Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 13/2016: Dómur frá 30. mars 2017

Sjúkraliðafélag Íslands gegn Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu f.h. Eirar, hjúkrunarheimilis.

Ár 2017, fimmtudaginn 30. mars, er í Félagsdómi í málinu nr. 13/2016.                                        

Mál nr. 13/2016:

Sjúkraliðafélag Íslands

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu f.h.

Eirar, hjúkrunarheimilis

(María Hrönn Guðmundsdóttir hdl.)

kveðinn upp svofelldur

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 24. febrúar sl.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Bergþóra Ingólfsdóttir og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Sjúkraliðafélag Íslands, Grensásvegi 16 í Reykjavík.

Stefndi er Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Suðurlandsbraut 66, Reykjavík, f.h. Eirar hjúkrunarheimilis, Hlíðarhúsum 7, Reykjavík, sbr. úrskurð Félagsdóms 23. janúar 2017.

       

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krafðist þess í öndverðu aðallega að viðurkennt yrði með dómi Félagsdóms að sjúkraliðar, sem starfa við heimahjúkrun íbúa í öryggisíbúðum á vegum Eirar húkrunarheimilis, að Eirarhúsum og Eirborgum í Reykjavík og Eirhömrum í Mosfellsbæ, eigi rétt á tveggja launaflokka hækkun til viðbótar grunnröðun, samkvæmt stofnanasamningi aðila. Til vara krafðist stefnandi þess að viðurkennt yerði með dómi Félagsdóms að stefndi hafi brotið gegn 3. grein stofnanasamnings aðila með því að raða ekki sérstaklega störfum sjúkraliða, sem starfa við heimahjúkrun íbúa í öryggisíbúðum á vegum Eirar hjúkrunarheimilis, að Eirarhúsum og Eirborgum í Reykjavík og Eirhömrum í Mosfellsbæ. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

Með úrskurði Félagsdóms 23. janúar 2017 var aðalkröfu stefnanda vísað frá dómi, en því hafnað að vísa varakröfu frá dómi. Er varakrafa stefnanda því einungis til umfjöllunar í dómi þessum.

 

Dómkröfur stefnda

Að gegnum úrskurði Félagsdóms 23. janúar 2017 gerir stefndi, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu f.h. Eirar hjúkrunarheimils, kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

 

Málavextir

Stefnandi er stéttarfélag sjúkraliða á Íslandi. Stefndi, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), eru samtök fyrirtækja sem fullnægja ákvæðum 16. og 22. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og eru sjálfseignarstofnanir í eigu félagasamtaka, einkaaðila eða sveitarfélaga. Koma samtökin m.a. fram fyrir hönd aðildarfélaga við kjarasamningsviðræður við stéttarfélög ef þau óska eftir því. Stefndi, Eir hjúkrunarheimili, er aðili að stefnda SFV. Fram kemur í greinargerðum stefndu að SFV hafi undirritað kjarasamninga og stofnanasamninga fyrir hönd stefnda Eirar.

Í málinu hafa verið lagðir fram þrír kjarasamningar milli stefnanda og stefnda SFV. Sá elsti er dagsettur 8. júní 2011 og með gildistíma frá 1. maí 2011 til 30. apríl 2014. Eftir að gildistíma hans lauk tók við kjarasamningur, dags. 22. maí 2014, með gildistíma frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015. Núgildandi kjarasamningur, dags. 8. janúar 2016, er með gildistíma frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019. Síðari tveir kjarasamningarnir fólu í sér framlengingu á meginefni elsta kjarasamningsins með ákveðnum breytingum.

Í 11. gr. framangreindra kjarasamninga er fjallað um markmið, gerð og framkvæmd stofnanasamninga. Þar kemur fram að stofnanasamningur sé hluti af kjarasamningi. Með gerð slíks samnings er samið um röðun starfa í launaflokka. Í grein 11.3.2.1 í núgildandi kjarasamningi er kveðið á um að röðun miðist við að um viðvarandi/stöðugt verksvið sé að ræða og skuli skilgreiningar starfaflokkunar Hagstofunnar hafðar til hliðsjónar. Þar skuli fyrst og fremst metin þau verkefni og ábyrgð sem í starfinu felast auk þeirrar færni sem þurfi til þess að geta sinnt starfinu. Þá skuli litið til þess hvar starf er staðsett innan skipurits stofnunar eða annars formlegs starfsskipulags.

Í málinu hafa verið lagðir fram þrír stofnanasamningar er taka til starfsemi stefnda Eirar. Í fyrsta lagi liggur frammi stofnanasamningur stefnanda og forsvarsmanna Eirar og Skjóls, dags. 4. janúar 2007. Í samningnum kemur fram að hann byggi á kjarasamningi forsvarsmanna Eirar og Skjóls annars vegar og stefnanda hins vegar, dags. 24. nóvember 2005. Í öðru lagi hefur verið lagður fram stofnanasamningu milli stefnanda og stefnda SFV, dags. 24. janúar 2013. Er hann sagður byggjast á kjarasamningi, dags. 27. júní 2011, milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og stefnanda, sem og á kjarasamningi, dags. 8. júlí 2011, milli stefnanda og stefnda SFV.  Í þriðja lagi liggur frammi undirritaður samningur sem ber yfirskriftina „Stofnanasamningur milli SFV og SLFÍ skv. ákvæðum í kjarasamningi dags. 22. maí 2014“. Ber þessi samningur með sér að vera fylgiskjal nr. 1 með öðrum samningi.

Í 3. gr. fyrsta stofnanasamningsins, dagsettum 4. janúar 2007, er fjallað um starfaflokkun og grunnröðun. Þar segir segir meðal annars: „Vegna breytinga á starfsemi Eirar og Skjóls geta orðið til ný störf sjúkraliða sem þarf að raða sérstaklega.“ Síðan er gerð grein fyrir tíu starfaflokkum, þ.e. sjúkraliðanemum, sjúkraliða A, sjúkraliða B, sjúkraliða C, sjúkraliða D, sjúkraliða E, sjúkraliða F, sjúkraliða G/Ö a (samkvæmt sérstakri starfslýsingu), sjúkraliða G/Ö b og staðarhaldara. Aftan við hvern starfaflokk er gerð grein fyrir launaflokki viðkomandi og röðun í þrep, frá 03-0 til 14-0. Þá segir þar að sjúkraliði A séu sjúkraliðar á fyrsta starfsári og sjúkraliði B á öðru og þriðja starfsári. Meðfylgjandi stofnanasamningnum voru starfslýsingar fyrir framangreind störf.

Í stofnanasamningi, dagsettum 24. janúar 2013, eru hliðstæð ákvæði um starfaflokkun og grunnröðun. Þar er þó ekki kveðið á um að verði breytingar á viðkomandi starfsemi er leiði til þess að ný störf verði til þurfi að raða þeim sérstaklega. Þá var þar ekki mælt fyrir um röðun sjúkraliðanema í launaflokk og -þrep.

Nýjasti stofnanasamningurinn, sem vísar til kjarasamningsins frá 22. maí 2014, mælir líkt og fyrsti samningurinn fyrir um að vegna „breytinga á starfsemi og störfum innan stofnana SFV geta orðið til ný störf sjúkraliða sem þarf að raða sérstaklega“. Þá er þar á ný mælt fyrir um röðun sjúkraliðanema, auk sjúkraliða A til F, sem og sjúkraliða G/Ö, auk staðarhaldara. Þá segir þar að sjúkraliði A séu sjúkraliðar á fyrsta starfsári, en að þeir færist í starf sjúkraliða B eftir eitt ár í starfi og í starf sjúkraliða C eftir þrjú ár í starfi. Gert var ráð fyrir að gildandi starfslýsingar fyrir framangreind störf væru meðfylgjandi samningnum.

Í stefnu greinir svo frá að sjúkraliðar hjá stefnda Eir hafi vorið 2014 leitað til stefnanda og óskað aðstoðar við að ná fram leiðréttingu á launum sínum, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til þess við röðun þeirra að þeir sinntu heimahjúkrun. Af málflutningsskjölum og öðrum gögnum málsins má ráða að stefnandi hafi um skeið freistað þess að fá röðun félagsmanna stefnanda er starfa á Eirhömrum og Eirarhúsum breytt þannig að hún yrði hliðstæð röðun sjúkraliða er starfa við heimahjúkrun á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Af hálfu stefnda Eir hefur þeirri kröfu verið hafnað.

Í kjarasamningsviðræðum sem lauk með samþykkt núgildandi kjarasamnings aðila, dagsettum 8. janúar 2016, var ágreiningur þessi tekinn til umræðu. Af því tilefni var gerð bókun við kjarasamninginn þar sem fram kom að í kjölfar undirritunar hans yrði unnið að lausn ágreiningsins í samstarfsnefnd um stofnanasamning aðila. Hefði ekki fundist lausn á ágreiningnum fyrir 1. apríl 2016 áskildi stefnandi sér rétt til „hvers kyns kröfugerðar af þessu tilefni, þ.m.t. eftir atvikum málsókn fyrir Félagsdómi og/eða almennum dómstólum“.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til 11. gr. gildandi kjarasamnings aðila, sem vikið er að í málsatvikalýsingu, en þar sé mælt fyrir um skyldu samningsaðila til að gera stofnanasamninga. Þá vísar stefnandi til fyrirliggjandi stofnanasamninga þar sem mælt sé fyrir um starfaflokka og grunnröðun sjúkraliða. Þar sé mælt fyrir um að vegna breytinga geti orðið til ný störf sjúkraliða sem þurfi að raða sérstaklega.

Stefnandi bendir á að í þessum stofnanasamningum séu engin ákvæði um heimahjúkrun. Það telur hann skýrast af því að um sé að ræða verkefni sem ríkið og Reykjavíkurborg hafi haft með höndum, en að stefndi Eir hafi nú tekið að sér í verktöku. Hafi þannig orðið til nýtt starf að mati stefnanda sem raða þurfi sérstaklega samkvæmt 3. gr. framangreindra stofnanasamninga.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt heimasíðu stefnda, Eirar hjúkrunarheimilis, séu reknar á hans vegum 200 öryggisíbúðir á tveimur stöðum í Grafarvogi, Eirarhúsum og Eirborgum, og á einum stað í Mosfellsbæ, að Eirhömrum. Í upplýsingabæklingi um öryggisíbúðirnar kemur fram að þar sé m.a. veitt heimahjúkrunarþjónusta.

Stefnandi byggir á því að raða beri sjúkraliðum sem vinna við heimahjúkrun þannig að þeir fái tvo launaflokka ofan á grunnröðun. Það sé í samræmi við stofnanasamning stefnanda og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þær forsendur sem ráða skuli röðun. Meginforsendur fyrir þessum viðbótarlaunaflokkum sé sérstaða heimahjúkrunar, sem felist í því að sjúkraliðar sinni sjúklingum einir á þeirra eigin heimili.

Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi ítrekað hafnað kröfu stefnanda um röðun sjúkraliða sem sinni heimahjúkrun. Stefnandi byggir á því að með því hafi stefndi brotið gegn stofnanasamningnum og ekki uppfyllt þá grunnskyldu sína samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 til að greiða sjúkraliðum við heimahjúkrun lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningi. Stefnandi vísar í þessu sambandi til þess að færi umrædd þjónusta fram á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og/eða velferðarsviði Reykjavíkurborgar nytu sjúkraliðarnir umræddrar launaflokkahækkunar á grundvelli kjarasamningsins sjálfs, sbr. uppbyggingu kjarasamningsins við Reykjavíkurborg. Stefnandi telur óhugsandi að störfin eigi að raðast lægra, eingöngu vegna þess að þjónustunni hafi verið útvistað til fyrirtækis innan stefnda SFV.

Stefnandi telur að mótbárur þess efnis að sjúkraliðarnir sinni ekki heimahjúkrun dæmi sig sjálf og vísar þar til gagna sem lögð hafi verið fram.

Stefnandi vísar einnig til meginreglu kröfuréttar sem komi fram í 28. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup, að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu beri kaupandanum að greiða það verð sem telja megi sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan sé mikil og hvers eðlis hún sé. Stefnandi áréttar að í tilvikinu sem hér sé til umfjöllunar hafi verið samið um að nýjum störfum skyldi raða sérstaklega. Hafi stefndi vanrækt þá skyldu. Því séu rök til þess að fara eftir þessari meginreglu. Þar sem störfum sjúkraliða hafi ekki verið raðað sérstaklega, eins og mælt sé fyrir um í stofnanasamningnum, telur stefnandi að ekki fari milli mála að stefndi hafi brotið gegn þessu ákvæði.

Stefnandi kveður málskostnaðarkröfu sína gerða með stoð í 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þess sé krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnanda sé skylt að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun, en krafan sé skaðleysiskrafa, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt.

 

Málsástæður og lagarök stefnda, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu f.h. Eirar hjúkrunarheimilis

Í ljósi málatilbúnaðar stefnanda í öndverðu héldu SFV og Eir hjúkrunarheimili uppi aðskildum vörnum. Í greinargerð stefnda SFV var öllum kröfum stefnanda hafnað sem röngum og ósönnuðum. Sýknakrafa félagsins var í í fyrsta lagi reist á aðildarskorti þar sem kröfum væri ranglega beint að því. Samningssambandið væri á milli meðstefnda, Eirar hjúkrunarheimilis, og stefnanda, auk þess sem meðstefndi raðaði starfsmönnum sínum í launaflokka á grundvelli kjara- og stofnanasamninga. Því geriði stefndi SFV kröfu um sýknu vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Að öðru leyti byggðu stefndu á sömu málsástæðum og lagarökum fyrir sýknu.

Krafa stefndu um sýknu af varakröfu stefnanda byggir á því að að sú heimahjúkrun, sem veitt sé í öryggisíbúðum hans sé gerólík þeirri heimahjúkrun sem félagsmenn stefnanda er starfa hjá Reykjavíkurborg og heilsugæslunni veita. Þeir síðarnefndu þurfi að aka milli heimila í öllum veðrum og þurfi að veita þjónustu á misvel búnum heimilum. Þá séu þeir einir á heimilinu meðan þjónustan sé veitt og njóti ekki stuðnings hjúkrunarfræðings í sama mæli og þeir sem starfi hjá stefnda. Þeir sem þar starfi vinni í raun á deild eða hæð innan Eirhamra, Eirarhúsa eða Eirborga og séu því á sömu starfsstöðinni allan vinnudaginn. Þeir sinni enn fremur sömu sjúklingum í langan tíma, auk þess sem hjúkrunarfræðingur sé ávallt á bakvakt fyrir öryggisíbúðirnar á dvalarheimilinu. Stefnandi hafi hvorki fært fram rök né sönnur fyrir því að störf sjúkraliða, sem starfa hjá stefnda, og þeirra sjúkraliða, sem starfa hjá Heilsugæslustöð höfuðborgarsvæðisins, séu með einhverju móti sambærileg að öðru leyti en því að hafa sama heiti. Stefndi hafnar því öllum fullyrðingum stefnanda í þá veru. 

Stefndi hafnar því sem ósönnuðu að umræddir sjúkraliðar myndu njóta launaflokkahækkunarinnar, sem krafist sé, ef þeir störfuðu fyrir heilsugæsluna eða velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þá hafnar stefndi málsástæðu stefnanda um að starf sjúkraliðanna í öryggisíbúðunum sé nýtt starf sem skuli raða sérstaklega. Um sé að ræða starf sem hafi verið unnið hjá stefnda í 15 ár eða síðan 2001. Á því er byggt að stefnandi hafi í besta falli sýnt af sér stórfellt tómlæti sé það afstaða hans að starfinu eigi að raða sérstaklega, enda hafi honum mátt vera ljóst fyrirkomulag starfseminnar í öryggisíbúðunum. Þá er á því byggt að það starf sem sjúkraliðarnir inni af hendi í öryggisíbúðunum rúmist að fullu innan þeirra verklýsinga sem þegar hafi verið raðað í launaflokka. Engin breyting hafi orðið á starfsemi stefnda eða þeim störfum, sem sjúkraliðarnir sinni, frá því farið var að veita heimahjúkrun í öryggisíbúðunum og því síður frá því skömmu áður en ágreiningur aðila kom til um grunnröðun í launaflokka.  Því beri stefnda ekki að raða þeim sérstaklega, sbr. ákvæði 3. gr. stofnanasamnings aðila. Þá tiltekur stefndi að stefnandi hafi ekki leitast við að sýna fram á það hver sé röðun umræddra sjúkraliða, sem starfa í öryggisíbúðunum, en einum þeirra sé raðað í launaflokk 9-1 en öðrum í 10-1 til 11-5.

Stefndi mótmælir sem rangri þeirri málsástæðu stefnanda að krafa hans sé sjálfsögð í ljósi verksamninga, enda liggi fyrir að þeir fái greitt í samræmi við þá launaflokka sem þar sé vísað til. Þá fjalli verksamningarnir ekki um grunnröðun sjúkraliða, heldur endurgjald fyrir veitta þjónustu.

Um lagarök vísar stefndi, Eir hjúkrunarheimili, til laga nr. 91/1991 varðandi kröfugerð, sem og til laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Jafnframt vísar stefndi til laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem og til meginreglna samningaréttar um aðild, gildi og gildissvið samninga. Varðandi málskostnaðarkröfu er vísað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í úrskurði Félagsdóms 20. desember 2016, þar sem leyst var úr kröfum stefndu um frávísun málsins, var komist að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið að stefna stefnda SFV vegna stefnda, Eirar hjúkrunarheimilis, enda á stefndi, Eir hjúkrunarheimili, aðild að stefnda SFV sem hefur gert kjarasamninga fyrir hönd stefnda, Eirar hjúkrunarheimilis. Ber því að haga aðildinni varnaramegin í samræmi við meginreglu 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938. Að því virtu verður ekki fallist á sýknukröfu stefnda SFV á þeim grundvelli að hann eigi ekki aðild að málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Aðalkröfu stefnanda var vísað frá Félagsdómi með framangreindum úrskurði réttarins og því er hér einungis til úrlausnar varakrafa hans í málinu. Með varakröfunni freistar stefnandi þess að fá viðurkennt með dómi Félagsdóms að stefndi hafi brotið gegn 3. gr. stofnanasamnings aðila með því að raða ekki sérstaklega til launa störfum sjúkraliða sem starfa við heimahjúkrun íbúa í öryggisíbúðum á vegum stefnda, Eirar hjúkrunarheimilis. 

Í 3. gr. gildandi stofnanasamnings er fjallað um starfaflokkun og grunnröðun. Þar segir að vegna breytinga á starfsemi og störfum innan stofnana Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu geti orðið til ný störf sjúkraliða sem þurfi að raða sérstaklega. Ákvæðið virðist hafa verið við lýði í þó nokkurn tíma og er það að finna í stofnanasamningum sem aðilar hafa gert sín á milli frá árinu 2007. 

Ágreiningur aðila í þessu máli lýtur meðal annars að því, hvort umrædd störf sjúkraliða séu ný störf eða sérstök störf sem þurfi að raða sérstaklega í launaflokka. Við úrlausn þessa ágreinings verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að sjúkraliðar hafa á vegum Eirar unnið að heimahjúkrun í öryggisíbúðum allt frá árinu 2001, þegar íbúðirnar voru teknar í notkun. Stefnandi hefur án athugasemda gert fjölda kjarasamninga og stofnanasamninga frá þeim tíma, nú síðast ódagsettan stofnanasamning sem var fylgiskjal með kjarasamningi, dagsettum 22. maí 2014, án þess að gera kröfu um slíka röðun. Stefndu höfðu því réttmæta ástæðu til þess að ætla að ekki væri uppi ágreiningur um röðun þessara starfa. 

Leggja verður þann skilning í ákvæðið að það nái til þess þegar til verða á gildistíma kjarasamnings ný störf sem samningsaðilar hafa ekki áður samið um. Við það vakni skylda til þess að raða slíkum störfum í launaflokka. Sjúkraliðar sinntu sannanlega heimhjúkrun í öryggisíbúðum á vegum Eirar þegar síðasti kjarasamningur og stofnanasamningur voru gerðir milli aðila og hafa gert það allt frá árinu 2001, eins og áður er getið. Því verður ekki séð að vinna sjúkraliða við heimahjúkrun í öryggisíbúðum á vegum Eirar falli undir ákvæðið eins og það er orðað. Verður því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.  

Eftir framangreindri niðurstöðu verður stefnanda gert að greiða stefnda 450.000 krónur í málskostnað. 

      

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu f.h. Eirar, hjúkrunarheimilis, er sýkn af varakröfu stefnanda, Sjúkraliðafélags Íslands.

Stefnandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Ásmundur Helgason

Guðni Á. Haraldsson

Valgeir Pálsson

Bergþóra Ingólfsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira