Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 27/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 30. desember 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna eftirlits með heimili hennar, nr. 27/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með tölvubréfi 12. nóvember 2015 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 29. september 2015, vegna óboðaðs eftirlits með heimili kæranda, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði var ákveðið að óboðað eftirlit skuli haft með heimili kæranda og dætra hennar í sex mánuði. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Óboðað eftirlit skal haft með heimili A og dætra hennar, D og E í sex mánuði.

Með kærunni er litið svo á að kærandi krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en kærandi telur að hún hafi ekki sýnt af sér hegðun sem gefi tilefni til eftirlits sem ákveðið var með úrskurðinum.

Af hálfu barnaverndarnefndar B er vísað til þess að nauðsynlegt hafi verið talið, með tilliti til hagsmuna stúlknanna, að óboðað eftirlit yrði haft með heimili þeirra í sex mánuði til að ganga mætti úr skugga um það hvort grunur um fíkniefnaneyslu á heimilinu væri á rökum reistur.

I. Málavextir

Foreldrar og forsjáraðilar D og E eru kærandi og F, og búa þær á heimili kæranda. Mál systranna kom fyrst til kasta barnaverndarnefndar B 5. október 2011 þegar tilkynning barst frá föður þeirra um að tíð „fíkniefnapartý“ væru á heimili kæranda og færu systurnar því mikið í pössun hjá öðrum. Á heimilinu bjó einnig kærasti kæranda, G.

Aftur var tilkynnt til barnaverndarnefndar B 27. apríl 2012. Tilkynnt var undir nafnleynd og vildi tilkynnandi koma því á framfæri að dætur kæranda kæmu oft að læstum dyrum heima hjá sér og þyrftu að bíða fyrir utan eftir því að kærandi vaknaði eða að hún kæmi heim. Þá kom fram að mikið væri um samkvæmishald á heimilinu og ónæði af þeim sökum, þar sem samkvæmin stæðu stundum heila helgi.

Þriðja tilkynning um aðstæður systranna barst barnaverndarnefnd B 28. maí 2013. Tilkynnandi kvaðst hafa séð tæki og tól til fíkniefnaneyslu á heimili kæranda og einnig hafi hann séð hana undir áhrifum að degi til í miðri viku. Í kjölfarið óskuðu starfsmenn baranverndarnefndar B eftir því að kærandi undirgengist fíkniefnapróf en hún neitaði því. Samkvæmt því, sem kemur fram í hinum kærða úrskurði, kom í ljós við könnun málsins að kærandi virtist eiga erfitt með að vakna á morgnana og sinna dætrum sínum og einnig að aðstoða þær við námið og að systurnar hefðu verið hjá móðurforeldrum sínum meira og minna í tvö til þrjú ár. Umsagnir skóla gáfu m.a. til kynna að heimanámi væri ekki sinnt sem skyldi, oft vantaði bækur og gögn og erfitt væri að ná í kæranda.

Í ágústlok 2013 bárust barnaverndarnefnd B tvær tilkynningar um „skuggalegan félagsskap“ sem kærandi væri í, mikið samkvæmislíf á heimili hennar og almenna vanrækslu á dætrunum þegar þær væru hjá henni og að hún væri annars hugar og utangátta þegar rætt væri við hana.

Úrskurður var kveðinn upp í máli systranna 26. nóvember 2013 um að þær skyldu vistaðar utan heimilis kæranda í tvo mánuði á meðan gengið yrði úr skugga um hvort grunur um fíkniefnaneyslu hennar væri á rökum reistur og á meðan niðurstaða lægi ekki fyrir í máli sambýlismanns kæranda hjá Ríkissaksóknara er varðaði ásakanir sem bornar voru á hann um kynferðisbrot gegn barni. Tveimur mánuðum eftir að úrskurður var kveðinn upp náðist samkomulag um vinnslu málsins milli kæranda og barnaverndarnefndar B og fóru systurnar aftur á heimili kæranda. Var þá gerð meðferðaráætlun til þriggja mánaða þar sem m.a. var kveðið á um óboðað eftirlit á heimili fjölskyldunnar, tilsjón og að móðir gengist undir fíkniefnapróf þegar þess yrði óskað. Að þessum tíma loknum þótti ástæða til að fylgjast með heimilinu áfram og var fyrirhugað að gera meðferðaráætlun til sex mánaða til viðbótar og meta aðstæður að því loknu, en kærandi neitaði að samþykkja þá áætlun. Einungis náðist samkomulag um að systurnar yrðu áfram í listmeðferð og var gerð meðferðaráætlun þar um til fjögurra mánaða.

Tilkynning barst til barnaverndarnefndar B í janúar 2015 þar sem fram kom að A væri sofandi til klukkan 16-17 á daginn og á meðan væru systurnar úti með skólatöskurnar á bakinu, E væri vannærð og systurnar gengju báðar sjálfala. Samkvæmt upplýsingum frá skóla systranna í febrúar 2015 voru þær oft tilkynntar veikar og hafði heldur dregið úr heimanámsskilum frá því fyrr um veturinn. Fram kom að starfsfólk hefði áhyggjur af aðbúnaði systranna.

Önnur tilkynning barst barnaverndarnefnd B 19. júní 2015 frá starfsmanni heimaþjónustu B sem kom á heimili kæranda að morgni til. Sagði tilkynnandi að aðstæður á heimilinu hefðu verið mjög slæmar, dýr laus í íbúðinni og skítur eftir þau á gólfinu. Sambýlismaður kæranda hefði verið í annarlegu ástandi. Fram kom að kannabislykt hefði verið í loftinu og hefði lyktin aukist þegar sambýlisfólkið hefði farið afsíðis inn í svefnherbergi og lokað að sér.

Starfsmenn barnaverndarnefndar B fóru á heimilið um hádegisbilið sama dag. Lögregla var kölluð á staðinn. Samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins hafi sterk kannabislykt verið í svefnherbergi kæranda og sambýlismanns hennar og daufari lykt hafi verið annars staðar í íbúðinni. Á heimilinu fundust reyktar „jónur“ og dós með kannabisefnum sem sambýlismaður kæranda kvaðst eiga. Óskað var eftir því að þau færu í fíkniefnapróf á Heilsugæslunni H en þau neituðu því bæði.

Í viðtali við starfsmenn barnaverndarnefndar B 2. júlí 2015 sagði kærandi að hún og sambýlismaður hennar byggju ekki lengur saman en væru góðir vinir og „bólfélagar“. Við þetta tækifæri neitaði kærandi að undirrita meðferðaráætlun þar sem tiltekið var að óboðað eftirlit skyldi vera með heimilinu, tilsjón og eiturefnaprufur. Á meðferðarfundi Barnaverndar B 3. júlí 2015 var samþykkt að leggja málið fyrir barnaverndarnefnd B með tillögum um að kærandi undirgengist blóðprufur við upphaf og lok meðferðaráætlunar, þvagprufur þegar þess væri óskað ásamt óboðuðu eftirliti og aukinni heimaþjónustu. Stafsmaður barnaverndarnefndarinnar ræddi við kæranda 18. ágúst 2015 en fram kemur að hún hefði sagt að hún ætlaði sér ekki að undirrita meðferðaráætlun.

Tilkynning undir nafnleynd barst barnaverndarnefnd B 20. ágúst 2015 þar sem kom fram að sambýlismaður kæranda hefði hótað fólki í hverfinu líkamsmeiðingum og að allir væru hræddir við hann. Grunaði tilkynnanda sterklega að þau sambýlisfólkið væru í neyslu fíkniefna.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 15. september 2015. Kærandi mætti á fundinn ásamt lögmanni sínum og mótmælti tillögum, sem settar voru fram á fundinum, þess efnis að hún skrifaði undir meðferðaráætlun þar sem fram kom að hún samþykkti óboðað eftirlit inn á heimilið, færi í blóðprufu í byrjun og undir lok meðferðaráætlunar og gengist undir eiturefnaprufur á Heilsugæslunni H þegar starfsmenn barnaverndarnefndarinnar óskuðu þess. Þó kvaðst kærandi vera tilbúin til að fara í eina blóðprufu til að sanna að hún væri ekki í neyslu fíkniefna. Barnaverndarnefnd B samþykkti bókun þess efnis að samþykkti kærandi ekki tillögu nefndarinnar yrði málið tekið til úrskurðar varðandi óboðað eftirlit.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B29. september 2015. Fyrir fundinum lá bókun nefndarinnar frá 15. september 2015 þar sem samþykkt var að gerð yrði meðferðaráætlun í samræmi við áðurnefndar tillögur starfsmanna barnaverndarnefndar B. Þar sem afstaða kæranda var skýr varðandi óboðað eftirlit, sem hún hafnaði, var málið tekið til úrskurðar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. bvl. og úrskurður kveðinn upp sama dag.

II. Afstaða kæranda

Í kæru segir að rök kæranda fyrir því að kæra úrskurð barnaverndarnefndar B um að hafa óboðað eftirlit með heimili kæranda séu þau að kærandi hafi ekki sýnt af sér hegðun sem gefi tilefni til slíks eftirlits. Í greinargerð lögmanns kæranda 15. september 2015, sem lögð var fyrir barnaverndarnefndina sama dag, er mótmælt tillögum í greinargerð starfsmanns nefndarinnar. Kærandi telur að um tilefnislaus afskipti sé að ræða sem byggist á röngum forsendum vegna rangra upplýsinga sem starfsmennirnir hafi fengið, auk þess sem ekki hafi verið aflað ítarlegra og réttra upplýsinga um annað. Kærandi sé þó reiðubúin að fara í eina blóðprufu til að sanna að hún hafi ekki verið í neyslu fíkniefna, en það sem borið sé á hana í þeim efnum sé rangt. Kærandi neiti því alfarið að vera í sambúð með G, auk þess sem hún mótmæli því að hann sé kynferðisbrotamaður en það hafi barnsmóðir hans borið upp á hann þegar hún hafi átt í forsjárdeilu við hann. Það mál hafi verið fellt niður og mæltist kærandi til þess að slíkur ósannur áburður yrði tekinn úr gögnum málsins. Þegar starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi komið á heimilið og hitt G hafi hann fengið flogaveikiskast og hafi vegna þess verið í „annarlegu ástandi“. Ekki sé unnt að skrifa það á fíkniefnaneyslu án nokkurrar sýnarannsóknar. Þá telur kærandi einnig ljóst að faðir stúlknanna hefði borið barnaverndarstarfsmönnum ýmsar rangar upplýsingar. Önnur stúlkan glími við veikindi og sé ekki unnt að halda því fram að þar sé um vanrækslu kæranda að ræða. 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð barnaverndarnefndar B 2. nóvember 2015, sem bárust kærunefnd barnaverndarmála með tölvupósti 18. nóvember 2015, kemur fram að lögregla hafi hætt rannsókn máls á hendur sambýlismanns kæranda vegna kæru um „kynferðislegt áreiti“ [sic]. Þá fylgdu með athugasemdunum læknisvottorð vegna veikinda dætra kæranda og sambýlismanns hennar.

Kærandi geti ekki sætt sig við úrskurð um óboðað eftirlit því að máli hennar hafi áður verið lokið með dómi og hún hafi alltaf verið samvinnuþýð og þolað óboðað og boðað eftirlit og farið í blóð- og þvagprufur eins og óskað hafi verið eftir án þess að nokkuð hafi komið í ljós.

III. Afstaða barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B 2. nóvember 2015 kemur fram að kærandi sé móðir tveggja stúlkna, D og E, og fari hún með forsjá þeirra ásamt föður þeirra sem sé búsettur erlendis. Mál systranna hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd B frá 5. október 2011 og hafi nefndinni borist allmargar tilkynningar meðal annars vegna gruns um fíkniefnaneyslu kæranda og sambýlismanns hennar, G, dæturnar væru vanræktar og illa hirtar, heimanámi þeirra væri ekki sinnt, þær væru oft tilkynntar veikar í skólanum, þær gangi sjálfala, þurfi oft að bíða úti þar til kærandi vakni eða komi heim o.fl. Kærandi sé öryrki og þjáist af sykursýki, þunglyndi, kvíða og liðagigt auk þess sem hún sé með skjaldkirtilssjúkdóm og ónýtt bak. Hún hafi alfarið neitað því að hún eða sambýlismaður hennar eigi við fíkniefnavanda að etja. Meðferðaráætlanir hafi verið gerðar með kæranda þar sem m.a. hafi verið kveðið á um tilsjón með heimili, óboðað eftirlit, heimaþjónustu, sálfræðimeðferð fyrir kæranda, listmeðferð fyrir systurnar, fíkniefnaprufur o.fl. Í nóvember 2013 hafi barnaverndarnefndin kveðið upp úrskurð um vistun systranna utan heimilis í tvo mánuði á meðan gengið yrði úr skugga um hvort grunur um fíkniefnaneyslu kæranda væri á rökum reistur. Fylgst hafi verið með heimili kæranda eftir að systurnar komu aftur heim, óboðað eftirlit hafi verið með heimilinu og kærandi og sambýlismaður hafi gengist undir fíkniefnapróf þegar þess hafi verið óskað. Haustið 2014 hafi starsfmenn barnaverndarnefndarinnar gert enn að nýju tillögu að meðferðaráætlun sem átt hafi að gilda í sex mánuði, en kærandi hafi ekki fengist til að samþykkja þá áætlun.

Í júní 2015 hafi starfsmenn heimaþjónustu verið á heimili kæranda að morgni til. Starfsmennirnir hafi haft samband við barnaverndarnefndina þar sem þeim hafi þótt aðstæður á heimilinu með þeim hætti að ástæða væri til að hafa af þeim áhyggjur. Sambýlismaður kæranda hafi að sögn starfsmanna heimaþjónustunnar verið í annarlegu ástandi og talað um að eitthvað kæmi út úr sjónvarpinu. Að hans sögn hafi hann tekið svefntöflur um morguninn sem væri skýringin á hegðun hans. Megn kannabislykt hafi verið í íbúðinni, aðallega í svefnherbergi þeirra sambýlinga. Starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi farið á heimilið um hádegisbilið sama dag ásamt lögreglu. Sambýlismaður kæranda hefði þá verið rúmliggjandi í svefnherberginu og hafi sterk kannabislykt fundist þar inni en daufari annars staðar í íbúðinni. Þrjár reyktar „jónur“ hafi verið í gluggakistu og hafi sambýlismaðurinn sagt að vinkona hans hefði komið í heimsókn um nóttina og þau hafi reykt kannabis úti. Hann hafi auk þess reykt við gluggann í svefnherberginu eftir að hún hefði verið farin. Þá hafi fundist kannabis í dós í svefnherberginu. Kærandi hafi sagst ekki hafa reykt með þeim, en stubbarnir sem fundust hafi verið þrír. Farið hafi verið fram á að kærandi og sambýlismaður hennar myndu gangast undir fíkniefnapróf á heilsugæslu en þau hafi ekki fallist á það. Síðar hafi þau dregið framburð sinn til baka, kveðið sambýlismanninn vera flogaveikan og hafi það verið skýringin á hegðun hans um morguninn og þess vegna hefði hann játað á sig að hafa neytt kannabis sem hann hefði þó ekki gert.

Hafi nú verið gerð tillaga að meðferðaráætlun þar sem m.a. hafi verið gerð krafa um að kærandi undirgengist blóðprufur við upphaf og lok meðferðartímans, færi í þvagprufur þegar þess væri óskað og að hún samþykkti óboðað eftirlit með heimili sínu. Hafi kærandi neitað að undirrita meðferðaráætlun og sagt að hún og sambýlismaður hennar byggju ekki lengur saman en væru þó ennþá par.

Þar sem kærandi hafi ekki verið til samvinnu um aðgerðir hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefnd B. Komi fram í greinargerð, sem kærandi hafi lagt fram á fundinum, að ástæða væri til að ætla að áframhaldandi afskipti barnaverndarnefndar myndu raska þeim stöðugleika sem nú ríkti í lífi systranna og væru íþyngjandi fyrir þær. Hún hafi kvaðst vera tilbúin til að fara í eina eiturefnaprufu, en að öðru leyti gæti barnaverndarnefnd fylgst með systrunum í gegnum skóla þeirra, það væri vægara úrræði og myndi ekki valda henni kvíðaröskun.

Samkvæmt hinum kærða úrskurði hafi verið kveðið á um óboðað eftirlit sem skyldi haft með heimili mæðgnanna. Að áliti barnaverndarnefndar B bendi margt til þess að aðbúnaði systranna sé í ýmsu áfátt og telur nefndin rökstuddan grun fyrir hendi um að fíkniefnaneysla viðgangist á heimilinu. Lögregla og starfsmenn barnaverndarnefndarinnar ásamt starfsmönnum heimaþjónustu hafi borið því við að mikil kannabislykt hafi fundist á heimilinu, auk þess sem fyrrum sambýlismaður kæranda hafi viðurkennt neyslu og kannabis hafi fundist á heimili þeirra. Barnaverndarnefnd hafi þótt framburður þeirra síðar, þess efnis að fyrrum sambýlismaður kæranda hefði játað á sig neyslu að ósekju þar sem hann hafi verið flogaveikur, ekki sannfærandi og hafi parið alfarið neitað að gangast undir fíkniefnapróf til að afsanna grun um að þau neyttu fíkniefna. Með hliðsjón af öllu þessu hafi barnaverndarnefndin ekki getað fallist á kröfu kæranda um að fullnægjandi væri að fylgjast með aðbúnaði systranna í gegnum skóla og hafi talið nauðsynlegt með tilliti til hagsmuna systranna að óboðað eftirlit yrði haft með heimili þeirra í sex mánuði til að ganga mætti úr skugga um það hvort grunur um fíkniefnaneyslu á heimilinu væri á rökum reistur og því hafi verið kveðinn upp hinn kærði úrskurður.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar úrskurð barnaverndarnefndar B um óboðað eftirlit með heimili kæranda og dætra hennar 29. september 2015 í sex mánuði, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. bvl. Í 1. mgr. lagagreinarinnar eru talin upp sérstök úrræði sem barnaverndarnefnd getur beitt með úrskurði, án samþykkis foreldra, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Samkvæmt a-lið lagaákvæðisins getur barnaverndar­nefndin við þessar aðstæður kveðið á um eftirlit með heimili. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar skulu ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. hennar ávallt vera tímabundnar og standa eigi lengur en þörf krefur hverju sinni og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Samkvæmt 24. og 25. gr. laganna er heimilt að beita úrræðum sem þar eru talin með samþykki foreldra eða í ákveðnum tilvikum með samþykki foreldra og barns.

Hér að framan eru rakin afskipti barnaverndarnefndar og starfsmanna hennar af kæranda frá árinu 2011 vegna meintrar alvarlegrar vanrækslu á umhirðu og umönnun dætra kæranda. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi að eigin sögn glímt við ýmsan heilsufarsvanda en hún sé öryrki með ónýtt bak, sykursýki, skjaldkirtilsskjúkdóm og liðagigt. Þá hefur komið fram að hún hafi í desember 2011 og janúar 2012 leitað til geðdeildar vegna þunglyndis og kvíða.

Samkvæmt því, sem fram kemur í gögnum málsins, var starfsmönnum barnaverndar­nefndarinnar tilkynnt um aðstæður á heimili kæranda 19. júní 2015 og að grunur væri um fíkniefnaneyslu á heimilinu. Lögreglan var kölluð á staðinn sem fann þar kannabis og daufa kannabislykt í íbúðinni en sterka í svefnherbergi. Í greinargerð félagsráðgjafa, sem lögð var fyrir barnaverndarnefndina 15. september 2015, kemur fram að kærandi og sambýlismaður hennar hafi vegna þessa verið beðin um að fara á heilsugæsluna með starfsmönnum barnaverndarnefndarinnar í blóðprufu en þau hafi neitað því.

 Í sömu greinargerð félagsráðgjafa er greint frá ítrekuðum tilraunum starfsmanna barna­verndar­­nefndarinnar til að fá kæranda til að samþykkja áætlanir um meðferð málsins. Lutu þær að óboðuðu eftirliti með heimilinu, fíkniefnaprófum og stuðningi. Þessar tilraunir báru ekki árangur þar sem kærandi neitaði að samþykkja þær.

Kærandi heldur því fram að hún hafi aldrei neitað samvinnu. Henni og dætrum hennar finnist hins vegar mjög óþægilegt að fá óboðaðar heimsóknir. Hún vilji að þeir sem komi hringi á undan sér og sé það mikið til komið vegna vaxandi kvíðaröskunar, sem hafi magnast upp eftir að barnsfaðir hennar hafi sent tilhæfulausa tilkynningu til barnaverndarnefndarinnar árið X. Fleiri tilkynningar hafi allar sýnt að um rógburð og ósannindi væri að ræða. Öllum fyrri málum hafi verið lokað að undangenginni rannsókn barnaverndarnefndar. Barnaverndar­nefndin hafi það úrræði að geta fylgst með stúlkunum í gegnum skóla. Skylt sé að beita vægara úrræði áður en úrræði án samþykkis sé beitt eða að sýnt þyki að vægara úrræði muni ekki duga. Það sé ekki rétt að kærandi hafi ekki viljað skrifa undir meðferðaráætlun. Hún hafi mætt á alla boðaða fundi, svarað öllum símhringingum, verið kurteis og samstarfsfús. Þá hafi niðurstaða allra fíkniefnaprufa staðfest að hvorki hún né kærasti hennar hafi verið í neyslu ólöglegra vímuefna. Með úrskurði og niðurstöðu héraðsdóms hafi verið staðfest að kærandi neyti ekki ólöglegra fíkniefna og engin vanræksla á dætrum hennar verið sönnuð. Gerð hafi verið sátt í málinu. Kærandi hafi fullsannað edrúmennsku, meðal annars með blóð- og þvagprufum svo og boðuðu og óboðuðu eftirliti síðastliðin tvö ár.

Í málinu liggur fyrir að nauðsynlegt var af hálfu barnaverndarnefndarinnar að fylgjast með velferð og öryggi stúlknanna. Það var gert meðal annars með því að veita kæranda og stúlkunum stuðning og beita þeim úrræðum samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga eins og að framan er lýst. Þá liggur einnig fyrir að barnaverndarnefnd hefur leitast við að komast að samkomulagi við kæranda um meðferðaráætlanir og boðun í fíkniefnapróf, en kærandi hefur ekki sinnt samstarfi. Úrræði hafa því verið reynd samkvæmt 24. og 25. gr. bvl. án þess að þau skiluðu árangri eða þau verða að teljast ófullnægjandi.

Kærandi vísar til þess að henni verði ekki kennt um veikindi dóttur sinnar, enda verði þau ekki rakin til vanrækslu hennar. Kærandi hefur því til stuðnings lagt fram læknisvottorð. Telja verður að með læknisvottorðum hafi verið sýnt fram á að enn ríkari ástæða er til að hafa eftirlit með heimilinu í þeim tilgangi að tryggja betur en ella að stúlkurnar fái þann stuðning sem þær þurfa á að halda.

Staðfest er að fíkniefni hafa verið notuð á heimilinu þótt ekki liggi fyrir óyggjandi sannanir fyrir því hvernig neyslu þeirra hefur verið háttað. Margar ábendingar hafa enn fremur komið fram um vanrækslu barnanna. Þegar litið er til þessa verður að telja margt óljóst hvað varðar öryggi stúlknanna og aðbúnað þeirra á heimilinu. Þessir óvissuþættir leiða til þess að fylgjast ber með heimilinu samkvæmt því sem fyrir er mælt í a-lið 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga. Eftirlit með þessum hætti verður ekki komið við með því að barnaverndarnefndin fylgist með velferð og öryggi barnanna í gegnum skóla.

Ber með vísan til alls þessa að staðfesta þá niðurstöðu barnaverndarnefndar B í hinum kærða úrskurði að hagsmunir dætra kæranda krefjist þess að óboðað eftirlit verði haft með heimili þeirra í sex mánuði frá 29. september 2015 að telja svo að hægt verði að ganga úr skugga um hvort aðbúnaður stúlknanna á heimilinu sé viðunandi. Samkvæmt því og með vísan til a-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga er hinn kærði úrskurður staðfestur. 

 

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar B frá 29. september 2015 varðandi óboðað eftirlit með heimili kæranda, A, og dætra hennar, D og E, í sex mánuði frá 29. september 2015 að telja er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira