Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 432/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 432/2017

Fimmtudaginn 21. desember 2017.

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru 17. nóvember 2017 kærði C hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun B frá 24. október 2017 um að kærandi fái umsjón sonar síns, D. Er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun B. Þess er einnig krafist að B verði gert skylt að afhenda kæranda tiltekin gögn varðandi drenginn.

B fer með verkefni barnaverndarnefndar í sveitarfélaginu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er fæddur árið X og lýtur forsjá móður sinnar. Kærandi er forsjárlaus faðir drengsins.

Kærandi kveður móður drengsins hafa samþykkt að láta vista hann utan heimilis á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Hafi þetta verið gert í kjölfar skoðunar á aðstæðum móður sem ætti við vanheilsu og fíkniefnaneyslu að etja. Vinkona móður hafi tekið drenginn í vistun.

Að sögn kæranda kom hann á fund B 20. janúar 2017 og lagði fram bókun þess efnis að hann vildi taka við drengnum. Hann hafi bent á að hann hefði fullan stuðning frá fjölskyldu sinni. Bæði kærandi og fjölskylda hans hafi lýst því yfir að þau væru tilbúin til að leggja fram þau gögn og undirgangast þær skoðanir og rannsóknir sem nauðsynlegar væru. B hafi ákveðið að vista drenginn ekki hjá kæranda. Hafi ákvörðunin verið byggð á því að drengurinn hefði ekki verið í reglulegri umgengni við kæranda og fjölskyldu hans og því væri ekki fært að vista drenginn hjá kæranda. Frá þeim tíma er drengurinn fór til vistunar utan heimilis hafi hann verið í umgengni við kæranda.

Þegar óskað hafi verið eftir umsögn kæranda um framlengda vistun á sama stað hafi kærandi talið nauðsynlegt að láta reyna á rétt sinn. Því hafi kærandi lagt málið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.

II. Sjónarmið kæranda

Kærð er synjun B á umsókn kæranda um að fá umsjá D svo og synjun B um að drengurinn verði vistaður hjá kæranda. Þess er krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir B að taka málið aftur fyrir til löglegrar meðferðar. Einnig er kærð ákvörðun B um að afhenda kæranda ekki afrit allra löggerninga sem tengjast vistunum drengsins auk allra gagna sem tengjast líðan hans, heilsu og þroska.

Kærandi kveður kæruheimild vegna fyrri hluta kröfu sótta í lögjöfnun frá 2. mgr. 67. gr. b., sbr. 51. gr. og 6. gr. bvl. en sú kæruheimild sé áskilin og studd af 70. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944. Kæruheimild fyrir síðari hluta kröfu sé sótt í 45. gr., sbr. 51. gr. og 6. gr. bvl., sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 38/2017 og 70. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944.

Kærandi vísar til þess að á þeim tíma, er ákvörðun B um að ráðstafa drengnum til vinkonu móður, hafi legið fyrir jákvæð umsögn B um aðstæður hans. Í kjölfarið hafi kærandi óskað eftir því að Barnaverndarstofa kannaði mál drengsins.

Um kæruheimild fyrir kröfu um að fá umsjá og vistun drengsins vísi kærandi til lögjöfnunar frá 2. mgr. 67. gr. b. bvl. þar sem fjallað sé um kæruheimild forsjárforeldris sem barn búi ekki hjá. Lögjöfnunin byggi á því að sambærileg kæruheimild fyrir kynforeldri sem ekki fari með forsjá þurfi nauðsynlega að vera til staðar þegar horft sé til 70. gr. stjórnskipunarlaga. Greinin kveði á um rétt aðila til að fá endurskoðun á ákvörðunum fyrir stjórnvöldum og dómstólum er lúti að rétti hans og skyldum. Af því leiði réttur til aðildar að stjórnsýslumáli þar sem tekist sé á um einstaklega, verulega, beina og lögvarða hagsmuni aðila.

Kæruheimildin sé jafnframt studd jákvæðri skyldu ríkisins á grundvelli 71. gr. stjórnskipunarlaga til þess að hafa í lögum endurskoðunarheimildir sem tryggi aðild kynforeldra að málum sem lúti að mikilvægum atriðum í lífi barna þeirra. Kærandi bendi á að framangreindar reglur séu stjórnskipunarreglur, lex superior, sem öll stjórnvöld leiði valdheimildir sínar frá. Því geti stjórnvöld ekki hagað málum eða málsmeðferð í andstöðu við framangreindar stjórnskipunarreglur. Í þessum efnum sé bent á að óvænt atvik geti leitt til þess að forsjá verði ekki sameiginleg í upphafi. Megi það ekki, eitt og sér, í ljósi 65. gr. stjórnskipunarlaga, leiða til þess að kynforeldri missi möguleikann á því að krefjast endurskoðunar á ákvörðunum stjórnvalds og/eða dómstóls varðandi líf barns.

Kröfu um niðurfellingu ákvörðunar og heimvísunar til B byggi kærandi á eftirfarandi atriðum:

Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. a. bvl. skuli barnaverndarnefnd kanna grundvöll þess að ráðstafa barni til hins foreldrisins, þegar annað foreldri afsalar sé forsjá eða umsjá þess. Af lestri ákvæðisins sé ljóst að í því felist sérstök rannsóknarregla. Það þýði að við túlkun ákvæðisins verði að horfa til almennrar rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og jafnframt til sérstöku rannsóknarreglunnar í 43. gr. bvl.

Að mati kæranda hafi ekki verið rannsakað nægilega hvort rétt sé að vista drenginn áfram á núverandi stað. Þá hafi ekki verið rannsakað nægilega hvort tímabært sé að sameina feðgana í samræmi við 1. mgr. 67. gr. a. bvl. Kærandi hafi bent á sérstæði þess að drengurinn sé enn vistaður á grundvelli 84. gr. bvl. og VII. kafla reglugerðar nr. 652/2004. Vistun á grundvelli ákvæðisins sé að jafnaði ekki ætluð til lengri tíma en þriggja mánaða en nú hafi ellefu mánuðir liðið. Hafi kærandi óskað skýringa á þessu fyrirkomulagi á fyrri stigum, með bréfi til Barnaverndarstofu. Vegna áðurgreindra málsaðildartakmarkana hafi ekki verið talið heimilt að eftirláta honum upplýsingar um niðurstöðu könnunar Barnaverndarstofu á málinu eða aðrar umbeðnar upplýsingar. Kærandi telji þetta til merkis um þá galla sem séu á núgildandi löggjöf með tilliti til stjórnskipaðs réttar kynforeldris til að eiga aðild að málum sem varði líf og hagsmuni barns síns, sé aðildin ekki beinlínis í andstöðu við hagsmuni barnsins sjálfs. Þessi regla um hagsmuni barnsins, þ.e. grundvallarregla barnaréttarins sem lögfest sé í 3. mgr. 76. gr. stjórnskipunarlaga, sé eina reglan sem vikið geti til hliðar frumrétti kynforeldris til þess að koma að málefnum barns. Í því felist meðal annars rétturinn til að fá ákvarðanir um barnið endurskoðaðar. Í tilviki skörunar á milli framangreindra réttinda þegar réttur barnsins víki rétti foreldris, væri rétt að fyrir lægi úrlausn stjórnvalds eða dómstóls sem sýndi að kynforeldri væri óhæft til að koma að ákvörðunum er snéru að barninu.

Kröfu um aðgang kæranda að gögnum styðji hann við upplýsingarréttinn í 45. gr. bvl. og úrskurð nefndarinnar máli nr. 38/2017. Athuga þurfi að þrátt fyrir að löglíkur séu á réttum ákvörðunum stjórnvalds þá geti rangar ákvarðanir verið teknar og þá kunni að ráða úrslitum fyrir líf barns hve vel aðstandendur þess geti fylgst með lífi þess. Eigi þetta sérstaklega við um kynforeldri sem erfðatengt sé barni sínu og þekki jafnan persónueinkenni þess og lyndi best. Verði því að telja eðlilega og lagalega nauðsyn á að kynforeldri hafi aðild að málum barns þó það hafi ekki forsjá enda lúti forsjá að lagaheimild til að ráðstafa hagsmunum barns á meðan aðild að barnaverndarmálum feli í sér heimild til að koma að sjónarmiðum, sbr. 47. gr. bvl., og fá upplýsingar um þau atriði sem ráði ákvörðunum í lífi barnsins.

Með vísan til alls framangreinds álíti kærandi að taka eigi kæru hans til efnismeðferðar. Í því felist að hann eigi rétt á að fá endurskoðun á fyrirliggjandi ákvörðun. Á sama tíma telji kærandi sig eiga upplýsingarrétt í málinu á grundvelli 45. gr. bvl., sbr. 70. gr. stjórnskipunarlaga.

Í framlögðum gögnum með kæru komi fram að kærandi hafi óskað eftir því að taka við umsjá sonar síns. Sótt hafi verið um það í upphafi málsins og aftur þegar óskað hafi verið eftir umsögn kæranda um vistunarsamning 24. október 2017. Á fyrri stigum hafi verið unnin umsögn um aðstæður kæranda og hæfni hans til umsjár vegna upphaflegrar umsóknar hans. Þá hafi í kvörtun til Barnaverndarstofu 1. mars 2017 falist beiðni um álit á málinu en stofan hafi eftirlit með starfsemi barnaverndarnefnda. Af 8. og 9. gr., sbr. 89. gr. c. bvl. og reglugerð nr. 264/1995, sem telja verði að hafi leiðbeiningargildi um hvernig skuli túlka ákvæði gildandi laga um valdheimildir Barnaverndarstofu, breyti stofan ekki ákvörðunum barnaverndarnefnda í einstökum málum.

Stjórnsýslurétt leiði af íslenskri stjórnskipan þar sem æðsti handhafi stjórnsýsluvalds sé ráðherra. Samkvæmt venju og lögum endurskoði hann framkvæmdir og ákvarðanir, þeirra stjórnvalda sem undir hann heyri. Í stjórnskipunarrétti felist jafnframt réttur borgarans til þess að geta borið ákvarðanir og framkvæmdir þeirra stjórnvalda, sem undir ráðherra heyri, fyrir hann til endurskoðunar og breytinga. Af 2. gr. stjórnskipunarlaga leiði að þessi réttur innan íslenska ríkisins verði ávallt að vera virkur.

Leiði löggjöf til þess á einhverjum tíma að þessi réttur sé ekki orðaður í lögum, þá leiði af grunnreglum íslenskrar stjórnskipunar, að rétturinn sé engu að síður til staðar. Enda sé um æðri rétt að ræða sem liggi til grundvallar settum lögum og fylli lögin þegar þau endurspegli ekki þau réttindi sem í æðri réttinum felist. Á sama tíma felist í þessu að almenn lög víki fyrir hinum æðri rétti, séu þau andstæð honum að einhverju leyti. Allt sé það í þeim tilgangi að íslensk stjórnskipan og stjórnsýsla endurspegli á hverjum tíma réttarríkið. Í framangreindum efnum þurfi að athuga að stjórnvöld lúti fyrst og fremst stjórnskipunarlögum rétt eins og löggjafinn. Hafi löggjafinn ekki náð að virkja áðurgreindan grunnrétt borgarans með settum lögum, þannig að beinar kæruheimildir séu í lögum, þá sé það hlutverk stjórnvalda að horfa til hinna æðri laga og tryggja að réttur borgarans sé tryggður.

Kærandi vísi til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 419/2000, 15/2017 og 334/2017 sem varði réttarsviðið. Í forsendum Hæstaréttar í framangreindum málum hafi rétturinn bent á að ef sett lög á réttarsviðinu kveði ekki á um aðild eða heimildir kynforeldra til endurskoðunar á ákvörðunum stjórnvalda er vörðuðu börn þeirra, væru slíkar málsaðildar- og málsóknarheimildir engu að síður til staðar á grundvelli íslenskra stjórnskipunarlaga.

Í máli þessu sé stjórnsýslusambandið með þeim hætti að barnaverndarnefndir, sem séu lægra sett stjórnvöld, taki sjálfstæðar ákvarðanir sem ekki verði kærðar til Barnaverndarstofu. Stofan sé stjórnsýslustofnun sem aðeins hafi eftirlitsheimildir og komi jafnvel að tilteknum ákvörðunum á lægra stjórnsýslustigi. Af því leiði að æðra setta stjórnvaldið í fyrirliggjandi máli sé félagsmálaráðherra og úrskurðarnefnd velferðarmála sem framkvæmi vald hans. Þegar horft sé til þessa verði að telja það í verkahring úrskurðarnefndar að túlka valdheimildir sínar með vísan til stjórnskipunarlaga þannig að kærandi hafi heimildir til að kæra ákvarðanir barnaverndarnefndar til úrskurðarnefndarinnar. Í þeim efnum megi benda á að stjórnvöld hafi samkvæmt stjórnskipunar- og stjórnsýsluvenju rúmar heimildir til að taka ívilnandi ákvarðanir í málum borgarans á meðan heimildir þeirra til töku íþyngjandi ákvarðanna séu bundnar við lagabókstafinn vegna lögmætisreglu.

Í máli þessu sé um rétt þess eðlis að ræða, að telja verði fyrir hendi jákvæða skyldu ríkisins og þannig stjórnvalda til þess að hafa í stjórnkerfinu virka leið fyrir kynforeldri barns til að leita réttar síns og til að fá endurskoðaðar ákvarðanir stjórnvalda sem lúti að barninu. Leiði þetta af frumréttinum sem felist í sambandi þessara tveggja einstaklinga.

Kærandi telji að horfa verði til þess að þær synjanir sem hann hafi fengið hafi falist bæði í athöfnum og athafnaleysi B, þ.e. kæranda hafi ekki verið fengin umsjá drengsins og honum hafi ekki verið falið að vista hann þrátt fyrir umsókn þar um. Af rökbundinni nauðsyn og vegna skorts á formlegu svari verði að telja felast í þessu synjun á umsókn um umsjá og vistun drengsins. Í hvert sinn sem vistunarsamningur sé gerður við einn umsækjanda verði að telja um höfnun á umsókn annars umsækjanda að ræða. Kærandi telji því að fyrir liggi synjun á umsókn hans um umsjá og vistun drengsins. Einnig leiði það af stjórnskipulegu og stjórnsýslulegu hlutverki úrskurðarnefndar velferðarmála að endurskoða ákvarðanir B í málinu.

Að því er varðar kvörtun kæranda til Barnaverndarstofu telji kærandi nauðsynlegt að benda á að samkvæmt 3. mgr. 84. gr. bvl. hafi Barnaverndarstofa eftirlit með heimilum sem starfi á grundvelli 84. gr. Á sama tíma veiti stofan leyfi til þess að reka heimili á grundvelli lagaheimildarinnar á meðan barnaverndarnefnd taki ákvarðanir í máli hvers einstaks barns. Hér sé nauðsynlegt að benda á þann sérstaka farveg sem málið sé í, en samkvæmt lögum og reglugerðum séu þau tímamörk liðin sem réttmætt geti talist að nýta framangreint úrræði. Megi sá farvegur því ekki takmarka endurskoðunarrétt kæranda. Vísað sé til ákvæða um fóstur og þess að kærandi byggi heimild sína til kæru á reglu sem mynduð sé með lögjöfnun frá 67. gr. b. bvl. sem fjalli um fóstur barns.

Með framangreindu varpi kærandi ljósi á tengsl 8. og 84. gr. bvl. við málið. Á sama tíma sem kærandi óski þess að úrskurðarnefnd horfi svo til kæru hans að tilgangur hennar verði markhæfur í átt til þeirra réttinda sem hann sæki, sbr. óskráða reglu stjórnsýsluréttarins, sem meðal annars endurspeglist í 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að því er varðar kröfu kæranda um aðgang að gögnum bendi hann á að fyrirliggjandi samskipti við B staðfesti að beiðni um aðgang að gögnum hafi verið send og ítrekuð í nokkur skipti. Í síðasta tölvubréfi til B hafi kærandi bent á að ef honum bærist ekki formlegt svar við beiðni sinni yrði að líta svo á að nefndin hafnaði beiðni hans. Af 2. mgr. 45. gr. bvl. leiði að slík höfnun skuli gerð með úrskurði. Sem aðila stjórnsýslumáls sé kæranda nauðsynlegt að líta svo á að fyrir liggi úrskurður eða ákvörðun sem jafnað verði til úrskurðar. Að öðrum kosti væri aðila að barnaverndarmáli gert ófært að leita réttar síns fyrir það eitt að barnavernd svaraði ekki erindum þar sem beiðst væri aðgangs að gögnum. Telji kærandi því að 15. gr. stjórnsýslulaga og almennar reglur stjórnsýsluréttarins um upplýsingarrétt, sbr. 45. gr. bvl., eigi að leiða til þess að kærandi hafi heimild til þess að fá synjun með athafnaleysi B endurskoðaða.

Kærandi sé kynfaðir drengsins. Af því leiði frumréttur sem telja verði að uppfylli skilyrðið um að kærandi eigi einstaklega, beina, verulega og lögvarða hagsmuni. Þennan rétt kæranda verði að telja verndaðan af 65., 70. og 71. gr. stjórnskipunarlaga. Telji kærandi því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurðarnefnd velferðarmála til að endurskoða ákvarðanir B, bæði hvað varði aðgang að gögnum um mál drengsins og ákvarðanir sem varða umsjá hans og vistun. Í framangreindum efnum sé jafnan talið rétt að aðili leiti fyrst til æðra stjórnvalds áður en hann leiti til dómstóla. Lögvarðir hagsmunir geti falist í því einu að fá úr réttindum og skyldum skorið á æðra stjórnsýslustigi.

III. Niðurstaða

Drengurinn D er tæplega X ára og lýtur forsjá móður sinnar. Vegna fíkniefnaneyslu og vanheilsu móður var drengurinn vistaður utan heimilis með samþykki móðurinnar. Kærandi er forsjárlaus faðir drengsins.

Kæruefni er í fyrsta lagi að úrskurðarnefndin leggi fyrir B að taka til löglegrar meðferðar synjun B á umsókn kæranda um að fá umsjá drengsins svo og synjun B um að drengurinn verði vistaður hjá kæranda.

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram bókun á fundi B 20. janúar 2017. Kemur þar fram að drengurinn sé í fóstri hjá vinukonu móður. Ekki sé vitað hver vinkonan sé eða við hvaða aðstæður og aðbúnað drengurinn búi. Einnig segir í bókuninni: „Telji barnavernd, að öryggi, umönnun og aðbúnaði [drengsins] sé ábótavant óskar faðir þess að barnavernd nýti valdheimildir sínar í 24. - 31. gr. barnaverndarlaga til þess að tryggja öryggi, aðbúnað og umönnun [drengsins]. Telji barnavernd rétt að breyta umsjá eða forsjá [drengsins] lýsir faðir því yfir að hann vilji taka við umsjá eða/og forsjá barns síns.“

Kærandi hefur lagt fram tölvupóst til sín frá B 24. október 2017 sem hann vísar til sem synjunar B á því að hann fái umsjá drengsins. Þar segir: „B þarf að gera nýjan vistunarsamning vegna barnsins [...] þar sem fyrri samningur er að falla úr gildi. Í samræmi við 4. mgr. 67. gr. a. barnaverndarlaga er hér með kallað eftir umsögn föður til áframhaldandi vistunar barnsins að [...] til 31. desember nk. á grundvelli 84. gr. barnaverndarlaga. Samhliða yrði gerður umgengnissamningur við föður sem miðar að því að auka umgengni frá því sem verið hefur í fyrri umgengnissamningi. Það er mat B að hagsmunir barnsins séu fólgnir í þeim stöðugleika sem barnið hefur búið við undanfarna mánuði og að unnið verði áfram með myndun tengsla á milli föður og barns.“

Í 1. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015 segir að úrskurðarnefndin skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Í 6. gr. bvl. segir að heimilt sé að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Þær ákvarðanir hafa verið nefndar stjórnvaldsákvarðanir þegar svo háttar til að stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Til þess að ákvörðun teljist stjórnvaldsákvörðun þarf stjórnvald að hafa ráðið ákveðnu álitaefni til lykta með því að ákveða hvernig leyst skuli úr því. Ákvörðun verður að vera þannig úr garði gerð að unnt sé að ljá henni réttaráhrif og hún bindur enda á stjórnsýslumál.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi farið fram á að fá umsjá eða vistun drengsins. Í framangreindum tölvupósti eða öðrum gögnum málsins kemur ekki fram að tekin hafi verið ákvörðun af hálfu B að synja beiðni kæranda um að drengurinn fari í hans umsjá og/eða að drengurinn verði vistaður hjá honum. Þar kemur á hinn bóginn fram að kallað sé eftir umsögn kæranda til áframhaldandi vistunar drengsins á sama stað og fyrr. Samkvæmt þessu er nefndur tölvupóstur sendur kæranda í því skyni að veita honum andmælarétt en með honum er ekki verið að taka stjórnsýsluákvörðun. Af þessari ástæðu er vísað frá kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin leggi fyrir B að taka til löglegrar meðferðar synjun B á umsókn kæranda um að fá umsjá drengsins og að drengurinn verði vistaður hjá kæranda.

Einnig er í málinu kærð meint ákvörðun B um að afhenda kæranda ekki afrit allra löggerninga sem tengjast vistunum drengsins og öll gögn sem tengjast líðan hans, heilsu og þroska.

Í málinu liggur fyrir beiðni kæranda 6. júlí 2017 til B um upplýsingar samkvæmt 45. gr. bvl. þar sem hann óskaði meðal annars eftir upplýsingum um dagsetningar, fjölda og gildistíma vistunarsamninga á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupóstum 14. september og 12. október 2017. Í síðarnefnda póstinum kemur fram að kærandi líti svo á að beiðninni sé hafnað hafi svar ekki borist innan tveggja vikna. Kærandi virðist ekki hafa fengið svar og telur nú að aðgangur hans að gögnum hafi verið takmarkaður.

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. verður aðgangur aðila máls að gögnum ekki takmarkaður nema með rökstuddum úrskurði, en ekki verður séð að úrskurður liggi fyrir í málinu. Það er því ekki fyrir hendi skilyrði um kæranlegan úrskurð til að krafa kæranda um aðgang að gögnum verði kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Eins og málið liggur fyrir á kærandi kost á því samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. að krefjast þess að B kveði upp úrskurð um takmarkanir að aðgangi hans að þeim gögnum og/eða upplýsingum sem hann hefur óskað eftir en ella veita honum aðgang að þeim. Að öðrum kosti getur kærandi sett málið í farveg 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.

Samkvæmt því verður ekki hjá því komist að vísa frá kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ætluð synjun á afhendingu gagna.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

ÚRSKURÐARORÐ

Málinu er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lára Sverrisdóttir

Björn Jóhannesson

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira