Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 04010016

Reykjavík, 14. maí 2004

Hinn 14. maí 2004, var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu barst þann 2. febrúar 2004 kæra Óttars Yngvasonar hrl. f.h. eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi og Verndarsjóðs villtra laxa (NASF), vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 29. desember 2003 um að fyrirhugað eldi á allt að 1.500 tonnum af laxi í sjókvíum í Seyðisfirði sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Einnig bárust ráðuneytinu átta nánast samhljóða erindi frá eigendum sjávarjarða í Seyðisfirði þar sem ákvörðun Skipulagsstofnunar er mótmælt og lítur ráðuneytið svo á að um kærur sé að ræða. Um er að ræða erindi frá eftirtöldum aðilium:

1. Halldóri Vilhjálmssyni, eiganda Sörlastaða, dags. 29. janúar 2004.

2. Oddi Ragnarssyni f.h. Hlyns Oddssonar, eiganda Austdals, dags. 31. janúar 2004.

3. Sigurði Filippussyni, eiganda Dvergasteins, dags. 30. janúar 2004.

4. Magdalenu K. Sigurðardóttur, eiganda Brimness 2, dags. 29. janúar 2004.

5. Sigurði H. Sigurðssyni, eiganda Brimness 1, dags. 29. janúar 2004.

6. Þorgeiri Sigurðssyni og Sigurbergi Sigurðssyni, eigendum Sunnuholts, dags. 29. janúar 2004.

7. Eyjófi Kristjánssyni, eigendum Selstaða, dags. 28. janúar 2004.

8. Vilmundi Þorgrímssyni f.h. eigenda Villifuglagarðsins í Skálanesi, dags. 28. janúar 2004 og 12. apríl 2004.

I. Málsatvik og kröfur kærenda.

Þann 30. apríl 2003 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að eldi á allt að 8.000 t ársframleiðslu af laxi, regnbogasilungi og þorski í sjókvíum á Seyðisfirði væri ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun var kærð til umhverfisráðherra og þann 16. september 2003 felldi ráðherra úr gildi fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar og úrskurðaði að fyrirhugað fiskeldi Austlax ehf. skyldi háð mati á umhverfisáhrifum.

Austlax ehf. tilkynnti síðan Skipulagsstofnun þann 29. október 2003 um fyrirhugað eldi á um 1.500 t á ári af laxi í sjókvíum í Seyðisfirði á grundvelli 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og g lið 1. tölul. 2. viðauka laganna. Með hliðsjón af fyrri tilkynningu um allt að 8.000 t eldi á laxi, regnbogasilungi og þorski þar sem lagðar voru fram niðurstöður straummælinga, greiningar botnsýna og næringarsalta, mælingar sjávarhita, seltu og súrefni og burðarþolsreikningar fyrir svæðið, og umsögnum sérfræðiaðila um hina nýju tilkynningu, taldi Skipulagsstofnun með ákvörðun sinni þann 29. desember 2003 að ekki væri ástæða til að ætla að sjávaraðstæður í Seyðisfirði væru með þeim hætti að 1.500 t laxeldi í sjókvíum kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og væri vel innan burðarþolsmarka fjarðarins.

Óttar Yngvason hrl. f.h. eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi og Verndarsjóðs villtra laxa (NASF), gerir þær kröfur að umhverfisráðherra ógildi ákvörðun Skipulagsstofnunar og synjað verði erindi framkvæmdaraðila.

Aðrir kærendur mótmæla ákvörðun Skipulagsstofnunar og fara fram á það að tillit verði tekið til þeirra sem eigenda við ákvörðun um fiskeldi í sjónum við Seyðisfjörð og samráð verði haft við þá, sem hlutaðeigendur, vegna hugsanlegra leyfisveitinga í sambandi við framkvæmdir og atvinnurekstur í sjó.

II. Málsástæður kærenda og umsagnir um þær.

Ráðuneytið sendi þann 18. febrúar 2004 framangreindar kærur til umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Veiðimálastofnunar, yfirdýralæknis, Hafrannsóknarstofnunarinnar og Austlax ehf. Umsögn barst með bréfi frá Skipulagsstofnun dags. 3. mars 2004, frá Umhverfisstofnun dags. 30. mars 2004, Heilbrigðiseftirliti Austurlands dags. 1. mars 2004, Seyðisfjarðarkaupstað dags. 26. febrúar 2004, Veiðimálastofnun dags. 3. mars 2004, yfirdýralækni dags. 27. febrúar 2004, Hafrannsóknarstofnuninni dags. 27. febrúar 2004 og Austlaxi ehf. dags. 28. febrúar 2004.

Framangreindar umsagnir voru sendar kærendum þann 2. apríl 2004 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá Óttari Yngvasyni hrl. þann 14. apríl 2004, Vilmundi Þorgrímssyni þann 11. apríl 2004 og Samtökum eigenda sjávarjarða þann 14. apríl 2004. Þau atriði sem fram koma í erindi Vilmundar Þorgrímssonar voru sérstaklega borin undir Umhverfisstofnun með tölvupósti þann 11. maí 2004 og barst svar þann 12. maí 2004.

1. Kæra Óttars Yngvasonar hrl. f.h. eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi og Verndarsjóðs villtra laxa (NASF).

1.

Kærandi byggir á því að fyrir liggi úrskurður umhverfisráðherra dags. 16. september 2003 um að sama starfsemi framkvæmdaraðila skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Málið hafi því þar með verið endanlega afgreitt af réttum úrskurðaraðila og því sé endurtekin meðferð þess hjá sama úrskurðaraðila hrein rökleysa. Um sé að ræða hluta af þeirri framkvæmd sem umhverfisráðherra hafi úrskurðað matsskylda og hafi Skipulagsstofnun verið óheimilt að veita undanþágu frá matsskyldu fyrir hluta framkvæmdarinnar eða hnekkja úrskurði umhverfisráðherra að hluta. Þá verði ekki séð að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi skv. 24. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi að umsókn framkvæmdaraðila sé augljóslega sett fram í þeim tilgangi að komast framhjá fyrirliggjandi úrskurði umhverfisráðherra. Engin trygging sé fyrir því að framkvæmdaraðili muni nokkru sinni standa við þá yfirlýsingu sína, að hann muni seinna ráðast í gerð umhverfismats ef hann fái að byrja framkvæmdir áður en mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Vísar kærandi til a liðar 1. gr. laga nr. 106/2000 þar sem skýrt sé kveðið á um að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir umbeðinni framkvæmd, sem hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, fyrr en mat á umhverfisáhrifum hennar hafi farið fram.

Í kæru segir einnig að ef litið verði á erindi framkvæmdaraðila sem umsókn um sjálfstætt 1.500 t laxeldi þá eigi við flest rök umhverfisráðherra í fyrrnefndum úrskurði fyrir því að fram skuli fara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Bendir kærandi á að í úrskurðinum komi fram að óvissa ríki um ýmis atriði framkvæmdar, svo sem sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum, sjúkdómahættu, úrgangsmyndun og mengun. Þá hafi ráðuneytið talið að líta beri til sjónarmiða varðandi erfðablöndun við ákvörðun um matsskyldu fiskeldis sérstaklega í ljósi þess magns sem um ræðir og nálægðar við laxveiðiár.

Kærandi vekur athygli á grein eftir Yngva Óttarsson, verkfræðing, um rannsókn norskra vísindamanna á afleiðingum erfðablöndunar eldislaxa við villta laxastofninn í ánni Imsa í Noregi. Niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið að veruleg og viðvarandi blöndun eldislaxa við villta stofna muni útrýma villta stofninum.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að um tvær aðskildar framkvæmdir sé að ræða, annars vegar vegna 1.500 t fiskeldis og hins vegar vegna 8.000 t fiskeldis og gildi einu þótt framkvæmdaraðili hafi breytt fyrri áformum sínum um stærð fiskeldisins. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi fjallað um 1.500 t fiskeldi í Seyðisfirði enda hafi aðrar framkvæmdir ekki verið til umræðu. Af þeim sökum sé ekki eðlilegt að Skipulagsstofnun tjái sig um önnur hugsanleg áform framkvæmdaraðila um rekstur fiskeldis í framtíðinni. Komi til stækkunar á umræddu fiskeldi síðar meir fari slík breyting í venjubundinn farveg með hliðsjón af lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Hvað varðar þá fullyrðingu kæranda Óttars Yngvasonar um að sömu rök eigi við um þessa framkvæmd og hafi komið fram í úrskurði umhverfisráðherra frá 15. september 2003 fyrir því að fram eigi að fara mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, vísar Skipulagsstofnun til eftirfarandi umfjöllunar í hinni kærðu ákvörðun:

„Í framlögðum gögnum, með fyrri tilkynningu um allt að 8.000 t eldi á laxi, regnbogasilungi og þorski, voru lagðar fram niðurstöður straummælinga, greiningar botnssýna og næringarsalta, mælinga á sjávarhita, seltu og súrefni og burðarþolsreikninga fyrir svæðið og samkvæmt þeim og umsögnum telur Skipulagsstofnun að ekki sé ástæða til að ætla að sjávaraðstæður í Seyðisfirði séu með þeim hætti að 1.500 t laxeldi í sjókvíum kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og sé vel innan burðarþolsmarka fjarðarins.

Í umsögn hefur komið fram að óvissa er um hættu á erfðamengun sem og um umfang laxeldis sem eðlilegt geti talist að heimila í sjókvíum á Austfjarðasvæðinu til viðbótar því sem þegar hefur verið heimilað. Í umsögn dýralæknis fisksjúkdóma kemur fram að ekki sé ástæða til þess að gera rannsóknir á samspili sjúkdóma milli eldisfisks og villtra fiskistofna í hverju og einu tilviki þegar farið er af stað í sjókvíaeldi.

Skipulagsstofnun tekur undir það sem fram hefur komið í umsögnum um að þrátt fyrir athuganir og rannsóknir sem lagt hefur verið í við fyrri málsmeðferð séu til staðar óvissuþættir um hversu mikil hætta er á erfðamengun af völdum laxeldis og hver áhrif af völdum sjúkdóma við fiskeldið kunna að verða sem rannsaka þarf frekar. Skipulagsstofnun telur hins vegar ekki raunhæft vegna þeirrar framkvæmdar sem hér um ræðir að leggja í umfangsmiklar rannsóknir á almennum áhrifum sjókvíaeldis á lífríki í straumvatni eða gera þá kröfu til framkvæmdaraðila að hann leggi fram upplýsingar um þá eldisframleiðslu sem eðlilegt geti talist að heimila á Austfjarðasvæðinu í heild."

Kærandi gerir athugasemd við að Skipulagsstofnun telji að um tvær aðskildar framkvæmdir sé að ræða. Skýrt hafi komið fram hjá framkvæmdaraðila að um sé að ræða fyrsta áfanga af þeim 8.000 t sem fyrirhugað umhverfismat muni fjalla um. Telur kærandi að Skipulagsstofnun rangfæri eigin orð framkvæmdaraðila og byggi því á röngum forsendum.

Varðandi hættu á erfðamengun segir í umsögn Umhverfisstofnunar: „Umhverfsstofnun telur að veruleg hætta sé á erfðablöndun og sjúkdómum í villtum laxastofnum vegna stóraukins fiskeldis hér við land og því fyllsta ástæða til að gæta varúðar. Stofnunin benti á það í umsögn sinni um matsskyldu framkvæmdarinnar dags. 3. desember 2003 að nýlegar rannsóknir (McGinnity et al., 2003: Fitness reduction and potential extinction of wild populations of Atlantic Salmon, Salmo salar, as a result of interactions with escaped salmon.) sýna að stöðug blöndun eldisfisks við villta laxastofna leiðir til minni hæfni þeirra og möguleika á að villtum laxastofnum sem eru viðkvæmir fyrir verði útrýmt. Að öðru leyti vísast til umsagnar stofnunarinnar um matsskyldu framkvæmdarinnar frá 3. desember 2003."

Í umsögn Umhverfisstofnunar frá 3. desember 2003 sagði: „Umhverfisstofnun telur ekki líkur á að fyrirhugað 1500 tonna fiskeldi í Seyðisfirði hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér hvað varðar áhrif á botnadýralíf eða mengun viðtaka, sbr. skilgreiningu á síður viðkvæmum svæðum í reglugerð nr. 789/1999 um fráveitur og skolp. Ljóst er að 1500 tonna fiskeldi er töluvert undir burðarmörkum Seyðisfjarðar m.t.t. fiskeldis en eins og bent var á í umsögnum Umhverfisstofnunar um allt að 8000 tonna fiskeldi í Seyðisfirði væri með eldi af þeirri stærðargráðu verið að nýta burðarþol fjarðarins til hins ýtrasta.

Stofnunin telur að veruleg hætta sé á erfðablöndun og útbreiðslu sjúkdóma meðal villtra íslenskra laxastofna vegna stóraukins fiskeldis hér við land. Þó sá framkvæmdarhluti sem hér um ræðir sé mun minni að umfangi en úrskurður umhverfisráðherra kveður á um að fara skuli í mat þá telur stofnunin mikilvægt að sammögnunaráhrif vegna hættu á erfðablöndun sem stafar af fyrirhuguðu og eldi laxfiska sem búið er að veita leyfi fyrir á Austfjörðum verði metin fyrir framkvæmdina í heild sinni, svo sem fram kemur í úrskurði ráðherra."

Umhverfisstofnun telur því að þar sem einungis 1500 tonn eru nú í framleiðslu á Austfjörðum þrátt fyrir heimildir til 22.000 tonna framleiðslu og vegna þess að ekki séu líkur á að þessi hluti framkvæmdarinnar hafi skaðleg áhrif hvað varðar mengun eða áhrif á botndýralíf, þá sé ólíklegt að þessi hluti framkvæmdarinnar hafi veruleg umhverfisáhrif í för með sér.

Í umsögn Veiðimálastofnunar kemur fram að sömu viðhorf séu uppi hjá stofnuninni og voru um fyrirhugað 8.000 t eldi í Seyðisfirði. Í umsögninni segir: „Vegna svipaðra mála í Reyðarfirði, Mjóafirði og Berufirði hefur Veiðimálastofnun ítrekað varað við hættum sem af laxeldi getur stafað fyrir villta laxastofna landsins og nauðsyn öflugs eftirlits og rannsókna, þar sem fiskeldi er leyft. Þessar hættur eru vegna mögulegrar erfðablöndunar og neikvæðra vistfræðilegra áhrifa. Þær aðvaranir eru enn í fullu gildi. Því til staðfestingar má nefna slys í Norðfirði síðastliðið sumar þegar tæp 3000 laxar sluppu og komu fram í laxveiðiám á Austurlandi. [...] Ekki liggur fyrir reynsla á áhrifum fiskeldis í svona stórum mæli á fjörðum hérlendis né úttekt á hvar og í hvaða umfangi laxeldi í kvíum verði stundað hér við land svo að íslenskum laxfiskastofnum stafi sem minnst hætta af. Ljóst er að áhrif frá eldinu geta náð víða og fjarri þeim stað sem eldið fer fram á, þar sem lax sem sleppur getur dreift sér á stórt svæði. Seyðisfjörður er til að mynda nær laxveiðiám í Vopnafirði en fyrrnefndir staðir. Því telur stofnunin að fyrirhugað eldi í Seyðisfirði, sem og annars staðar eigi að fara í umhverfismat. Þetta á ekki síst við um þegar áform um eldi er jafn mikið og hér um ræðir."

Í umsögn Veiðimálastjóra er fallist á að 1.500 t eldi verði undanþegið mati á umhverfisáhrifum, enda verði unnin matsskýrsla vegna 5.000 t laxeldis sem hluta af 8.000 t eldi af laxi, regnbogasilungi og þorski. Veigamikil atriði varðandi mat á umhverfisáhrifum fyrrnefnds eldis liggi fyrir í matsskýrslu vegna sjókvíaeldis í Reyðarfirði og samantekt Valdimars Gunnarssonar um áhrif laxeldis á villta laxastofna. Þar við bætist ýmis atriði er tengjast reynslu af eldi í Mjóafirði undanfarin 3 ár. Mikilvægt sé að slík matsskýrsla verði unnin og gildi hún þá í aðalatriðum einnig fyrir þá 1.500 t framleiðslu sem framkvæmdaraðili hyggist hefja starfsemina með.

Umsögn yfirdýralæknis er undirrituð af dýralækni fisksjúkdóma sem vísar til fyrri umsagna sinna tengdu málinu. Bendir hann á að afar ítarlegt umhverfismat hafi farið fram vegna fiskeldis í Reyðarfirði. Í þeirri skýrslu sé tekið á öllum helstu þáttum sem skipta máli og að hans mati megi heimfæra allar megin niðurstöður yfir á nærliggjandi austfirska firði. Síðan segir í umsögninni: „Undirritaður hefur ávallt varað við of umfangsmiklu sjókvíaeldi á sömu staðsetningu og lagðist á sínum tíma gegn 8.000 tonna leyfisveitingu í Seyðisfirði. Sú skoðun hefur í raun ekkert með umhverfismat að gera. Við búum einfaldlega yfir nægjanlegri reynslu til að hafna slíkum ásetningi út frá sjónarmiði smitsjúkdóma. Í ljósi þeirrar reynslu hefur sú leið verið farin að deila svo umfangsmiklu eldi á þrjár staðsetningar með aðskildum árgöngum, líkt og gert var í Mjóafirði. Ný áætlun Austlax ehf. um 1.500 t. eldiseiningu er skynsamleg og telur embættið að lítið gagn sé í að skylda viðkomandi starfsemi í umhverfismat, allar lykil upplýsingar liggja nú þegar fyrir sem hægt er að leggja til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu."

Hafrannsóknarstofnunin vísar í umsögn sinni til fyrri umsagna sinna um málið. Í umsögn stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar þann 1. mars 2004 kemur fram að Hafrannsóknarstofnunin telur að með tilliti til staðsetningar umræddra sjókvía Austlax ehf. í Seyðisfirði séu litlar líkur á alvarlegum áhrifum á umhverfið. Stofnunin telur því ekki að umrædd framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Hins vegar er vakin athygli á nauðsyn þess að gerð verði heildstæð úttekt og stefna mörkuð varðandi kvíaeldi í fjörðum landsins.

Í umsögn Austlax ehf. kemur fram að framkvæmdaraðili hafi sent inn öll þau gögn og látið gera allar þær rannsóknir sem umsagnaraðilar hafi beðið um og talið nauðsynlegar. Varðandi sammögnunaráhrif komi það skýrt fram í hinni kærðu ákvörðun að ekki sé eðlilegt að Austlax ehf. leggi í umfangsmiklar rannsóknir á almennum áhrifum sjókvíaeldis á lífríki í straumvatni eða að hægt sé að gera þá kröfu til framkvæmdaraðila að hann leggi fram upplýsingar um þá eldisframleiðslu sem eðlilegt geti talist að heimila á Austfjarðasvæðinu í heild.

2.

Kærandi vekur athygli á að samkvæmt upplýsingum framkvæmdaraðila í bréfi til Skipulagsstofnunar dags. 15. desember 2003, þá verði miðjudýpt fyrirhugaðra sjókvía allt að 23 m. Samkvæmt uppgefinni staðsetningu kvíanna, sem ákveðin hafi verið í samráði við Hafnarmálaráð Seyðisfjarðar í Sörlastaðavík, Selstaðavík og undir Háubökkum, sé sjávardýpi 20-60 m, 20-45 m og 20-40 m. Lágmarksdýpi frá neðsta punkti sjókvíar til botns sé talið verða að vera 5 m, en helst eigi það að vera 10 m eða meira. Af þessum sökum sé stór hluti hins fyrirhugaða kvíasvæðis ónothæft grunnsævi fyrir það sjókvíaeldi sem framkvæmdaraðili hyggist stofna til.

Skipulagsstofnun vekur í umsögn sinni athygli á því að samkvæmt tilkynningu framkvæmdaraðila verði staðsetning kvíaþyrpinga undir Háubökkum 70-150 m frá landi þar sem er 20-40 m sjávardýpi, í Sörlastaðavík 50-200 m frá landi á 20-60 m dýpi og í Selstaðavík 70-150 m frá landi á 20-45 m dýpi. Telur Skipulagsstofnun að á þessum svæðum verði nægjanlegt svigrúm fyrir staðsetningu kvía á ásættanlegu dýpi. Að öðru leyti vísast til gerðar starfsleyfis hvað varðar lágmarksdýpi undir kvíum.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin tekur undir að tryggja verði að kvíarnar verði staðsettar á nægjanlegu dýpi. Venjan sé að miða við að dýpi neðan við kvíar sé a.m.k. helmingur af miðjudýpt sjókvía. Þetta sé gert til að tryggja að botnstraumar nái að hreinsa burtu sem mest af því efni sem botnfellur við kvíarnar og til að koma í veg fyrir að kvíarnar lendi í sterkum botnstraumi þegar slíkar aðstæður skapast. Miðað við að miðjudýpt verði allt að 23 m verði að vera a.m.k. 12 m frá kvíum til botns og því verði dýpið þar sem kvíarnar eru staðsettar að vera a.m.k. 35 m. Æskilegast sé þó að dýpið sé ekki undir 40 m.

Austlax ehf. vísar í umsögn sinni til gagna sem send voru Skipulagsstofnun um dýptarmælingar á umræddum svæðum ásamt línuritum sem sýna dýpið á hverjum stað. Þar sem sjávardýpi er sagt 20 m er um að ræða upphafspunkta, miðað við þau hnit sem gefin eru upp fyrir svæðin, og út frá þeim dýpki svæðin mjög fljótt og nái auðveldlega þeirri dýpt sem ætlast er til að kvíarnar séu staðsettar á.

Kærandi bendir í athugasemdum á að fyrir liggur að ekki hafi verið haft samráð við eigendur jarða sem eiga land að sjó og netlög þar sem staðsetning kvíaeldisins er fyrirhuguð. Að svo komnu máli geti framkvæmdaraðili varla gert ráð fyrir kvíaeldi sínu í annarra manna netlögum, sem skeri niður þriðja svæðið í Sörlastaðavík, sem fyrirhugað var 50-200 m frá landi, í 85 m ræmu og að auki með þeim fyrirvara að sú ræma nái 40 m dýpi.

2. Kærur eigenda sjávarjarða í Seyðisfirði.

1.

Fram kemur í átta kærum eigenda sjávarjarða í Seyðisfirði að frá ómunatíð hafi jarðirnar átt hlutdeild í sjávarauðlindinni. Eignarhlutdeild þessi byggist í fyrsta lagi á fiskhelgi (rekamark) sem séu ytri landamerki jarðarinnar til hafsins, innan þeirra eigi landeigandi allan rétt á öllu sem flýtur og er dautt. Rekamark sé talið ná minnst 600 m frá landi. Í öðru lagi byggist eignarhlutdeildin á netlögum, en innan þeirra eigi landeigandi allan rétt til allra nytja. Netlög nái 60 faðma (115 m) út frá stórstraums fjöruborði. Í þriðja lagi eigi jarðirnar fornan atvinnurétt, svokallað útræði/heimræði, sem metið hafi verið í fasteignamati og einnig hvalveiðiréttindi.

Jafnframt kemur fram í kærunum að eigendur sjávarjarða eigi eignarréttarlega hlutdeild í sjávarauðlindinni og beinan eignarrétt að fiskveiði í netlögum sem varin sé af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eigendur sjávarjarða eigi ítaksrétt til veiða í fiskhelgi utan netlaga og á hefðbundnum miðum, sem jafna megi til afréttarréttinda og sé því eignarréttarlegs eðlis og varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Útræði/heimræði og útræðisréttur, sé einnig varinn af 75. gr. stjórnarskrár, enda jafnframt atvinnuréttarlegs eðlis. Sjórinn og sjávarbotninn í netlögum sé víða mikilvæg uppeldisstöð og þar sé oft mikil fiskgengd. Lífríkið og sjórinn innan og utan netlaga sé ein hreyfanleg og óskipt heild. Þetta staðfesti séreignarhlutdeild sjávarjarða í sameign íslensku þjóðarinnar sem nefnd er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Kærendur segja síðan: „Allmörgum sjávarjörðum tilheyra ákveðin sjávarmið. Samkvæmt heimildum í skýrslu Ólafs Olaviusar, sem gerður var út af dönsku stjórninni 1775-1777 til athugunar á landshögum Íslendinga, þá tilheyra Seyðisfirði eftirtalin sjávarmið: Skálanesbótarmið, Boðamið, Stapamið, tvö Vogsmið, Sandabrotsmið og Fossamið. Einnig Grýtumið og Endamið en á Endamiðum er dýpið niður á 80 faðma (150 m). Þessi sjávarmið voru og eru meðal annars mið sjávarjarða og heimamanna á Seyðisfirði, þetta staðfesta meðal annars lög um bátafisk á fjörðum no. 6 frá 19. júní 1888. Að heima menn eiga rétt umfram aðra á nálægum miðum."

Kærendur benda á að hugsanlegar leyfisveitingar til Austlax ehf. um fiskeldi, án nokkurs samráðs við hlutaðeigendur að sjónum og lífríkinu í honum, samræmist ekki lögum. Skipulagsstofnun hafi tekið ákvörðun um að framkvæmdir Austlax ehf. skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Þar af leiðandi hafi ekki farið fram mat, samkvæmt 5. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, þar sem tilgreina skuli á viðeigandi hátt áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi sem þeim fylgir kunna að hafa á menn og samfélag, auk þess sem gerð skuli grein fyrir áhrifum framkvæmda á efnisleg verðmæti. Telja kærendur að undir þetta falli áhrif á eigendur sjávarins.

Að mati kærenda hafa Skipulagsstofnun eða umhverfisráðuneyti hvorki heimildir né umboð til að ákveða einhliða um fiskeldi í óskiptri sameigninni. Er því hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar mótmælt og farið fram á að tekið verði tillit til eigenda og samráð haft við þá vegna hugsanlegra leyfisveitinga vegna framkvæmda og atvinnurekstrar í sjó.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telur að hugsanlegar kröfur ýmissa landeigenda á hendur rekstraraðilum umrædds fiskeldis snerti ekki mat stofnunarinnar á því hvort framkvæmd vegna 1.500 t fiskeldi kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

Í umsögn Veiðimálastjóra er bent á að kvíaeldi sem fram fari utan netlaga (115 m utan stórstraumsfjöruborðs) sé ekki á umráðasvæði sjávarjarða samkvæmt 14. gr. laga um lax og silungsveiði.

Í umsögn Austlax ehf. er kæru landeigenda vegna nýtingarréttar alfarið vísað á bug.

2.

Í kæru Vilmundar Þorgrímssonar f.h. eigenda Villifuglagarðsins í Skálanesi koma fram málsástæður til viðbótar framangreindum röksemdum landeigenda. Þar gerir hann athugasemdir við að gríðarleg yfirborðsfita komi frá fóðurgjöfinni og telur hann að ein þró geti mengað marga kílómetra út frá sér. Fitubrákin muni fara um allan fjörð og valda skaða fyrir villtan fugl og fullvíst megi telja að enginn æðarungi kæmist upp í þvílíkri fitubrák. Einnig festist mikið af fugli í netum sem sett séu umhverfis fiskeldi til að verjast marglyttum. Hingað til hafi fiskeldisgirðingar verið innst í Seyðisfirði og því ekki valdið beinum skaða í Villifuglagarðinum í Skálanesi. Garðurinn hafi verið opinn frá árinu 1990 og muni eigendur hans sækja viðeigandi stjórnvöld til skaðabóta vegna tjóns sem hann kunni að verða fyrir vegna fiskeldisins.

Þau atriði sem fram koma í framangreindu erindi Vilmundar Þorgrímssonar voru sérstaklega borin undir Umhverfisstofnun með tölvupósti þann 11. maí 2004 og barst svar þann 12. maí 2004. Þar kemur fram að stofnunin hafi engu við fyrri umfjöllun sína að bæta varðandi áhrif vegna mengunar frá fyrirhuguðu fiskeldi.

III. Niðurstaða.

1. Kæra Óttars Yngvasonar f.h. eigenda Haffjarðarár á Snæfellsnesi og Verndarsjóðs villtra laxa (NASF).

1.

Kærandi byggir á því að fyrir liggi úrskurður umhverfisráðherra dags. 16. september 2003 um að sama starfsemi framkvæmdaraðila skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Málið hafi því þar með verið endanlega afgreitt af réttum úrskurðaraðila og því sé endurtekin meðferð þess hjá sama úrskurðaraðila hrein rökleysa. Þá verði ekki séð að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Framkvæmdaraðili hefur tilkynnt, með vísan til g liðar 1. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, um fyrirhugað eldi að 1.500 t af laxi á ári í sjókvíum í Seyðisfirði. Ljóst er að um er að ræða hluta af framkvæmd sem áður hefur verið til meðferðar í ráðuneytinu á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. úrskurður ráðuneytisins frá 16. september 2003. Í því tilviki var um að ræða 8.000 t eldi á ári á laxi, regnbogasilungi og þorski í sjókvíum í Seyðisfirði og var það niðurstaða ráðuneytisins að meta skyldi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sbr. 1. gr. laganna er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Markmið laganna er ennfremur samvinna þeirra sem hafa hagsmuna að gæta og kynning framkvæmdarinnar gagnvart almenningi. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. g liður 1. tölul. 2. viðauka, er þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, tilkynningarskylt til Skipulagsstofnunar sem þá tekur ákvörðun um matsskyldu framkvæmdarinnar. Er slík framkvæmd háð mati á umhverfisáhrifum þegar hún getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Að mati ráðuneytisins er ekkert í lögum um mat á umhverfisáhrifum sem stendur í vegi fyrir því að framkvæmdaraðili tilkynni Skipulagsstofnun aftur um framkvæmd hafi áform hans breyst. Er í því tilviki tekin ný ákvörðun með hliðsjón af breyttum aðstæðum. Lítur ráðuneytið ekki svo á að um endurupptöku hafi verið að ræða eins og kærandi heldur fram, heldur nýja ákvörðun á grundvelli nýrrar tilkynningar og breyttra áforma framkvæmdaraðila. Skiptir í því tilviki að mati ráðuneytisins ekki máli þó að framkvæmdaraðili hyggist í framtíðinni láta verða af fyrri áformum sínum um 8.000 t fiskeldi. Getur framkvæmdaraðili undirbúið mat á slíku fiskeldi í samræmi við niðurstöðu fyrri úrskurðar ráðuneytisins. Ráðuneytið telur því að Skipulagsstofnun hafi verið heimilt að taka til meðferðar hina nýju tilkynningu framkvæmdaraðila og taka ákvörðun um matsskyldu breyttra framkvæmdaráforma.

Kærandi telur að flest rök umhverfisráðherra varðandi umhverfisáhrif 8.000 t fiskeldis í fyrri úrskurði eigi einnig við nú. Bendir kærandi á að í úrskurðinum komi fram að óvissa ríki um ýmis atriði framkvæmdar, svo sem sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum, sjúkdómahættu, úrgangsmyndun og mengun. Þá hafi ráðuneytið talið að líta bæri til sjónarmiða varðandi erfðablöndun við ákvörðun um matsskyldu fiskeldis sérstaklega í ljósi þess magns sem um ræðir og nálægðar við laxveiðiár.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 16. september 2003 segir: „Samkvæmt 1. tl. 3. viðauka þarf að athuga eðli framkvæmdar m.a. með tilliti til stærðar og umfangs framkvæmdar, sbr. i-lið þess töluliðar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, sbr. ii-lið, úrgangsmyndunar, sbr. iv-lið og mengunar, sbr. v-lið þegar tekin er ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur að fyrirhuguð framkvæmd kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, þegar hafðar eru til hliðsjónar umsagnir yfirdýralæknis um að magn fyrirhugaðs eldis sé illviðráðanlegt ef upp koma sjúkdómar, álits Umhverfisstofnunar um að verið sé að nýta burðarþol Seyðisfjarðar til hins ítrasta og að eðlilegt sé að skoða vel sammögnunaráhrif eldisins með öðrum framkvæmdum sem og umsagnir Veiðimálastjóra og Veiðimálastofnunar að því er varðar umfang framkvæmdarinnar og sammögnunaráhrif. Ráðuneytið telur óvissu ríkja um framangreind atriði sem rétt sé að fjallað verði nánar um í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þannig verði gerð grein fyrir hver áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á umhverfið þ.m.t. sammögnunaráhrifum með öðru fiskeldi sem þegar hefur verið heimilað á Austfjarðasvæðinu."

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að stofnunin telur ekki líkur á að fyrirhugað 1.500 t fiskeldi í Seyðisfirði muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér hvað varðar áhrif á botnadýralíf eða mengun viðtaka, sbr. skilgreiningu á síður viðkvæmum svæðum í reglugerð nr. 789/1999, um fráveitur og skolp. Telur stofnunin ljóst að 1.500 t fiskeldi sé töluvert undir burðarmörkum Seyðisfjarðar m.t.t. fiskeldis. Sama álit kemur fram í umsögn Skipulagsstofnunar.

Hvað varðar sjúkdómstengda þætti þá kemur fram í umsögn dýralæknis fisksjúkdóma að embættið hafi á sínum tíma lagst gegn 8.000 t fiskeldi í Seyðisfirði vegna hættu á smitsjúkdómum í svo umfangsmiklu eldi á sama stað. Í ljósi fenginnar reynslu hafi verið farin sú leið að deila því á þrjár staðsetningar með aðskildum árgöngum, líkt og gert hafi verið í Mjóafirði. Ný áætlun Austlax ehf. um 1.500 t eldiseiningu sé því skynsamleg og óþarfi að skylda slíka starfsemi í umhverfismat. Telur embættið að allar lykilupplýsingar varðandi sjúkdómstengda þætti liggi nú þegar fyrir sem hægt sé að leggja til grundvallar við ákvörðun um leyfisveitingu.

Með hliðsjón af framangreindum umsögnum sérfræðistofnanna telur ráðuneytið ljóst að áhrif framkvæmdarinnar varðandi mengun, úrgangsmyndun eða sjúkdómstengda þætti eru mun minni en gert var ráð fyrir að fyrirhugað 8.000 t fiskeldi hefði í för með sér.

Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni að veruleg hætta sé á erfðablöndun og útbreiðslu sjúkdóma meðal villtra íslenskra laxastofna vegna stóraukins fiskeldis hér við land. Þó að sá hluti framkvæmdarinnar sem hér um ræðir sé mun minni að umfangi en fyrirhugað 8.000 t fiskeldi sem úrskurður umhverfisráðherra frá 16. september 2003 fjallar um, þá telur stofnunin mikilvægt að sammögnunaráhrif vegna hættu á erfðablöndun sem stafar af fyrirhuguðu og eldi laxfiska sem búið er að veita leyfi fyrir á Austfjörðum verði metin fyrir framkvæmdina í heild sinni. Með hliðsjón af því að nú eru einungis 1.500 t framleidd á ári á Austfjörðum telur Umhverfisstofnun hins vegar ólílegt að þessi hluti framkvæmdarinnar hafi veruleg umhverfisáhrif í för með sér. Fram kemur í umsögn Veiðimálastofnunar að stofnunin hafi ítrekað varað við hættum sem af laxeldi getur stafað fyrir villta laxastofna landsins og nauðsyn öflugs eftirlits og rannsókna, þar sem fiskeldi er leyft. Ljóst sé að áhrif frá eldinu geti ná víða og fjarri þeim stað sem eldið fer fram á. Seyðisfjörður sé til að mynda nær laxveiðiám í Vopnafirði en fyrrnefndir staðir. Því telur stofnunin að fyrirhugað eldi í Seyðisfirði eigi að fara í umhverfismat. Þetta eigi ekki síst við þegar áform um eldi er jafn mikið og hér um ræðir. Veiðimálastjóri fellst í umsögn sinni á að 1.500 t eldi verði undanþegið mati á umhverfisáhrifum enda verði unnin matsskýrsla vegna 5.000 t laxeldis sem hluta af 8.000 t eldi af laxi, regnbogasilungi og þorski. Veigamikil atriði varðandi mat á umhverfisáhrifum fyrrnefnds eldis liggi fyrir í matsskýrslu vegna sjókvíaeldis í Reyðarfirði og samantekt Valdimars Gunnarssonar um áhrif laxeldis á villta laxastofna. Þar við bætist ýmis atriði er tengist reynslu af eldi í Mjóafirði undanfarin 3 ár.

Nú þegar hafa verið veitt leyfi fyrir eldi á samtals 22.000 t af laxfiski á ári á Austfjörðum. Hin 1.500 t sem framkvæmdaraðili áformar að framleiða af laxi á ári eru því einungis lítill hluti af því eldi sem þegar hefur verið leyft á Austurlandi og er einnig töluvert minni framleiðsla en fjallað var um í fyrrnefndum úrskurði ráðuneytisins frá 16. september 2003. Að mati ráðuneytisins er ekki líklegt að sú viðbót kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þegar metin eru sammögnunaráhrif hennar með öðrum samskonar framkvæmdum á svæðinu.

Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið að ekki sé ástæða til að ætla að 1.500 t laxeldi kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, með hliðsjón af umfangi, eðli eða staðsetningu, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 1. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Telur ráðuneytið að þau sjónarmið sem leiddu til þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins að meta skyldi umhverfisáhrif 8.000 t eldis á laxi, regnbogasilungi og þorski, eigi ekki við í máli þessu, enda umfang framkvæmdarinnar mun minna.

2.

Kærandi telur að stór hluti hins fyrirhugaða kvíasvæðis sé ónothæft grunnsævi fyrir það sjókvíaeldi sem framkvæmdaraðili hyggist stofna til.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að samkvæmt tilkynningu framkvæmdaraðila verði staðsetning kvíaþyrpinga undir Háubökkum 70-150 m frá landi þar sem er 20-40 m sjávardýpi, í Sörlastaðavík 50-200 m frá landi á 20-60 m dýpi og í Selstaðavík 70-150 m frá landi á 20-45 m dýpi. Telur stofnunin því að á þessum svæðum verði nægjanlegt svigrúm til að staðsetja kvíar á ásættanlegu dýpi. Austlax ehf. vísar í umsögn sinni til gagna sem send voru Skipulagsstofnun um dýptarmælingar á umræddum svæðum ásamt línuritum sem sýna dýpið á hverjum stað. Þar sem sjávardýpi er sagt 20 m er um að ræða upphafspunkta, miðað við þau hnit sem gefin eru upp fyrir svæðin, og út frá þeim dýpki svæðin mjög fljótt og ná auðveldlega þeirri dýpt sem ætlast er til að kvíarnar séu staðsettar á.

Eins og fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar er það venjan að miða við að dýpi neðan við sjókvíar sé a.m.k. helmingur af miðjudýpt þeirra til að tryggja að botnstraumar nái að hreinsa burtu sem mest af því efni sem botnfellur við kvíarnar og til að koma í veg fyrir að þær lendi í sterkum botnstraumi þegar slíkar aðstæður skapast. Því þarf dýpi þar sem sjókvíarnar eru staðsettar að vera a.m.k. 35 m og æskilegt að það sé ekki undir 40 m. Með hliðsjón af gögnum málsins telur ráðuneytið ekki ástæðu til að ætla annað en nægjanlegt svigrúm sé til að staðsetja kvíar á fyrirhuguðum stöðum í Seyðisfirði og á fullnægjandi dýpi. Ráðuneytið bendir á að í a. lið 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, er kveðið á um að í starfsleyfi skuli koma fram lýsing á þeirri starfsemi sem heimiluð er, stærð hennar og staðsetning. Ákvörðun um nákvæma staðsetningu sjókvíanna er því tekin við útgáfu starfsleyfis á grundvelli reglugerðar nr. 785/1999, með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum sem fram koma í umsögn Umhverfisstofnunar.

2. Kærur eigenda sjávarjarða í Seyðisfirði.

1.

Fram kemur í kærum eigenda sjávarjarða í Seyðisfirði að frá ómunatíð hafi jarðirnar átt hlutdeild í sjávarauðlindinni. Kærendur telja að hugsanlegar leyfisveitingar til Austlax ehf. um fiskeldi, án nokkurs samráðs við eigendur að sjónum og lífríkinu í honum, samræmist ekki lögum. Skipulagsstofnun hafi tekið ákvörðun um að framkvæmdir Austlax ehf. skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Þar af leiðandi hafi ekki farið fram mat, samkvæmt 5. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, þar sem tilgreina skuli á viðeigandi hátt áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi sem þeim fylgir kunna að hafa á menn og samfélag, auk þess sem gerð skuli grein fyrir áhrifum framkvæmda á efnisleg verðmæti. Telja kærendur að undir þetta falli áhrif á eigendur sjávarins. Að mati kærenda hafa Skipulagsstofnun eða umhverfisráðuneyti hvorki heimildir né umboð til að ákveða einhliða um fiskeldi í óskiptri sameigninni. Er því hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar mótmælt og farið fram á að tekið verði tillit til eigenda og samráð haft við þá vegna hugsanlegra leyfisveitinga vegna framkvæmda og atvinnurekstrar í sjó.

Eins og áður segir er það markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sbr. 1. gr. laganna að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Markmið laganna er ennfremur samvinna þeirra sem hafa hagsmuna að gæta og kynning framkvæmdarinnar gagnvart almenningi. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð með sama heiti, nr. 671/2001 er ekki gerð krafa um að fjallað skuli í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum um heimildir framkvæmdaraðila á framkvæmdasvæði. Það skal hins vegar gera áður en rekstrarleyfi veiðimálastjóra er veitt, en skv. 62. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, með síðari breytingum þarf rekstrarleyfi veiðimálastjóra til að stunda kvíaeldi. Í umsókn um rekstrarleyfi skulu fylgja skilríki um afnot lands, vatns og sjávar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Það er því ekki hlutverk ráðuneytisins í kærumeðferð vegna úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum að leggja mat á heimildir eða ráðstöfunarrétt framkvæmdaraðila að því hafsvæði sem hann hyggst stunda framkvæmd sína á.

Samkvæmt j-lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er hugtakið umhverfi samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti. Mat á áhrifum framkvæmdar á menn og samfélag er því hluti af mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Hins vegar fellur það að mati ráðuneytisins utan sviðs laga um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um hugsanlegan bótarétt einstaklinga vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, sbr. m.a. úrskurður ráðuneytisins frá 5. júlí 2002, um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar og frá 14. mars 2003, um mat á umhverfisáhrifum Sultartangalínu 3. Að mati ráðuneytisins hefur ekkert komið fram í gögnum málsins sem bendir til að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á landeigendur í Seyðisfirði kunni að vera umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

2.

Í kæru Vilmundar Þorgrímssonar f.h. eigenda Villifuglagarðsins í Skálanesi er því haldið fram að mikil yfirborðsfita komi frá fóðurgjöfinni sem mengi fjörðinn og valdi skaða fyrir villtan fugl. Einnig festist mikið af fugli í netum sem sett séu umhverfis fiskeldi til að verjast marglyttum.

Í kafla 1. 2 hér að framan er gerð grein fyrir því áliti Umhverfisstofnunar að ekki séu líkur á að fyrirhugað 1.500 t fiskeldi í Seyðisfirði muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér hvað varðar áhrif á botnadýralíf eða mengun viðtaka, sbr. skilgreiningu á síður viðkvæmum svæðum í reglugerð nr. 789/1999, um fráveitur og skolp. Telur stofnunin ljóst að 1.500 t fiskeldi sé töluvert undir burðarmörkum Seyðisfjarðar m.t.t. fiskeldis. Við útgáfu starfsleyfis á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, er fjallað um atriði er varða mengunarvarnir vegna atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun í því skyni að draga úr mengun þannig að hún sé innan þeirra marka sem lög og reglugerðir kveða á um.

3. Niðurstaða

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að hafna beri öllum kröfum kærenda. Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. desember 2003 um að fyrirhugað eldi á allt að 1500 t af laxi í sjókvíum í Seyðisfirði sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum, er því staðfest.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 29. desember 2003 um að fyrirhugað eldi á allt að 1500 t af laxi í sjókvíum í Seyðisfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum