Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 1. júlí 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn Barnavernd Reykjavíkur vegna synjunar um aðgang að gögnum um dóttur hans, B, nr. 14/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með tölvubréfi 4. júní 2015 skaut A, ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 21. maí 2015, vegna synjunar beiðni kærenda um aðgang að gögnum er varða dóttur hans B. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var beiðni hans synjað.

Kærandi krefst þess að kærunefnd barnaverndarmála taki afstöðu til neitunar Barnaverndar Reykjavíkur frá 21. maí 2015 um að afhenda kæranda gögn varðandi dóttur hans. Krefst kærandi þess að fá afrit af niðurstöðu könnunar Barnaverndar Reykjavíkur sem fór fram 2015 og einnig krefst kærandi þess að fá afrit af skjölum og gögnum málsins eða í það minnsta að kynna sér gögnin eins og 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 mæli fyrir um.

I. Helstu málavextir

Stúlkan B er átta ára gömul. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X var móður stúlkunnar einni falin forsjá hennar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X var kæranda og barnsmóður hans dæmd sameiginleg forsjá B til átján ára aldurs hennar og var lögheimili ákveðið hjá kæranda.

Með beiðni 9. apríl 2015 óskaði kærandi eftir ljósriti af öllum gögnum varðandi B frá því að kærandi sendi tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur 27. apríl 2014. Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til kæranda 21. maí 2015 var honum tilkynnt að Barnavernd gæti ekki orðið við beiðninni en henni var synjað þar sem hún laut að tímabili er kærandi fór ekki með forsjá stúlkunnar. Í ákvörðuninni kemur fram að þar sem kærandi fór ekki með forsjá stúlkunnar frá 23. júlí 2013 til 6. mars 2015 sé ekki unnt að veita aðgang að gögnum málsins sem urðu til í málinu yfir fyrrgreint tímabil. Áður höfðu kæranda verið afhent gögn í málinu með bréfi 18. júní 2013 sem orðið höfðu til í máli stúlkunnar enda fór kærandi þá með sameiginlega forsjá stúlkunnar. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að óski kærandi eftir munnlegum upplýsingum á grundvelli 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 um mál stúlkunnar fyrir 6. mars 2015 sé sjálfsagt að verða við þeirri ósk, t.a.m. með viðtali þar sem farið yrði yfir þær upplýsingar sem liggi fyrir í málinu.

II. Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að öllum gögnum er varða dóttur hans frá 27. apríl 2014 og synjun Barnaverndar Reykjavíkur um þann aðgang.

Í 45. gr. barnaverndarlaga er fjallað um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls. Þar segir í 1. mgr. að barnaverndarnefnd skuli með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Í athugasemdum sem fylgdi frumvarpi til barnaverndarlaga segir að þessi regla sé byggð á því sjónarmiði að almennur aðgangur að upplýsingum og umráð skjala máls sé nauðsynlegur liður í því að aðili geti gætt andmælaréttar síns. Réttur kæranda til aðgangs að gögnum á grundvelli 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga er því takmarkaður á þennan hátt og háður því skilyrði að um ákveðið mál sé að ræða sem til úrlausnar sé hjá barnaverndarnefnd. Eins og mál þetta er lagt fyrir kærunefndina verður ekki séð að mál er varðar dóttur kæranda sé til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni. 

Um aðgang aðila að upplýsingum hjá stjórnvöldum er fjallað í III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012 en gögn málsins bera ekki með sér að afstaða hafi verið tekin til þess af hálfu Barnaverndar eða barnaverndarnefndar Reykjavíkur hvort kærandi kunni að eiga rétt til aðgangs að gögnum á grundvelli annarra laga en barnaverndarlaga eða barnalaga.

Í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að ekki hefur verið kveðinn upp slíkur úrskurður af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur varðandi þá kröfu kæranda sem hér er til meðferðar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga er hlutverk kærunefndar barnaverndarmála afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til hennar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum.   

Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið verður ekki séð að fyrir liggi úrskurður eða ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem kæranleg er til kærunefndar barnaverndarmála á grundvelli barnaverndarlaga. Samkvæmt því ber að vísa kæru kæranda frá kærunefndinni.

 

Úrskurðarorð

Kæru A vegna synjunar Barnaverndar Reykjavíkur um aðgang að gögnum er varða dóttur hans, B, er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira