Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 22/2015

Umgengni

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 30. september 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við son hans, B, nr. 22/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 22. júlí 2015 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 23. júní 2015, vegna umgengni kæranda við son sinn, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni B við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti á fósturheimili. Þá eru símtöl heimiluð einu sinni í mánuði í heimasíma fósturforeldra. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við föður sinn, A, verði fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn og fari fram á fósturheimilinu undir eftirliti fósturforeldra. Símtöl eru heimiluð einu sinni í mánuði í heimasíma fósturforeldra. Samskipti í gegnum aðra samskiptamiðla eru ekki heimiluð.

Kærandi krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að umgengni verði ákveðin að lágmarki sex skipti á ári auk tveggja símtala á viku. Þá er þess krafist að á meðan kærandi er vistaður á D fari umgengni fram í gegnum samskiptaforritið Skype í tvö skipti á viku. Kærandi krefst þess að drengurinn njóti aðildar að málinu fyrir kærunefndinni eða að tekið verði tillit til skýrslu talsmanns drengsins. Að öðrum kosti verði málinu vísað aftur til meðferðar til barnaverndarnefndar Reykjavíkur þar sem drengurinn njóti aðildar að málinu. Þá er einnig gerð krafa um að drengurinn og kærandi fái að halda óbreyttri umgengni, þ.e. eitt símtal á viku, á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefndinni og eftir atvikum barnaverndarnefndinni. Eins og málið liggur fyrir eru ekki skilyrði til að kærunefndin ákveði framkvæmd umgengninnar á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefndinni.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra B kemur fram í tölvupósti 25. september 2015 til kærunefndarinnar að þau vilji umgengni í samræmi við hinn kærða úrskurð nema að því leyti að þau vilja að umgengni fari fram annarsstaðar en á heimili þeirra og undir eftirliti og að þau fái jafnframt að vera viðstödd.

I. Málavextir

B, X ára gamall drengur, lýtur forsjár barnaverndarnefndar Reykjavíkur, en móðir hans, sem fór ein með forsjánna, samþykkti varanlegt fóstur drengsins hjá móðurömmu og fósturafa 30. nóvember 2000. Drengurinn hefur dvalið hjá fósturforeldrum sínum frá X aldri. Samskipti drengsins við kæranda hafa alla tíð verið lítil og engin regluföst umgengni í gegnum tíðina. Frá því að drengurinn var X ára gamall og þar til í nóvember 2014 var engin umgengni. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi glímt við neysluvanda en hann kveðst halda vímuefnabindindi. Kærandi afplánar nú á D refsidóm sem hann hlaut árið 2013, en áður afplánaði hann í fangelsinu á E.

Í október 2014 hafði kærandi samband við drenginn í gegnum samskiptasíðuna Facebook og í framhaldi af því óskaði kærandi eftir umgengni við drenginn. Í nóvember 2014 hittust kærandi og drengurinn á fósturheimili drengsins en samkvæmt gögnum málsins var þetta í fyrsta skipti síðan árið 2010 sem þeir hittust. Frá því að umgengni hófst að nýju hafa feðgarnir hist þrisvar sinnum og hefur umgengni að sögn fósturforeldra gengið vel.

Um mál drengsins var fjallað á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur 29. október 2014 þar sem fram kom að drengurinn vildi hitta kæranda sem hann hefði ekki séð í X ár. Þá kom jafnframt fram að fósturmóðir drengsins hefði áhyggjur af því hvað kærandi segði við drenginn í umgengninni. Á fundinum var lagt til að umgengni yrði einu sinni til reynslu á fósturheimilinu í tvær klukkustundir.

Í janúar 2015 óskaði kærandi eftir reglulegri umgengni við son sinn og að umgengnin yrði á forsendum drengsins. Um málið var fjallað á meðferðarfundar Barnaverndar Reykjavíkur 28. janúar 2015. Samkvæmt gögnum málsins kom fram á fundinum að drengurinn hefði sagt að hann væri jákvæður gagnvart umgengni við kæranda en hafi þó sagt að hann vissi ekki alltaf hvað hann ætti að tala um í símtölunum. Þá hefði drengurinn sagt að hann vildi endurskoða umgengnina eftir mánuð. Á meðferðarfundinum var ákveðið að umgengni ætti að vera í eitt skipti til reynslu með sama hætti og í nóvemberð 2014, í ljósi þess mats starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að drengurinn væri óákveðinn varðandi umgengni. Umgengnin fór fram í febrúar 2015 á fósturheimilinu og gekk vel.

Í fundargerð meðferðarfundar Barnaverndar Reykjavíkur 24. mars 2015 kemur fram að starfsmaður Barnaverndar hefði farið á fósturheimili drengsins 19. mars 2015 og átti viðtal við hann þar sem drengurinn hefði lýst yfir ánægju sinni með þá umgengni sem hann hefði átt við kæranda. Drengurinn hefði sagt að umgengnin hefði hjálpað sér og aukið sjálfstraust sitt. Drengurinn sagðist aðspurður helst vilja hafa umgengnina með þeim hætti að hann hitti kæranda annan hvern mánuð. Þá sagðist hann vilja tala við kæranda í síma tvisvar í viku.

Á meðferðarfundinum 24. mars 2015 var bókað að umgengni drengsins við kæranda yrði sex sinnum á ári á fósturheimili í tvo tíma í senn og að símtöl yrðu einu sinni í viku. Kæranda var kynnt bókun fundarins og samþykkti hann ekki símtöl einu sinni í viku. Málið var tekið fyrir á ný á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur 21. apríl 2015 og bókað að þar sem ekki hefði náðst samkomulag um umgengnina yrði málið lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur og drengnum var skipaður talsmaður.

Málið var lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur 26. apríl 2015. Á fundinum var bókað að starfsmönnum væri falið að freista þess að ganga frá samkomulagi milli aðila um umgengni sex sinnum á ári á fósturheimili drengsins og símtöl tvisvar í viku.

Samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð meðferðarfundar 11. júní 2015 var bókun fundarins 26. maí 2015 kynnt fósturforeldrum. Þau hafi lýst sig mótfallin því að símtöl drengsins við kæranda yrðu tvisvar í viku. Á fundinum 11. júní 2015 var bókað að fósturforeldrar höfnuðu því að kæranda hefði heimild til að hringja í son sinn tvisvar í viku og að símtöl einu sinni í viku væri að þeirra mati einnig of mikið en þau myndu samt samþykkja það. Þá kemur fram í bókun fundarins að starfsmenn teldu þá umgengni sem lögð hafi verið til afar ríflega en þessi fjöldi símtala í varanlegu fóstri væri án fordæma. Var ákveðið að leggja málið fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur að nýju með tillögu um umgengni sex sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn á heimili fósturforeldra undir þeirra eftirliti og símtölum einu sinni í viku.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 23. júní 2015. Fyrir fundinum lá fyrrgreind tillaga starfsmanna Barnaverndar um umgengni. Fyrir fundinum lá einnig krafa kæranda um samtöl í gegnum samskiptaforritið Skype einu sinni í viku á meðan kærandi afplánar refsidóm á D en verði ekki fallist á það krafðist hann þess að leyfð yrðu tvö símtöl á viku. Ekki náðist samkomulag um umgengni. Var málið því tekið til úrskurðar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) og hinn kærði úrskurður kveðinn upp sama dag.

II. Afstaða kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að kærandi og sonur hans hafi átt í reglulegum samskiptum frá því í október 2014. Á þessum tíma hafi þeir náð að tengjast vel og ljóst að drengurinn telji samskiptin hafi góð áhrif á sig. Það veki því mikla furðu að barnaverndarnefnd Reykjavíkur skuli með hinum kærða úrskurði draga enn frekar úr samskiptum en áður hafi verið. Telur kærandi það vera skaðlegt fyrir drenginn. Þá segir kærandi að ekki hafi verið ástæða fyrir því að draga svo úr samskiptunum, en svona hafi þetta gengið í gegnum tíðina hjá fósturforeldrunum, þ.e. þegar kærandi og drengurinn hafi verið í sambandi og náð að tengjast hafi þau unnið gegn því með því að takmarka samskiptin. Í þau skipti sem klippt hafi verið á samskiptin hafi kærandi haft á tilfinningunni að fósturforeldrarnir hafi látið líta svo út að hann hafi ekki haft áhuga á frekara sambandi. Þetta telur hann andstætt velferð og hagsmunum drengsins. Drengurinn eigi rétt á að umgangast kæranda og kærandi eigi rétt á að njóta umgengni við drenginn, sbr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003. Líta beri til þess að B eigi nú hálfsystkini sem hann sé farinn að tengjast, nýfæddan bróður og tvær systur, fæddar 2009 og 2014, og sé eldri stúlkan afar hrifin af hálfbróður sínum. Kæranda sé mikið í mun að styrkja þau tengsl og megi nefna að meðal annars í handbók Barnaverndarstofu segi að hafa beri í huga að almennt sé það börnum mikilvægt að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra. Í þessu samhengi vísar kærandi til álits Umboðsmanns barna um umgengni kynforeldra og barns í fóstri, sem sé í gögnum málsins.

B sé nýorðinn X ára og hann hafi sjálfur sagst vilja hitta kæranda meira og hafi lagt fyrst sjálfur til að þeir myndu hittast annan hvern mánuð eða sex sinnum á ári. Honum hafi þótt umgengnin ganga vel og verið ánægður með vikuleg símtöl við kæranda. Þá hafi hann sagst vilja tala við kæranda í síma tvisvar í viku. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi tekið viðtal við B á fósturheimilinu 19. mars 2015 og hafi lagt til eftir þann fund að umgengnin yrði eins og drengurinn óskaði eða sex sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn á fósturheimilinu og að símtöl yrðu einu sinni í viku. Þetta hafi verið lagt til þar sem samskiptin hafi haft jákvæð áhrif á drenginn.

Með það að leiðarljósi að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur teldi að samskipti drengsins við kæranda hefðu jákvæð áhrif auk þess sem kærandi hefði fundið það á samskiptum sínum við drenginn, vildi kærandi að drengurinn fengi skipaðan talsmann þar sem afstaða hans til umgengninnar kæmi skýrt fram. Drengurinn hefði ítrekað sagt við kæranda að hann vildi heyra í honum tvisvar sinnum í viku í síma. Kærandi hefði tekið alveg skýrt fram í greinargerð 26. maí 2015 að hann gerði kröfu um þá umgengni er drengurinn óskaði eftir.

Í skýrslu talsmanns B komi fram að drengurinn hlakki til umgengni við kæranda og að sér þætti stundum sem þessir tveir tímar sem þeir ættu saman væru ekki nægilega langur tími og að stundum væru þeir ekki búnir að tala saman. Hann sé meðvitaður um að kærandi hefði ekki alltaf verið í góðum málum og hafi gert margt rangt en að nú sé hann í betri málum. Þá segi einnig í skýrslunni að hann langi að kynnast kæranda betur og að drengurinn vilji hitta kæranda einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn og símtöl tvisvar í viku. Samkvæmt umræddri skýrslu sé vilji drengsins skýr og að hann vilji áfram auka við umgengnina.

Eins og sjá megi af því sem fram hafi komið óski drengurinn eftir meiri umgengni en kærandi hafi þorað að gera kröfu um. Krafa kæranda hafi verið mjög skýr um að fara skuli að vilja drengsins og hafi hann ekki viljað víka frá því, enda bendi allt til þess að umgengnin hafi frekar jákvæð áhrif á drenginn en hitt. Kærandi hafi samt sem áður verið tilbúinn að fallast á umgengni í sex skipti og tvö símtöl eins og nefndin hafi fallist á í þeirri von og trú að hægt væri að ganga frá samkomulagi. Það hafi svo verið fósturforeldrarnir sem hafi komið í veg fyrir það samkomulag.

Fljótlega eftir að Barnavernd Reykjavíkur hafði fallist á helstu óskir drengsins og fósturforeldrarnir höfðu neitað að gera samkomulag, hafi kærandi fyrirvaralaust verið fluttur á D og því ljóst að hann gæti ekki mætt á heimili fósturforeldranna í umgengni. Kærandi hafi þá breytt kröfum sínum tímabundið í þá veru að samskipti hans og drengsins færu fram í gegnum samskiptaforritið Skype tvisvar sinnum í viku. Þessu hafi kærandi komið á framfæri með tölvupósti lögmanns kæranda til starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur. Þrátt fyrir það hafi barnaverndarnefndin kosið að fjalla ekkert um þá breyttu stöðu í úrskurði sínum né taka tillit til þessa.

Nú sé B orðinn X ára og geti samkvæmt 1. mgr. 46. gr. bvl. talist aðili málsins, sbr. 74. gr. sömu laga, og hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur þótt ástæða til að leggja á það sérstaka áherslu á fundi sínum 26. maí 2015. Þar hafi nefndin ekki séð forsendur til að ganga gegn óskum drengsins sem hafi lýst vilja sínum til að efla og styrkja tengsl sín við kæranda. Hafi þar einnig komið fram að nefndin teldi það þjóna hagsmunum drengsins best að umgengni við kæranda yrði í samræmi við vilja drengsins. Að því sögðu veki hinn kærði úrskurður furðu. Við mat á umgengni skuli taka mið af því sem þjóni hagsmunum barns best. Í 4. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur segi að við ráðstöfun barns í fóstur skuli barnaverndarnefnd ávallt hafa hagsmuni barns í fyrirrúmi og að taka beri tillit til sjónarmiða og óska barns eftir því sem aldur þess og þroski gefi tilefni til.

Þá verði ekki framhjá því litið að engin málefnaleg rök séu að baki hinum kærða úrskurði og sé rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun að fara gegn vilja drengsins engan veginn fullnægjandi. Fráleitt sé að bera fyrir sig að frekari samskipti samrýmist ekki markmiðum fósturs þar sem um svo stálpaðann dreng sé að ræða og ekki hafi veirð sýnt fram á að samskipti eða umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum drengsins, heldur þveröfugt, drengurinn telji samskipti sín við kæranda hafa hjálpað sér og aukið sjálfstraust sitt. Ljóst sé að drengurinn eigi rétt á umgengni samkvæmt 81. gr. bvl. Markimð fósturs geti eðli málsins samkvæmt breyst frá því að barn er t.d. X ára þar til það er orðið X ára. Hvert mál beri að skoða sem sjálfstætt tilfelli en ekki festast í einhverju sem hafi tíðkast og eigi jafnvel ekki við í sumum tilfellum.

Þá sé gerð athugasemd við það að hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp án aðkomu drengsins, en vitað hafi verið að hann hefði sjálfur orðið aðili að málinu X dögum eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Auðveldlega hefði verið hægt að gefa málinu X daga til viðbótar svo drengurinn fengi að njóta þeirra réttinda sem hann eigi. Þessi athugasemd eigi sérstaklega við í ljósi þess að úrskurðað hafi verið þvert gegn skýrslu talsmanns drengsins. Í barnaverndarlögum sé verið að tryggja að barn sem náð hafi þessum aldri sé sjálfstæður aðili máls með öllum þeim réttindum sem því fylgi. Það kunni að vera að niðurstaða barnavernarnefndar Reykjavíkur hefði orðið með öðrum hætti hefðu réttindi drengsins verið virt. Ekki sé að sjá ástæður að baki þess að slíta nánast með öllu sambandi milli kæranda og drengsins. Drengurinn hafi þurft að eyða kæranda út af Facebook, Skype og öðrum sambærilegum samskiptaforritum og því sé greinilegt að klippa hafi átt á allt það góða sem þeir hafi byggt upp með jákvæðum samskiptum. Það sé ekki með hagsmuni drengsins að leiðarljósi að rjúfa ákveðna rútínu sem hann og kærandi hafi verið komnir í með samskiptum sín á milli. Kærandi fullyrðir að ekkert í málinu gefi til kynna að X dagar af óbreyttum samskiptum hefðu skaðleg áhrif. Í raun verði að telja það mjög óábyrgt að rjúfa þann stöðugleika sem þá hafi verið kominn og að taka einhliða mark á fósturforeldrunum þegar jafn ríkir hagsmunir séu undir. Ljóst sé að gefa hefði átt drengnum tækifæri á að tjá sig, sbr. 46. gr. bvl., sérstaklega í ljósi þess að ekki hafi átt að taka mið af því er talsmaður drengsins hafi komið á framfæri með skýrslu sinni.

Þrátt fyrir að barn sé í fóstri sé ekki hægt að taka þann rétt af barninu að það njóti aðildar að máli. Þegar barn eldist í fóstri komi að þeim tímapunkti að barnið hafi meira og meira um málið að segja. Þrátt fyrir fósturráðstöfunina geti barn sem vistað sé í fóstri viljað umgangast kynforeldra eða jafnvel flytja til þeirra eftir átján ára aldur þegar fósturráðstöfun ljúki. Þá sé vissulega betra fyrir báða aðila að vera búin að fá tækifæri til þess að kynnast og tengjast. Ljóst sé af skýrslu talsmanns drengsins að hann vilji endurskoða umgengnistillögur sínar eftir að kærandi hafi lokið afplánun refsivistar, svo það sé margt sem bendi til þess að markmið drengsins sé að tengjast kæranda betur, en það sé ekki óeðlilegt þar sem drengurinn telji það hafa góð áhrif á sig.

Kærandi hafi aldrei reynt að hafa samband þegar hann sé í slæmu ástandi. Hann átti sig algjörlega á því að hann hafi farið út af sporinu í lífinu en hann hafi tekið sig á og gangi vel. Hann hafi aldrei gert neina kröfu um annað en það sem drengurinn vilji. Þess vegna sé það honum afar sárt að heyra fórsturforeldrana kenna sér um ástandið eins og það sé í dag. Það eina sem kærandi hafi farið fram á sé að hlustað sé á drenginn og að tekið verði mið af óskum hans. Eins og áður hafi komið fram hafi umgengnin verið ákveðin annan hvern mánuð og eitt símtal á viku. Drengurinn sjálfur hafi óskað eftir því að símtölin yrðu tvö í viku og sé það ástæða þess að kærandi hafi gert kröfu um tvö símtöl í stað eins líkt og áður. Drengurinn hafi viljað að umgengnin yrði einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn. Það sé alveg ljóst að kærandi vilji það sem sé drengnum fyrir bestu og kærandi hafi ekki ætlað að skapa vandamál og gera kröfu um umgengni einu sinni í mánuði í samræmi við vilja drengsins. Það sé von kæranda að umgengni geti aukist jafnt og þétt eins og aðstæður leyfi hverju sinni og þannig að óskum drengsins væri að mestu mætt.

Þar sem fórsturforeldrar drengsins hafi ekki viljað gera samning um viðbótar símtal þá hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur sem tekið hafi þá ákvörðun að tvö símtöl á viku væri of mikið. Helstu rökin fyrir því hafi verið að fósturforeldrarnir hafi talið sig hafa hlaupið á sig og niðurstaðan hafi því orðið sú að umgengni hafi verið minnkuð enn frekar.

Verði ekki séð af gögnum málsins að niðurstaða hins kærða úrskurðar þjóni hagsmunum drengsins. Kærandi geri því kröfu um að drengurinn njóti aðildar að málinu fyrir kærunefnd barnaverndarmála eða að tekið verði tillit til skýrslu talsmanns drengsins. Að öðrum kosti sé þess krafist að málinu verði vísað aftur til meðferðar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur þar sem drengurinn myndi njóta aðildar að málinu.

Þá sé einnig gerð krafa um það að á meðan málið sé til meðferðar hjá kærunefndinni og eftir atvikum barnaverndarnefnd Reykjavíkur að drengurinn og kærandi fái að halda óbreyttri umgengni, það er eitt símtal á viku.

Líkt og sjá megi af kröfugerð kæranda hafi hann óskað eftir tímabundinni umgengni á meðan hann afplánar refsivist á D sem standi líklega yfir fram á vor 20XX. Kærandi hafi óskað eftir því að umgengni færi fram í gegnum samskiptaforritið Skype á meðan afplánun standi en þessari kröfu hans hafi ekki verið svarað í hinum kærða úrskurði á annan hátt en þann að samskipti í gengum aðra samskiptamiðla en heimasíma væru ekki heimiluð. Tillaga kæranda hafi átt að vera lausnamiðuð. Kærandi óskar þess með velferð drengsins að leiðarljósi að tekið verði tillit til þessarra breyttu aðstæðna og að tímabundið verði fallist á að umgengni verði tvisvar í viku í gegnum Skype, í stað þess að vera sex sinnum á ári auk tveggja símtala í viku.

Að lokum bendi kærandi á að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem þeim séu nákomnir samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Enn fremur sé byggt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi telur að ekki hafi verið sýnt fram á að slíkt eigi við í málinu, þar sem hann hafi sýnt vilja til þess að umgangast son sinn og ekkert hafi komið fram um að umgengni drengsins við kæranda væri andstæð högum drengsins.

Í athugasemdum kæranda 11. september 2015 við greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur segir kærandi að nauðsynlegt sé að leiðrétta þá villu sem þar komi fram að hann hafi óskað eftir því að eiga samskipti við drenginn í gegnum Skype einu sinni í mánuði, eftir að kærandi hafi verið fluttur fyrirvaralaust á D. Það sé rangt, en kærandi hafi lagt til að hinu vikulega símtali yrði breytt í Skype samtal einu sinni í viku. Miðað við hvað umgengnin og samtölin hafi gengið vel hefði kærandi aldrei lagt til að fækka símtölunum, enda hefði það verið þvert gegn vilja hans og drengsins. Hugmynd kæranda um samskipti í gegnum Skype hafi einnig átt að koma til móts við drenginn þar sem kærandi hafi ekki getað hitt hann tímabundið og því gott fyrir þá að sjást í gegnum umrætt samskiptaforrit.

Þá komi það fram í greinargerð að fósturforeldrum fyndist það ekki sanngjarnt af kæranda og lögmanni hans að leggja málið upp á þann hátt að vísa til vilja drengsins. Vakin sé athylgi á að meginregla barnaverndarlaga sé það sem barninu sé fyrir bestu. Þá eigi börn jafnframt rétt á að tjá sig um mál sem það varði í samræmi við aldur þess og þroska og taka skuli réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls, sbr. 2. mgr. 46. gr. bvl. Með það að leiðarljósi hljóti að vera eðlilegt að leggja málið þannig upp að vísað sé til vilja barnsins.

Hins vegar telji kærandi það ósanngjarnt að fósturforeldrar drengsins leggi honum orð í munn, en fram komi að hann hafi í samtali við drenginn hvatt hann til að leggja fyrir sig sjómennsku. Í fyrsta lagi sé það rangt, en kærandi hafi ekki reynt að hafa áhrif á það hvað drengurinn leggi fyrir sig í framtíðinni, enda eigi það að vera val drengsins. Kærandi hafi hins vegar rætt sjómennsku við drenginn þegar hann hafi haft orð á því og spurt hann út í sjómennsku. Í öðru lagi sé ekki unnt að sjá hvaða gildi ummæli fósturforeldranna um meint ummæli kæranda hafi, en þau hafi ekki verið aðilar að umræddu samtali og því óljóst hvernig þau geti fullyrt um það hvað fari fram í samtölum milli kæranda og drengsins. Í þriðja lagi verði ekki séð að tilefni sé til að takmarka samskipti kæranda og drengsins á þeim grundvelli einum að fósturforeldrarnir telji þá ræða hluti sem þeim þyki ekki æskilegir. Það liggi ekkert fyrir um að samtöl á milli kæranda og drengsins séu óæskileg eða skaðleg fyrir drenginn, enda hafi hann eindregið óskað eftir frekari samskiptum við kæranda og það beri að virða, nema sýnt sé fram á að það sé andstætt hagsmunum hans. Lykilatriðið sé að drengnum finnist gott að tala við kæranda og vilji gera meira af því.

Jafnframt er áréttað af hálfu kæranda að ekki sé rétt að hann hafi ekki hringt á réttum tíma. Eftir að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi fækkað símtölum niður í eitt skipti í mánuði hafi kærandi aldrei samþykkt tillögur fósturforeldra drengsins um að hringja fyrsta mánudag í mánuði á milli klukkan 19:00 og 19:30. Hann hafi reynt að koma með aðrar tillögur að tíma sem fósturforeldrarnir hafi hafnað. Þar af leiðandi liggi ekki fyrir nein formleg ákvörðun um það hvenær símtölin eigi að eiga sér stað, heldur aðeins kröfur fósturforeldranna þar um. Þá hafi fósturforeldrarnir meinað kæranda að tala við drenginn þegar kærandi hafi hringt fimmtán mínútum seinna en þau hafi reiknað með.

Í ljósi þess að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi talið ástæðu til þess að benda á að sú umgengni sem kærandi krefjist sé fordæmalaus, þá veki kærandi athygli á því að barnaverndarnefndinni beri að skoða hvert mál fyrir sig og eigi það ekki að breyta neinu um niðurstöðu þessa máls hvernig niðurstaða annarra mála sé. Það sé skylda barnaverndarnefndarinnar að skoða hvert mál fyrir sig og meta aðstæður hverju sinni og leysa hvert mál út frá því, en ekki út frá því hvernig leyst hafi verið úr öðrum málum, nema aðstæður séu nákvæmlega þær sömu, sem ólíklegt verði að telja að sé, þar sem hvert mál sé í raun einstakt.

III. Afstaða B

Í skýrslu talsmanns B 14. maí 2015 kemur fram að talsmaður hitti drenginn á heimili hans til að kanna afstöðu hans til umgengni við kæranda og símtala við hann. Í skýrslunni segir að drengurinn hafi sagst lítið hafa vitað um kæranda þangað til nýlega, hann muni eftir að hafa hitt kæranda þegar hann hafi verið í kringum X ára gamall. Hann hafi nú fengið að hitta kæranda reglulega á þessu ári og þá segi drengurinn að kærandi hafi áður fengið að hringja í hann tvisvar í viku en undanfarið hafi hann fengið að hringja einu sinni í viku. Drengurinn segi að kærandi standi við það að hringja í sig og honum finnist gott að heyra í kæranda en þeir hafi nóg að tala um. Þá hafi þeir jafnframt samband í gegnum Facebook.

Drengurinn hafi talað um það að hann vissi til þess að kærandi hefði áður „ekki verið í góðum málum“ og hafi gert margt rangt en hann sé í betri málum í dag. Drengurinn trúi því að kærandi sé breyttur maður.

Í skýrslunni kemur fram að drengurinn segist hitta kæranda í X 2015 og hann hlakki til. Sá háttur sé á að kærandi komi í heimsókn til sín á heimili hans klukkan fimm og fari klukkan sjö og kærandi borði kvöldmat með sér og fósturforeldrum. Hann upplifi það að fósturforeldrar sínir taki vel á móti kæranda en þau hafi samt ekki treyst honum áður. Kærandi hafi sagt sér að hann vilji ekki segja honum sögu sína fyrr en hann verði aðeins stærri og hafi drengurinn sagst skilja það. Hann segi að kærandi sé sjómaður og hann hafi sjálfur áhuga á að verða sjómaður. Hann sé ekki viss um að hann vilji fara í framhaldsskóla eftir tíunda bekk og hafi stundum hugsað hvort hann geti farið á sjó með föður sínum. Drengurinn taki fram að hann vilji gjarnan kynnast föður sínum betur.

Þá kemur fram að drengurinn hafi talað um sameiginleg áhugamál hans og kæranda. Þegar þeir hittist fari þeir stundum í tölvuna saman og hafi báðir gaman af. Þeir tali líka mikið saman en drengnum finnist oft sem þessir tveir tímar dugi ekki til. Hann nái ekki að klára að tala við kæranda. Hann væri líka til í að heyra oftar í kæranda í síma. Þeir hafi alltaf eitthvað að tala um og honum finnist kærandi hafa áhuga á sér og hann sé góður. Drengurinn hafi sýnt talsmanni gjafabréf frá kæranda uppá tvo flugtíma. Hann hafi einnig sýnt talsmanni nýlega mynd af kæranda og eldri mynd af honum sem hann sé með upp á vegg hjá sér.

Drengurinn segi að hann vilji fara hægt í hlutina, gera sér ekki of miklar væntingar en núna vilji hann hitta kæranda einu sinni í mánuði í þrjá tíma í senn á fósturheimilinu á meðan hann sé í fangelsi og endurskoða fyrirkomulagið þegar hann komi úr fangelsi. Þá vilji hann tala við kæranda í síma tvisvar í viku á meðan hann dvelji í fangelsi.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sem móttekin var af kærunefnd barnaverndarmála 27. ágúst 2015, segir að samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Taka skuli mark af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

Drengurinn B hafi verið vistaður í varanlegu fóstri frá X aldri og sé ekki annað fyrirséð en að hann verði vistaður utan heimilis kynforeldra til átján ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað er að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Umgengni með þeim hætti sem kærandi krefjist sé fordæmalaus í varanlegu fóstri og ekki framkvæmanleg nema um hana ríki sátt allra aðila.

Í ljósi forsögu málsins, sjónarmiða fósturforeldra og með hliðsjón af hagsmunum drengsins hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundinum 23. júní 2015 að mikilvægt væri að skapa drengnum stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hann fái að dafna og þroskast sem best í fóstrinu. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri, jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi gerir barnaverndarnefnd Reykjavíkur kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

V. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra drengsins 25. september 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að þau vilji engu breyta frá hinum kærða úrskurði nema að því leyti að þau vilja að umgengni fari fram annars staðar en á heimili þeirra undir eftirliti og að þau fái að vera viðstödd einnig. Kærandi hafi ekki talað við drenginn eftir hinn kærða úrskurð og hafi því ekki nýtt sér þá daga sem hinn kærði úrskurðir kveði á um til að hringja í drenginn. Þá hafi kærandi ekki gefið drengnum afmælisgjöf sem drengurinn hafi verið búinn að velja sér.

VI. Niðurstaða

B varð X ára X 2015 en hann hefur verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum, F og G, frá því í nóvember árið X eða frá X aldri. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 23. júní 2015 var umgengni drengsins við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn á heimili fósturforeldra undir eftirliti. Þá voru símtöl heimiluð einu sinni í mánuði í heimasíma fósturforeldranna en samskipti í gegnum aðra samskiptamiðla ekki heimiluð. Kærandi krefst þess að umgengni verði ákveðin að lágmarki sex skipti á ári auk tveggja símtala á viku. Þá krefst kærandi þess að á meðan hann er vistaður á D fari umgengni fram í gegnum samskiptaforritið Skype í tvö skipti í viku.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Með tölvupóstum til barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. júní 2015 var af hálfu kæranda vísað til þess að hann hefði fyrirvarlaust verið fluttur á D sem gerði það að verkum að hann ætti erfiðara með að hitta drenginn. Í ljósi þessara breytinga lagði kærandi til að samskipti hans við drenginn yrðu tímabundið í gegnum Skype.

Fram kemur í hinum kærða úrskurði að kærandi hefði gert kröfu um umgengni sex sinnum á ári og tvö símtöl í viku. Á meðan kærandi afplánaði dóm á D væri krafa hans um umgengni þannig að hann fái að hringja einu sinni í viku í drenginn í gegnum Skype. Með úrskurðinum var ákveðið að hæfileg umgengni kæranda við drenginn væri fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn sem fari fram á fósturheimilinu undir eftirliti fósturforeldranna og símtöl heimiluð einu sinni í mánuði en samskipti í gegnum aðra samskiptamiðla væru ekki heimiluð.

Með hinum kærða úrskurði var leyst úr kröfu kæranda um fyrirkomulag umgengninnar í gegnum Skype þannig að kröfunni var hafnað án þess að fullnægjandi rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu komi fram í úrskurðinum en samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal í rökstuðningi fyrir stjórnvaldsákvörðun greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat á því sem ákvörðunin er byggð á þegar ákvörðun er byggð á mati.

Þá verður ekki séð að þess hafi verið gætt með hinum kærða úrskurði að tekin væri afstaða til þess að fyrirkomulag umgengninnar yrði ákveðið tímabundið á meðan kærandi sætti afplánun á D. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. bvl. hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umfang umgengnisréttar og framkvæmd og bar nefndinni því að taka afstöðu til þessa með úrskurðinum. Af skýrslu talsmanns drengsins verður ráðið að drengurinn geri ráð fyrir því að fyrirkomulag umgenginnar verði að taka mið af því að kærandi er í fangelsi og að endurskoða þurfi fyrirkomulagið þegar hann komi úr fangelsi. Telja verður að við þær aðstæður sem fyrir lágu við meðferð málsins hjá barnaverndarnefndinni hafi verið nauðsynlegt að leysa úr því sérstaklega hvernig umgengninni skyldi háttað tímabundið, eins og kærandi hafði farið fram á.

Í gögnum málsins kemur heldur ekki fram að leitað hafi verið eftir afstöðu drengsins til þessa tímabundna fyrirkomulags umgengninnar sem kærandi hafði farið fram á en samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.  Samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar nýtur drengurinn réttarstöðu aðila máls frá þeim degi er hann varð X ára, sem var X 2015 eins og fram hefur komið, sbr. einnig 47. gr. og 1. og 2. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið skorti hina kærðu ákvörðun viðhlítandi rökstuðning að því leyti sem hér að framan er lýst og þess var eigi gætt að taka afstöðu til þess hvernig fyrirkomulagi og framkvæmd umgengninnar skyldi háttað tímabundið á með kærandi sætti afplánun á D. Eins og málið liggur fyrir verður að líta svo á að leysa hafi þurft úr kröfu kæranda um tímabundið fyrirkomulag umgengninnar áður en leyst var úr málinu að öðru leyti. Að auki var þess eigi gætt við málsmeðferðina hjá barnaverndarnefndinni að afla afstöðu drengsins til tímabundins fyrirkomulags umgengninnar í gegnum Skype, eins og kærandi fór fram á 18. júní 2015.

Vegna þessara ágalla á málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur verður að telja ákvörðunina, sem tekin var með hinum kærða úrskurði, ólögmæta. Ber með vísan til þess að fella hann úr gildi, sem leiðir til þess að taka þarf ákvörðun að nýju að gættum viðeigndi málsmeðferðarreglum, en samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur kærunefndin vísað málinu til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju.  


Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 23. júní 2015 varðandi umgengni A við son sinn, B, er felldur úr gildi og er málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira