Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 92/2019 - Úrskurður

Frestun réttaráhrifa

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. 92/2019

Miðvikudaginn 3. júlí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með beiðni, móttekinni 21. júní 2019, óskaði B lögmaður, f.h. A, eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 92/2019 þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunnar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2016 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2018, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2017 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með umsókn, dags. 20. september 2018, sótti kærandi um niðurfellingu ofgreiðslukröfu. Með bréfi, dags. 4. desember 2018, synjaði Tryggingastofnun ríkisins beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki talin vera fyrir hendi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. febrúar 2019. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 5. júní 2019. Staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunnar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 92/2019. Í beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa segir að með vísan til ákvæðis 5. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sé þess óskað að nefndin fresti réttaráhrifum úrskurðar í málinu. Kærandi hafi í hyggju að bera málið undir dómstóla í samræmi við það sem mælt sé fyrir um í umræddu ákvæði.

III.  Niðurstaða

Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefnd fresti réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. 92/2019.

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þar sem fram kemur að enginn geti komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms.

Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um undantekningu frá framangreindri meginreglu. Fram kemur í ákvæðinu að úrskurðarnefnd velferðarmála geti ákveðið, að kröfu málsaðila, að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðan en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum vera bundin því skilyrði að málsaðili beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga.

Í 5. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar kemur ekki fram til hvaða sjónarmiða úrskurðarnefnd velferðarmála ber að líta við mat á því hvort fallist verði á frestun réttaráhrifa. Aftur á móti koma fram í athugasemdum við 2. mgr. 29. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga nokkrar leiðbeiningar um til hvaða sjónarmiða beri að líta við mat á því hvort fallast eigi á frestun réttaráhrifa stjórnvaldsákvörðunar lægra setts stjórnvalds á meðan kæra er til meðferðar. Í athugasemdunum segir meðal annars svo:

„Það verður ávallt að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttar áhrifum kærðrar ákvörðunar. Við slíkt mat ber að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Líta ber til þess hversu langt er um liðið frá því að hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, en einnig verður að horfa til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt.

Almennt mælir það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar eru mikilvægir almannahags munir, t.d. þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand.

Það mælir hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls er aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegur sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks má svo nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verður í raun þýðingar laus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað.“

Úrskurðarnefndin telur rétt að líta til sambærilegra sjónarmiða við mat á því hvort rétt sé að fresta réttaráhrifum úrskurðar í tilefni málskots til dómstóla eins og heimild er fyrir í 5. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að fjárhagslegar aðstæður kæranda séu nokkuð góðar en samkvæmt staðgreiðsluskrá voru meðaltekjur kæranda X kr. á mánuði á árinu 2018. Þá er eignastaða hans jákvæð og eru laun hans í dag það há að hann á ekki lengur rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Úrskurðarnefndin lítur einnig til þess að Tryggingastofnun hefur dreift eftirstöðvum af kröfunni á 60 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á tólf mánuðum eins og kveðið er á um í lögum. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. X 2018, og hann hefur verið að endurgreiða kröfuna frá X 2019. Að lokum er litið til þess að ekkert bendir til þess að erfitt yrði að ráða bót á tjóni kæranda verði hin kærða ákvörðun síðar felld úr gildi.

Á grundvelli heildarmats á öllum aðstæðum verður ekki talið að úrskurður í máli nr. 92/2019 feli í sér svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun að hún réttlæti að vikið sé frá þeirri meginreglu að málskot til dómstóla fresti ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar. Með vísan til framangreinds er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 92/2019 frá 5. júní 2019, synjað.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um frestun réttaráhrifa úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 92/2019, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira