Hoppa yfir valmynd

801/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019

Úrskurður

Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 801/2019 í máli ÚNU 19020006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. desember 2018, óskaði A, blaðamaður, eftir aðgangi að eftirfarandi gögnum:

1. Fundargerðum eftirlitsnefndar með sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts ohf.
2. Beiðni Íslandspósts til eftirlitsnefndarinnar um sameiningu ePósts ehf. við móðurfélag sitt.
3. Svar eftirlitsnefndarinnar við beiðninni skv. 2. tölul.

Gagnabeiðni kæranda var synjað með bréfi formanns eftirlitsnefndarinnar, dags. 31. janúar 2018. Var sú ákvörðun reist á því að þar sem eftirlitsnefndin væri ekki stjórnvald sem tæki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna heyrði hún ekki undir gildissvið upplýsingalaga. Eftirlitsnefndinni hefði verið komið á fót með sátt sem Íslandspóstur hefði gert við Samkeppniseftirlitið. Nefndin væri ekki hluti af fyrirtækinu Íslandspósti heldur væri tilnefning og skipun nefndarmanna aðeins hluti af skyldum Íslandspósts samkvæmt sáttinni.

Kærandi kærði synjunina með erindi, dags. 13. febrúar 2019. Í kæru segir m.a. að ekki hafi verið tekin efnisleg afstaða til réttar kæranda til aðgangs að gögnunum þar sem beiðninni hafi verið synjað á þeim grundvelli að nefndin heyri ekki undir gildissvið upplýsingalaga. Er farið fram á afhendingu gagnanna eða heimvísun málsins til Íslandspósts. Þá telur kærandi rök vera fyrir því að eftirlitsnefndin sé stjórnvald og falli sem slík undir upplýsingalög.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2019, var kæran kynnt Íslandspósti og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lyti að. Kæran var kynnt formanni eftirlitsnefndarinnar með bréfi, dags. 14. febrúar 2019.

Í umsögn formanns eftirlitsnefndarinnar um kæruna, dags. 27. febrúar 2019, er ítrekað að eftirlitsnefndin sé ekki stjórnvald og því falli hún ekki undir ákvæði upplýsingalaga. Vegna þessa hafi ekki verið tekin efnisleg afstaða til þess hvort eftirlitsnefndinni sé skylt að afhenda gögnin ef hún yrði talin falla undir upplýsingalög. Í fundargerðum nefndarinnar komi eftir atvikum fram umræður nefndarmanna um stöðu og rekstur Íslandspósts og önnur viðkvæm málefni sem rétt kunni að vera að leynt fari. Þeir hlutar fundargerðanna séu m.a. undanþegnir upplýsingaskyldu á grundvelli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Auk þess kemur fram að ekki liggi fyrir endanlegt svar eftirlitsnefndarinnar við beiðni Íslandpósts um afstöðu eftirlitsnefndarinnar til sameiningar ePósts og Íslandspósts. Því sé ekki unnt að afhenda úrskurðarnefnd um upplýsingamál það gagn.

Umsögnin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 1. mars 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að fundargerðum eftirlitsnefndar með sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts, beiðni Íslandspósts til nefndarinnar um sameiningu ePósts við móðurfélag sitt og svar eftirlitsnefndarinnar við beiðninni. Beiðninni var synjað á þeim grundvelli að eftirlitsnefndin heyrði ekki undir upplýsingalög nr. 140/2012, enda væri hún hvorki stjórnvald né gæti hún talist hluti af starfsemi Íslandspósts.

Eftirlitsnefnd með sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts var sett á fót á grundvelli ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017 frá 17. febrúar 2017. Í ákvörðuninni er ekki að finna ákvæði um framsal Samkeppniseftirlitsins á stjórnsýsluvaldi til nefndarinnar og eru því ekki forsendur til þess að líta á nefndina sem stjórnvald. Hins vegar þarf að taka afstöðu til þess hvort starfsemi eftirlitsnefndarinnar sé hluti af starfsemi Íslandspósts þannig að gögn sem verði til í starfsemi nefndarinnar falli undir lögin samkvæmt 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Í því ákvæði segir að lögin taki til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Þau taki þó ekki til lögaðila, sem sótt hafa um eða fengið opinbera skráningu hlutabréfa samkvæmt lögum um kauphallir og dótturfélaga þeirra.

Í 3. tölul. I. kafla ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017 kemur fram að Íslandspóstur hafi óskað eftir viðræðum um sátt við Samkeppniseftirlitið með það að markmiði að ljúka rannsókn og meðferð mála sem til meðferðar voru hjá Samkeppniseftirlitinu. Viðræðunum hafi lokið með sátt og grundvallist ákvörðunin á sáttinni. Þá eru tilgreind helstu ákvæði sáttarinnar sem varða skipulag samstæðunnar. Fram kemur m.a. að í henni sé kveðið á um stofnun sérstakrar eftirlitsnefndar sem fylgi sáttinni eftir, taki við kvörtunum og taki ákvarðanir í samræmi við fyrirmæli sáttarinnar. Sé nefndin hluti af skipulagi fyrirtækisins og skipuð af Íslandspósti. Þá er sett fram skýringarmynd um innra skipulag Íslandspósts þar sem eftirlitsnefndinni er skipaður staður til hliðar við stjórn Íslandspósts og lýtur hún því ekki boðvaldi stjórnar. Í 5. tölul. VII. kafla ákvörðunarinnar er fjallað nánar um eftirlitsnefndina en þar segir í þriðju málsgrein að þar sem um sé að ræða innra eftirlit hjá Íslandspósti sé eðlilegt að fyrirtækið eigi einn fulltrúa í nefndinni.

Í ákvörðunarorði ákvörðunarinnar er efni sáttarinnar birt. Í 11. gr. sáttarinnar er fjallað sérstaklega um skipun eftirlitsnefndarinnar. Segir þar m.a. að Íslandspóstur skuli skipa eftirlitsnefnd um framkvæmd sáttarinnar og skuli hún skipuð þremur mönnum en þar af skuli tveir vera óháðir Íslandspósti. Formaður nefndarinnar skuli vera óháður. Þá skuli fulltrúi Íslandspósts vera skipaður af stjórn félagsins og skuli hann að jafnaði vera framkvæmdastjóri hjá Íslandspósti eða í sambærilegri stöðu. Íslandspóstur tilnefni nefndarmenn en bera skuli tilnefningu tveggja óháðra nefndarmanna undir Samkeppniseftirlitið til samþykktar eða synjunar. Íslandspósti skuli vera heimilt, að fengnu samþykki stofnunarinnar, að afturkalla umboð hvers nefndarmanns enda séu málefnalegar ástæður fyrir því.

2.

Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017 skal Íslandspóstur tryggja að starfrækt sé eftirlitsnefnd um framkvæmd sáttar Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins. Er það markmið nefndarinnar að sinna innra eftirliti fyrirtækisins og tryggja að starfsemi þess sé í samræmi við ákvæði sáttarinnar. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017, kemur skýrlega fram að eftirlitsnefndin teljist vera hluti af skipulagi Íslandspósts og er hún hluti af fyrirtækinu samkvæmt skipuriti sem birt var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Er starfsemi nefndarinnar kostuð af Íslandspósti. Með vísan til þessa er óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að eftirlitsnefndin sé hluti af lögaðilanum Íslandspósti. Af því leiðir að starfsemi nefndarinnar heyrir undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna. Er þá einnig til þess að líta að þrátt fyrir að nefndin lúti ekki boðvaldi stjórnar Íslandspósts hefur stjórnin úrræði á grundvelli ákvæða sáttarinnar til þess að bregðast við telji hún nefndina ekki sinna þeim skyldum sem á henni hvíla samkvæmt ákvæðum sáttarinnar, sbr. 11. gr. hennar, sem og þeim skyldum sem leiða af lögum, þ. á m. ákvæðum upplýsingalaga. Samkvæmt framangreindu er Íslandspósti því skylt að tryggja að tekin verði afstaða til þess á grundvelli upplýsingalaga hvort kærandi eigi rétt á aðgangi að fundargerðum eftirlitsnefndarinnar með sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts og beiðni Íslandspósts um sameiningu ePósts við móðurfélag sitt.

Fram kemur í umsögn eftirlitsnefndarinnar að svar nefndarinnar við beiðni Íslandspósts um sameiningu ePósts við móðurfélag sitt sé ekki fyrirliggjandi. Verður því að vísa kærunni frá hvað varðar þann kærulið.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Íslandspósts ohf. um að synja beiðni A, blaðamanns, um annars vegar aðgang að fundargerðum eftirlitsnefndar með sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts ohf. og hins vegar beiðni Íslandspósts ohf. um sameiningu ePósts ehf. við móðurfélag sitt, er felld úr gildi og lagt fyrir félagið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.

Kæru A, vegna synjunar Íslandspóst ohf. á beiðni um aðgang að svari eftirlitsnefndar um framkvæmd sáttar Íslandspóst ohf. og Samkeppniseftirlitsins við beiðni Íslandspósts ohf. um sameiningu ePósts ehf. við móðurfélag sitt, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir      Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira