Hoppa yfir valmynd

Mál 01050032 

Með bréfi, dags. 7. júní 2001, kærði Sunnlensk orka ehf. úrskurð Skipulagsstofnunar, frá 4. maí 2001, um mat á umhverfisáhrifum borunar rannsóknarholu og vegagerðar í Grændal, Ölfusi.

I. Hinn kærði úrskurður

Með úrskurði Skipulagsstofnunar var lagst gegn borun rannsóknarholu og lagningu vegar í Grændal eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.

II. Málsatvik

Þann 27. mars 2000 tilkynnti Sunnlensk orka ehf. til frumathugunar borun rannsóknarholu í Grændal í Ölfusi, lagningu vegar, gerð borstæðis og borframkvæmd. Í frummatsskýrslu voru bornar saman þrjár staðsetningar borholu, A, D og C við valkost framkvæmdaraðila, borstað B í botni Grændals Með úrskurði skipulagsstjóra, dags. 28. maí 2000, var fallist á borun rannsóknarholu á borstað A í um 85 metra hæð yfir sjávarmáli á áreyrum í mynni Grændals með einu skilyrði. Ráðast skyldi í frekara mat á borun rannsóknarholu í Grændal, lagningu vegar og gerð borstæðis umfram það sem varðaði borstað A. Framangreindur úrskurður var kveðinn upp samkvæmt áðurgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Borstæði B er áætlað innarlega í Grændal, um 2,3 kílómetra norðan mynnis dalsins í um 190 metrum yfir sjávarmáli. Staðsetning borstæðis C er austan í Dalaskarðshnjúki á hálendinu norðan Grændals í 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Borstæði D er á norðvestanverðum Klóarmel austan við Grændalsá til móts við fyrirhugaða staðsetningu borstæðis B í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli og um 500 metrum austan við áætlað borstæði B

Þann 9. febrúar 2001 tilkynnti Sunnlensk orka ehf. til athugunar, samkvæmt núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, borun rannsóknarholu, lagningu vegar, gerð borstæðis og borframkvæmd í Grændal í Ölfusi. Í matsskýrslu eru bornir saman sömu valkostir varðandi borstæði og í frummatsskýrslu.

Samkvæmt matsskýrslu voru kannaðar 5 vegleiðir að fyrirhuguðu borstæði. Leiðirnar eru teiknaðar inn á kort að borstæði B. Vegleiðir A1 og A2 liggja inn Grændal. Kostur B felur í sér vegagerð inn Gufudal austan við Grændal. Þessi leið yrði um fjögurra kílómetra löng, leggja þyrfti upp talsverðan bratta fyrsta kílómetrann og hækka samanlagt í rúma 110 metra í sneiðingum upp á Klóarveg. Vegurinn færi síðan norður Klóarveg norður á Klóarmel og síðan í sneiðing og á fyllingum yfir Grændalsá. Vegleið C1 er 3,6, kílómetra löng og þyrfti að liggja austur um Folaldaháls og í sneiðingum niður með Klóarfjalli fyrir botni Grændals austan Grændalsár og þaðan á fyllingum yfir Grændalsá og að fyrirhuguðu borstæði. Kostur C2 yrði um 2,9 kílómetra langur lagður austan í Dalaskarðshnjúk, niður í Dalaskarð og niður skarðið að austan og síðan með vesturjaðri samfellds gróðursvæðis í um 210 metra hæð yfir sjávarmáli.

Í fyrirliggjandi gögnum kemur fram að svæði það sem kæran lítur að er ýmist kallað Grændalur eða Grensdalur. Hér á eftir verður stuðst við örnefnið Grændalur.

III. Kröfur og málsástæður kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að fallist verði á framkvæmdina með eða án skilyrða. Aðalkrafa er að fallist verði á borun í borplani B og vegarlögn samkvæmt leiðum A1 eða A2. Til vara er þess krafist að fallist verði á borun í borplani C og lagningu vegar frá línuvegi og Búrfellslínu 3A. Jafnframt segir í kærunni að teljist heimild Sunnlenskrar orku ehf. til borunar á borplani A ekki ótvíræð með úrskurði Skipulagsstofnunar, dags. 28. maí 2000, sé einnig mikilvægt að ráðherra staðfesti þá heimild.

Kærandi lítur svo á að ein meginröksemd Skipulagsstofnunar fyrir niðurstöðu sinni sé að Grændalur sem hluti af Hengilssvæðinu sé á náttúruminjaskrá. Óásættanlegt sé að rökstyðja niðurstöðu um að leggjast gegn framkvæmd með því að umrætt svæði sé á náttúruminjaskrá þar sem ekki verði séð að skipulagsstjóri hafi hafnað framkvæmdinni á þeim grundvelli í úrskurði sínum frá 28. maí 2000 um sama svæði. Lagt hafi verið í tugmilljóna viðbótarkostnað vegna nýrrar matsskýrslu. Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu, í ákvörðun sinni frá 30. janúar 2001, að fyrirhugaðar rannsóknarborholur Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu væru ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Einnig beri á það að líta að rannsóknarsvæðið sé ekki innan þjóðgarðs, friðlands eða friðlýsts svæðis. Þótt svæðið sé á náttúruminjaskrá verði ekki á það fallist að ekki verði unnt að nýta háhitasvæðið í Grændal til hagsbóta fyrir almenning.

Kærandi segir að í matsskýrslu hafi verið lögð megin áhersla á að finna út hvort og þá hvernig vegagerð inn Grændal kæmi til með að hafa áhrif á náttúru og náttúruverndargildi dalsins. Meginniðurstaða skýrslunnar sé að með fyrirhugaðri borun og vegagerð í Grændal komi frelsis- og upprunagildi dalsins helst til með að breytast, það að dalurinn verði ekki lengur án mannvirkja. Lögð sé áhersla á að jarðfræðiminjum verði ekki raskað. Í matsskýrslu komi fram að það skriðuland sem vegarstæðið liggur um geti vart talist til merkra jarðfræðiminja. Þær sé að finna niður við og austan við Grændalsá og vegurinn muni ekki hafa áhrif þar á. Vegurinn inn eftir Grændal verði lagður þannig að hann lendi ekki í hverum en óhjákvæmilega hljóti hann að liggja í volgri jörð á köflum, einkum yst í Grændal. Aðaláhyggjuefnið sé hver einn á miðri leið sem sé hættulega nærri veginum að talið er. Sjálfsagt sé að standa þannig að verki að honum verði ekki spillt. Vegarlagning í Grændal komi ekki til með að raska jarðfræðiminjum þar að neinu marki, þar með töldum hverum og laugum.

Kærandi telur það ekki rétt sem fram kemur í úrskurði Skipulagsstofnunar að framkvæmdin muni hafa í för með sér verulega röskun m.a. á mikilvægustu hverasvæðunum í dalnum hvað varðar fjölbreytt hveralíf og rannsóknir, sem gerðar hafa verið. Kærandi gerir einnig athugasemd við það sem segir í úrskurði Skipulagsstofnunar að tryggja yrði sérstaklega að áhrif vegarins á vatnsrennsli yrðu nánast engin, miklum erfiðleikum sé bundið að tryggja að áhrif á vatnsrennsli yrðu lítil sem engin og ekki hafi verið sýnt fram á hvernig það mætti gera. Kærandi hafi ávallt haldið því fram, eins og fram komi í matsskýrslu, að þess yrði gætt, að hverum yrði ekki raskað við framkvæmdir í dalnum. Vegstæði hafi m.a. verið valið með tilliti til legu hvera og þess gætt að veglagning hefði ekki bein áhrif á þá. Því sé afar ólíklegt að vegagerð inn Grændal myndi raska einhverjum af þeim fjölda hvera sem í dalnum eru. Kæranda sé vel kunnugt um þær fjölmörgu lækjarsytrur, er renna niður hlíðar Grændals og fyrirhuguð vegleið kæmi til með að þvera. Í matsskýrslu hafi því verið lýst hvernig koma megi í veg fyrir verlega röskun á þessu rennsli. Kærandi telji að með þeim aðgerðum sem að ofan greinir séu áhrif veglagningar á vatnsrennsli í algjöru lágmarki. Vísað er til fylgiskjals með kæru sem styðji hvernig hanna megi veginn þannig að áhrifin verði í algjöru lágmarki.

Kærandi telur ekki skýrt hvað átt sé við í úrskurði Skipulagsstofnunar með að vegleiðir A1 og A2 muni hafa í för með sér verulegt rask á gróðurlendi. Ekki verði hjá því komist að vegagerð um land sem að einhverju leiti sé gróið leiði af sér rask á gróðurlendi. Líklegt sé því að forsenda þessarar fullyrðingar sé að vegagerð raski rennsli vatns niður hlíðar Grændals en samkvæmt gróðurathugun í Grændal byggist fjölbreytileiki gróðurfars í dalnum mikið á þessu rennsli. Kærandi telji það ekki standast að gróður skerðist vegna breytinga á rennsli yfirborðsvatns.

Í kærunni er fjallað um úttekt á útivist í Grændal sem fylgdi matsskýrslu. Fram kemur að kærandi dregur í efa niðurstöður þeirrar úttektar hvað varðar símakönnun á fjölda gesta í Grændal. Kærandi telur einnig að í úrskurði Skipulagsstofnunar sé horft sé fram hjá þeirri skoðun ferðaþjónustuaðila að vegur inn Grændal auki aðgengi. Einnig telur kærandi að svör þeirra sem spurðir voru í könnun á viðhorfi til mannvirkjagerðar í dalnum verði að skoða í ljósi þess að sumir skynji það svo að vegir og borholur séu ekki mannvirki í sama skilningi og t.d. húsbyggingar. Ekki sé rétt að líta til viðhorfs fólks til mannvirkja sem tengjast hugsanlegum virkjunarframkvæmdum sem ekki séu umfjöllunarefni matsskýrslu.

Kærandi telur að ályktun Skipulagsstofnunar um að fyrirhuguð framkvæmd muni valda spjöllum á svæðinu þannig að dragi úr gildi þess til rannsókna og nýtingar á hveraörverum fái ekki staðist með vísan til þess sem að framan segir.

Kærandi segir sveitarstjórn Ölfuss hafa tekið ákvörðun um að dalurinn verði ekki friðaður og að skoða eigi möguleika á nýtingu jarðhita sem þar er að finna. Enn fremur standi sveitarfélögin Ölfus og Hveragerði, ásamt Rarik, að Sunnlenskri orku ehf. Til þess að sveitarfélögunum reynist auðveldara að marka sér stefnu varðandi landnýtingu svæðisins sé nauðsynlegt að vita hvaða möguleika það hafi upp á að bjóða hvað varðar jarðhitanýtingu. Sú vitneskja fáist ekki nema með borun rannsóknarholu í Grændal.

Varðandi samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar og áhrif á byggðaþróun segir í kæru að í öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafi verði á Grændalssvæðinu á undanförnum árum og áratugum hafi sífellt komið fram sterkari rök fyrir því að um virkjanlega orku sé að ræða í Grændal. Segja megi að þetta svæði sé eitt best kannaða óvirkjaða hitasvæði landsins en rannsóknir hafi staðið þar yfir á áratugi en nokkrar borholur hafi verið boraðar nálægt mynni Grændals um 1960. Það sé mat jarðvísindamanna að mjög miklar líkur séu á því að nýtanlegur jarðhiti sé til staðar í Grændal. Nú liggi það fyrir, sem reyndar hafi ekki verið ljóst þegar matsskýrsla var lögð fram, að vegna yfirstandandi samninga við Norðurál á Grundartanga og atvika sem varða virkjunaráætlanir Landsvirkjunar, þá komi til með að vanta inn á raforkukerfið í lok árs 2004 þá orku sem 1. áfangi virkjunar í Grændal gæti framleitt.

IV. Umsagnir, athugasemdir o.fl.

Ráðuneytið óskaði, með bréfum, dags. 11. og 14. júní 2001, eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Náttúruverndar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins, Ferðamálaráðs Íslands, Ölfushrepps, Hveragerðisbæjar og Grímsnes og Grafningshrepps.

Í umsögn Skiplagsstofnunar, dags. 6. júlí 2001, er varðandi málsástæður kæranda um náttúruminjaskrá vísað til umfjöllunar um verndargildi Grændals í úrskurði stofnunarinnar sem byggist að verulegu leyti á sérfræðiáliti Náttúrufræðistofnunar Íslands. Segir Skipulagsstofnun niðurstöðu úrskurðarins því ekki vera rökstudda með því að Hengilssvæðið sé á náttúruminjaskrá. Varðandi málsástæðu kæranda um náttúruverndargildi og jarðfræðilegar minjar vísar stofnunin einnig til sérfræðiálits Náttúrufræðistofnunar Íslands. Tekið er fram að stofnunin telur greinargerð Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings hjá Orkustofnun, dags. 28. maí 2001, ekki hnekkja því áliti stofnunarinnar að verði ráðist í vegalagningu í Grændal raskist áður óspillt svæði með jarðfræðiminjar sem eigi sér fáar hliðstæður á landinu. Varðandi málsástæðu kæranda um röskun á hverasvæðum er vísað til rökstuðnings um áhrif vegarlagningar á hveri í úrskurði stofnunarinnar. Skipulagsstofnun telur greinargerð Almennu verkfræðistofunnar um aðferðir við vegarlagningu sem fylgdi kæru framkvæmdaraðila ekki hnekkja niðurstöðu stofnunarinnar og lagning vegar samkvæmt leið A1 muni hafa í för með sér verulega röskun á hverasvæðum og lífríki þeirra. Varðandi röskun á gróðurlendi er vísað til umfjöllunar í úrskurði stofnunarinnar um áhrif á gróður. Ennfremur segir að stofnunin haldi því ekki fram að um verulega röskun á gróðri einum og sér verði að ræða heldur að um varanlegar gróðurskemmdir verði að ræða sem með öðru hafi umtalsverð umhverfisáhrif. Varðandi Grændal sem gönguland er vísað til umfjöllunar í úrskurði stofnunarinnar um útivist og rannsóknir. Stofnunin fellst ekki á þá gagnrýni kæranda að hún hafi ekki séð ástæðu til að nefna þá tilgátu höfundar skýrslu um útivist að "að sumir skynji það svo að vegir eða borholur séu ekki mannvirki í sama skilningi og t.d. húsbyggingar en einblíni þess í stað á viðhorf manna til hugsanlegra virkjunarframkvæmda í dalnum sem sé ekki umfjöllunarefni matsskýrslu. Í úrskurðinum sé fjallað um áhrif veglagningar í Grændal. Hins vegar hafi Skipulagsstofnun talið nauðsynlegt að skoða áhrif veglagningar og borunar til lengri tíma litið, þar sem framkvæmdir verði ekki aftur teknar. Varðandi gildi Grændals til rannsókna er vísað til umfjöllunar í úrskurði stofnunarinnar um áhrif framkvæmdarinnar á gildi Grændals til rannsókna og nýtingar á hveraörverum. Ennfremur er vísað til umsagnar stofnunarinnar um þann lið kæru sem varðar náttúruverndargildi og jarðfræðilegar minjar. Varðandi þá skoðun kæranda að nauðsynlegt sé að vita hvaða möguleika svæðið hefur upp á að bjóða í nýtingu jarðhita og slík vitneskja fáist ekki nema með borun rannsóknarholu í Grændal segir í umsögn Skipulagsstofnunar að stofnunin telji vel mögulegt að marka stefnu um landnotkun á Hengilssvæðinu á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Varðandi byggðaþróun er vísað til umfjöllunar í úrskurði stofnunarinnar um það efni. Ennfremur segir að, að mati stofnunarinnar hafi ekki verið sýnt fram á að jákvæð áhrif framkvæmdarinnar vegi upp veruleg neikvæð áhrif hennar.

Varðandi borun á borplani C segir í umsögn Skipulagsstofnunar að athugun Skipulagsstofnunar og úrskurður hafi verið um borun rannsóknarholu á borstað B, eins og matsáætlun og matsskýrsla framkvæmdaraðila gerðu ráð fyrir en ekki um borun rannsóknarholu í borstað C eða D og því ekki unnt að heimila borun í borplani C með lagningu vegar frá línuvegi Búrfellslínu 3A.

Varðandi borun á borplani A segir að með úrskurði stofnunarinnar frá 28. maí 2000, hafi verið fallist á borun rannsóknarholu á borstað A í um 85 metrum yfir sjávarmáli á áreyrum í mynni Grændals með því skilyrði að tryggt yrði að framkvæmdin hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki Varmár. Þessi niðurstaða standi óbreytt.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins, dags. 26. júlí 2001, segir:

"Náttúruvernd ríkisins bendir á að í mati á umhverfisáhrifum vegna borunar rannsóknarholu og vegagerð í Grændal í Ölfusi kemur fram að margir kostir á staðsetningu borholu jafnt sem aðkomuvegar hafi verið gaumgæfðir. Niðurstaða rannsóknaraðila er að sú staðsetning borholu (þ.e. borstæði B) sem kynnt er sem fyrsti kostur framkvæmdaaðila í matsskýrslu sé hugsanlega sú eina sem gefi fullnægjandi upplýsingar um vinnslueiginleika jarðhitageymisins undir Grændal. Borun á stað C yrði alltaf bráðabirgðaaðgerð sem ekki myndi útiloka þörfina fyrir veg inn í Grændal. Ef rannsóknarboranir leiði í ljós að virkjun jarðhitans í Grændal sé hagkvæmur kostur sé ljóst að þörf sé á veg inn Grændal, burtséð frá staðsetningu rannsóknarborholu."

Varðandi málsástæðu kæranda um náttúruminjaskrá og tilvísun til úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 28. maí 2000 bendir stofnunin á að Skipulagsstofnun hafi byggt þann úrskurð sinn á áðurgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Samkvæmt þeim lögum hafi ekki verið unnt að leggjast gegn framkvæmt við frummat hennar heldur einungis úrskurðað að frekara mat skuli fara fram eða fallist á hana með eða án skilyrða. Jafnframt segir um þetta atriði í umsögninni að umhverfismat sé ekki trygging fyrir því að leyfi fáist fyrir viðkomandi framkvæmdum. Framkvæmdaraðili þurfi að vera viðbúin því að framkvæmdum sé hafnað samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 þrátt fyrir að hann hafi lagt í töluverðan kostnað vegna umhverfismats. Rétt sé, sem fram komi í kæru, að fyrirhugað rannsóknarsvæði sé ekki innan friðlýsts svæðis. Það sé innan svæðis sem sé á náttúruminjaskrá sem sé ábending um þau svæði eða fyrirbæri sem hafa verndargildi og stjórnvöld telja að stefna beri að friðlýsingu að. Eins og bent sé á í umsögn Náttúruverndar ríkisins um mat á umhverfisáhrifum fyrir borun rannsóknarholu og vegagerð í Grændal telji stofnunin að Grændalur hafi mikið verndargildi. Dalurinn sé friðsæll og ósnortinn og um sé að ræða svæði sem er sérkennilegt og einstætt á margan hátt. Það sé mat stofnunarinnar að þó svo að í húfi geti verið mikil verðmæti verði af framkvæmdum og ekki sér gert lítið úr mikilvægi þess að byggja upp atvinnu verði það ekki gert í sátt við sjónarmið náttúruverndar. Þá segir hvað varðar fyrirhugaðar boranir á Hellisheiði að þegar metið er hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum sé í hverju tilviki metið hvort viðkomandi framkvæmd kunni að hafa í för með sér umtalverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis umfangs og staðsetningar. Meðal annars sé haft í huga hvort um sé að ræða svæði sem búið er að raska með mannvirkjagerð. Á Hellisheiði hafi landslagi verið raskað nokkuð og þar liggi nú þegar ýmsir slóðar sem hægt sé að nýta við fyrirhugaðar rannsóknarboranir Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki þurfi að leggja nýja vegi vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana heldur eingöngu styrkja núverandi slóða og ekki sé nauðsynlegt að opna námur vegna þeirra. Varðandi náttúruverndargildi og jarðfræðilegar minjar segir að Náttúruvernd ríkisins hafi í umsögn sinni um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar gert nokkrar athugasemdir við mat á verndargildi Grændals eins og því sé lýst í viðauka með matsskýrslu. Um sé að ræða þann dal á Íslandi sem hafi til að bera mesta fjölbreytni í hveralífríki samankomna á einum stað. Þá segir:

"...Einkunnin er sú sama eftir framkvæmd þó fram komi óvissa um áhrif vegagerðar og hugsanleg áhrif á fjölbreytni. Að mati Náttúruverndar ríkisins mundu viðmiðin "frelsi" og "uppruni" fá hátt vægi í útreikningum þar sem hér er um að ræða óraskað svæði að mestu. Þá vekur athygli að viðmiðið "útivist" er talið hafa hærra gildi eftir framkvæmdir. Náttúruvernd ríkisins benti enn fremur á að þau viðmið sem upp eru talin í töflu 1 í viðauka 4 með matsskýrslu fá í útreikningum skýrsluhöfunda öll sama gildi. Náttúruvernd ríkisins álítur að gefa þurfi viðmiðum mismunandi vægi (vogtölu) og að fjölda viðmiða þurfi að meta m.t.t. aðstæðna hverju sinni. Það er mat Náttúruverndar ríkisins að miðað við þær upplýsingar og aðferðir sem fyrir liggja ætti samtalan fyrir náttúruverndargildi dalsins fyrir breytingar að hækka frá því sem lýst er í skýrslunni. Því verði að gera fyrirvara við niðurstöður í ofangreindu mati á verndargildi Grændals. Þá má benda á frekari umsögn Náttúruverndar ríkisins um borun rannsóknarholu og vegagerð í Grændal, dags. 25. apríl s.l. sem gefin var að beiðni Skipulagsstofnunar. Er í henni rökstutt frekar það álit Náttúruverndar ríkisins að Grændalur hafi hátt verndargildi og að ekki sé réttlætanlegt út frá náttúruverndarsjónarmiðum að honum verði raskað. Náttúruverndargildi svæðisins sé ótvírætt, sem og gildi dalsins til útivistar, rannsókna og kennslu. Benda má á að innan svæðisins er að finna fjölda jarðmyndana sem falla undir 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd en samkvæmt henni skulu ákveðnar landslagsgerðir njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er.

Náttúruvernd ríkisins bendir á að í sérfræðiáliti Náttúrufræðistofnunar Íslands um verndargildi Grændals, sem vitnað er til í úrskurði Skipulagsstofnunar, er komist að þeirri niðurstöðu að dalurinn sé sérstakur á landsvísu. Það séu einkum jarðfræðilegar minjar, svo sem fjölbreytilegir hverir og laugar, sem standi undir fjölbreyttu lífríki, ekki síst hveralífi, sem gerir hann sérstakan. Hann sé að mestu ósnortinn og fullyrða megi að þessar jarðfræðiminjar eigi sér fáar hliðstæður á landinu. Helsta sérstaða Grændals er að hann hýsir fjölbreytt, ósnortið jarðhitasvæði í grennd við þéttbýli. Náttúrufræðistofnun Íslands telur að megináhrif vegar inn Grændal séu áhrif á landslag og ásýnd lands. Náttúruvernd ríkisins bendir enn fremur á að þótt einstakar jarðfræðiminjar raskist ekki við framkvæmdina mun vegagerðin hafa áhrif á heildarsvip landsins. Stofnunin telur að svæðið hafi án efa meira verndargildi sem ein ósnortin heild. Veglagning inn Grændal mun óhjákvæmilega raska svæði sem ekki hefur enn verið raskað með mannvirkjagerð. Þrátt fyrir að reynt verði að halda jarðraski í lágmarki fylgir vegagerð ávallt töluvert rask. Þá verður ekki komist hjá því að sjónræn áhrif verði talsverð. Telja verður að vegalagning að borstæðinu sé óafturkræf framkvæmd enda erfiðleikum bundið (sic) lagfæra það rask sem verður vegna vegagerðarinnar. Með hliðsjón af ofansögðu telur Náttúruvernd ríkisins að vegagerð inn Grændal muni rýra náttúruverndargildi svæðisins."

Einnig segir í umsögninni að Náttúruvernd ríkisins taki undir það sem fram komi í sérfræðiáliti Náttúrufræðistofnunar Íslands um verndargildi Grændals að um leið og vegur verði lagður inn dalinn og þar sett niður borhola glati hann þeirri sérstöðu sem fylgir ósnortnu landi um alla framtíð. Varðandi röskun á hverasvæðum bendir Náttúruvernd ríkisins á að í skýrslu um frumathugun á lífríki hvera kemur fram að hverirnir í Grændal eru fjölbreyttir og að þar er meðal annars að finna hveragerð sem er sjaldgæf utan Íslands, súlfíðríka vatnshveri með hlutlausu sýrustigi. Með tilliti til líffræðilegs fjölbreytileika sé verndargildi hverasvæðisins í Grændal því talsvert því þar sé saman komin á einum stað mikil fjölbreytni hvera og hveraörvera samanborið við önnur hverasvæði á landinu. Vísað er til umfjöllunar í skýrslu um frumathugun á lífríki hvera þar sem segir meðal annars að sem heild sé "Grensdalurinn" mjög sérstakur sem búsvæði hveralífvera, afar mikið sé af helstu gerðum varmalinda, volgum, dýjum og volgum lækjarsytrum, á tiltölulega afmörkuðum svæðum dalsins sé að finna margar helstu gerðir búsvæða hveraörvera og á afmörkuðum blettum séu jafnvel oft mjög fjölbreytileg lífsskilyrði fyrir hveraörverur. Eitt af því sem hafi áhrif á aðstæður í bússvæðum hveranna sé blöndun vatns eða gufu sem streymir upp og þess vatns sem rennur niður hlíðar dalsins, bæði yfirborðs- og jarðvatns. Með hliðsjón af þessu telur Náttúruvernd ríkisins mikilvægt að ekki verði ráðist í framkvæmdir sem haft geta í för með sér neikvæð áhrif á hveri og búsvæði hveraörvera í Grændal. Stofnunin telur ekki hægt að tryggja að vatnsrennsli haldist með öllu óbreytt og því sé ekki hægt að fullyrða hvaða áhrif fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa á fjölbreytileika hveralífvera í "Grensdal" Varðandi rask á gróðurlendi segir:

"Náttúruvernd ríkisins er ósammála því áliti framkvæmdaraðila að skerðing á gróðurlendi vegna 3 km langrar veglagningar geti ekki talist veruleg röskun. Hins vegar skipta staðsetning fyrirhugaðrar framkvæmdar, sem og tegund gróðurs og fjölbreytileiki, máli þegar metið er hvort ásættanlegt er að ráðast í viðkomandi framkvæmd. Náttúruvernd ríkisins bendir á að í matsskýrslu kemur fram að veglagning inn Grændal sé afar vandmeðfarin, meðal annars út af fjölbreytni gróðursamfélaga. Þar sé að finna marga mýrarbletti, lækjarbakka og þurrlendi á mismunandi jarðvegi. Megineinkenni gróðurfars í Grændal liggi einkum í þeirri fjölbreytni sem jarðhiti, fjölmargar sytrur og margbreytilegur jarðvegur skapar."

Þá er vísað til umfjöllunar matsskýrslu um vatnssytrur á svæðinu þar sem segir að hver sytra kunni að vera einstök með tilliti til eðlisfræðilegra þátt sem aftur skapi aðstæður fyrir einstaka tegundasamsetningu gróðurs. Það sé skoðun Náttúruverndar ríkisins að full ástæða sé til að hlífa þessum fyrirbærum. Vísað er til umfjöllunar Almennu verkfræðistofunnar um að trúlegt sé að vatnsrennsli sé einnig að mestu yfirborðsvatn þar sem vegurinn fer yfir mýri og rennsli vatns sé lítið í gegnum þær. Segir stofnunin að ekki hafi farið fram rannsóknir hér á landi á því hvaða áhrif veglagning um mýrlendi hafi á vatnsbúskap mýra. Við lýsingu á vegaframkvæmdum þar sem farið er yfir mýrlendi hafi verið lagt til að leggja fljótandi vegi en ekki hafi verið sýnt fram á að slík veglagning hafi tilætluð áhrif. Varðandi vinsældir Grændals sem göngulands segir Náttúruvernd ríkisins það rétt sem fram komi í kæru að sumir þeirra sem tóku þátt í svokallaðri gestakönnun sem var hluti matsskýrslu vildu að Grændalur yrði án mannvirkja virtust ekki mótfallnir því að lagður yrði vegur inn dalinn. Náttúruvernd ríkisins telji hins vegar athyglisvert að samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar var umtalsverður munur á afstöðu svarenda eftir því hvort þeir höfðu komið í Grændal eða ekki. Þannig hafi þeir sem ekki höfðu komið þangað hlynntari nýtingu jarðgufunnar, mannvirkjum og vegagerð í Grændal en þeir sem farið höfðu um dalinn. Ekki verði betur séð en að umtalsverður hluti þeirra sem nú þegar nýta eða hafa nýtt Grændal til útivistar séu fremur neikvæðir gagnvart mannvirkjagerð í Grændal þar með talið veglagningu. Samkvæmt niðurstöðu könnunar sem gerð var meðal ferðaþjónustuaðila telji mikill meirihluti þeirra að dalurinn eigi að vera án mannvirkja og meirihluti þeirra sé mótfallinn veglagningu inn dalinn. Með hliðsjón af þessu geti Náttúruvernd ríkisins ekki séð að Skipulagsstofnun hafi í umfjöllun sinni um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda í Grændal á útivist og ferðamennsku horft fram hjá því sem um er að ræða í matsskýrslu framkvæmdaraðila þ.e. vegagerð og tilraunaborholu og haldið sé fram í kæru Sunnlenskrar orku. Þá segir að þar sem framkvæmdaraðili telji líkur á því að mistök hafi átt sér stað við framsetningu spurninga í símakönnun um fjölda gesta sem komið hafa í Grændal megi spyrja að því hvort ekki gildi það sama um könnun sem gerð var meðal gesta í Hveragerði. Náttúruvernd ríkisins vísar til þess að kannanir sem gerðar hafi verði meðal erlendra ferðamanna bendi allar til mikilvægis sérstæðrar náttúru fyrir ferðamennsku á Íslandi. Svo segir:

"...Náttúruvernd ríkisins telur mikilvægt að Grændal verði ekki raskað með vegagerð heldur verði komandi kynslóðum gert kleift að njóta svæðisins og þeirrar óspilltu náttúru sem þar er að finna. Að þeir þættir sem helst þykja eftirsóknarverðir við dalina ofan við Hveragerði samkvæmt fyrrgreindri könnun fái áfram að halda sér, þ.e. fallegt landslag og náttúra, fjölbreytilegir hverir og jarðhiti, svæði sem er gott til útivistar- og gönguferða, ósnortið svæði, möguleikar til baða, fallegt útsýni, litadýrð og friðsæld."

Varðandi gildi Grændals til rannsókna og nýtingar á hveraörverum segir:

"Náttúruvernd ríkisins bendir á að í skýrslu um frumathugun á lífríki hvera segir um hverarannsóknir í Grændal (viðauki 9 með matsskýrslu) kemur fram að hverirnir í dalnum hafa þótt henta einkar vel til rannsókna á hveralífverum, m.a. vegna þess hve hverirnir þar eru fjölbreyttir en þar er m.a. að finna hveragerð sem er sjaldgæf utan Íslands, þ.e. súlfíðríka vatnshveri með hlutlausu sýrustigi. Einnig skipti máli að hverirnir eru vel aðgengilegir og nær ósnortnir. Einnig kemur fram í skýrslunni að Grensdalurinn talsvert (sic) verið nýttur í kennslu og fræðslu í hveralíffræði og sé hann sérlega vel til þess fallinn vegna legu sinnar, fjölbreytilegra búsvæða og aðstæðna þar. Í ofangreindri skýrslu um frumathugun á lífríki hvera segir enn fremur:

"Eins og rakið hefur verið hafa talsverðar rannsóknir verið stundaðar á hverum í Grensdalnum og er brýnt fyrir áframhaldandi þekkingarleit á þessu sviði að hægt verði að byggja ofan á þær með frekari rannsóknum. Til þess verður að vera hægt að komast í sömu eða sams konar hveri við sömu aðstæður í Grensdalnum. Mikilvægt er einnig að þarna sé hægt að stunda áfram rannsóknir við náttúrulegar aðstæður á ósnortnum hverum. Eins og þegar hefur verið nefnt hefur Grensdalurinn talsvert verið nýttur í kennslu og fræðslu í hveralíffræði vegna legu sinnar og heppilegra aðstæðna þar og er einnig mikilvægt að notkunargildi dalsins í þeim efnum verði ekki skert."

Miðað við ofangreint virðist mikilvægt að ekki verði neinar breytingar á hverum vegna fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar til að gildi Grændals til rannsókna og nýtingar á hveraörverum verði ekki skert. Eins og bent er á hér að framan telur Náttúruvernd ríkisins að ekki sé hægt að tryggja svo öruggt sé að framkvæmdirnar hafi ekki í för með sér röskun á hverasvæðum. Því sé ekki hægt að tryggja að framkvæmdirnar skerði ekki gildi svæðisins til rannsókna og nýtingar."

Varðandi stefnumörkun um landnýtingu segir:

"Náttúruvernd ríkisins hefur í umsögnum sínum um veitingu rannsóknarleyfa á Reykjanesi og Hengilssvæði ítrekað bent á mikilvægi þess að mörkuð verði heildar áætlun um nýtingu jarðhita og mörkuð stefna varðandi landnýtingu á Suðvesturlandi og Hengilssvæðinu. Taka verði frá svæði sem vernda á til framtíðar og skilgreina þau svæði þar sem ásættanlegt er að leyfa nýtingu orkulinda. Mikilvægt er að hlífa svæðum sem mest við raski þar til niðurstaða rammaáætlunar ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma liggur fyrir. Að áliti stofnunarinnar ætti að bíða eftir niðurstöðum rammaáætlunar áður en ákvörðun er tekin um verndun eða nýtingu Grændals, sbr. frekari umsögn um borun rannsóknarholu og vegagerð í Grændal, dags. 25. apríl s.l.

Náttúruvernd ríkisins telur mikilvægt að við rannsóknir á jarðhitasvæðum sé staðið þannig að verki að náttúruminjum verði ekki raskað, ekki síst þegar haft er í huga að ekki er ljóst fyrr en að rannsóknum loknum hvort svæðið verður nýtt til orkuvinnslu í framtíðinni. Þá telur stofnunin nauðsynlegt að skoða vel hvort ásættanlegt er að nýta svæði til orkuvinnslu áður en tekin er ákvörðun um tilraunaboranir. Þá vill Náttúruvernd ríkisins benda á að vart er hægt að nýta öll jarðhitasvæði á landinu, m.a. vegna náttúruverndarsjónarmiða. Einnig er ljóst að ekki verður hægt að fullnýta öll þau svæði sem nýtt eru vegna sömu hagsmuna."

Loks segir að það sé niðurstaða Náttúruverndar ríkisins að ekki sé hægt að fallast á lagningu vegar inn Grændal út frá náttúruverndarsjónarmiðum og að úrskurður Skipulagsstofnunar skuli óbreyttur standa.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins, dags. 15. ágúst 2001, segir að meginefni úrskurðar Skipulagsstofnunar fjalli um vegalagningu að fyrirhuguðu borstæði, leið A eftir endilöngum Grændal. Hollustuvernd ríkisins telji að í kæru Sunnlenskrar orku sé ekki tekið á framangreindum meginþætti sem úrskurður Skipulagsstofnunar byggir á. Í kæru og fylgiskjali hennar sé sjónum einkum beint að beinum áhrifum á þær jarðfræðiminjar sem sjálfur vegurinn liggur um en ekki afleidd áhrif af vegalagningu og ásýnd dalsins eftir framkvæmdir. Hollustuvernd ríkisins telji mjög mikilvægt að hinum fjölbreyttu hverasvæðum í Grændal verði ekki raskað. Það sé niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdaraðili hafi ekki sýnt fram á að hægt væri að leggja veg um endilangan Grændal samkvæmt leiðum A1 og A2 án þess að mikil hætta væri á því að vatnsrennsli niður hlíðar dalsins myndi breytast og þar með breyta hverasvæðum fyrir neðan veginn. Hollustuvernd ríkisins treysti sér ekki til þess að fjalla efnislega um hugmynd Almennu verkfræðistofunnar sem framkvæmdaraðili leggur fram sem fylgiskjal með kæru til þess hafi stofnunin ekki sérfræðiþekkingu. Stofnunin telur engin rök hníga að því að hnekkt verði úrskurði Skipulagsstofnunar og leggur til að ráðuneytið staðfesti hann hvað varðar vegalagningu eftir leið A1 og A2

Í umsögn Ferðamálaráðs Íslands, dags. 15. ágúst 2001, segir:

"Ferðamálaráð leitaði upplýsinga hjá Rögnvaldi Guðmundssyni framkvæmdastjóra Rannsókna og ráðgjafar ferðaþjónustunnar sem vann umrædda könnun og fékk þær upplýsingar þar að fullt samráð hafi verið haft við verkfræðistofuna Hönnun hf. um orðalag spurninga í símakönnun en Hönnun hf. hafði umsjón með samskiptum við ráðgjafa fyrir hönd Sunnlenskrar orku. Einnig kemur fram í svörum Rögnvaldar að allir gestir í Hveragerði sem þátt tóku í könnuninni fengu í hendur kort af umræddu svæði.

Það er því mat skrifstofu Ferðamálaráðs hvað varðar þennan hluta kærunnar að ef framkvæmdaraðili véfengir niðurstöður úr rannsókn sem hann lætur vinna fyrir sig sé þörf á frekari rannsóknum til að komast að ótvíræðri niðurstöðu í málinu."

Í umsögn Ölfushrepps, dags. 22. júní 2001, er vísað til samþykktar bæjarstjórnar Ölfuss frá 31. maí 2001 þar sem bæjarstjórn lagðist gegn því að úrskurður Skipulagsstofnunar yrði kærður.

Í umsögn Hveragerðisbæjar, dags. 21. ágúst 2001, segir:

"Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar ítrekar fyrri umsögn sína um virkjunaráform í Grændal í Ölfusi sbr. bréf bæjarfélagsins til Skipulagsstofnunar frá 5. maí 2000 og til Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. frá 27. janúar 2000 sem fylgja hér með.

Á fundi bæjarráðs hinn 19. júní sl. var svofellt fært til bókar undir tl. 7.1. í fundargerð;

"Bréf Umhverfisráðuneytisins frá 14. júní 2001.

Í bréfinu er óskað eftir umsögn Hveragerðisbæjar um stjórnsýslukæru Sunnlenskrar orku frá 7. júní 2001 vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 4. maí 2001, þar sem lagst er gegn borun rannsóknarholu og lagningu vegar í Grændal í Ölfusi vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.

Formaður Bæjarráðs lagði fram eftirfarandi tillögu.

Bæjarráð tekur undir viðhorf Sunnlenskrar orku ehf. og skorar á Umhverfisráðherra að fallast á borun rannsóknarholu, lagningu vegar, gerð borstæðis og borframkvæmda í Grændal í Ölfusi.

Tillagan samþykkt með 2 atkvæðum, Árni Magnússon á móti og vísar í fyrri bókanir um málið.""

Í umsögn Grímsnes og Grafningshrepps, dags. 28. júní 2001, segir að sveitarstjórn taki undir kæru Sunnlenskrar orku hvað varðar úrskurð Skipulagsstofnunar, dags. 4. maí 2001. Sveitarstjórn líti á Hengilssvæðið sem orkuvinnslusvæði enda hafi orkuvinnsla hafist þar fyrir áratugum síðan. Framkvæmdaraðilar skuli ávallt umgangast náttúruna með fullri virðingu.

Í athugasemdum framkvæmdaraðila, dags. 4. október 2001, er vísað til niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar um áhrif vegalagningar inn Grændal samkvæmt vegleið A1 muni hafa í för með sér verulega röskun m.a. á mikilvægustu hverasvæðunum í dalnum hvað varðar fjölbreytt hveralíf og rannsóknir sem gerðar hafa verið m.a. á svæðum III og V. Það veki sérstaka athygli að Skipulagsstofnun virðist byggja þessa niðurstöðu sína á því að ekki hafi verið sýnt fram á hvernig væri hægt að standa að vegarlagningunni þannig að vatnsrennsli niður hlíðar Grændals skertist ekki verulega. Það sé því skortur á upplýsingum sem valdi því að Skipulagsstofnun ákveði að leggja til grundvallar þá tilhögun framkvæmda sem mestum umhverfisskaða valdi en leiti ekki eftir upplýsingum sem gefi rétta niðurstöðu. Vísað er til 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 um leiðbeiningarskyldu Skipulagsstofnunar og 4. gr. laganna heimild til að krefjast frekari gagna. Enga heimild sé að finna í lögunum til að leggjast gegn framkvæmd vegna upplýsingaskorts. Vísað er til bréfs Jóns Skúlasonar hjá Almennu verkfræðistofunni hf., dags. 28. maí 2001, sem fylgdi með kæru, þar sem fram kemur það álit hans að unnt sé að halda vatnsrennsli niður hlíðar Grændals að mestu óbreyttu eftir lagningu vegar. Einnig er vísað til bréfs Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings, dags. 28. maí 2001, sem einnig fylgdi kæru þar sem fram kemur það álit hans að framkvæmdir við veg, rannsóknarholu og vinnslu úr djúpvatnskerfinu muni ekki hafa neinar stórbreytingar í för með sér fyrir hverasvæðið. Heildarsvipur dalsins verði annar og tilfinningin fyrir hinu ósnerta, að áliti Kristjáns, en áhugaverðir skoðunarstaðir hverfi ekki og verði aðgengilegir sem fyrr. Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæru framkvæmdaraðila segi að upplýsingar Jóns hnekki ekki niðurstöðu stofnunarinnar áhrif vegarlagningarinnar án þess að frekari rökstuðningur fylgi með. Þetta geti ekki þýtt annað en það að stofnunin meti það svo að upplýsingar hans séu beinlínis rangar því öðrum kosti fái niðurstaða stofnunarinnar ekki staðist. Í ljósi þessa hafi framkvæmdaraðili leitað aftur til Jóns og óskað eftir frekari útlistun á því hvernig hönnun vegarins gæti tryggt að vatnsrennsli þvert á vegstæðið skertist sem minnist við lagningu vegarins. Umsögninni fylgir bréf svar hans, dags. 14. september 2001 þar sem hann gerir frekari grein fyrir hugmyndum sínum. Varðandi verndargildi Grændals ítrekar framkvæmdaraðili efasemdir sínar um niðurstöðu könnunar á ferðamannastraumi í Grændal. Framkvæmdaraðili hafi fengið Gallup á Íslandi til að gera könnun á þessum sama þætti þar sem reynt var að tryggja að svarendur gerðu sér grein fyrir um hvaða dal væri að ræða. Niðurstaða þeirrar könnunar virðist staðfesta efasemdir manna um réttmæti þeirrar könnunar sem fram komi matsskýrslu framkvæmdaraðila. Engin rök hafi verið færð fyrir því að þær framkvæmdir sem um ræðir í þessu máli komi til með að hafa áhrif á hverasvæðin í Grændal. Eftir standi sérstakt verndargildi Grændals til útivistar og náttúruskoðunar vegna þess að hann er ósnortinn. Fullyrða megi að ekkert svæði sem hafi mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn eins og Skipulagsstofnun gangi út frá með Grændal verði til langs tíma ósnortið. Það sé alþekkt að skipulagslaus umferð ferðamanna, sérstaklega um hverasvæði fái ekki staðist til lengri tíma. Það sé því ljóst að standi svæðið undir þeim væntingum sem Skipulagsstofnun hafi til þess sé fullvíst að leggja verði vegi og stíga um Grændal til að vernda þetta sérstaka lífríki og reyndar ferðamennina sjálfa. Vinsælustu útivistar- og náttúruskoðunarsvæði landsins í dag séu svæði sem almenningur hafi gott aðgengi að. Framkvæmdaraðili telur að önnur sjónarmið Skipulagsstofnunar en að framan hafa verið rakin geta átt við vegagerð almennt á Íslandi svo sem sjónarmið stofnunarinnar um röskun á gróðurlendi í vegstæðinu sjálfu. Þá segir í athugasemdum framkvæmdaraðila að hverri þjóð sé nauðsynlegt að nýta auðlindir sínar og fyrir því verði að vera afar sterk rök að gera það ekki. Þau rök hafi ekki komið fram hjá Skipulagsstofnun.

Frekari athugasemdir framkvæmdaraðila koma fram í greinargerð Hönnunar hf., ráðgjafa framkvæmdaraðila, dags. 3. október 2001, sem fylgir framangreindum athugasemdum er gerð athugasemd við þau ummæli Hollustuverndar ríkisins í umsögn stofnunarinnar að ekki sé tekið á þeim meginþáttum sem úrskurður Skipulagsstofnunar byggir á. Fellst ráðgjafinn ekki á að svo sé. Komið sé inn á þá staðreynd í niðurstöðu úrskurða Skipulagsstofnunar að Grændalur sé á náttúruminjaskrá og sú staðreynd sá notuð til þess að auka á neikvæð áhrif framkvæmda og "safna þannig utan á neikvæðan úrskurð". Í matsskýrslu sé fjallað um náttúruverndargildi og er vísað til kafla 6.3.7.1. í matsskýrslu og viðauka 4 í því sambandi. Ekki sé því horft fram hjá afleiddum áhrifum veglagningar á ásýnd dalsins í matsskýrslu. Óumflýjanlegt sé að vegur inn Grændal muni breyta ásýnd dalsins sem ekki eru þar mannvirki fyrir. Öðru máli gegni um áhrif á jarðfræðilegar minjar í dalnum þ.e. hveri, laugar og volgrur. Eins og ávallt hafi komi fram hjá framkvæmdaraðila sé mikið lagt upp úr því að sneiða hjá hverum og laugum í dalnum þannig að áhrif á þessar jarðfræðiminjar veðri sem allra minnstar. Álit Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings undirstriki það mat framkvæmdaraðila að fyrirhuguð vegarlagning í Grændal komi ekki til með að raska jarðfræðiminjum þar að neinu marki. Greinargerð hans hafi ekki verið ætlað að hnekkja því áliti að Grændalur væri óspillt svæði með jarðfræðiminjar sem eigi sér fáar hliðstæður á landinu. Vikið er að umfjöllun Náttúruverndar ríkisins um verndargildi Grændals þar sem segir að stofnunin meti það sem svo að samtalan fyrir framkvæmdir ætti að hækka frá því sem lýst er í skýrslunni. Um þetta segir ráðgjafi framkvæmdaraðila að hvernig sem heildareinkunn á náttúruverndargildi kæmi til með að verða séu það mögulegar breytingar sem vegagerð myndi hafa á gildið sem skipti máli í þessu samhengi. Tekið er að vissu leyti undir það með Náttúruvernd ríkisins að Grændalur sé tilvalið útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis. Dalurinn sé hins vegar ekki vinsæll sem almennt útivistarsvæði í dag. Því sé með nýtingu jarðhita í Grændal hagsmunum fárra fórnað fyrir framtíðarhagsmuni íbúa á svæðinu. Varðandi röskun á hverasvæðum segir í greinargerð ráðgjafans að þegar verið sé að meta líkleg umhverfisáhrif framkvæmdar fylgi niðurstöðu þerrar vinnu alltaf ákveðinn vafi. Ekki sé hægt að fullyrða að aðgerðir framkvæmdaraðila við vegarlögnina komi í veg fyrir að vegagerð inn dalinn hafi nokkur áhrif. Það komi á óvart að Skipulagsstofnun telji greinargerð Almennu verkfræðistofunnar fela í sér nýjar upplýsingar um hvernig leggja mætti veg inn Grændal. Ítrekað komi fram í matsskýrslu að sá vegur sem yrði lagður í Grændal yrði þannig að hann hleypti í gegnum sig vatni og þannig yrði áhrifum vegarins á vatnsrennsli niður hlíðarnar haldið í lágmarki. Ráðgjafinn telur niðurstöðu umsagnar Hollustuverndar ríkisins undarlega þar sem stofnunin hafi ekki talið sig hafa þekkingu á að meta greinargerð Almennu verkfræðistofunnar. Þá segir að þau gögn hafi verið lögð fram til þess að styðja við þá vitneskju sem þegar hafði komið fram í matsskýrslu. Varðandi rask á gróðurlendi segir í greinargerð ráðgjafans:

"Rétt er að ítreka það álit sem fram kom í kæru að varanlegar gróðurskemmdir eru óumflýjanlegur fylgifiskur vegaframkvæmda. Ekki er talið að þær gróðurskemmdir sem Skipulagsstofnun talar um séu þess eðlis að þær geti talist umtalsverðar. Í mati á umhverfisáhrifum er í gróðurathugunum sérstaklega leitað eftir sjaldgæfum gróðri og því sem sérstakt getur talist til þess að auðvelda mat á vægi áhrifa. Í gróðurathugun þeirri sem gerð var í þessari matsvinnu fundust tvær válistategundir plantna en ekki var talið að þær væru í vegstæði svo neinu nemi. Eins var til þess tekið að í Grændal væri að finna fjölbreytilegt gróðurlendi sem talið er orsakast af jarðhitanum og fjölmörgum lækjarsytrum sem renna niður hlíðar dalsins. Það er því ekki síður mikilvægt gróðri í Grændal sem hverum að rennsli vatns niður hlíðarnar haldist svo til óbreytt þannig að fjölbreytni gróðurs rýrni ekki. Framkvæmdaraðili er meðvitaður um þetta og því er enn og aftur ítrekað að við veglagningu í Grændal yrði gripið til aðgerða sem myndu valda því að vatnsrennsli héldist svo til óskert niður hlíðarnar. Rökstuðningur Skipulagsstofnunar fyrir því að vegagerð í Grændal hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna varanlegra gróðurskemmda ásamt með varanlegum áhrifum á vatnsstreymi, hveri og laugar, fæst ekki staðist."

Varðandi vinsældir Grændals sem göngulands segir að hvað varði könnun sem gerð var meðal gesta í Hveragerði sé ólíku saman að jafna við þá niðurstöður símakönnunar sem framkvæmdaraðili hefur véfengt þar sem þátttakendum hafi verið afhentur spurningalisti ásamt korti af svæðinu sem tilgreindi dalinn nákvæmlega. Í greinargerðinni segir að ekki verði séð að Skipulagsstofnun hafi svarað málsástæðum framkvæmdaraðila varðandi áhrif á gildi Grændals til rannsókna og nýtingar á hveraörverum. Varðandi stefnumörkun um landnýtingu segir að það að sveitarfélögin Ölfus og Hveragerði séu aðilar að Sunnlenskri orku ehf. hljóti að vera sterk vísibending um að vilji sé innan sveitarfélaganna til að kanna nánar mögulega jarðhitavinnslu í Grændal og hafi hann ítrekað verið staðfestur í matsferlinu. Þá segir að ekki sé ljóst hvað Náttúruvernd ríkisins eigi við þegar hún talar um að náttúruminjum ætti ekki að raska. Svo megi skilja ekki megi hrófla við svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Þessi umsögn skjóti skökku við þegar litið sé til þeirra borana sem nú eigi sér stað á Hellisheiði og eru innan sama náttúruminjasvæðis og Grændalur er.

Þann 27. júní 2001 fóru þrír sérfræðingar ráðuneytisins í vettvangsferð í Grændal.

V. Niðurstaða

1.

Jarðfræði Grændals og nágrennis er vel lýst í skýrslu Orkustofnunar frá 1992: "Hveragerðiseldstöð jarðfræðilýsing" eftir Kristján Sæmundsson og Guðmund Ómar Friðleifsson, jarðfræðinga. Yfirborðsjarðhiti í Grændal er annars vegar gufu- og leirhverir og hins vegar laugar og volgrur. Berggrunnurinn í dalnum er þéttur vegna ummyndunar. Af þeim sökum sígur lítið vatn ofan í hann og lindir myndast ekki, heldur gufu og leirhverir. Lindir myndast hins vegar í framhlaupunum. Stærstu lindirnar í framhlaupunum eru ekki aðeins neðst eins og algengast er, heldur vel uppi í þeim. Fjöldi af smásytrum, sem oft eru volgar, myndast því í skriðunum. Sérkenni Grændals liggur í miklum fjölbreytileika varmalindanna, bæði varðandi gerð, hitastig og efnainnihald vatnsins. Afar mikið er af helstu gerðum varmalinda, volgum dýjum og volgum lækjarsytrum. Vatnshverir eru ráðandi kringum Hveragerði og Reyki upp í u.þ.b. 100 metra hæð yfir sjávarmáli. Utan þessa svæðis voru vatnshverir neðst í Rjúpnabrekkum vestan við mynni Grændals. Helstu laugasvæði í skriðum og framhlaupum eru í Rjúpnabrekkum og í Grændal, bæði utanverðum og innst þar sem hann víkkar. Heitar skellur, gufuhverir og leirhverir finnast víða í Hveragerðiseldstöðinni. Mest og samfelldust er hveravirknin á spildu frá Rjúpnabrekkum norðaustur yfir Grændal að Þvergili. Annað hverasvæði er nokkru innar í Grændal, vestan ár, litlir gufusprengigígar koma þar fyrir. Loks er mjög virkt og stórt svæði innst í Grændal. Mest ber á gufu- og leirhverum þar sem hærra er, en neðar eru laugar og volg jörð í þykkum skriðum og jarðvegi. Allvíða finnast litlir hverasprengigígar, nokkrir tugir metra í þvermál. Flestir eru innan til í Grændal. Algengt er að finna klepra af hematíti (blóðsteini) þar umhverfis. Hverabreytingar hafa iðulega orðið á jarðhitasvæðinu, oftast í tengslum við jarðskjálfta en líka af minna tilefni að því er virðist. Smáskjálftahrinur eru algengar í Hveragerðiseldstöðinni.

Í skýrslu matsskýrslu Sunnlenskrar orku ehf. vegna borunar rannsóknarholu og vegagerðar í Grændal í Ölfusi er fjallað um niðurstöður smáskjálftamælinga. Með greiningu á upptökum skjálfta innan Grændalssvæðisins, úr fjórum helstu skjálftahrinum ársins 1999, er unnt að afmarka sex misgengisfleti af nokkru öryggi og mögulega aðra fimm til viðbótar. Niðurstöður benda til að mesta virknin sé á norðurjaðri Grændalssvæðisins. Eins eru misgengin nokkurn vegin á sama stað og yfirborðsjarðhitinn. Í skýrslunni er einnig lýst niðurstöðum gashitamælinga sem sýna að gashiti vestan við fyrirhugaða borholu í borstæði B er jafnan meiri en 250°C og hækkar í yfir 270°C til norðvesturs frá henni.

2.

Samkvæmt úrskurði Skipulagsstofnunar, dags. 4. maí 2001, var lagst gegn þeirri framkvæmd sem framangreind kæra lítur að. Aðalkrafa kæranda er að ráðuneytið fallist á borun rannsóknarholu á borstað B og lagningu vegar inn Grændal samkvæmt vegleiðum A1 eða A2. Til vara er þess krafist að fallist verði á borun í borplani C og lagningu vegar frá línuvegi og Búrfellslínu 3A.

Í skýrslu um frumathugun á lífríki hvera sem fylgdi matsskýrslu segir að sem heild sé "Grensdalurinn" mjög sérstakur sem búsvæði hveralífvera, afar mikið sé af helstu gerðum varmalinda, volgum, dýjum og volgum lækjarsytrum, á tiltölulega afmörkuðum svæðum dalsins sé að finna margar helstu gerðir búsvæða hveraörvera og á afmörkuðum blettum séu jafnvel oft mjög fjölbreytileg lífsskilyrði fyrir hveraörverur.

Í sérfræðiáliti Náttúrufræðistofnunar Íslands, dags. 26. apríl 2001, um mat á verndargildi Grændals segir að Grændalur hýsi eitt af stærstu, ósnortnu hvera- og laugasvæðum landsins á háhitasvæði. Dalurinn hafi hátt gildi hvað varðar viðmið sem háð eru afstöðu manna og samkvæmt vistfræðilegum viðmiðum. Hann fái hámarksgildi í alls 10 af 17 verndarflokkum. Grændalur sé sérstakur á landsvísu. Það séu einkum jarðfræðilegar minjar svo sem fjölbreytilegir hverir og laugar sem standi undir fjölbreytilegu lífríki ekki síst hveralífi, sem geri Grændal sérstakan. Hann sé að mestu ósnortinn og fullyrða megi að þessar jarðfræðiminjar eigi sér fáar hliðstæður á landinu. Aðkoma að mynni dalsins sé sérstök því þar koma upp volgrur, laugar og gufuhverir. Sérstakt við Grændal séu einnig djúp snið, þar sem unnt sé að skoða jarðfræði Hengils. Jarðhitasvæði í líkingu við Grændal þ.e. fjölbreytt hvera- og laugasvæði innan gosbeltis séu ekki til í Evrópu utan Íslands. Ef til vill megi finna fáein álíka svæði í heiminum en ekki á norðurslóðum nema hugsanlega á Kamtsjatka. Einnig segir að sérlega lítið sé gert úr áhrifum vegarins á landslag og ásýnd lands en að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands séu það megináhrif framkvæmdanna.

Framkvæmdaraðili vísar til úrskurðar skipulagsstjóra frá 28. maí 2000 varðandi vægi þess að umrætt svæði sé á náttúruminjaskrá. Í þeim úrskurði var ekki lagst gegn framkvæmdum á Grændalssvæðinu, enda ekki gert ráð fyrir því í þágildandi lögum en úrskurðað að frekara mat skyldi fara fram. Í úrskurði Skipulagsstofnunar frá 4. maí 2001 var fjallað ítarlega um framangreint sérfræðiálit Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ráðuneytið fellst því ekki á það sjónarmið framkvæmdaraðila að meginröksemd Skipulagsstofnunar fyrir því að leggjast gegn framkvæmdinni hafi verið að svæðið sé á náttúruminjaskrá.

Framkvæmdaraðili vísar jafnframt til ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 30. janúar 2001 varðandi borun tveggja rannsóknarhola á Hellisheiði. Í ákvörðuninni kemur fram að fyrirhuguðu framkvæmdasvæði hafi þegar verið raskað. Ráðuneytið telur því ekki um sambærileg mál að ræða.

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins segir að stofnunin telji svæðið án efa hafa meira verndargildi sem ein ósnortin heild. Ráðuneytið lítur svo á að Grændalur sé ósnortin heild í þeim skilningi að í honum er ekki að finna nein mannvirki. Ekki er unnt að fara inn dalinn með vélknúin ökutæki. Dalurinn telst þó ekki ósnortið víðerni í skilningi 4. tl. 3. gr. náttúruverndarlaga. Samkvæmt 37. gr d. náttúruverndarlaga njóta hverir og aðrar heitar uppsprettur sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Í matsskýrslu og öðrum gögnum framkvæmdaraðila segir að vegurinn yrði lagður þannig að sneytt yrði hjá hverum og heitum laugum. Í kæru framkvæmdaraðila segir að aðal áhyggjuefnið sé hver einn á miðri leið sem sé hættulega nærri veginum að talið er en sjálfsagt sé að standa þannig að verki að honum verði ekki spillt. Af matsskýrslu og vettvangskönnun má sjá að mynni dalsins er mjög þröngt og þar er að finna gufuhver og volgrur. Ljóst er því að vegleiðir A1 og A2 liggja mjög nálægt hverum á köflum. Í matsskýrslu er gert ráð fyrir 4,0 metra breiðri akbraut og útskotum til mætinga þar sem aðstæður leyfa og burðarþol vegarins miðist við 40 tonna heildarþunga. Gert er ráð fyrir að lengd vegarins verði þrír kílómetrar. Vegurinn mun því liggja inn endilangan dalinn. Ljóst er að fyllingu þarf undir veginn og á nokkrum stöðum er þörf fyrir skeringar. Ráðuneytið telur því ljóst að meira landsvæði fari undir veg en sem nemur 4 metra akstursbraut. Ráðuneytið telur að líta verði á röskun á gróðri í því ljósi. Einnig telur ráðuneytið ljóst að vegarlagning inn dalinn muni hafa áhrif á þær fjölmörgu lækjarsytrur sem er að finna í dalnum og eru taldar eitt af séreinkennum hans.

Í matsskýrslu eru bornir saman fjórir kostir varðandi borstað, borstaðir: A, B, C og D. Í úrskurði skipulagsstjóra, dags. 28. maí 2000, segir að fallist sé á borun rannsóknarholu á borstað A í um 85 metra hæð yfir sjávarmáli á áreyrum í mynni Grændals með því skilyrði að tryggt verði að framkvæmdin hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki Varmár. Ráðuneytið telur því að fallist hafi verið á borun á borstað A og ekki þörf á að fjalla frekar um þann borstað í úrskurði ráðuneytisins. Í úrskurði Skipulagsstofnunar segir að í matsskýrslu séu færð rök fyrir því að borun á borstöðum C og D komi ekki til greina. Framkvæmdaraðili gerir í kæru sinni aðalkröfu um að fallist verði á borun í borstað B og varakröfu um að ef ekki verði heimiluð borun á borstað B verði fallist á borun á borstað C og telur ráðuneytið því rétt að þessir kostir séu bornir saman. Borstæði B er áætlað innarlega í Grændal, um 2,3 kílómetra norðan mynnis dalsins í um 190 metrum yfir sjávarmáli. Staðsetning borstæðis C er austan í Dalaskarðshnjúki á hálendinu norðan Grændals í 400 metra hæð yfir sjávarmáli.

Í matsskýrslu er litið til fjögurra mismunandi þátta við val framkvæmdaraðila á borstæði: tæknilegra þátta, öryggisþátta, umhverfisþátta og framtíðarnotkunar. Fram kemur að allir þættir eru taldir tæknilega framkvæmanlegir. Í umfjöllun um öryggisþætti segir að á borstæði C sé komið að norðurmörkum Hveragerðiseldstöðvarinnar og því nokkuð norður fyrir hæsta hita í jarðhitakerfi Grændals. Hola staðsett þarna gæti því verið við jaðar jarðhitakerfisins líkt og hola í borstæði A. Með stefnuborum til SSA gæti rannsóknarhola á þessum stað hugsanlega hitt í háan hita. Í umfjöllun um umhverfisþætti segir að bæði borstæði B og D krefðust þess að lagður yrði vegur inn Grændal á svæði sem hingað til hafi ekki orðið fyrir raski að neinu tagi nema ef vera skyldi af sauðfjárbeit. Staðsetningar borstæða A og C hafi hinsvegar þann kost að komist yrði hjá viðbótarraski á umhverfi vegna vegagerðar þar sem hægt væri að nýta slóða sem þegar eru fyrir hendi. Varðandi framtíðarnotkun segir að rannsóknarholur á borstæðum A og B uppfylli vænleg skilyrði til framtíðarnotkunar.

Það er vel þekkt á háhitasvæðum að ekki nýtist allar holur sem boraðar eru. Í matsskýrslu segir að áhættuþættir spili stórt hlutverk. Borun rannsóknarholu fylgir því óvissa eðli málsins samkvæmt. Framkvæmdaraðili hefur lagt áherslu á að fallist verði á rannsóknarborun í borstæði A sem er samkvæmt matsskýrslu við jaðar jarðhitakerfisins og hefur í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum verið fallist á borun í því borstæði. Jafnframt leggur framkvæmdaraðili áherslu á heimild til rannsóknarborunar í borstæði C verði ekki fallist á rannsóknarborun í borstæði B. Í matsskýrslunni segir að borstæði B sé á þeim stað þar sem fyrirliggjandi rannsóknir benda til að hæstan hita sé að finna en að hola C sé rétt innan afmarkaðs rannsóknasvæðis. Í samantekt matsskýrslu framkvæmdaraðila segir að borun á borstað B sé hugsanlega sú eina sem gefi fullnægjandi upplýsingar um vinnslueiginleika jarðhitageymisins. Hola staðsett í borstæði C nái ekki að fullu inn á það svæði sem líklegast þykir til að gefa hátt hitastig. Eins og að framan greinir benda niðurstöður smáskjálftamælinga til að mesta virknin sé á norðurjaðri Grændalssvæðisins. Í skýrslunni er einnig lýst niðurstöðum gashitamælinga sem sýna að gashiti vestan við fyrirhugaða borholu í borstæði B er jafnan meiri en 250°C og hækkar í yfir 270°C til norðvesturs frá henni. Í matsskýrslu kemur fram að borsstæði C er í norð-, norð- vesturátt frá fyrirhuguðu borstæði B.

3.

Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds álits Náttúrufræðistofnunar Íslands, umsagna Náttúruverndar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins og Skipulagsstofnunar svo og annarra fyrirliggjandi upplýsinga þar með talið matsskýrslu að Grændalur sé svæði sem er sérkennilegt og einstætt á margan hátt, ekki aðeins á landsvísu. Ráðuneytið telur að megináhrif fyrirhugaðrar rannsóknarborunar séu áhrif á landslag og ásýnd lands. Þau áhrif telur ráðuneytið hins vegar veruleg. Rannsóknarborun í borstæði B hefði í för með sér að leggja þyrfti veg að borstæðinu um lítt raskað eða óraskað land. Sú aðgerð myndi hafa í för með sér tiltekin óafturkræf umhverfisáhrif án þess að fyrir liggi að unnt sé að nýta svæðið til jarðhitavinnslu. Með hliðsjón af sérstöðu þess svæðis sem um ræðir telur ráðuneytið að sjónarmið varðandi framtíðarnotkun eigi ekki að ráða vali á borstæði vegna þeirrar óvissu sem rannsóknarborun fylgir. Ráðuneytið telur því að ástæða sé til að lágmarka umhverfisáhrif vegna rannsóknarborunar. Ráðuneytið telur einnig, samkvæmt framansögðu, að gögn úr borun í borstæði A ásamt gögnum úr borun í borstæði C muni að öllum líkindum gefa fullnægjandi mynd af jarðhitakerfi svæðisins til að unnt verði að kortleggja það en það er meginmarkmiðið með borun rannsóknarholu.

Borun í borstæði C hefði samkvæmt matsskýrslu í för með sér vegarlagningu frá línuvegi Búrfellslínu 3. Vegurinn lægi austan í Dalaskarðshnjúk að borstæði og samkvæmt mynd 3.3. í matsskýrslu yrði vegurinn um 1 kílómeters langur.

Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu ekki rétt að boruð verði rannsóknarhola á borstað B með tilheyrandi vegagerð inn Grændal. Hins vegar fellst ráðuneytið á að boruð verði rannsóknarhola á borstað C og lagður verði vegur samkvæmt vegleið C2 sem lýst er í matsskýrslu að borstæði C. Ráðuneytið telur eðlilegt að vegurinn fylgi landslagi, samráð verði haft við Náttúruvernd ríkisins um lagningu vegar að borstað C, efnistöku vegna þess og frágang á svæðinu. Holunni verði lokað að rannsókn lokinni og snyrtilega frá henni gengið. Jafnframt telur ráðuneytið nauðsynlegt að affalsvatni verði dælt aftur niður í jarðhitageyminn.

Ekki hefur verið gerð krafa um að fallist verði á borun í borstæði D og tekur úrskurður ráðuneytisins því ekki til þess.

Með vísan til þess sem að framan segir er úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum tilraunaborunar og vegagerðar í Grændal felldur úr gildi. Fallist er á fyrirhugaða framkvæmd með framangreindum skilyrðum.

VI. Úrskurðarorð

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 4. maí 2001, um mat á umhverfisáhrifum borunar rannsóknarholu og vegagerðar í Grændal, Ölfusi er felldur úr gildi.

Fallist er á fyrirhugaða framkvæmd með eftirfarandi skilyrðum:

Ekki er fallist á að boruð verði rannsóknarhola á borstað B í Grændal sem lýst er í matsskýrslu ásamt vegarlagningu inn Grændal samkvæmt vegleiðum A1 og A2.

Fallist er á borun á borstað C austan í Dalaskarðshnjúki sem lýst er í matsskýrslu ásamt vegarlagningu samkvæmt vegleið C2 og lýst er í matsskýrslu að borstæði.

Vegur að borstæði C skal fylgja landslagi.

Samráð skal haft við Náttúruvernd um lagningu vegar að borstað C og efnistöku vegna þess.

Rannsóknarholunni skal lokað að rannsókn lokinni og snyrtilega frá henni gengið.

Affalsvatni skal dælt aftur niður í jarðhitageyminn.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum