Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 244/2017 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 244/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030060

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. mars 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. mars 2017, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd frá […], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Ungverjalandi, synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og synja honum um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. október 2016 hjá lögreglunni á Austurlandi. Kærandi kvaðst vera […] ríkisborgari. Samkvæmt gögnum sem bárust frá Svíþjóð 10. nóvember 2016 sótti kærandi um vernd í Ungverjalandi 11. september 2006 og fékk stöðu flóttamanns þar í landi 15. febrúar 2007. Í tölvupósti frá ungverskum yfirvöldum til Útlendingastofnunar, dags. 28. nóvember 2016, var staðfest að kærandi væri enn með stöðu flóttamanns í Ungverjalandi. Framangreind gögn báru með sér að kærandi væri […] ríkisborgari. Kærandi fór í þjónustuviðtal hjá Útlendingastofnun þann 8. nóvember 2016 og kvaðst kærandi hafa komið frá […] fyrir um tveimur eða þremur mánuðum. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun ásamt talsmanni sínum þann 1. febrúar 2017 og kvaðst þá vera […] ríkisborgari. Þann 20. mars 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 28. mars sl. Kærunefnd útlendingamála barst greinargerð kæranda þann 10. apríl 2017 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns í Ungverjalandi og hafi þar leyfi til að stunda atvinnu og geti því unnið þar fyrir sér og aflað sér húsnæðis. Kærandi hafi haldið því fram að hann hafi verið sviptur ríkisfangi í heimalandi en gögn málsins bendi til þess að kærandi sé ekki ríkisfangslaus en að öðru leyti hefur auðkenni hans ekki verið staðfest. Lagt var til grundvallar að kærandi sé frá […] og var það byggt á svörum ungverskra yfirvalda til sænskra yfirvalda frá 27. febrúar 2015 þar sem fram hafi komið að kærandi sé skráður sem ríkisborgari […].

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig að hann hafi búið við þröngan kost í Ungverjalandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Var það mat Útlendingastofnunar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Ungverjalands. Þá var kæranda synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Ungverjalandi þar sem kærandi, sem ríkisborgari […], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi þar sem hann hafi þegar hlotið vernd.

Kærandi byggði jafnframt á því að hann væri veikur og fengi enga aðstoð í Ungverjalandi vegna þessa. Útlendingastofnun vísaði til þess að allir Ungverjar eigi rétt á ókeypis heilbrigðisþjónustu og sé það óháð efnahag eða stöðu að öðru leyti. Útlendingar eigi rétt á grunn- og neyðarþjónustu án endurgjalds en þurfi að greiða fyrir frekari þjónustu með tryggingum eða úr eigin vasa. Ekkert bendi til annars en að kærandi geti fengið viðunandi heilbrigðisþjónustu í Ungverjalandi. Aðalástæða flótta kæranda frá Ungverjalandi var því að mati stofnunarinnar efnahagslegar aðstæður hans fremur en að kærandi óttist um öryggi sitt. Ekkert hafi komið fram um ofsóknir eða óviðunandi aðstæður í Ungverjalandi í gögnum eða viðtölum við kæranda. Það var því mat stofnunarinnar að í Ungverjalandi séu engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda. Að því virtu var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, og um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laganna.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga frestaði kæra að meginreglu réttaráhrifum ákvörðunar um umsókn um alþjóðlega vernd. Með tilliti til atvika málsins var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Fram kemur í greinargerð kæranda að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. og 16. febrúar 2017 að líf hans í Ungverjalandi hafi verið mjög erfitt. Hann hafi ekki átt í nein hús að venda og ekki fengið fjárhagsaðstoð frá yfirvöldum í landinu. Hann hafi sjálfur þurft að útvega sér húsnæði, fæði og læknisþjónustu. Hann hafi þurft að leita á náðir hjálparstofnunar kirkjunnar þegar hann hafi veikst alvarlega til þess að fá aðstoð með lyfjakaup. Þá hafi hann ekki fengið atvinnu í Ungverjalandi þar sem engin tækifæri séu þar fyrir flóttamenn. Hann hafi því leitað til Þýskalands, Danmerkur, Svíþjóðar og Írlands til þess að vinna.

Varðandi ástæður flótta kæranda frá heimaríki kvað kærandi að hann hafi gifst […] konu og búið með henni í […] í þrjú ár. Á þeim tíma hafi verið sett lög í […] sem kveðið hafi á um að […] sem giftust […] borgurum myndu missa ríkisfang sitt í […]. Hafi […] yfirvöld beitt kæranda þrýstingi að skilja við eiginkonu sína. Vegabréf hans hafi verið tekið af honum og hann settur í farbann ásamt því að vera sviptur atvinnuréttindum. Eftir að kærandi hafi snúið aftur til […] hafi hann ítrekað verið fangelsaður. Þegar hann hafi setið í fangelsi hafi hann orðið fyrir pyndingum sem hafi m.a. falist í meiriháttar barsmíðum, hann hafi verið látinn hanga á fótunum og köldu vatni verið sprautað á hann. Telji hann pyndingarnar tilkomnar vegna hjónabands hans með fyrrnefndri konu.

[…]

Í greinargerð kæranda kemur fram þrátt fyrir að heimildin í a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga geti átt við um einstakling sem hafi hlotið vernd, sé með öllu ótækt að beita henni í tilviki kæranda í þessu máli, vegna ákvæða 2. og 3. mgr. sama ákvæðis. Þess sé krafist að mál kæranda verði tekið til efnislegrar meðferðar með vísan til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í slíkum tilvikum beri stjórnvöldum skylda til að taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd, eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Fram hefur komið í málinu að heilsufar kæranda sé mjög slæmt en hann hafi verið lagður inn á Landspítalann í nóvember 2016. Hann hafi verið með mikla verki síðan þá og sé undir eftirliti lækna vegna alvarlegs heilsufarsástands. Vísað er til athugasemda í greinargerð með frumvarpi því er varð að nýjum útlendingalögum og byggt á því að lögin sýni fram á vilja löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins. Þá sé í athugasemdunum sérstaklega vikið að heilsufarsástæðum. Verði ekki fallist á það að veikindi kæranda séu svo alvarleg að þau falli undir 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er því haldið fram af hálfu kæranda að taka eigi mál hans til efnislegrar meðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, en greininni sé ætlað að endurspegla non-refoulement reglu þjóðaréttar eða bann við endursendingu fólks þangað sem líf þess eða frelsi sé í hættu eða líkur séu á að það muni sæta pyndingum eða ómannúðlegri meðferð, sbr. einnig 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við endursendingu til Ungverjalands muni kærandi standa frammi fyrir ómannúðlegum aðstæðum.

Þá er í greinargerð byggt á því að skv. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga skuli Útlendingastofnun tryggja að fram fari einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu teljist einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Þá séu tekin dæmi og þar nefndir m.a. alvarlega veikir einstaklingar og einstaklingar sem orðið hafa fyrir pyndingum. Ljóst sé að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu enda sé hann bæði alvarlega veikur og hafi orðið fyrir pyndingum. Meðfylgjandi greinargerð kæranda fylgdi læknisvottorð þar sem fram komi að kærandi sé ekki ferðafær og þurfi að undirgangast meðferð hjá […]. Þrátt fyrir að þetta vottorð hafi legið fyrir við málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi ákvörðun stofnunarinnar, hvað veikindi kæranda varðaði, byggt á því að stofnunin hafi ekki undir höndum fullnægjandi gögn er skýri til fullnustu í hverju veikindi kæranda felist. Þrátt fyrir fyrirliggjandi læknisvottorð og að Útlendingastofnun teldi þörf á frekari gögnum til að meta ástand kæranda, hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að mögulegt sé fyrir kæranda að halda kvillanum í skefjum með inntöku lyfja og eftirliti og að tryggt verði að læknisfræðileg gögn fylgi kæranda við flutning. Óljóst sé á hverju Útlendingastofnun hafi byggt afstöðu sína til veikinda kæranda, þar sem almenn staðhæfing um það að mögulegt sé að meðhöndla […] geti ekki talist fullnægjandi þegar hvorki liggi fyrir greining sérfræðilæknis á því né vottorð um batahorfur. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvíli rannsóknarskylda á stjórnvöldum og þeim beri að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Útlendingastofnun hafi verið í lófa lagið að afla frekari upplýsinga frá […] áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda. Þá komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að þær pyndingar sem kærandi hafi sætt hafi ekki áhrif á umsókn hans um alþjóðlega vernd þar sem „hann telji sig andlega heilbrigðan og hafi getað sagt frá þeirri upplifun sinni án teljandi erfiðleika“. Í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun hafi kærandi þó greint frá því að erfitt sé að tala um pyndingarnar. Afstaða Útlendingastofnunar um að þær pyndingar sem kærandi hafi orðið fyrir hafi ekki gildi í máli kæranda eigi því ekki við rök að styðjast.

Í greinargerð kæranda er vísað til alþjóðlegrar skýrslu varðandi stöðu flóttamanna í Ungverjalandi (Asylum Information Database Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017). Þar komi fram að þeir sem fengið hafi stöðu flóttamanns fái ekki búsetuleyfi heldur ungversk skilríki og sé gildistími þeirra sex ár. Útgáfa skilríkjanna taki þó a.m.k. einn mánuð en við veitingu alþjóðlegrar verndar sé einstaklingum gert að yfirgefa búsetuúrræði 30 dögum eftir verndarveitingu. Einstaklingar séu því skilríkjalausir þegar þeir séu í húsnæðis- og atvinnuleit. Þá endurskoði ungversk yfirvöld stöðu einstaklinga og þá vernd sem þeim hafi verið veitt á þriggja ára fresti. Einungis þeir einstaklingar sem hafi undir höndum vegabréf eigi kost á því að sækja um langtímabúsetuleyfi. Þá hafi ný lög tekið gildi í apríl og júní 2016 þar sem aðlögunarstyrkir til flóttamanna hafi verið felldir brott. Breytingin hafi leitt til þess að ekkert félagslegt húsnæði sé í boði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd eða aðrar lausnir eða stuðningsfyrirkomulag. Þá eigi þessi hópur erfitt með að finna húsnæði á almennum leigumarkaði vegna lítils fjármagns og stór hluti þeirra neyðist til að sofa á götum úti. Aðgangur að atvinnu sé háður ýmsum hindrunum m.a. vegna skorts á tungumálakunnáttu og menningarmun. Þá verði umsækjendur um alþjóðlega vernd iðulega fyrir mismunun á vinnustað. Þá njóti einstaklingar með alþjóðlega vernd sömu réttinda hvað aðgang að heilbrigðiskerfinu varði en í framkvæmd sé raunin önnur. Þeir standi frammi fyrir ýmsum hindrunum þegar þeir leiti eftir heilbrigðisaðstoð sem stafi aðallega af tungumálaerfiðleikum, takmörkuðum aðgangi að túlkum ásamt vanþekkingu innan stjórnsýslunnar.

Í desember 2015 hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðið og ODIHR (The Office for Democratic Institutions and Human Rights) sent frá sér sameiginlega fréttatilkynningu þar sem ungversk stjórnvöld hafi verið hvött til þess að láta af stefnu sem ýti undir hatur í garð flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá komi fram í alþjóðlegum skýrslum að flóttamenn í Ungverjalandi sem séu heimilislausir og búi á götunni búi í raun við ómannúðlegar aðstæður og hljóti ófullnægjandi stuðning frá stjórnvöldum en eigi einnig á hættu refsingu fyrir að vera heimilislausir. Þá hafi alþjóðleg mannréttindasamtök sent ákall til yfirvalda í Evrópu um að stöðva endursendingar til Ungverjalands. Ákallið lúti ekki eingöngu að umsækjendum um vernd, heldur einnig þeim sem fengið hafi stöðu sína viðurkennda í landinu. Ljóst sé að með endursendingu kæranda til Ungverjalands sé hætt við því að Ísland myndi gerast brotlegt gegn grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement, auk samsvarandi ákvæða íslenskra laga og mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að. Þá sé lögð áhersla á að kæranda hafi verið veitt staða flóttamanns í Ungverjalandi þann 15. febrúar 2007 Útlendingastofnun hafi sent óformlega fyrirspurn til ungverskra stjórnvalda þann 28. nóvember 2016 þess efnis hvort kærandi væri með gilda vernd þar í landi. Svar hafi borist þar sem fram hafi komið að svo væri en engar upplýsingar um gildistíma verndarinnar. Ekki sé hægt að fullyrða hvort kærandi sé enn með gilt dvalarleyfi í Ungverjalandi og því alls óvíst hvort kærandi njóti í raun verndar þar í landi verði hann sendur þangað.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá […] og vísa honum frá landinu.

Í 1. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt réttarstaða flóttamanns í Ungverjalandi. Liggur þannig fyrir að kærandi hefur hlotið virka alþjóðlega vernd í Ungverjalandi og eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. laganna segir að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður því að leggja mat á hvort aðstæður í Ungverjalandi brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. mannréttindasáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Ungverjalandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Hungary as a Country of Asylum: Observations on the situation of asylum-seekers and refugees in Hungary (UNHCR, 24. apríl 2012)
  • Hungary as a Country of Asylum: Observations on restrictive legal measures and subsequent practice implemented between July 2015 and March 2016 (UNHCR, maí 2016)
  • 2016 Country Reports on Human Rights Practices – Hungary (United States Department of State, 3. mars 2017)
  • Asylum Information Database Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017)
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his Visit to Hungary from 1 to 4 July 2014 (Council of Europe, 16. desember 2014)
  • Description of the Hungarian Asylum System (European Asylum Support Office, 18. maí 2015)
  • ECRI Report on Hungary (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015)

Af framangreindum skýrslum verður ráðið að ungversk yfirvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og þeirra sem hafa fengið slíka vernd. Í skýrslu AIDA kemur m.a. fram að árið 2016 hafi stjórnvöld ákveðið að fella úr gildi úrræði er ætluð voru til að styðja við aðlögun einstaklinga með alþjóðlega vernd að ungversku samfélagi, svo sem vegna húsnæðis, menntunar og uppihalds. Þá kemur fram að starfsmenn frjálsra félagasamtaka hafi greint frá miklum erfiðleikum einstaklinga með alþjóðlega vernd við að aðlagast ungversku samfélagi eftir flutning úr móttökumiðstöðvum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi í erfiðleikum með að finna sér húsnæði og eigi á hættu að verða heimilislausir. Þá eigi einstaklingar með alþjóðlega vernd erfitt með að fá vinnu og nýta sér heilbrigðisþjónustu í Ungverjalandi vegna tungumálaörðugleika. Í fyrrnefndri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um Ungverjaland segir að veigamestu mannréttindabrotin í landinu árið 2016 hafi verið aðgerðir stjórnvalda í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd, en stjórnvöld hafi t.a.m. beitt mikilli hörku gegn umsækjendum um alþjóðlega vernd á landamærum við Serbíu. Þá hafa stjórnvöld lýst yfir andúð á umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttamönnum á opinberum vettvangi og hafi forsætisráðherra landsins m.a. sagt flóttamenn ógn við öryggi landsins. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hins vegar ekki lagst gegn endursendingu þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til Ungverjalands.

Til stuðnings kröfu sinni hefur kærandi m.a. fært fram sjónarmið um að þær aðstæður sem hann megi búast við í Ungverjalandi falli undir ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og að íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að senda hann til landsins í ljósi ákvæða 1. mgr. 42. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmálans feli ekki í sér kröfu til aðildarríkja sáttmálans til þess að sjá öllum flóttamönnum fyrir heimili eða fjárhagslegri aðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) þann 2. apríl 2013. Af fyrrnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu er ljóst að aðstæður kæranda sem einstaklings með alþjóðlega vernd, að því leyti sem þær lúta að skorti á húsnæði og fjárhagslegum stuðningi frá yfirvöldum í Ungverjalandi, verða ekki taldar til ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum. […] Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun kvað hann að andleg heilsa hans sé góð en komið hefur fram í málinu að kærandi kveðst hafa sætt pyndingum í heimaríki. Ekki er talin ástæða til að draga í efa þann hluta frásagnar kæranda að hann hafi sætt pyndingum í fangelsi í heimaríki sínu. Það er því mat kærunefndar að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kveður að hann hafi ekki fengið aðstoð vegna veikinda sinna í Ungverjalandi. Eins og að framan greinir hafa einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Ungverjaland sama aðgang að heilbrigðiskerfinu og ríkisborgarar Ungverjalands en þeir geti átt í erfiðleikum með að nálgast þjónustuna m.a. vegna tungumálaörðugleika. Fram hefur komið að kærandi hafi verið með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi síðastliðin tíu ár og þar með haft tækifæri til að aðlagast samfélaginu þar. Að mati kærunefndar séu aðstæður hans að því leyti ólíkar og aðstæðum einstaklinga sem ekki hafa dvalið, eða átt rétt til dvalar, um lengri tíma þar í landi. Með vísan til fyrirliggjandi gagna um veikindi kæranda og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Ungverjalandi er það mat kærunefndar að leggja skuli til grundvallar í málinu að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Þá er áréttað það sem fram kom í ákvörðun Útlendingastofnunar að við endursendingu kæranda til Ungverjalands verði tryggt að læknisfræðileg gögn fylgi honum, sem og leiðbeiningar læknis um viðeigandi lyf sem hann þarf á að halda. Jafnframt verði kærandi ekki fluttur nema hann sé ferðafær á þeim tíma er til flutnings kemur.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar, þegar horft er til aðstæðna einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi og aðstæðna kæranda í heild sinni, að kærandi sé ekki í yfirvofandi hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Ungverjalandi í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hann sendur þangað. Það er því niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til Ungverjalands feli ekki í sér brot á 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna, eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. febrúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 18. október 2016.

Fyrir liggur að kæranda hefur verið veitt réttarstaða flóttamanns í Ungverjalandi. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá […] og senda hann til Ungverjalands með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar var fjallað um rétt kæranda til þess að fá alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Ungverjalandi og komist að þeirri niðurstöðu að hann, sem ríkisborgari […], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi þar sem hann hafði hlotið stöðu flóttamanns. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laganna.

Í 74. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í lokamálslið 1. mgr. 74. gr. laganna segir að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar. Kærunefnd telur ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að kærandi geti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi. Samkvæmt framansögðu og í ljósi lagaskilareglu 121. gr. laga nr. 80/2016 telur kærunefnd ekki skilyrði að lögum til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða til handa kæranda, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

 Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                            Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira