Hoppa yfir valmynd

798/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019

Úrskurður

Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 798/2019 í máli ÚNU 18110013.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 7. nóvember 2018, kærði A afgreiðslu Vegagerðarinnar á beiðni m.a. um tilteknar upplýsingar um lestað og losað magn gáma í höfnum Íslands.

Í tölvupósti til Vegagerðarinnar, dags. 15. október 2018, lagði kærandi fram gagnabeiðni í fjórum liðum. Í fyrsta lagi var óskað eftir upplýsingum um lestað og losað magn í höfnum Íslands frá 2005-2017. Kærandi óskaði í öðru lagi eftir upplýsingum um það eftirlit sem Vegagerðin hefði með höfnum, bæði um nákvæmni upplýsinga samkvæmt 9. gr. laga um hafnir, nr. 61/2003, og að upplýsingar væru veittar tímanlega. Í þriðja lagi krafðist kærandi þess að Vegagerðin aflaði og veitti upplýsingar um vörur til stóriðju og vörur frá stóriðju frá þeim höfnum sem þjónustuðu stóriðju, og greindi frá þeim á vef sínum og í ársskýrslum. Í fjórða og síðasta lagi krafðist kærandi þess að Vegagerðin aflaði og veitti upplýsingar frá höfnum þar sem gámar væru fluttir um, um magn gáma um hverja höfn, og greindi frá því hvort gámur hefði verið tómur eða fullur þegar viðkomandi hreyfing átti sér stað.

Kæranda barst svar frá Vegagerðinni, dags. 29. október 2018, með upplýsingum um flutninga um hafnir, útskýringum og töflu með tölulegum upplýsingum. Í kæru til úrskurðarnefndar segir kærandi að svar Vegagerðarinnar og þær upplýsingar sem fylgdu svarinu hafi verið ófullnægjandi. Svar við fyrsta lið beiðni kæranda hafi ýmist innihaldið rangar upplýsingar eða þær vantað. Hvað fjórða lið beiðninnar varðaði tók kærandi fram að þær upplýsingar sem honum hefðu borist og féllu undir þann lið hefðu verið ófullnægjandi. Loks umorðaði kærandi annan lið beiðninnar lítillega.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 16. nóvember 2018, var kæran kynnt Vegagerðinni og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 30. nóvember 2018, er vísað til þess að kæranda hafi þegar verið svarað og honum afhentar efnislega allar þær upplýsingar sem hann hafi óskað eftir. Vegagerðin leggi þann skilning í kæruna að hún snúi að tveimur þáttum, sem falli undir liði 2 og 4 í upplýsingabeiðni kæranda. Annars vegar snúi hún að upplýsingum um fyrirmæli Vegagerðarinnar til hafna um upplýsingagjöf og tímanleg skil þeirra til stofnunarinnar, og það eftirlit sem stofnunin hafi gagnvart höfnum um nákvæmni upplýsinga. Hins vegar snúi hún að því að Vegagerðin afli og veiti upplýsingar frá höfnum þar sem gámar séu fluttir um, um magn gáma um höfn, og að þar sé greint frá því hvort gámur hafi verið tómur eða fullur þegar viðkomandi hreyfing átti sér stað.

Varðandi fyrra atriðið kemur fram í umsögn Vegagerðarinnar að samkvæmt hafnalögum, nr. 61/2003, sé höfnum sem njóti ríkisstyrkja skylt að senda endurskoðaða ársreikninga árlega til Vegagerðarinnar sem og aðrar upplýsingar sem stofnunin kunni að óska eftir og snerti rekstur hafnarinnar. Vegagerðin óski árlega eftir upplýsingum frá öllum hafnarsjóðum og sendi út sérstakt eyðublað sem farið sé fram á að hafnarsjóðir skili útfylltu. Þá kemur fram að ekki sé gefinn ákveðinn frestur til svara, stofnunin yfirfari upplýsingarnar eftir því sem henni sé frekast unnt en bent er á að upplýsingarnar séu byggðar á bókhaldi hlutaðeigandi hafna sem Vegagerðin hafi ekki aðgang að. Þá vísar stofnunin til þess að hún hafi ekki sérstakar heimildir til að bregðast við berist upplýsingar ekki frá einstökum höfnum.

Varðandi síðara atriðið kemur fram að stofnunin kalli eftir upplýsingum frá höfnum um magn gáma og upplýsingar um það hvort þeir hafi verið tómir eða ekki, og vísar stofnunin til eyðublaðs sem innheimt er í því samhengi. Misjafnt sé hvort hafnir skili þeim upplýsingum með fullnægjandi hætti en Vegagerðin gangi á eftir því að þeim sé skilað eins og kostur er. Vegagerðin vísar til þess að hún hafi þegar afhent kæranda allar upplýsingar, sem fyrirliggjandi séu um þessi atriði hjá stofnuninni. Það hvort upplýsingarnar séu fullnægjandi eða hvernig stofnunin bregðist við þegar hafnarsjóðir sendi stofnuninni ekki upplýsingar séu álitamál sem falli ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Umsögn Vegagerðarinnar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. nóvember 2018, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 14. desember 2018, gerir hann þá kröfu að úrskurðarnefndin beiti sér fyrir því að Vegagerðin safni fullnægjandi upplýsingum um vöruflutninga um hafnir og fari yfir upplýsingarnar sem henni berist, til að ganga úr skugga um að upplýsingarnar séu eins réttar og kostur er. Kærandi lýsir því að upplýsingar þær sem Vegagerðin hafi veitt séu ófullkomnar og sumar jafnvel rangar. Kærandi fjallar um ósamræmi í skráningu á lestuðu og losuðu magni í höfnum sem flokkað er eftir vörutegundum. Hann vísar til þess að umræddar upplýsingar séu grundvöllur hafna á innheimtu vörugjalda og séu því allar líkur á að upplýsingarnar séu fyrirliggjandi og ekkert því til fyrirstöðu að Vegagerðin afli þeirra upplýsinga á grundvelli eftirlitsskyldu sinnar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Vegagerðarinnar á beiðni um upplýsingar um vöruflutninga í gegnum hafnir á Íslandi.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 leiðir að almenningur á rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda en stjórnvöldum er hins vegar ekki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur stofnunin þegar afhent kæranda þær upplýsingar og gögn sem fyrirliggjandi eru hjá stofnuninni í skilningi 5. gr. upplýsingalaga og fallið geta undir gagnabeiðni hans. Úrskurðarnefnd hefur ekki forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu Vegagerðarinnar. Samkvæmt því liggur ekki fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga og verður því ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Kærandi gerir þá kröfu að úrskurðarnefndin beiti sér fyrir því að Vegagerðin safni fullnægjandi upplýsingum um vöruflutninga um hafnir og fari yfir upplýsingarnar sem henni berist, til að ganga úr skugga um að upplýsingarnar séu eins réttar og kostur er. Það fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndar um upplýsingamál að úrskurða um slíkt og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu. Rétt er að taka fram að það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinni að öðru leyti lögbundnum skyldum sínum. Vísast í þessu sambandi einkum til æðri stjórnvalda, í þessu tilfelli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, og eftir atvikum umboðsmanns Alþingis.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 7. nóvember 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir       Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira