Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 495/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 495/2016

Mánudaginn 10. apríl 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 21. desember 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. nóvember 2016 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C. Er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

I. Málsatvik og málsmeðferð

C er fædd árið X. Hún er rúmlega X ára og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi er faðir stúlkunnar en hann hefur aldrei farið með forsjána. Móðir stúlkunnar var svipt forsjá með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í X2012.

Stúlkan hefur verið í fóstri hjá núverandi fósturforeldrum frá því í X er hún var X mánaða. Hún hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá því í X og er fóstrinu ætlað að standa til 18 ára aldurs stúlkunnar. Á heimilinu býr einnig dóttir fósturforeldranna sem er fædd X.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað fyrst upp úrskurð um umgengni kæranda við stúlkuna 19. júní 2012. Samkvæmt þeim úrskurði var umgengnin fjórum sinnum á ári á heimili föðurömmu í þrjár klukkustundir í senn. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur kvað aftur upp úrskurð í málinu 18. mars 2014 þar sem kærandi óskaði eftir rýmri umgengni, en með úrskurðinum var umgengni ákveðin sú sama og í fyrri úrskurði. Kærunefnd barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) staðfesti seinni úrskurðinn með úrskurði 9. júlí 2014.

Umgengni stúlkunnar við kæranda hefur ávallt farið þannig fram að kærandi hefur haft samband við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur og óskað eftir umgengni á tilteknum tíma. Starfsmaður hefur milligöngu um að finna tíma sem hentar öllum aðilum. Föðuramma hefur síðan sótt stúlkuna á fósturheimilið og farið með hana á sitt heimili þar sem hún hittir kæranda og umgengni fer fram. Samkvæmt úrskurði á umgengni að vera í þrjár klukkustundir í senn en í raun hefur stúlkan verið mun lengur í umgengninni. Umgengni fór þrisvar fram árið 2016, þ.e. 31. janúar, 1. maí og 28. ágúst. Kærandi nýtti sér ekki umgengnina í fjórða skiptið sem stóð til að yrði í desember 2016.

Samkvæmt því sem segir í greinargerð starfsmanns barnaverndar 11. nóvember 2016 hefur komið fram hjá fósturforeldrum að kærandi og föðuramma stúlkunnar hafi haft mun meiri aðgang að stúlkunni en úrskurður segir til um, sérstaklega árið 2015. Á árinu 2015 kom kærandi í heimsóknir á fósturheimilið. Hann kom einnig á […] hjá stúlkunni þegar hún var á [námskeið] og gaf henni spjaldtölvu. Þá hefur stúlkan fengið að hitta föðurömmu undanfarin ár, hún hefur farið til hennar í heimsóknir og jólaboð en þar hefur stúlkan hitt kæranda. Fósturforeldrar hafa látið kæranda og föðurömmu vita að þau séu velkomin í heimsókn, þeim hefur verið boðið í afmæli stúlkunnar og hefur föðuramma þegið það. Kærandi kom í heimsókn með móður sinni á afmælisdegi stúlkunnar árið 2015 og færði henni afmælisgjöf. Föðuramma kom í heimsókn í kringum afmælið 2016.

Barnavernd Reykjavíkur barst tölvupóstur frá lögmanni kæranda 2. janúar 2016. Í kjölfarið var kæranda og lögmanni hans boðið að koma á fund starfsmanna barnaverndar 19. janúar 2016. Á þeim fundi óskaði kærandi eftir aukinni umgengni við stúlkuna, þ.e. að umgengni yrði einn sólarhring í mánuði þannig að stúlkan gisti hjá honum. Kvaðst kærandi búa við góðar aðstæður í leiguhúsnæði, hann væri edrú og hefði unnið vel í sínum málum. Kærandi sagðist hafa áhyggjur af líðan stúlkunnar og taldi að henni liði ekki vel á fósturheimilinu. Hann óskaði eftir því að stúlkan fengi að ræða við barnasálfræðing.

Fjallað var um beiðni kæranda á fundi starfsmanna barnaverndar 27. janúar 2016. Afstöðu fósturforeldra hafði verið aflað og lögðust þau gegn aukinni umgengni. Þá vildu þau að umgengni færi fram á fósturheimilinu en ekki á heimili föðurömmu eins og verið hafði. Þau greindu frá því að reynslan af því að leyfa meiri umgengni en úrskurður kvæði á um hefði skapað tilfinningalegt umrót fyrir stúlkuna. Þeim fyndist góð reynsla af því að umgengni við kynmóður færi fram á fósturheimilinu. Stúlkan væri viðkvæm og hefði í gegnum tíðina þolað illa breytingar. Var það mat starfsmanna að það samrýmdist ekki markmiðum með varanlegu fóstri að umgengni yrði aukin eins og kærandi hefði óskað eftir. Fósturforeldrar samþykktu að mat barnasálfræðings yrði fengið. Var því lagt til að aflað yrði sálfræðimats, meðal annars vegna umgengni við kæranda og þegar matið lægi fyrir yrði tekin endanleg afstaða til beiðni kæranda.

Sálfræðimat lá fyrir 26. september 2016. Niðurstöður sýndu meðal annars misstyrk í vitþroska stúlkunnar og mállega veikleika. Þar sem stúlkan glími við athyglisbrest (ADHD) var mælt með aðlögun umhverfis, heima og í skóla, á þann hátt sem henti slíkum börnum. Jafnframt var mælt með ráðgjöf til foreldra um uppeldisaðferðir við hæfi barna með ADHD. Stúlkan glími við mótþróafulla hegðun og erfiðleika við skapstjórn. Mælt sé með áframhaldandi reglu og rútínu en ljóst þótti að stúlkan væri sérstaklega viðkvæm fyrir öllum breytingum og raski á rútínu. Þá var mælt með því að umgengni við kynforeldra og fjölskyldur væri í takti við þroska og líðan stúlkunnar. Það hefði gefist vel fyrir líðan stúlkunnar að umgengni við kynmóður færi fram á heimili fósturforeldra. Gæti það einnig gefið góða raun hvað umgengni hennar við kynföður varðaði. Í huga stúlkunnar væri þetta líklega hennar eina heimili þar sem hún ætti ekki minningar um að hafa búið með kynforeldrum. Eðlilegast gæti því verið að umgengni færi fram á heimili hennar.

Fjallað var um mál stúlkunnar á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 28. september 2016. Í bókun fundarins kom fram að starfsmenn tækju undir mat sálfræðings og teldu mikilvægast að stúlkan upplifði öryggi og að hún tilheyrði fósturfjölskyldunni. Lögðu starfsmenn til að umgengni yrði fjórum sinnum á ári á fósturheimilinu, eða á öðrum stað sem aðilar væru sammála um, í tvær klukkustundir í senn. Umgengni yrði undir eftirliti til að koma í veg fyrir að kærandi ræddi óviðeigandi atriði við stúlkuna, svo sem hvort hún vildi gista hjá honum.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við stúlkuna var með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 24. nóvember 2016 ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi umgengni við föður sinn, A, fjórum sinnum á ári, þrjár klukkustundir í senn. Umgengni verði í mars, júní, október og desember og fari fram á heimili barnsins. Umgengni verði með þessum hætti í varanlegu fóstri“

II. Sjónarmið kæranda og kröfur

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2016 verði felldur úr gildi. Því til stuðnings vísar kærandi til meginreglna barnaverndarlaga og meginreglna stjórnsýsluréttar, aðallega 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er vísað til 70. gr., sbr. 74. gr. bvl., svo og 7. mgr. 4. gr. laganna. Einnig er vísað til meginreglna barnaréttar, meðal annars 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2013 sem og 3. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013. Loks er vísað til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Kærandi vísar til þess að kynmóðir stúlkunnar hafi verið svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X. Kærandi hafi aldrei farið með forsjána en hann hafi staðið með barnavernd varðandi forsjársviptingu móður. Hann hafi samþykkt að stúlkunni yrði best komið hjá umræddum fósturforeldrum, enda hafi honum verið talin trú um að umgengni yrði ríkuleg. Kærandi hafi talið sig geta treyst fósturforeldrunum, enda séu kærandi og fósturfaðir stúlkunnar systrasynir, og hafi umgangur og tengsl á milli fjölskyldnanna ávallt verið mikil. Kærandi heldur því fram að vondar tilfinningar hafi farið að láta á sér kræla hjá fósturfjölskyldu eftir því sem árin liðu. Sú afstaða þeirra að leyfa mikla og góða umgengni kæranda við dóttur sína hafi vikið fyrir óöryggi þeirra gagnvart stöðu sinni í lífi stúlkunnar. Telur kærandi það á endanum hafa eyðilagt alla samvinnu stórfjölskyldunnar sem hafi viljað halda saman utan um stúlkuna. Telur kærandi sig og dóttur sína afar tengd og að stúlkunni hafi ávallt liðið mjög vel í umgengni hjá sér. Kærandi hafi ítrekað óskað eftir frekari umgengni og telur ekkert standa í vegi fyrir því. Stúlkan sé X ára gömul og telur hann engin merki hjá henni um kvíða eða vanlíðan í tengslum við umgengni. Hann telur á hinn bóginn þá spennu sem myndist inni á heimilinu hjá fósturforeldrunum sjálfum geti haft neikvæð áhrif á stúlkuna og hennar eigin upplifun. Kærandi bendir á að samkvæmt greinargerð starfsmanns barnaverndar virtist stúlkan oftast sátt við að fara í umgengni til kæranda og kæmi til baka í góðu jafnvægi en fósturforeldrar hafi aðra sögu að segja. Því telji kærandi að spyrja þurfi hvað valdi því að stúlkan finni til vanlíðunar inni á fóstur­heimilinu. Samkvæmt skýrslu talsmanns stúlkunnar komi fram að stúlkunni finnist gaman að hitta kæranda. Aðspurð hvort hún vilji hitta kæranda á heimili hans og jafnvel gista kveðist hún vilja það.

Rök starfsmanna barnaverndar um að umgengni þurfi að vera takmörkuð til að tryggja góð tengsl stúlkunnar við fósturforeldra telur kærandi haldlítil. Stúlkan hafi verið í fóstri frá X mánaða aldri og því þurfi ekki að óttast tengslaröskun þó að stúlkan fái að gista utan heimilis. Stúlkan þekki ekki annað heimili en hjá fósturforeldrum en kærandi telur afar mikilvægt að hún fái notið samveru með fleiri meðlimum stórfjölskyldunnar líkt og eðlilegt þyki í stórfjölskyldum. Ekkert óeðlilegt þyki að barn fái að gista hjá ömmu og afa eða að barn eigi jafnvel margar ömmur, nokkrar mömmur og pabba. Þannig fái barnið notið þess besta hjá öllum en því miður virtist starfsfólk barnaverndar fast í því að láta eins og aðstæður stúlkunnar, sem búið hafi á heimilinu í nærri X ár, séu svo brothættar að önnur tengsl við stórfjölskylduna gætu skaðað hana. Þessu séu kærandi og föðurfjölskylda ósammála. Ekkert hafi komið fram sem styðji þá kenningu að umgengni við kæranda rugli hana á einhvern hátt eða komi í veg fyrir eðlilega tengslamyndun við fósturforeldra. Þá sé heldur ekki hægt að hafna kröfu kæranda um aukna umgengni með þeim rökum að verði umgengni við hann aukin megi reikna með að móðir muni einnig óska eftir frekari umgengni og það yrði of mikið álag fyrir stúlkuna. Fyrir liggi að umgengni stúlkunnar við kynforeldra hafi til þessa verið ákveðin sitt í hvoru lagi og engin rök til þess að breyta því fyrirkomulagi.

Samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur skuli kærandi hitta dóttur sína fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn á heimili fósturforeldra. Kærandi óski eftir því að umgengni verði á heimili sínu og móður sinnar líkt og verið hafi. Hann telji óviðunandi að umgengni fari fram á heimili fósturforeldra þar sem kærandi sé gestur á því heimili. Umgengni verði mun frjálsari og eðlilegri fari hún fram í hans umhverfi. Föðuramma stúlkunnar taki undir það en umgengni hafi hingað til farið fram á heimili föðurömmu sem hafi ávallt verið viðstödd. Segi hún stúlkunni líða vel í umgengni við föður og að stúlkan hafi að eigin frumkvæði stungið upp á því við föður að gista hjá honum. Kærandi telji rétt að fara að vilja stúlkunnar, enda hafi hún þroska til að hans mati. Kærandi hafi haft frumkvæði að því að gert yrði sálfræðimat á stúlkunni en hann hafi talið að henni liði ekki nægilega vel á fósturheimilinu.

Þess beri að geta að stúlkan telji föðurforeldra upp sem ömmu sína og afa. Verði að teljast eðlilegt að stúlkan njóti eðlilegrar umgengni við svo nána ættingja sem ömmu sína og afa. Hafi þau óskað eftir sjálfstæðri umgengni og segi föðuramma það sárt að þurfa að neita stúlkunni um að fá að gista hjá sér, enda teljist það eðlilegt í flestum fjölskyldum að börn gisti hjá ömmu sinni og afa.

Stjórnvöldum beri ávallt að líta til meðalhófsreglunnar þegar þau standi frammi fyrir því að taka íþyngjandi ákvörðun. Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur sé að mati kæranda í andstöðu við þá reglu en samkvæmt 7. mgr. 4. gr. bvl. beri barnavernd að beita vægustu ráðstöfunum sem mögulegt sé til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að. Meðalhófsreglan sé einnig lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umgengni kynforeldris fjórum sinnum á ári við barn sitt undir takmörkuðum kringumstæðum hljóti að teljast svo takmörkuð að brjóti í bága við meðalhófsreglu.

Samkvæmt 9. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013 skuli aðildarríki virða rétt barns sem skilið hafi verið frá foreldrum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldra með reglubundnum hætti, sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Sé jafnframt kveðið á um réttindi barns í fóstri til umgengni við foreldra eða aðra nákomna í 70. gr. bvl. Þurfi að sýna fram á að umgengni kynforeldris við barn sé bersýnilega andstæð þörfum barnsins ef neita eigi því um umgengnisrétt eða takmarka hann verulega, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl. Í tillögu barnaverndar sé ekki að finna nokkuð sem bendi til þess að umgengni sé andstæð hagsmunum stúlkunnar.

Réttur foreldra til að umgangast börn sín, þrátt fyrir að vera ekki með forsjá þeirra, sé tryggður í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi verið lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994. Ákvæðið fjalli um friðhelgi einkalífs og sé sambærilegt við 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Feli það meðal annars í sér friðhelgi fjölskyldulífs en talið er að fjölskyldulíf hefjist við fæðingu barns, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Keegan gegn Írlandi (16969/90), og haldist óháð forsjá. Hafi meðal annars verið talið felast í friðhelgi einkalífs að þekkja uppruna sinn, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Odievre gegn Frakklandi (42326/98).

Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu geti það talist brot á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu að koma í veg fyrir umgengni og hamla þannig foreldrum og börnum að rækta fjölskyldutengsl og þekkja uppruna sinn. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu T gegn Tékklandi (19315/11) hafi það verið talið brot á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þegar ríki komi í veg fyrir að barn sem væri í fóstri fengi að hitta föður sinn og þar með viðhalda fjölskyldutengslum þeirra. Sömu niðurstöðu sé að finna í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Bondavalli gegn Ítalíu (35532/12). Þrátt fyrir að atvik hafi verið þannig í þeim dómum Mannréttindadómstólsins, sem hér hafi verið vísað til, að umgengni hafi verið bönnuð verði að telja að svo takmörkuð umgengni, sem hinn kærði úrskurður feli í sér, hafi svipuð áhrif á tengsl dóttur og föður og væri umgengnin engin.

Umboðsmaður barna hafi einnig bent á að mikilvægt sé fyrir börn að halda tengslum við kynforeldra sína, ekki einungis með tilliti til tilfinningalegra tengsla þeirra á milli heldur einnig svo að barn fái tilfinningu fyrir samfellu í lífi sínu.

Af framansögðu sé ljóst að úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur brjóti gegn friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem og meðalhófsreglu barnaverndarréttar og stjórnsýsluréttar, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. stjórnsýslulaga.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 2. febrúar 2017 er vísað til þess að markmiðið með varanlegu fóstri sé að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn fjölskyldunnar væri að ræða. Tæki umgengni mið af þessu, sbr. 65. og 74. gr. bvl. og reglugerð um fóstur nr. 804/2004. Barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir samkvæmt 74. gr. bvl. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt á umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hve lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir því að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

Stúlkan sé vistuð í varanlegu fóstri og ekki sé annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur, sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða, sé umgengni kynforeldra við barnið yfirleitt mjög takmörkuð. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð all verulega en meta þurfi hagsmuni barns í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar á fósturheimilinu sé það mat Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mikilvægt sé að skapa stúlkunni áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Það sé nauðsynlegt til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan hafi sýnt að umgengni barna í fóstri við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró þeirra, jafnvel þó að ekki sé ágreiningur um umgengnina.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Skýrsla talsmanns C

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns stúlkunnar frá 10. nóvember 2016. Þar kemur fram að henni þyki gaman að hitta kæranda og segist líða vel í umgengni við hann hjá föðurömmu. Hún lýsti því að amma tæki alltaf á móti henni og að kærandi leyfði henni hvað sem hún vildi. Þegar talsmaður hafi spurt hvort stúlkan gæti hugsað sér að hitta kæranda heima hjá honum og jafnvel gista hafi hún sagt já. Spurð hvort hún treysti sér til að fara ein hafi hún sagt já en að mamma hennar segði að það væri ekki hægt. Stúlkan hafi svo sagt að hún væri ekki mikið að gista. Að hún hefði bara einu sinni gist hjá vinkonu og að þá hafi hún farið að gráta. Spurð hvort hún hefði fengið heimþrá svaraði hún já og sagði: „Ég var svo langt í burtu. Hún á heima í D.“ Spurð hvernig henni litist á að hitta kæranda á fósturheimilinu hafi hún svarað: „Hann hefur aldrei komið hingað nema bara einu sinni.“ Spurð nánar hvort hún gæti hugsað sér það, kinkaði hún kolli en var þó orðin nokkuð annars hugar og fór að ræða skólafélagana.

V. Afstaða fósturforeldra

Fósturforeldrar komu á fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 22. nóvember 2016. Töldu þau núverandi fyrirkomulag uppfylla markmið með umgengni í varanlegu fóstri. Nánar tiltekið væri slík umgengni ekki til að viðhalda tengslum heldur til að barnið þekkti uppruna sinn. Stúlkan hefði verið í mun betra jafnvægi eftir að umgengni var minnkuð frá því sem var þegar hún hafi verið í tímabundnu fóstri. Umgengni við kynmóður hafi farið fram á fósturheimilinu og væri í mjög föstum skorðum. Það fyrirkomulag hefði gengið mjög vel og skapaði mun minni streitu hjá stúlkunni en til dæmis umgengni við kæranda sem hefði farið fram utan fósturheimilis. Stúlkan væri örugg á sínu heimili og hefði fósturforeldra sér til halds og trausts ef hún þyrfti styrk, aðstoð eða stuðning. Allt rask væri slæmt fyrir stúlkuna en heima hjá henni væri allt rólegt og í föstum skorðum. Það væri barninu fyrir bestu að umgengnin færi fram á heimili stúlkunnar.

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 29. mars 2017 kemur fram að þar sem kynforeldrar stúlkunnar hefðu slitið samvistir væri umgengni fjórum sinnum á ári hjá kynmóður og fjórum sinnum á ári hjá kynföður eða alls átta sinnum á ári. Með tilliti til markmiða fósturráðstöfunar telja þau núgildandi umgengni mjög rúma og ekki ástæðu til að rýmka hana. Umgengni við kynmóður hefði farið fram á fósturheimili og væri í mjög föstum skorðum. Það fyrirkomulag hefði gengið vel og skapaði mun minni streitu fyrir stúlkuna en umgengni við kynföður sem þar til fyrir stuttu hafi farið fram utan heimilis. Stúlkan sé örugg á heimilinu og umgengni sé fyrirsjáanleg og afslöppuð. Mikilvægt sé að umgengni fari fram í umhverfi þar sem barnið sé öruggt, þrátt fyrir að það kunni að vera íþyngjandi fyrir hina fullorðnu. Stúlkan þoli illa breytingar og rót, henni líði best þegar allt sé í föstum skorðum. Þau vilji að umgengni við kæranda sé hin sama og við kynmóður en það fyrirkomulag hafi virkað vel fyrir stúlkuna.

VI. Niðurstaða

C er rúmlega X ára og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum frá því í X er hún var X mánaða gömul. Stúlkan var í umsjá kynmóður til þess tíma en kynmóðir var svipt forsjá stúlkunnar með dómi árið X.

Kærandi hefur haft reglulega umgengni við stúlkuna samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 18. mars 2014. Samkvæmt þeim úrskurði var umgengnin fjórum sinnum á ári á heimili föðurömmu í þrjár klukkustundir í senn. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2016 var ákveðið að umgengni kæranda við stúlkuna yrði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir og færi fram á heimili fósturforeldra. Kærandi gerir ekki umgengniskröfu fyrir úrskurðarnefndinni en krefst þess að hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2016 verði felldur úr gildi. Þessa kröfu styður kærandi þeim rökum að brotin hafi verið meðalhófsregla við úrlausn málsins hjá barnaverndarnefnd. Telur kærandi að hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur sé í andstöðu við þá reglu að beita skuli vægustu ráðstöfunum sem mögulegt er til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að. Jafnframt byggir kærandi á því að með hinum kærða úrskurði hafi verið brotinn réttur á kæranda samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu og sömuleiðis á stúlkunni samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem tryggi þeim rétt til friðhelgi fjölskyldulífs. Ólögmætt sé að takmarka verulega, líkt og gert hafi verið með hinum kærða úrskurði, umgengni kæranda við stúlkuna nema sýnt hafi verið fram á að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum hennar. Þá hafi ekki verið tekið tillit til vilja stúlkunnar.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum barnsins best með tilliti til þeirrar stöðu sem barnið er í. Umgengni kæranda við stúlkuna þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja henni stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 29. mars 2017. Þau greina frá því að umgengni við kynmóður fari fram á fósturheimilinu og sé í mjög föstum skorðum. Það fyrirkomulag hafi gengið vel en stúlkan sé örugg og umgengni sé fyrirsjáanleg og afslöppuð. Þau telja mikilvægt að umgengni fari fram í umhverfi þar sem barnið er öruggt, þrátt fyrir að það kunni að vera íþyngjandi fyrir þá fullorðnu. Stúlkan þoli illa breytingar og rót og henni líði best þegar allt sé í föstum skorðum. Þau vilji koma umgengni við kæranda í sama horf og verið hefur með kynmóður því að það fyrirkomulag virki vel fyrir stúlkuna.

Að beiðni Barnaverndarnefndar Reykjavíkur var gerð sálfræðileg athugun á þroska og hegðun stúlkunnar í september 2016. Einnig var gert mat á tengslum hennar við fósturforeldra. Í niðurstöðum matsins kemur fram að stúlkan búi við góðan stuðning, reglu og umhyggju á heimilinu. Hún sýni misstyrk í vitþroska og mállega veikleika. Hún glími við athyglisbrest og meta þurfi hvort hún þurfi stuðning í námi. Stúlkan sýni óöryggi í tengslum og kvíðaeinkenni sem beinist að óvissu og breytingum. Þá sé hegðun hennar mótþróafull og hún eigi í erfiðleikum með skapstjórn. Helstu ráð séu áframhaldandi regla og rútína. Einnig að ýta eins og kostur er undir örugga aðlögun hennar í fósturfjölskyldu. Öll samskipti og athuganir á aðlögunartíma bendi til þess að stúlkan hafi myndað góð tengsl við fósturforeldra. Það sé ljóst að vandi stúlkunnar geri hana sérstaklega viðkvæma fyrir öllum breytingum og raski á rútínu. Því gæti þurft fremur lítið til að rask kæmist á tengslamyndun við fósturforeldra. Til marks um þessa viðkvæmni sé leit hennar að staðfestingu á að hún tilheyri fósturfjölskyldunni þegar hún komi úr umgengni við kynföður. Stúlkan virtist taka það nærri sér og ekki sé hægt að útiloka að henni finnist hún ekki tilheyra fjölskyldunni til jafns við systur sína þar sem þær beri ekki sama föðurnafn. Einnig geti spilað inn í að systirin sé alltaf heima hjá foreldrunum á meðan stúlkan fari í umgengni til kynföður utan heimilis. Af þessum sökum þurfi að huga vel að þessu viðkvæma ferli og haga því á þann hátt að sem minnst röskun verði á tengslum systranna. Það gæti haft mikið vægi gegn óöryggi, kvíða og skapstjórnarvanda að skoða möguleika á að öll umgengni fari fram á heimili fósturforeldra með þeirri fjölskyldu sem stúlkan skilgreini sem sína fjölskyldu. Í huga stúlkunnar sé þetta eina heimilið sem hún þekki, enda eigi hún ekki minningar um að hafa búið annars staðar. Þessu væri öðruvísi farið ef hún hefði minningar um að hafa búið hjá kynforeldrum. Til að ýta undir áframhaldandi trygga og góða tengslamyndun stúlkunnar við hennar nánustu fjölskyldu sé mikilvægt að hlífa henni við öllu áreiti vegna umgengnismála og því sem lýtur að samanburði á foreldrum. Tryggja þurfi næði fyrir fósturfjölskylduna til að tryggja áfram góð tengsl, góða líðan fjölskyldunnar og líðan stúlkunnar. Mikilvægt sé að stúlkan upplifi að fósturforeldrar beri höfuðábyrgð á uppeldi hennar og viti hvað henni sé fyrir bestu. Það komi óhjákvæmilega róti og álagi á fjölskyldulífið ef endurskoða eigi umgengni árlega og vandi stúlkunnar og forsaga geti gert hana viðkvæmari en ella fyrir slíku. Hennar vegna sé mælt með varanlegra fyrirkomulagi þar sem endurskoðun fari sjaldnar fram. Því minna álag sem sé á fósturfjölskyldunni því betur líði stúlkunni.

Í hinum kærða úrskurði segir að það sé mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að mikilvægt sé að halda þeim stöðugleika og öryggi sem fósturforeldrar hafi náð að skapa í aðstæðum stúlkunnar. Slíkt sé talið nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Starfsmenn telja engin rök fyrir því að breyta umgengni út frá hagsmunum stúlkunnar. Einnig sé það mat starfsmanna að það þjóni frekar hagsmunum stúlkunnar að færa umgengni á fósturheimilið. Stúlkan sé örugg á heimili sínu en umgengni við kynmóður hafi farið þar fram undanfarin ár og gefið góða raun.

Við úrlausn málsins ber að líta til þess að með því að viðhalda umgengni við kæranda utan heimilis verður að telja að með því yrði tekin áhætta á að raska þeim stöðugleika sem stúlkan hefur svo mikla þörf fyrir. Kærandi vísar til þess að stúlkan hafi af eigin frumkvæði lýst því yfir að hún vilji gista hjá sér. Úrskurðarnefnd álítur að sjö ára barn hafi hvorki nægan þroska til að mynda sér skoðun né geti haft skýran vilja á því hvernig umgengni skuli best háttað við föður eða föðurfjölskyldu. Því þurfi yfirvöld að taka ákvörðun um hvað þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl. Hér fara hagsmunir kæranda og barnsins ekki saman og ekki liggur fyrir að kærandi og stúlkan hafi einhverja sameiginlega hagsmuni sem hér skipta máli. Með umgengni kæranda við stúlkuna er ekki verið að reyna að styrkja tengsl feðginanna frekar heldur viðhalda og hlúa að þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að stúlkan þekki uppruna sinn. Við úrlausn málsins er óhjákvæmilegt að mat fullorðinna liggi til grundvallar því hvað verði talið stúlkunni fyrir bestu varðandi umgengni við kæranda og hvernig lögbundnir hagsmunir hennar verði best tryggðir.

Úrskurðarnefndin telur í ljósi ofangreindra atriða nauðsynlegt að umgengnin fari fram á heimili stúlkunnar og tryggt sé að virt verði þau mörk sem um hana gilda. Með því verði hagsmunir og þarfir stúlkunnar best tryggðir. Að mati úrskurðarnefndarinnar er framangreind niðurstaða í fullu samræmi við ákvæði 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Er í því sambandi jafnframt litið til þess að telja verður að þeir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sem kærandi vísar til hafi ekki fordæmisgildi í málinu.

Þá telur kærandi að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. með því að takmarka umgengni hans á þann hátt sem gert var með hinum kærða úrskurði, en samkvæmt reglunni eigi að beita vægustu úrræðum sem möguleg eru til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Eins og rakið hefur verið gæti það haft mikið vægi gegn óöryggi, kvíða og skapstjórnarvanda stúlkunnar að öll umgengni fari fram á heimili fósturforeldra með þeirri fjölskyldu sem hún skilgreini sem sína fjölskyldu og er sú fjölskylda sem stúlkan tilheyrir. Til að ýta undir áframhaldandi trygga og góða tengslamyndun stúlkunnar við hennar nánustu fjölskyldu telur úrskurðarnefndin að mikilvægt sé að hlífa henni við öllu áreiti vegna umgengnismála og því sem lýtur að samanburði á foreldrum. Umgengni kæranda við stúlkuna utan heimilis fósturforeldra verður að telja að fari gegn hagsmunum hennar. Með tilliti til þessa verður að telja að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt við úrlausn málsins hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Í þessu máli telur barnaverndarnefnd að umgengni sé hæfileg fjórum sinnum á ári á heimili fósturforeldra í þrjár klukkustundir í senn. Úrskurðarnefndin er sammála þessari niðurstöðu og telur hana þjóna hagsmunum stúlkunnar best. Er þá litið til þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem lýst er hér að framan og þess að umgengni í því umhverfi sem raskar ekki ró stúlkunnar verður að teljast til þess fallin að stuðla að því að hún nái að þroskast og dafna sem best.

Með vísan til þess er að framan greinir svo og 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga þykir umgengni kæranda við stúlkuna réttilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 24. nóvember 2016 varðandi umgengni A við dóttur hans, C, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira