Hoppa yfir valmynd

Nr. 190/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 190/2019

Föstudaginn 9. ágúst 2019

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 14. maí 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 26. apríl 2019, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) getur skuldari kært til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana innan tveggja vikna frá því að ákvörðunin barst honum. Að mati úrskurðarnefndarinnar kemur ekki nægjanlega skýrt fram í gögnum málsins hvenær hin kærða ákvörðun barst kæranda. Af því leiðir að ekki er unnt að staðreyna hvort liðið hafi meira en tvær vikur frá því að ákvörðun barst kæranda og þar til kært var. Af þessum ástæðum telur úrskurðarnefndin ekki unnt að slá því föstu að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufrestur var liðinn. Úrskurðarnefndin telur því rétt að taka málið til meðferðar.

Með bréfi 24. maí 2019 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. júní 2019.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 3. júní 2019 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd X. Hún þiggur örorkulífeyri.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá júlí 2019 eru 1.890.187 krónur.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hjá Embætti umboðsmanns skuldara 23. ágúst 2018. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. desember 2018 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og henni skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Umsjónarmaður tilkynnti í bréfi til umboðsmanns skuldara 26. febrúar 2019 að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um mikilsverðar aðstæður í málinu, þ.e. aðstæður varðandi búsetu og greiðslu húsaleigu. Umsjónarmaður lagði því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 4. apríl 2019 var kæranda gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. apríl 2019 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst leita til úrskurðarnefndarinnar þar sem hana vanti aðstoð og óski hún eftir því að umsókn hennar verði endurskoðuð. Skilja verður þetta svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hennar til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa verið hafnað hjá umboðsmanni skuldara vegna villandi upplýsinga. Þetta finnist henni skrítið því að umboðsmaður sjái sjálfur um að sækja gögn með leyfi kæranda. Það eina sem umboðsmaður setji út á sé það að kærandi hafi ekki sagt frá húsaleigubótum sem hún hafi fengið greiddar 2018. Kærandi hafi ekki vitað betur en að hún hafi sagt upp húsaleigubótum og haldið að þær dyttu sjálfkrafa út. Samt hafi hún fengið bæturnar áfram. Hennar mistök hafi kannski verið að stoppa þær ekki strax.

Kerfið virki greinilega ekki og kærandi sitji í súpunni en þeir eigi að stoppa um leið og maður segi húsaleigubótunum upp.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Til skoðunar hafi komið hvort kærandi uppfyllti búsetuskilyrði lge. Kærandi hafi haft lögheimili að B, en athugun umsjónarmanns hafi gefið til kynna að hún væri búsett á C.

Kærandi muni upphaflega hafa verið leigutaki íbúðar að B, en samkvæmt upplýsingum, sem kærandi hafi veitt umsjónarmanni í símtali 10. apríl 2019, hafi [...] yfirtekið leigusamninginn í janúar 2018. Á þeim tíma hafi kærandi sjálf flutt „með annan fótinn“ til C. Lagt hafi verið fram yfirlit yfir millifærslur kæranda til [...] sem sýni mánaðarlegar innborganir að fjárhæð 70.000 krónur frá janúar til og með apríl 2019. Færslan í janúar sé nefnd „leiga“ en hinar með „millifært“. Samkvæmt upplýsingum frá Húsbót sé leiga fyrir B 135.000 krónur á mánuði. Því megi að mati umboðsmanns skuldara gera ráð fyrir að kærandi hafi frá síðustu áramótum tekið þátt í leigukostnaði með [...].

Aðspurð út í þessar aðstæður hafi kærandi greint frá því að hún hafi verið búsett á C, en [...]. Hún kveðist jafnframt geta verið búsett á Íslandi, verði það til þess að mál hennar fái áframhaldandi meðferð hjá embættinu.

Í ljósi þess að kærandi sé með lögheimili á B og einnig þess að frá janúar síðastliðnum hafi hún sýnt fram á að hún tæki þátt í leigukostnaði íbúðar á B, verði ekki fullyrt að aðstæður séu með þeim hætti að búsetuskilyrði kæranda séu ekki uppfyllt í málinu.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Mikilvægt sé að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín og taki virkan þátt og sýni viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á stöðu sína og aðstæður. Í bréfi Embættis umboðsmanns skuldara til kæranda 4. apríl 2019 sé rakið að kærandi hafi veitt þær skýringar á þessu að samkvæmt framlögðum millifærslukvittunum vegna greiddrar leigu væri [...] greiðandi leigunnar en ekki hún. Með því að greiða fyrir hana leiguna væri [...] að endurgreiða lán sem kærandi hefði áður veitt [...]. Fram hefði komið að kærandi myndi byrja að greiða leigu aftur í janúar 2019 en þá hefði [...] endurgreitt lánið.

Eftir að innköllunarfrestur hafi verið liðinn og umsjónarmaður aftur hafið vinnslu málsins hefði athugun leitt í ljós að kærandi kynni að vera búsett á C. Því virtist kærandi ekki hafa veitt réttar upplýsingar um aðstæður sínar í aðdraganda þess að henni hefði verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Í kjölfar fyrrnefnds bréfs umboðsmanns skuldara 4. apríl 2019 hafi kærandi lýst því yfir að hún hefði verið „með annan fótinn“ á C allt árið 2018  og að [...] hefði yfirtekið leigusamninginn að íbúðinni við B í ársbyrjun 2018. Kærandi hefði greitt [...] 70.000 krónur upp í leiguna frá janúar 2019 og væri með lögheimili á eigninni. Þá hefði hún búið hjá [...] á C og ekki borið fastan leigukostnað þar heldur hafi hún og [...] hjálpast að með útgjöld tengd heimilishaldi. Einnig lýsti kærandi því yfir að hún [...] og að hún myndi dvelja á Íslandi áfram, yrði það til þess að mál hennar fengi áframhaldandi afgreiðslu hjá embættinu.

Athugun Embættis umboðsmanns skuldara hafi leitt í ljós að kærandi fengi enn greiddar húsnæðisbætur vegna íbúðarinnar að B, síðast í apríl 2019. Samkvæmt upplýsingum á vef Húsbótar sé það skilyrði fyrir greiðslum húsnæðisbóta að umsækjandi sé með fasta búsetu í leiguhúsnæðinu. Þar segi einnig að umsækjandi, sem eigi lögheimili á Íslandi en búi tímabundið erlendis, teljist ekki með fasta búsetu þar sem hann eigi lögheimili og eigi því ekki rétt á húsnæðisbótum á meðan hann búi erlendis. Kærandi hafi verið spurð um ástæður þess að hún þæði enn húsnæðisbætur frá Húsbót þótt hún hefði ekki greitt húsaleigu frá því í árslok 2017. Kærandi hafi veitt þá skýringu að hún hefði nýlega tilkynnt Húsbót um að leigutíma væri lokið.

Þó að upplýsingagjöf kæranda í aðdraganda þess að henni hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar hafi ekki verið í fullu samræmi við raunverulegar aðstæður hennar þyki þær upplýsingar og þau gögn, sem hún hafi nú lagt fram gefa nokkuð glögga mynd af búsetu og húsnæðiskostnaði kæranda.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar og villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar séu í málinu.

Eins og rakið hafi verið í bréfi Embættis umboðsmanns skuldara frá 4. apríl 2019 hafi ekki annað legið fyrir í máli kæranda þegar henni hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar en að hún væri búsett í leiguhúsnæði að B og að [...] stæði tímabundið undir leigukostnaði fyrir hana þar sem [...] væri með því móti að endurgreiða henni [...]. Í samskiptum við Embætti umboðsmanns skuldara í aðdraganda þess að umsókn kæranda hefði verið samþykkt, hafi ekki komið fram að kærandi væri í reynd ekki búsett á B heldur á C. Þá hafi heldur ekkert komið fram um að [...] hefði yfirtekið húsaleigusamninginn vegna B í upphafi árs 2018 eða að kærandi hefði í reynd ekki borið neinn húsnæðiskostnað á árinu 2018, en engu að síður haldið áfram að þiggja húsnæðisbætur.

Í málinu liggi fyrir að umsjónarmaður og kærandi hafi verið í samskiptum í aðdraganda þess að kæranda hafi verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þar hafi hún meðal annars greint frá peningaláninu til [...]. Umsjónarmaður og kærandi hafi talað saman í síma dagana 11., 12. og 17. desember 2018. Að mati umboðsmanns skuldara verði að telja að þá hafi kærandi haft tækifæri til að veita umsjónarmanni réttar upplýsingar um búsetu sína og húsnæðiskostnað.

Í greinargerð frumvarps til lge. komi fram í athugasemdum við d-lið 1. mgr. 6. gr. að ef ætla megi að tilgangur skuldara með því að leggja fram rangar upplýsingar sé að geta talist falla undir skilyrði greiðsluaðlögunar, þá beri að hafna umsókn.

Markmið greiðsluaðlögunar sé að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa eða eftir atvikum með niðurfellingu skulda að hluta til eða að öllu leyti. Samkvæmt lge. sé skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt sé þar sem í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum. Upplýsingar um framfærslukostnað kæranda séu grundvallarupplýsingar í málinu og nauðsynlegar til að unnt sé að meta greiðslugetu og þar af leiðandi hvaða fjárhæð kærandi geti greitt af skuldbindingum sínum á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í ljósi framangreinds verði að telja að kæranda hafi mátt vera ljóst að þær upplýsingar, sem Embætti umboðsmanns skuldara hafi haft um heimilisaðstæður hennar, væru ekki réttar. Með vísan til þess að kærandi hafi látið hjá líða að greina umsjónarmanni frá því að hún hefði verið búsett á C mestan hluta ársins 2018 og að hún hefði ekki greitt neina húsaleigu á því ári, verði að telja að hún hafi veitt villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar séu í málinu. Þó að kærandi hafi veitt Embætti umboðsmanns skuldara umbeðnar upplýsingar í kjölfar bréfs 4. apríl 2019, meti embættið það svo að sú háttsemi að láta hjá líða að upplýsa umsjónarmann um raunverulega heimilishagi sína og húsnæðiskostnað leiði til þess að kærandi falli ekki undir skilyrði greiðsluaðlögunar. Því beri að fella niður umsókn á grundvelli 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal samkvæmt þessu veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi ekki gefið embættinu réttar upplýsingar um framfærslukostnað sinn. Nánar tiltekið hafi hún ekki borið neinn húsnæðiskostnað á árinu 2018, en þrátt fyrir það þegið húsnæðisbætur vegna greiðslu húsaleigu. Hún hafi ekki upplýst umsjónarmann sinn um þetta.

Í umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 23. ágúst 2018 kemur fram að hún leigi 80 fermetra íbúð fyrir 150.000 krónur á mánuði. Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir sýnt í ljósi fyrirliggjandi gagna að kærandi hafi í reynd verið búsett á C stóran hluta ársins 2018 og að hún væri ekki að greiða húsaleigu.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar viðurkenndi kærandi að hafa ekki upplýst umboðsmann skuldara um húsaleigubætur sem hún fékk greiddar árið 2018. Hún vísar til þess að hún hefði sagt húsaleigubótunum upp og því hafi hún haldið að þær féllu þar með niður.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Til að þetta sé mögulegt verður að liggja fyrir hver framfærslukostnaður sé og hverjar tekjur viðkomandi einstaklings séu og hvort og þá hvaða fjármuni hann muni hafa til að greiða af skuldum sínum. Þessar upplýsingar byggja eðli málsins samkvæmt að miklu leyti á upplýsingum frá skuldara sjálfum. Gefi skuldari ekki réttar upplýsingar eða leyni upplýsingum verður tilgangi greiðsluaðlögunar ekki náð.

Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur samkvæmt framangreindu fyrir að kærandi leyndi mikilsverðum upplýsingum um fjárhag sinn, enda er húsnæðiskostnaður að jafnaði nokkur hluti framfærslukostnaðar einstaklings. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, bar að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara 26. apríl 2019 um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

F. h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 

 

 

 

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir                                                            Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira