Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 12/2012: Dómur frá 9. apríl 2013

Blaðamannafélag Íslands v/Tómasar Gunnarssonar, Freys Arnarsonar, Guðmundar Bergkvist, Ragnars Santos og Vilhjálms Þórs Guðmundssonar gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Ríkisútvarpsins ohf.
Ár 2013, þriðjudaginn 9. apríl, er í Félagsdómi í málinu nr. 12/2012

 

Blaðamannafélag Íslands

v/Tómasar Gunnarssonar,

Freys Arnarsonar,

Guðmundar Bergkvist,

Ragnars Santos og

Vilhjálms Þórs Guðmundssonar

gegn

Samtökum atvinnulífsins

f.h. Ríkisútvarpsins ohf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 5. mars 2013.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálson og Lára V. Júlíusdóttir.

 

Stefnandi er Blaðamannafélag Íslands, Síðumúla 23, Reykjavík, vegna Tómasar Gunnarssonar, Freys Arnarsonar, Guðmundar Bergkvist, Ragnars Santos, og Vilhjálms Þórs Guðmundssonar.

Stefndi er Samtök Atvinnulífsins, Borgartúni 18, Reykjavík, f.h. Ríkisútvarpsins ohf., Efstaleiti 1, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnenda

Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að þeim beri réttur til launa samkvæmt 2. launaflokki 16 ára starfsaldursþrepi samkvæmt gr. 1.2, sbr. gr. 1.4, í kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands (BÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA), frá 31. mars 2008 að telja. Þá krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

Málavextir    

Óumdeilt er að stefnendur starfa sem svonefndir fréttatökumenn á fréttastofu sjónvarps hjá Ríkisútvarpinu ohf. Með dómi Félagsdóms í málinu nr. 7/2011, uppkveðnum 22. nóvember 2011, var tekin til greina krafa stefnenda og Þórs Ægissonar um að kjarasamningur BÍ og SA skyldi gilda um laun og kjör þeirra frá 31. mars 2008 að telja. Óumdeilt er að hver og einn stefnenda, sem aðild áttu að félagsdómsmáli nr. 7/2011, hafi á því tímamarki átt að baki samanlagt meira en 16 ára starfsaldur hjá Ríkisútvarpinu ohf. og forvera þess.

Í stefnu er því lýst að í kjölfar dóms Félagsdóms hafi verið haldnir fundir með fulltrúum BÍ og Ríkisútvarpsins ohf. Kom í ljós að ágreiningur aðila snerist m.a. um túlkun á gr. 1.2., sbr. gr. 1.4., í umræddum kjarasamningi og röðun stefnenda í launaflokk. Þeim viðræðum lauk með því að Þór Ægisson, fyrir milligöngu BÍ, og Ríkisútvarpið ohf. komust að samkomulagi í maí 2012 þar sem Ríkisútvarpið ohf. féllst á að Þór bæri réttur til niðurröðunar í 2. launaflokk 16 ára starfsaldursþrep en hafnaði því hins vegar að stefnendum þessa máls bæri sami réttur. Byggði Ríkisútvarpið ohf. á því að Þór hefði, umfram stefnendur, lokið BA-háskólaprófi, sem færði honum rétt til launa samkvæmt 2. launaflokki 16 ára starfsaldursþrepi en stefnendum bæri hins vegar, með vísan til ákvæða kjarasamningsins, að raða í 1. launaflokk 5 ára starfsaldursþrep. Stefnendur sætta sig ekki við túlkun Ríkisútvarpsins ohf. og telja hana andstæða ákvæðum gildandi kjarasamnings. Telja stefnendur að störf þeirra og starfsaldur umfram 16 ár leiði til þess að um laun þeirra skuli fara samkvæmt 2. launaflokki 16 ára starfsaldursþrepi. Af þessum sökum sé mál þetta höfðað vegna hlutaðeigandi starfsmanna, sem félagsmanna í BÍ, til þess að fá leyst úr ágreiningi aðila um túlkun kjarasamnings BÍ og SA gagnvart stefnendum. Ríkisútvarpið ohf. hefur frá 5. ágúst 2011 átt aðild að SA.

 

Málsástæður stefnenda og lagarök

Stefnendur byggja dómkröfu sína á því að þeim beri réttur til launa samkvæmt 2. launaflokki 16 ára starfsaldursþrepi samkvæmt gr. 1.2., sbr. gr. 1.4., í kjarasamningi aðila, enda beri að túlka ákvæðin með þeim hætti að opið sé á milli 1. og 2. launaflokks eftir því sem starfsmenn hafi á að skipa lengri starfsaldri hjá atvinnurekanda. Grunnlaunaákvæði greinar 1.2. sé svohljóðandi (fjárhæðir miðist við það tímamark þegar kjarasamningur aðila tók fyrst gildi um störf stefnenda):

 

„Grunnlaun

         Byrjunarl.  E. 4 mán.   E. 1 ár    E. 3 ár    E. 5 ár     E. 7 ár    E. 10 ár    E. 13 ár    E. 16 ár

1. fl.  175.279     192.997     203.628  214.896  226.840

2. fl.   205.668     226.763    234.673   242.880 251.395  260.229  269.394    278.903   288.769

3. fl.   212.787     234.673    242.880   251.395  260.229  269.394  278.903   288.769“

 

Í gr. 1.4. í gildandi kjarasamningi, sem beri yfirskriftina röðun í launaflokka, sé tekið fram að í 1. launaflokk falli „almennir blaðamenn“, í 2. launaflokk „blaðamenn með háskólapróf, BA, BS eða starfsreynslu/sérmenntun, sem vinnuveitandi leggur að jöfnu“ og í 3. launaflokk „blaðamenn með MA, MS, MBA eða starfsreynslu/sérmenntun sem vinnuveitandi leggur að jöfnu.“ Sé á því byggt af hálfu stefnanda að ekki stoði að einblína á orðalag gr. 1.4., þar sem fjallað sé um starfsreynslu ... sem vinnuveitandi leggur að jöfnu“ líkt og Ríkisútvarpið ohf. geri, enda hafi nefnd orð ákvæðisins ekki þýðingu við úrlausn þessa máls. Túlka beri kjarasamninginn með þeim hætti að flæði sé milli 1. og 2. launaflokks hjá félagsmönnum, sem hafi ekki á að skipa háskólaprófi eftir að 7 ára starfsaldri hafi verið náð, svo sem forsaga og framkvæmd kjarasamningsins beri með sér. Af þessu tilefni sé það áréttað, sem komi glöggt fram í félagsdómsmáli nr. 7/2011, að stefndi Ríkisútvarpið ohf. hafi eðli máls samkvæmt hvorki haft aðkomu að gerð gildandi kjarasamnings BÍ við SA né þeim kjarasamningum sem áður hafi gilt milli þessara aðila.

Stefnendur telji að við túlkun og innröðun í launaflokka samkvæmt kjarasamningnum verði að líta til forsögu samningsins og þess hvernig launatafla og launaflokkar kjarasamningsins hafi þróast og tekið breytingum til þess sem nú gildi.

Kjarasamningar BÍ hafi í fyrstu verið einfaldir, einnar víddar þar sem launatafla hafi eingöngu farið  eftir því hversu starfsfólk hafði starfað lengi í stéttinni. Í kjarasamningi BÍ og VSÍ frá 1984 hafi alls verið 16 starfsaldursþrep í gr. 1.1. og sérstaklega tekið fram að hefði blaðamaður almennt háskólapróf eða lokapróf frá blaðamannaháskóla, skyldi meta það til tveggja ára starfsaldurs innan launastigans. Laun fréttastjóra hafi verið 15% hærri og laun ritstjóra 25% hærri en taxtar sögðu til um.

Á árinu 1985 hafi komið fram kröfur um að launakjör félagsmanna BÍ yrðu samræmd kjörum fréttamanna á ríkisfjölmiðlunum og varð niðurstaðan sú að snemmsumars 1986 hafi verið gerður kjarasamningur sem gilti frá 1. júlí 1986 með tvívíðu launakerfi þar sem laun miðuðust annars vegar við menntun og hins vegar starfsaldur. Samið hafi verið um fimm launaflokka og átta starfsaldursþrep. Opið hafi verið á milli flokka 1 og 2, 2 og 3, en ekki 4 og 5. Fyrstu þrír flokkarnir hafi verið fyrir almenna starfsmenn en hinir fyrir þá sem voru í yfirmannsstöðum. Hugsunin hafi verið sú, sem hafi haldist óbreytt, að menntun gæfi ákveðið forskot í starfi sem myndi jafnast út eftir því sem starfsreynsla ykist.  Fyllt sé út í öll starfsaldursþrep allra launaflokka, þótt fyrir liggi að starfsmenn ílengist ekki í þeim launaflokki, sem þeir byrji í, vegna starfsaldursstökks í næsta flokk fyrir ofan. Í samningunum sé vikið að því að nánar tiltekin menntun skapi starfsmönnum rétt til innröðunar í tilgreindan flokk. Varðandi 2. flokk sé þannig sérstaklega tilgreint að í þann flokk raðist blaðamenn sem náð hafi 5. þrepi í 1. flokki og varðandi 3. flokk komi fram að blaðamenn með fimm ára starfsaldur í 1. flokki og fimm ára starfsaldur í 2. flokki skuli raðast í 3. flokk. Við 2. og 3. flokk sé  auk þess tilgreint, líkt og komi fram í núgildandi kjarasamningi og stefndi vísi til í málatilbúnaði sínum, að starfsreynsla sem stjórnendur leggi að jöfnu hafi áhrif við innröðun.

Við gerð karasamnings 1988 hafi, til samræmis við framangreint, verið ákveðið að fella út úr launatöflunni þau starfsaldursþrep sem fyrir lágu að starfsmenn myndu aldrei ná vegna hækkunar upp í næsta launaflokk fyrir ofan. Sú aðferðarfræði við uppbyggingu launatöflu aðalkjarasamninga BÍ hafi haldist upp frá þessu.

Við gerð kjarasamninga 1992 hafi komið inn ákvæði um lífaldursþrep, þar sem kveðið sé á um að 21. árs lífaldur jafngildi 1 árs starfi í starfsgrein og 24 ára lífaldur gefi rétt til næsta starfsaldursþreps þar fyrir ofan. Hafi sama kerfi verið við líði á fram til ársins 2001.

Á árinu 1997 hafi verið gerður kjarasamningur milli BÍ og VSÍ sem hafi falið í sér mikla einföldun á launakerfi og uppstokkun á launatöxtum. Aðdragandinn að þeim kjarasamningi hafi verið sá að Stöð 2 hefði gert kjarasamning við VR, BÍ og Rafiðnaðarsambandið, þar sem lágmarkslaun til félagsmanna BÍ voru ákvörðuð 100.000 krónur á mánuði. Samningaviðræður á þessum tíma hafi að miklu leyti snúist um hækkun lágmarkslauna. Það, sem hafi verið óvenjulegt við þessar aðstæður, hafi verið að kjarasamningur BÍ við VSÍ hefði fram til þessa ávallt verið stefnumarkandi fyrir aðra samninga BÍ en í þetta skipti hafi Stöð 2 riðið á vaðið. Með kjarasamningi BÍ og VSÍ í kjölfarið 1997 hafi launataflan verið einfölduð, taxtar færðir nær greiddu kaupi þar sem mikið hefði verið um yfirborganir, auk þess sem háskólamenntuðum félagsmönnum BÍ, sem náð höfðu 24 ára aldri, hafi verið tryggð lágmarksbyrjunarlaun að fjárhæð 102.752 krónur. Með þessum kjarasamningi hafi launaflokkum verið fækkað í tvo, 1. og. 2. flokk, starfsaldursþrepum í 1. flokki hafi verið fækkað úr fjórum í þrjú og í 2. flokki úr níu í átta. Orðalag um innröðun í flokka í gr. 1.2. hafi verið einfaldað en þó legið ljóst fyrir að með þeirri einföldun hafi aðilar hvorki horfið frá framkvæmdinni né lokað á milli þessara tveggja flokka. Hafi aðilar kjarasamningsins einfaldlega talið óþarft að orða sérstaklega hvernig flæði milli 1. og 2. launaflokks væri hugsað, enda leiddi það af launatöflunni sjálfri og áralangri framkvæmdavenju. Sjáist það m.a. á því að við niðurröðun þeirra félagsmanna BÍ í launaflokka sem ekki höfðu háskólapróf hafi starfsaldur verið látinn ráða för. Félagsmönnum án háskólaprófs með 5 ára starfsaldur eða meira hafi þannig verið raðað í 2. launaflokk og síðan viðeigandi starfsaldursþrep. Miðað við afstöðu Ríkisútvarpsins ohf. hefðu viðkomandi félagsmenn átt að raðast í 1. launaflokk 3 ára starfsaldursþrep, án nokkurs möguleika á frekari starfsaldurshækkun, en af og frá sé að um slíkt hafi verið samið. Ekkert sólarlagsákvæði hafi verið í samningnum, svo sem eðlilegt hefði verið ef menn hefðu talið að niðurröðun óháskólamenntaðra starfsmanna í kjölfar samningsins væri að einhverju leyti umfram umsamin kjör samkvæmt kjarasamningnum.

Við gerð kjarasamninga 2001 hafi launaflokkar áfram verið tveir, en hins vegar hafi tveimur starfsaldurþrepum verið bætt inn í 1. launaflokk. Hugsunin með því hafi verið sú að samhliða mikilli hækkun launataxta kæmi inn seinkun á því hvenær starfsmenn gætu færst upp um launaflokk.

Sú launatafla sem nú gildi, með þremur launaflokkum og þeim starfaldursþrepum sem þar greini, hafi verið við líði frá 2005. Með kjarasamningi Blaðamannafélags Íslands, dags. 29. nóvember 2005, hafi eitt starfsaldursþrep í 1. launaflokki verið „fellt út“ og þar með, öndvert við kjarasamninginn 2001, samið um flýtingu á færslu milli launaflokka, sbr. umfjöllun í Blaðamanninum, félagstíðindum BÍ, febrúar 2006. Sömuleiðis hafi  3. launaflokki verið bætt við eða mastersflokki svokölluðum bætt við fyrir félagsmenn með MA, MS, MBA eða sambærilegt próf.

Framkvæmd gildandi kjarasamnings BÍ og SA hafi bæði fyrir og frá einföldun launatöflunnar á árinu 1997 verið með þeim hætti að félagsmenn, sem ekki hafi á að skipa háskólaprófi, flæddu frá 1. flokki upp í 2. flokk eftir að efsta starfsaldursþrep sem tilgreint er í 1. flokki er að baki og næsta starfsaldursþrepi 2. flokks sé náð. Í dæmaskyni vísist til Morgunblaðsins, eins stærsta aðildarfélags SA, þar sem ljósmyndara án háskólaprófs en með yfir 16 ára starfsaldur hjá Morgunblaðinu sé raðað í 2. launaflokk 16 ára starfsaldursþrep.

Stefnendur sæki mál þetta á grundvelli ákvæða laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur,  einkum 2. tl. 1. mgr. 44. gr.  Málskostnaðarkrafa styðjist við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað við ákvæði laga 50/1988, um virðisaukaskatt.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Krafa stefnda um sýknu byggist á því að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þeir hafi þá háskólamenntun sem krafist sé svo þeim verði raðað í 2. launaflokk. Þeir geti þar af leiðandi ekki krafist þeirrar röðunar sem greini í stefnu.

Röðun í launaflokka í kjarasamningi SA og BÍ sé skýr. Svo blaðamaður eigi rétt á röðun í 2. launaflokk verði hann að vera með háskólapróf (BA, BS) eða starfsreynslu/sérmenntun sem vinnuveitandi leggi að jöfnu. Stefndi hafi ekki lagt starfsreynslu stefnenda að jöfnu við háskólamenntun og sé þeim því ekki raðað í 2. launaflokk.

Eins og greini í stefnu hafi mikil breyting verið gerð á launaflokkakerfi kjarasamnings blaðamanna 1997. Í stað fimm launaflokka með sjálfkrafa tilfærslu milli flokka hafi lágmarkslaun verið hækkuð mikið og launaflokkar einfaldaðir. Í stað sjálfkrafa tilfærslu milli flokka hafi verið miðað við að vinnuveitandi mæti starfsreynslu eða sérmenntun og gæti lagt hana að jöfnu við háskólamenntun. Það kerfi sé enn við lýði.

Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að texti um sjálfkrafa tilfærslu milli flokka hafi verið felldur brott vegna þess að aðilar hafi talið „einfaldlega óþarft“ að orða þessa tilfærslu. Það hefði þvert á móti verið niðurstaða kjaraviðræðna að einfalda mjög launaflokkakerfi blaðamanna, færa kauptaxta að greiddum launum og fella brott sjálfkrafa færslu milli launaflokka.

Í félagstíðindum BÍ frá 1997, þar sem niðurstaða kjaraviðræðna hafi verið kynnt, sé þess í engu getið að sjálfvirk tilfærsla milli launaflokka skyldi halda sér og hefði þó verið fullt tilefni til, hafi það verið skilningur BÍ á þeim tíma. Ekki síst vegna þess fjölda útgefenda sem félagsmenn BÍ starfi hjá og falla undir kjarasamning félagsins við SA.

Fyrir gerð kjarasamningsins 1997 hafi kauptaxti blaðamanna í 3. launaflokki eftir 18 ár verið 92.794 krónur. Í kjarasamningnum frá 12 apríl 1997 hafi kauptaxti í 1. launaflokki eftir 3 ár verið 97.344 krónur. Hækkun með nýjum samningi hafi því verið 4,9% fyrir blaðamann sem var endurraðað í samræmi við nýtt launaflokkakerfi. Með því hafi verið tryggð lágmarkshækkun blaðamanna, jafnvel þótt þeir færu með nýjum samningi úr 3. launaflokki niður í 1. launaflokk. Sérstaklega sé tekið fram í bókun með kjarasamningnum að endurraða skyldi blaðamönnum í hinu nýja launakerfi „miðað við raunverulegan starfsaldur og starfssvið“.

Stefndi kveður málsástæður stefnenda er lúta að uppbyggingu launakerfis blaðamanna á árunum 1984 til 1996 hafa mjög takmarkaða þýðingu. Launataxtar virðist á því tímabili hafa verið töluvert undir greiddum launum í greininni og því ekki mikilvægt að gera sérstakan greinarmun á kauptöxtum blaðamanna eftir menntun. Með kjarasamningnum 1997 hafi kauptaxtar hins vegar verið færðir að greiddu kaupi og því mikilvægara en áður að gera greinarmun á háskólamenntuðum blaðamönnum og öðrum.

Áhersla BÍ á hærri laun á grundvelli menntunar hafi  verið hávær í kjaraviðræðum 2001 en ekki náð fram að ganga. Við endurnýjun kjarasamninga 2005 hafi, að kröfu BÍ, verið tekinn upp 3. launaflokkur fyrir blaðamenn með MA, MS eða MBA. Áherslur þessar sýni þá þversögn sem sé nú uppi í málflutningi BÍ, þ.e. að blaðamenn með háskólamenntun skuli ekki njóta þess í launum þegar tilteknum starfsaldri er náð.

Málsástæður stefnenda byggi að mestu leyti á því að venja hafi skapast um sjálfkrafa tilfærslu milli launaflokka. Framkvæmdin fyrir 1997 hafi hins vegar ekki byggst á venju, heldur skýrum ákvæðum kjarasamnings um sjálfkrafa flutning milli launataxta. Í ljósi þess að ákvæði þar um hafi sérstaklega verið fellt brott 1997, hvíli sönnunarbyrði um að venja hafi skapast alfarið á herðum stefnenda. Ljóst sé að samningsaðilinn, SA, hafni tilvist venju og hafi stefnandi ekki lagt fram gögn sem styðji þessa málsástæðu. Í því sambandi bendi stefndi á að samkvæmt félagatali BÍ séu yfir 50 atvinnurekendur með blaðamenn í vinnu og því í raun útilokað að halda því fram að venja hafi skapast andstætt skýrum ákvæðum kjarasamninga.

Krafa stefnda um málskostnað styðjist við 130. gr. l. nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Málið á sér þá forsögu að með dómi Félagsdóms frá 22. nóvember 2011 í málinu nr.  7/2011 var tekin til greina dómkrafa BÍ, stefnanda í þessu máli sem hér er til meðferðar, þess efnis að viðurkennt yrði að stéttarfélagið færi með samningsaðild vegna fyrrgreindra félagsmanna stefnanda, fimm talsins, sem starfa sem fréttatökumenn hjá stefnda, Ríkisútvarpinu ohf., auk  Þórs Ægissonar, sem ekki er aðili að þessu máli, við gerð kjarasamninga vegna umræddra starfa þeirra hjá stefnda. Þá var einnig tekin til greina sú krafa stefnanda að viðurkennt yrði að kjarasamningur stefnanda annars vegar og SA hins vegar, dags. 29. nóvember 2005, sem endurnýjaður var hinn 2. desember 2009, gilti um laun og kjör greindra manna frá 31. mars 2008.

Fram kemur í málinu að í kjölfar fyrrgreinds dóms Félagsdóms hafi verið haldnir fundir með fulltrúum stefnanda og stefnda í því skyni að framfylgja niðurstöðu dómsins bæði til framtíðar og eins til uppgjörs á vangoldnum launum. Ágreiningur hafi komið upp um ýmis atriði, þar á meðal um túlkun á grein 1.2, sbr. grein 1.4, í kjarasamningi aðila, og röðum umræddra fréttatökumanna í launaflokk í því sambandi. Upplýst er að málið hafi verið leyst hvað varðar Þór Ægisson en sé í ágreiningi varðandi hina fréttatökumennina, umrædda fimm menn. Í hnotskurn snýst mál þetta um það, hvort túlka beri viðkomandi kjarasamningsákvæði þannig að sjálfkrafa tilfærsla á milli launaflokka eigi sér stað við tilgreindan starfsaldur, svo sem stefnandi heldur fram, eða að slík tilfærsla sé háð sérstökum  skilyrðum, svo sem stefndi byggir á og ber fyrir sig ákvæði kjarasamnings í þeim efnum.

Í málinu hefur verið lagður fram nokkur fjöldi kjarasamninga frá fyrri tíð. Ekki kemur glöggt fram í stefnu til hvaða kjarasamnings er vísað. Ráða má þó að þar sé vísað til kjarasamnings aðila frá 2. desember 2009, en með þeim samningi var síðast gildandi kjarasamningur aðila, dags. 29. nóvember 2005, framlengdur til 31. desember 2010 með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samningnum frá 2. desember 2009 fólust. Með kjarasamningnum frá 29. nóvember 2005 hafði síðast gildandi kjarasamningur aðila, dags. 21. febrúar 2001, verið framlengdur til 31. október 2008 með þeim breytingum og fyrirvörum sem fólust í fyrrnefnda kjarasamningnum. Með kjarasamningnum frá 21. febrúar 2001 hafði gildandi kjarasamningur, dags. 12. apríl 1997, verið framlengdur til 31. október 2004 með þeim breytingum og fyrirvörum sem fólust í fyrrnefnda kjarasamningnum. Kjarasamningurinn frá 12. apríl 1997 var á milli stefnanda annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands og Samtaka iðnaðarins hins vegar. Með þeim kjarasamningi voru verulegar breytingar til einföldunar og uppstokkunar gerðar á launaflokkakerfi frá því sem áður gilti. Þá er þess að geta að með kjarasamningi aðila, dags. 1. júní 2011, var gildandi kjarasamningur aðila framlengdur til 22. júní 2011, sbr. aðfararsamning, og kjarasamningur gerður til að gilda frá 22. júní 2011 til loka janúar 2014, sbr. þó tilgreinda fyrirvara. Við munnlegan flutning málsins benti lögmaður stefnda á það að stefnan varðaði ákvæði kjarasamnings sem ekki væri lengur í gildi, sbr. greindan kjarasamning aðila frá 2011. Allt að einu væri ekki gerð athugasemd við þetta, enda giltu áfram hliðstæð ákvæði. Verður því að telja að ekki sé ágreiningur um þetta. Víkur þá að ákvæðum kjarasamningsins frá 2. desember 2009 sem tekist er á um í málinu.

Í grein 1.2 í kjarasamningnum kemur fram að launaflokkar séu þrír talsins og hver flokkur skiptist í þrep eftir starfsaldri. Í grein 1.4 er kveðið á um röðun í launaflokka. Í fyrsta flokk er skipað almennum blaðamönnum. Í annan flokk er skipað blaðamönnum með háskólapróf, BA, BS eða starfsreynslu/sérmenntun, sem vinnuveitandi leggur að jöfnu. Í þriðja flokk er síðan skipað blaðamönnum með MA, MS, MBA eða starfsreynslu/sérmenntun, sem vinnuveitandi leggur að jöfnu.

Eins og fram er komið voru með kjarasamningnum frá 12. apríl 1997 gerðar til einföldunar verulegar breytingar á launaflokkakerfi frá því sem áður gilti. Var launaflokkum fækkað í tvo úr fimm flokkum sem áður hafði gilt, auk fækkunar starfsaldursþrepa. Eldra kerfi var tekið upp með kjarasamningi frá júní 1986 þar sem tekið var upp launaflokkakerfi í stað einfalds launakerfis sem gilti þar á undan. Samkvæmt launakerfi því, sem tekið var upp 1986, var jöfnum höndum tekið tillit til menntunar og starfsaldurs. Óumdeilt er að samkvæmt fyrirkomulaginu frá 1986 var opið á milli flokka 1 og 2 og milli 2 og 3, en ekki 4 og 5. Fyrstu þrír flokkarnir voru fyrir almenna starfsmenn en hinir fyrir þá starfsmenn sem voru í yfirmannsstöðum.

Með kjarasamningnum frá 12. apríl 1997 voru tekin upp ákvæði um röðun í þá tvo launaflokka sem tilgreindir voru. Í kafla 1.2., sem fjallar um röðun starfa í launaflokka, segir orðrétt:

„1. flokkur: Almennir blaðamenn.

2. flokkur: Blaðamenn með háskólapróf/sérmenntun, eða starfsreynslu sem stjórnendur viðkomandi blaðs leggja að jöfnu.“

Engin sérstök ákvæði voru um tilfærslu á milli launaflokka og er það óumdeilt. Með kjarasamningnum frá 21. febrúar 2001 voru launaflokkar áfram tveir, en tveimur starfsaldursþrepum bætt í fyrsta launaflokk. Með kjarasamningnum frá 29. nóvember 2005 var þriðja launaflokki, „mastersflokki“, bætt við, auk fækkunar starfsaldursþrepa í fyrsta launaflokki. Ágreiningslaust er að ekki sé fyrir að fara sjálfkrafa tilfærslu við ákveðinn starfsaldur í þann flokk úr öðrum flokki.  Með kjarasamningnum frá 2. desember 2009 voru ekki gerðar breytingar á launaflokkakerfi er þannig var komið í það horf sem leggja ber til grundvallar við úrlausn í máli þessu.

Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að með einföldun launakerfisins með kjarasamningnum frá 12. apríl 1997 hafi aðilar ekki verið að hverfa frá fyrri tilhögun og loka á milli launaflokka, enda þótt svo gæti virst við fyrstu sýn sé einblínt á orðalag greinar 1.4 eitt og sér og ekki horft til þróunar og framkvæmdar varðandi þetta. Við einföldun launakerfisins með samningnum frá 1997 hafi tilfærsla milli launaflokka haldist áfram og starfsaldur látinn ráða för. Talið hafi verið óþarft að taka sérstaklega fram um flæði á milli fyrsta og annars launaflokks, enda hefði það leitt af launatöflunni sjálfri og framkvæmdavenju.

Af hálfu stefnda hefur komið fram að stefndi hafi ekki lagt starfsreynslu að jöfnu við háskólamenntun og af þeim sökum hafi greindum félagsmönnum stefnanda ekki verið raðað í annan flokk. Til að svo megi verða þurfi til að koma háskólapróf eða starfsreynsla/sérmenntun sem vinnuveitandi leggur að jöfnu. Heldur stefndi því fram, gagnstætt fullyrðingum stefnanda, að niðurstaða kjaraviðræðna  um greinda einföldun launakerfisins hafi m.a. verið að fella brott sjálfkrafa tilfærslu á milli launaflokka. Stefndi byggir fyrst og fremst á því að ákvæði um sjálfkrafa tilfærslu milli launaflokka við tilgreindan starfsaldur hafi verið fellt niður með kjarasamningnum frá 12. apríl 1997. Framkvæmdin fyrir þann tíma hafi ekki þýðingu, enda hafi þá verið byggt á skýrum kjarasamningsákvæðum. Sönnun um að venja hafi skapast hvíli á stefnanda sem hafi ekki getað sýnt fram á venjumyndun að þessu leyti. Að þessu athuguðu og þar sem af hálfu stefnenda hafi ekki verið sýnt fram á að umræddir fréttatökumenn, fimm talsins, hafi tilskilda háskólamenntun, beri að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í málinu.

Eins og fram er komið er óumdeilt að með kjarasamningnum frá 12. apríl 1997, þar sem verulegar breytingar voru gerðar á launakerfinu til einföldunar, var ekki tekið fram um sjálfkrafa tilfærslu milli launaflokka við tiltekinn starfsaldur, eins og áður hafði gilt. Í grein 1.4 í kjarasamningi þeim frá 2. desember 2009, sem mál þetta varðar, er berum orðum tekið fram að í annan launaflokk raðist blaðamenn með háskólapróf, BA, BS, eða starfsreynslu/sérmenntun sem vinnuveitandi leggur að jöfnu. Samkvæmt þessu er ljóst að háskólapróf leiðir til þess að blaðamaður raðast í annan launaflokk án þess að atbeini eða samþykki vinnuveitanda þurfi til að koma. Samkvæmt skýrum ákvæðum greinar 1.4 er röðun í þennan launaflokk á grundvelli starfsreynslu/sérmenntunar hins vegar háð því að vinnuveitandi leggi slíkt að jöfnu við háskólapróf.

Í samræmi við það, sem hér að framan er rakið, var Þór Ægissyni raðað í 2. launaflokk 16 ára starfsaldursþrep, enda með háskólapróf (BA) og áskilinn starfsaldur. Hinum fréttatökumönnunum fimm var raðað í fyrsta launaflokk fimm ára starfsaldursþrep, þar sem þeir höfðu ekki slíkt próf. Þeir voru hins vegar allir með tölu með meira en 16 ára starfsaldur og gátu því raðast í umkrafið starfsaldursþrep 2. launaflokks, teldist sjálfkrafa tilfærslu í þann flokk fyrir að fara. Miðað við skýrt og ótvírætt orðalag greinar 1.4 í kjarasamningnum verður ekki annað séð en að fyrrgreind röðun hafi staðist, enda liggur fyrir að stefndi, Ríkisútvarpið ohf., lagði ekki starfsreynslu eða sérmenntun að jöfnu við háskólapróf. Af þeim sökum hlýtur önnur niðurstaða að byggjast á því að túlka beri ákvæðið á annan hátt en beint orðalag þess gefur til kynna og þá frekast á þeim grundvelli að skapast hafi venja um framkvæmd og túlkun ákvæðisins svo sem stefnandi byggir m.a. á, en teljist slík venja hafa myndast hefur hún svipað gildi og kjarasamningsákvæði.

Í málinu liggja fyrir margvíslegar upplýsingar um launakerfi í kjarasamningum stefnanda við stefnda og þróun þess um langt árabil. Af því má ráða að breytingar á launaflokkakerfi kjarasamninga hafi oftast tengst ýmsum breytingum öðrum á launum og starfskjörum, þar á meðal ákvörðun starfsaldursþrepa. Af þeim sökum og að virtum málatilbúnaði stefnanda verður ekki séð að unnt sé að henda reiður á venjumyndun um túlkun og framkvæmd í þessum efnum. Í þessu sambandi ber sérstaklega að hafa í huga að slík venja um túlkun gengi frekast gegn orðalagi greinar 1.4, en væri ekki einskorðuð við skýringu og fyllingu á greininni. Að svo vöxnu máli þykir verða að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Ríkisútvarpsins ohf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Blaðamannafélags Íslands, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira