Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 115/2019 - Úrskurður

Sjúklingatrygging

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 115/2019

Miðvikudaginn 10. júlí 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, sem barst 19. mars 2019 en er dagsett 18. mars 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 18. desember 2018 á umsókn kæranda á bótum úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 23. febrúar 2018, vegna tjóns sem hann telur að rekja megi til meðferðar sem fram fór á Landspítala í kjölfar [slyss] þann X.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 18. desember 2018, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra, dags. 18. mars 2019, barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. mars 2019. Með bréfi, dags. 20. mars 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með tölvupósti, dags. 2. apríl 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. apríl 2019, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir höfnun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hans en hann telur að skilyrði 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé fullnægt. Verður að líta svo á að með kærunni sé þess krafist að synjun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 18. desember 2018, um bætur úr sjúklingatryggingu verði felld úr gildi.

 

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi lent í [slysi] í C þann X. Hann hafi upphaflega verið fluttur á D til frekari skoðunar og verið greindur með [...]. Ákveðið hafi verið senda hann [...] til E þar sem fyrirhugað hafi verið að gera aðgerð [...]. Kærandi hafi verið lagður inn á bæklunardeild Landspítala og verið sagt að fasta þar sem hann þyrfti að gangast undir aðgerð daginn eftir. Daginn eftir, eða þann X, hafi tveir sjúkraþjálfarar komið til kæranda og reist hann upp úr sjúkrarúminu. Í dagnótu sjúkraþjálfunar dags. X segi eftirfarandi:

 

„X: [...].“

 

Kærandi lýsir atvikum með þeim hætti að þegar sjúkraþjálfararnir komu daginn eftir slysið hafi hann verið alveg rúmliggjandi frá því deginum áður og fastandi. Að sögn kæranda hafi hann verið í afar viðkvæmu ástandi vegna [...] og hafi sagst ekki treysta sér að ganga, en sjúkraþjálfararnir hefðu pressað óþarflega mikið á hann. Þeir hafi síðan rifið hann upp og látið hann ganga nokkur skref með stuðningi göngugrindar en kærandi kveðst strax hafa fundið fyrir svima og liðið illa. Hann hafi því óskað eftir því að þeir færu aftur með hann til baka í rúmið. Í kjölfarið [...]. Þá hafi heilsu hans hrakað stöðugt dagana á eftir og að sögn kæranda hafi hann misst um það bil X kg á einni viku. Honum hafi liðið afar illa, haft litla matarlyst og lítinn þrótt. Bataferlið hafi tekið mun lengri tíma vegna [...] og hann hafi verið inniliggjandi frá X. til X. Þá hafi verið hætt við aðgerðina [...] og ákveðið að láta nægja að [...].

 

Eftir útskrift af spítalanum kveðst kærandi hafa verið afar illa haldinn og rekur hann ástandið að stærstum hluta til [...]. Hann hafi verið óvinnufær í X mánuði og misst að endingu vinnu sína sem [...] þar sem líkamlegt ástand hans hafi ekki boðið upp á að sinna starfinu. Í dag kveðst kærandi enn vera að glíma við [...] vegna [...], sbr. læknisvottorð F frá X. Enn sé óljóst hvort ástandið sé varanlegt eða hvort það muni lagast eitthvað. Þá kveðst kærandi ekki enn vera búinn að ná þrekinu upp, en fyrir atvikið kveðst hann hafa verið í toppformi.

 

Í greinargerð G yfirlæknis, dags. X, sé vísað til þess að ekki sé óeðlilegt að gönguþjálfun hefjist strax og gefið hafi verið grænt ljós á slíka. Þá segi:

 

„Getur þá óhjákvæmilega ýmislegt gerst en til að takast á við slíkt eru sjúkraþjálfara og hjúkrunarfólk gjarnan til staðar og fyrstu skrefin tekin í nærveru þessara aðila. Var hann látinn setjast á rúmstokk áður en hann var tekinn á fætur og þegar svimi gerði vart við sig var hann aftur lagður í rúm en með því sem það var gert [...]. Telur undirritaður að þótt óvænt uppákoma hafi orðið hafi fullkomlega eðlilega verið staðið að hlutum.“

 

Þá segi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að það sé í samræmi við almennt viðtekna læknisfræði að hefja hreyfiþjálfun sem fyrst eftir [...] eins og kærandi hlaut og réttilega hafi verið byrjað á þeirri þjálfun daginn eftir slysið, eða þann X. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi starfsfólk Landspítala brugðist rétt við og engu að síður hafi kærandi fengið [...], en ekki verði annað séð af gögnum málsins en að rétt hafi verið staðið að meðferð í tengslum við hana. Þá sé vísað til þess í ákvörðuninni að kærandi hafi hlotið meðferðir við áverkum sínum sem hafi verið fyllilega innan viðtekinna marka og gagnreyndrar læknisfræði. [...] sé að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki hægt að rekja til meðferðar á Landspítala eða skorts á meðferð, heldur til upphaflegs áverka og alvarleika hans. Þar af leiðandi séu skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu ekki uppfyllt.

 

Kærandi getur ekki tekið undir framangreind rök meðferðaraðila og Sjúkratrygginga Íslands og byggir kröfu um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hann hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna meðhöndlunar sjúkraþjálfara á Landspítala þann X. Að mati kæranda hafi sjúkraþjálfarar ekki tekið nægilega mikið tillit til aðstæðna og hafi farið alltof geyst af stað í gönguþjálfun og hafi pressað óþarflega á kæranda sem hafi orðið til þess að hann [...]. Vegna [...] hafi bataferli kæranda verið mun lengra og hann veikari fyrir vikið. Þá kveðst kærandi enn vera að glíma við afleiðingarnar nú, X árum síðar. Að mati kæranda hafi átt sér stað mistök við meðferð sjúkraþjálfaranna þann X með fyrrgreindum afleiðingum og hann telur að um bótaskylt atvik sé að ræða samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

 

Samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu eigi þeir rétt til bóta sem verði fyrir meðal annars líkamlegu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi. Í 2. gr. laganna sé að finna þau tjónsatvik sem lögin taka til. Í 1. tölul. 2. gr. laganna segi eftirfarandi:

 

,,Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.“

 

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um sjúklingatryggingu komi fram að tilgangur laganna hafi meðal annars verið sá að tryggja tjónþola víðtækari rétt á bótum en hann eigi samkvæmt almennum skaðabótareglum og jafnframt að gera honum auðveldara að ná fram rétti sínum. Þá segi einnig að samkvæmt frumvarpinu skipti meginmáli um greiðsluskyldu sjúklingatryggingar hvort komast hefði mátt hjá tjóninu sem sjúklingur varð fyrir. Samkvæmt 2. gr. laganna skuli í fyrsta lagi greiða bætur vegna allra tjóna sem rakin verða til þess að eitthvað fer úrskeiðis hjá lækni eða öðrum starfsmanni, sbr. 1. tölul. Við mat á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis hjá lækni eða öðrum skuli ekki nota sama mælikvarða og stuðst er við samkvæmt hinni almennu sakarreglu skaðabótaréttar heldur miða við hvað hefði gerst ef rannsókn eða meðferð hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið. Við mat á því hvort nauðsynlegt orsakasamband sé á milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar sjúklings sé nægilegt að sýnt sé fram á að tjón hafi að öllum líkindum hlotist af þessari rannsókn eða meðferð, sbr. upphafsákvæði 2. gr. Með orðalaginu í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu ,,að öllum líkindum“ sé átt við að það verði að vera meiri líkur en minni á að tjónið megi rekja til einhverra þessara atvika. Það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar eða rannsóknar sem hann gekkst undir.

 

Kærandi leggur áherslu á að ef sjúkraþjálfararnir hefðu ekki gengið jafn hart að honum að standa upp og reyna að ganga líkt og raunin var, hefði verið hægt að komast hjá [...]. Þá bendir kærandi á að atvikið hafi átt sér stað X og að það hafi augljóslega verið undirmannað á spítalanum. Bæði virtist [...] hafa gleymst og einnig hafi að mati kæranda engan veginn verið tímabært að rífa hann upp úr rúminu í ljósi aðstæðna og þess að hann væri fastandi. Þá setur kærandi spurningarmerki við það að hann hafi aldrei séð aftur sjúkraþjálfarana sem önnuðust hann þann X. Að sögn kæranda hafi annar sjúkraþjálfaranna, sem annaðist hann eftir atvikið, óskað eftir [...] eftir meðferðina sem [...] og hafi sálfræðingur, sem hafði rætt við kæranda í tengslum við [...], spurt hvort hann ætlaði ekki að tilkynna atvikið.

 

Auk framangreinds gerir kærandi athugasemdir við skráningu í sjúkraskrá, enda sýni skráningin ekki nógu vel hvert raunverulegt ástand hans var. Þrátt fyrir að það líti út fyrir í skráningunni að tímabært hafi verið að hefja gönguþjálfun daginn eftir, hafi kærandi augljóslega ekki verið í ástandi til þess og því hafi verið með öllu ótímabært að fara jafn geyst af stað og sjúkraþjálfararnir gerðu.

 

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar sem og gagna þeirra sem fylgi með kæru telji kærandi sig uppfylla skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu þannig að hann eigi rétt til bóta vegna þess líkamstjóns sem leiddi af meðferðinni á Landspítalanum. Leiða megi að því líkur að hefði verið staðið rétt að meðferð sjúkraþjálfara og meiri nærgætni sýnd við gönguþjálfunina, hefði kærandi eflaust sloppið við [...] og tilheyrandi tímabundið atvinnutjón og viðvarandi einkenni [...]. Í öllu falli telur kærandi að hann hljóti að eiga að fá að njóta vafans, enda séu meiri líkur en minni á því að orsök [...] megi rekja til ótímabærrar hreyfiþjálfunar.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er vísað til málavaxta hinnar kærðu ákvörðunar með eftirfarandi hætti:

,,Samkvæmt gögnum málsins var [kærandi] lagður inn á bæklunarskurðdeild LSH þann X eftir að hafa lent í [slysi] þann sama dag. Hann hafði fyrst eftir slysið verið til meðferðar á D þar sem greint var [...].

Skráð var að ákveðið hafi verið að meðhöndla [...]og því var hafin hreyfiþjálfun daginn eftir innlögn. Sú þjálfun fór fram með aðstoð sjúkraþjálfara. Samkvæmt gögnum málsins gekk [kærandi] lítillega í hárri göngugrind en fór þá að svima. Hann var því settur í rúmið aftur [...]. Skráð var að umsækjandi hafi í kjölfarið [...]. Meðferð við [...] fór fram í samráði við [lækni], bæði með [...].

Daginn eftir innlögn, eða þann X, skoðuðu [læknar] röntgenmyndir [...] [kæranda] og var þá ákveðið að beita [...] frekar en aðgerð.

Samkvæmt gögnum málsins fór að bera á því að [kærandi] væri [...]. Rannsóknin var eðlileg og ekki kom til neinnar sérstakrar meðferðar.

[Kærandi] útskrifaðist af LSH X.“

Þá segir að í kaflanum um forsendur niðurstöðu komi meðal annars eftirfarandi fram:

,,Með hliðsjón af gögnum málsins er það mat SÍ að ekki hafi verið ábending fyrir aðgerð vegna [...] og telur stofnunin að það hafi verið rétt ákvörðun að [...] í tilviki [kæranda]. Það er í samræmi við almennt viðtekna læknisfræði að hefja hreyfiþjálfun sem fyrst eftir [...] eins og [kærandi] hlaut og var réttilega byrjað á þeirri þjálfun daginn eftir slysið, eða þann X.

Samkvæmt gögnum málsins voru tveir starfsmenn LSH  [kæranda] til aðstoðar við þjálfunina. Þar sem [kæranda] fór fljótlega að líða illa var hann lagður í rúmið en [...]. Hann var þá samkvæmt gögnum málsins [...] og eru það að mati SÍ rétt viðbrögð. Engu að síðu fékk [kærandi] [...] og verður ekki annað séð af gögnum málsins en að rétt hafi verið staðið að meðferð  í tengslum við hana. 

SÍ telja ekki hægt að taka undir fullyrðingu [kæranda] um að læknar hafi gleymt að gera aðgerð [...]. Ljóst er að [læknar] sáu fyrst röntgenmyndir daginn eftir innlögn og ákváðu þá að ekki þyrfti að koma til aðgerðar heldur skyldi beitt [...]. SÍ gera ekki athugasemdir við það val á meðferð, enda vel þekkt meðferð við [...] líkt og því sem [kærandi] hlaut.

Miðað við skráningu í sjúkraskrá [kæranda] var að mati SÍ engin ábending fyrir [...] í upphafi meðferðar þar sem ekki voru nein teikn um [...]. Þegar fór að bera á [...] hjá [kæranda] var við því brugðist með viðeigandi hætti en rannsókn syndi ekki fram á nein ummerki [...].

Það er því mat SÍ að [kærandi] hafi hlotið meðferðir við áverkum sínum sem voru fyllilega innan viðtekinna marka og gagnreyndrar læknisfræði. [...] eru að mati SÍ ekki hægt að rekja til meðferðar á LSH eða skort á meðferð, heldur til upphaflegs áverka og alvarleika hans.“

Með vísan til framangreinds hafi það verið niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands að skilyrði 2. gr. laganna væru ekki uppfyllt.

Í ljósi þess verði ekki annað séð en að afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnis hafi þegar komið fram í upphaflegri ákvörðun og þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í fyrirliggjandi ákvörðun frá 18. desember 2018. Þá vísi Sjúkratryggingar Íslands einnig til þess að sjúklingatryggingu sé ekki ætlað að bæta tjón sem sé afleiðing upphaflegs áverka/ grunnsjúkdóms og sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns kæranda og þeirrar meðferðar sem hann gekkst undir, en í hinni kærðu ákvörðun var umrætt orsakasamband ekki talið vera til staðar í tilviki kæranda.

Sjúkratryggingar Íslands telji þó vert að benda á að í kæru séu gerðar athugasemdir við skráningu í sjúkraskrá og telur kærandi að skráningin sýni ekki nógu vel hvert raunverulegt ástand hans var. Um skráningu heilbrigðisstarfsfólks í sjúkraskrá gildi strangar reglur, sbr. lög nr. 55/2009, og á Landspítala gildi ákveðnar verklagsreglur sem feli í sér að atvik sem koma upp í meðferð sjúklinga beri að skrá í sjúkraskrá. Þá beri að upplýsa yfirmenn um slík atvik. Kvartanir kæranda sem snúi að skráningum í sjúkraskrá hans komi hér ekki til frekari skoðunar, þar sem slíkar kvartanir falli undir svið Embættis landlæknis og bendir stofnunin kæranda góðfúslega á að beina kvörtunum sínum hvað þetta varðar í réttan farveg. Að lokum sé einnig vert að benda á að samkvæmt skoðun H læknis, sem hafi farið fram X, var [...] sögð vera [...], sbr. umfjöllun í matsgerð, dags. X.

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótum á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna tjóns sem kærandi rekur til meðferðar á Landspítala X í kjölfar [slyss] daginn áður.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss, eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi telur að líkamstjón hans hafi komið til vegna meðferðar sem hann hlaut á Landspítala í kjölfar [slyss]. Ef rétt hefði verið staðið að meðferð sjúkraþjálfara og meiri nærgætni verið sýnd við sjúkraþjálfun hefði hann eflaust sloppið við [...] og tilheyrandi fylgikvilla. Því séu uppfyllt skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Í greinargerð meðferðaraðila, dags. X, kemur fram að kvörtun kæranda sýni fyrst og fremst ólíka upplifun sjúklings og starfsfólks á atburðum og sé lítið við því að segja. Sé ekki óeðlilegt að gönguþjálfun hefjist strax og gefið hafi verið grænt ljós á hana. Geti þá óhjákvæmilega ýmislegt gerst en til að takast á við slíkt séu sjúkraþjálfarar og hjúkrunarfólk gjarnan til staðar og fyrstu skrefin tekin í nærveru þeirra Hafi kærandi verið látinn setjast á rúmstokk áður en hann hafi verið tekinn á fætur. Þegar [...] hafi hann verið lagður aftur í rúm en með því sem gert hafi verið [...]. Telji meðferðaraðili að þótt óvænt uppákoma hafi orðið þá hafi fullkomlega eðlilega verið staðið að hlutum. Hvað snerti [...] hafi verið ákveðið að meðhöndla það [...]. Hafi sú ákvörðun ekki legið fyrir fyrr en [læknar] hefðu séð myndir daginn eftir innlögn. Hafi verið teknar röntgenmyndir eftir að [...]. Myndirnar hafi sýnt [...] og nýtt eftirlit ákveðið að X dögum liðnum. Hvað snerti [...] hafi ekki þótt ástæða til slíkrar rannsóknar í byrjun, enda hafi engin merki verið til staðar um [...]. Kærandi hafi verið [...]. Ástæða rannsóknarinnar hafi byggst á [...]. Telji meðferðaraðili að vísa eigi meiningum um mistök eða ranga meðferð frá sem tilhæfulausum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að um leið og fyrir lá að kærandi væri ekki með [...] hafi verið eðlilegt að huga að hreyfiþjálfun fyrir hann til að draga úr vel þekktri hættu á fylgikvillum langvarandi rúmlegu. Það að kærandi væri fastandi vegna mögulegar aðgerðar á [...] var ekki út af fyrir sig alger frábending hreyfiþjálfunar. Af fyrirliggjandi gögnum fær úrskurðarnefndin ráðið að viðbrögð starfsfólks þegar kæranda [...] hafi verið rétt. Sömuleiðis er það mat úrskurðarnefndar að meðferð við afleiðingum [...] sem og rannsóknum og meðferð vegna [...] hafi verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Bótaskylda verður því ekki byggð á 1. tölulið 2. gr. laganna í þessu máli.

Fyrir liggur að kærandi [...] þegar reynt var að styðja hann til hreyfiþjálfunar eftir slys. Hvort tveggja eru ekki óalgengir fylgikvillar þeirrar meðferðar en [...] sem afleiðing þeirra verður að áliti úrskurðarnefndar að teljast sjaldgæfur fylgikvilli hreyfiþjálfunar. Þótt gildar ástæður liggi til þeirra varúðarráðstafana sem gerðar eru til að koma í veg fyrir [...] er ekki við því að búast að öllu jöfnu að [...] með þeim afleiðingum sem hún hafði í tilfelli kæranda. Úrskurðarnefnd telur því að kærandi hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni vegna fylgikvilla meðferðar, sbr. 4. tölul. 2. gr. laganna.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 15. nóvember 2018, þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu. Málinu er vísað til Sjúkratrygginga Íslands til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótum til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er felld úr gildi. Málinu er vísað til Sjúkratrygginga til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira