Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 00120209

Ráðuneytinu hefur borist kæra Benedikts Ó. Sveinssonar fyrir hönd eiganda jarðarinnar Víkingavatns í Kelduneshreppi, dags. 22. janúar 2001, vegna úrskurðar Skiplagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Norðurausturvegar, Bangastaðir-Víkingavatn, Kelduneshreppi, frá 22. desember 2000.

I. Hinn kærði úrskurður

Skipulagsstofnun úrskurðaði um mat á umhverfisáhrifum Norðurausturvegar, Bangastaðir-Víkingavatn samkvæmt 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, þann 22. desember 2000 og eru úrskurðarorðin eftirfarandi:

"Í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 hefur Skipulagsstofnun farið yfir þau gögn sem lögð voru fram samkvæmt 10. gr. sömu laga af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu ásamt umsögnum, athugasemdum og svörum framkvæmdaraðila við þeim.

Með vísun til niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar er fallist á fyrirhugaða lagningu Norðausturvegar milli Bangastaða og Víkingavatns í Kelduneshreppi eins og henni er lýst í framlagðri matsskýrslu."

Framkvæmdin sem hinn kærði úrskurður Skipulagsstofnunar fjallar um er á Norðausturvegi í Norður-Þingeyjarsýslu á leiðinni milli Húsavíkur og Kelduhverfis. Um er að ræða lagningu 10 km langs nýs vegarkafla á Norðausturvegi í Kelduneshreppi frá Háubrekku skammt sunnan við eyðbýlið Bangastaði á austanverðu Tjörnesi að slitlagsenda við Víkingavatn í Kelduhverfi.

II. Krafa og málsástæður kæranda

Kærandi fer fram á að umhverfisráðherra breyti úrskurði Skipulagsstofnunar á þann hátt að vegurinn verði ekki lagður yfir svokallaða Hraunatjörn á Flæðum í landi Víkingavatns.

Í máli þessu er því eingöngu til úrskurðar afmarkaður kafli fyrirhugaðrar framkvæmdar samkvæmt vegleið 1 í matsskýrslu framkvæmdaraðila, þar sem gert er ráð fyrir að vegurinn liggi yfir svæði sem nefnist Hraunatjörn. Í matsskýrslu segir:

"Frá stöð 34.680-34.800 er farið um svæði sem nefnist Hraunatjörn. Eins og nafnið ber með sér var þar áður votlent en nú stendur þar vatn vor og haust en á sumrin er hún þurr. Þar er landið gróið og töluvert af lágum víðirunnum. Á svæðinu eru nokkrir gulvíðibrúskar sem eru meira en mannhæðarháir. Við jaðar svæðisins lenda nokkrir þeirra í veglínunni. Nokkurt æðarvarp er við Lónin og fer veglínan yfir hluta þess á svæðinu við Hraunatjörn."

Kærandi telur ótvírætt að tjörnin hafi slíka sérstöðu, að það sé með öllu óverjandi að spilla henni. Hvergi annars staðar á vegleiðinni komi fyrir slík gróðurfélög sem þar og að auki gegni tjörnin mikilvægu hlutverki í sambandi við búskap æðarfugls á svæðinu. Kærandi telur það rangt sem fram komi í úrskurði Skipulagsstofnunar að aðeins 8% af flatarmáli tjarnarinnar lendi undir veginum. Kærandi telur að tæpur helmingur tjarnarinnar spillist af vegi, sem muni leiða til þess, að hún fari öll forgörðum. Kærandi segir Hraunatjörn hafa verið friðaða fyrir beit síðan 1974. Eftir það hafi gríðarlegar gróðurbreytingar átt sér þar stað m.a. hafi víðlendir víðirunnar sprottið þar upp, bæði gulvíðir og loðvíðir og náð nærri tveggja metra hæð. Æðarfugl hafi tekið að hreiðra um sig á Flæðum og Hraunatjörn sé sá staður þar sem æðarfuglinn komi til að drekka, baða sig og tjá samskipti sín innbyrðis snemma vors. Fyrir fáum árum hafi varp verið lítið en nú verpi þar hátt í 400 kollur ár hvert. Kærandi telur að fari svo, að Hraunatjörn verði að engu gerð, muni það bitna á öllum æðarfugli austan við fyrirhugaðan veg, langleiðina austur í nefnda Dokk. Kærandi segir að mótvægisaðgerð, sem ráðgerð sé og sé fólgin í því að grafa fyrir nýjum tjörnum, muni að engu haldi koma að dómi fuglafræðinga.

Kærandi segir að um leið og eigendum Víkingavatns hafi verið ljóst að leggja ætti veginn yfir Hraunatjörn, hafi verið gerðar við það athugasemdir. Vegagerðin hafi fallist á að flytja veglínu 2-300 metrum vestar. Talið hafi verið að málið væri frágengið með mjög góðu samkomulagi við Vegagerðina. Hins vegar hafi á síðustu stundu komið andmæli frá eigendum jarðarinnar Lóns án þess, að kærendum væri tilkynnt um það af hálfu Vegagerðarinnar. Fyrirspurn hefði verið beint til sveitarfélagsins sem hafi ekki talið ástæðu til að færa veginn frá upphaflegri veglínu. Kærandi segir grasafræðinga og dýrafræðinga telja það til bóta að flytja veglínuna. Þá gerir kærandi athugasemd við að tegundir mosa og fléttna hafi ekki verið teknar með við athuganir á flóru og gróðri við gerð frummatsskýrslu og engar gróðurmælingar liggi til grundvallar til að dæma gildi einstaka gróðurfélaga. Fullvíst megi telja, að sérstaða Hrauntjarnar hefði komið skýrt í ljós. Því þyki nauðsynlegt, að fram komi, hvers vegna ekki hafi verið farið fram á það af hálfu Skipulagsstofnunar um veg yfir Hraunatjörn.

III. Umsagnir og athugasemdir

Ráðuneytið óskaði, með bréfum dags. 6. febrúar 2001, eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Náttúruverndar ríkisins, Vegagerðarinnar og Keldunesshrepps.

Í umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 19. febrúar 2001, segir m.a.:

"Á blaðsíðu 7 í hinum kærða úrskurði kemur fram að vegurinn muni samkvæmt leið 1 liggja yfir mýri við Hraunatjörn. Eins og kærendur benda á er gert ráð fyrir að um 8% af flatarmáli Hrauntjarnar lendi undir veginum, að hann verði lagður fljótandi yfir votlendið en hætta sé á að votlendi þorni eitthvað vegna breyttrar vatnstilfærslu og í kjölfarið geti gróðurfar og dýralíf breyst. Á bls. 5 í hinum kærða úrskurði er þess einnig getið að vegur yfir Hraunatjörn muni líklega hafa áhrif á nýtingu æðarvarps. Tekið er fram að ný veglína hafi verið skoðuð vestan Hrauntjarnar þannig að vatnsstaða, gróðurfar og fuglalíf hennar héldist líklega óbreytt. Landið þar sé hins vegar mun mishæðóttara, svo meiri skeringar yrðu í lítið gróið hraunlendi auk þess sem færslan skerti nokkuð land Lóns. Það var því ljóst að annað hvort yrði Hraunatjörn skert eða skeringar í hraun á viðkomandi kafla.

Eins og sést af því sem að framan er rakið var ljóst að við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar að vegarlagningin hefði í för með sér umhverfisáhrif, m.a. vegna beinnar skerðingar á búsvæðum fugla, s.s. votlendi og tjörnum, eins og segir á bls. 11 í hinum kærða úrskurði. Hins vegar taldi Skipulagsstofnun að sýnt hefði verið fram á að ekki væru aðrir ásættanlegir kostir á vegstæðum á svæðinu sem uppfylltu kröfur um vegtæknileg atriði og umferðaröryggi. Sveitarstjórn tók, eins og fram kemur í kæru afstöðu með þeim kosti að skerða Hraunatjörn, en framkvæmdaraðili, Vegagerðin, lagði fram ítarlegar upplýsingar um framkvæmdatilhögun, mótvægisaðgerðir og vöktun sem miða að því að draga úr óæskilegum áhrifum framkvæmdarinnar á dýralíf, gróður og landslag. Því féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdir samkvæmt leið 1 um Lónsós, en niðurstaðan byggir á því að framfylgt verði þeirri framkvæmdatilhögun, mótvægisaðgerðum og vöktun sem framkvæmdaraðili lagði til og lýst er í matsskýrslu og í hinum kærða úrskurði.

Skipulagsstofnun telur að í kæru hafi ekkert það komið fram sem breyta eigi niðurstöðu úrskurðar frá 22. desember 2000 um mat á umhverfisáhrifum norðurausturvegar, Bangastaðir-Víkingsvatns í Kelduneshreppi."

Í umsögn Náttúruverndar ríkisins, dags. 9. febrúar 2001, segir:

"Náttúruvernd ríkisins álítur að kæran sé réttmæt.

Í niðurlagi umsagnar Náttúruverndar ríkisins dags. 21. nóvember sl. um mat á umhverfisáhrifum ofangreindrar framkvæmdar segir eftirfarandi: "Náttúruvernd ríkisins tekur undir með skýrsluhöfundum varðandi jákvæð áhrif leiðar 1 á vegtæknileg atriði en telur hinsvegar að leið 2 sé ákjósanlegri kostur með tilliti til náttúruverndar. Veigamesta gagnrýnin á leið 1 út frá náttúruverndar sjónarmiðum er annarsvegar sú að farið er með veginn um ósnortið land í stað lands sem þegar hefur verið raskað og hinsvegar hin miklu fyrirsjáanlegu áhrif á fuglalíf." Náttúruvernd ríkisins lagðist í umsögn sinni gegn vegagerð um svæðið vegna þess að hún samrýmist ekki náttúruverndarsjónarmiðum.

Í kærunni er dregin í efa sú fullyrðing að einungis 8% af flatarmáli Hrauntjarnar verði skert við framkvæmdina. Þessar efasemdir eru réttmætar að mati Náttúruverndar ríkisins. Vegur þvert um tjörnina hefur afgerandi áhrif á lífríkið og líklegt má telja að fuglalíf í þeirri mynd sem við þekkjum í dag leggist af vegna ónæðis. Umferð fylgir að auki mengun og vegurinn getur haft áhrif á vatnafar.

Landeigendur hafa fyrir löngu friðað tjörnina og umhverfi hennar fyrir beit sem hefur haft afgerandi áhrif á náttúrufar og fuglar sækja þangað í auknum mæli. Sú athugasemd sem fram kemur um mikilvægi Hrauntjarnar fyrir æðarfugl snemma á vorin er rétt. Líklegt má telja að áhrif á fuglalíf megi merkja á stóru svæði ef Hrauntjörn verður eyðilögð.

Það er rétt að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir eru að mati sérfræðinga taldar koma að litlum notum.

Athugasemd varðandi skort á gögnum um gróðurfar þarf að taka til athugunar.

Hrauntjörn er fremur lítill gaumur gefinn í matsskýrslunni og ekki er skýrt hvort veglínan liggi yfir Hrauntjörn eða vestan hennar. Í kafla 2.5.1 er lýsing á veglínunni. Þar segir á bls. 28: "Frá stöð 34.680-34.800 er farið um svæði sem nefnist Hraunatjörn." Ekki er hægt að sjá af fylgigögnum að vegurinn þveri tjörnina. Í fylgiskjali 23 með matsskýrslu segir að búið sé að færa veglínuna uppúr Hrauntjörn og að sú færsla sé til bóta.

Niðurstöður Náttúrufræðistofnunar um gróðurfar og fuglalíf eru dregnar saman í kafla 3.4.6. Þar segir að vegagerð skv. valkosti I hefði í för með sér verulega skerðingu á fuglalífi svæðisins einkum á heimkynni votlendisfugla m.a. í Flæðum svo og á æðar- og kríuvörp í Flæðum. Vegurinn mun rjúfa kyrrð og friðsæld þessa óraskaða svæðis. Áhrif á gróður eru talin minni og staðbundin.

Náttúruvernd ríkisins tekur undir með kæranda að falla beri frá lagningu vegar um Hrauntjörn með hliðsjón af náttúruverndarsjónarmiðum. Ennfremur ítrekar stofnunin þá afstöðu sína að framkvæmdin öll er í hróplegu ósamræmi við markmið náttúruverndarlaga og stefnu íslenskra stjórnvalda um verndun votlendis."

Í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 19. febrúar 2001, segir:

"Í matsskýrslu Vegagerðarinnar frá september 2000 er fjallað um nýjan Norðausturveg á kaflanum frá Bangastöðum að Víkingsvatni í Kelduhverfi. Á kafla liggur vegurinn um svokallaða Hraunatjörn. Vegna óska sumra landeigenda var skoðuð ný veglína sem liggur vestan við Hraunatjörn. Þar sem óskir landeigenda ganga í gagnstæðar áttir og munur á línunum ekki afgerandi, taldi Vegagerðin eðlilegt að sveitarstjórn kæmi að málinu. Í matsskýrslunni kemur því fram að Vegagerðin er tilbúin að færa veglínuna þar sem hún liggur yfir Hraunatjörn ef sveitarstjórn Keldunesshrepps fer fram á það. Sveitarstjórn taldi hins vegar ekki ástæðu til þess.

Undirbúningur

Þegar Vegagerðin kynnti veglínu um Fjallahöfn á fundi í Kelduhverfi sumarið 1999 var kynnt veglína sem liggur yfir Hraunatjörn. Á fundinum komu fram athugasemdir frá landeigendum í Lóni (Einari Ófeigi Björnssyni) þar sem óskað var eftir að veglínan yrði færð austar þar sem hún liggur í nágrenni Hraunatjarnar til að vegurinn skerti land Lóns sem minnst. Á sama fundi óskaði Jóhann Gunnarsson á Víkingavatni hins vegar eftir að veglína yrði færð vestar á þessum stað.

Vegagerðin taldi á þeim tíma að þar sem báðir landeigendur vildu færslur væri best að halda sig við upphaflega veglínu.

Sumarið 1999 var gróðurfar og fuglalíf í veglínunni rannsakað af Náttúrufræðistofnun Íslands. Veturinn 1999-2000 var haft samráð við landeigendur og óskað eftir athugasemdum við vegaframkvæmdina. Í bréfi frá landeiganda Víkingavatns 2, (fylgiskjal 18) var lagst gegn vegarlagningu yfir Hraunatjörn. Í bréfi frá Birni Guðmundssyni í Lóni kom fram að sonur hans (Einar Ófeigur Björnsson) hefði óskað eftir færslu á veglínunni til norðausturs við Hraunatjörn (fylgiskjal 16).

Í kjölfarið var skoðað að flytja veglínuna til austurs eða vesturs frá tillögunni yfir Hraunatjörn. Í ljós kom að færsla til austurs væri mjög óheppileg og var Jóhann Gunnarsson á Víkingavatni 1 sammála því. Ef veglínan ætti að liggja utan við allt æðarvarp og votlendi myndi vegur sem færi yfir óraskað land lengjast töluvert og veglínan myndi fara yfir tún í landi Víkingavatns.

Nokkur færsla til vesturs var hins vegar möguleg. Hægt var að fara framhjá Hraunatjörn án mikillar tilfærslu.

Frumdrög að matsskýrslu voru send til Skipulagsstofnunar í maí 2000 og 22. ágúst 2000 var sent afrit af völdum köflum úr frumdrögunum til landeigenda á framkvæmdasvæðinu. Þar kom fram að um frumdrög væri að ræða. Í frumdrögunum að matsskýrslu, kafla 4.4. Dýralíf sagði: Vegagerðin er tilbúin til að færa veglínuna til suðvesturs, framhjá Hraunatjörn, þar sem veglínan liggur meðfram æðavarpi. Í kafla 4.7. Vatn sagði: Mögulegt er að færa veglínuna til suðvestur, þannig að hún fari framhjá Hraunatjörn.

Þann 4. september 2000 óskaði Björn Guðmundsson landeigandi í Lóni eftir fundi með Vegagerðarmönnum. Hann landeigendur Lóns alfarið vera á móti færslu á veglínunni við Hraunatjörn til vesturs (sjá fylgiskjal 32).

Í kjölfarið ákvað Vegagerðin að þar sem báðar veglínur væru ásættanlegar vegtæknilega, væri best að sveitarstjórn Kelduneshrepps tæki ákvörðun um staðsetningu vegarins á þessum kafla."

Þá er í umsögninni vitnað til þeirra kafla í matsskýrslu þar sem fjallað er um möguleika á færslu veglínunnar.

Í umsögn Keldunesshrepps, dags. 15. febrúar 2001, segir:

"Um er að ræða vegarkafla yfir svonefnda Hraunatjörn austan Lónanna. Sveitarstjórn hefur áður fjallað um þetta mál vegna ágreinings um hvort vegurinn skuli liggja yfir Hraunatjörnina, eða vestan hennar.

Þarna takast á sjónarmið náttúruunnenda, sem vilja vernda ákveðin gróðursvæði annars vegar og landlítilla bænda, sem finnst að sér þrengt með tilkomu vegarins, hins vegar.

Það er mat sveitarstjórnar að ekkert hafi komið fram í þessu máli sem réttlæti það að hún breyti afstöðu sinni, og skal hún því standa óbreytt sú ákvörðun, að ekki er ástæða að breyta fyrirhuguðu vegarstæði yfir Hraunatjörn."

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er til úrskurðar afmarkaður kafli fyrirhugaðrar framkvæmdar samkvæmt vegleið 1 í matsskýrslu framkvæmdaraðila, þar sem gert er ráð fyrir að vegurinn liggi yfir svæði sem nefnist Hraunatjörn.

Í niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar segir að umhverfisáhrif fyrirhugaðrar vegarlagningar samkvæmt vegleið 1 lúti einkum að því að lítt raskað land verði lagt undir veg. Skeringar, fyllingar og brú yfir Lónsós muni breyta verulega ásýnd og yfirbragði strandsvæðisins. Vegurinn muni hafa varanleg áhrif á fuglalíf við Fjallahöfn og í Flæðum, m.a. vegna beinnar skerðingar á búsvæðum fugla s.s. votlendi, tjörnum og fuglabjargi og truflunar af umferð. Ennfremur muni framkvæmdin skerða menningarminjar.

Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæruna er vísað til hins kærða úrskurðar þar sem segir að reiknað sé með að um 8% af flatarmáli Hraunatjarnar lendi undir veginum. Vegurinn verði lagður fljótandi yfir votlendið í Hraunatjörn en hætta sé á að votlendi þorni eitthvað vegna breyttrar vatnstilfærslu og í kjölfarið geti gróðurfar og dýralíf breyst. Ný veglína hafi verið skoðuð vestan Hraunatjarnar þannig að vatnsstaða, gróðurfar og fuglalíf hennar héldist líklega óbreytt. Hins vegar sé landið þar mun mishæðóttara, svo sem skeringar yrðu í lítið gróið hraunlendi auk þess sem færslan skerti nokkuð land Lóns. Ljóst hafi verið við uppkvaðningu úrskurðar að fyrirhuguð vegarlagning hefði í för með sér umhverfisáhrif, m.a. vegna beinnar skerðingar á búsvæðum fugla.

Í umsögn Vegagerðarinnar segir að vegna óska sumra landeigenda hafi verið skoðuð ný veglína sem liggur vestan við Hraunatjörn. Þar sem óskir landeigenda hafi gengið í gangstæðar áttir og munur á línunum ekki afgerandi hafi Vegagerðin talið eðlilegt að sveitarstjórn kæmi að málinu. Í matsskýrslunni komi því fram að Vegagerðin sé tilbúin til að færa veglínuna þar sem hún liggur yfir Hraunatjörn fari sveitarstjórn Keldunesshrepps fram á það. Einnig kemur fram í umsögninni að báðar veglínur séu ásættanlegar vegtæknilega.

Í umsögn Keldunesshrepps segir að þarna takist á sjónarmið náttúruunnenda sem vilji vernda ákveðin gróðursvæði annars vegar og landlítilla bænda, sem finnst að sér þrengt með tilkomu vegarins, hins vegar. Telur sveitarstjórn ekki ástæðu til að breyta fyrirhuguðu vegstæði yfir Hraunatjörn.

Í umsögn Náttúruvendar ríkisins segir að það sé mat stofnunarinnar að efasemdir um að einungis 8% af flatarmáli Hraunatjarnar verði skert við framkvæmdina séu réttmætar. Vegur þvert um tjörnina hafi afgerandi áhrif á lífríkið og líklegt megi telja að fuglalíf í þeirri mynd sem þekkist í dag leggist af vegna ónæðis. Umferð fylgi að auki mengun og vegurinn geti haft áhrif á vatnafar. Líklegt megi telja að áhrif á fuglalíf megi merkja á stóru svæði ef Hraunatjörn verði eyðilögð. Þá tekur stofnunin undir það að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir komi að litlum notum.

Í fylgiskjali 23 með matsskýrslu sem er bréf Náttúrufræðistofnunar Íslands til Vegagerðarinnar, dags. 31. janúar 2000, segir m.a. Hraunatjörn sé í náttúrulegu samhengi við gróðursvæðið þar austur af. Hún sé örugglega notuð af æðarfuglunum á vorin þegar þeir eru að setjast upp, fuglarnir komi væntanlega þangað til að drekka, baða sig og til samskipta og að til bóta sé að færa veginn vestur fyrir tjörnina þannig að votlendi verði ekki raskað.

Sú tilfærsla veglínu sem krafa kæranda lítur að og gerð er grein fyrir á teikningu 4 (grunnmynd 3./3), er á u.þ.b. 1,7 kílómetra kafla. Samkvæmt matsskýrslu lægi sá hluti vegarins sem talinn er möguleiki á að færa með framangreindum hætti um lítt gróið hraunlendi. Möguleg færsla veglínunnar er mest u.þ.b. 200 metrar í vestur og að verulegu leyti innan landgræðslugirðingar. Samkvæmt upplýsingum Landgræðslu ríkisins er svæðið innan girðingarinnar friðað fyrir beit. Ráðuneytið telur að áhrif færslu veglínunnar á framangreindu svæði hafi því óveruleg áhrif á notkun þess lands sem er utan landgræðslugirðingar.

Með vísan til álits umsagnaraðila og Náttúrufræðistofnunar Íslands á áhrifum upphaflegar veglínu á fuglalíf og gróður og þess að Vegagerðin álítur báðar veglínur ásættanlegar vegtæknilega fellst ráðuneytið á kröfu kæranda og staðfestir úrskurð Skipulagsstofnunar með því skilyrði að á móts við stöð 34.200 að stöð 35.800, samkvæmt vegleið 1, færist veglínan til vesturs eins og gert er ráð fyrir sem möguleika á færslu veglínu á teikningu 4, (grunnmynd 3./3) með matsskýrslu.

V. Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu kæranda um breytingu á úrskurði Skipulagsstofnunar. Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Norðurausturvegar, Bangastaðir-Víkingavatn, Kelduneshreppi, frá 22. desember 2000, er staðfestur með því skilyrði að á móts við stöð 34.200 að stöð 35.800, samkvæmt vegleið 1, færist veglínan til vesturs eins og gert er ráð fyrir sem möguleika á færslu veglínu á teikningu 4, (grunnmynd 3./3) með matsskýrslu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum