Hoppa yfir valmynd

Endurupptaka - Mál nr. 14/2011


Ár 2014, fimmtudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 eins og ákvæðið var fyrir breytingu með lögum nr. 131/2011 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7, Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir.  Fyrir var tekið mál nr. 14/2011 Einar Guðmann, kt. 201066-3799, Hlíðargötu 5, Akureyri gegn Akureyrarkaupstað.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur úrskurður:

 

I.  Aðild kærumáls og kröfur

 

Með stjórnsýslukæru, dags. 29. júní 2011, kærði Einar Guðmann, hér eftir nefndur kærandi,  ákvörðun Akureyrarkaupstaðar ,  hér eftir nefndur kærði, sem fólst í setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sem m.a. hefur að geyma ákvæði sem bannar hundahald í Grímsey.  Kærandi krafðist þess að ákvæði það sem bannar hundahald í Grímsey yrði úrskurðað ógilt og hélt því fram að ekki hafi verið gætt að skilyrðum laga og góðrar stjórnsýslu við setningu samþykktarinnar.  Kærði krafðist þess aðallega að kæru málsins yrði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna óskýrleika krafna kæranda og/eða skorts á lögvörðum hagsmunum hans. Til vara krafðist kærði þess að kröfu kæranda yrði hafnað vegna aðildarskorts og/eða sökum þess að ákvæði í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað, sem banni hundahald í Grímsey, væri lögmætt og málefnalegt og hefði auk þess hlotið löglega meðferð.

 

Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 10. nóvember 2011. Úrskurðarorðið var svohljóðandi:

 

"Staðfest er sú ákvörðun Akureyrarbæjar um að banna hundahald í Grímsey með þeim hætti að hvort tveggja sé bannað að þar dvelji hundur og að þangað komi hundur í heimsókn. Staðfest er að gætt hafi verið þeirra formskilyrða fyrir setningu samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011 sem heyra undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Vísað er frá úrskurðarnefndinni ágreiningi um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey".

 

Um kröfur sem nú eru til meðferðar vísast til kafla II.

 

II.  Málsmeðferð

 

Kæra málsins er dagsett 29. júní 2011 og byggir hún á kæruheimild í 4. mgr. 19. gr. samþykktar um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Í kæru gerir kærandi grein fyrir að hann hafi einnig sent bréf til Umhverfisráðuneytisins.  Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 14. júlí 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu.  Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 11. ágúst 2011.  Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2. september 2011. Úrskurðarnefndin kynnti athugasemdir kæranda fyrir kærða með bréfi, dags. 9. september 2011.  Þann 16. september 2011 barst tölvupóstur frá kærða þar sem áréttuð voru þau sjónarmið sem kærði hafði gert grein fyrir í greinargerð sinni og tekið fram að ekki yrðu gerðar frekari athugasemdir af hans hálfu. Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 10. nóvember 2011 eins og að framan greinir.

 

Kærandi beindi kvörtun til  Umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt áliti Umboðsmanns frá 19. ágúst 2013 í máli nr. 7024/2012 er frávísun úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir á þeim þætti stjórnsýslukæru kæranda er laut að því hvort 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 um hundahald í Akureyrarkaupstað hefði verið sett með réttum hætti ekki í samæmi við lög.

 

Með bréfi Umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. október 2013 var óskað svara við eftirfarandi fyrirspurn:  "Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar var vísað frá nefndinni ágreiningi um hvort  1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra skuli leita umsagnar Umhverfisstofnunar. Segir í forsendum úrskurðarins að nefndin telji sig ekki vera bært stjórnvald til að úrskurða um hvort ráðherra, sem æðsta stjórnvald á viðkomandi sviði, hafi verið skylt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ráðuneyti hans staðfesti umrædda samþykkt um hundahald vegna mögulegra nýmæla í samþykktinni.  Í tilefni af þessari niðurstöðu var óskað að nefndin veitti nánari upplýsingar um á hvaða lagagrundvelli sú afstaða nefndarinnar væri reist að það falli utan hennar valdsviðs að taka afstöðu til hvort ráðherra hafi við staðfestingu samþykktar sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, gætt ákvæða 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna".

 

Svar úrskurðarnefndarinnar við bréfi Umboðsmanns Alþingis er dags. 11. janúar 2013. Í svarinu kemur fram að ákvörðun nefndarinnar hafi byggt á því að Umhverfisráðherra væri æðsti handhafi á því sviði sem málið varðaði og þar með væri úrskurðarnefndin ekki bært stjórnvald til að endurskoða ákvarðanir hans. Niðurstaðan grundvallaðist á þeirri meginreglu sem fram kæmi í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæruheimildir séu til æðri stjórnvalda. Á grundvelli þeirrar meginreglu taldi úrskurðarnefndin sér ekki fært að endurskoða ákvörðun Umhverfisráðherra um hvort leita hefði átt umsagnar Umhverfisstofnunar áður en ráðuneyti hans staðfesti samþykkt þá er málið varðaði.

 

Með bréfi Umboðsmanns Alþingis til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar s.l. kemur fram að Umboðsmaður hafi mælst til þess að nefndin tæki mál kæranda fyrir að nýju kæmi fram beiðni um það frá honum.  Slík beiðni hafi komið fram frá kæranda  og er því óskað eftir að nefndin upplýsi hvort beiðnin hafi orðið tilefni frekari viðbragða af hálfu nefndarinnar.

 

Beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju var áframsend úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með bréfi þeirrar nefndar dags. 19. febrúar 2014 var erindi kæranda endursent úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir með vísan til ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 130/2011 og kynnt að kærandi yrði upplýstur um það.  Byggðist það á því áliti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að ekki væri um nýtt mál að ræða heldur endurupptöku og að ljúka skyldi efnismeðferð málsins hjá því stjórnvaldi sem tók umrædda ákvörðun.

 

Í beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju er farið fram á að málið verði tekið fyrir í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis þess efnis að frávísun úrskurðarnefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Einnig að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals,  eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Óskað er álits á því hvort um er að ræða brot á umræddum sáttmálum ef það falli undir hlutverk nefndarinnar.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til Umhverfis- og Auðlindaráðuneytis sem barst ráðuneytinu 9. apríl 2014 var óskað eftir umsögn um það hvort ráðuneytið hafi leitað umsagnar Umhverfisstofnunar um umrætt ákvæði og hafi það ekki verið gert hver hafi verið ástæða þess. Svar ráðuneytisins barst þann 1. júlí s.l. með bréfi dags. 27. júní 2014.

 

Með vísan til alls framangreinds er endurupptekin sú niðurstaða nefndarinnar að vísa frá úrskurðarnefndinni ágreiningi um hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey".

 

 

III.  Málsatvik

 

Frá málsatvikum er greint í fyrirliggjandi úrskurði nefndarinnar frá 10. nóvember 2011 en þau eru í stuttu máli eftirfarandi:

 

Akureyrarkaupstaður og Grímseyjarhreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag 1. júní 2009.  Við sameiningu sveitarfélaganna var í gildi samþykkt um hundahald á Akureyri nr. 360/2001.  Formleg ákvörðun um hundahald í Grímsey liggur ekki fyrir meðal gagna málsins en af gögnum má draga þá ályktun að það hafi verð útbreidd vissa manna að hundahald væri bannað í eynni.  Þann 28. mars 2011 birtist í B-deild Stjórnartíðinda samþykkt nr. 321/2011 um hundahald í hinu sameinaða sveitarfélagi, sem samþykkt hafði verið í Umhverfisráðuneytinu, nú Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, 14. mars 2011.  Í samþykktinni segir í 2. gr. að hundahald sé bannað í Grímsey og þar megi hundar hvorki dvelja né koma í heimsóknir en hundahald sé heimilað annars staðar í Akureyrarkaupstað að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum samþykktarinnar.

 

IV.  Málsástæður og rök kæranda

 

Ekki verða greindar aðrar málsástæður og rök en mál þetta varðar, þ.e. frávísun nefndarinnar á þeim ágreiningi hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og ágreiningi er varðar kosningar um hundahald í Grímsey.

 

Kærandi heldur því fram að kærði hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að kynna málið með viðunandi hætti auk þess sem kærði hafi ranglega haldið því fram að bann við hundahaldi hafi verið í gildi í Grímsey í 50 ár. Heldur kærandi því fram að ákvörðun um eldra bann hafi hvorki verið auglýst né samþykkt með lögformlegum hætti og því sé rangt að halda því fram að ekki sé um nýtt bann við hundahaldi í Grímsey að ræða.

 

Kærandi vísar til ákvæðis 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og kveðst telja að sveitarfélögum og ráðherra sé óheimilt að takmarka eða banna gæludýrahald hafi umsagnar Umhverfisstofnunar ekki verið leitað.

 

Kærandi telur ákvæðið sem bannar hundahald í Grímsey vera nýmæli og því hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar fyrir setningu þess.

 

Þá gerir kærandi í athugasemdum sínum athugasemd við kosningar um hundahald sem fram fóru í Grímsey vorið 2010 og heldur því fram að þá hafi ekki verið kosið um bann við gestkomandi hundum í eynni og hafi íbúum Grímseyjar ekki verið bent á að einnig stæði til að banna gestkomandi hunda.

 

Í beiðni kæranda um að málið verði tekið fyrir að nýju er farið fram á að málið verði tekið fyrir í ljósi álits Umboðsmanns Alþingis þess efnis að frávísun úrskurðarnefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Einnig að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals  eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Óskað er álits á því hvort um er að ræða brot á umræddum sáttmálum ef það falli undir hlutverk nefndarinnar.

 

V.  Málsástæður og rök kærða

 

Í greinargerð kærða segir að samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2006 hafi farið fram atkvæðagreiðsla í Grímsey um tillögu um að afnema bann við hundahaldi sem gilt hefði í eynni í 50 ár.  Atkvæði hafi fallið þannig að hlynntir því að leyfa hundahald hafi verið 18 en 41 á móti og því hafi bann við hundahaldi verið áfram í gildi í Grímsey. Þegar Akureyrarkaupstaður og Grímsey hafi sameinast í eitt sveitarfélag á árinu 2009 hafi samþykktir og reglur Akureyrarkaupstaðar tekið gildi í hinu sameinaða sveitarfélagi samkvæmt ákvörðun ráðuneytis sveitarstjórnarmála og hafi engir sérstakir fyrirvarar verið gerðir á hundasamþykkt Akureyrarkaupstaðar við sameininguna. Á fundi samráðsnefndar Grímseyjar í sameiningarferli við Akureyrarkaupstað þann 26. janúar 2010 hafi verið bent á að rétt væri að íbúar í Grímsey kysu aftur um hunda- og kattahald í eynni.  Undir það hafi verið tekið af hálfu framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar á fundi þann 19. febrúar 2010 og á fundi bæjarráðs Akureyrarkaupstaðar þann 12. maí 2010 hafi spurningar á atkvæðaseðil verið samþykktar. Jafnhliða sveitarstjórnarkosningum þann 29. maí 2010 hafi farið fram atkvæðagreiðsla samkvæmt 5. mgr. 104 gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 meðal íbúa Grímseyjar þess efnis hvort leyfa ætti hundahald í Grímsey. Hafi niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið sú að 33 voru andvígir hundahaldi en 20 samþykkir hundahaldi.  Í kjölfar niðurstöðu kosninganna hafi verið gerð drög að nýrri hundasamþykkt fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Hafi ný samþykkt verið rædd á fundum framkvæmdaráðs Akureyrarkaupstaðar, sem fari með málefni hundahalds í umboði heilbrigðiseftirlitsins, þann 3. og 17. september 2010 og drög að nýrri samþykkt verið send heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra til samþykktar.  Samþykkt um hundahald hafi síðan verið afgreidd frá framkvæmdaráði þann 17. nóvember 2010 og aftur þann 10. desember 2010 eftir breytingar í bæjarstjórn.  Tvær umræður hafi farið fram um samþykktina í bæjarstjórn, sú fyrri 7. desember 2010 en hin síðari 21. desember 2010 og hafi samþykktin þá verið samþykkt.  Umrædd samþykkt hafi síðan verið send Umhverfisráðuneytinu til samþykktar og ráðherra samþykkt hana þann 14. mars 2011.  Þann 28. mars 2011 hafi samþykktin verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og þar með tekið gildi.

 

Í greinargerð kærða segir síðan að samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað hafi farið löglegan feril innan stjórnsýslu bæjarins samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og hafi hún verið samþykkt af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samþykktin hafi hlotið þá löglegu meðferð sem krafist sé samkvæmt sveitarstjórnarlögum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

Þá kemur m.a. fram í greinargerðinni að samkvæmt 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir geti sveitarfélög sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin.  Heimilt sé að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Með vísan til niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hafi bann við hundahaldi í Grímsey verið sett í nýja samþykkt um hundahald, sem staðfest hafi verið af Umhverfisráðuneytinu 14. mars 2011 og tekið gildi við birtingu í Stjórnartíðindum 28. mars 2011.  Þá er tekið fram að bann við hundahaldi í Grímsey styðjist við langa hefð og hafi hundahald verið bannað þar í 50 ár.

 

Varðandi athugasemdir kæranda við atkvæðagreiðsluna í Grímsey frá því í maí 2010 segir í greinargerð kærða að fyrir atkvæðagreiðsluna hafi öllum þeim sem höfðu lögheimili í Grímsey verið send gögn til kynningar um atkvæðagreiðsluna ásamt þeirri spurningu sem lögð yrði fyrir þá jafnhliða sveitarstjórnarkosningunum og þeir beðnir um að kynna sér málið vel.

 

Þá segir í greinargerðinni að rétt sé að bann við hundahaldi, sem verið hafi í Grímsey í 50 ár, hafi ekki verið sett í sérstaka samþykkt sem birt hafi verið í Stjórnartíðindum.  Þess vegna hafi verið nauðsynlegt að verða við vilja íbúanna um að láta fara fram nýja atkvæðagreiðslu árið 2010, þrátt fyrir að atkvæðagreiðsla sama efnis hafi farið fram árið 2006, og setja sérstakt ákvæði í nýja samþykkt um hundahald þar sem vilji meirihluta íbúanna hafi verið hafður að leiðarljósi.

 

Varðandi hvort leita hafi átt umsagnar Umhverfisstofnunar vísar kærði til þess að Umhverfisráðuneytið hafi ekki stöðu kærða í málinu.

 

Með tölvupósti bæjarlögmanns Akureyrar,  dags. 11. febrúar s.l. var því komið á framfæri að kærði myndi ekki koma að frekari gögnum í málinu og sæi ekki ástæðu til.

 

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

 

Þegar hefur verið tekin afstaða til krafna kærða í málinu á þá leið að staðfesta þá ákvörðun kærða að banna alfarið hundahald í Grímsey í samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað nr. 321/2011.

 

Eftir stendur að taka afstöðu til hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 sé nýmæli sem leiða eigi til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar og til ágreinings er varðar kosningar um hundahald í Grímsey.

 

Sveitarstjórnum er heimilt að setja sér eigin samþykktir m.a. sem varða bann eða takmörkun gæludýra- og húsdýrahalds, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. sömu laga skal heilbrigðisnefnd semja drög að samþykktum og leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra.  Sé um nýmæli að ræða í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfestir samþykktina.  Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. sömu laga skulu samþykktir sveitarfélaga birtar í B-deild Stjórnartíðinda á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga.

 

Í málinu er um það deilt af hálfu málsaðila hvort ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011, sem bannar hundahald í Grímsey, sé nýmæli eða ekki og þar með hvort ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en hann staðfesti samþykktina, sbr. ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Úrskurðarnefndin hefur engar athugasemdir við framkvæmd setningar samþykktar nr. 321/2011 og telur að gætt hafi verið þeirra formskilyrða sem sett eru fyrir setningu slíkra samþykkta í 1. málslið 2. mgr. og 4. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 

Vegna málsins óskaði úrskurðarnefndin eftir eftir umsögn um það hvort Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi leitað umsagnar Umhverfisstofnunar um umrætt ákvæði vegna staðfestingar á samþykktinni og hafi það ekki verið gert hver hafi verið ástæða þess. Svar ráðuneytisins barst þann 1. júlí s.l. með bréfi dags. 27. júní 2014. Í svarbréfi ráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar vegna staðfestingar ráðherra á samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað. Einnig segir að "ákvæði 1. tl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kveði á um að sveitarfélögum sé heimilt að banna gæludýrahald í samþykktum sínum. Í reglugerð nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir, sem gildi sem fyrirmynd að lögreglusamþykktum sveitarfélaga, sem komi í stað lögreglusamþykktar þar sem lögreglusamþykkt er ekki sett, sé auk þess hundahald í þéttbýli bannað í 30. gr. en sveitarstjórnum heimilað að kveða á um annað fyrirkomulag í sérstökum samþykktum á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í ljósi framangreindra laga- og reglugerðarákvæða hafi það verið mat ráðuneytisins að 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 ætti ekki við í málinu enda ekki um nýmæli í samþykktum sveitarfélags að ræða".

 

Með vísan til alls framangreinds og allra málsatvika telur nefndin ekki unnt að líta svo á að ákvæði í umræddri samþykkt um bann við hundahaldi hafi falið í sér nýmæli og því hafi umhverfisráðherra ekki borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar.  Í málinu liggur fyrir að bann við hundahaldi í  Grímsey hafi verið almennt viðurkennt í u.þ.b. 50 ár hundahaldi í við setningu umræddrar samþykktar. Bannið í eynni byggist þannig á áratuga hefð. Þá liggur fyrir að árið 2006 fór óvefengjanlega fram atkvæðagreiðsla í eynni um tillögu um að afnema bann við hundahaldi.  Atkvæði féllu þannig að meirihluti íbúa var á móti því að afnema bannið. Eftir sameiningu við  Akureyrarkaupstað þótti rétt að íbúar í Grímsey fengju aftur tækifæri til að kjósa um hunda- og kattahald í eynni.  Þann 29. maí 2010 fór fram atkvæðagreiðsla þess efnis hvort leyfa ætti hundahald í Grímsey og var sem fyrr meirihluti íbúa því andvígur. Í kjölfar þessa var svo sett samþykkt um hundahald sem deilt er um í málinu. Úrskurðarnefndin tekur undir þau sjónarmið kærða að umrædd samþykkt feli ekki í sér nýtt bann við hundahaldi enda var ekki verið að breyta fyrirkomulaginu heldur staðfesta framkvæmd sem gilt hafði um langt árabil og sem íbúar höfðu kosið um. Þannig hafi ekki verið um nýmæli að ræða.

Með vísan til framanritaðs telur nefndin þannig að umhverisráðherra hafi ekki borið að bera ákvæði samþykktarinnar undir Umhverfisstofnun. Ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir um staðfestingu ráðherra á samþykktinni, felur í sér skyldu fyrir ráðherra til að endurskoða og hafa eftirlit með því að viðkomandi gerningur, í þessu tilfelli samþykkt sveitarfélags, sé lögmætur.  Við staðfestingu á samþykktinni bar ráðherra þannig að gæta þess að hún væri tekin af þar til bærum aðila að undangenginni lögmæltri málsmeðferð. Þá bar ráðherra að gæta þess að samþykktin hefði næga lagastoð og væri í samræmi við lög og grundvallarreglur stjórnsýsluréttar.

Þá liggur ekki annað fyrir en að eðlilega hafi verið staðið að kosningum meðal íbúa Grímseyjar um hundahald og kærandi hefur ekki ýnt fram á að framkvæmdin hafi leitt til óeðlilegrar niðurstöðu sem áhrif kunni að hafa haft í málinu. Tekið er undir röksemdir kærða hvað það varðar.  Fyrir liggur að kosningin snérist um bann við hundahald í eynni og felur það í sér að um algjört bann er að ræða.

 

Í beiðni kæranda um að málið yrði tekið fyrir að nýju var óskað eftir að nefndin taki til athugunar hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum.  Endurupptaka málsins er ekki nýtt mál heldur felur í sér að sama mál er tekið til meðferðar á ný.  Eingöngu er um að ræða endurupptöku á þeim þáttum sem vísað var frá nefndinni í úrskurði hennar þann 10. nóvember 2011. Ekki er unnt að koma að nýjum kröfum og röksemdum í málinu enda hefur nefndin þegar tekið efnislega afstöðu til ágreiningsins.  Nefndin telur sig ekki bæra til að taka afstöðu til þessara krafna.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Talið er að ákvæði 1. mgr. 2. gr. samþykktar nr. 321/2011 feli ekki í sér nýmæli sem leiða hefði átt til þess að ráðherra hafi borið að leita umsagnar Umhverfisstofnunar um samþykktina. Talið er að eðlilega hafi verið staðið að kosningum um hundahald í Grímsey.

 

Hafnað er að taka afstöðu til hvort takmörkun sú sem falin er í algjöru hundabanni í Grímsey sé brot á Evrópusáttmála um gæludýr, European Convention for the Protection of Pet Animals,j eða Rómarsáttmálanum um gæludýr sem Ísland er aðili að í ljósi þess að Noregur, Svíþjóð og Danmörk eru aðilar að sáttmálanum. 

 

  

 Steinunn Guðbjartsdóttir

 

                                Gunnar Eydal                                                                        Arndís Soffía Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira