Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 3/2019, úrskurður 10. október 2019

Fimmtudaginn 10. október 2019 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 3/2019

 

 

Vegagerðin

gegn

Bjarna Hákonarsyni

og Finndísi Harðardóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, varaformanni, ásamt þeim Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 4. mars 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á tveimur landspildum í landi Dilksness, landnúmer 159472, undir vegsvæði þjóðvegar, Hringveg um Hornafjörð, og vegtengingu þjóðvegarins við Hafnarnesveg.

 

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

 

Eignarnámsþolar eru Bjarni Hákonarson, kt. […], og Finndís Harðardóttir, kt. […], bæði til heimilis að [...]. Eignarnámsþolar eru eigendur Dilksness, landnúmer 159472.

 

Matsandlagið er nánar tiltekið:

1.         4.385 fermetra landspilda í landi Dilksness milli vegstöðva 14580 og 14700, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar. Samkvæmt matsbeiðni nýtast þar af áfram 98 fermetrar af eldra vegstæði innan lands eignarnámsþola sem dragast frá.

 

2.         1404 fermetra landspilda í landi Dilksness milli vegstöðva 14580 og 14700, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar. Samkvæmt matsbeiðni nýtast þar af áfram 466 fermetrar af eldra vegstæði innan lands eignarnámsþola sem dragast frá.

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 28. mars 2019. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 12 tölu- og stafsettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Þriðjudaginn 25. júní 2019 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Af hálfu eignarnema var lögð fram bókun þar sem greinir meðal annars: „Eignarnámsþolar í ofangreindu máli vekja athygli matsnefndar eignarnámsbóta á eftirfarandi atriðum: 1. Að þeir mótmæla ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám og hún verði kærð skv. heimild til ráðherra, sbr. meðfylgjandi kæru. Komi til þess að ráðherra staðfesti ákvörðunina munu eignarnámsþolar leita réttar síns fyrir dómstólum. 2. Að þeir mótmæli umráðatöku Vegagerðarinnar á landi þeirra meðan ekki hefur verið skorið endanlega úr um lögmæti ákvörðunar Vegagerðarinnar um eignarnám.“ Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

 

Mánudaginn 26. ágúst 2019 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna vettvangsgöngu 25. júní 2019. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum og greinargerð eignarnámsþola ásamt fimm tölusettum fylgiskjölum og þremur ótölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lagður fram rekstrarreikningur eignarnámsþola árin 2016, 2017 og 2018 og málskostnaðaryfirlit ásamt tveimur reikningum vegna útlagðs kostnaðar. Af hálfu eignarnema var lagt fram skjal, þar sem eignarnemi vísar til athugasemda sinna við greinargerð eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem rekið er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, ásamt fylgiskjölum og málflutningsræðu fyrir nefndinni, og telur þær eiga við í þessu máli að því er varðar land undir vegstæði, svo og bætur vegna meintrar eyðileggingar á atvinnuhagsmunum og aðrar bætur. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmanni eignarnámsþola bókað að hann byggi í þessu máli á málatilbúnaði og málflutningi eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem einnig sé rekið fyrir nefndinni, eftir því sem við eigi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:

 

Með tölvubréfi 5. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmann eignarnema, að eignarnemi veitti matsnefndinni upplýsingar um lengdarsnið fyrirhugaðrar veglínu þjóðvegarins, Hringvegar um Hornafjörð, sem sýndi hæð vegarins og hæð landsins. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema sama dag bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

 

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 30 krónur á fermetra, eða 300.000 krónur á hektara. Þannig nemur tilboð eignarnema vegna samtals 5.225 (4.385-98+1404-466) fermetra landspildna í landi Dilksness milli vegstöðva 14580 og 14700 156.750 krónum, eða 78.375 krónur til hvors eignarnámsþola.

 

Við mat á bótum vísar eignarnemi til þess að litið hafi verið til samninga í hliðstæðum málum og upplýsinga um verð á landi við kaup og sölu jarða. Bendir eignarnemi á að mikill meirihluti eigenda jarða í Hornafirði hafi þegar samið við eignarnema á grundvelli áðurgreinds tilboðs. Í því samhengi vísar eignarnemi til kaupsamnings 15. desember 2014, […]. Vísar eignarnemi til þess að talið sé að stærð þeirrar jarðar sé á milli 2000 og 3000 hektarar og að það hektaraverð sé því margfalt lægra verð en það sem tilboð eignarnema til eignarnámsþola taki mið af. Telur eignarnemi að kaupsamningurinn gefi raunhæfa mynd af jarðaverði í Hornafirði.

 

Næst vísar eignarnemi til þess að fasteignamat matsandlagsins gefi nokkra vísbendingu um verðmæti þess, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Nemi fasteignamat 2019 vegna 22,5 hektara ræktaðs lands Dilksness 2.360.000 krónum eða 104.899 krónum á hektara.

 

Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi einnig til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 225.000 krónur á hektara, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 250.000 krónur á hektara.

 

Um landshætti matsandlagsins vísar eignarnemi til þess að samkvæmt lýsingu á gróðurfari jarða í fyrirhugaðri veglínu, sem unnin hafi verið fyrir eignarnema í ágúst 2019, einkennist landspildur í landi Dilksness (milli vegstöðva 14580 og 14700) af deiglendi. Er það álit eignarnema að matsandlagið teljist því fremur rýrt að gæðum og að ekkert bendi til þess að það land, sem eignarnámsþolar haldi eftir, muni rýrna í verði vegna staðsetningar nýja vegarins.

 

Að síðustu vísar eignarnemi eins og áður greinir til athugasemda sinna við greinargerð eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem rekið er fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, ásamt fylgiskjölum og málflutningsræðu fyrir nefndinni, og telur þær eiga við í þessu máli að því er varðar land undir vegstæði, svo og bætur vegna meintrar eyðileggingar á atvinnuhagsmunum og aðrar bætur.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnámsbætur til handa eignarnámsþolum verði ákveðnar 89.739.356 krónur, sem skiptast skuli með þeim hætti að eignarnámsþolar fái hvor um sig helmingshlut.

 

Tekur kröfugerð eignarnámsþola mið af því að greiða beri bætur fyrir hið eignarnumda land, það er matsandlagið, en einnig áhrif fyrirhugaðs vegar á verðmæti annars landssvæðis í þeirra eigu. Árétta eignarnámsþolar í því samhengi að þeim beri fullt verð fyrir hin eignarnumdu verðmæti og að ekki eigi að fullu við hefðbundin sjónarmið skaðabótaréttar varðandi sönnun á skaðabótaskyldu tjóni. Hafi eignarnámsþolar uppfyllt sönnunarkröfur með málatilbúnaði sínum, áliti löggilts fasteignasala og öðrum framlögðum gögnum. Þá sé matsnefnd eignarnámsbóta sérstaklega skipuð til að ákvarða tjón í tilefni eignarnáms og búi nefndin yfir víðtækri sérþekkingu og á henni hvíli sjálfstæð rannsóknarskylda. Er töluleg kröfugerð eignarnámsþola reist á sérfræðiáliti Jóns Hólms Stefánssonar, löggilts fasteignasala, frá því í ágúst 2019, sem eignarnámsþoli aflaði. Verðmatið ber heitið „Hringvegur um Hornafjörð - leið 2, 3 og 3b. Áhrif vegagerðar 3b á verðgildi viðkomandi jarða.“ Í álitinu segir meðal annars að skoðað hafi verið fyrirhugað vegstæði, meðal annars um eignarlönd eignarnámsþola, svonefnd leið 3b, og hver áhrif þeirrar vegalagningar myndi hafa á verðgildi jarðanna. Er kröfugerð eignarnámsþola nánar sundurliðuð á svofelldan hátt:

 

Í fyrsta lagi krefjast eignarnámsþolar 2.627.500 króna fyrir landspildur í landi Dilksness (milli vegstöðva 14580 og 14700). Er miðað við að greiða skuli 500 krónur fyrir hvern fermetra í samræmi við niðurstöðu sérfræðiálitsins.

 

Í öðru lagi krefjast eignarnámsþolar bóta að fjárhæð 54.750.000 krónur vegna annars lands sem þeir telja að missi verð- og notagildi sitt með öllu vegna vegarins samkvæmt sérfræðiálitinu. Um ræðir það land sem eignarnámsþolar halda eftir, það er samtals 36,5 hektara landspildur í landi Dilksness (milli vegstöðva 14580 og 14700).

 

Um tvær ofangreindar kröfur styðjast eignarnámsþolar eins og áður greinir við sérfræðiálit löggilts fasteignasala, þar sem komist sé að niðurstöðu um að greiða beri eignarnámsbætur sem nemi 500 krónum á fermetra, eða 5.000.000 krónur á hektara fyrir þær landspildur sem fara undir fyrirhugaðan veg, svo og að greiða beri bætur að fjárhæð 1.500.000 krónur á hektara fyrir allt land sem eignarnámsþolar halda eftir og yrði lítt nothæft vega vegalagningarinnar, með röksemdum sem nánar greinir í álitinu. Um þetta segir meðal annars í álitinu: „Í Dilksnesi er stofnræktun fyrir kartöflur. Slíkt ræktun er ekki viðurkennd hér á landi nema aðstæður séu í samræmi við skilyrði til slíkrar ræktunar. Fyrirhuguð vegalagning myndi hafa slæm áhrif á þá ræktun, sem og aðra nýtingu landsins, vegna hugsanlega hækkaðrar grunnvatnsstöðu. Hávaðamengun[ar] frá umferðinni myndi gæta langt upp að híbýlishúsum í Dilksnesi, sem nú er[u] í afar kyrrlátu umhverfi og hafa áhrif til takmarkaðri nota frá því sem nú er. Í Dilksnesi er rekin ferðaþjónusta, sem hefur orð á sér fyrir kyrrð og fagurt útsýni. Þetta yrði með öðrum hætti, ef af þessari vegalagningu verður. Ásýnd til sjávarins myndi skaðast sem og aðgengi til sjávarins m.a. til að njóta fuglalífs og breytileika landsins af völdum sjávarfalla. Verðrýrnun jarðarinnar yrði veruleg sem söluvara á frjálsum markaði, með þeim rekstri, sem nú er, og þeim möguleikum sem fyrir hendi eru s.s. að selja spildur til frístundadvalar og útivistar.“ Þar segir einnig meðal annars að um ræði skemmd á ósnortnum náttúruperlum, sem að óbreyttu séu dýrmætar hverjum þeim sem þær eigi, og að það sé ábyrgðarhluti að skemma slíkar náttúruperlur, einkanlega þegar sátt geti verið um aðrar útfærslur sem skili svipaðri niðurstöðu. Landsvæðið sé eftirsótt búsetusvæði enda mjög vel til fallið til hvers kyns landbúnaðar og afar eftirsótt af ferðamönnum umfram mörg önnur svæði hér á landi og nánar ekkert land sé til sölu á frjálsum markaði.

 

Til viðbótar vísa eignarnámsþolar til þess að þeir hafi reynt að afla sér upplýsinga um söluverð hliðstæðra landareigna og ekki sé mikið um þær. Þeir vísa þó til munnlegra upplýsinga um kaupverð á Svínhólum í Hornafirði, landnúmer 159397, sem seld hafi verið í maí 2017 með 10,6 hektara af ræktuðu landi og muni kaupverð hafa numið um 80.000.000 krónum.

 

Í þriðja lagi krefjast eignarnámsþolar 30.361.856 króna vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á atvinnuhagsmunum þeirra við kartöflurækt. Hér vísa eignarnámsþolar til álitsgerðar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins 25. apríl 2019, sem þeir hafi aflað, um hvort og þá hvaða áhrif fyrirhuguð veglína kynni að hafa á þann landbúnað sem stundaður sé á áhrifasvæði vegarins og framtíðarmöguleika til frekari landnýtingar. Í álitsgerðinni greinir meðal annars að helstu neikvæðu áhrif vegleiðarinnar verði á kartöflugarða og ræktunarlönd fyrir neðan ármót Hoffellsár og Laxár og við Dilksnes og óljós sé hve ofarlega í landinu áhrifanna kunni að gæta en alls séu um 40 hektarar ræktaðir neðan ármótanna og vestan afleggjara í Árnanes 3. Þá muni sjávarföll hafa áhrif á ræktunarland sitthvoru megin við flugvöllinn og upp að brekkunum neðan Árnaness 5 og Seljavalla. Í álitsgerðinni er einnig meðal annars fjallað um þær aðstæður sem nauðsynlegar eru til kartöfluræktar og hví land eignarnámsþola sé einstakt að þessu leyti, svo og að um 15-20% af kartöfluuppskeru landsins komi frá Hornafirði og þar af leggi eignarnámsþolar til stærstan hlut. Hafi þeir náð að skapa sér mikla sérstöðu þar sem landsvæði þeirra sé oft fyrr tilbúið til ræktunar en önnur svæði á landinu. Þá sé í Dilksnesi mikilvæg stofnræktun á kartöflum og að slík ræktun sé aðeins stunduð á þremur stöðum á landinu. Telja eignarnámsþolar að verði fyrirhugaður vegur að veruleika geti fjárhagstjónið orðið verulegt. Styðjast þeir hér við niðurstöðukafla álitsgerðarinnar, þar sem segir:

 

Í ljósi þess að vegleið 3b mun auka tíðni flóða yfir og við kartöflugarða, áhrif vegna setflutninga eru óljós og möguleg áhrif á hitastig og myndun jarðklaka hafa ekki verið könnuð sérstaklega, má áætla að vegleið 3b geti haft neikvæð áhrif á þá kartöflurækt og annan þann landbúnað sem nú er stundaður á áhrifasvæði vegagerðarinnar. Mikil óvissa er um líkur eða tíðni þess að áhrifin muni valda uppskerubresti eða einungis valda uppskerurýrnun eða seinkun á uppskerutíma. Fjárhagstjónið getur orðið verulegt einkum í ljósi þeirrar fjárfestingar sem kartöflurækt í atvinnuskyni útheimtir. Þá mun vegleið 3b takmarka mjög framtíðarmöguleika þess að taka gott óræktað land til nýtingar.

 

Eignarnámsþolar benda enn fremur á að eignarnemi hafi ekki rannsakað vatnafar á svæðinu til hlítar. Þá árétta þeir að aldrei hafi af hálfu eignarnema verið tekin afstaða til þess hver áhrif framkvæmdanna verði á kartöflurækt á svæðinu, hvorki í matsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum né annars staðar. Tekur krafa eignarnámsþola vegna fyrirséðra áhrifa framkvæmdanna á kartöfluræktun og sölu mið af því að meðaltal síðustu þriggja ára í sölu á kartöfluútsæði tapist með öllu við tilkomu nýs vegar, reiknað sjö ár fram í tímann. Fari sala á kartöfluútsæði aðeins fram á vorin og í sumarbyrjun og er krafa eignarnámsþola miðuð við sölutölur vegna 2016 að fjárhæð 4.893.098 krónur, 2017 að fjárhæð 4.428.599 krónur og 2018 að fjárhæð 3.690.527 krónur.

 

Í fjórða lagi krefjast eignarnámsþolar 2.000.000 króna vegna rasks og ónæðis á framkvæmdatíma. Fyrirhuguð framkvæmd muni taka nokkur ár miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sem ljóst megi vera að valdi miklu raski og ónæði.

 

Þá krefjast eignarnámsþolar málskostnaðar að skaðlausu úr hendi eignarnema, sem samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðaryfirliti nemur 9.550.041 krónu vegna lögfræðiþjónustu að meðtöldum virðisaukaskatti, 211.730 krónum vegna öflunar álitsgerðar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og 98.774 krónum vegna öflunar verðmats löggilts fasteignasala, samtals að fjárhæð 9.860.545 krónur. Málskostnaðaryfirlitið tekur ósundurgreint til vinnu vegna máls eignarnámsþola og fimm annarra mála sem lögmenn eignarnámsþola hafa rekið fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, það er mála nr. 2/2019, 4/2019, 5/2019, 6/2019 og 7/2019, annar reikningurinn tekur ósundurgreint til vinnu vegna máls eignarnámsþola og eins þessara mála og hinn reikningurinn til vinnu vegna máls eignarnámsþola og fjögurra þessara mála. Krefjast eignarnámsþolar þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til umfangs málsins, þar sem fyrir liggi að eignarnemi hafi staðið í málarekstri gegn eignarnámsþolum um árabil.

 

Að síðustu vísa eignarnámsþolar eins og áður greinir til þess að þeir byggi í þessu máli eftir því sem við eigi á málatilbúnaði og málflutningi eignarnámsþola í máli nr. 6/2019, sem einnig sé rekið fyrir nefndinni.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildum eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Um ræðir vegalagningu frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegstæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.

 

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður eignarnámi ekki við komið nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum.

 

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 25. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþolanum Bjarna Hákonarsyni og kynnti sér aðstæður. Eignarnámið tekur til áðurgreindra tveggja landspildna, þar sem um ræðir samtals 5.225 fermetra landspildur í landi Dilksness (milli vegstöðva 14580 og 14700), sem samkvæmt gögnum málsins einkennast af deiglendi. Vettvangsathugun leiddi í ljós gróðursælt og stabílt ræktað land eignarnámsþola.

 

Er stærð landspildnanna tveggja lýst hér á undan og óumdeild.

 

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að undanskilinni kröfu eignarnámsþola um bætur vegna ætlaðs tjóns á atvinnuhagsmunum þeirra í formi kartöfluræktar. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þótt fyrir matsnefndinni liggi upplýsingar um stöku kaupsamning á landspildum í og við Hornafjörð, þar sem land eignarnámsþola er staðsett, er það álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

 

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir þær landspildur sem fara undir nýtt vegstæði og vegtengingu þjóðvegarins við Hafnarnesveg. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 30 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Þá álítur matsnefndin að verðmat það sem eignarnámsþolar lögðu fram og miðar við 500 krónur á fermetra gefi heldur ekki rétta mynd af verðmæti þess. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti landsvæðis austan Hornafjarðarfljóts nemi 60 krónum á fermetra eða 600.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði, það er gróðursælt og býr yfir náttúrufegurð, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna. Þá telur nefndin rök ekki standa til þess að gera greinarmun á verðmæti einstakra landspildna austan fljótsins. Fyrir samtals 5.225 fermetra landspildu í landi Dilksness (milli vegstöðva 14580 og 14700) þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 313.500 krónur (5.225x60).

 

Í öðru lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess einnig krafist að þeim verði úrskurðaðar bætur vegna fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á atvinnuhagsmunum þeirra við kartöflurækt. Hér er til þess að líta að á vegum eignarnema fór fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegaframkvæmdar í Hornafirði, þ. á m. á vatnafari. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 13. nóvember 2017 í máli nr. 77/2017 var hafnað erindi annarra landeigenda á svæðinu um ógildingu á þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar 4. júlí 2016 að vísa frá beiðni um endurskoðun áðurgreindrar matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Samkvæmt álitsgerð Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins 25. apríl 2019, um áhrif á ræktað og ræktanlegt land vegna fyrirhugaðrar vegleiðar í Hornafirði, sem eignarnámsþolar hafa aflað og liggur fyrir í gögnum málsins, er mikil óvissa um líkur eða tíðni þess að áætluð neikvæð áhrif vegaframkvæmdarinnar, á þá kartöflurækt og annan landbúnað sem nú er stundaður á áhrifasvæði vegleiðarinnar, muni valda uppskerubresti, uppskerurýrnun eða seinkun á uppskerutíma. Það er álit matsnefndarinnar að óvissan um áhrif vegalagningarinnar á þessa þætti sé slík að ekki sé að svo stöddu unnt að ákveða eignarnámsbætur fyrir ætlað framtíðartjón af þessum völdum, líkt og eignarnámsþolar hafa krafist. Hefur matsnefndin þá meðal annars í huga heimildir 16. gr. laga nr. 11/1973 til endurupptöku bótaákvörðunar. Er þessari kröfu eignarnámsþolans því hafnað.

 

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram sameiginlegt málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu eignarnámsþola í þessu máli og eignarnámsþola í fimm öðrum málum sem rekin eru fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, málum nr. 2/2019, 4/2019, 5/2019, 6/2019 og 7/2019, vegna fyrirhugaðrar vegalagningar um Hornafjörð. Af málskostnaðaryfirlitinu verður ráðið að kostnaðurinn féll að hluta til vegna ráðgjafar sem eignarnámsþolar nutu um tíma áður en til samningaviðræðna um matsandlagið og ákvörðun um eignarnám lágu fyrir, allt frá 31. mars 2016 að telja, en yfirlitið tekur t.d. til hagsmunagæslu fyrir skipulagsyfirvöldum og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þ. á m. vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar vegalagningar. Þessi kostnaður eignarnámsþola verður ekki í heild sinni talinn til kostnaðar við rekstur matsmáls samkvæmt lögum nr. 11/1973, svo sem áskilið er í síðari málslið 11. gr. þeirra. Á hinn bóginn er til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 11/1973 er það matsnefndarinnar að tryggja að réttur manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði raunhæfur og virkur. Þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins áttu fyrstu bréflegu samskipti málsaðila sér stað með bréfi eignarnema 31. ágúst 2017 til eignarnámsþola og að eignarnemi hafi fyrst boðið fram bætur til handa eignarnámsþolum með bréfi 9. október 2017. Verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþolum í þessu máli þannig ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til reikninga vegna útlags kostnaðar við öflun álitsgerðar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, sem aflað var sameiginlega að beiðni eignarnámsþola í þessu máli og máli nr. 6/2019 vegna Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar, og sérfræðiálits fasteignasala, sem aflað var sameiginlega að beiðni eignarnámsþola í þessu máli og málum nr. 4/2019, 5/2019, 6/2019 og 7/2019 vegna Hjarðarness, Skarðshóla og Árnaness 1, 2, 3 og 4 auk Hríseyjar, samkvæmt reikningum sem lagðir voru fram fyrir matsnefndinni 26. ágúst 2019, svo og með hliðsjón af því að lögmenn eignarnámsþola hafa samkvæmt áðurgreindu rekið fimm önnur mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta vegna eignarnáms á landi í þágu sömu framkvæmdar eignarnema.

 

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur samtals vera 1.313.500 krónur, eða 656.750 krónur til hvors eignarnámsþola. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 1.615.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða 1.313.500 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu, eða 656.750 krónur til hvors eignarnámsþola, og eignarnámsþolum, Bjarna Hákonarsyni og Finndísi Harðardóttur, samtals 1.615.000 krónur í málskostnað.

 

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira