Hoppa yfir valmynd

8/2002

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004 mánudaginn 24. maí, kom nefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Lára G. Hansdóttir, Gísli Gíslason og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Gísli Gíslason tekur sæti Gunnars Eydals í máli þessu á hendur Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2002, kæra IP-studium Reykjavík ehf., kt. 640999-2099, hér eftir nefndur kærandi, vegna ágreinings þess og Umhverfis- og heilbrigðisstofu, hér eftir nefnd kærði, um túlkun og framkvæmd laga nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit. Kæra dags. 16. desember 2002 barst úrskurðarnefnd í desember 2002. Kærunni fylgdu eftirtalin fylgiskjöl:

1. Afrit leigusamnings.

2. Afrit bréfs kærða, dags. 15. júlí 2002.

3. Afrit bréfs kærða, dags. 2. september 2002.

4. Afrit bréfs lögmanns kæranda, dags. 20. september, 2002.

5. Afrit bréfs kærða, dags. 2. október, 2002.

6. Afrit bréfs lögmanns kæranda dags. 4. október, 2002.

7. Afrit bréfs kærða, dags. 24. október 2002.

8. Afrit bréfs lögmanns kæranda dags. 31. október 2002.

9. Afrit bréfs kærða, dags. 23. nóvember 2002.

Afrit kærunnar ásamt ljósriti af fylgiskjölum var sent kærða, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkurborgar. Skilaði kærði greinargerð dags. 27. febrúar 2003. Greinargerð sú var send kæranda með bréfi dags. 22. apríl 2003 og barst svarbréf lögmanns kæranda með bréfi dags. 8. maí 2003.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

I

Kæra er dagsett 16. desember 2002. Lýsir lögmaður kæranda málavöxtum þannig að með bréfi Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs dags. 15 júlí 2002 hafi kæranda verið tilkynnt að kærða hafi borist kvörtun um rottugang í Traðarkotssundi í Reykjavík og skemmdar frárennslislagnir því tengdu. Kveður lögmaður kæranda að fram hafi komið í bréfinu að við eftirlit ýmissa aðila á vegum Reykjavíkurborgar hafi kvörtunin verið staðfest og að frárennslislagnir væru í ólagi í Traðarkotssundi við austurvegg fasteignar kæranda að Hverfisgötu 18. Ennfremur komi fram í bréfinu að ekki hafi tekist að staðsetja nákvæmlega hvar umrædd skemmd sé en líkur séu á því að hún sé tengd frárennslislögn sem liggi frá Hverfisgötu 18 út í aðallögn í Traðarkotssundi. Þá segir í bréfi lögmanns kæranda að komið hafi fram í bréfinu að húseigendur sem ættu umrædda lögn væru ábyrgir fyrir því að lagfæringar færu fram á henni. Vísað hafi verið til ákvæða reglugerðar nr. 798/1999 um mengunarvarnir. Hafi kærði farið fram á lagfæringar á skemmdri skólplögn og ennfremur að yrði ekki farið að tilvitnuðum kröfum myndi kærði láta fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Þá kemur fram í kæru að með bréfi Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs, dags. 2. september 2002 hafi kæranda borist tilkynning um væntanlegar lagfæringar á skemmdum frárennslislögnum við Hverfisgötu 18 á kostnað eiganda. Kröfum kærða var hafnað og bent á að fasteignin væri í leigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og að leigutaki hafi ráðist í margvíslegar framkvæmdir án heimildar leigusala. Af þeim ástæðum hafi frárennslislagnir hússins skemmst og því væru skemmdir á ábyrgð kærða. Kærði svaraði bréfi kæranda með bréfi dags. 2. október 2002. Hafi þar komið fram túlkun á ýmsum ákvæðum reglugerðar nr. 786/1999 og kröfur um lagfæringu ítrekaðar. Lögmaður kæranda mótmælti túlkun kærða og krafðist þess að allir starfsmenn umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar vikju sæti þar sem málið varðaði Reykjavíkurborg sem leigutaka umrædds húsnæðis. Kröfunni um að víkja sæti hafi verið hafnað af kærða. Hafi komið fram í bréfum kærða að stjórnunarleg tengsl kærða og Borgarstjórnar Reykjavíkur séu ekki fyrir hendi og er um þetta vikið að 15. gr. laga nr. 7/1998, svo og 1. mgr. 32. gr. laganna. Voru áður gerðar kröfur ítrekaðar af hálfu kærða. Enn á ný svaraði lögmaður kæranda og ítrekaði vanhæfni starfsmanna. Að nýju var krafist úrbóta á lögnum og vanhæfni mótmælt af hálfu kærða.

II.

Málsástæður lögmanns kæranda eru að starfsmenn kærða séu vanhæfir til að taka bindandi ákvarðanir sem varða leigutaka Hverfisgötu 18 í Reykjavík. Eins og fram er komið áður, er Reykjavíkurborg leigutaki kv. leigusamningi um fasteignina að Hverfisgötu 18 í Reykjavík. Vísar lögmaður kæranda varðandi vanhæfni til skyldu Reykjavíkurborgar að starfrækja heilbrigðiseftirlit og bera kostnað af rekstri þess. Ennfremur er vísað til kosningar heilbrigðiseftirlits af hlutaðeigandi sveitarstjórn og þess að heilbrigðisnefnd beri að sjá um að framfylgja m.a. samþykktum borgarinnar. Þá kemur fram að heilbrigðisfulltrúi sé ráðinn af heilbrigðisnefnd. Með tilvísan til framangreinds er þess krafist að allir starfsmenn embættisins víki sæti við meðferð málsins og málið verði á ný tekið til umfjöllunar.

Þá vísar lögmaður kæranda og til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi að áður en tilkynning um að gert verði við lagnir fasteignar kæranda á hans kostnað sé send, hvíli rannsóknarskylda á kærða. Beri kærða að rannsaka mál nægilega áður en farið yrði í slíkar íþyngjandi aðgerðir. Er ennfremur vísað til þess að ekki virðist liggja fyrir að frárennslislögn, sem talin sé þarfnast viðgerðar og staðsett sé í Traðarkotssundi, stafi frá fasteign kæranda að Hverfisgötu 18. Telur lögmaður kæranda að þar sem ekki hafi tekist að staðsetja nákvæmlega hvar umrædd frárennslislögn liggi, geti kærði ekki tekið ákvörðun um að láta kæranda gera við frárennslislagnir.

Ennfremur rökstyður kærandi kröfur sínar með því að á vegum leigutaka hafi verið farið í margvíslegar framkvæmdir á umræddu húsnæði. Hafi við framkvæmdina orðið mistök í vinnu við frárennslislagnir þar sem þær hafi verið tengdar með röngum og óforsvaranlegum hætti. Því séu allar skemmdir á ábyrgð leigutaka.

Jafnframt bendir lögmaður kæranda á að hvernig sem á mál þetta sé litið megi ljóst vera að leigutaki og rekstraraðili Hverfisgötu 18 sé ábyrgur fyrir skemmdum á umræddum lögnum og sé því kröfum ranglega beint að kæranda.

Um lagarök vísar lögmaður kæranda til II. kafla stjórnsýslulaga og um skyldu húseigenda og rekstraraðila til að gera við lagnir til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr.786/1999.

Kæranda barst afrit greinargerðar kærða og sendi athugasemdir sínar vegna þessa.

1 Lögmaður kæranda ítrekar vanhæfi starfsmanna kærða og vísar til yfirstjórnar Reykjavíkurborgar á málum þeim sem umhverfis- og heilbrigðisstofa annast. Telur lögmaður kæranda að vart geti vanhæfi orðið mikið skýrara þegar um sé að ræða ákvarðanatöku lægra setts stjórnvalds sem lúti málefnum hins æðra setta stjórnvalds.

2 Varðandi rannsóknarskyldu kærða bendir lögmaður kæranda enn á vægari leiðir til að staðsetja skemmd en að grafa upp lagnir, t.d. mætti mynda lagnirnar. Ítrekar lögmaður kæranda sjónarmið um vanrækslu á rannsóknarskyldu.

3 Um hvert kærði skuli beina aðgerðum sínum vísar kæranda til reglugerðar um mengunarvarnareftirlit nr. 786/1999. Telur lögmaður kæranda að mengun sem um ræði og felist í skemmdum lögnum stafi ekki af atvinnurekstri leigusala, heldur beinlínis af athöfnum leigutaka.

4 Að öðru leyti ítrekar lögmaður kæranda gerðar kröfur og leggur málið í úrskurð.

III.

Greinargerð kærða er dagsett 27. febrúar 2003. Greinargerðinni fylgdi skipurit Reykjavíkurborgar.

Rökstuðningur kærða er eftirfarandi :

1. Kærði gerir athugasemd við kæruna þar sem sífellt sé vitnað til bréfa Reykjavíkurborgar, umhverfis- og tæknisviðs í kærunni. Bendir kærði á að stofnun sú sem bréfin riti heiti Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur svo sem skýrt komi fram af bréfum stofunnar og öðrum gögnum.

2. Kærði gerir ekki athugasemdir við málavaxtalýsingu kæranda.

3. Kröfu kæranda um að beina hefði átt kröfum kærða til Reykjavíkurborgar sem leigutaka hússins nr. 18 við Hverfisgötu svarar kærði með tilvísun í afrit leigusamnings m.a. 7.gr., þar sem fjallað sé um viðhald hins leigða. Komi þar fram að leigjandi annist á sinn kostnað allt viðhald innandyra sem utan, nema um sé að ræða viðhald á burðarvirki, klæðningu eða stofnlögnum. Ljóst sé því með tilvísan til þessa ákvæðis að umrædd lögn skuli falla undir skyldu leigusala til viðhalds. Þá ítrekar kærði það sem fram komi í bréfum kærða frá 2. október og 24. október 2002 þar sem m.a. komi fram : "Í því máli sem hér er til umfjöllunar, beinir Umhverfis- og heilbrigðisstofa aðgerðum sínum að eiganda húsnæðisins. Eigandi hússins rekur húsnæðið þ.m.t. annast útleigu þess. Sú starfsemi telst vera rekstur fasteigna. Aðgerðir Umhverfis- og heilbrigðisstofu beinast ekki að starfsemi leigutaka, heldur að almennum og venjulegum rekstri húsnæðis. Telji umbjóðandi yðar að hann eigi ekki að bera kostnað af aðgerðum heldur leigutaki ber umbjóðanda yðar að sjálfsögðu að snúa sér til hans og innheimta kostnað allt í samræmi við samning þeirra aðila." Vísar kærði ennfremur til þess að framangreind aðferðarfræði byggi á áratuga venju Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem nú falli undir Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, enda hafi eftirlitsaðili engin tök á að beina aðgerðum sínum að leigutökum skv. leigusamningum.

4. Staðhæfingu kæranda um að rannsóknarskyldu sé ekki fullnægt svarar kærði því að kannað hafi verið með öllum tiltækum ráðum hvar umrædd skemmd sé og hafi verið beitt til þess öllum öðrum aðferðum en að grafa lögnina upp á einkalóð eiganda hennar. Öll gögn hafi bent til þess að rottugangur stafaði af skemmdri lögn við Hverfisgötu 18. Telur kærði að með yfirlýsingu kæranda í gögnum um að leigutaki hafi ráðist í margvíslegar framkvæmdir á hinu leigða hafi kærandi staðfest þessa niðurstöðu um staðsetningu skemmdar.

5. Vanhæfiskröfu kæranda hafnar stefndi og vísar til þess að sjálfstæði heilbrigðisnefnda gagnvart sveitarstjórn komi glögglega fram í 1. mgr. 32. gr. laganna um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar komi fram að rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laga þessara skuli vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra.

IV.

Ágreiningur sá sem lagður er fyrir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir skv. 1. gr. laga nr. 7/1998 snýst um viðgerð á skolplögnum vegna fasteignar að Hverfisgötu 18 í Reykjavík.

Lögmaður kæranda krefst þess að allir starfsmenn kærða víki sæti þar sem þeir séu vanhæfir vegna aðildar Borgarsjóðs Reykjavíkur sem leigutaka fasteignarinnar.

Í 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að ágreiningi milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laganna skuli vísað til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Með vísan til þess og ákvæða stjórnsýslulaga um vanhæfi verður ekki fallist á það með kæranda að starfsmenn kærða séu vanhæfir í máli þessu.

Eins og fram kemur í gr. 5.1 í reglugerð nr. 798/1999 hefur heilbrigðisnefnd eftirlit með fráveitum. Í 29. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit kemur fram að sinni aðili ekki fyrirmælum innan tilskilins frests eða séu fyrirmæli um framkvæmd vanrækt geti heilbrigðisnefnd ákveðið dagsektir þar til úr sé bætt eða látið vinna verk á kostnað eiganda. Með vísan til þessa er lagaskylda kærða ljós en kærði hefur með höndum eftirlitsskyldu og heimildir til að knýja fram aðgerðir. Jafnframt er ljóst að húseigendur bera ábyrgð á lagfæringum og viðhaldi á frárennslislögnum sem liggja frá fasteignum þeirra. Með vísan til þessa er lagaskylda kærða til athafna ljós. Verður því ekki fallist á málsástæður lögmanns kæranda um að kærði hafi ekki heimildir til aðgerða í máli þessu gagnvart kærða. Krafa kæranda á hendur leigutaka vegna bótaskylds atburðar er ekki úrlausnarefni úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð :

Kröfum kæranda um að starfsmenn kærða víki sæti vegna vanhæfis í máli þessu er hafnað. Ekki er fallist á að kröfum kærða sé ranglega beint að kæranda.

____________________________

Lára G. Hansdóttir

__________________________ __________________________

Gísli Gíslason Guðrún Helga Brynleifsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira