis séu aðeins í um 1 km fjarlægð frá þéttbýlinu á Reyðarfirði, þannig að lítið megi út af bera til að mengun verði yfir heilsuverndarmörkum innan þéttbýlisins.

Skipulagsstofnun segir í umsögn sinni að stofnunin hafi í úrskurði sínum, talið tillögu framkvæmdaraðila um afmörkun þynningarsvæðis fyrir 1. og 2. áfanga álvers og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði ásættanlega, enda yrði ekki um búsetu á svæðinu að ræða. Þá taldi stofnunin líklegt að starfsemi 1. og 2. áfanga álvers rafskautaverksmiðju myndi uppfylla mengunarkröfur utan þynningarsvæðis.

Hollustuvernd ríkisins telur í umsögn sinni að miðað við gefnar forsendur í matsskýrslu og fyrirliggjandi gögn sé þéttbýlið í Reyðarfirði utan skilgreinds þynningarsvæðis og mengunarstig þar því innan skilgreindra umhverfismarka.

2.1.4. Gróðurhúsalofttegundir

NAUST telur að samkvæmt matsskýrslu hefði álverið í Reyðarfirði í för með sér 26% aukningu í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda (CO2-ígildi) hérlendis miðað við árið 1990 sem er viðmiðunarár loftslagssamningsins og aukning CO2 losunar næmi 36% sem er meira en nemur losun frá öllum fiskiskipaflota Íslendinga árið 1990. NAUST gagnrýnir að ekki sé gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum af hálfu Reyðaráls hf. heldur gengið út frá því að íslensk stjórnvöld færi fyrirtækinu ókeypis losunarheimildir út á undanþáguákvæði ("íslenska ákvæðið") í Kyoto-ferlinu. Benda samtökin á að "íslenska ákvæðið" sé bundið skilyrðum, m.a. um að beitt verði bestu fáanlegri tækni og bestu umhverfisvenjum við framkvæmdir og rekstur. Þegar höfð sé í huga ófullkomin hreinsun á útblæstri frá rafskautaverksmiðju, verði ekki séð að nefndu skilyrði sé fullnægt.

Varðandi framangreint segir í umsögn Skipulagsstofnunar:

"Eins og fram kemur í kafla 5.2.2.6 á bls. 108-109 í hinum kærða úrskurði telur Skipulagsstofnun að fyrirkomulag framkvæmda og rekstrar álvers í Reyðarfirði geti fallið undir undanþáguákvæði svokallaðrar Kyoto-bókunar rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar varðandi losun á koldíoxíði. Stofnunin minnti hins vegar á að losun fjölflúorkolefnis fellur ekki undir framangreint undanþáguákvæði eins og það lá þá fyrir. Því sé mikilvægt að halda losun fjölflúorkolefnis í lágmarki. Skipulagsstofnun er ekki kunnugt um að "besta fáanleg tækni og bestu umhverfisvenjur við framkvæmd og rekstur" iðnaðar sem kann að falla undir framangreint undanþáguákvæði sé skilgreind nákvæmlega en lítur svo á að umhverfisráðuneytið hljóti að meta hvort að fyrirhuguð framkvæmd og rekstur uppfyllir kröfur undanþáguákvæðisins varðandi losun gróðurhúsalofttegunda vegna aðildar Íslands að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar."

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram að stofnunin fjalli almennt ekki um gróðurhúsalofttegundir en bendir á að í drögum að starfsleyfi séu ákvæði um að Reyðarál hf. eigi að takmarka losun öflugustu gróðurhúsalofttegundarinnar PFC (fjölflúorkolefni), með því að halda fjölda spennurisa niðri, eða undir 0,2 pr. kerdag.

2.1.5. Mengunarvarnir

1. Úrskurður Skipulagsstofnunar

Í úrskurði Skipulagsstofnunar kafla 5.2.3. (bls. 109) segir:

"Í matsskýrslu er miðað við að álverið verði í 1. og 2. áfanga búið þurr- og vothreinsibúnaði og rafskautaverksmiðja verði búin þurrhreinsibúnaði. Þurrhreinsun hreinsar stærsta hluta flúoríðs, ryks og PAH-efna úr útblásturslofti en brennisteinsdíoxíð sleppur í gegn. Vothreinsibúnaður dregur mikið úr magni brennisteinsdíoxíðs í útblæstri auk þess að draga úr magni svifryks, flúoríðs og PAH-efna.

Í matsskýrslu kemur fram að skoðuð voru 3 mismunandi tilfelli til að ákveða nauðsynlega hreinsivirkni rafskautaverksmiðju m.t.t. umhverfisáhrifa af völdum brennisteinsdíoxíðs (SO2):

· Tilfelli 1: Við framleiðslu rafskauta er notað kox með háu brennisteinsinnihaldi (allt að 3,5%), bik með allt að 0,8% og eldsneyti með 0,22%. Virkni vothreinsibúnaðar er að lágmarki 93,4%.

· Tilfelli 2: Við rafskautaframleiðslu er notað kox með allt að 2% brennisteinsinnihaldi, bik með allt að 0,8% og eldsneyti með 0,22%. Virkni vothreinsibúnaðar er að lágmarki 98,5%.

· Tilfelli 3: Sömu forsendur og í tilfelli 1 að viðbættum vothreinsibúnaði við rafskautaverksmiðju.

Í matsskýrslu kemur fram að við útreikninga á loftdreifingu hafi komið í ljós að tilfelli 1 reyndist óásættanlegt vegna of umfangsmikils þynningarsvæðis. Í tilfelli 3 minnkaði útblástur brennisteinsdíoxíðs (SO2) mikið við það að bæta við vothreinsivirki fyrir rafskautaverksmiðjuna en verulegt magn PAH-efna í frárennsli til sjávar gerir þennan kost síður fýsilegan. Ákveðið var að verksmiðjan yrði rekin samkvæmt tilfelli 2, þ.e. þurr- og vothreinsibúnaður á álver og þurrhreinsibúnaður á rafskautaverksmiðju.

Í matsskýrslu kemur fram að starfsemi rafskautaverksmiðju komi til með að valda mun meiri útblæstri brennisteinsdíoxíðs, PAH-efna og köfnunarefnisoxíða en starfsemi álvers. Hins vegar sé starfsemi álvers ráðandi í útblæstri flúoríðs og gróðurhúsalofttegunda."

2. Kæruatriði

Bæði NAUST og Náttúruverndarsamtök Íslands fullyrða í kæru sinni að við mengunarvarnir í fyrirhugaðri rafskautaverksmiðju Reyðaráls hf. í Reyðarfirði sé ekki gerð krafa um að notuð verði besta fáanlega tækni, eins og áskilið sé í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Aðeins verði um að ræða þurrhreinsun í stað þriggja þrepa hreinsitækni, þar sem eftir þurrhreinsun komi vothreinsun og síðan hreinsun á vatni frá vothreinsuninni. Slíkri tækni beiti hins vegar Norsk Hydro í rafskautaverksmiðju í Sunndal í Noregi. Telja samtökin mikilvægt að slíkri vothreinsun verði bætt við rafskautaverksmiðju enda valdi hún fjórum sinnum meiri útblæstri brennisteinsdíoxíðs og tæplega hundrað sinnum meiri útblæstri PAH-efna en starfsemi álvers ein og sér.

Náttúruverndarsamtök Íslands benda jafnframt á í kæru sinni, að í matsskýrslu eru ekki gerð skil á tæknibreytingum sem eru að verða í álvinnslu ("inert anode technology") og munu, að mati samtakanna, stórminnka losun gróðurhúsalofttegunda og gera mengandi kolarafskaut óþörf. Telja samtökin eðlilegt að umhverfisráðherra geri kröfur um að slík tækni verði notuð við álver í Reyðarfirði.

3. Umsögn Skipulagsstofnunar

Varðandi áhrif á loft og loftmengun vísar Skipulagsstofnun í umsögn sinni um kærur NAUST og Náttúruverndarsamtaka Íslands til bls 114 í hinum kærða úrskurði, þar sem segir:

"Skipulagsstofnun telur að Reyðarál hf. hafi sýnt fram á það í framlögðum gögnum að áætluð útblástursviðmið fyrirtækisins, sem eru strangari en PARCOM og MACT, séu raunhæf forsenda fyrir afmörkun þynningarsvæðis fyrir 1. og 2. áfanga álvers og rafskautaverksmiðju. Hins vegar telur Skipulagsstofnun að einnig skuli taka mið af þeirri reynslu sem fæst af rekstri 1. áfanga, niðurstöðum vöktunar og þeim viðmiðum mengunarefna sem verða í gildi við ákvörðun marka þynningarsvæðis í 2. áfanga. Fyrirtækið hefur áréttað að allur búnaður verksmiðjunnar sé miðaður við það að uppfylla þau losunarmörk sem fram koma í matsskýrslu og verði staðið við þau mörk sem þar eru tilgreind."

Varðandi áhrif á sjó og mengun sjávar vísar Skipulagsstofnun í umsögn sinni til bls. 119-120 í hinum kærða úrskurði. Þar segir:

"Hérlendis hefur hvorki verið ráðist í byggingu álvers af þeirri stærð sem fyrirhuguð er í Reyðarfirði né byggingu rafskautaverksmiðju sem er ný starfsemi hér á landi. Í fyrsta skipti hérlendis er nú gert ráð fyrir vothreinsun á útblæstri álvers. Með tilkomu 1. áfanga álvers með allt að 280.000 tonna ársframleiðslu, rafskautaverksmiðju með allt að 167.000 tonna ársframleiðslu og urðun allt að 6.750 tonna af kerbrotum mun styrkur mengunarefna í sjó í Reyðarfirði aukast verulega frá því sem nú er. Það á sérstaklega við um magn PAH-efna frá vothreinsun en styrkur þeirra verður yfir ströngustu norsku mörkum á um 500 m breiðu belti undan iðnaðarlóðinni. Styrkur B(a)P í seti mun verða yfir bakgrunnsgildum í firðinum á um 10 km löngu svæði í Reyðarfirði. Með tilkomu 2. áfanga álvers með allt að 420.000 tonna ársframleiðslu, rafskautaverksmiðju með allt að 233.000 tonna ársframleiðslu og urðun allt að 10.080 tonna af kerbrotum mun styrkur PAH-efna frá vothreinsun verða yfir ströngustu norsku mörkum á um 500 m breiðu belti undan iðnaðarlóðinni og styrkur B(a)P í seti verða yfir bakgrunnsgildum í stærstum hluta Reyðarfjarðar."

Síðan segir:

"Skipulagsstofnun telur tillögu Reyðaráls hf. um afmörkun þynningarsvæðis í sjó fyrir 1. og 2. áfanga álvers og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði ásættanlega. Stofnunin telur að þrátt fyrir að mengun muni aukast verulega í sjó muni vera unnt að uppfylla viðmið OSPAR og íslenskra stjórnvalda. Stofnunin ítrekar að ekki hefur áður verið ráðist í byggingu rafskautaverksmiðju eða álvers af þessari stærðargráðu og því sé mikilvægt að áhrif starfseminnar verði vöktuð frá upphafi."

Eins og áður hefur komið fram setur Skipulagsstofnun í úrskurði sínum skilyrði um vöktun PAH-efna í lofti, ákomu þeirra á jörð og afrennsli í sjó og uppsöfnun í sjávarseti og lífverum innan sem utan skilgreindra þynningarsvæða.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er því sú að á grundvelli framlagðra gagna framkvæmdaraðila, umsagna m.a. Hollustuverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar og Veðurstofu Íslands og athugasemda sé unnt að fallast á það fyrirkomulag mengunarvarna sem gert var ráð fyrir af hálfu framkvæmdaraðila og að ekki sé heimilt að gera strangari kröfur en nægja til að uppfylla gildandi reglur og staðla.

4. Umsögn Hollustuverndar ríkisins

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir:

"Hollustuvernd ríkisins hefur samhliða matsferlinu unnið að starfsleyfi fyrirhugaðrar álverksmiðju ásamt rafskautaverksmiðju. Í starfsleyfinu verður kveðið á um mengunarvarnir og sett losunarmörk sem fyrirtækið verður að uppfylla. Það er hluti af starfsleyfisvinnslunni að meta hugsanlegt útstreymi mengandi efna í loft, láð eða lög. Í starfsleyfi er einnig gerð krafa um vöktun mengunarefna og uppsöfnun þeirra í sjávarseti.

Hollustuvernd ríkisins bendir á að vothreinsun miðast við að skola mengandi efni úr útblæstri og færa þau yfir í frárennslið. Vothreinsun dregur þannig ekki úr því að mengandi efni berist út í umhverfið.

Hollustuvernd ríkisins telur því ekki ástæðu til að breyta niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar hvað þessi atriði varðar."

Hvað varðar kröfu Náttúruverndarsamtaka Íslands um að Reyðaráli hf. og Norsk Hydro verði gert skylt að leggja fram nauðsynleg gögn til þess að Hollustuvernd ríkisins geti metið hvort sú tækni sem nýtt er í rafskautaverksmiðju Norsk Hydro í Sunndal sé betri eða verri kostur en sú sem fyrirhugað er að nýta í Reyðarfirði segir Hollustuvernd í umsögn sinni:

"Hollustuvernd ríkisins hefur unnið að undirbúningi starfsleyfis fyrir álverksmiðju Reyðaráls samhliða vinnu fyrirtækisins á matsskýrslu, og hafa sérfræðingar stofnunarinnar kynnt sér þá tækni sem fyrirtækið hyggst nota. Ennfremur hafa sérfræðingar stofnunarinnar fengið aðgang að þeim upplýsingum sem þeir hafa talið sig þurfa við gerð draga að starfsleyfi. Í starfsleyfi er kveðið á um fyrirtækið eigi að uppfylla ákvæði laga og reglugerða varðandi mengunarmál og þar er m.a. gerð krafa um bestu fáanlegu tækni. Besta fáanlega tækni er skilgreind í 3. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar segir að besta fáanlega tækni sé sú framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

Hollustuvernd ríkisins hefur fengið þau gögn sem óskað er eftir og sér ekki ástæðu til að breyta úrskurði Skipulagsstofnunar hvað þetta varðar."

Hollustuvernd ríkisins bendir jafnframt á það í umsögn sinni að skv. reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, eru starfsleyfi gefin út til ákveðins tíma, sbr. grein 12.1. Ennfremur skuli útgefandi endurskoða starfsleyfi á fjögurra ára fresti, sbr. grein 20.1. og skylt sé að endurskoða starfsleyfi ef mengun af starfsemi er meiri en búast mátti við þegar leyfið var gefið út eða ef breytingar verða á bestu fáanlegu tækni, sbr. grein 21.1. Hollustuvernd ríkisins telur því að krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands um tímabundið starfsleyfi sé óþörf.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir jafnframt:

"Hollustuvernd ríkisins vill upplýsa að í drögum að starfsleyfi, [...] er til viðbótar við bestu fáanlega tækni krafist viðbótaraðgerða það að álverið megi ekki losa meira en 0,25 kg/t Al af heildar flúor og 2,3 kg/t Al af SO2 við 420.000 tonna framleiðslu, sbr. gr. 2.1.6 í starfsleyfisdrögum. Þetta er gert til að styrkur mengandi efna fari ekki yfir umhverfismörk utan þynningarsvæðis."

Síðan segir í umsögn Hollustuverndar ríkisins:

"Skv. lögum nr. 7/1998, sbr. rg. 785/1999 um starfsleyfi er kveðið á um samþættar mengunarvarnir. Það felur m.a. í sér að hreinsun eins mengunarþáttar má ekki auka losun annars. Í starfsleyfi er settur rammi sem kveður á um að mengun verður að vera innan viðmiðunarmarka og uppsöfnun mengandi efna í sjó sem minnst. Á meðan ekki er hægt að sýna fram á að vothreinsibúnaður hreinsi mun meira en 90% af mengandi efnum þá er betra að nota kol með sem lægstu brennisteinsinnihaldi til að PAH losun til sjávar aukist ekki verulega."

5. Umsögn Veðurstofu Íslands

Í umsögn sinni gagnrýnir Veðurstofa Íslands að ekki hafi verið í matsskýrslu Reyðaráls hf. gerð grein fyrir fjórða kostinum varðandi hreinsun á útblæstri frá álveri og rafskautaverksmiðju, þ.e. að notað væri kox með allt að 2% brennisteinsinnihaldi og vothreinsun vatns frá rafskautaverksmiðju bætt við þurrhreinsun. Athugasemdir þessar komu einnig fram í umsögn Veðurstofunnar til Skipulagsstofnunar þann 14. júní 2001. Vísar Veðurstofan til ummæla í framangreindri umsögn þar sem segir:

"Eins og fram kemur í matsskýrslunni minnkar útblástur SO2 mikið við það að bæta við vothreinsivirki fyrir rafskautaverksmiðjuna. Sérstaklega kæmi þetta þó fram í tilfelli 4 þegar jafnframt væri notað kox með tiltölulega lágu brennisteinsinnihaldi. Niðurstaða matsskýrslunnar er að nota tilfelli 2. Í töflu 11.3 kemur fram að í því tilfelli væri útblástur SO2 að jafnaði 2,17 kg á framleitt tonn áls í 280.000 tonna álveri, en samkvæmt töflu 18.3 væri þessi tala 1,97 kg fyrir hvert framleitt tonn áls í 420.000 tonna álveri. Ekki verður betur séð á töflum 11.1 og 18.1 en að án rafskautaverksmiðju mætti að jafnaði koma útblæstri SO2 niður í um 0,5 kg fyrir hvert framleitt tonn áls. Fyrir tilfelli 4, þar sem notað væri kox með tiltölulega lágu brennisteinsinnihaldi og vothreinsun að viðbættri þurrhreinsun á útblæstri frá rafskauta-verksmiðju, virðist sem koma mætti útblæstri SO2 niður fyrir 1 kg fyrir hvert framleitt tonn áls. Hér er því um mjög góða hreinsitækni að ræða. Við að bæta vothreinsun við hreinsivirki rafskautaverksmiðju vinnst einnig mikilsverð minnkun á útblæstri PAH frá álverinu, en því fylgir því miður aukning á flutningi PAH-efna til sjávar. Kynni því að þurfa að kanna hreinsun frárennslis frá rafskautaverksmiðju."

Í umsögn Veðurstofu Íslands er bent á þann möguleika að sett verði það skilyrði í starfsleyfi Reyðaráls hf. að vothreinsivirkjum verði bætt við rafskautaverksmiðjuna á seinni stigum ef umhverfisvöktun tengd rekstri álversins sýni óásættanlegan styrk brennisteinsdíoxíðs umhverfis verksmiðjuna, eða ef kröfur varðandi styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti verða auknar í framtíðinni. Síðan segir í umsögninni:

"Nauðsynlegt er þá, að við vöktun á SO2-mengun við þéttbýlið í Reyðarfirði verði mæld og geymd skammtímagildi SO2, t.d. á klukkustundar fresti eða jafnvel á 10 eða 15 mínútna fresti. Á reynslu af rekstri 1. áfanga, og síðar 2. áfanga, mætti þá byggja ákvörðun um vothreinsun á lofti frá rafskautaverksmiðjunni.

Án vothreinsunar við rafskautaverksmiðju telur Veðurstofan ástæðu til að óttast að skammtíma SO2-mengun (sólarhrings- og klukkustundargildi) geti stundum við óhagstæð veðurskilyrði reynst óþægilega há í þéttbýlinu í Reyðarfirði. Hafa verður í huga að mengað loft sem berst frá álverinu inn fjörðinn mun hafa tilhneigingu til að fylgja hæðarlínum landsins og leita til hægri yfir þéttbýlið í Reyðarfirði og upp í Svínadal, fremur en út yfir fjörðinn. Með vothreinsuninni væri hins vegar haft borð fyrir báru og tekið tillit til greinar 5.2 í mengunarvareglugerð nr. 790/1999 um ráðstafanir til þess "að hamla gegn loftmengun af völdum brennisteinsdíoxíðs og svifryks og beita til þess bestu fáanlegri tækni".

6. Umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands

Heilbrigðiseftirlit Austurlands telur í umsögn sinni æskilegt að leita allra leiða til að lágmarka það magn PAH efna sem fara frá verksmiðjunni, t.d. með því að bæta vothreinsibúnað og síun við þurrhreinsun frá rafskautaverksmiðjunni. Sé það rétt að unnt sé að draga úr heildarmagni PAH efna sem losað er út úr umhverfið með þriggja þrepa hreinsun sér heilbrigðiseftirlitið ekki ástæðu til annars en að slíkum aðgerðum sé beit.

7. Umsögn Reyðaráls hf.

Í umsögn Reyðaráls hf. segir:

"Besta fáanlega tækni (BAT) í skilningi alþjóðasamþykkta og reglugerða felst alls ekki nauðsynlega í því að gengið sé eins langt í hreinsun útblásturs og mögulegt er. Innan ramma samnings um verndun hafrýmis NA-Atlantshafsins (OSPAR) og samkvæmt BREF skjali frá Evrópuskrifstofunni fyrir samþættar mengunarvarnir (EIPPCB) er BAT skilgreind sem tækni sem aðildarlöndin koma sér saman um að sé sannreynd og hægt er að nálgast á alþjóðlegum markaði og innan skynsamlegra kostnaðarmarka. Samkvæmt núgildandi skilgreiningu á BAT er ekki krafist sérstakrar hreinsunar SO2 úr útblæstri, hvorki í rafskautaverksmiðjum né heldur í kerskálum álvera, heldur skal miða við umhverfisaðstæður á hverjum stað. Þetta kemur m.a. skýrt fram í tilmælum PARCOM 92/1 um bestu fáanlegu tækni til framleiðslu á rafskautum og fyrir ný álver, Hluti A, D3: "nauðsyn þess að fjarlægja SO2 úr útblæstri og hreinsun frávatns frá vothreinsibúnaði sem inniheldur súlfíð, súlfat, flúoríð og lítið magn tjöru er háð umhverfisaðstæðum á hverjum stað og því eldsneyti sem notað er við framleiðsluna" ("the need for SO2 removal from flue gas and for cleaning of effluent scrubber water containing sulphite, sulphate, fluoride and small amounts of tar is to be determined according to the local condition and the fuel used"). Sú tækni sem notuð verður í fyrirhugaðri verksmiðju Reyðaráls hf. í Reyðarfirði fellur að öllu leyti innan ofangreindra skilgreininga á bestu fáanlegri tækni (BAT).

Með vothreinsun á kerskála álversins verður útblástur SO2 í raun minnkaður um meira en 85% frá því sem hann yrði án hreinsunar, sem háð umhverfisaðstæðum gæti í sjálfu sér fallið innan OSPAR skilgreiningar á BAT. Eftir því sem næst verður komist er hvergi að finna vothreinsibúnað við rafskautaverksmiðjur í Evrópu utan verksmiðjanna í Årdal og Sunndal. Vothreinsibúnaður á útblástur frá kerskálum er auk þess ekki algengur utan Noregs. Rafskautaverksmiðjurnar tvær í Noregi eru því frekar undantekning en regla í þessu sambandi, en ástæður fyrir vothreinsibúnaði þar eru staðbundnar umhverfisaðstæður, sem eru ólíkar þeim sem ríkja í Reyðarfirði.

Í raun er unnt að stýra losun SO2 í útblæstri með mismunandi samsetningu af brennisteinsinnihaldi hráefna og vothreinsibúnaði með mismunandi virkni. Í verksmiðjunni í Sunndal er gert ráð fyrir rafskautum með háu brennisteinsinnihaldi, sem hefur í för með sér meiri útblástur en ef miðað væri við rafskaut með lágu brennisteinsinnihaldi. Þar er því einnig tæknilega hægt að draga enn frekar úr útblæstri SO2. Hvar mörkin eru dregin er því ekki hægt að skoða án samhengis við kostnað og hagkvæmni. Eins verður að taka tillit til staðbundinna aðstæðna þegar slíkar kröfur eru settar.

Eins og áður hefur komið fram af hálfu Reyðaráls hf. hefur meginmarkmið fyrirtækisins við val á mengunarvörnum í Reyðarfirði verið að finna skynsamlegt jafnvægi milli allra umhverfisþátta, jafnt loftgæða sem hreinleika sjávar. Að auki er ekki réttlætanlegt að miða við aðra tækni en þá sem þegar er sannreynd í rekstri. Útrennsli úr settjörnum í Sunndal er ekki aðgreint frá öðru útrennsli og því er ekki hægt að sannreyna virkni tjarnanna til hreinsunar á PAH. Þar með er ekki hægt að tryggja hreinsivirkni slíkra tjarna í Reyðarfirði til þess að uppfylla þau ströngu mörk sem þar eru sett um styrk PAH í seti og sjávarlífverum.

Reyðarál hf. er því enn þeirrar skoðunar að sú útfærsla mengunarvarna sem sett er fram í matsskýrslu fyrirtækisins sé besti kosturinn m.t.t. umhverfislegra þátta í Reyðarfirði."

Um kröfu Náttúruverndarsamtaka Íslands um að notuð verði óvirk rafskaut ("inert anodes") í álveri Reyðaráls hf. segir: "... hefur allt frá því fyrir seinni heimsstyrjöldina verið innan áliðnaðarins unnið að þróun óvirkra rafskauta með það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum og lækka framleiðslukostnað." Síðan segir: "Alcoa lýsti því yfir fyrr á þessu ári að byrjað yrði að nota óvirk rafskaut til álframleiðslu með endurbótum á núverandi kerskála þar sem notuð eru bökuð forskaut. Fram hefur komið að Alcoa á enn við vandamál að stríða vegna sprungumyndana í óvirku skautunum, en engu að síður ríkir þó enn bjartsýni um þessa tækni innan fyrirtækisins.

Af hálfu Norsk Hydro hefur komið fram að fyrirtækið mun halda áfram eigin rannsóknum á þessu sviði og fylgjast grannt með framþróun tækninnar hjá öðrum. Að mati Reyðaráls hf. mun það taka einhver ár að sýna fram á að framleiðsluaðferð Alcoa sé fjárhagslega hagkvæm, jafnvel þó þeim takist að yfirstíga tæknilega örðugleika. Leiði þróunarvinna í ljós að óvirk rafskaut verði tæknilega og fjárhagslega hagkvæm, mun sá kostur að sjálfsögðu verða skoðaðar fyrir verksmiðjuna í Reyðarfirði. Með hliðsjón af framansögðu er þó ljóst að á þessu stigi verður að miða við tækni kolefnis skauta í verksmiðju Reyðaráls hf. Bið eftir nauðsynlegri framþróun í notkun óvirkra rafskauta hefði í för með sér frestun verkefnisins um óákveðinn tíma."

8. Athugasemdir kærenda

Náttúruverndarsamtök Íslands taka fram í athugasemdum sínum að samtökin fari ekki fram á að notast verði við vothreinsun útblásturs frá rafskautaverksmiðju eina og sér enda myndi það auka verulega PAH mengun í sjó. Í Sunndal sé hins vegar vatn sem farið hefur í gegnum vothreinsun hreinsað aftur til að koma í veg fyrir að mengað vatn berist til sjávar. Náttúruverndarsamtökin telja að Hollustuvernd ríkisins hafi misskilið kæru þeirra hvað þetta varðar.

Að mati Náttúruverndarsamtakanna hefði skilyrði Skipulagsstofnunar um að ekki verði búseta innan þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hefst verið óþarft ef Sunndal aðferðinni hefði verið beitt þar sem hún hefði dregið verulega úr loftmengun.

Varðandi umsögn Reyðaráls hf. um virkni settjarna í Sunndal til hreinsunar á PAH segir í athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Íslands:

"Sé það svo að Sunndal aðferðin valdi óhóflegri mengun í sjó er undarlegt að Reyðarál skuli ekki hafa sýnt fram á það í matsskýrslu, t.d. með útreikningum. Slíka útreikninga mætti byggja á þeirri reynslu sem fengist hefur í Sunndal, þó takmörkuð sé. Og þeim upplýsingum sem liggja fyrir um virkni settjarna sem notaðar eru til þess að hreinsa PAH úr frárennsli Söderberg álvera en slíkar tjarnir hafa verið notaðar þar í mörg ár. Þó styrkur PAH í frárennsli Söderberg álvera, fyrir síun, sé mun hærri en sá búast má við í vatni frá hreinsivirkni rafskautaverksmiðju ætti áralöng reynsla af settjörnum í Noregi engu að síður að gefa góða vísbendingu um virkni slíkra tjarna."

Í athugasemdum Náttúruverndarsamtakanna segir einnig:

"Alþjóðlegir staðlar, s.s. PARCOM og MACT, eru lágmarkskröfur sem aðildarríki þurfa að uppfylla. Í alþjóðlegum stöðlum hefur verið tekið tillit til þess að gamlar aðferðir sem eru í umferð þurfa (af efnahagslegum ástæðum) að rúmast innan staðlanna. Alþingi Íslands hefur með lagasetningu, lög nr. 7/1998, gengið lengra og hefur með skýrum hætti skilgreint hvað felst í hugtakinu "besta fáanlega tækni". Sé til betri tækni en tilgreind er í alþjóðlegum stöðlum, s.s. PARCOM og MACT, ber skilyrðislaust að nýta hana enda er það vilji löggjafans.

2.2. Samfélagsleg áhrif

Að mati NAUST geta samfélagsleg áhrif af álverksmiðjunni orðið öll önnur og neikvæðari en gert er ráð fyrir í matsskýrslu Reyðaráls hf. og fylgiskýrslu Nýsis ehf. um mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði. Telur NAUST að NORAL-framkvæmdirnar ef af verður muni raska allri grunngerð atvinnulífs á Mið-Austurlandi og skaða mörg þeirra atvinnufyrirtækja sem þar hafa verið byggð upp síðustu áratugi. Á byggingartíma álvers og virkjunar og tengdra framkvæmda, muni skapast eins konar "gullgrafara-stemning" í þessum tiltölulega fámennu sveitarfélögum, er þúsundir aðkomumanna streyma inn á svæðið. Verðlag á vörum, þjónustu og húsnæði muni hækka mikið, svo og laun a.m.k. tímabundið. Telur NAUST ólíklegt að sá atvinnurekstur sem fyrir er fái staðist slíka holskeflu án mikilla skakkafalla. Afleiðingin gæti allt eins orðið fábreyttara þjóðfélag, sem að miklu leyti yrði háð fyrirhuguðu álveri. Engin vissa sé fyrir því að stóriðjuframkvæmdirnar muni leiða til nettófólksfjölgunar á Mið-Austurlandi að byggingartíma loknum. Áhrifin á önnur svæði í kjördæminu, m.a. Vopnafjörð og byggðir sunnan Fáskrúðsfjarðar, yrðu að líkindum neikvæð, en í matsskýrslu sé gert ráð fyrir umtalsverðu aðstreymi vinnuafls frá útjöðrum fjórðungsins. Þá telur NAUST að álverksmiðja verði til þess að skekkja enn frekar en orðið er hlutfallið á milli karla og kvenna á vinnumarkaði á Mið-Austurlandi, þar sem karlar eru nú 5% fleiri en konur. Einnig séu miklar líkur á að byggja þurfi í auknum mæli á erlendu vinnuafli í ýmsum greinum atvinnulífs á Austurlandi eftir tilkomu álvers, en í matskýrslu sé ekkert fjallað um nauðsynleg úrræði og kostnað við að auðvelda aðlögun að slíkum aðstæðum.

Í umsögn sinni vísar Skipulagsstofnun til bls. 134 í hinum kærða úrskurði. Þar segir m.a.:

"Á byggingartíma álvers í Reyðarfirði og hafnar við það verður mikil uppsveifla í atvinnulífi á Austurlandi. Þegar að rekstri álversins kemur telur Skipulagsstofnun að jákvæð áhrif verði fólgin í miklum fjölda nýrra starfa en hins vegar leiki meiri vafi á því hver áhrifin verði á aðrar atvinnugreinar sem verða þá í meiri samkeppni um vinnuafl.

Skipulagsstofnunn telur líklegt að rekstur álverksmiðju muni leiða til samþjöppunar byggðar á Austurlandi. Þannig muni byggð í Fjarðabyggð og öðrum sveitarfélögum á Mið-Austurlandi styrkjast, hugsanlega að hluta til á kostnað jaðarsvæða á Austurlandi.

Að mati Skipulagsstofnunar hefði mátt gera betur grein fyrir félagslegum áhrifum þess að mikill fjöldi aðkomufólks verður í Fjarðabyggð á byggingartíma álversins. Þá er einnig óljóst hvernig komið verður til móts við þörf á leiguhúsnæði til lengri eða skemmri tíma. Gengið er út frá því í matsskýrslu að sveitarfélögin og ríkisvaldið vinni að því í sameiningu að leysa það mál og ekki talin ástæða til að draga í efa að svo verði."

Í umsögn Reyðaráls hf. segir:

"Í bréfi Reyðaráls hf., dags. 27. júní 2001, vegna athugasemda frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, er bent á að umfjöllun um áhrif álvers á efnahag og samfélag byggi m.a. á gefnum forsendum um framtíðina og því ekki óeðlilegt að menn séu ekki á einu máli. Forsendur mats koma fram í matsskýrslu og fengu nákvæma umfjöllun í hinum kærða úrskurði. Þeim forsendum eða úrvinnslu þeirra hefur ekki verið hnekkt. Reyðarál hf. gerir ekki athugasemdir við það, þótt einstakir aðilar hafi aðra sýn á þessa hluti."

III.

Niðurstaða

1. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar

1.1. Rafskautaverksmiðja

Í kæru NAUST er því haldið fram að Skipulagsstofnun hafi borið að setja það skilyrði við mótun matsáætlunar framkvæmdaraðila að sérgreind matsáætlun og matsskýrsla yrði gerð um rafskautaverksmiðjuna eða henni væri a.m.k. haldið skýrt afmarkaðri í matsskýrslu að því er byggingu, rekstur og losun mengandi efna varðar.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum skulu þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lögin ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, en álver er matsskyld framkvæmd samkvæmt 5. tölul. 1. viðauka. Í 2. mgr 5. gr segir síðan: "Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði getur ráðherra, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega."

Í athugasemdum við 5. gr. frumvarps til laga um mat á umhverfisáhrifum segir: "Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra geti að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila ákveðið í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði að þær verði metnar sameiginlega. Þess háttar ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum. Varðandi stærri framkvæmdir getur verið um að ræða nokkrar matsskyldar framkvæmdir sem eru háðar hver annarri en á vegum ólíkra aðila, svo sem verksmiðja, höfn, vegur og veitur. Æskilegt getur verið að kynna og fjalla um þessar framkvæmdir samtímis."

Við mat á því hvort afla þurfi leyfis ráðherra skv. 2. mgr. 5. gr. þarf að mati ráðuneytisins að ákvarða hvort um eina eða fleiri framkvæmdir er að ræða. Eitt af því sem ræður miklu um þá niðurstöðu er það hvort um einn og sama framkvæmdaraðila er að ræða, sbr. framangreind umfjöllun í greinargerð með lögum nr. 106/2000, en einnig tilhögun framkvæmdarinnar að öðru leyti. Að mati ráðuneytisins er ekki rétt að skýra 2. mgr. 5. gr. þannig að ef skipta megi fyrirhugaðri framkvæmd upp í fleiri en eina matsskylda framkvæmd, þá beri að meta hvern hluta sérstaklega. Ákvæðið er eins og fram kemur einkum hugsað þegar um er að ræða framkvæmdir á vegum ólíkra aðila sem að jafnaði mundu ekki vinna mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sameiginlega. Það er einmitt talinn kostur að meta framkvæmdir saman þegar þær eru á sama framkvæmdasvæði og geta þannig valdið samverkandi áhrifum á umhverfið.

Af matskýrslu Reyðaráls hf. má ráða að fyrirhugað er að einn og sami framkvæmdaraðili byggi rafskautaverksmiðju og álver á sömu lóð og að rekstur þeirra verði sameiginlegur. Þar kemur einnig fram að framleiðsla rafskauta sé hluti af álframleiðsluferlinu og að álver af sambærilegri stærð framleiði yfirleitt rafskaut á staðnum. Fram kemur í matsskýrslu að ýmis hagræðing, bæði tæknileg og fjárhagsleg, fæst með því byggja og reka álver og rafskautaverksmiðju sem eina heild. Að mati ráðuneytisins er hér um svo nátengda starfsemi að ræða að fallast verður á að um eina framkvæmd sé að ræða þó að verksmiðjurnar séu tvær og því rétt að um hana sé fjallað í einu lagi í sömu matsskýrslu.

Í 2. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að í matskýrslu skuli tilgreina þau áhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir kann að hafa á umhverfi og samspil einstakra þátta í umhverfinu.

Í matsskýrslu er gerð grein fyrir magni mengunarefna í frárennsli og útblæstri frá álveri annars vegar og rafskautaverksmiðju hins vegar. Þynningarsvæði verksmiðjanna er afmarkað út frá heildarmagni mengunarefna og þannig metin uppsöfnuð og samvirk áhrif þeirra. Ráðuneytið telur matskýrslu Reyðaráls hf. geri með fullnægjandi hætti grein fyrir umhverfisáhrifum álvers og rafskautaverksmiðju sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000 og þar sem um eina og sömu framkvæmd er að ræða skuli þessir þættir metnir saman.

2. Umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar

2.1. Mengun lofts og sjávar

2.1.1. Almennt

Í matsskýrslu Reyðaráls hf. er birt áætluð losun mengunarefna frá álveri og rafskautaverksmiðju í andrúmsloft annars vegar og sjó hins vegar. Losunarmörk eru skilgreind í 8. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 786/1999, um mengunarvarnareftirlit sem mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Losunarmörk geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

Ísland er aðili að samningi um verndun Norðaustur-Atlantshafsins - OSPAR (París 1992), sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 15/1997. Á grundvelli OSPAR-samningsins og eldri samnings um verndun Norðaustur-Atlandshafsins (Oslóar- og Parísarsamningur - PARCOM) hefur verið gefinn út flokkur tilmæla um losunarmörk fyrir áliðnað í aðildarlöndunum (PARCOM Recommendations 92/1, 94/1, 96/1 og OSPAR Recommendation 98/2).

Fram kemur í matsskýrslu, úrskurði Skipulagsstofnunar og umsögn Hollustuverndar ríkisins að fyrirhuguð losun Reyðaráls hf. mun uppfylla viðmið PARCOM um losunarmörk fyrir álver.

Loftdreifingarspár byggjast á áætlaðri losun frá álveri og rafskautaverksmiðju, veðurfarsrannsóknum og landfræðilegum aðstæðum. Út frá loftdreifingarspá er þynningarsvæði framkvæmdarinnar á landi afmarkað. Þynningarsvæði er skilgreint í 20. mgr. 3. gr. reglugerðar um mengunarvarnareftirlit sem sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum. Umhverfismörk eru skilgreind í 15. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sem mörk sem óheimilt er að fara yfir í tilteknu umhverfi á tilteknum tíma og sett eru til að takmarka mengun umhverfis á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum mengunar á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess, svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk.

Dreifing mengunarefna í sjó tekur mið af áætlaðri losun mengunarefna í frárennsli, straumum og umhverfisþáttum sjávar í Reyðarfirði og tekur stærð þynningarsvæðis í sjó mið af þessum þáttum.

2.1.2. Veðurfar og landfræðilegar aðstæður

NAUST telur í kæru sinni að vegna landfræðilegra aðstæðna og veðurskilyrða sé ekki heppilegt að byggja og reka álver í Reyðarfirði. Jafnframt telja samtökin að veðurfarsrannsóknir, sem m.a. eru notaðar til að afmarka þynningarsvæði álversins á landi, séu ófullnægjandi.

Útreikningar á loftdreifingu mengandi efna frá fyrirhuguðu álveri og rafskautaverksmiðju Reyðaráls hf. byggja á veðurmælingum í Reyðarfirði árin 1998-2000. Fram kemur í umsögnum Veðurstofu Íslands, Skipulagsstofnunar og Hollustuverndar ríkisins að ekki sé útilokað að skapast geti óhagstæðari veðurskilyrði en þau ár sem lögð eru til grundvallar loftdreifingarspám í matsskýrslu. Á þetta sérstaklega við um skammtímastyrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti. Í úrskurði Skipulagsstofnunar eru taldar töluverðar líkur á því að styrkur brennisteinsdíoxíðs geti náð heilsuverndarmörkum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 1999/30/EB, um viðmiðunargildi fyrir brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð og efnisagnir og blý í andrúmsloftinu, á þynningarsvæði verksmiðjunnar en innan þess eru býlin Framnes og Hólmar. Af þessari ástæðu setti Skipulagsstofnun það skilyrði í úrskurði sínum að ekki yrði heimiluð búseta innan skilgreinds þynningarsvæðis álvers og rafskautaverksmiðju eftir að rekstur hefst.

Að mati ráðuneytisins eru fyrirliggjandi veðurgögn fullnægjandi til að gera varfærna loftmengunarspá fyrir fyrirhugaða framkvæmd og ákvarða mörk þynningarsvæðis. Nauðsynlegt er hins vegar að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis og sannreyna þannig hvort loftmengunarspáin gengur eftir. Slík vöktun fellur undir ákvæði starfsleyfis Reyðaráls hf. sem Hollustuvernd ríkisins hefur til meðferðar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

2.1.3. Mengunarefni í útblæstri og frárennsli frá álveri og rafskautaverksmiðju

NAUST telur að fyrirhugað álver og rafskautaverksmiðja við Reyðarfjörð muni hafa í för með sér mikla mengun á stóru svæði og það muni hafa mikil áhrif á landnotkun. Jafnframt benda samtökin á að innri mörk þynningarsvæðis á landi séu aðeins í um 1 km fjarlægð frá þéttbýlinu á Reyðarfirði.

2.1.3.1. Þynningarsvæði á landi

Í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar kemur fram að niðurstöður útreikninga á dreifingu mengunarefna í lofti leiði í ljós að skammtímagildi fyrir brennisteinsdíoxíð miðað við íslensk viðmiðunarmörk og tilskipun Evrópusambandsins ásamt langtímagildi flúoríðs og PAH hafi mestu dreifinguna og séu því ráðandi við ákvörðun á umfangi þynningarsvæðis.

1. Flúoríð (F)

Samkvæmt matskýrslu verður losun heildarflúoríðs um 70 t á ári frá 1. áfanga álvers og um 105 t frá 1. og 2. áfanga. Að auki verður losun heildarflúoríðs frá 1. áfanga rafskautaverksmiðju 0,6 t á ári og 0,83 t frá 1. og 2. áfanga. Stefnt er að því að útstreymi heildarflúoríðs fari að meðaltali ekki yfir 0,25 kg á hvert framleitt tonn af áli.

Í reglugerð nr. 787/1999, um loftgæði eru ekki tilgreind umhverfismörk fyrir flúoríðmengun í lofti. Í starfsleyfum annarra álvera á Íslandi hefur Hollustuvernd ríkisins tekið mið af norskum viðmiðunarmörkum fyrir mengun beitargróðurs, þ.e. 0,3 µg/m³ fyrir loftborið flúoríð á vaxtartíma gróðurs. Í sérfræðiáliti í viðauka A5 með matsskýrslu er mælt með að tekið sé mið af 0,2 µg/m³ gróðurverndarmörkum þar sem mosagróður, sem er viðkvæmur fyrir flúormengun, sé ríkjandi á svæðum umhverfis álverið.

Í matsskýrslu eru sýndar niðurstöður loftdreifingarútreikninga miðað við 0,2 og 0,3 µg/m³. Lægri mörkunum (0,2 µg/m³) verður mætt innan þynningarsvæðis fyrir 1. og 2. áfanga álvers í áttina að friðlandinu í Hólmanesi og í áttina til fjalls. Í áttina að þéttbýlinu við Reyðarfjörð verður styrkur loftborins flúoríðs yfir þessum mörkum á 0,5 km breiðu belti utan þynningarsvæðis.

2. Brennisteinsdíoxíð (SO2)

Samkvæmt matskýrslu verður losun brennisteinsdíoxíðs um 125 t á ári frá 1. áfanga álvers og um 190 t frá 1. og 2. áfanga. Að auki verður losun brennisteinsdíoxíðs frá 1. áfanga rafskautaverksmiðju 479 t á ári og 638 t frá 1. og 2. áfanga. Stefnt er að því að útstreymi brennisteinsdíoxíðs fari að meðaltali ekki yfir 2,17 kg á hvert framleitt tonn af áli.

Eins og fram kemur í úrskurði Skipulagsstofnunar þá eru umhverfismörk fyrir brennisteinsdíoxíð í lofti skilgreind í reglugerð nr. 790/1999, um brennisteinsdíoxíð og svifryk í lofti. Umhverfismörkin eru samkvæmt reglugerðinni 30 µg/m³ fyrir ár eða vetur (langtímagildi) og 50 µg/m³ fyrir sólarhring (skammtímagildi). Samkvæmt reglugerðinni skulu mörk fyrir sólarhring eða skemmri tíma vera undir umhverfismörkum í 98%tilvika á ári, þ.e. 7 daga á ári má sólarhringsgildið vera hærra en þessi mörk utan þynningarsvæðis. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/30/EB eru vistkerfismörk fyrir langtímastyrk brennisteinsdíoxíðs lægri eða 20 µg/m³. Samkvæmt tilskipuninni eru heilsuverndarmörk fyrir sólarhringsstyrk brennisteinsdíoxíðs 125 µg/m³ og má sólarhringsgildið í 0,8% tilvika, eða 3 daga á ári, vera hærra en þessi mörk.. Heilsuverndarmörk fyrir klukkustundarstyrk brennisteinsdíoxíðs eru 350 µg/m³ en heimilt er að fara yfir þau mörk í 24 klst á ári eða 0,3% tilvika. Tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/30/EB um viðmiðunargildi fyrir brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð og efnisagnir og blý í andrúmsloftinu, hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Tekur ráðuneytið því undir það álit Skipulagsstofnunar að þar sem ákvæði tilskipunarinnar muni taka gildi á Íslandi áður en ráðgert er að rekstur álvers Reyðaráls hf. hefjist, þá sé rétt að taka tillit til umhverfismarka tilskipunarinnar, svo sem gert er í matsskýrslu.

Útreikningar í matsskýrslu sýna að íslensk umhverfismörk fyrir sólarhringsstyrk SO2 (50µg/m³ í 98% tilfella) og viðmiðunarmörk Evrópusambandsins fyrir klukkustundargildi (350 µg/m³ í 99,7% tilfella) munu liggja hvað lengst frá álverinu. Í 1. og 2. áfanga álvers er umhverfismörkum fyrir sólarhringsstyrk náð í 2,5 km fjarlægð frá álverinu í átt að þéttbýlinu við Reyðarfjörð og í sem nemur 2,9 km í átt að Hólmanesi. Mörkum fyrir klukkustundargildi er náð í 2,4 km fjarlægð frá álverinu í átt að þéttbýlinu við Reyðarfjörð og 2,5 km í átt að Hólmanesi.

3. Fjölhringa arómatísk kolefnissambönd (PAH-efni)

Samkvæmt matskýrslu verður losun PAH-efna um 15 kg á ári frá 1. áfanga álvers og um 22 kg frá 1. og 2. áfanga. Losun PAH-efna frá 1. áfanga rafskautaverksmiðju verður 1,46 t á ári og 1,95 t frá 1. og 2. áfanga. Stefnt er að því að útstreymi PAH-efna verði að meðaltali ekki yfir 0,0053 kg á hvert framleitt tonn af áli frá 1. áfanga álvers og ekki yfir 0,0047 kg á hvert framleitt tonn af áli frá 1. og 2. áfanga.

Í reglugerð nr. 797/1999 eru PAH-efni á skrá yfir loftmengunarefni sem tekið skal tillit til við mat og stjórn á loftgæðum. Loftgæðamörk fyrir PAH-efni eru hinsvegar ekki ákveðin í íslenskum reglum. Slík mörk eru mismunandi milli landa og miða öll við styrk B(a)P. Almennt eru þau á bilinu 0,1-1,0 ng/m³ fyrir ársmeðaltal en umreiknuð fyrir PAH á bilinu 0,01-0,1 µg/m³.

Útreikningar í matsskýrslu sýna að ströngustu viðmiðunargildi fyrir PAH-efni (0,01 µg/m³) falla innan þynningarsvæðisins.

4. Þynningarsvæði á landi

Á mynd 18.14. í matsskýrslu Reyðaráls er að finna tillögu að þynningarsvæði fyrir 1. og 2. áfanga álvers, þar sem tekið er mið af framangreindum umhverfismörkum. Austurmörk svæðisins markast af útlínum friðlandsins í Hólmanesi í austri, upp að byggðarlínu og rétt norðan við hana, þá meðfram henni til vesturs þar til komið er að Sómastöðum. Þaðan liggur bein lína að stað sem er í 175 m y.s. í stefnu upp frá Hagalæk og síðan niður með honum til sjávar. Hagalækur og friðlandið í Hólmanesi eru í um 2,6 km fjarlægð, hvort í sinni áttinni frá kerskálunum og er þynningarsvæðið samtals um 6,0 km2.

Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar á loftgæði hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni. Vegna nálægðar við byggð og þeirrar staðreyndar að ekki er útilokað að skapast geti óhagstæðari veðurskilyrði en lögð eru til grundvallar loftdreifingarspám, sbr. kafli 2.1.2. hér að framan, leggur ráðuneytið áherslu á að fylgst verði með styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis og settar verði viðeigandi kröfur um það í starfsleyfi verksmiðjunnar.

2.1.3.2. Þynningarsvæði í sjó

Tillaga Reyðaráls hf. að þynningarsvæði í sjó er miðuð við kröfur í norskum viðmiðunarreglum fyrir styrk PAH og B(a)P í seti, enda er talið að umhverfisáhrif þessara efna sé mest af þeim efnum sem finnast í frárennsli álversins.

Samkvæmt matsskýrslu er áætlað að um 16,7 kg. af PAH muni streyma til sjávar með frárennsliskerfi á ári frá 1. áfanga álvers og um 25 kg frá 1. og 2. áfanga. Þynningarsvæðið mun ná yfir um 500 m breitt belti meðfram ströndinni framundan iðnaðar- og hafnarsvæðinu.

Við umfjöllun ráðuneytisins um áhrif framkvæmdarinnar á sjó og mengun sjávar hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að fyrirhuguð framkvæmd fari í bága við lög, reglur eða alþjóðasamninga og því sé ekki tilefni vegna þeirra áhrifa að leggjast gegn framkvæmdinni. Að mati ráðuneytisins er rétt að vakta styrks PAH-efna í lofti, ákomu PAH-efna á jörð og afrennsli í sjó og uppsöfnun í sjávarseti og lífverum innan sem utan skilgreindra þynningarsvæða eins og kveðið er á um í úrskurði Skipulagsstofnunar.

2.1.3. Gróðurhúsalofttegundir

NAUST gagnrýnir þá aukningu á losun gróðurhúsalofttegundum sem fyrirhugað álver í Reyðarfirði mun hafa í för með sér og að ekki sé gert ráð fyrir neinum mótvægisaðgerðum af hálfu Reyðaráls hf. Að mati samtakana eru þær losunarheimildir sem fást með undanþáguákvæði ("íslenska ákvæðið") í Kyoto-ferlinu bundnar skilyrðum, m.a. að bestu fáanlegu tækni sé beitt, sem fyrirhuguð framkvæmd uppfylli ekki.

Ísland hefur fullgilt Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og þar með skuldbundið sig til að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda af manna völdum. Árið 1997 var samþykkt svokölluð Kyoto-bókun við rammasamninginn. Hún felur í sér lagalega bindandi losunarmörk fyrir aðildarríki á fyrsta fimm ára skuldbindingartímabili bókunarinnar 2008-2012. Útfærslu Kyoto bókunarinnar lauk á 7. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í nóvember 2001. Við þá útfærslu var m.a. tekið á sérstöðu Íslands og annarra smærri ríkja varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa með sérákvæði. Þannig er ákveðið að koltvíoxíðlosun frá iðnaðarferlum í tilteknu iðjuveri sem leiðir til meira en 5% aukningar í koltvíoxíðlosun einstaks ríkis verði haldið utan við losunarmörk Kyoto bókunarinnar með tilteknum skilyrðum. Skilyrðin eru í fyrsta lagi að heildarlosun viðkomandi ríkis hafi ekki verið meiri en 0,05% af heildarlosun iðnríkjanna árið 1990, í öðru lagi að endurnýjanlegir orkugjafar séu notaðir til framleiðslu þeirrar orku sem notuð er í iðjuverinu og í þriðja lagi að besta fáanlega tækni sé notuð og bestu umhverfisverndaraðgerða gætt við framleiðsluna. Ákveðið hámark losunar er á þessu sérákvæði hvað varðar losun á koltvíoxíði frá nýrri stóriðju og er hámarkið miðað við 1,6 miljónir tonna á ári að meðaltali á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar á árabilinu 2008-2012.

Áætluð losun Reyðaráls hf. á gróðurhúsalofttegundum (CO2-ígildi) frá 1. áfanga álvers og rafskautaverksmiðju er 521.000 t/ár en 768.000 t/ár frá 1. og 2. áfanga. Að mati ráðuneytisins fellur áætluð losun Reyðaráls hf. undir framangreint sérákvæði og framkvæmdin mun að öðru leyti fullnægja umræddum skilyrðum ákvæðisins.

2.1.4. Mengunarvarnir

Bæði NAUST og Náttúruverndarsamtök Íslands halda því fram í kæru sinni að við mengunarvarnir í fyrirhugaðri rafskautaverksmiðju Reyðaráls hf. í Reyðarfirði sé ekki gerð krafa um að notuð verði besta fáanlega tækni, eins og áskilið sé í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Aðeins verði um að ræða þurrhreinsun í stað þriggja þrepa hreinsitækni, þar sem eftir þurrhreinsun komi vothreinsun og síðan hreinsun á vatni frá vothreinsuninni.

Hugtökin "besta fáanlega tækni" eru skilgreind í 6. mgr. 3. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar segir: "Með bestu fáanlegri tækni er átt við framleiðsluaðferð og tækjakost sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins, svo og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins."

Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir segir m.a: "Lögð er til skilgreining á hugtakinu besta fáanlega tækni, "Best Available Techniques" (BAT). Hér er í fyrsta skipti í löggjöf, svo vitað sé, lagt til að krafan um bestu fáanlegu tækni verði lögfest með beinum hætti. Skilgreiningin er í samræmi við skilgreiningu í tilskipun ráðsins nr. 96/61/EB sem fjallar um mengunarvarnir. Þessi ákvæði er einnig efnislega að finna í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, t.d. í 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 37. gr. reglugerðarinnar."

Að mati ráðuneytisins ber framangreind tilvitnun með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að hugtökin "besta fáanlega tækni" væru skýrð með öðrum hætti í íslenskum rétti en evrópskum. Tilskipun nr. 96/61/EB, um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun (nefnd IPPC-tilskipun, integrated pollution prevention and control) hefur verið tekin upp í EES samninginn og hefur því lagagildi hér á landi. Á grundvelli tilskipunarinnar starfar Evrópuskrifstofa fyrir samþættar mengunarvarnir (European IPPC Bureau) sem gefið hefur út viðmiðanir (svokallað BREF) um bestu fáanlega tækni, m.a. í áliðnaði.

Jafnframt er Ísland aðili að samningi um verndun Norðaustur-Atlantshafsins - OSPAR (París 1992), sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 15/1997. Í tilmælum sem gefin hafa verið út á grundvelli OSPAR- og áður PARCOM-samningsins eru viðmiðanir um bestu fáanlega tækni og losunarmörk fyrir áliðnað í aðildarlöndunum (PARCOM Recommendations 92/1, 94/1, 96/1 og OSPAR Recommendation 98/2).

Að mati ráðuneytisins ber að skýra hugtakið "besta fáanlega tækni" í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim með hliðsjón af framangreindum alþjóðlegum viðmiðum.

Í matskýrslu Reyðaráls hf. og umsögnum Hollustuverndar ríkisins og Skipulagsstofnunar kemur fram að auk framangreindra viðmiða hefur verið höfð hliðsjón af Bandarískum viðmiðum, svokölluðum MACT (Maximum Achievable Control Technology) við hönnun mengunarvarnarbúnaðar fyrir álver og rafskautaverksmiðju Reyðaráls hf.

Í kærum er það gagnrýnt að Reyðarál hf. ætli ekki að nota sambærilegar mengunarvarnir og notaðar eru í álveri Norsk Hydro í Sunndal í Noregi. Í Reyðarfirði er gert ráð fyrir að álver verði búið vot- og þurrhreinsibúnaði og rafskautaverksmiðja verði búin þurrhreinsibúnaði. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem álver á Íslandi er búið vothreinsibúnaði. Í Sunndal mun rafskautaverksmiðja að auki vera búin slíkum vothreinsibúnaði.

Eins og fram kemur í kafla II., undirkafla 2.1.5. hreinsar þurrhreinsibúnaður stærsta hluta flúoríðs, ryks og PAH-efna úr útblásturslofti en brennisteinsdíoxíð sleppur í gegn. Vothreinsibúnaður dregur mikið úr magni brennisteinsdíoxíðs í útblæstri auk þess að draga úr magni svifryks, flúoríðs og PAH-efna. Með því að bæta vothreinsun við rafskautaverksmiðju mætti draga úr magni brennisteinsdíoxíðs og PAH-efna í útblæstri. Eins og fram kemur í umsögnum hefur þessi hreinsun þann ókost í för með sér að streymi PAH-efna til sjávar eykst, þar sem vatni úr vothreinsivirki er veitt til sjávar. Í Sunndal mun vatn úr vothreinsun vera hreinsað í settjörnum áður en því er veitt til sjávar.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, kemur fram að við gerð starfsleyfa skuli gerð krafa um samþættar mengunarvarnir og huga að því að ráðstafanir sem gerðar eru til þess að draga úr tiltekinni mengun umhverfis valdi ekki aukinni mengun annars staðar. Í framangreindri skilgreiningu laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, á hugtakinu besta fáanlega tækni segir að með bestu sé átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins. Tilskipun nr. 96/61/EB byggir á því að besta fáanlega tækni taki m.a. mið af umhverfisaðstæðum á hverjum stað. Af þessum ákvæðum er ljóst að við mat á kostum þess að bæta vothreinsibúnaði við rafskautaverksmiðju Reyðaráls hf. verður að taka mið af umhverfisaðstæðum í Reyðarfirði.

Sýnt þykir að þó að útblástur brennisteinsdíoxíðs og PAH-efna mundi minnka með slíkum vothreinsibúnaði rafskautaverksmiðju, mundi umfang þynningarsvæðis á landi ekki minnka sem því næmi, þar sem magn loftborins flúoríðs sem að mestum hluta kemur frá álverinu ræður einnig umfangi þynningarsvæðisins. Magn PAH-efna í útblæstri frá 1. áfanga rafskautaverksmiðju er um 1,46 t á ári og 1,95 t á ári frá 2. áfanga. Magn PAH-efna í frárennsli er miklu minna eða 16,7 kg frá 1. áfanga og 25 kg frá 1. og 2. áfanga. Ekki liggur fyrir hver virkni vothreinsibúnaðar ásamt hreinsunarbúnaði fyrir vatn úr vothreinsun getur verið. Jafnvel þó að vatn frá vothreinsibúnaði væri hreinsað áður en því væri veitt út í sjó þá er ljóst að magn PAH-efna í frárennsli mundi aukast töluvert með tilheyrandi stækkun þynningarsvæðis í sjó. Ráðuneytið telur slíkt fyrirkomulag ekki til bóta þegar metin eru umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í heild.

Að mati ráðuneytisins uppfyllir Reyðarál hf. ákvæði íslenskra laga og reglugerða og alþjóðlegra viðmiðana um notkun bestu fáanlegrar tækni í álveri og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði. Ráðuneytið telur engin efni til að krefjast þess af Reyðaráli hf. að notuð verði óvirk rafskaut ("inert anode technology") í álveri í Reyðarfirði, enda er sú tækni enn í þróun.

2.1.5. Niðurstaða

Að mati ráðuneytisins eru fyrirliggjandi veðurgögn fullnægjandi til að gera varfærna loftmengunarspá fyrir fyrirhugaða framkvæmd en ráðuneytið telur mikilvægt að styrkur brennisteinsdíoxíðs í lofti innan og utan þynningarsvæðis verði vaktaður. Ráðuneytið telur, með hliðsjón af umsögn Hollustuverndar ríkisins, ekki efni til að verða við kröfu Náttúruverndarsamtaka Íslands um að Reyðarál hf. leggi fram frekari gögn um mengunarvarnir við álver í Sunndal í Noregi.

Að mati ráðuneytisins uppfylla áætlanir og mengunarvarnir Reyðaráls hf. ákvæði íslenskra laga og reglugerða og alþjóðlegra viðmiðana sem gilda hér á landi um losunar- og umhverfismörk og fellst ráðuneytið á afmörkun þynningarsvæðis á sjó og landi. Ráðuneytið leggur áherslu á að eftirlit með því að áætlanir Reyðaráls hf. gangi eftir er viðfangsefni starfsleyfis, sbr. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í slíkum starfsleyfum er kveðið á um mengunarvarnir rekstrar og vöktun. Þau eru gefin út til tiltekins tíma og er heimilt að endurskoða þau ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búast mátti við eða breytingar verða á bestu fáanlegri tækni, sbr. 12. og 21. gr. reglugerðarinnar.

Að mati ráðuneytisins hefur ekkert komið fram um umhverfisáhrif af völdum mengunar á landi eða sjó sem gefur tilefni til að leggjast gegn framkvæmdinni. Ráðuneytið telur með hliðsjón af ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og því sem hér hefur verið rakið ekki skilyrði til að kveða á um tímabundið leyfi fyrir rafskautaverksmiðju eins og krafist er í kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands.

2.2. Samfélagsleg áhrif

Að mati NAUST geta samfélagsleg áhrif af álverksmiðjunni orðið öll önnur og neikvæðari en gert er ráð fyrir í matsskýrslu Reyðaráls hf. og fylgiskýrslu Nýsis ehf. um mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum álvers í Reyðarfirði.

Í úrskurði ráðuneytisins 20. desember 2001, sem varðaði mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar, var komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum beri ekki að fjalla um þjóðhagsleg áhrif framkvæmdar og arðsemi hennar við mat á umhverfisáhrifum og verður því ekki fjallað um þau atriði hér.

Eins og fram kemur í j-lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum fellur samfélag, menning og atvinna undir mat á umhverfisáhrifum. Með tilliti til samfélagslegra áhrifa skipta eftirfarandi fjórir þættir meginmáli.

1. Áhrif á íbúafjölda. Frá byggðasjónarmiði skipta þessi áhrif mestu máli. Vinnuaflsþörf vegna framkvæmda við byggingu 1. áfanga fyrirhugaðs álvers og nýrrar hafnar er um 2000 ársverk á um þremur árum. Samkvæmt matsskýrslu er gert ráð fyrir að rekstur 1. áfanga álvers muni skapa um 455 ársverk og 2. áfangi að auki 154 ársverk, eða um 610 ársverk alls. Þá eru óbein og afleidd áhrif talin skapa um 400 ársverk til viðbótar. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun munu að hluta til fara fram á byggingartíma álvers í Reyðarfirði og flutningshafnar fyrir verksmiðjuna. Má því gera ráð fyrir mikilli tímabundinni uppsveiflu í atvinnulífi á Austurlandi. Áætlanir gera ráð fyrir að aukinni vinnuaflsþörf á framkvæmdatíma verði að stórum hluta mætt með aðfluttu vinnuafli. Þegar að rekstri álvers kemur mun varanlegum störfum á svæðinu fjölga töluvert.

Líklegt verður að teljast að rekstur álverksmiðju muni leiða til samþjöppunar byggðar á Austurlandi. Þannig muni jákvæðra áhrifa gæta mest í Fjarðabyggð og öðrum sveitarfélögum á Mið-Austurlandi, hugsanlega á kostnað jaðarsvæða á Austurlandi.

2. Áhrif á félagslega samsetningu. Gera má ráð fyrir að einhver þessara nýju starfa verði unnin af yngra fólki og þá líklega fólki með fjölskyldur. Má því gera ráð fyrir að fjölskyldufólk flytjist annaðhvort tímabundið eða varanlega til svæðisins.

3. Þörf fyrir nýja þjónustu. Aukinn íbúafjöldi og að einhverju marki breytt aldurssamsetning íbúa kallar á aukið húsnæðisframboð og aukna þjónustu sveitarfélaga og annarra aðila. Einnig má ætla að verslun aukist og samgöngur batni, bæði vegna framkvæmdanna sjálfra sem og vegna aukins íbúafjölda.

4. Áhrif á menningu. Mat á þessum þætti felur óhjákvæmilega í sér töluverða óvissu. Þó má ætla að með auknum íbúafjölda og breyttri félagslegri samsetningu eflist ýmis menningartengd starfsemi.

Það er niðurstaða ráðuneytisins að samfélagsleg áhrif framkvæmda við álver í Reyðarfirði séu í heild jákvæð.

2.3 Heildarniðurstaða

Að öllu metnu er það niðurstaða ráðuneytisins að umhverfisáhrifum allt að 420 þús. tonna álvers og 233 þús. tonna rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði hafi verið lýst á fullnægjandi hátt í matsskýrslu framkvæmdaraðila og úrskurði Skipulagsstofnunar. Helstu umhverfisáhrif verksmiðjunnar tengjast mengun vegna starfseminnar og ber að tryggja í starfsleyfi fyrir verksmiðjuna sem nú er í vinnslu að uppfyllt verði öll skilyrði laga og reglna um losunarmörk og gæðaviðmið viðtaka. Það er því viðfangsefni Hollustuverndar ríkisins við útgáfu starfsleyfis Reyðaráls hf. að kveða á um mengunarvarnir og eftirlit með því að áætlanir Reyðaráls hf. sem fram koma í matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar gangi eftir. Með vísan til framangreinds ber ekki að taka til greina kröfur kærenda og er því úrskurður Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2001 staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2001 er staðfestur.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum