Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 00090111

Ráðuneytinu hefur borist kæra frá Náttúruvernd ríkisins vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 20. október 2000 um að borun rannsóknarholu Hitaveitu Suðurnesja við Trölladyngju skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

I. Hin kærða ákvörðun.

Hitaveita Suðurnesja tilkynnti til Skipulagsstofnunar þann 27. júlí 2000 fyrirhugaða framkvæmd við borun rannsóknarholu á háhitasvæði við Trölladyngju á Reykjanesi skv. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar segir að með hliðsjón af 3. viðauka laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum sé fyrirhuguð borun rannsóknarholu Hitaveitu Suðurnesja ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Hitaveita Suðurnesja hefur verið úthlutað rannsóknarleyfi frá 1. september 2000 - 1. apríl 2007.

Vegna framkvæmdarinnarinnar er fyrirhugað að leggja veg sem felst í því að bera ofan í um 2 km langa slóð sem myndast hefur við utanvegaakstur meðfram hlíðum Trölladyngju auk þess sem lagður verður rúmlega 500 metra langur vegur þaðan yfir óraskað land að fyrirhugðum borstað og þar af um 100 metra út í apalhraun. Í hrauninu þarf að slétta undir veginn og borplan sem verður allt að 80 x 100 metrar að flatarmáli. Fyrirhugað er að taka efni til vegagerðar og í borplan að hluta til úr gígnum Eldborg sem spillt hefur verið með efnistöku.

II. Kröfur og málsástæður kæranda.

Kærð er sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að borun rannsóknarholu við Trölladyngju skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Kærandi bendir á að fyrirhugaðar framkvæmdir séu innan svæðis sem séu á náttúruminjaskrá og skilgreint er sem náttúruverndarsvæði skv. lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd. Við fyrirhugaðar rannsóknaboranir sé áformað að leggja rúmlega 500 metra langan nýja veg innan náttúruverndarsvæðis til að koma tækjum að borstað, þar af eru um 100 metrar á óröskuðu hrauni sem runnið hefur á nútíma. Þá þurfi á borstað í hrauninu að jafna um 80x100 metra stóran flöt fyrir borplan. Samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 skuli ákveðnar landslagsgerðir njóta verndar og skuli forðast röskun þeirra eins og kostur er. Meðal þessara landslagsgerða séu eldvörp, gervigígar og eldhraun. Því sé ljóst að framkvæmdin muni hafa áhrif á og raski svæði sem er á náttúruminjaskrá, sem og landslagsgerð sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd.

Þá telur kærandi að ekki sé hægt að fallast á efnistöku úr Eldborg eins og ráðgert er nema metin verði umhverfisáhrif efnistökunnar.

Kærandi telur jafnframt að skoða verði hvort ásættanlegt sé að nýta svæðið til orkuvinnslu áður en tekin er ákvörðun um tilraunaboranir. Brýnt sé að mörkuð verði stefna um það hvaða svæði sé ásættanlegt að nýta og hvaða svæði eigi að vernda. Telur kærandi að ekki sé ásættanlegt að öllum svæðunum verði raskað með rannsóknaborunum áður en stefnumörkun um slíkt liggur fyrir.

Kærandi telur að ekki sé hægt að tryggja að með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitastjórna og Náttúruverndar ríkisins að framkvæmdin hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Samkvæmt náttúruverndarlögum skuli leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins um framkvæmdir sem raskað geti svæðum á náttúrminjaskrá og framkvæmdum sem raskað geti landslagsgerðum sem falla undir 37. gr. laganna. Sveitarstjórn og framkvæmdaraðili þurfi ekki að taka tillit til þeirra umsagnar og Náttúruvernd ríkisins geti ekki lögum samkvæmt fylgt þeirri umsögn eftir.

Kærandi telur að skoða verði betur aðra kosti varðandi staðsetningu borholu og lagningu vegar að henni.

III. Umsagnir og athugasemdir.

Ráðuneytið óskaði með bréfum dagsettum 24. október 2000 eftir umsögnum frá Skipulagsstofnun og Hitaveitu Suðurnesja um framangreinda kæru. Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi dagsettu 27. október 2000 og umsögn Hitaveitu Suðurnesja með bréfi dagsettu 2. nóvember 2000.

Ráðuneytið óskaði eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvernig samvinnu framkvæmdaraðila, sveitastjórna og Náttúruverndar ríkisins skuli háttað til að tryggja að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, einkum ef framkvæmdaraðili tekur ekki tillit til umsagnar Náttúruverndar ríkisins.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir um þetta:

"Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á bls. 5 í hinni kærðu ákvörðun kemur fram það mat stofnunarinnar að hægt sé að tryggja að framkvæmdin, eins og hún var kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins. Skipulagsstofnun lítur ekki svo á að samvinna framangreindra aðila felist í því að leitað sé umsagnar Náttúruverndar ríkisins um framkvæmdaleyfisumsókn framkvæmdaraðila til sveitarstjórnar. Þvert á móti er það skilningur stofnunarinnar að framkvæmdaraðili, sveitarstjórnir og Náttúruvernd ríkisins skuli komast að sameiginlegri niðurstöðu um fyrirkomulag framkvæmda sem veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum er tekið fram að við leyfisveitingar skuli taka tillit til úrskurða Skipulagsstofnunar.

Eins og áður segir er það forsenda niðurstöðu Skipulagsstofnunar í hinu kærða tilviki að með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórnar og Náttúruverndar ríkisins sé hægt að tryggja að framkvæmdin komi ekki til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif i för með sér.

Framangreindir aðilar komist að sameiginlegri niðurstöðu um fyrirkomulag framkvæmda, sem tryggi að umhverfisáhrif séu ekki umtalsverð. Verði fyrirkomulag framkvæmda samkvæmt útgefnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar í andstöðu við vilja Náttúruverndar ríkisins telur Skipulagsstofnun að leyfi sé ekki í samræmi við forsendur og niðurstöðu ákvörðunar um matsskyldu og því heimilt að kæra leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála."

Þá segir í umsögn stofnunarinnar:

"Skipulagsstofnun telur að þar sem umhverfisáhrif borunar tilraunaholu við Trölladyngju liggja ljós fyrir og þar sem að með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins sé unnt að tryggja að framkvæmdin hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 og reglugerð nr. 671/2000. Stofnunin telur einnig að aðkoma Náttúruverndar ríkisins og áhrif á fyrirkomulag framkvæmdar eigi að vera tryggð með þeim hætti sem að framan er rakið. Því telur Skipulagsstofnun að ekki beri að verða við kröfum Náttúruverndar ríkisins um að fram fari mat á umhverfisáhrifum borunar tilraunaholu við Trölladyngju."

Í umsögn Hitaveitu Suðurnesja segir um fyrirhugaða lagningu vegar vegna framkvæmdanna.

"Í bréfi Náttúruverndar ríkisins kemur fram að leggja eigi nýjan, 500 m langan veg innan náttúruverndarsvæðis og þar af um 100 m á óröskuðu hrauni, sem runnið hefur á nútíma. Við viljum benda á að stærstur hluti þessa vegar verður lagður í troðning, sem nú markar ljótt spor í landið og sem liggur meðfram Trölladyngju (sjá meðfylgjandi mynd af svæðinu og meðfylgjandi greinargerð). Það eru því aðeins síðustu 100 m, sem hægt er að líta á sem nýjan veg."

Hitaveita Suðurnesja vísar til sérfræðinga Orkustofnunar varðandi mat á sérstöðu einstakra hraunspilda og landslagsgerða. Í umsögninni segir:

"...Að þeirra sögn er ekkert sérstakt jarðfræðilegt fyrirbæri á þessum stað, sem kallar á sérstaka umgengni. Í 37. gr. náttúruverndarlaganna er talað um að forðast skuli röskun sérstakra landslagsgerða eins og kostur er. Þetta er nákvæmlega það sem við teljum okkur vera að gera með tillögu að staðsetningu borplansins í hraunjaðrinum. Við teljum því, að framkvæmdin stangist á engan hátt við 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, sem er í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar."

Varðandi fyrirhugaða efnistöku úr Eldborginni segir:

"Í tengslum við athugasemd starfsmanna Náttúruverndar ríkisins varðandi efnistöku í Eldborginni og það mat að ekki megi taka efni úr henni nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum viljum við benda á eftirfarandi atriði. Gert er ráð fyrir að taka um 1100 m3 af efni, sem nota á í yfirborð vegslóðans og borplansins. Samkvæmt athugun Verkfræðistofu Suðurnesja á efnismagni í Eldborginni er um 36.000 m3 af efni í henni. Mjög ljót sár eru í hlíðum Eldborgarinnar vegna gamalla náma og slæmrar umgengni. Þar sem efnismagn það, sem fyrirhugað er að vinna úr námunni er mjög lítið eða aðeins um 1/36 hluti þess efnis, sem í Eldborginni er að finna er það mat okkar að krafa um undangengið mat á umhverfisáhrifum sé með öllu órökstudd. Alltaf hefur staðið til að nýta efni úr Eldborginni í fullu samráði við viðkomandi yfirvöld og ættu hagsmunir framkvæmdaraðila og náttúruverndar að fara saman í þessu máli. Einnig viljum við benda á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, fellur þessi efnistaka ekki undir framkvæmd í viðauka tvö þar sem umfang hennar er undir viðmiðunarmörkum og ekki staðsett á verndarsvæði samkvæmt þriðja viðauka laganna."

Framangreindar umsagnir voru sendar til kæranda til athugasemda með bréfi ráðuneytisins dagsettu 7. nóvember 2000. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 27. nóvember 2000.

Í athugasemdum kæranda segir varðandi samvinnu framkvæmdaraðila, sveitastjórna og Náttúruverndar ríkisins:

"Náttúruvernd ríkisins telur að samvinna ofangreindra aðila myndi miða að því að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið en slík samvinna sé hins vegar engin trygging fyrir því að framkvæmdin hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eins og gengið er út frá í niðurstöðu við ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Þá bendir Náttúruvernd ríkisins á að ekki er hægt at tryggja að framkvæmdaraðili eða sveitarstjórn taki tillit til ábendinga stofnunarinnar eða reyni að ná samkomulagi um fyrirkomulag framkvæmda. Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum sé tekið fram að við leyfisveitingar skuli taka tillit til úrskurða Skipulagsstofnunar. Samkvæmt 16. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og skal leyfisveitandi taka tillit til hans. Samkvæmt 28. gr. reglugerðar nr. 671/2000 er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmdum sem falla undir 1. og 2. viðauka við reglugerðina fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum skv. 24. gr. og/eða ákvörðun skv. IV. kafla liggur fyrir. Við leyfisveitingar skal taka tillit til úrskurðar Skipulagsstofnunar. Náttúruvernd ríkisins fær ekki betur séð en að hér sé fyrst og fremst verið að vísa til úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Þessi ákvæði gildi ekki um niðurstöðu ákvörðunar um það hvort tiltekin framkvæmd sé matsskyld eða ekki."

Þá segir kærandi um lagningu fyrirhugaðs vegar vegna framkvæmdanna:

"Náttúruvernd ríkisins bendir á að vegna framkvæmdarinnar þarf að bera í um það bil 2 km langa slóð sem liggur meðfram hlíðum Trölladyngju. Því til viðbótar þarf að leggja um 500 m langan veg um óraskað land, þar af um 100 m yfir óraskað hraun. Það er því ekki einungis 100 m kafli "sem hægt er að líta á sem nýja veg" eins og haldið er fram í umsögn Hitaveitu Suðurnesja..."

Varðandi umsögn Hitaveitu Suðurnesja um mat á sérstöðu einstakra hraunspilda og landslagsgerðar segir:

"Samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd skulu ákveðnar landslagsgerðir njóta verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Meðal þessara landslagsgerða eru eldvörp, gervigígar og eldhraun. Því er ljóst, eins og Náttúruvernd ríkisins hefur bent á, að framkvæmdin mun hafa áhrif á og raska svæði sem er á náttúruminjaskrá (náttúruverndarsvæði), sem og landslagsgerð sem njóta skal verndar skv. lögum um náttúruvernd. Fyrirhuguð framkvæmd er því innan svæðis þar sem er að finna jarðfræðifyrirbæri sem samkvæmt lögum um náttúruvernd teljast sérstök og skulu njóta sérstakrar verndar samkvæmt þeim. Það er því ekki rétt sem fram kemur í umsögn Hitaveitu Suðurnesja að "ekkert sérstakt jarðfræðilegt fyrirbæri sé á þessum stað, sem kalli á sérstaka umgengni"..."

Um fyrirhugaða efnistöku úr Eldborginni segir:

"...Náttúruvernd ríkisins telur mikilvægt að meta umhverfisáhrif efnistöku í Eldborg áður en ákvörðun er tekin um það hvort slík efnistaka sé yfir höfuð ásættanleg. Skiptir þar ekki máli hversu mikið efni verður tekið (sic) Eldborginni eða hversu hátt hlutfall af heildarefnismagni í gígnum. Stofnunin bendir á að Eldborgin fellur undir verndarsvæði skv. skilgreiningu í viðauka 3 við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum þar sem hún er landslagsgerð sem njóta skal sérstakrar verndar, sbr. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Samkvæmt viðauka 2 við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er efnistaka á verndarsvæðum framkvæmd sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skal meta í hverju tilviki hvort hún skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Efnistaka í gígum getur því verið háð mati á umhverfisáhrifum þó hún sé undir viðmiðunarmörkum í viðaukum 1 og 2 við fyrrgreind lög..."

Starfsmenn ráðuneytisins fóru í vettvangskönnun þann 5. desember 2000 þar sem fyrirhugað framkvæmdasvæði Hitaveitu Suðurnesja var skoðað. Frá framkvæmdaraðila voru mættir þeir Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnejsa og Guðjón Jónsson, VSÓ ráðgjöf.

IV. Niðurstaða.

Í kæru kemur fram að brýnt sé að mörkuð verði stefna um það hvaða svæði sé ásættanlegt að nýta og hvaða svæði eigi að vernda vegna orkuvinnslu. Telur kærandi að ekki sé ásættanlegt að öllum svæðunum verði raskað með rannsóknaborunum áður en stefnumörkun um slíkt liggur fyrir. Ráðuneytið vill vegna þessarar athugasemdar benda á að ákvörðun um matskyldu framkvæmdar ber ekki að meta með hliðsjón af því hver stefna stjórnvalda er um nýtingu jarðhitasvæða.

Í kæru kemur fram að skoða verði aðra kosti varðandi staðsetningu borholu. Sú ákvörðun Skipulagsstofnunar sem ráðuneytið hefur hér til meðferðar varðar borun rannsóknarholu við Trölladyngju, sbr. kort sem lagt var fram með greinargerð framkvæmdaraðila. Úrskurður ráðherra vegna kæru á grundvelli ákvörðunar skv. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhifum lýtur að því hvort sú framkvæmd sem fyrirhuguð er og lýst er í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé matskyld eða ekki. Í úrskurði um matskyldu er því ekki heimilt að meta umhverfisáhrif annarar staðsetningar á framkvæmd en lýst er í ákvörðun Skipulagsstofnunar. Af þeim sökum er það mat ráðuneytisins að ekki séu forsendur til að leggja mat á aðra kosti varðandi staðsetningu borholu.

Kærandi telur að ekki sé hægt að fallast á efnistöku úr gígnum Eldborg eins og ráðgert er nema metin verði umhverfisáhrif efnistökunnar. Eins og fram kemur í ákvörðun Skipulagsstofnunar er áætlað að sækja efni í vegagerð og borplan að hluta í Eldborg en gígnum hefur verið verulega spillt með efnistöku. Framkvæmdaraðili tilkynnti um fyrirhugaða efnistöku úr Eldborg með greinargerð sinni um framkvæmdina enda er efnistakan þar hluti af fyrirhugaðri framkvæmd. Að mati ráðuneytisins hefur því með ákvörðun Skipulagsstofnunar verið tekin afstaða til matskyldu Eldborgarinnar. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hægt sé að fallast á efnistöku um leið og sár eftir fyrri efnistöku yrðu snyrt. Framkvæmdaraðili hefur lýst því yfir að fyrirhugað sé að bæta frágang efnistökusvæðisins samhliða framkvæmdunum. Kærandi telur að framkvæmdaraðila beri að leggja fram upplýsingar um efnisþörf og tillögur um verklag og frágang. Skv. 48. og 49. gr. náttúruverndaralaga eru gerður kröfur til þess að gerð sé grein fyrir efnistöku með áætlun og gerð sé grein fyrir frágangi efnistökunnar. Að mati ráðuneytisins er því er tryggt að frá þessu verði gengið með viðhlítandi hætti.

Kærandi vísar til 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 og telur að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa áhrif á og raska svæði sem er á náttúruminjaskrá sem og landslagsgerð sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga er eldhraun landslagsgerð sem nýtur sérstakrar verndar og skal forðast röskun þess eins og kostur er. Eins og fram kemur á síðu 4 í ákvörðun Skipulagsstofnunar er fyrirhugað að leggja 500 langan veg yfir óraskað land vegna framkvæmdanna og þar af fara 100 metrar af þeim vegi yfir hraun. Auk þess fara 80x100 metrar að flatarmáli hraunsins undir fyrirhugað borplan. Í ákvörðun skipulagsstofnunar á síðu 4 segir: "...Að mati Skipulagsstofnunar er ekki sýnt fram á að framkvæmdin sem slík hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, svo sem vegna umfangs röskunar hraunsins, sérstöðu hraunsins, eða óvissu um áhrif vegna skorts á gögnum er meta þurfi..." Þá segir á síðu 4-5: "Að mati Skipulagsstofnunar er ljóst hvaða umhverfisáhrif þessi framkvæmd hefur og að hún er nauðsynlegur liður í rannsóknum og undirbúningi hugsanlegra frekari framkvæmda sem kunna að verða matskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum..."

Við ákvörðun um matskyldu ber að fara eftir þeim viðmiðunum sem fram koma í 3. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Að mati ráðuneytisins eru það töluliðir 1.i., 2.iii.a), 3.i. sem koma einkum til álita við ákvörðun um matskyldu framkvæmdarinnar. Helstu umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdarinnar er að hraun sem nýtur verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga fer undir hluta af vegi og borplan. Meginhluti vegarins fer hins vegar eftir vegslóð sem nú þegar er fyrir hendi. Jafnframt er fyrirhuguð efnistaka úr gígnum Eldborg. Ráðuneytið tekur undir það sem fram kemur í ákvörðun Skipulagsstofnunar að umfang þess hrauns sem raskast við framkvæmdina er ekki mikið og ekki er óvissa um hver umhverfisáhrif hennar eru. Að mati ráðuneytisins liggja því fyrir allar helstu upplýsingar um framkvæmdina þannig að hægt er að taka ákvörðun um hvort umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu umtalsverð eða ekki, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Með vísan til umfangs þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir og umfangs þess svæðis sem verður fyrir áhrifum vegna framkvæmdarinnar og þess að um er að ræða framkvæmd sem er nauðsynlegur liður í rannsóknum vegna hugsanlegrar jarðhitanýtingar við Trölladyngju er það mat ráðuneytisins að ekki skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar borun rannsóknarholu í Trölladyngju.

Kærandi telur að ekki sé hægt að tryggja að með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitastjórna og Náttúruverndar ríkisins að framkvæmdin hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér eins og fram kemur í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Í umsögn Skipulagsstofnunar segir um þetta atriði: "...Eins og áður segir er það forsenda niðurstöðu Skipulagsstofnunar í hinu kærða tilviki að með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórnar og Náttúruverndar ríkisins sé hægt að tryggja að framkvæmdin komi ekki til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif i för með sér. Framangreindir aðilar komist að sameiginlegri niðurstöðu um fyrirkomulag framkvæmda, sem tryggi að umhverfisáhrif séu ekki umtalsverð. Verði fyrirkomulag framkvæmda samkvæmt útgefnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar í andstöðu við vilja Náttúruverndar ríkisins telur Skipulagsstofnun að leyfi sé ekki í samræmi við forsendur og niðurstöðu ákvörðunar um matsskyldu og því heimilt að kæra leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála..."

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar á síðu 5 segir að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki "..umtalsverð umhverfisáhrif. Staðsetning framkvæmdarinnar hefur áhrif á svæði sem nýtur verndar skv. lögum um náttúruvernd en umhverfisáhrif eru ljós og að mati Skipulagsstofnunar ekki veruleg og leiða því ekki til matskyldu..." Síðan segir í beinu framhaldi: "Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins..." Ráðuneytið telur að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar komi fram að framkvæmdin hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif óháð því hvort um samvinnu framangreindra aðila verður að ræða. Hins vegar verður að líta á síðari tilvitnunina sem rakin er hér að framan sem ákveðið skilyrði fyrir framkvæmdinni. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matskyldu framkvæmdar ber að taka ákvörðun um hvort framkvæmd sé matskyld eða ekki, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Í slíkri ákvörðun er ekki heimild lögum samkvæmt að skilyrða framkvæmdina eins og hér hefur verið gert. Ekki eru heldur lagalegar heimildir fyrir því að gera kröfu til þess að opinberir aðilar komi sér saman um fyrirfram ákveðna niðurstöðu og eins gert er ráð fyrir í umsögn Skipulagsstofnunar. Ráðuneytið getur samkvæmt framansögðu því ekki fallist á það sem fram kemur í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar um samvinnu framangreindra aðila. Ráðuneytið tekur hins vegar undir það með Skipulagsstofnun að framkvæmdaraðili, viðkomandi sveitarstjórnir og Náttúruvernd ríkisins hafi samvinnu um framkvæmdina enda myndi það leiða til þess að dregið yrði úr umhverfisáhrifum hennar.

Samráð um framkvæmdina er tryggt í náttúruverndarlögum en Náttúruvernd ríkisins hefur lögbundinn umsagnarrétt vegna þeirra framkvæmda sem hér um ræðir. Þannig skal leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins áður en veitt er framkvæmdaleyfi til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun landslagsgerða eins og hér um ræðir, sbr. 2. mgr. 37. gr. náttúruverndarlaga. Jafnframt skal leita umsagnar og tilkynna Náttúruvernd ríkisins um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt verði náttúruminjum á náttúruminjaskrá, sbr. 1. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en fyrirhugað framkvæmdasvæði er á svæði sem er á náttúruminjaskrá. Það er viðkomandi sveitastjórn sem gefur út framkvæmdaleyfi og tekur því endanlega ákvörðun um framkvæmdina á grundvelli umsagna sem henni berast. Skylda leyfisveitanda vegna útgáfu framkvæmdaleyfis lýtur að því að óska eftir umsögn Náttúruverndar ríkisins og að virða niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið í þessum kafla fellst ráðuneytið ekki á kröfu kæranda um að fram skuli fara mat á umhverfisáhrifum borun rannsóknarholu við Trölladyngju. Ráðuneytið telur hins vegar að ekki sé hægt að skilyrða framkvæmdina með þeim hætti sem að framan er rakið.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. október 2000 um að borun rannsóknarholu Hitaveitu Suðurnesja við Trölladyngju skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skal óbreytt standa með þeirri breytingu að eftirfarandi setning á síðu 5 í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar fellur brott: "Að mati Skipulagsstofnunar er hægt að tryggja að framkvæmdin, eins og hún er kynnt, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með samvinnu framkvæmdaraðila, sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins skv. lögum um náttúruvernd."


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta