Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 553/2017 - Úrskurður

Beiðni kæranda um endurupptöku er samþykkt. Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og senda hann til Svíþjóðar er felld úr gildi.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 553/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17090051

Beiðni [...] um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 11. júlí 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. apríl 2017, um að taka umsókn [...], fd. 14. desember 1999, ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Svíþjóðar. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 24. júlí 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 30. júlí 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 16. ágúst 2017.

Þann 26. september 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kærandi telji að úrskurður kærunefndar hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá kærunefndinni með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Ásamt beiðni um endurupptöku skilaði kærandi inn fylgigögnum til kærunefndar. Þann 6. október 2017 barst kærunefnd viðbótarathugasemdir, ásamt fylgigögnum, í máli kæranda.

II. Málsástæður og rök kæranda

Af hálfu kæranda er því haldið fram að í kjölfar niðurstöðu kærunefndar um að synja honum um frestun réttaráhrifa hafi andlegt og líkamlegt ástand kæranda hrakað verulega en með beiðni kæranda hafi hann lagt fram læknisfræðileg gögn sem styðji við heilsufar hans. Í læknisvottorði rituðu af Sigurði Boga Stefánssyni sérfræðingi í geðlækningum á geðdeild, dags. 26. september 2017, komi fram að [...]. Í læknisvottorði rituðu af Sigrúnu Eddu Reykdal yfirlækni á blóðlækningadeild, dags. 25. september 2017, komi fram að [...]. Bæði andlegri og líkamlegri heilsu kæranda hafi hrakað mikið á síðustu mánuðum. Þá geri aldur hans málið ennþá erfiðara og [...]. Í læknisvottorði rituðu af Sigurði Yngva Kristinssonar, sérfræðilækni, dags. 2. október 2017, komi fram að [...]. Í ljósi framangreindra atvika telji kærandi að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að áðurnefndur úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir á því að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í þessu samhengi bendir kærandi máli sínu til stuðnings á þrjá úrskurði, einn frá innanríkisráðuneytinu og tvo frá kærunefnd útlendingamála, sem séu sambærilegir máli hans þar sem umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi verið teknar til efnislegrar meðferðar hér á landi jafnvel þótt Ísland hafi ekki borið ábyrgð á slíkri meðferð samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni.

Kærandi byggir á því í viðbótarathugasemdum sínum að hann hafi verið metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga hjá Útlendingastofnunar og kærunefnd. Kærandi bendi á að með lögum nr. 81/2017 og þeirra gagna sem urðu til við meðferð laganna á Alþingi er varða túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé ljóst að tilgangur og vilji löggjafans sé að mál þeirra einstaklinga sem teljist vera í viðkvæmri stöðu fallir undir sérstakar ástæður og þau mál beri að taka til efnislegrar meðferðar hér á landi. Kærandi bendi á að ekki virðist vera gerð krafa um annað og meira en að viðkomandi falli undir skilgreininguna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga um viðkvæma stöðu einstaklinga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með beiðni kæranda um endurupptöku þann 26. september 2017 fylgdu læknisfræðileg gögn um kæranda sem ekki lágu fyrir þegar kærunefnd úrskurðaði í málum hans. Fylgigögnin eru m.a. læknisvottorð ritað af [...] yfirlækni á [...], dags. 25. september 2017, um líkamlega heilsu kæranda og læknisvottorð ritað af [...] sérfræðingi í geðlækningum á geðdeild, dags. 26. september 2017, um sálræna líðan kæranda. Það er mat kærunefndar þegar litið er til eðlis gagnanna og málsins í heild að fallast beri á að ný gögn hafi komið fram sem sýni fram á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og tilefni sé til þess að skoða mál hans aftur í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem liggja fyrir.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 5. mgr. 20. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 veitir stjórnvöldum ríkt svigrúm til mats á því hvað felist í sérstökum ástæðum í skilningi ákvæðisins, á hvaða sjónarmiðum skuli byggt við þetta mat og hvert skuli vera vægi þeirra. Stjórnvöld eru þó ávallt bundin af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar en af henni leiðir að sjónarmiðin skulu vera málefnaleg. Þá gerir jafnræðisreglan þá kröfu að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Þegar afmarka skal nánar á hvaða málefnalegu sjónarmiðum skuli byggt og vægi þeirra við framangreint mat verður að líta til lagagrundvallar málsins, en í því sambandi er áréttað að heimild ráðherra í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt til að setja í reglugerð ákvæði um framkvæmd 2. mgr. 36. gr. laganna.

Að mati kærunefndar bendir forsaga ákvæðisins til þess að 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli að mestu leyti framkvæma með sambærilegum hætti og 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga nr. 96/2002 enda var orðalag niðurlags 1. málsl. óbreytt frá eldri lögum. Samkvæmt framkvæmd á grundvelli eldri laga fengu sjónarmið sem varða skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins nokkuð mikið vægi. Við mat sjónarmiða sem tengdust stöðu einstakra umsækjenda var gengið út frá því að ástand og aðstæður í viðtökuríki og fyrri reynsla kæranda þyrftu að vera bæði sérstakar og af ákveðnu alvarleikastigi sem segja má að hafi verið talsvert hátt svo til greina kæmi að beita þágildandi 2. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga.

Tilteknar breytingar á framsetningu 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 hafa þó leitt til þess að nefndin hefur talið að veita bæri sjónarmiðum sem tengjast stöðu einstakra umsækjenda aukið vægi í þessu heildarmati. Frá gildistöku laga um útlendinga nr. 80/2016 hefur kærunefnd litið til innra samræmis 36. gr. laga um útlendinga og þeirra breytinga sem voru gerðar á framsetningu 1. mgr. 36. gr. laganna, með hliðsjón af áðurgildandi 1. mgr. 46. gr. a eldri laga um útlendinga svo og þeirra breytinga sem fólust í framsetningu þeirrar reglu sem nú er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá hefur kærunefnd litið til þeirra lögskýringargagna sem tengdust breytingu á ákvæðinu í meðförum þingsins, n.t.t. nefndaráliti meirihluta þingnefndar og ræðu framsögumanns meirihlutans, en í því sambandi er áréttað að kærunefnd hefur hvorki litið til orðalags ákvæðis 2. mgr. 36. gr. eins og það hljóðaði í upphaflegri mynd frumvarps til laga um útlendinga né athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í ljósi þeirra breytinga sem urðu á því ákvæði frumvarpsins í meðförum þingsins. Með vísan til lögskýringargagna hefur kærunefnd litið svo á að það hvort einstaklingur teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé eitt af þeim sjónarmiðum sem líta verður til við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu. Við það mat skuli jafnframt bæði litið til aðstæðna einstaklings og aðstæðna og ástands í viðtökuríki. Kærunefnd hefur þó jafnframt lagt nokkra áherslu á forsögu ákvæðisins og litið til þess að ekki hafi verið um að ræða grundvallarbreytingu frá framkvæmd á grundvelli eldri laga um útlendinga að því er varðar vægi hinna kerfislægu sjónarmiða. Í framkvæmd nefndarinnar frá gildistöku laga nr. 80/2016 hefur þetta leitt til þess að málum sem tekin hafa verið til meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna hefur fjölgað lítillega. Þó má segja að skilvirkni umsóknarferlisins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins hafi áfram vegið þungt í mati nefndarinnar.

Frá gildistöku laga nr. 81/2017 telur kærunefnd rétt að líta til þeirra gagna sem urðu til við meðferð laganna á Alþingi er varða túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hér er um að ræða athugasemdir við frumvarpið, sem samið var að frumkvæði þingmanna og lagt fram sem þáttur í samkomulagi um þinglok, álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar og framsöguræðu nefndarmanns sem kynnti álitið við 2. umræðu frumvarpsins. Þrátt fyrir að þau lögskýringargögn tengist ekki beint setningu laga um útlendinga nr. 80/2016 eru þau samt sem áður sett fram í tilefni breytinga á inntaki 2. mgr. 36. gr. laganna og því nægilega tengd efni málsgreinarinnar til að hafa áhrif á túlkun hennar.

Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 81/2017 var áréttaður „sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, líkt og fram kom í athugasemdum við 2. mgr. 36. gr. frumvarps þess sem varð að gildandi lögum um útlendinga.“

Kærunefnd telur að líta verði til þess að álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar gefur skýrlega til kynna vægi tiltekinna sjónarmiða sem líta eigi til við beitingu ákvæðis 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því áliti kemur eftirfarandi fram:

Fyrir nefndinni var rætt um texta í greinargerð með frumvarpinu þar sem áréttaður er sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Bent var á að lögskýringargögn væru ekki skýr um þetta atriði og varhugavert geti verið að nýtt þing árétti vilja fyrri þinga án þess að því fylgi breytingar á lögum. Meirihlutinn bendir á að með þessu er áréttað, líkt og fram kom í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga, nr. 80/2016, að taka skuli til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái vernd hér á landi eða ef sérstakar ástæður mæla með því að taka skuli mál til efnismeðferðar. Getur þetta átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þetta getur einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuland, svo sem vegna fyrri dvalar. Með sérstökum aðstæðum er vísað til þess að einstaklingar geta verið í viðkvæmri stöðu sem leiði til þess að þeir muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga.

Í framsöguræðu við 2. umræðu voru þessi sjónarmið árréttuð og hnykkt á með þeim ummælum að ekki ætti „að vera neinn vafi á því hvað átt sé við með sérstakri stöðu.“

Að mati kærunefndar lýsa þessi lögskýringargögn því með nægilega skýrum hætti bæði þeim sjónarmiðum sem löggjafinn telur að stjórnvöldum beri að beita við mat samkvæmt ákvæðinu og að nokkru leyti vægi sjónarmiðanna. Nefndin telur sjónarmiðin málefnaleg og að þau rúmist innan þess mats sem texti ákvæðisins felur stjórnvöldum, sérstaklega í ljósi þess að reglugerðarheimild skv. 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur ekki verið nýtt. Að mati kærunefndar gefa ummæli í þessum lögskýringargögnum með nægilega skýrum hætti til kynna að viðkvæm staða umsækjanda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Í ljósi mismunar á orðalagi og inntaki athugasemda í frumvarpi því er varð að lögum nr. 81/2017 og umfjöllun meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta atriði er það þó mat kærunefndar að ekki sé skýrt af lögskýringargögnum að ávallt beri að taka umsóknir frá einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu til efnismeðferðar, þótt það sjónarmið skuli hafa aukið vægi andspænis öðrum sjónarmiðum, sé miðað við þá framkvæmd sem tíðkast hefur fram að þessu. Aftur á móti telur kærunefnd að þegar viðkvæm staða umsækjenda verður að mati stjórnvalda talin leiða til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökulandi svo sem vegna heilsufars, aldurs, þungunar eða mismununar sem viðkomandi einstaklingur verður fyrir sökum kynhneigðar, kynþáttar eða kyns, eða fyrri reynslu einstaklinga, t.d. fórnarlömb mansals, ofbeldis og pyndinga, skuli það sjónarmið hafa mikið vægi við matið. Í þeim tilvikum beri að líta svo á að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu og að það skuli almennt tekið til efnismeðferðar.

Í úrskurði kærunefndar frá 11. júlí 2017 kom fram að kærandi kom til landsins þann 18. janúar 2017 og kvaðst hann vera [...] gamall.

Kærunefnd fór yfir öll gögn er vörðuðu aldur kæranda í úrskurði sínum þann 11. júlí 2017 og taldi, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að ekki væri fyrir hendi vafi um að kærandi væri nú eldri en 18 ára. Lagði kærunefnd því til grundvallar að kærandi væri fullorðinn einstaklingur við meðferð málsins. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 30. mars 2017 greindi kærandi frá því að líkamleg heilsa hans væri góð en hvað andlega heilsu varðaði þá væri hann stöðugt stressaður og áhyggjufullur. Þá greindi kærandi frá því að hann hefði orðið fyrir [...].

Kærandi var metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, með hliðsjón af ungum aldri, andlegri líðan og því að kærandi hefði ítrekað verið beittur ofbeldi. Í úrskurði kærunefndar frá 11. júlí 2017 var það mat kærunefndar að kærunefnd taldi sig ekki hafa forsendur til að breyta því mati stofnunarinnar og lagði því til grundvallar að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar frá 11. júlí 2017 var það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, eins og ákvæðið var túlkað fyrir gildistöku laga nr. 81/2017.

Líkt og að framan greinir lagði kærandi fram ný gögn með beiðni um endurupptöku. Um er að ræða læknisvottorð ritað af [...] yfirlækni á [...] Landspítala, dags. 25. september 2017, um líkamlega heilsu kæranda. Þar kemur fram að af líkamlegum veikindum kæranda megi ráða að [...] Varðandi andlega heilsu kæranda kemur fram í læknisvottorði rituðu af [...] sérfræðingi í geðlækningum á geðdeild Landspítala, dags. 26. september 2017, að [...] Í læknisvottorði rituðu af [...], sérfræðilækni, dags. 2. október 2017, kemur fram að [...]. Samkvæmt framansögðu er kærandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda eru persónulegir eiginleikar hans og aðstæður hans þess eðlis að hann telst hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hans hér auk þess sem talið verður að hann geti ekki að fullu nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Eins og fjallað var um í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 11. júlí 2017 í máli kæranda er Svíþjóð aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Að sama skapi er umsækjendum tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu. Að mati kærunefndar er sú heilbrigðisþjónusta og annar aðbúnaður sem bíður kæranda í Svíþjóð fullnægjandi miðað við þá þjónustu og þær aðstæður sem honum standa til boða hér á landi.

Við mat á því hvort viðkvæm staða kæranda leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki telur kærunefnd að líta verði til þeirra breytinga á högum sem óhjákvæmilega felast í flutningi kæranda til Svíþjóðar. Kærunefnd leggur áherslu á að kærandi er ungur að árum. [...] Þá er kærandi haldinn alvarlegum líkamlegum og andlegum veikindum [...] Þá er það mat lækna að [...].

Þegar horft er á aðstæður kæranda í heild, og sérstaklega til ungs aldurs hans, líkamlegrar og andlegrar heilsu er það mat kærunefndar að sú röskun á högum sem myndi felast í flutningi til Svíþjóðar, [...], leiði til þess að líta verði svo á að hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Þrátt fyrir að viðtökuríki uppfylli þær lágmarkskröfur sem aðildarríki Evrópusambandsins gera til meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd þá vegur viðkvæm staða kæranda og aðstæður hans við mögulegan flutning til Svíþjóðar þungt andspænis sjónarmiðum sem tengjast m.a. skilvirkni við meðferð umsókna og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins.

Af framangreindu virtu og þegar litið er á mál kæranda í heild sinni, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá séu einstaklingsbundnar aðstæður kæranda svo sérstakar að í þessu tilviki sé nærtækast að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi. Beri því eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda og fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The Directorate of Immigration shall examine the merits of the applicant’s application for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                              Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira