Hoppa yfir valmynd

Nr. 44/2015 - Úrskurður - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 44/2015

Miðvikudaginn 27. mars 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með beiðni, dags. 30. október 2018, krafðist B lögmaður, f.h. A, endurupptöku máls nr. 44/2015 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga 1. júlí 2015.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. nóvember 2013, var kærandi talin uppfylla læknisfræðileg skilyrði um hæsta örorkustig og gildistími örorkumatsins var ákvarðaður frá X 2013 til X 2015. Með kæru, dags. 18. febrúar 2014, kærði kærandi upphafstíma örorkumatsins til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Undir rekstri málsins fyrir úrskurðarnefndinni samþykkti Tryggingastofnun ríkisins að greiða kæranda örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann eða frá X 2011. Sú ákvörðun var staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga með úrskurði nr. 71/2014, dags. 6. ágúst 2014.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2014, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að með þessari breytingu á afturvirkni örorkumatsins hafi búsetuhlutfall hennar breyst, þ.e. lækkað úr 47,14% í 21,79%. Með kæru, dags. 5. febrúar 2015, var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem staðfesti niðurstöðu Tryggingastofnunar með úrskurði, dags. 1. júlí 2015. Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis sem lauk máli sínu með áliti, dags. 20. júní 2018, sbr. mál nr. 8955/2016. Í niðurstöðu álits umboðsmanns beinir umboðsmaður því til úrskurðarnefndarinnar að taka mál kæranda til meðferðar að nýju komi fram ósk þess efnis frá henni.

Með beiðni, dags. 30. október 2018, krafðist kærandi endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga með vísan til fyrrgreinds álits umboðsmanns. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur tekið við því hlutverki úrskurðarnefndar almannatrygginga að úrskurða um tiltekin ágreiningsefni samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna og lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefnd velferðarmála féllst á beiðni kæranda um endurupptöku og var Tryggingastofnun gefinn kostur á að skila greinargerð vegna málsins með bréfi, dags. 13. nóvember 2018. Tryggingastofnun óskaði frávísunar málsins með greinargerð, dags. 11. desember 2018, og var sú krafa kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 12. desember 2018. Með athugasemdum umboðsmanns kæranda, mótteknum 4. janúar 2019, var frávísunarkröfu Tryggingastofnunar hafnað. Með bréfi, dags. 11. janúar 2019, var Tryggingastofnun gefinn kostur á að skila efnislegri greinargerð. Engin greinargerð barst frá stofnuninni.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að mál úrskurðarnefndar almannatrygginga verði endurupptekið og leyst verði úr því í samræmi við þau sjónarmið sem koma fram í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016.

Í athugasemdum kæranda frá 4. janúar 2019 kemur fram að kærandi krefjist þess aðallega að hafnað verði frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins og að málið fari áfram í efnismeðferð. Til vara krefst kærandi þess að málið verði látið bíða þar til ljóst er hvernig Tryggingastofnun ætlar að leysa úr máli kæranda. Í athugasemdunum segir að kærandi geti ekki fallist á að rétt sé að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, enda liggi ekki fyrir nein niðurstaða frá Tryggingastofnun. Stofnunin geti ekki komið sér undan því að nefndin kveði upp efnislegan úrskurð með því einu að segjast ætla að endurskoða málið á einhvern hátt án þess að nokkuð nánar liggi fyrir um það. Ef til greina ætti að koma að fella niður málið þyrfti að liggja fyrir hver ný ákvörðun verði eða að minnsta kosti að liggja skýrt fyrir á hvaða forsendum hún muni byggjast. Það komi skýrt fram í greinargerð Tryggingastofnunar að ekkert slíkt liggi fyrir.

Í þessu samhengi sé rétt að minna á að málið hafi verið til meðferðar hjá stjórnvöldum í fjögur ár og allan þann tíma hafi Tryggingastofnun brotið gegn rétti kæranda. Kærandi vilji því að sjálfsögðu ekki að stofnunin geti tafið málið enn frekar með því að ná fram niðurfellingu þess hjá úrskurðarnefndinni, enda þurfi kærandi þá að byrja kæruferli enn einu sinni.

Það væri í hrópandi mótsögn við niðurstöðu álits umboðsmanns Alþingis að fella málið niður, enda hefur umboðsmaður beinlínis beint því til úrskurðarnefndarinnar að taka málið til nýrrar meðferðar. Það sé ekki í anda þeirra tilmæla að varnaraðili málsins geti að eigin frumkvæði knúið fram að málinu verði vísað frá.

Eins og áður segi hafi kærandi haldið fram sjónarmiðum sínum gagnvart Tryggingastofnun í rúm fjögur ár en allan þann tíma hafi stofnunin hafnað sjónarmiðum kæranda. Þær forsendur sem Tryggingastofnun hafi byggt ákvarðanir sínar á í fjölmörg ár hafi hvorki komið fram í lögum um almannatryggingar né öðrum íslenskum lögum. Í greinargerðum Tryggingastofnunar hafi með almennum hætti verið vísað til reglugerða EB án þess að bent hafi verið á skýra stoð fyrir þeirri ólögmætu framkvæmd sem nú hafi staðið í fjölmörg ár.

Velferðarráðuneytið hafi nú lýst því yfir að lagaákvæði séu skýr um það hvernig skuli reikna búsetutímabil, sbr. minnisblað 29. nóvember 2018. Engar lagareglur hafi breyst og þannig hafi Tryggingastofnun tekið ólögmætar, íþyngjandi ákvarðanir í mörg ár í andstöðu við skýr lagaákvæði en með óljósum tilvísunum til Evrópureglna.

Stofnunin þráist enn við að taka réttar ákvarðanir sem leiði af skýrum lagaákvæðum. Nú sé meira en hálft ár liðið frá því að umboðsmaður Alþingis hafi skilað áliti sínu og enn segi Tryggingastofnun að „fjölmargar lögfræðilegar spurningar [hafi] vaknað.“

Mikilvægt sé að fram komi að allan þann tíma sem liðinn sé síðan álitinu var skilað hafi Tryggingastofnun haldið skerðingum sínum gagnvart kæranda áfram og skert bætur eins og ekkert hafi í skorist. Tryggingastofnun hafi einnig gert fjárkröfur sem byggi á sömu forsendum, þrátt fyrir að stofnuninni megi vera ljóst að engin lögmæt stoð sé fyrir slíku.

Þar sem Tryggingastofnun segi að ný útfærsla muni líta dagsins ljós í janúar sé engin ástæða til þess að fella málið niður. Kærandi geti fallist á að Tryggingastofnun fái lengri frest til að skila greinargerð í málinu og í byrjun febrúar liggi þannig fyrir hvernig tekið verði á málinu. Kærandi muni þá skoða hvort rétt verði að halda kærumálinu til streitu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærumáls nr. 44/2015 segir að búsetuhlutfall kæranda sé reiknað miðað við búsetu á Íslandi í X ár og X daga og búsetu í C í X ár, X mánuði og X daga. Búsetuhlutfall kæranda sé því 21,79%.

Búsetuhlutfall sé reiknað út frá búsetu á Íslandi eftir 16 ára aldur fram að fyrsta örorkumati. Framreikningur frá fyrsta örorkumati til 67 ára aldurs skiptist síðan hlutfallslega á þau lönd sem einstaklingur hafi verið búsettur í, sbr. 52. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi staðfest að við útreikning á búsetuhlutfalli skuli miða við upphafstíma mats, sbr. úrskurði í málum nr. 23/2010, 32/2012 og 338/2013.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. desember 2018 segir að samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016 frá 20. júní 2018 hafi Tryggingastofnun ekki verið heimilt að skipta framreiknuðum búsetutíma kæranda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli Íslands og C, án þess að kærandi ætti rétt til sambærilegra greiðslna frá C.

Mál þetta varði framkvæmd Tryggingastofnunar við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyris almannatrygginga sem greiddur sé til þeirra einstaklinga sem búið hafi í fleiri en einu EES-landi og ættu að eiga hlutfallslegan rétt til almannatrygginga frá þeim löndum. Málið snerti því bæði EES-rétt og landslöggjöf. Kærandi hafi þó engan rétt átt frá fyrra búsetulandi sínu, C, þar sem kærandi hafi ekki verið ekki talin vera með nægilega skerta starfsgetu og hafi ekki verið búin að ná 40 ára aldri þegar umsókn um örorku hafi verið lögð fram í C, líkt og lög kveði á um þar í landi. Kærandi hafi því ekki uppfyllt efnisleg skilyrði fyrir örorkulífeyri í C á sínum tíma.

Hér á landi sé réttur til örorku- og ellilífeyris almannatrygginga bundinn við búsetu. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til örorku- og ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Þegar búsetutími sé ákvarðaður vegna mats á rétti til örorkulífeyris sé horft til tveggja atriða, annars vegar raunverulegs búsetutíma hér á landi og hins vegar tímans fram til ellilífeyrisaldurs, nánar tiltekið svokallaðs framtíðarútreiknings er fram komi í 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Líkt og fram hafi komið snúi ágreiningsatriðið í máli þessu að síðari hlutanum, þ.e. framtíðarútreikningi.

Líkt og fram komi hér að framan komist umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að Tryggingastofnun hefði verið óheimilt að skipta framreiknuðum búsetutíma kæranda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli Íslands og C, án þess að kærandi ætti rétt til sambærilegra greiðslna frá C.

Í framhaldi af niðurstöðu í áliti umboðsmanns Alþingis hafi umræddur útreikningur verið skoðaður út frá mörgum hliðum hjá Tryggingastofnun en stofnunin telji óljóst hvernig framkvæmdinni eigi að vera háttað út frá fyrrnefndu áliti. Fjölmargar lögfræðilegar spurningar  hafi vaknað og hafi stofnunin til að mynda sent fyrirspurnir á Norðurlöndin til að fá úr því skorið hvernig þau hafi verið að meðhöndla mál sem þessi út frá Evrópulöggjöf og landslögum þeirra. Stofnunin hafi einnig verið í óformlegum samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þá hafi Tryggingastofnun átt frumkvæði að fundum með velferðarráðuneytinu þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu og aðkomu ráðuneytisins vegna álits umboðsmanns Alþingis.

Afstaða ráðuneytisins hafi nýverið birst í minnisblaði, dags. 29. nóvember 2018. Í því minnisblaði, sem sent hafi verið stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, segi meðal annars að ráðuneytið hafi upplýst Tryggingastofnun um afstöðu sína til álits umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt minnisblaðinu muni stofnunin taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis ásamt því að fara yfir fyrri ákvarðanir sínar.

Tryggingastofnun muni því endurskoða mál kæranda. Hvernig framkvæmdin verði útfærð liggi enn ekki fyrir en stefnt sé að því að það verði ljóst í janúar 2019. Þegar niðurstöður liggi fyrir muni kærandi fá upplýsingar um nýjan útreikning ásamt upplýsingum um hvernig útreikningurinn hafi farið fram.

Tryggingastofnun vilji vekja athygli á því að við útreikning á búsetuhlutfalli þegar komi að framreikningi eða framtíðartímabili, þ.e.a.s. frá því að atburðurinn hafi átt sér stað (örorkumat) þar til einstaklingur nái 67 ára aldri hjá þeim sem fái örorkulífeyri samkvæmt EES-samningnum, verði að kanna hvort réttur til greiðslna frá öðrum EES-ríkjum sé til staðar áður en ákvörðun um rétt hans hér á landi verði tekin. Komi í ljós að réttur sé til staðar beri stofnuninni að taka tillit til þess réttar sem viðkomandi kunni að eiga í öðrum aðildarríkjum EES.

Í ljósi ofangreinds sé farið fram á frávísun í umræddu máli þar sem Tryggingastofnun muni taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis. Stofnunin telji því óþarft að úrskurðarnefndin taki mál þetta til efnislegrar málsmeðferðar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á búsetuhlutfalli kæranda.

A. Frávísunarkrafa Tryggingastofnunar ríkisins

Í kjölfar endurupptöku málsins óskaði Tryggingastofnun eftir því að kæru yrði vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim grundvelli að stofnunin hugðist endurskoða mál kæranda. Frávísunarkrafan var borin undir kæranda og af hans hálfu var þess aðallega krafist að frávísunarkröfu Tryggingastofnunar yrði hafnað og málið færi áfram í efnismeðferð. Til vara var þess krafist að málið yrði látið bíða þar til ljóst yrði hvernig Tryggingastofnun ætlaði að leysa úr málinu. Í málinu liggur fyrir kæranleg ákvörðun, þ.e. ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. nóvember 2014 um greiðsluhlutfall örorkulífeyris til kæranda. Þá er réttur kæranda til að fá ákvörðunina endurskoðaða af úrskurðarnefnd velferðarmála skýr, sbr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, og kærandi hefur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá ákvörðun. Með hliðsjón af framangreindu féllst úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins og tók ákvörðunina til efnislegrar endurskoðunar.

B. Búsetuhlutfall

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin hljóðaði 4. mgr. 18. gr. laganna svo:

„Fullur örorkulífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.“

Þá hljóðaði þágildandi 1. mgr. 17. gr. laganna svo:

„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera 297.972 kr. á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. II. kafla, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 68. gr. laga nr. 100/2007 var ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki og hlutaðeigandi ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir um gagnkvæman rétt til þeirra hlunninda sem almannatryggingar veita. Í slíkum samningum mátti meðal annars kveða svo á um að búsetutímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skyldu talin jafngilda búsetutíma á Íslandi, hvort sem um væri að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samningsríkja. Enn fremur var heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna samkvæmt almannatryggingalögum við búsetu í öðru samningsríki, sbr. 17. og 58. gr.

Í 70. gr. laganna sagði meðal annars að ráðherra væri heimilt að birta sem reglugerðir almannatryggingareglur Evrópusambandsins með aðlögun vegna EES-samningsins og almannatryggingareglur stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa var innleidd í íslenskan rétt með 1. gr. reglugerðar nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Í 1. mgr. 50. gr. reglugerðarinnar segir að þegar lögð hafi verið fram beiðni um úthlutun bóta skuli allar til þess bærar stofnanir ákvarða rétt til bóta samkvæmt sérhverri þeirri löggjöf í aðildarríkjunum sem viðkomandi einstaklingur hefur heyrt undir, nema viðkomandi einstaklingur fari sérstaklega fram á frestun bóta vegna elli samkvæmt löggjöf eins eða fleiri aðildarríkja. Í 2. mgr. segir að ef hlutaðeigandi einstaklingur fullnægir ekki eða fullnægir ekki lengur skilyrðum sérhverrar þeirrar löggjafar í aðildarríkjunum sem hann hefur heyrt undir skuli stofnanir, sem beita löggjöf þar sem skilyrði eru uppfyllt, ekki taka tillit til tímabila, sem lokið er samkvæmt löggjöf þar sem skilyrði hafa ekki verið uppfyllt eða eru ekki lengur uppfyllt, við útreikninginn í samræmi við a-lið og b-lið 1. mgr. 52. gr., ef það hefur í för með sér lægri bótafjárhæð.

Í 1. mgr. 52. gr. segir eftirfarandi:

„Þar til bær stofnun reiknar fjárhæð þeirra bóta sem skulu greiddar:

a) samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir því aðeins að skilyrðum fyrir bótarétti hafi verið fullnægt eingöngu samkvæmt landslögum (sjálfstæðar bætur)

b) með því að reikna út fræðilega fjárhæð og síðan raunverulega fjárhæð (hlutfallslegar bætur) á eftirfarandi hátt:

i fræðileg fjárhæð bóta jafngildir þeim bótum sem viðkomandi gæti krafist ef öllum trygginga- og/eða búsetutímabilum, sem hann hefur lokið samkvæmt löggjöf hinna aðildarríkjanna, hefði verið lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem stofnunin starfar eftir á þeim degi þegar bótum er úthlutað. Ef fjárhæðin er, samkvæmt þeirri löggjöf, óháð lengd lokinna tímabila skal litið svo á að hún sé fræðilega fjárhæðin,

ii þar til bær stofnun skal síðan ákvarða raunverulega fjárhæð hlutfallslegu bótanna með því að reikna af fræðilegri fjárhæð hlutfallið milli lengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir og heildarlengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöf allra hlutaðeigandi aðildarríkja.“

Samkvæmt framangreindu koma fullar greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar aðeins til álita þegar um búsetu á Íslandi í að minnsta kosti 40 almanaksár er að ræða frá 16 til 67 ára aldurs. Ef um skemmri búsetu er að ræða greiðist örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Aðferðin við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyrisþega kemur ekki skýrt fram í lögum. Í framkvæmd hefur útreikningurinn, í tilviki örorkulífeyrisþega sem hafa jafnframt áunnið sér lífeyrisréttindi í öðrum aðildarríkjum EES, tekið mið af því hversu lengi viðkomandi hefur hlutfallslega búið á Íslandi frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats. Síðan hefur búsetutíminn frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri verið framreiknaður í sama hlutfalli.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins reiknaði búsetuhlutfall kæranda í samræmi við framangreinda framkvæmd. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá bjó kærandi í C frá X til X. Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar var samanlagður búsetutími hennar hér á landi eftir 16 ára aldur þar til hún hóf töku lífeyris þann X 2011 því X ár, X mánuður og X dagar. Samanlagður búsetutími kæranda erlendis var X ár, X mánuðir og X dagar. Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar voru framreiknuð búsetuár kæranda hérlendis samanlagt 8,81 ár og stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti því rétt á 21,79% greiðsluhlutfalli örorkulífeyris.

Um útreikning á búsetuhlutfalli kæranda er fjallað í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016. Í álitinu segir meðal annars svo:

„Miðað við þær upplýsingar sem ég hef getað aflað mér um framkvæmd og túlkun á þessum reglum á vettvangi EES-réttarins fæ ég ekki annað ráðið en að það sé talið leiða af 2. mgr. 50. gr. reglugerðarinnar að í tilvikum eins og [kæranda], sem átti ekki rétt til örorkulífeyris í Danmörku, eigi ekki við að beita hlutfallsreglu b-liðar 1. mgr. 52. gr. með þeim hætti sem íslensk stjórnvöld gerðu í málinu.

[…]

Þegar framanrakin ákvæði reglugerðar (EB) nr. 883/2004 eru virt heildstætt tel ég því að ekki verði fundin skýr heimild í reglugerðinni fyrir íslensk stjórnvöld til að skipta framreiknuðum búsetutíma umsækjanda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila milli Íslands og annars EES-ríkis þegar umsækjandi nýtur ekki bóta frá hinu ríkinu.

[…]

Í ljósi þessa og með hliðsjón af orðalagi 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 og túlkun og framkvæmd stjórnvalda á því í tilvikum þeirra einstaklinga sem búsettir hafa verið utan EES-svæðisins, verður ekki önnur ályktun dregin af lagagrundvellinum en að reikna beri öll framtíðarár frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs til búsetu á Íslandi í tilviki [kæranda].“

Það er niðurstaða umboðsmanns Alþingis samkvæmt álitinu að ekki hafi verið viðhlítandi lagaheimild til að skipta framreiknuðum búsetutíma kæranda hlutfallslega eftir lengd tryggingatímabila á milli Íslands og C eins og gert var með þeim afleiðingum að hún fékk einungis 21,79% örorkulífeyri án þess að eiga rétt til sambærilegra greiðslna frá C.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur svo á, með hliðsjón af framangreindu og því að óumdeilt er að kærandi á ekki rétt á örorkulífeyrisgreiðslum frá C, að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki verið heimilt að framreikna búsetutíma kæranda á Íslandi frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri í sama hlutfalli og búsetutíma hennar á Íslandi frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Tryggingastofnun að reikna öll framtíðarár kæranda frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs til búsetu á Íslandi.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. nóvember 2014 um að búsetuhlutfall kæranda skuli vera 21,79% felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. nóvember 2014 um að búsetuhlutfall A, skuli vera 21,79% er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira