Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Nr. 15/2019 - Úrskurður

Umgengni

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 15/2019

Föstudaginn 12. apríl 2019

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 11. janúar 2019 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 17. desember 2018 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er X ára stúlka sem lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Mál hennar hefur verið til vinnslu hjá Barnavernd B frá árinu X og hefur hún verið í umsjá núverandi fósturforeldra frá því í X.

Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms B í X og staðfesti Hæstiréttur þann dóm í X. Í upphafi fósturs var umgengni kæranda við stúlkuna aðra hvora helgi frá kl. X á föstudegi til kl. X á sunnudegi. Árið X var umgengni  einn laugardag í mánuði en í X neitaði stúlkan að eiga umgengni við kæranda. Með úrskurði barnaverndarnefndarinnar X var ákveðið að kærandi hefði enga umgengni við stúlkuna en að málið yrði tekið upp að ári liðnu.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það sé mat barnaverndarnefndarinnar að það þjóni ekki hagsmunum stúlkunnar að koma á umgengni, auk þess sem mikilvægt sé að koma til móts við sjónarmið stúlkunnar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B kveður á um enga umgengni A við D.“

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að ákvörðun um umgengni kæranda við dóttur sína verði frestað. Kærandi krefst þess til vara að umgengni verði ákveðin að lágmarki 8 sinnum á ári, í tvo klukkutíma í senn.

Kærandi telur ekki sérstaka ástæðu til þess að reifa ítarlega málavexti umfram það sem kemur fram í hinum kærða úrskurði að öðru leyti en því sem nauðsynlegt sé til rökstuðnings málsástæðna hér að neðan. Í stuttu máli varði málið umgengni kæranda við X ára gamla dóttur sína sem sé í varanlegu fóstri hjá E og F. Stúlkan hafi verið í umsjá fósturforeldra frá því í X.

Umgengni hafi í gegnum tíðina verið fremur tíð, mikil samskipti hafi verið á milli mæðgnanna í síma, á milli þess sem umgengni hafi farið fram, og séu mikil og sterk tengsl á milli þeirra. Skyndilega í X hafi þó umgengni verið stöðvuð, án þess að kærandi hafi nokkuð af sér gert. Þann X hafi Barnaverndarnefnd B úrskurðað um að engin umgengni skyldi vera á milli mæðgnanna í eitt ár. Ákvörðun um að stöðva umgengni hafi verið reist á óskum dóttur kæranda en kærandi telji þessa breytingu á afstöðu dóttur sinnar gagnvart umgengni við sig megi rekja til þess að viðhorf fósturforeldra og ósannindi um sig hafi verið borin í stúlkuna. Það hafi litað viðhorf stúlkunnar gagnvart sér, en stúlkan hafi skyndilega farið úr því að vera hænd að móður sinni yfir í að vera hrædd við hana og viljað stöðva umgengni. Starfsmenn Barnaverndar B hafi lagt til við Barnaverndarnefnd B að stúlkan hefði enga umgengni við kæranda í eitt ár í viðbót. Þann 17. desember 2018 kvað Barnaverndarnefnd B upp úrskurð í samræmi við tillögu Barnaverndar B, þ.e. að kærandi hefði enga umgengni við dóttur sína.

Við úrlausn þessa máls verði, líkt og endranær í barnaverndarmálum, að hafa það að leiðarljósi sem sé stúlkunni fyrir bestu en samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni sé fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir og dómstólar geri ráðstafanir sem varði börn. Einnig skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga (bvl.).

Við kæranda og dóttur hennar blasi við mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem feli í sér verulegt inngrip í réttindi þeirra beggja, auk þess að hafa mjög viðurhlutamikil áhrif á líf stúlkunnar. Kærandi telji af þeim ástæðum sem raktar verða að málsmeðferð barnaverndar við undirbúning tillögu sinnar hafi verið ófullnægjandi, að umrædd tillaga hafi gengið gegn sameiginlegum hagsmunum kæranda og dóttur hennar og það sé henni fyrir bestu að hafa reglulega umgengni við kæranda.

Réttur til umgengni

Það sé meginregla barnalaga og laga um vernd barna og ungmenna að foreldrum beri réttur til umgengni við börn sín og að sá réttur sé óháður því hvort foreldri fari með forsjá barns eða hvar barn dveljist. Þessi réttur njóti verndar alþjóðlegra mannréttindasáttmála, en umgengisréttur foreldris sé varinn af 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994, en 8. gr. fjalli um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Að sama skapi sé umgengisréttur varinn af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem mæli fyrir um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þessi réttur sé einnig tryggður í Barnasáttmálanum sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 18/1992, en í 3. mgr. 9. gr. sáttmálans sé mælt fyrir um að aðildarríki skuli virða rétt barns sem skilið hafi verið frá foreldri til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við foreldri með reglubundnum hætti. Loks séu þessi réttindi lögfest í 74. gr. bvl. en samkvæmt 1. mgr. lagaákvæðisins á barn í fóstri rétt á umgengni við foreldra sína. Samkvæmt 2. mgr. lagaákvæðisins eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri. Réttur barns í fóstri og foreldris til umgengni við barn sitt sé ríkur, enda verði almennt að telja að hagsmunir barns standi til þess að vera í umgengni við foreldri sitt og þekkja þannig uppruna sinn og sín nánustu skyldmenni. Í frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segi um 2. mgr. 74. gr. að atviksbundið mat fari fram á tíðni og tilhögun umgengni við barn í fóstri og þurfi sterk rök að vera fyrir því að hafna umgengni með öllu.

Kærandi telji að með hinum kærða úrskurði hafi verið gengið þvert á framangreind réttindi þeirra mæðgna. Kærandi telji að í þessu máli séu ekki nægilega sterk rök fyrir hendi til þess að stöðva umgengni með öllu. Í þessu sambandi vísi kærandi til þess að þegar stúlkan hafi farið  í fóstur hafi hún verið orðin tiltölulega stálpuð og hafi búið hjá sér alla tíð. Þær mæðgur hafi verið nánar og ríkt mikil og sterk tengsl þeirra á milli. Fyrstu ár stúlkunnar í fóstri hafi umgengni verið regluleg og tíð samskipti þeirra á milli. Einnig sé kærandi í dag á góðum stað, hún sé í góðu andlegu jafnvægi og neyti til að mynda ekki fíkniefna. Verði vart séð að svo brýnar aðstæður séu fyrir hendi í málinu að réttlætanlegt geti talist að stöðva umgengni áfram með öllu. Kærandi telji að heimild til þess að stöðva umgengni verði að túlka þröngt og áréttar að það sé barnaverndar að sýna fram á að svo brýnar aðstæður séu fyrir hendi sem réttlæti algjöra stöðvun á umgengi. Að mati kæranda hafi slík sönnun ekki tekist, enda séu slíkar aðstæður ekki fyrir hendi í máli þessu.

Vilji barns og tengsl

Það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns, eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46., gr. og 2. mgr. 64. gr. a bvl. Þó sé ljóst af framkvæmd að vilji barns sé ekki eina sjónarmiðið sem máli skipti þegar ákvörðun sé tekin um atriði er varði barnið og að ávallt verði að framkvæma heildstætt mat þar sem tekið sé tillit til aðstæðna í hverju máli í heild sinni. Þá sé jafnframt ljóst af framkvæmd að ef vilji barns stangast á við það sem sé barninu fyrir bestu þá víki vilji barnsins fyrir því sem teljist vera barninu fyrir bestu. Einnig  hafi tengsl barns við foreldri almennt umtalsvert vægi við úrlausn barnaverndarmáls.

Dóttir kæranda hafi stærstan hluta ævi sinnar verið í hennar forsjá og frá því að stúlkan fór í fóstur hafi hún lengst framan af verið í miklum samskiptum við kæranda. Vegna þessa séu tengsl þeirra á milli bæði djúp og sterk, þrátt fyrir að tengsl þeirra hafi vitanlega dvínað nokkuð síðastliðið ár vegna stöðvunar á umgengni. Kærandi telji nauðsynlegt að þessi tengsl þeirra mæðgna séu höfð að leiðarljósi við úrlausn þessa máls.

Í fyrirliggjandi skýrslu talsmanns stúlkunnar komi fram að vilji dóttur kæranda standi til þess að umgengni verði stöðvuð í eitt ár. Raunar virðist tillaga Barnaverndar B að meginstefnu byggð á þessum óskum dóttur kæranda. Kærandi telji varhugavert að láta stúlkuna, sem sé ung að aldri, taka svo afdrifaríka ákvörðun sem sé til þess fallin að hafa umfangsmikil áhrif á hagsmuni stúlkunnar til framtíðar. Annars vegar telji kærandi að ekki sé um raunverulegan vilja stúlkunnar að ræða og hins vegar telji kærandi að í máli þessu hafi einu viðtali barnsins við lögfræðing, sem að því er virðist hafi enga sérþekkingu í málum af þessu tagi, verið veitt of mikið vægi. Þá telji kærandi brýnt að ákvörðunin sé ekki byggð einvörðungu á meintum vilja stúlkunnar um að stöðva umgengni þar sem hún telji hann andstæðan hagsmunum hennar. Í því sambandi vísar kærandi meðal annars til þess að það tengslarof sem hljótist af áframhaldandi stöðvun á umgengni geti verið skaðlegt fyrir stúlkuna til lengri tíma litið og sé ekki til þess fallið að bæta hag hennar.

Málsmeðferð barnaverndar

Kærandi telji að í málinu sé ýmislegt að athuga við málsmeðferð barnaverndar, en helst beri að nefna að kærandi telji að andmælaréttur og réttur hennar til aðgangs að gögnum hafi verið að engu hafður í málinu. Þá telji kærandi jafnframt að barnavernd hafi ekki gætt meðalhófs og að barnavernd hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Kærandi telji að af þeim annmörkum sem voru á meðferð málsins hjá barnavernd leiði að fella eigi úr gildi úrskurð Barnaverndar B um stöðvun á umgengni. Kærandi telji jafnframt rétt að taka fram að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem málsmeðferð Barnaverndarnefndar B sé ábótavant í umgengismáli gagnvart kæranda en hún hafi kvartað vegna þessa til Barnaverndarstofu þann X og þann X hafi legið fyrir ábendingar Barnaverndarstofu. Af álitinu megi í fyrsta lagi leiða að Barnaverndarnefnd B hafi ekki virt lögbundnar málsmeðferðarreglur við þá ákvörðun um stöðvun á umgengni sem þar hafi verið til skoðunar. Í álitinu sé í öðru lagi áréttað að réttur til umgengni sé varinn af 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum, og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og að sterk rök þurfi að vera til grundvallar ákvörðun um algjöra stöðvun á umgengni. Þá megi í þriðja lagi sjá af ábendingum mikilvægi þess að lögbundnar málsmeðferðarreglur séu virtar við ákvörðun um stöðvun á umgengni, ekki síst andmælaréttur.

Andmælaréttur og réttur til aðgangs að gögnum

Samkvæmt 45. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Samkvæmt 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig um mál en það sé forsenda þess að einstaklingar geti nýtt andmælarétt sinn að þeir hafi fengið að kynna sér gögn með fullnægjandi hætti.

Kærandi hafi fengið gögn málsins afhent aðeins nokkrum dögum áður en taka hafi átt málið fyrir hjá barnaverndarnefnd. Þessi dráttur á að afla viðeigandi gagna og að veita kæranda aðgang að þeim sé óútskýrður, enda hafi legið fyrir lengi að taka yrði á ný ákvörðun um umgengni og hefði barnavernd verið í lófa lagið að hlutast til um að afla gagna málsins fyrr. Kærandi telji því að hún hafi fengið gögn málsins afhent of skömmu áður en málið hafi verið  tekið fyrir hjá BarnaverndarnefndB. Þá hafi kærandi ekki átt kost á því að koma fram athugasemdum við einstaka gögn málsins. Framangreint hafi leitt til þess að andmælaréttur kæranda hafi að engu verið hafður þar sem hún hefði haft of skamman tíma til þess að kynna sér gögn málsins, undirbúa svör sín og til þess að afla nýrra gagna sem þýðingu gætu haft fyrir úrlausn málsins.

Þar sem skortur á að virða andmælarétt valdi því almennt að ákvörðun verði ógildanleg, telji kærandi að ógilda eigi úrskurð Barnaverndarnefndar B af þessum sökum og jafnframt að fresta skuli ákvörðun um umgengni þar til bætt hafi verið úr framangreindum ágöllum á meðferð málsins til þess að hægt sé að tryggja að barnaverndarnefnd taki upplýsta ákvörðun í málinu þegar málið verði tekið fyrir á ný.

Rannsóknarskylda

Kærandi telur einnig að barnavernd hafi ekki virt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 41. gr. bvl., 1. mgr. 56. gr. sömu laga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Það blasi við að þau gögn sem lögð hafi verið fram af hálfu barnaverndar í máli þessu séu afar fá. Verði það að teljast ámælisvert í ljósi þess hversu íþyngjandi tillaga barnaverndar sé fyrir kæranda, ekki síst vegna þess að barnavernd beri að sýna fram á að atvik málsins séu með þeim hætti að brýnt sé að stöðva umgengni með öllu. Kærandi telji að barnavernd hefði mátt hlutast betur til um að kanna atvik málsins. Í því sambandi telji kærandi að barnavernd hefði meðal annars átt að kanna orsök þeirrar viðhorfsbreytingar sem hafi orðið hjá dóttur hennar varðandi umgengni við móður sína í því skyni að ganga úr skugga um hvort um væri að ræða raunverulegan vilja stúlkunnar og jafnframt að kanna betur hvaða áhrif stöðvun á umgengni til eins árs í viðbót hafi á hagsmuni stúlkunnar. Helst telji kærandi þó ámælisvert að barnavernd hafi ekki rannsakað með fullnægjandi hætti stöðu hennar og hagi, enda hljóti staða hennar að eiga að vega þungt við mat á því hvort umgengni dóttur hennar við sig sé bersýnilega andstæð hagsmunum stúlkunnar. Einnig virðist staða og hagir barnsins ekki að neinu marki hafa verið rannsökuð, svo sem með því að afla upplýsinga frá umsjónarkennara eða öðrum starfsmönnum skóla, en gera megi ráð fyrir að stúlkan gæti hafa tjáð sig við slíka aðila um vilja sinn til umgengni.

Meðalhóf

Loks telji kærandi tillögu barnaverndar brjóta í bága við meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en af ákvæðunum leiði að tillagan verði að vera til þess fallin að ná því markmiði sem stefnt sé að, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi. Kærandi telji sem dæmi að það myndi samræmast betur meðalhófssjónarmiðum að heimila umgengni til reynslu, til dæmis í eitt skipti undir eftirliti, að stöðva umgengni í skemmri tíma eða að heimila sjaldan umgengni á meðan fylgst sé með hvaða áhrif umgengnin hafi á hagsmuni dóttur kæranda og væri þá eftir atvikum hægt að auka umgengnina jafnt og þétt eða minnka hana/stöðva. Kærandi telji jafnframt samræmast betur sjónarmiðum um meðalhóf ef fallist hefði verið á með henni að ræða við dóttur hennar áður en ákvörðun væri tekin um umgengni.

Kærandi telji að í máli þessu verði að hafa sameiginlega hagsmuni hennar og dóttur hennar að leiðarljósi. Kærandi telji rétta málsmeðferð í máli þessu vera að veita henni hjálparhönd til að endurvekja og viðhalda tengslum á milli hennar og dóttur hennar.  Kærandi telji að vinna þurfi ötullega í málefnum þeirra beggja í því augnamiði. Kærandi telji jafnframt að ekki sé hægt að taka ákvörðun um slík grundvallarréttindi hennar og dóttur hennar í framhjáhlaupi og að nauðsynlegt sé að gætt sé að framangreindum málsmeðferðarreglum við ákvörðun á tillögu um umgengni. Annað leiði til hættu á því að ákvörðun sé tekin á röngum grundvelli þar sem málið sé ekki fyllilega upplýst og kærandi hafði ekki raunhæfan kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með fullnægjandi hætti. Þetta sé sérstaklega mikilvægt þar sem grundvallarréttindi kæranda og dóttur hennar til umgengni séu í húfi í máli þessu og sé ákvörðun um umgengni til þess fallin að hafa mikil áhrif á framtíðarhagsmuni stúlkunnar. Mikilvægt sé að gæta að því að málsmeðferð sé vönduð og því telji kærandi rétt að úrskurður Barnaverndarnefndar B um stöðvun á umgengni verði hrundið og að ákvörðun umgengni verði frestað til þess að hægt sé að gæta þess að málsmeðferð sé fullnægjandi og að ekki sé brotið á réttindum kæranda við töku svo mikilsverðar ákvörðunar.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð barnaverndarnefndar, dags. 7. febrúar 2019, kemur fram að því sé mótmælt sem fram komi í greinargerð barnaverndarnefndar um að kærandi hafi fengið gögn málsins afhent með góðum fyrirvara en raunar hafi kærandi fengið gögn málsins afhent aðeins örfáum dögum áður en málið hafi verið tekið fyrir af barnaverndarnefnd. Það hafi leitt til að kærandi hafi ekki haft nægan tíma til þess að gera athugasemdir við einstaka gögn málsins, sem hefði getað leitt til þess að barnavernd hefði getað tekið athugasemdir kæranda til greina og eftir atvikum aflað nýrra gagna, ef athugasemdir kæranda hefðu gefið tilefni tl þess. Jafnframt leiddi þetta til þess að verulega hafi verið dregið úr möguleikum kæranda til þess að afla þeirra gagna sjálf sem hún teldi nauðsynleg málstað sínum til framdráttar, enda hafi hún ekki vitað hvaða gagna væri þörf fyrr en hún hafi fengið upplýsingar um þau gögn sem barnavernd hugðist leggja fyrir fund barnaverndarnefndar. Kærandi telji engu máli skipta við mat á því hvort andmælaréttur sinn hafi verið brotinn við meðferð málsins að lögmaður sinn hafi brugðist hratt við og ritað greinargerð út frá þeim gögnum sem afhent hafi verið til þess að leggja fyrir fund nefndarinnar.

Kærandi mótmæli staðhæfingu í greinargerð barnaverndarnefndar um að öll nauðsynleg gögn hafi legið fyrir á fundinum. Á fundinum hafi verið tekin ákvörðun um að stöðva umgengni með öllu en slíkt sé ekki heimilt nema fyrir hendi séu svo brýnar aðstæður að umgengni sé andstæð hagsmunum barnsins og ber barnaverndarnefnd sönnunarbyrði fyrir því að atvik séu með þeim hætti. Kærandi telji að ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu með rökstuddum hætti að svo brýnar aðstæður séu fyrir hendi að umgengni stúlkunnar við sig teljist andstæð högum hennar, án þess að framkvæmd sé könnun á hennar högum. Hefði barnavernd því verið rétt að kanna aðstæður hennar og hagi við mat á því hvort slíkar brýnar aðstæður væru til staðar. Þá hafi ekki legið fyrir upplýsingar frá umsjónarkennara eða starfsmönnum skóla og tómstunda stúlkunnar til þess að ganga úr skugga um að staðhæfingar í talsmannsskýrslu um að stúlkunni gengi betur og að líðan hennar væri betri eftir að umgengni hafi verið stöðvuð væri á rökum reistar. Því hafi hvorki verið til staðar fullnægjandi gögn um aðstæður kæranda né um hagi stúlkunnar og sé því vandséð hvernig hægt sé að rökstyðja að svo brýnar aðstæður séu til staðar sem réttlæti stöðvun á umgengni. Ítrekar kærandi því að rannsóknarskylda hafi verið brotin við meðferð þessa máls.

Í greinargerð barnaverndarnefndar sé vísað til þess að það sé grundvallaratriði í barnaverndarmálum að taka beri tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé. Kærandi telji að þótt rétt sé að líta verði til vilja barns í málum sem þessu þá sé það einungis eitt af þeim sjónarmiðum sem líta beri til en ekki það eina sem eigi að ráða niðurstöðu máls. Fjölmörg önnur sjónarmið komi til álita, til dæmis hagsmunir barnsins, réttur kæranda til umgengni, aðstæður beggja og svo framvegis. Kærandi ítreki því sjónarmið sín um að vilja barnsins hafi verið veitt of mikið vægi við úrlausn málsins. Þá telji kærandi jafnframt að ef veita eigi vilja stúlkunnar svo mikið vægi, sem raunin hafi verið í máli þessu, að nauðsynlegt hefði verið að láta sérfræðing í málefnum barna kanna vilja stúlkunnar, ásamt því að afla frekari gagna um hagi hennar, til þess að geta gengið úr skugga um að um raunverulegan vilja stúlkunnar væri að ræða og að vilji hennar samræmdist hagsmunum hennar. Vegna framangreinds telji kærandi að vilja stúlkunnar samkvæmt talsmannsskýrslu hafi verið veitt of mikið vægi við úrlausn þessa máls.

Loks árétti kærandi að réttur foreldra til umgengni við börn sín sé óháður því hvort foreldrið fari með forsjá barnsins eða hvar barnið dveljist. Um sé að ræða grundvallarrétt sem reistur sé á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi verið lögfestur með lögum nr. 62/1994, 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmálans sem hafi verið lögfestur með lögum nr. [19/2013] og á 74. gr. bvl. Kærandi árétti að heimild til takmarkana á réttinum verði að skoða í ljósi þess að um slík grundvallarréttindi sé að ræða. Það sé jafnframt ljóst af athugasemdum við 2. mgr. 74. gr. bvl. í frumvarpi til laganna að undantekningar á þessum rétti verði að túlka þröngt og að sterk rök þurfi að vera fyrir því að stöðva umgengni með öllu. Kærandi telji að í máli þessu hafi barnaverndarnefnd ekki sýnt fram á að slík rök séu fyrir hendi og að allan vafa um það hvort aðstæður séu svo brýnar verði að túlka sér í hag.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar er þess krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti hinn kærða úrskurð sem kveði á um enga umgengni kæranda við dóttur sína, D. Á því sé byggt að hinn kærði úrskurður sé réttmætur að öllu leyti og málið hafi fengið lögformlega málsmeðferð.

Um sé að ræða mál X ára stúlku sem lúti forsjá nefndarinnar. Stúlkan hafi verið í reglulegri umgengni við kæranda frá því að hún fór í fóstur á árinu X. Frá árinu X hafi hún verið í varanlegu fóstri hjá E og F. 

Í X hafi stúlkan lýst sig andsnúna umgengni við kæranda og hafi óskað þess að umgengni yrði stöðvuð tímabundið og endurskoðuð ári síðar. Þann 11. desember 2017 hafi málið verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndarinnar og kveðinn upp úrskurður um að engin umgengni yrði og að málið yrði tekið upp að ári liðnu.

Í samræmi við framangreint hafi málið verið tekið upp að nýju í desember 2018. Í greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndarinnar, dags. 10. desember 2018, séu atvik málsins reifuð og meðal annars vísað til þeirrar afstöðu barnsins að hún vilji ekki umgengni við kæranda að svo stöddu þar sem hún teldi mikilvægt að huga að eigin líðan og halda sér í jafnvægi í stað þess að þóknast kæranda. Þá komi fram að fósturforeldrar styðji ákvörðun barnsins og telji mikilvægt að hlustað sé á barnið. Í greinargerðinni sé lagt til að engin umgengni verði í eitt ár. Úrskurður barnaverndarnefndarinnar hafi verið kveðinn upp þann 17. desember 2018. Í úrskurðarorði komi fram að engin umgengni skuli vera á milli kæranda og barnsins.

Barnaverndarnefndin hafni því að andmælaréttur hafi verið brotinn á kæranda við meðferð málsins. Í 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga komi fram að barnaverndarnefnd skuli með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varði og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Í 1. mgr. 47. gr. laganna komi svo fram að aðilar barnaverndarmáls skuli eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lúti að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveði upp úrskurð. Framangreindum áskilnaði hafi verið mætt af hálfu barnaverndarnefndarinnar. Kærandi og lögmaður hennar hafi fengið gögn málsins afhent með góðum fyrirvara fyrir fund kærða, lögmaðurinn hafi skilað ítarlegri skriflegri greinargerð fyrir fund nefndarinnar og átti þess kost að tjá sig munnlega um efni málsins á fundi nefndarinnar. Andmælaréttar kæranda hafi því verið gætt í hvívetna við meðferð málsins hjá barnaverndarnefndinni.

Samkvæmt 41. gr. barnaverndarlaga skuli barnaverndarnefnd sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Það sé rangt sem fram komi í kærunni að kærði hafi tekið hina umdeildu ákvörðun á röngum forsendum og að illa rannsökuðu máli. Hið rétta sé að mál dóttur kæranda hafi verið í vinnslu hjá barnaverndarnefndinni frá árinu X og mikill fjöldi gagna hafi legið fyrir vegna málsins. Frá því að stúlkan fór í fóstur hafi reglulega farið fram mat á umgengni kæranda við dóttur sína, meðal annars í samráði við dóttur kæranda, fósturforeldra hennar sem og kæranda og móður hennar. Fyrir fund kærða hafi öll nauðsynleg gögn legið fyrir þannig að unnt væri að taka afstöðu áður en ákvörðunin hafi verið tekin, þ.m.t. greinargerð kæranda, greinargerð starfsmanns kærða, greinargerð talsmanns barnsins og bréf skólastjóra G, dags. 26. nóvember 2018.

Af hálfu barnaverndarnefndarinnar sé á því byggt að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið dóttur kæranda fyrir bestu, með hagsmuni kæranda og dóttur hennar í huga, sbr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefndin hafi byggt á því að það þjóni hagsmunum dóttur kæranda best að umgengni hennar við kæranda verði engin líkt og ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Í því samhengi vísist til forsendna hins kærða úrskurðar sem tekið sé undir að öllu leyti.

Þá byggi barnaverndarnefndin á því að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Líkt og áður greini hafi verið regluleg umgengni á milli mæðgnanna frá því að barnið fór í fóstur. Nauðsynlegt hafi reynst í gegnum árin að takmarka umgengni þar sem hún samræmdist ekki hagsmunum og vilja barnsins. Nú sé svo komið að barnaverndarnefndin telji að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Önnur tilhögun umgengni sé fullreynd eins og sakir standi og af þeirri ástæðu hafi barnaverndarnefndin tekið þá ákvörðun að umgengni yrði engin.

Þá sé rétt að nefna í þessu sambandi að grundvallaratriði í barnaverndarmálum sé að taka beri tillit til vilja barns eftir því sem unnt sé, sbr. 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 63. gr. a. bvl. Í því skyni að kanna afstöðu barnsins hafi henni því verið skipaður talsmaður X. Í skýrslunni hafi meðal annars komið fram að barnið sé X ára stúlka sem dvalið hafi hjá sömu fósturfjölskyldu frá því að úrræðið vistun utan heimilis hafi komið til framkvæmda. Í viðtali talsmannsins við stúlkuna komi fram að hún vildi óbreytt ástand áfram í að minnsta kosti eitt ár til viðbótar, þ.e. enga umgengni við móður. Henni gengi vel í skóla og í [...]. Samskiptin á fósturheimilinu væru góð og þar væri mikil samheldni og góð regla. Þá komi fram að hún hugleiddi oft hvort hún ætti að sækjast eftir því að verða ættleidd inn í fósturfjölskylduna. Einnig komi fram hjá stúlkunni að móðir hafi valdið miklu ónæði í lífi hennar, við fósturheimilið, við skóla hennar, við [...] og jafnvel bara þegar hún væri á ferðinni um B. Þá nefni stúlkan að hún hafi átt gott ár og það væri hennar mat að sú afstaða hennar að hafna allri umgengni við móður hafi átt sinn þátt í því. Hún væri því þeirrar skoðunar að það væri henni fyrir bestu að það ástand héldi áfram en hún vildi alls ekki útiloka umgengni við móður sína til framtíðar.

Af skýrslu talsmannsins sé ljóst að þau viðhorf sem þar birtast séu eindreginn vilji barnsins. Barnaverndarnefnd mótmæli alfarið þeirri staðhæfingu sem fram komi í kæru að ekki sé um raunverulegan vilja stúlkunnar að ræða heldur megi afstöðu hennar rekja til viðhorfa fósturforeldra og að þau hafi borið ósannandi um kæranda í stúlkuna sem hafi litað viðhorf hennar gagnvart kæranda. Athyglisvert sé að þau rök sem kærandi tefli fram og telji skýra afstöðu stúlkunnar séu einmitt atriði sem stúlkan nefni sérstaklega og segir að valdi henni mikilli vanlíðan og særi hana, þ.e. að móðir tali illa um fósturfjölskylduna. Af hálfu barnaverndarnefndar sé á því byggt að engin rök standi til annars en að taka beri fullt tillit til afdráttarlauss vilja barnsins, sér í lagi í ljósi aldurs stúlkunnar sem sé X.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga eigi barn í fóstri rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Í 2. málsl. 4. mgr. ákvæðisins sé tekið fram að ef sérstök atvik valdi því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum geti nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar.

Barnaverndarnefndin telji að umgengni kæranda við dóttur sína sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum þeirrar síðarnefndu. Þau sérstöku atvik sem uppi séu í þessu máli valdi því að hag stúlkunnar sé best borgið með því að engin umgengni verði við móður. Í þessu sambandi sé ítrekað að stúlkan upplifi sjálf að hennar hag sé best borgið án umgengni við kæranda. Hana langar til að byggja ofan á góðan árangur síðasta árs sem stúlkan reki að miklu leyti til þess að umgengni hafi ekki verið fyrir hendi síðasta árið. Ekki verði heldur fram hjá því litið að stúlkan greini frá því að umgengni hafi valdið miklu ónæði í lífi hennar og að hún og aðrir í kringum hana hafi þurft að þola margs konar áreiti af hálfu kæranda. Undir þeim kringumstæðum sem lýst hafi verið telji kærði að fyrir hendi séu sérstök atvik í skilningi 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, sem valdi því að umgengni sé andstæð hag og þörfum stúlkunnar.

Kærandi krefjist þess til vara að umgengni verði ákveðin að lágmarki átta sinnum á ári, í tvo klukkutíma í senn. Í kærunni sé ekki að finna rökstuðning fyrir þessari kröfu. Af hálfu barnaverndarnefndarinnar sé vísað til þess sem að framan er rakið að breyttu breytanda. Líkt og þar komi fram samrýmist það ekki hagsmunum barnsins á þessum tímapunkti að vera í umgengni við móður. Barnaverndarnefndin telji ekki ástæða til að fara gegn eindregnum vilja stúlkunnar sem vilji fá tækifæri að byggja ofan á góðan árangur sinn, en óski þess jafnframt að kærandi nýti þann tíma þegar engin umgengni er til að ná betri tökum á lífi sínu.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B, dags. 4. mars 2019, vegna athugasemda kæranda við greinargerð barnaverndarnefndarinnar, dags. 23. janúar 2019, segir að nefndin hafni þeirri málsástæðu kæranda að andmælaréttur hafi verið brotinn á henni við meðferð málsins. Greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndarinnar, ásamt fylgiskjölum og fundarboði, hafi verið send til lögmanns kæranda þann 12. desember 2018 og fundur nefndarinnar hafi verið haldinn þann 17. desember 2018. Af hálfu barnaverndarnefndarinnar sé á því byggt að gögnin hafi verið afhent með nægilegum fyrirvara. Lögmaður kæranda hafi í framhaldinu skilað ítarlegri greinargerð fyrir fundinn og átti þess kost að tjá sig munnlega um efni málsins á fundi nefndarinnar. Fyrirmælum 1. mgr. 45. og 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaganna hafi því verið gætt í hvívetna við meðferð málsins hjá kærða.

Barnaverndarnefndin ítrekar að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið  tekin í málinu. Fyrir fund nefndarinnar hafi legið öll nauðsynleg gögn þannig að unnt væri að taka afstöðu áður en ákvörðunin var tekin, þ.m.t. greinargerð kæranda, greinargerð starfsmanns kærða og greinargerð talsmanns barnsins. Að gefnu tilefni sé rétt að taka sérstaklega fram að fyrir fundinum hafi legið bréf skólastjóra G, dags. 26. nóvember 2018, sem fylgt hafi hjálagt með greinargerð kærða, dags. 23. janúar 2019. Það sé því ekki rétt sem fram komi í athugasemdum kæranda að ekki hafi legið fyrir upplýsingar frá umsjónarkennara eða starfsmönnum skóla stúlkunnar til að ganga úr skugga um að staðhæfingar í talsmannsskýrslu um að stúlkunni gengi betur og líðan hennar væri betri eftir að umgengni var stöðvuð væri á rökum reistar. Hið rétta sé að slíkar upplýsingar hafi sannarlega legið fyrir fundinum og þær upplýsingar hafi stutt það sem fram komi í skýrslu talsmanns stúlkunnar.

Barnaverndarnefndin hafnar því að vilja barnsins hafi verið veitt of mikið vægi við úrlausn málsins, líkt og það sé orðað í athugasemdum kæranda. Í því sambandi sé rétt að árétta að vilji barnsins hafi aðeins verið eitt af þeim atriðum sem litið hafi verið til við úrlausn málsins af hálfu nefndarinnar. Rétt sé þó að ítreka að í þessu máli hafði vilji barnsins töluvert mikið vægi við matið, enda hafi hann verið afdráttarlaus auk þess sem stúlkan sé X. Engin rök standi til annars að mati kærða en að tekið verði tillit til vilja hennar við úrlausn málsins.

Að lokum telji barnaverndarnefndin rétt að árétta að það þjóni hagsmunum dóttur kæranda best að umgengni hennar við kæranda verði engin líkt og ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Í því samhengi sé vísað til forsendna hins kærða úrskurðar sem tekið sé undir að öllu leyti og greinargerðar kærða til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. janúar 2019.

 

IV.  Sjónarmið fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 26. mars 2019 kemur fram að þau virði óskir stúlkunnar sem sé X ára og kjósi að umgangast móður sína ekki að svo stöddu. Stúlkan hafi alfarið fengið að ráða þeirri ákvörðun sjálf.

V. Sjónarmið D

Stúlkunni var skipaður talsmaður þann X. Í skýrslu talsmanns kemur fram að stúlkan hafi dvalið hjá fósturfjölskyldu frá því að úrræðið vistun utan heimilis hafi komið til framkvæmda. Um sé að ræða E, F og X [börn] þeirra. Stúlkan hafi [...] notið [...] tengsla við móðurfjölskyldu en tengsl við föðurfjölskyldu hafi alla tíð verið lítil.

Um líðan á fósturheimili kveðst stúlkan vera í góðu jafnvægi. Henni gangi vel í skóla og íþróttum auk þess að vera í góðu sambandi við íþrótta- og skólafélaga. Þá væru samskipti á fósturheimilinu góð, samheldni mikil og góð regla.

Í viðtali við talsmann kom fram að henni [...]. Vilji stúlkunnar væri óbreytt ástand í að minnsta kosti eitt ár til viðbótar, þ.e. engin umgengni við kæranda. Stúlkan kvað móður sína hafa í gegnum tíðina valdið henni miklu ónæði [...].

Stúlkan hafi átt gott ár og það væri hennar mat að sú afstaða hennar að hafna allri umgengni við móður sína hafi átt sinn þátt í því. Hún væri því þeirrar skoðunar að það væri henni fyrir bestu að það ástand héldi áfram en hún vildi alls ekki útiloka umgengni við móður sína til allrar framtíðar.

Að mati talsmanns hefði stúlkan umtalsverða innsýn í málefnið, samskipti móður og barns sem aðskilin hafi verið vegna [...]. Stúlkan hafi verið afdráttarlaus um hverjar hennar óskir væru en tilbúin til að skoða allar hliðar málsins. Stúlkan kvaðst telja að henni sjálfri væri best borgið án umgengni við móður næsta árið eða svo og hana langaði til að byggja ofan á góðan árangur síðasta árs.

 

VI.  Niðurstaða

D er fædd X. Hún hefur verið hjá sömu fósturforeldrum frá árinu X.

Með hinum kærða úrskurði frá 17. desember 2018 var ákveðið að kærandi hefði enga umgengni við stúlkuna. Í úrskurðinum er byggt á því að stúlkan hafi verið í fóstri í X ár og á þeim tíma hafi hún verið í reglulegri umgengni við kæranda. Á þessum tíma hafi barnaverndarnefnd þurft að gæta hagsmuna og velferðar stúlkunnar með því að takmarka umgengni kæranda við hana. Engin umgengni hafi verið við kæranda frá X og hafi stúlkan greint talsmanni sínum frá því að hagsmunum hennar væri best borgið með engri umgengni við kæranda. Hún vilji halda áfram að byggja ofan á þann góða árangur sem náðst hafi er varði líðan og stöðugleika. Stúlkan telji sig búa við góðar aðstæður á fósturheimilinu og hafi myndað góð tengsl við fósturfjölskylduna. Samskipti stúlkunnar við kæranda hafi aftur á móti valdið ónæði í lífi hennar og hennar nærumhverfi.

Kærandi telur að ekki séu nægilega sterk rök fyrir því að stöðva umgengni með öllu. Stúlkan hafi farið í fóstur tiltölulega stálpuð og hafi búið hjá sér alla tíð. Þær mæðgur hafi verið nánar og sterk tengsl verið á milli þeirra. Kærandi telji að stúlkan eigi rétt á umgengni og vísar meðal annars í því sambandi til 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar. Hún álítur að barnaverndarnefnd hafi ekki virt andmælarétt og rétt kæranda til aðgangs að gögnum málsins. Þá telji kærandi að barnaverndarnefnd hafi ekki gætt meðalhófs og ekki sinnt rannsóknarskyldu með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Þá er rannsóknarreglu að finna í 1. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í 2. mgr. 41. gr. bvl. segir að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og henni skuli hraðað svo sem kostur er.

Kærandi telur að rannsaka hefði mátt málið betur, meðal annars hvað varðar orsök þeirrar viðhorfsbreytingar sem hafi orðið hjá dóttur hennar varðandi umgengni og kanna hvort um raunverulegan vilja stúlkunnar væri að ræða. Þá telur kærandi að rannsaka hefði mátt betur hvaða áhrif stöðvun á umgengni til eins árs til viðbótar hefði á hagsmuni stúlkunnar. Þá telji kærandi ámælisvert að staða hennar og hagir hafi ekki verið rannsakaðir þar sem þeir hljóti að vega þungt við mat á því hvort umgengni sé andstæð hagsmunum dóttur hennar. Þá hafi staða og hagir barnsins ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti, svo sem með því að afla upplýsinga frá skóla þar sem gera megi ráð fyrir að stúlkan hafi tjáð sig um vilja sinn til umgengni.

Samkvæmt gögnum málsins var stúlkunni skipaður talsmaður í því skyni að ræða við hana og koma á framfæri sjónarmiðum hennar sem talsmaður stúlkunnar gerði með greinargerð sem úrskurðarnefndin telur fullnægjandi. Verður því ekki fallist á að barnaverndarnefnd hafi ekki rannsakað vilja stúlkunnar með fullnægjandi hætti. Engar vísbendingar koma fram í gögnum málsins sem gefa til kynna að ekki sé um raunverulegan vilja stúlkunnar að ræða líkt og kærandi hefur gefið í skyn. Þá verður ekki fallist á að barnaverndarnefndin hafi ekki aflað fullnægjandi gagna um stúlkuna að öðru leyti, svo sem um hagi hennar í skóla, enda liggja fyrir í málinu upplýsingar um stúlkuna sem barnaverndarnefndin aflaði frá skóla hennar.

Kærandi vísar til þess að barnaverndarnefnd hafi ekki með nægjanlegum fyrirvara látið henni gögn máls í té. Hún hafi fengið þau afhent einungis nokkrum dögum áður en málið hafi verið tekið fyrir hjá barnaverndarnefndinni og því ekki getað nýtt andmælarétt sinn með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þá er andmælareglu að finna í 1. mgr. 47. gr. bvl. þar sem fram kemur að aðilar barnaverndarmáls skulu eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Í 45. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Samkvæmt gögnum málsins var greinargerð barnaverndarstarfsmanns ásamt fylgiskjölum og fundarboði, afhent lögmanni kæranda 12. desember 2018. Fundur nefndarinnar var haldinn 17. desember 2018 og skilaði lögmaður þá greinargerð sinni. Úrskurðarnefndin telur að fjórir til fimm dagar hafi verið nægjanlegur fyrirvari fyrir kæranda til að bregðast við fyrirhugaðri ákvörðun barnaverndanefndarinnar, enda gögn málsins ekki slík að umfangi. Samkvæmt framangreindu hafði kærandi nægan fyrirvara til þess að bregðast við framkomnum gögnum þannig að andmælaréttar var gætt í málinu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 47. gr. bvl.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því að mati barnaverndarnefndar að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag þess og þörfum getur barnaverndarnefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Við úrlausn málsins verður því að meta hvort umgengni stúlkunnar við kæranda sé bersýnilega andstæð hagsmunum stúlkunnar og þörfum, sbr. 2. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt 46. gr. bvl. er barn sem náð hefur X ára aldri aðili barnaverndarmáls samkvæmt meðal annars 74. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 46. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Eins og þegar hefur komið fram hér að framan liggur fyrir í málinu að stúlkan hefur lýst þeirri eindreginni og staðfastri afstöðu sinni til þess að vilja enga umgengi hafa við kæranda um sinn. Stúlkan hefur sjálf fært rök fyrir þessari afstöðu sinni samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð talsmanns hennar. Hún hefur sagt að henni finnist kærandi hafa truflað sig og haft neikvæð áhrif á líf hennar með hegðan sinni. Hún treysti kæranda ekki og vilji fá að njóta þess jafnvægis og árangurs sem nú hafi náðst. Aldur og vitsmunalegur þroski stúlkunnar er nægur til þess að hún geti með réttu metið hvað henni er fyrir bestu. Úrskurðarnefndin telur að við þessar aðstæður væri það verulega og bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum stúlkunnar að þvinga hana til að hafa umgengni við kæranda. Af gögnum málsins verður ráðið að stúlkunni líði vel í fóstrinu og að þar njóti hún sín vel. Þá hefur einnig komið fram að henni hefur vegnað betur þegar engin umgengni hefur verið.

Úrskurðarnefndin telur að öllu þessu gættu nauðsynlegt að fella umgengni kæranda við stúlkuna alfarið niður að svo komnu máli með vísan til 2. og 4. mgr. 74. gr. bvl.  Réttur stúlkunnar til umgengni við kæranda samkvæmt 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, sem kærandi vísar til, er þar skilgreindur þannig að tryggja beri að barn verði ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveði samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins og að sú ákvörðun sé háð endurskoðun dómstóla. Þá segir þar enn fremur að aðildarríki skuli virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Samkvæmt þessu hefur réttur stúlkunnar verið virtur við úrlausn málsins. Með vísan til framangreinds og að fenginni þeirri niðurstöðu að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum stúlkunnar að hafa umgengni við kæranda telur úrskurðarnefndin að meðalhófsreglan hafi verið virt við úrlausn málsins.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að hafna kröfu kæranda um að hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og ber því að staðfesta hann.

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 17. desember 2018 varðandi umgengni A við dóttur sína, D, er staðfestur.

 

 

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal                                                  Sigríður Ingvarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira