Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 06110026

Þann 6. júní 2007 varð kveðinn upp í ráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

I. Hin kærða ákvörðun og málsmeðferð.

Ráðuneytinu hefur borist kærur Bjarna Reykjalín, dags. 4. desember 2006, Guðmundar Guðlaugssonar, dags. 4. desember 2006 og Árna Árnasonar, dags. 4. desember 2006 vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 1. nóvember 2006 um matsskyldu vegna lagningar Miðhúsabrautar frá Hlíðarbraut að Mýrarvegi á Akureyri. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að lagning Miðhúsabrautar frá Hlíðarbraut að Mýrarvegi sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Akureyrarbær fyrirhugar lagningu um 1850 m langrar og 7,5 m breiðrar tengibrautar með einni akrein í hvora átt, Miðhúsabrautar, frá Hlíðarbraut vestan Mjólkursamlags austur að gatnamótum við Mýrarveg. Framkvæmdin er tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr., sbr. c. liður 10. tölul. 2. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Fram komnar kærur voru sendar til umsagnar Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar og Akureyrarkaupstaðar með bréfum dags. 15. desember 2006. Umsögn Umhverfisstofnunar barst með bréfi 17. janúar, umsögn Skipulagsstofnunar með bréfi 10. janúar 2007 og umsögn Alta f.h. Akureyrarbæjar með bréfi 7. janúar 2007. Fram komnar umsagnir voru sendar kærendum til athugasemda með bréfi 23. janúar 2007 og bárust þær í sameiginlegu bréfi kærenda 5. febrúar 2007.

II. Kæruatriði og umsagnir um þau.

Þær kærur sem ráðuneytinu bárust eru samhljóða og mun því umfjöllun um einstök kæruatriði hér á eftir eiga við um allar kærurnar og verða einstakir kærendur hér eftir nefndir kærendur. Kærendur gera þá kröfu að metin verði áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á umhverfið þar sem bornir verði saman kostir á lagningu tengibrauta til þess að þjóna vaxandi byggð á Akureyri.

1. Samanburður kosta.

Kærendur vísa til niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar um að þar komi ekki fram samanburður valkosta með tilliti til áhrifa þeirra á umhverfið. Miðhúsabraut muni fórna raunhæfum og hagkvæmum möguleikum á stækkun byggðarinnar í Lundahverfi. Hún muni hafa í för með sér lengri vegalengdir fyrir þá byggð til beggja handa sem hún eigi að þjóna. Dalsbraut sé eðlilegri og heppilegri leið til að þjóna byggðinni. Hún feli í sér styttri vegalengdir fyrir þorra bæjarbúa, sé þægilegri í rekstri, viðhaldi og almennri notkun. Auk þess sem hún sé raunhæfari tenging norðurhluta Naustahverfis við þungamiðju atvinnulífs og þjónustu í miðbæ og á Eyrinni, en Miðhúsabraut muni aldrei getað þjónað því hlutverki. Samanburður á áhrifum Miðhúsabrautar og Dalsbrautar á umhverfi sé því nauðsynlegur.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að það sé rétt hjá kærendum að ekki sé fjallað um samanburð við aðrar leiðir í hinni kærðu ákvörðun, sem kunni að gegna sama hlutverki og fyrirhuguð Miðhúsabraut. Stofnunin bendir á að í 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum séu tilgreind þau gögn sem fylgja skuli tilkynningarskyldum framkvæmdum. Þar sé ekki kveðið á um skyldu framkvæmdaraðila til að gera grein fyrir mismunandi kostum við framkvæmdir. Skipulagsstofnun bendir á að engu síður sé frá því greint að í gögnum Akureyrarbæjar að ákveðið hafi verið að tilkynna um lagningu Miðhúsabrautar eftir að bornir höfðu verið saman fleiri kostir á tengibrautum sem gætu þjónað umferð til og frá Naustahverfi.

Í umsögn Akureyrarbæjar segir að í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 sé gert ráð fyrir bæði Miðhúsabraut og Dalsbraut. Byggi sú niðurstaða á ítarlegri vinnu undanfarin ár á greiningu og samanburði þessara tveggja vega, í samráði við hagsmunaaðila og úrvinnslu athugasemda sem borist hafa á kynningartíma skipulagstillögunnar. Í greinargerð sem hafi fylgt tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar sé fjallað um samanburð Dalsbrautar og Miðhúsabrautar, m.t.t. umferðaröryggis, hljóðvistar, umferðardreifingar, fjölda ekinna kílómetra og tímalengdar sem ökumenn eyða í gatnakerfinu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að framkvæmdaraðili hafi gert grein fyrir kostum og göllum Miðhúsabrautar og Dalsbrautar. Ákvörðun um leiðarval varði fyrst og fremst skipulag byggðar á svæðinu.

2. Áhrif á landslag og tengsl byggðar við útivistarsvæði og fl.

Kærandi telur að talsverð röskun verði á landslagi við lagningu Miðhúsabrautar og að hún muni rjúfa tengsl við opið útivistarland ofan byggðarinnar. Þá sé óeðlilegt að eingöngu sé fjallað um tæknileg atriði eins og hljóðvist í hinum kærða úrskurði en ekki áhrif á samfélag, leiðarval, vegalengdir, orkukostnað, rekstrarkostnað og ferðakostnað.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að í hinni kærðu ákvörðun hafi Skipulagsstofnun talið að áhrif framkvæmdarinnar á landslag yrðu ekki veruleg þar sem að mestu verði farið um flatt land, mólendi og framræst tún. Í framlögðum gögnum Akureyrarbæjar komi fram að langtímaspá geri ráð fyrir allt að 13.000 bílum á sólarhring á Miðhúsabraut. Skipulagsstofnun bendir á að sú umferð sé ekki það mikil að líklegt megi telja hún geri þeim erfitt fyrir sem leggja leið sína til útivistar á óbyggða svæðinu sunnan Miðhúsbrautar, þótt tengibrautin muni óhjákvæmilega rjúfa samfellu svæðisins.

Í umsögn Akureyrarbæjar er vísað til greinargerðar framkvæmdaraðila varðandi áhrif á landslag, útivist og stækkun Lundahverfis. Varðandi áhrif Miðhúsabrautar á frekari stækkun Lundahverfis, sé það niðurstaðan af heildarendurskoðun þeirra kosta sem mögulegir séu varðandi legu og afmörkun helstu umferðaræða og nýrra íbúðarsvæða á Akureyri, að meiri hagsmunir séu tryggðir með lagningu Miðhúsabrautar en fælust í hugsanlegum möguleikum á frekari samfelldri stækkun Lundahverfis, en aðalskipulag geri ráð fyrir. Þá segir að í greinargerð sem hafi fylgt tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar sé fjallað um samanburð Dalsbrautar og Miðhúsabrautar, m.t.t. umferðaröryggis, hljóðvistar, umferðardreifingar, fjölda ekinna kílómetra og tímalengdar sem ökumenn eyða í gatnakerfinu. Þannig sé í tilkynningu fjallað um leiðarval og vegalengdir. Kærendur telji vanreifaða þætti er varða, orkunotkun, rekstarkostnað og ferðakostnað en það séu stærðir sem leiði af þeim þáttum sem gerð hafi verið grein fyrir í tilkynningu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að ljóst sé að framkvæmdin hafi talsverð áhrif á landslag, ekki síst þar sem tengibrautin liggi um svokallaða Smáhóla en þar megi búast við töluverðum vegskeringum vegna fyrirhugaðrar legu tengibrautarinnar. Stofnunin telji þó að verði vandað til veghönnunar og frágangs á svæðinu verði þau áhrif ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Mikilvægt sé að vegskeringar verði hannaðar sérstaklega samhliða veghönnun og að lögð verði fram áætlun um frágang skeringa eins og um námur sé að ræða til að tryggja að þær verði ekki til lýta á landi. Þá kemur fram að umfjöllun um leiðaval og veglengdir sé hluti af þeirri umræðu sem fari fram á samráðsfundum með íbúum.

Kærendur telja að ekki sé um að ræða flatt land, mólendi og framræst tún eins og Skipulagsstofnun telji, heldur sé farið yfir tvo klapparhóla þar sem annars vegar sé 14 m hæðarmunur á kolli og flatlendi og hins vegar um 9 m munur. Þetta hafi í för með sér talsverða breytingu á landslagi með sprengingum og fyllingum til þess að minnka hæðarmun þar sem vegurinn muni ekki fylgja óhreyfðu landi.

3. Áhrif á samfélag.

Kærendur telja að ekki hafi verið fjallað um áhrif á samfélag í tilkynningu framkvæmdaraðila, sem þó teljist hluti umhverfis í skilningi 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í umsögn Akureyrarbæjar er vísað til umfjöllunar bæjarins varðandi samanburð kosta. Í greinargerð sem fylgt hafi tilkynningu til Skipulagsstofnunar sé fjallað um áhrif á samgöngur, umferðaröryggi, hljóðvist, landslag, menningarminjar, mannlíf, útivist, loftgæði og landnotkun. Þessi umfjöllun fullnægi skilyrðum 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, og 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.

III. Niðurstaða.

Ráðuneytið lítur svo á að krafa kærenda sé sú að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og úrskurðað verði að framkvæmdin verði háð mati á umhverfisáhrifum.

1. Samanburður kosta.

Kærendur telja að í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki komið fram samanburður valkosta, með tilliti til áhrifa þeirra á umhverfið. Samanburður á áhrifum Miðhúsabrautar og Dalsbrautar á umhverfi sé nauðsynlegur. Telur kærandi Dalsbraut betri kost þar sem hún hafi í för með sér styttri vegalengdir fyrir þorra íbúa, sé betri í rekstri og almennri notkun. Auk þess sem hún sé betri tenging við atvinnulíf og þjónustu í miðbæ og á Eyrinni.

Sú framkvæmd sem hin kærða ákvörðun lýtur að er tilkynningarskyld samkvæmt c. lið, 10. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, sbr. 6. gr. Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 1123/2005 eru tilgreind þau gögn sem fylgja skulu tilkynningu eftir því sem við á. Þau eru lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, umfangi og helstu rekstrarþáttum, uppdráttur af fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi, upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum, lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum, lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valda helst áhrifum á umhverfið, upplýsingar um fyrirliggjandi álit umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls sem framkvæmdaraðili kann að hafa leitað eftir. Í 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er ekki gerð krafa um samanburð kosta. Ekki er því skilyrði samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum eða reglugerð um mat á umhverfisáhrifum að gerð sé grein fyrir mismunandi framkvæmdakostum þegar um tilkynningarskylda framkvæmd er að ræða, skv. 6. gr. laganna. Ráðuneytið fellst því ekki á samkvæmt framansögðu að framkvæmdaraðili hafi borið að bera saman framkvæmdakosti og er því ekki fallist á þá röksemd kærenda að í hinni kærðu ákvörðun hefði átt að bera saman mismunandi framkvæmdakosti.

2. Áhrif á landslag og tengsl byggðar við útivistarsvæði og fl.

Kærandi telur að röskun verði á landslagi við lagningu Miðhúsabrautar og að hún muni rjúfa tengsl við opið útivistarland ofan byggðarinnar. Þá gerir kærandi athugasemdir við að ekki sé fjallað um áhrif á samfélag, leiðarval, vegalengdir, orkukostnað, rekstrarkostnað og ferðakostnað.

Eins og fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar telur stofnunin að áhrif framkvæmdarinnar á landslag verði ekki veruleg þar sem að mestu verði farið um flatt land, mólendi og framræst tún. Þá telur stofnunin að umferð sé ekki það mikil að líklegt megi telja hún geri þeim erfitt fyrir sem leggja leið sína til útivistar á óbyggða svæðinu sunnan Miðhúsbrautar, þótt tengibrautin muni óhjákvæmilega rjúfa samfellu svæðisins. Þá segir í umsögn Umhverfisstofnunar að framkvæmdin muni hafa talsverð áhrif á landslag, ekki síst þar sem tengibrautin liggi um svokallaða Smáhóla en þar megi búast við töluverðum vegskeringum vegna fyrirhugaðrar legu tengibrautarinnar. Stofnunin telur að ef vandað verður til veghönnunar og frágangs á svæðinu verði þau áhrif ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Ráðuneytið telur með vísan til eðlis þess landsvæðis sem fyrirhuguð framkvæmd fer yfir og þess að hægt verði að hanna framkvæmdina með þeim hætti að dregið verði úr áhrifum hennar á landslag, að fyrirhuguð framkvæmd hafi ekki umtalsverð áhrif á landslag. Að mati ráðuneytisins mun tengibrautin óhjákvæmilega rjúfa samfellu við útivistarsvæði sunnan brautarinnar en með henni er ekki komið í veg fyrir útivist á því svæði. Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds að framkvæmdin hafi ekki umtalsverð áhrif á útivist á framangreindu svæði.

Kærandi telur að ekki sé fjallað um áhrif á samfélag, leiðarval, vegalengdir, orkukostnað, rekstrarkostnað og ferðakostnað í hinum kærða úrskurði.

Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum eru eins og áður segir tilgreind þau gögn sem fylgja skulu tilkynningu eftir því sem við á. Þau eru m.a. lýsing á hvaða þættir framkvæmdar valda helst áhrifum á umhverfið. Skipulagsstofnun skal innan fjögurra vikna frá því að erindi framkvæmdaraðila barst taka ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Áður skal hún leita umsagnar leyfisveitenda og annara eftir eðli máls hverju sinni og þá á hvaða forsendum fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til viðmiða í 3. viðauka við reglugerðina. sbr. 2. mgr. 11. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Í hinni kærðu ákvörðun er gerð grein fyrir lýsingu framkvæmdaraðila á áhrifum framkvæmdarinnar á hljóðvist, landslag og jarðmyndanir, menningarminjar og landnotkun og jafnframt gerð grein fyrir umsögnum Umhverfisstofnunar og Fornleifaverndar ríkisins vegna áhrifa á ofanvatn, hljóðvist og menningarminjar. Að mati ráðuneytisins hefur í hinum kærða úrskurði verið fjallað um með fullnægjandi hætti um þá þætti sem fyrirhuguð framkvæmd hefur á umhverfi, í samræmi við kröfur reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið fellst því ekki á framangreinda málsástæðu kærenda.

3. Áhrif á samfélag.

Kærendur telja að ekki hafi verið fjallað um áhrif á samfélag í tilkynningu framkvæmdaraðila.

Í máli þessu er til umfjöllunar ákvörðun Skipulagsstofnunar. Ráðuneytið lítur því svo á málsástæður kærenda varðandi áhrif á samfélag lúti að hinni kærðu ákvörðun. Eins og rakið hefur verið er í ákvörðuninni gerð grein fyrir áhrifum á hljóðvist, landslag, menningarminjar og landnotkun. Að mati ráðuneytisins fullnægir þessi umfjöllun skilyrðum 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið fellst því ekki á framangreinda málsástæðu kærenda.

4. Niðurstaða.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að fallast á kröfu kærenda og staðfesta beri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. nóvember 2006 þess efnis að lagning Miðhúsabrautar frá Hlíðarbraut að Mýrarvegi sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. nóvember 2006 um að lagning Miðhúsabrautar frá Hlíðarbraut að Mýrarvegi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta