Hoppa yfir valmynd

Nr. 196/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 196/2019

Miðvikudaginn 14. ágúst 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. maí 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 27. febrúar 2019 á bótaskyldu vegna slyss sem hún varð fyrir X.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Sjúkratryggingum Íslands barst tilkynning, dags. 27. febrúar 2018, frá kæranda um að hún hefði orðið fyrir slysi á leið til vinnu X. Í tilkynningunni er slysinu lýst þannig að kærandi hafi runnið í hálku á leið til vinnu. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 9. maí 2018. Í bréfinu segir að samkvæmt gögnum málsins hafi slysið orðið við C þegar kærandi hafi verið að fylgja dóttur sinni í skólann áður en hún fór til vinnu í D. Því hafi ekki verið um að ræða beina leið á milli heimilis og vinnustaðar. Slysið falli þar af leiðandi ekki undir slysatryggingar almannatrygginga. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 16. júlí 2018. Með úrskurði nefndarinnar nr. 254/2018 frá 7. nóvember 2018, var ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu að nýju með bréfi, dags. 27. febrúar 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2019. Með bréfi, dags. 22. maí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 5. júní. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. júní 2019, var greinargerðin send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála fallist á umsókn hennar um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Í kæru segir slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi runnið í hálku með þeim afleiðingum að hún hafi dottið og lent illa. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum, sbr. meðfylgjandi læknisfræðileg gögn.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands en með bréfi frá stofnuninni, dags. 9. maí 2018, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að stofnunin yrði ekki við umsókn kæranda um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga. Ástæða höfnunarinnar hafi verið sú að ekki væri um að ræða beina leið kæranda á milli heimilis og vinnustaðar og því myndi slysið ekki falla undir slysatryggingar almannatrygginga og málið yrði því ekki skoðað frekar efnislega.

Kærandi hafi skotið málinu til úrskurðarnefndar velferðarmála og með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 254/2018, dags. 12. nóvember 2018, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að Sjúkratryggingar Íslands hafi brugðist rannsóknarskyldu þar sem málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst.

Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 26. nóvember 2018, hafi stofnunin óskað eftir frekari gögnum um ástæður ferðar kæranda á skólalóð C þegar slysið varð og hvort það hefði verið nauðsynlegur þáttur í ferð hennar frá heimili til vinnustaðar. Og ef svo væri hvers vegna. Kærandi hafi svarað Sjúkratryggingum Íslands með tölvupósti 25. janúar 2019 þar sem fram hafi komið að kærandi hafi verið á leið sinni til vinnu og verið að fylgja barni sínu í skólann í leiðinni og það hafi verið nauðsynlegt þar sem um barn hafi verið að ræða.

Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 27. febrúar 2019, hafi stofnunin hafnað umsókn kæranda um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga þar sem stofnunin teldi ekki hafa verið nauðsynlegt fyrir kæranda að fylgja dóttur sinni í skólann á slysdegi á leið sinni til vinnu.

Kærandi geti á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji slys sitt falla undir slysatryggingar almannatrygginga með vísan til eftirfarandi röksemda.

Aðdragandi málsins sé sá að kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysi X við E á leið til vinnu sinnar fyrir D. Slysið hafi orðið með þeim hætti að hún hafi runnið í hálku með þeim afleiðingum að hún hafi dottið og lent illa. Kærandi sé búsett að F og fylgi hún ávallt dóttur sinni í C á leið sinni í vinnu sína í D. Skólinn sé staðsettur [...] og sé því ekki úr leið fyrir hana en þann X, þegar kærandi var að ganga af skólalóðinni, hafi hún runnið með þeim afleiðingum að hún datt og lenti illa. Meðfylgjandi sé kort af leið kæranda.

Dóttir kæranda hafi verið X ára þegar slysið átti sér stað. Kærandi sé vön að fylgja henni í skólann, enda sé skólinn mjög stutt frá heimili kæranda og í leiðinni fyrir hana á leið sinni til vinnu. Kærandi telji öruggast að fylgja dóttur sinni, sérstaklega í miklu myrkri, í stað þess að hún gangi ein. Venja kæranda hafi því verið sú að fylgja dóttur sinni um leið og hún lagði leið sína í vinnu.

Lagt hafi verið til grundvallar að um eðlilega leið sé að ræða ef viðkomandi hafi það fyrir fasta venju að fara ákveðna leið, en í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 64/2003 frá 9. apríl hafi málsatvik verið þau að skipstjóri, sem var nýkominn úr veiðiferð, varð fyrir árekstri á heimleið þegar hann ók meðfram höfninni þar sem skip hans lá. Nefndin hafi viðurkennt bótaskyldu í málinu á þeim grundvelli að það væri föst venja kæranda að aka meðfram höfninni á heimleið eftir veiðiferð til þess að átta sig á ástandi hafnarinnar og aðstæðum þar. Kærandi telji aðstæður í sínu máli að mörgu leyti sambærilegar, enda hafi hún farið þá leið sem hún fór venjulega. Kærandi leggi áherslu á að sú staðreynd að hún hafi fylgt dóttur sinni í skólann líkt og venjulega virka morgna áður en hún hélt áfram til vinnu sinnar, geti ekki talist rof á eðlilegri leið þannig að slysið falli utan slysatrygginga almannatrygginga.

Kærandi telji ljóst að atburðarás á slysdegi hafi ekki verið frábrugðin því sem gerðist aðra daga, enda hafi kærandi alltaf þurft að fylgja dóttur sinni í skólann áður en hún hélt til vinnu.

Kærandi vísi til dóms Hæstaréttar nr. 388/2016 frá 23. febrúar 2017 en í málinu hafi verið deilt um það hvort ríkisstarfsmaður hefði verið á beinni leið heim úr vinnu er hún hafi komið við á þjónustustöð Olís þar sem bifreiðin var að verða bensínlaus. Á bifreiðastæði við Olís hafi verið bakkað á bifreið starfsmannsins svo að árekstur varð. Í dómi Hæstaréttar komi fram að stefndi hafi verið á heimleið frá vinnustað sínum þar sem hún hafi ekið bifreið sinni þá leið sem hún var vön að aka og inn á bensínstöð í nágrenni heimilis síns til þess að kaupa eldsneyti á bifreiðina sem hún kvað hafa verið að verða eldsneytislausa. Eins og atvikum var háttað hafi Hæstiréttur talið það nauðsynlegan og eðlilegan þátt í akstri bifreiðar frá vinnustað að heimili.

Kærandi telji atvik málsins sambærileg atvikum í framangreindum dómi þar sem um venjulega leið til vinnu hafi verið að ræða í máli kæranda líkt og í málsatvikum dómsins. Eins og sjá megi á meðfylgjandi kortum sé stysta mögulega leið kæranda frá heimili sínu í vinnuna sú leið sem liggi fram hjá E sem liggi að C. Kærandi hafi því verið á beinni, stystu leið til vinnu í samræmi við vana hennar. Í málsatvikum framangreinds dóms Hæstaréttar komi fram að ekki hafi verið um venjulegt eða reglubundið stopp að ræða á bensínstöðinni, enda hafi hún ekki stoppað á þessum stað á hverjum degi. Í máli kæranda hafi hins vegar verið um venjubundna og reglulega leið hennar að ræða og því í raun ekki rof á leið hennar til vinnu. Telji kærandi því aðstæður í sínu máli enn skýrari um að hún hafi verið á beinni og eðlilegri leið og tilfelli hennar falli undir gildissvið slysatrygginga almannatrygginga.

Samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 12. nóvember 2018 í máli kæranda telji nefndin að leið kæranda að skóla dóttur sinnar þurfi að vera nauðsynleg ferð á milli heimilis og vinnustaðar til þess að bótaskylda geti verið fyrir hendi. Samkvæmt úrskurðinum sé ekki unnt að byggja synjun á bótaskyldu á vinnureglu Sjúkratrygginga Íslands um að aðeins megi rjúfa ferð á leið til vinnu til að fylgja og sækja börn á forskólaaldri og í 1. bekk í grunnskóla. Nauðsynlegt sé að meta sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig hvort fylgd sé nauðsynleg.

Samkvæmt bréfi Sjúkratrygginga Íslands frá 27. febrúar 2019 hafi stofnunin talið þá ástæðu fyrir fylgd kæranda á slysdegi að dóttir hennar væri barn ekki nægjanlega til þess að fylgdin teldist nauðsynleg. Í bréfinu sé því haldið fram að fylgdin gæti talist nauðsynleg ef X ára dóttir kæranda ætti í einhverjum erfiðleikum með að ganga í skólann, til dæmis vegna sérþarfa eða fötlunar en þar sem engir slíkir erfiðleikar væru fyrir hendi á slysdegi væri fylgdin ekki nauðsynleg.

Kærandi mótmæli framangreindum rökum Sjúkratrygginga Íslands. Hún telji óraunhæft og ósanngjarnt að miða nauðsyn fylgdar X ára barns í skólann við sérþarfir eða fötlun. Kærandi leggi áherslu á að hún sé móðir dóttur sinnar og sé best til þess fallin að meta hvað sé nauðsynlegt hverju sinni fyrir barnið. Þó að dóttir hennar glími ekki við sérþarfir eða fötlun útiloki það ekki vandaða umönnun á borð við fylgd í skólann. Að öðrum kosti hefði dóttir hennar gengið ein og ekki verið samferða neinum og hafi móðir hennar metið það svo að best væri að fylgja henni í skólann hvern dag, enda væri það í leið fyrir hana á eigin leið til vinnu.

Kærandi leggi því áherslu á að hún hafi verið á beinni leið til vinnu sem hafi verið nauðsynleg og eðlileg í samræmi við framangreint.

Með vísan til þessa sem og gagna málsins sé kærð sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna umsókn kæranda og þess krafist að nefndin úrskurði um málið.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að 27. febrúar 2018 hafi Sjúkratryggingum Íslands borist tilkynning um slys sem kærandi hafi orðið fyrir X. Með ákvörðun, dags. 9. maí 2018, hafi umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga verið hafnað á þeim grundvelli að skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga væru ekki uppfyllt. Sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála en nefndin hafi fellt synjun Sjúkratrygginga Íslands úr gildi og vísað málinu til meðferðar á ný með úrskurði, dags. 7. nóvember 2018. Eftir frekari rannsókn Sjúkratrygginga Íslands á málinu hafi umsókn kæranda verið hafnað á ný með ákvörðun, dags. 27. febrúar 2019. Sú ákvörðun Sjúkratrygginga sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Slysatryggingar almannatrygginga falli undir ákvæði laga nr. 45/2015. Við úrlausn málsins hafi verið litið til I. kafla laganna en samkvæmt 5. gr. laganna séu launþegar slysatryggðir við vinnu. Í umræddu ákvæði komi einnig fram að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður sé og gerist án vilja hans. Þá segi að slys teljist ekki verða við vinnu ef það hljótist af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna.

Hvenær einstaklingur teljist vera við vinnu sé tilgreint í 2. mgr. 5. gr. en þar komi fram að einstaklingur teljist vera við vinnu þegar hann sé á vinnustað á þeim tíma sem honum sé ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum. Einnig ef hann sé í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til og frá vinnu, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar séu samdægurs á milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar.

Eins og fram hafi komið hafi fyrri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og með úrskurði nefndarinnar hafi málinu verið vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nefndin hafi talið að Sjúkratryggingum Íslands hefði borið að óska eftir nánari skýringum frá kæranda um ástæður ferðar hennar á skólalóð C þegar slysið varð og hvort það hefði verið nauðsynlegur þáttur í ferð hennar frá heimili til vinnustaðar.

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2018, hafi Sjúkratryggingar Íslands óskað eftir eftirfarandi upplýsingum:

„Með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 254/2018 er óskað eftir nánari skýringum um ástæður ferðar hinnar slösuðu á skólalóð [C] þegar slysið varð og hvort það hafi verið nauðsynlegur þáttur í ferð hennar frá heimili til vinnustaðar. Of ef svo er, hvers vegna?“

Með tölvupósti, dags. 25. janúar 2019, hafi lögmaður kæranda svarað fyrirspurn Sjúkratrygginga Íslands með eftirfarandi hætti:

„Eins og áður hefur komið fram var hún að fylgja barni sínu í skólann á leið sinni til vinnu og var nauðsynlegt því að þetta er barn.“

Samkvæmt svari lögmanns kæranda hafi Sjúkratryggingar Íslands talið ljóst að engar nýjar ástæður væru fyrir því af hverju það hefði verið nauðsynlegt fyrir kæranda að fylgja dóttur sinni í skólann á slysdegi áður en hún hélt til vinnu. Ástæðan fyrir fylgd kæranda á slysdegi hafi verið sú að dóttir kæranda sé barn. Það eitt verði að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki til þess að fylgd kæranda teljist nauðsynleg í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga.

Þá hafi Sjúkratryggingar Íslands ítrekað það sem fram hafi komið í greinargerð stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. ágúst 2018, að það hafi ekki verið nauðsynlegur þáttur í því að kærandi gæti sinnt starfi sínu hjá D á slysdegi að X ára dóttir hennar færi í skólann. Dóttir hennar þurfi þannig að sinna skólaskyldu sinni hvort sem kærandi fari til vinnu eða ekki. Það væri þá helst ef dóttir hennar ætti í einhverjum erfiðleikum með að ganga í skólann, til dæmis vegna sérþarfa eða fötlunar, að fylgdin gæti talist nauðsynleg í skilningi laganna. Ljóst sé að engir slíkir erfiðleikar hafi verið fyrir hendi á slysdegi, sbr. svör lögmanns í áðurnefndum tölvupósti.

Sjúkratryggingar Íslands hafi því talið málið nægilega upplýst og metið hafi verið sérstaklega hvort fylgd hafi verið nauðsynleg í máli kæranda en stofnunin hafi ekki talið svo vera.

Í ljósi þessa hafi ekki verið talið heimilt að verða við umsókn um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga.

Ekki þyki efni til að svara kærunni efnislega að öðru leyti en nú þegar hafi verið gert. Vísi Sjúkratryggingar Íslands því til fyrirliggjandi ákvarðana og fyrri greinargerðar fyrir nefndinni. Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi ekkert fram í kæru sem gefi tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun.

Öll gögn ættu að liggja fyrir hjá nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótaskyldu vegna slyss sem kærandi varð fyrir þann X.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga taka slysatryggingar almannatrygginga til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar, íþróttakeppni eða heimilisstörf, enda sé hinn slasaði tryggður samkvæmt ákvæðum 7. eða 8. gr. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna telst maður vera við vinnu:

„a.Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b.Í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem eru farnar samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort slys kæranda þann X hafi orðið við vinnu í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Í tilkynningu um slys kæranda til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 27. febrúar 2018, þar sem óskað er nákvæmrar lýsingar á tildrögum og orsökum slyssins segir svo:

„Rennur í hálku á leið til vinnu [X].“

Í bráðamóttökuskrá læknanna G og H, dags. X, segir um tildrög slyssins:

„[A] var á leiðinni í vinnuna þegar hún rennur í hálku og dettur.“

Sjúkratryggingar Íslands óskuðu eftir nánari upplýsingum um ferð kæranda með bréfi, dags. 6. mars 2018. Í tölvupósti lögmanns kæranda til stofnunarinnar, dags. 17. apríl 2018, segir meðal annars:

„[A] var að labba frá heimili sínu að [F] í vinnuna sína í [D]. Gekk í leiðinni með stelpuna sína í [C] sem er [...], var að ganga af skólalóðinni þegar hún rennur með þeim afleiðingum að hún dettur og lendir illa.“

Ekki er ágreiningur í málinu um að kærandi var umrætt sinn á leið til vinnu en hún gekk í leiðinni með dóttur sína í skólann og var að ganga af skólalóðinni þegar hún varð fyrir slysinu X. Kemur því til skoðunar hvort slys kæranda geti fallið undir b-lið 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga, en samkvæmt því ákvæði nær bótaskylda úr slysatryggingum almannatrygginga til slysa sem verða í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til og frá vinnu, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs á milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Við skýringu lagaákvæðisins horfir úrskurðarnefndin fyrst og fremst til þess hvort kærandi hafi verið á eðlilegri leið á milli heimilis og vinnustaðar og sé um frávik frá eðlilegri leið að ræða hvort ferðin geti talist nauðsynleg.

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar í máli nr. 254/2018 gerir úrskurðarnefnd velferðarmála ekki athugasemdir við það að kærandi hafi gengið eftir F á leið til vinnu. Aftur á móti liggur fyrir að kærandi vék af leið sinni í vinnu til þess að fylgja dóttur sinni í skólann og var að ganga af skólalóðinni þegar slysið varð. Úrskurðarnefndin telur að slíkt frávik frá þeirri leið, sem kærandi hefði annars farið, verði að vera liður í nauðsynlegri ferð á milli heimilis og vinnustaðar til að bótaskylda geti verið fyrir hendi. Þannig telur úrskurðarnefndin ekki nægilegt að kærandi fari alltaf þessa sömu leið til vinnu líkt og kærandi byggir á.

Sjúkratryggingar Íslands hafa þá vinnureglu að rjúfa megi ferð á leið til vinnu til að fylgja og sækja börn á forskólaaldri í dagvistun og í 1. bekk grunnskóla án þess að það hafi áhrif á bótaskyldu. Framangreind vinnuregla virðist byggð á því að nauðsynlegt sé að fylgja ungum börnum í dagvistun/skóla. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekki unnt að byggja synjun um bótaskyldu á slíkri vinnureglu sem tekur til allra mála og miðast eingöngu við aldur barns, án tillits til þess hvort einhverjar þær ástæður séu fyrir hendi sem valdi því að ferð með eldra barn í eða úr skóla teljist nauðsynlegt í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga. Meta verður sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig hvort fylgd sé nauðsynleg. Því kemur til skoðunar hvort umrætt frávik í tilviki kæranda hafi verið nauðsynlegt rof á leið hennar til vinnu. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 26. nóvember 2018, var óskað eftir nánari skýringum frá lögmanni kæranda á því hvers vegna það teldist nauðsynlegt fyrir kæranda að víkja af leið sinni til vinnu inn á skólalóð C umrætt sinn. Með bréfi frá lögmanni kæranda, dags. 25. janúar 2019, var stofnuninni svarað með eftirfarandi hætti:

„Vísa í mál ofangreindrar og bréf frá ykkur dags. 26.11.2018. Eins og áður hefur komið fram var hún að fylgja barni sínu í skólann á leið sinni til vinnu og það var nauðsynlegt því þetta er barn.“

Í kæru kemur jafnframt fram að kærandi telji öruggast að fylgja dóttur sinni í skólann, sérstaklega í miklu myrkri, í stað þess að hún gangi ein. Þá segir að móðir barnsins sé best til þess fallin að meta hvað sé nauðsynlegt hverju sinni fyrir barnið. Þótt dóttir hennar glími ekki við sérþarfir eða fötlun útiloki það ekki vandaða umönnun á borð við fylgd í skólann.

Fyrir liggur að dóttir kæranda var X árs þegar slysið varð X. Af kæru verður ráðið að barnið glími ekki við sérþarfir eða fötlun. Úrskurðarnefndin telur að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kæranda hafi verið nauðsynlegt að ganga með dóttur sinni inn á skólalóðina. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að það frávik á leið kæranda til vinnu að ganga inn á skólalóð C teljist liður í nauðsynlegri ferð hennar á milli heimilis og vinnustaðar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu vegna slyss A, sem hún varð fyrir X, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira