Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 2. september  2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hennar, B, nr. 18/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 25. júní 2015 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 26. maí 2015, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við kæranda á þriggja mánaða fresti í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, tvær klst. í senn á þriggja mánaða fresti undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur eða undir eftirliti utandyra í samráði við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur. Móðursystur er heimilt að fylgja móður í fyrrgreindri umgengni. Umgengni verði með þessum hætti þar til niðurstaða Hæstaréttar í forsjársviptingarmáli liggur fyrir.

Kærandi krefst þess að fá umgengni við stúlkuna að lágmarki einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn, þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir í forsjársviptingarmáli barnaverndarnefndar Reykjavíkur gegn kæranda.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra stúlkunnar kemur fram í tölvupósti þeirra til kærunefndarinnar 17. ágúst 2015 að þau telji það ekki þjóna hagsmunum stúlkunnar að umgengni verði aukin.

I. Málavextir

B hefur verið í vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur frá því í júlí 2011. Stúlkan er fædd árið X og er X ára. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi héraðsdóms Reykjavíkur X og hefur hún áfrýjað þeim dómi til Hæstaréttar. Munnlegur málflutningur í Hæstaréttarmálinu fer fram X. Faðir stúlkunnar er D. Stúlkan er í varanlegu fóstri, með fyrirvara um niðurstöðu Hæstaréttar, hjá föðurforeldrum sínum, E og F, og hefur verið það frá 2. apríl 2014.

Frá því að stúlkan fór í fóstur hefur farið fram regluleg umgengni kæranda og stúlkunnar, undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Í fyrstu var um vikulega umgengni að ræða samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí og 24. júní 2014. Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar 16. september 2014 var umgengnin ákveðin mánaðarlega og var sá úrskurður staðfestur af kærunefnd barnaverndarmála með úrskurði 8. desember 2014.

Í kjölfar þess að kærandi var svipt forsjá stúlkunnar óskaði hún eftir að umgengni yrði aðra hvora helgi þar til niðurstaða forsjársviptingarmálsins liggi fyrir í Hæstarétti. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi einnig óskað eftir því að fósturforeldrar færu með henni á fjölskyldunámskeið á vegum Rauða Krossins. Til vara óskaði kærandi eftir því að umgengni yrði óbreytt samkvæmt úrskurði frá 16. september 2014 enda væri málið ekki enn til lykta leitt fyrir dómstólum. Þá kemur fram í hinum kærða úrskurði að fósturforeldrar telji að best sé fyrir stúlkuna að umgengni sé í lágmarki og verði alltaf undir eftirliti. Þá höfnuðu þau því að fara í fjölskyldumeðferð með kæranda.

Málið var lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. apríl 2015. Í greinargerð starfsmanna frá 31. mars 2015, sem lögð var fyrir fundinn kom fram það mat starfsmanna að ekki væru forsendur fyrir því að fallast á kröfur kæranda. Yrði þá um verulega aukningu að ræða á umgengni sem engin rök væru fyrir og myndi það raska verulega ró stúlkunnar. Stúlkan sé komin í varanlegt fóstur og hennar hagsmunir séu fyrst og fremst þeir að hún búi við stöðugleika sem ekki sé hægt að vinna að með svo mikilli umgengni við kæranda. Lögðu starfsmenn Barnaverndar því til að umgengni yrði ákveðin þrisvar á ári undir eftirliti.

Á fundi 14. apríl 2015 komst barnaverndarnefnd Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ekki væri tímabært að fjalla um umgengni kæranda við stúlkuna í varanlegu fóstri og tók með því undir sjónarmið lögmanns kæranda um að forsjársviptingarmálið hefði ekki verið til lykta leitt þar sem niðurstaða Hæstaréttar lægi ekki fyrir. Ætti því umgengni að fara fram í samræmi við úrskurðarorð barnaverndarnefndarinnar frá 16. september 2014. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að á tímabilinu hafi hins vegar tvívegis orðið uppákomur sem gefi tilefni til að skapa óöryggi og vanlíðan hjá stúlkunni vegna skorts kæranda á innsýn í líðan hennar og aðstæður. Þar sé vísað til uppákomu sem hafi orðið á heimili kæranda þegar kalla þurfti til lögreglu þann X og aftur á heilsugæslustöð X. Taldi barnaverndarnefndin að þessi atvik gæfu tilefni til að endurskoða þá umgengni sem ákveðin var með úrskurði nefndarinnar 16. september 2014 og fól barnaverndarnefndin starfsmönnum Barnaverndar að móta tillögur eins fljótt og auðið væri um umgengni sem myndi gilda fram að niðurstöðu Hæstaréttar í málinu.

Umgengni fór fram 26. apríl 2015 undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. G, móðursystir B, var einnig viðstödd umgengnina. Samkvæmt því sem kemur fram í hinni kærðu ákvörðun gekk umgengnin vel og léku kærandi, stúlkan og móðursystir hennar sér allar mikið saman og virtist stúlkan ánægð með að hitta þær. Hún leitaði meira til móðursystur sinnar meðan á umgengninni stóð og virtust samskipti þeirra allra almennt vera jákvæð og þær hafa gaman af samverunni. Í lok umgengninnar vildi stúlkan ekki kveðja kæranda.

Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 6. maí 2015 var fjallað um málið  og umgengni talin hæfileg á þriggja mánaða fresti þar til niðurstaða Hæstaréttar í málinu liggur fyrir. Umgengni yrði þá næst í júlí 2015 í tvær klukkustundir undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 26. maí 2015. Fyrir fundinum lá fyrrgreind tillaga um umgengni. Ekki náðist samkomulag um umgengni. Var málið því tekið til úrskurðar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). og hinn kærði úrskurður kveðinn upp sama dag.

II. Afstaða kæranda

Í kærunni kemur fram að kærandi krefjist þess að fá umgengni við dóttur sína, B, að lágmarki einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn í samræmi við úrskurð  barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 16. september 2014, þar til niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir í forsjársviptingarmáli gegn kæranda. Kærandi telur þá umgengi sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði vera alltof sjaldan og í alltof stuttan tíma í senn.

Kærandi byggir á því að barn sem vistað sé utan heimilis eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru því nákomnir samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggir jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi telur að með engu móti hafa verið sýnt fram á að slíkt eigi við í máli þessu. Þvert á móti hafi umgengni kæranda við dóttur hennar gengið vel allt frá upphafi eða frá því að dóttir hennar hafi verið vistuð utan heimilis 1. apríl 2014. Kærandi hafi ávallt mætt tímanlega í umgengni og komið vel undirbúin og ekki sé annað að sjá af gögnum málsins en að dóttir hennar hafi ánægju af því að hitta kæranda og að tengsl þeirra séu innileg og sterk, þrátt fyrir aðskilnað síðastliðið ár. Um þetta vísi kærandi til forsjárhæfnismats H sálfræðings frá 8. desember 2013, en H hafi verið viðstaddur umgengni kæranda og B 29. nóvember 2014, þar sem hann hafi verið dómkvaddur af Héraðsdómi Reykjavíkur til að leggja mat á forsjárhæfni kæranda. Í skýrslu sálfræðingsins lýsi  hann ítarlega jákvæðum og ánægjulegum samskiptum mæðgnanna í umgengni þessari en sú lýsing beri með sér að færni kæranda til að sinna dóttur sinni sé til staðar og að þær mæðgur séu tengdar jákvæðum og sterkum tilfinningaböndum.

Kærandi byggir kröfu sína jafnframt á því að dóttir hennar hafi aldrei verið í hættu stödd í umgengni né hafi hún komist í uppnám. Telur kærandi að hún hafi fullkomna getu og hæfni til að sinna dóttur sinni í umgengni og að innsæi hennar í þarfir dóttur sinnar sé mun dýpra nú en áður hafi verið. Vísar kærandi til þess að hún hafi markvisst frá hausti 2014 unnið í því að styrkja sjálfa sig og foreldrahæfni sína en hún hafi sótt fjölmörg námskeið í þeim tilgangi, m.a. foreldranámskeiðið „Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar“ og námskeiðin „sjálfstyrking“, „fjölskyldan og ég“, „tök á tilverunni“ og „í fókus“ hjá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu. Þá hafi kærandi jafnframt undirgengist viðtöl hjá Geðhjálp og sæki nú sálfræðimeðferð hjá J sálfræðingi. Í erindi J 5. maí 2015 komi meðal annars fram að kærandi virtist hafa innsæi í þær aðstæður sem uppi séu og hún hafi einlægan vilja til þess að vera í góðu samstarfi við Barnavernd Reykjavíkur.

Kærandi byggir kröfu sína um mánaðarlega umgengni við dóttur sína jafnframt á því að hún sé reglusöm og í fastri vinnu, hún eigi ekki við áfengis- eða vímuefnavandamál að stríða, hún eigi ekki við geðræna erfiðleika að stríða og hafi ávallt hugsað um dóttur sína af umhyggju. Þá komi fram í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 31. mars 2015 sem lögð var fram á fundi barnaverndarnefndarinnar 14. apríl 2015 að B hafi verið orðin örugg og afslöppuð með það fyrirkomulag umgengni sem verið hafði síðan 16. september 2014 eða einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn. Hafi þær tvær uppákomur þar sem kærandi hafi hitt stúlkuna utan reglulegrar umgengni, annars vegar á heilsugæslunni í K í febrúar 2015 og hinsvegar þegar faðir stúlkunnar kom með hana á heimili kæranda eftir að hafa hitt hana fyrir tilviljun í verslunarmiðstöð, ekki haft nein áhrif á líðan stúlkunnar í umgengni við kæranda. Um þetta vísar kærandi til þess sem kemur fram í áðurnefndri greinargerð þar sem segi að umgengni kæranda og stúlkunnar 7. mars 2015 hafi farið vel fram, þær hafi átt eðlileg samskipti og leikið sér saman. Ljóst sé því að umgengni kæranda og stúlkunnar hafi ávallt gengið vel og geti starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur, sem hafi haft eftirlit með umgengninni, vottað það. Byggir kærandi á því að ekkert bendi til þess og að ekkert hafi verið lagt fram um það að umgengni stúlkunnar við kæranda raski öryggi eða stöðugleika stúlkunnar, hvað þá að hún geti borið skaða af því að hitta kæranda einu sinni í mánuði í nokkrar klukkustundir í senn.

Til stuðnings þeirri tillögu að skerða skuli umgengni kæranda og stúlkunnar hafi ítrekað verið vísað til orða og lýsinga fósturmóður og föðurömmu stúlkunnar á líðan hennar og tilfinningum til kæranda. Telur kærandi afar gagnrýnivert og í raun ótækt að þær lýsingar verði lagðar til grundvallar í málinu. Byggir kærandi í fyrsta lagi á því að þversögn sé í því að Barnavernd telji stúlkuna of unga til að vera skipaður talsmaður og þar af leiðandi ekki hafa þroska til að tjá hug sinn og vilja, en ætli samt að túlka meint orð stúlkunnar og nota þau gegn reglulegri umgengni við kæranda. Í öðru lagi byggir kærandi á því að fósturmóðurinni hafi verið illa við kæranda frá upphafi og hafi að mati kæranda haft eindreginn vilja til þess að lágmarka aðkomu kæranda og tilvist í lífi stúlkunnar, eftir að hún hafi verið vistuð utan heimilis. Þá vísar kærandi til þess að fósturmóður hafi aldrei frá því að þær hafi kynnst sýnt henni velvild eða stuðning auk þess sem hún hafi sýnt stúlkunni B lítinn sem engan áhuga fyrstu þrjú árin í lífi hennar, er hún hafi alfarið verið í umsjá kæranda. Í þessu samhengi vilji kærandi vísa til greinargerðar Barnaverndar M frá 31. janúar 2011, sem varði upphaf þessa máls, en þar komi skýrt og greinilega fram í viðtali við fósturmóður að henni líki ekki við kæranda, hún vilji ekki eiga í samskiptum við hana og að hún telji kæranda hafa eyðilagt mikið fyrir syni sínum. Telur kærandi þetta viðhorf fósturmóður hafa verið ríkjandi allt frá upphafi og aukist í seinni tíð. Þá telur kærandi þá afstöðu fósturmóðurinnar fráleita að þar sem stúlkan B tali ekki um kæranda við fósturmóður þá hafi hún ekki þörf fyrir að umgangast eða þekkja kæranda. Börn búi yfir gífurlegri aðlögunarfærni ásamt því að skynja vel spennu og streitu. Það hefði ekki þurft nema ein neikvæð viðbrögð fósturmóðurinnar við því að stúlkan talaði um kæranda til þess að fá hana til að gera það ekki aftur og sé það enginn mælikvarði á tengsl móður og dóttur eða þörf barns til að þekkja móður sína eða umgangast hana reglulega.

Kærandi vekur athygi kærunefndar barnaverndarmála á því að við aðalmeðferð forsjársviptingarmáls barnaverndarnefndar Reykjavíkur gegn kæranda í Héraðsdómi Reykjavíkur hafi átt sér stað sáttaumleitan að frumkvæði dómara í málinu. Hafi dómari meðal annars lagt til að móðir afsalaði sér forsjá yfir dóttur sinni gegn því að hún fengi meiri umgengni, enda hafi dómarinn talið þá umgengni sem móðir hafi haft á þeim tíma mánaðarlega, afar skerta. Tilsvör lögmanns barnaverndarnefndarinnar hafi verið á þá leið að einungis barnaverndarnefndin gæti úrskurðað um aukna umgengni en hafi fullyrt í sömu andrá að ekki stæði til af hálfu barnaverndarnefndar að skerða umgengni kæranda við stúlkuna frekar þrátt fyrir að niðurstaða málsins yrði kæranda í óhag. Til vitnis um þetta hafi verið kærandi sjálf, lögmaður hennar, aðstoðarmaður lögmanns barnaverndarnefndar Reykjavíkur og fjölskipaður héraðsdómur. Kærandi sé þess fullviss að umrædd fullyrðing lögmanns baranverndarnefndarinnar, um að ekki stæði til að skerða umgengni kæranda við stúlkuna frekar óháð niðurstöðu dómsins, hafi verið lögð til grundvallar niðurstöðu dómsins. Telur kærandi afar ámælisvert að slík fullyrðing sé sett fram í jafn alvarlegu og viðkvæmu máli sem þessu ef ekki sé innistæða fyrir henni.

III. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 21. júlí 2015 er vísað til þess að í hinum kærða úrskurði komi fram að barn sem sé í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Stúlkan sé komin í varanlegt fóstur með fyrirvara um niðurstöðu Hæstaréttar og sé markmiðið að hún verði vistuð í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs hennar.

Á fundi 26. maí 2015 hafi barnaverndarnefndin tekið málið fyrir og telji nefndin það þjóna hagsmunum barnsins best að umgengni verði á þriggja mánaða fresti fram til þess tíma er niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir í forsjársviptingarmálinu. Umgengni verði í allt að tvær klukkustundir undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Móðursystur sé heimilt að fylgja móður í umgengni.

Ítrekað sé að markmiðið í þessu máli sé að stúlkan B verði vistuð í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs. Í ljósi þess sé lögð áhersla á að barnið upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Reynslan hafi sýnt að umgengni barna í fóstri við kynforeldra sína raski í flestum tilfellum ró þeirra jafnvel þótt sátt ríki um umgengnina. Meta verði umgengnina með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar og sé það mat nefndarinnar að rýmri umgengni en úrskurðað hafi verið um geti raskað ró barnsins og stefnt í hættu þeim stöðugleika sem reynt hafi verið að tryggja henni á fósturheimilinu.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni B að leiðarljósi gerir barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti frá fósturforeldrum B, E og F, 17. ágúst 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að stúlkan sé að aðlagast aðstæðum og að ná góðu jafnvægi. Fósturforeldrarnir telja það ekki þjóna hagsmunum hennar að umgengni verði aukin.

V. Niðurstaða

B er X ára gömul stúlka og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum, E og F, frá 2. apríl 2014. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Hún áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar, en niðurstaða réttarins liggur ekki fyrir. Áætlað er að munnlegur málflutningur fari fram í Hæstarétti X.

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 26. maí 2015 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin á þriggja mánaða fresti í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Umgengni verði með þessum hætti þar til niðurstaða Hæstaréttar í forsjársviptingarmáli kæranda liggur fyrir. Kærandi krefst þess að fá umgengni við stúlkuna að lágmarki einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn, þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði taldi barnaverndarnefndin tilefni til að endurskoða  þá umgengni sem ákveðin var með úrskurði nefndarinnar 16. september 2014 vegna atvika sem höfðu neikvæð áhrif á líðan barnsins þrátt fyrir að fósturforeldrum hefði tekist að einhverju leyti að róa barnið þannig að hún nyti umgengni við kæranda. Barnaverndarnefndin taldi að atvik þessi gæfu tilefni til að skapa óöryggi og vanlíðan hjá barninu vegna skorts kæranda á innsýn í líðan barnsins og aðstæður.

Í greinargerð félagsráðgjafa 31. mars 2015 er því lýst að faðir stúlkunnar hafi farið með hana heim til kæranda 11. nóvember 2014. Stúlkan hafi að sögn fósturmóður sinnar orðið óróleg vegna þessa um kvöldið og sofið illa um nóttina. Í greinargerðinni er því enn fremur lýst að stúlkann hefði orðið vitni að átökum foreldra sinna. Í samantekt lögreglu um málið er því lýst að kærandi hafi í skýrslutöku hjá lögreglu  18. nóvember 2014 sagt að stúlkan hefði fylgst með átökum foreldra sinna umræddan dag og hafi hún orðið hrædd og farið að gráta.

Þá er því enn fremur lýst í framangreindri greinargerð félagsráðgjafa að kærandi hefði setið fyrir fósturmóðurinni og elt hana þegar hún mætti á heilsugæslustöð í X ára skoðun með barnið 19. febrúar 2015. Barnið hafi komist í uppnám í kjölfarið. Fósturmóðurinn hafi verið hleypt út bakdyrameginn með barnið af heilsugæslunni og hafi hún fengið nýjan tíma í skoðun fyrir barnið sem var að sögn fósturmóðurinnar mjög órólegt vegna atviksins.

Samkvæmt fundargerð barnaverndarnefndarinnar 26. maí 2015 lýsti kærandi því á fundinum að hún hefði aldrei notið velvildar eða stuðnings frá fósturmóður barnsins. Spenna og streita ríkti á fósturheimilinu gagnvart kæranda og það skynji barnið.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að fósturforeldrar telji best fyrir barnið að umgengni verði í lágmarki og alltaf undir eftirliti. Þau telja barnið fyrst og fremst þurfa ró og öryggi í núverandi aðstæðum. Barnið hafi ekki þörf fyrir að hitta móður sína og spyrji lítið og tali lítið um hana. Umgengnin hafi alltaf verið álag fyrir barnið. Þau reyni að veita barninu ást og öryggi og til þess þurfi þau ákveðinn frið. Kærunefndin telur enga ástæðu til að ætla að þessum ummælum fósturforeldranna megi ekki treysta enda samræmast þau þeim viðhorfum sem almennt verður að leggja til grundvallar við úrlausn á því hvað þjóni hagsmunum barnsins best hvað varðar umgengni sem ákveðin er samkvæmt 74. gr. bvl.  Þá verður ekki talið að orð og hátterni barnsins hafi verið mistúlkað við úrlausn málsins.

Í gögnum málsins kemur fram að umgengni hafi gengið vel enda fer hún fram undir eftirliti. Þrátt fyrir það telur kærunefndin með vísan til þess sem að framan greinir að umgengni kæranda við stúlkunna sé til þess fallin að raska ró barnsins og þeim stöðugleika sem barnið hefur þörf fyrir. Í því sambandi er sérstaklega horft til þess að barnið virðist skynja mikla spennu og togstreitu þegar samskiptin við kæranda fara út fyrir þau mörk sem umgengni kæranda við barnið hefur verið sett. Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að umgengni valdi álagi fyrir barnið og fósturforeldrana sem hafa tekið að sér það vandasama verk að fóstra barnið. Verður jafnframt að horfa sérstaklega til þess að tryggja þarf að friður og ró ríki í lífi barnsins á meðan það er í fóstri. Með tilliti til þess ber að takmarka umgengnina og tryggja að virt verði þau mörk sem um hana gilda. Breytir engu í því sambandi þótt hin kærða ákvörðun nái aðeins til þess tíma þar til dómur Hæstaréttar fellur í forsjársviptingarmáli barnaverndarnefndarinnar gegn kæranda enda er hvorki tímabært að viðhalda né efla tengsl stúlkunnar við kæranda umfram það sem leiðir af þeirri ákvörðun sem tekin var með hinum kærða úrskurði.

Með takmarkaðri umgengni er stefnt að því að tryggja stöðugleika í lífi stúlkunnar. Þar sem hún hefur þörf fyrir vernd gegn álagi og því að þurfa að upplifa togsteitu ber að takmarka umgengni kæranda við hana verulega. Með vísan til þess og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengnin kæranda við stúlkuna hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 26. maí 2015 varðandi umgengni A við dóttur hennar, B, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira