Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/1995

Ábyrgð leigusala vegna vatnstjóns leigjenda.

ÁLITSGERÐ

KÆRUNEFNDAR HÚSALEIGUMÁLA

 

Mál nr. 7/1995

 

Ábyrgð leigusala vegna vatnstjóns leigjenda.

 

I. Málsmeðferð.

Með bréfi, dags. 19. maí 1995, beindi A, til heimilis að X nr. 7, til nefndarinnar ágreiningi við eiganda hússins X nr. 7.

Málið var tekið fyrir á fundi kærunefndar þann 24. maí sl. Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 var gagnaðila gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum. Þar sem Haraldur Jónasson nefndarmaður var vanhæfur í máli þessu tók varamaður hans, Ólafur Sigurgeirsson, sæti hans í nefndinni við afgreiðslu þess.

Á fundi kærunefndar þann 7. júlí sl. var greinargerð gagnaðila, dags. 3. sama mánaðar, lögð fram. Nefndin skoðaði aðstæður á vettvangi 11. júlí sl. og var málið tekið til úrlausnar að því loknu.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Með leigusamningi, dags. 10. júní 1993, tók álitsbeiðandi á leigu húsnæði í eigu gagnaðila á 2. hæð að X nr. 7. Leigusamningurinn var tímabundinn eða til 1. júní 1995.

Með bréfi, dags. 25. mars sl., krafði álitsbeiðandi gagnaðila um skaðabætur fyrir tjón, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í desember 1994, þegar vatn úr þvottavél í risíbúð hússins, sem einnig er í eigu gagnaðila, lak inn í geymslu þeirra hjóna með þeim afleiðingum að skemmdir urðu á munum sem þar voru geymdir.

Ágreiningur er um það hvort gagnaðili beri skaðabótaábyrgð á tjóni álitsbeiðanda.

Fram kemur í álitsbeiðni að í desember 1994 hafi komið nýir leigjendur í risíbúðina. Að þeirra sögn hafi þeir í samráði við gagnaðila tengt frárennslisrör þvottavélar sinnar við stút í eldhúsi sem þeir töldu að væri tilheyrandi frárennsliskerfi hússins. Fleiri tengingarmöguleikar hafi þó verið fyrir hendi. Í ljós hafi komið að frárennslisrörið hafi verið opið og endað í geymslu álitsbeiðanda í kjallara hússins. Geymsla þessi hafi áður verið kyndiklefi en hafi verið breytt með tilkomu hitaveitu í húsið. Álitsbeiðandi telur að hinir nýju leigjendur hafi ómögulega getað látið sér til hugar koma að svona væri háttað lagnakerfi hússins enda hefði átt að ganga þannig frá gömlum lögnum að slíkt "slys" gæti ekki orðið.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að vegna samskiptavandamála milli aðila og gagnkvæmra klögumála hafi kvörtun sú sem fram kom um vatnstjónið ekki verið tekin alvarlega. Gagnaðili kveðst ekki hafa getað fundið lögn þá sem álitsbeiðandi tali um. Þá bendir hann á að atburð þennan hafi átt að tilkynna þegar í stað.

Leigjendur á rishæð hafi flutt í íbúðina í ágúst 1994. Aldrei hafi verið haft samband við hann varðandi tengingu á þvottavél í íbúðinni. Álitsbeiðandi hafi farið úr íbúðinni án þess að greiða húsaleigu fyrir tvo síðustu mánuði leigutímans. Þá séu ógreiddir reikningar á hendur honum vegna sameignar. Með bréfi, dags. 3. maí sl., hafi hann gert kröfu á hendur álitsbeiðanda um greiðslu þessarar skuldar, en hún sé enn ógreidd.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 51. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er eigandi séreignar ábyrgur gagnvart öðrum eigendum hússins og afnotahöfum vegna fjártjóns sem verður á eignum þeirra og stafa m.a. af vanrækslu á viðhaldi séreignar, búnaði hennar og lögnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. greinarinnar.

Í 8. lið leigusamnings aðila eru ákvæði um ástand hins leigða sem eru efnislega samhljóða 14. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Þar segir að leiguhúsnæði skuli við afhendingu vera í því ástandi sem almennt sé talið fullnægjandi miðað við fyrirhugaða notkun þess og staðsetningu. Í þessu felist m.a. að vatns- og frárennslislagnir séu í lagi.

Kærunefnd fór á vettvang og skoðaði aðstæður. Í eldhúsi íbúðar á rishæð má koma fyrir þvottavél við hliðina á vaski og tengja frárennsli hennar við frárennslisrör frá eldhúsvaski. Við hlið þessa frárennslisrörs er grannt vatnsrör sem stafar frá gamalli miðstöðvarlögn sem hætt er að nota. Liggur rör þetta niður í geymsluna sem álitsbeiðandi geymdi í muni þá er skemmdust.

Gagnaðili hefur neitað því að hafa haft samráð við leigjendur rishæðar um að tengja frárennsli úr þvottavél í þetta vatnsrör. Þá telur kærunefnd að ljóst megi vera að vatnsrör þetta sé ekki frárennslisrör. Þá er ósannað að ekki hafi verið gengið tryggilega frá enda þess, þegar leigjendur fluttu inn í íbúðina.

Af gögnum málsins má ráða að tjónsins hafi orðið vart viku eftir að þvottavél var tengd, eða í desember 1994. Ekki er að sjá að gagnaðila hafi verið greint frá atvikinu fyrr en með bréfi, dags. 4. apríl 1995, þar sem kröfur komu fram vegna þessa.

Þegar til þessara atriða er litið er það álit kærunefndar að gagnaðili sé ekki bótaskyldur vegna vatnstjóns þess, sem álitsbeiðandi varð fyrir, á grundvelli leigusamnings aðilanna.

 

IV. Niðurstaða.

1. Það er álit kærunefndar að gagnaðili sé ekki bótaskyldur vegna vatnstjóns, sem álitsbeiðandi varð fyrir í desember 1994, á grundvelli leigusamnings aðila.

 

 

Reykjavík, 23. ágúst 1995.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Ólafur Sigurgeirsson

Benedikt Bogason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira