Hoppa yfir valmynd

Nr. 96/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 96/2019

Miðvikudaginn 28. ágúst 2019

 

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 22. febrúar 2019, sem móttekið var 1. mars 2019, kærði C hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 4. febrúar 2019, um að fresta afgreiðslu á umgengni kæranda við börn sín.

Kærandi vísar til 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) varðandi kæruheimild en úrskurðarnefndin telur kæruheimild vera í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.

 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði Barnaverndarnefndar B X 2018 var umgengni kæranda við börn sín, D, og E, X í mánuði í tvo tíma í senn undir eftirliti þar til Landsréttur hefði kveðið upp dóm sinn um skipan forsjár yfir systkinunum.

Með bréfi til Barnaverndar B, dags. X 2018, óskaði lögmaður kæranda þess að umgengisréttur kæranda samkvæmt úrskurði Barnaverndarnefndar B frá X 2018 yrði útfærður nánar. Í beiðni kæranda kemur fram að það þjóni bæði hagsmunum barnanna og kæranda að skýr rammi sé um umgengnina og hvernig bregðast skuli við ef af umgengni getur ekki orðið í einhvert sinn. Í því sambandi vísaði kærandi til þess að umgengni hafi fallið niður vegna veikinda barnanna og hún hafi ekki fengið upplýsingar um hvernig brugðist verði við því. Fram kemur í bréfinu að mikilvægt sé að mati kæranda að fyrir liggi hjá barnavernd rammi um það hvernig atvikum sem þessum skuli mætt, þannig að kærandi þurfi ekki að verða af umgengni við börn sín til lengri tíma vegna forfalla eða leyfa starfsmanna barnaverndar.

Með bréfi til Barnaverndar B X 2018 óskað kærandi þess að ákvarðað yrði á ný um umgengni hennar við börn hennar, D og E, vegna þess að málsmeðferð hjá Landsrétti hafi dregist og dóms væri ekki að vænta fyrr en í X 2019. Kærandi fór fram á að umgengni yrði aukin, þannig að hún hefði umgengni við börnin X í mánuði í þrjár til fjórar klukkustundir í senn þar sem bæði börnin komi í umgengni á sama tíma og því til viðbótar fari fram X umgengni við hvort barn um sig eitt með kæranda í þrjá tíma í senn. Þá yrði öllum fjölskyldumeðlimum kæranda heimilt að vera viðstaddir umgengnina. Auk þess fór kærandi fram á að umgengnin yrði ákveðin fram í tímann með tilteknu skipulagi og að ákveðið yrði hvernig umgengni yrði bætt upp ef hún af óviðráðanlegum aðstæðum raskaðist.

Með tölvupósti 4. febrúar 2019 óskaði lögmaður kæranda upplýsinga um hvort svör við erindi um umgengni lægju fyrir. Með tölvupósti, dags. 4. febrúar 2019, var lögmanni kæranda tilkynnt að með bókun 29. janúar 2019 hafi verið tekin ákvörðun um að fresta afgreiðslu á kröfum kæranda og annarra um umgengni þeirra við börnin þar til niðurstaða Landsréttar varðandi skipan forsjár barnanna lægi fyrir.

Kærandi kærði drátt málsins til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 22. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 6. mars 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst með bréfi, dags. 9. apríl 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir kæranda við greinargerð bárust 13. maí 2019, og voru þær sendar Barnaverndarnefnd B með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir Barnaverndarnefndar B bárust með bréfi, dags. 6. júní 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærð er sú afgreiðsla Barnaverndarnefndar B að ákveða að fresta afgreiðslu á erindum kæranda um umgengni við börn hennar, D og E. Kærandi krefst þess að barnaverndarnefnd verði þegar gert að fjalla um kröfur kæranda um umgengni sem settar hafi verið fram X og X.

Krafa kæranda sé byggð á því að hún og börn hennar eigi rétt á samvistum við hvert annað. Börnin séu ung að árum, eða aðeins X og X ára gömul. Þau hafi verið höfð í vistun í meira eða minna undanfarin X ár og þannig verið haldið frá móður þó að hún hafi í engu brotið gegn þeim. Þá hafi því ítrekað verið beitt gegn kæranda að hún hafi ekki [...].

[...]

Kærandi byggir á því að það liggi ekkert fyrir í málinu frá hlutlausum aðila um að samvistir  barnanna við hana séu skaðleg fyrir þau. Þvert á móti sýni skýrslur eftirlitsaðila að þeim komi vel saman og njóti samvistanna, ekki síst fyrst eftir að þau voru vistuð gegn vilja móður. Þegar vistunin heldur svo áfram í allan þann langa tíma sem raun ber vitni þá hefur það eðlilega áhrif á tengslin, en á meðan ekki liggur fyrir hvar börnin eigi að vera til frambúðar beri að verja og vernda tengsl þeirra við móður. Réttur foreldris til að sinna börnum sínum og njóta samvista við þau séu grundvallarréttindi sem njóti bæði verndar í landsrétti og alþjóðlegum mannréttindareglum. Kærandi sé sannfærð um að Landsréttur felli úr gildi forsjársviptingu héraðsdóms úr gildi og þá fái hún börnin aftur til sín þannig að nauðsynlegt sé að vernda tengsl þeirra á meðan það mál stendur yfir. Þá skipti einnig verulegu máli að það eru aðeins X ár þar til eldra barnið sé orðið fullorðið og þarf að geta átt tengsl við sína fjölskyldu á fullorðinsárum, hvort sem börnin séu í vistun eða ekki fram til þess. Slík tengsl verða aðeins varin með umgengni sem sé nægilega mikil til að fjölskyldan geti átt eðlilegar samverustundir og þá helst án eftirlits, enda sé ekkert tilefni til þess. [...]

Kærandi byggi sérstaklega á því að reynslan af umgengni hingað til sýni vel að þörf sé á skýrari ramma utan um umgengina, meðal annars atriði eins og jólaumgengni, uppbætur á umgengni sem falli niður og önnur atriði sem varða umgengnina. Þá sé fullt tilefni til þess að auka umgengni barnanna við hana, enda vilji þau verja meiri tíma með henni og fá svigrúm til að eiga skemmtilegar stundir með henni, svo sem í leikhúsferðum eða annarri slíkri dægradvöl.

Hvað varði kærumeðferðina þá árétti kærandi að niðurstaða barnaverndar um frestun afgreiðslu erinda hennar hafi ekki verið tilkynnt henni formlega heldur hafi hún aðeins fengið upplýsingar um þá frestun eftir ítrekaða eftirgrennslan af hálfu lögmanna hennar. Barnaverndarstarfsmenn hafi þá sent lögmönnum hennar tölvupóst þar sem fram kom að ákveðið hafi verið fresta málinu þar til að niðurstaða Landsréttar lægi fyrir. Þessum tölvupósti hafi hvorki fylgt fundargerðir né hafi afgreiðsla erindisins verið kynnt kæranda frekar. Kærandi byggir á því að með því hafi barnaverndarnefnd brotið gegn ákvæðum barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga um upplýsingarétt aðila og andmælarétt. Þannig hafi henni til dæmis ekki verið gefið færi á að koma að athugasemdum áður en ákveðið hafi verið að fresta umfjöllun um erindið í X mánuði. Kærandi hafi sett fram kröfur um breytingar á umgengni í X, en nefndin hafi frestað umfjöllun um það að minnsta kosti fram í X, eða um X mánuði, án þess að fyrir því sé nokkur tilgreind ástæða. Með því sé gengið með grófum hætti gegn hagsmunum kæranda og barna hennar sem kærandi telur að hafi átt rétt á mun rýmri og betur skilgreindri umgengni á tímabilinu en verið hafi. Kærandi byggi á því að með frestun þessari hafi barnaverndarnefnd tekið stjórnsýsluákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar velferðarmála í samræmi við 6. gr. barnaverndarlaga. Verði ekki fallist á það að frestun af þessu tagi sé ekki stjórnsýsluákvörðun sé vegið harkalega að réttindum kæranda og barna hennar til að umgangast og því frestað um margra mánaða skeið að fjalla um kröfur hennar. Fari þessi málsmeðferð í bága við málshraðareglu barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga.

Í athugasemdum, dags. 10. maí 2019, vegna greinargerðar Barnaverndarnefndar B kemur fram að kæranda og lögmanni hennar hafi verið boðið að koma á fund barnaverndar þann X [2019] þar sem til hafi staðið að fjalla um umgengniskröfuna. Kærandi hafi ekki treyst sér til að mæta en lögmaður kæranda hafi sótt fundinn og fjallað hafi verið um tillögur nefndarinnar. Hafi lögmaður kæranda gert verulegar athugasemdir við það að tillögur til nefndarinnar hafi byggst á mati starfsmanna á dómgreind kæranda og það mat hafi byggst á túlkun starfsmanna á atvikalýsingu sem gefin hafi verið einhliða af fósturmóður barnanna [...]. Þá hafi lögmaður kæranda jafnframt fjallað um vilja barnanna eins og hann hafi birst í umsögnum talsmanns og þá ágalla sem séu á viðtölum talsmanns við börnin. Þannig hafi viðtöl til að mynda í öllum tilvikum farið fram á fósturheimili barnanna, en aldrei á hlutlausum stað. Þá hafi jafnframt verið fjallað um það ítarlega hvernig tillaga að breyttri umgengni hafi miðað við vilja barnanna að því marki þegar annað barnið vilji óbreytta umgengni, en litið sé fram hjá vilja hins barnsins sem vilji aukna umgengni.

Eftir þennan fund hafi af hálfu lögmanns kæranda ítrekað verið kallað eftir ákvörðun nefndarinnar. Samkvæmt ummælum formanns nefndarinnar hafi mátt vænta þess að ákvörðun yrði tekin á þeim fundi, eða á fundi í vikunni á eftir, það er X. Engu að síður hafi engin svör borist um ákvörðun nefndarinnar.

Þá hafi farið fram aðalmeðferð fyrir héraðsdómi vegna forsjársviptingarkröfu Barnaverndar B gegn kæranda [...] X. Í máli starfsmanna hafi komið fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um að ný ákvörðun um umgengni lægi fyrir. [...]

Varðandi greinargerð Barnaverndarnefndar B sé sérstaklega áréttað að D hafi í öllum tilvikum lýst vilja sínum um umgengni á þann veg að D vilji hafa hana óbreytta, alveg sama hvernig umgengnin hafi verið á hverjum tíma. Þannig hafi D hvorki viljað auka hana né minnka, þrátt fyrir að umgengnin hafi ekki verið sú sama þegar vilji Dvar kannaður. Séu því ýmsar vísbendingar um að D kjósi óbreytt ástand alveg sama í hvaða aðstæðum hún sé í. Þá liggi fyrir að vilji E til aukinnar umgengni við móður [...].

Með vísan til alls ofangreinds byggi kærandi á því að málsmeðferð barnaverndar á kröfu hennar, [...] um nýja umgengnisákvörðun hafi dregist úr hófi og að með málsmeðferðinni hafi ákvæði barnaverndarlaga um hraða málsmeðferð verið brotin sem og reglur stjórnsýslulaga um hraða málsmeðferð. Þá byggi kærandi á því að við meðferð málsins hafi ekki verið unnið samkvæmt rannsóknarreglum þessara laga, byggt hafi verið á einhliða frásögn fósturmóður og tillögur hafi verið settar fram út frá mati starfsmanna á þeirri frásögn, [...]. [...].

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur meðal annars fram að mál barna kæranda, D og E, hafi verið til meðferðar hjá Barnaverndarnefnd B frá X þegar tilkynning barst til nefndarinnar [...]. Hafi systkinin strax verið tekin af heimili sínu og hafi þau verið á fósturheimili lengst af síðan. [...]

[...]

Umgengni barnanna við kæranda hafi frá upphafi vistunar þeirra utan heimilis verið regluleg og lengst af með þeim hætti að D hafi hitt kæranda X í mánuði, tvo tíma í senn, og E X, einnig tvo tíma í senn. Umgengni hafi verið undir eftirliti, [...].

Kærandi hafi nokkrum sinnum farið fram á aukna og breytta umgengni og hafi barnaverndarnefnd fjallað um kröfur hennar í hvert sinn. Þann X 2017 hafi verið kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í nefndinni:

„Umgengni D við móður sína, A verði með sama hætti og hingað til á meðan hún dvelst á vistheimili barnaverndarnefndar, þ.e. X í tvo tíma í senn. Umgengni E við móður verði X í tvo tíma í senn á meðan vistun varir. Umgengni verði áfram undir eftirliti barnaverndarnefndar og fari fram á heimili móður.“

Eftir að foreldrar höfðu verið svipt forsjá með dómi héraðsdóms hafi verið tekin ákvörðun um breytta umgengni við kæranda og þann X 2018 hafi verið kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í barnaverndarnefnd:

„Umgengni D, og E, við móður sína, A verði X í mánuði í tvo tíma í senn undir eftirliti þar til Landsréttur hefur kveðið upp dóm um skipan forsjár yfir systkininum.“

Kærandi hafi kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafi vísað málinu frá X 2018.

Með bréfum, dags. 31. október 2018, hafi lögmaður [...] gert kröfu um að þeim yrði ákvörðuð umgengni og með bréfi, dags. X 2018, hafi lögmaður kæranda gert kröfu um að umgengni við hana yrði útfærð nánar. Þá hafi [...] gert kröfu um jólaumgengni við sig og [...]. Kröfurnar hafi allar verið til umfjöllunar hjá barnaverndarnefnd þann 29. janúar síðastliðinn þar sem samþykkt hafi verið svohljóðandi bókun:

„Fyrir barnaverndarnefnd B liggja kröfur frá [...], um aukna umgengni barnanna við fjölskylduna. Foreldrar barnanna voru sviptir forsjá þeirra með dómi héraðsdóms, dags. X og hefur þeim dómi verið áfrýjað til Landsréttar og er niðurstöðu réttarins að vænta innan skamms. Með vísan til þess og með hliðsjón af því að systkinin hafa fram að þessu ekki lýst vilja sínum til umgengni verði aukin, er það ákvörðun barnaverndarnefndar B að fresta afgreiðslu krafnanna þar til niðurstaða Landsréttar liggur fyrir varðandi skipan forsjár yfir þeim.“

Áður en barnaverndarnefnd hafði samþykkt ofangreinda bókun hefði ítrekað komið fram hjá D að D hafi ekki viljað hitta kæranda oftar [...]. Eins og fram komi í bókuninni hafi verið talið á þeim tíma að niðurstöðu Landsréttar væri að vænta innan mjög skamms tíma og því hafi ekki verið tímabært að taka nýja ákvörðun um umgengni áður en sú niðurstaða lægi fyrir. [...] Börnunum hafi nú verið skipaður talsmaður sem muni kanna afstöðu þeirra til umgengni [...] og þegar skýrslur hans liggi fyrir verði málið lagt fyrir barnaverndarnefnd til ákvörðunar.

Í viðbótargreinargerð Barnaverndarnefndar B, dags. 3. júní 2019, kemur fram að krafa kæranda vegna umgengni við börn sín í fóstri hafi verið tekin fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann X og aftur þann X þar sem kveðinn hafi verið upp úrskurður. Í úrskurðinum komi fram þær ástæður sem hafi orðið til þess að uppkvaðning hans dróst, en gert hafði verið ráð fyrir efnislegri niðurstöðu Landsréttar í X varðandi skipan forsjár yfir systkinunum og hafi verið ætlun nefndarinnar að taka ákvörðun um umgengni þeirra við ættingja sína þegar sú niðurstaða lægi fyrir. Landsréttur hafi hins vegar vísað málinu óvænt heim í hérað þar sem það sé nú til meðferðar á ný. Barnaverndarnefnd hafi þá skipað systkinunum talsmann til að kanna afstöðu þeirra til umgengni við [...] og hafi í kjölfarið verið kveðinn upp úrskurður þar um.

Eins og fram komi í úrskurði nefndarinnar hafi ákvörðun hennar um umgengni ekki verið byggð nema að litlu leyti á [...] sem lögmaður kæranda nefnir í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. X 2019, heldur byggi á gögnum um líðan og vilja barnanna sjálfra, svo sem skýrslu starfsmanns og frásögnum skólastarfsmanna. Barnaverndarnefnd B mótmæli harðlega tilgátum lögmanns kæranda sem settar séu fram í bréfinu um að D kjósi óbreytt ástand í hvaða aðstæðum sem er. D hafi þvert á móti haft mjög einarða afstöðu til umgengni allan fósturtímann, hún sé skýr og ákveðin og ekki ástæða til að gera lítið úr óskum D um tilhögun umgengni. D hafi endurtekið lagt áherslu á að þau systkinin fari saman í umgengni og að eftirlitsaðili sé viðstaddur. E hafi einnig lýst vilja sínum til að vera með D í umgengni. Fram hafi komið að líðan systkinanna hafi breyst til hins verra í kringum umgengni og hafi barnaverndarnefnd tekið mið af þessum atriðum öllum í ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Með tölvupósti, dags. 4. febrúar 2019, var lögmanni kæranda tilkynnt sú ákvörðun barnaverndarnefndar að fresta afgreiðslu á kröfu kæranda varðandi aukna umgengni við börn sín þar til niðurstaða Landsréttar varðandi skipan forsjár barnanna lægi fyrir. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 22. febrúar 2019. Í málinu krefst kærandi þess að Barnaverndarnefnd B verði þegar gert að fjalla um kröfur kæranda um umgengni.

Kærandi álítur að málsmeðferð barnaverndar á kröfu hennar um nýja umgengnisákvörðun hafi dregist úr hófi og barnaverndaryfirvöld hafi gerst brotleg við ákvæði barnaverndarlaga og stjórnsýslulaga um hraða málsmeðferð.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi. Dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra þann drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á því hvort mál hafi tafist óhæfilega verður að líta til þess hve langan tíma sambærileg mál almennt taka.

Samkvæmt gögnum málsins krafðist lögmaður kæranda þess með bréfi, dags. X 2018, að umgengnisréttur kæranda yrði útfærður nánar, nánar tiltekið að umgengni yrði ákveðin fram í tímann með tilteknu skipulagi og að ákveðið yrði með hvaða hætti umgengni yrði bætt upp og hvernær það yrði gert. Með bréfi, dags. X 2018, krafðist lögmaður kæranda þess að umgengni kæranda við börn hennar yrði aukinn í ljósi þess að dráttur væri á meðferð málsins hjá dómstólum.

Barnaverndarnefnd fjallaði um kröfu kæranda á fundi X 2019 þar sem ákveðið var að fresta málinu þar til niðurstaða Landsréttar [...] lægi fyrir. Samkvæmt framangreindu liðu rúmlega X mánuðir frá því að gerð var krafa um aukna umgengni þar til ákvörðun um frestun afgreiðslu lá fyrir.

Krafa kæranda um umgengni var til umfjöllunar hjá barnaverndarnefnd X 2019 þar sem samþykkt var svohljóðandi bókun:

„Fyrir barnaverndarnefnd B liggja kröfur frá [...], um aukna umgengni barnanna við fjölskylduna. Foreldrar barnanna voru sviptir forsjá þeirra með dómi héraðsdóms, dags. X og hefur þeim dómi verið áfrýjað til Landsréttar og er niðurstöðu réttarins að vænta innan skamms. Með vísan til þess og með hliðsjón af því að systkinin hafa fram að þessu ekki lýst vilja sínum til umgengni verði aukin, er það ákvörðun barnaverndarnefndar B að fresta afgreiðslu krafnanna þar til niðurstaða Landsréttar liggur fyrir varðandi skipan forsjár yfir þeim.“

Barnaverndarnefnd taldi á þeim tíma að niðurstöðu Landsréttar væri að vænta innan mjög skamms tíma og því hafi ekki verið tímabært að taka nýja ákvörðun um umgengni áður en sú niðurstaða lægi fyrir. Lyktir málsins í Landsrétti hafi orðið þó þær að þann X hafi [...]. Krafa kæranda um umgengni hafi því verið tekin fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B X 2019 og aftur þann X þar sem kveðinn var úrskurður um umgengni kæranda.

Samkvæmt 6. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 geta þeir, sem umgengni eiga að rækja, krafist þess að barnaverndarnefnd endurskoði fyrri úrskurð sinn um umgengnisrétt. Barnaverndarnefnd er ekki skylt að taka slíka kröfu til efnisúrlausnar nema liðnir séu X mánuðir hið skemmsta frá því að úrskurður barnaverndarnefndar eða úrskurðarnefndar velferðarmála var kveðinn upp. Í athugasemdum með frumvarpi við 74. gr. segir að rökin að baki slíkri reglu séu þau að koma í veg fyrir samfelldan ágreining sem skapi óróa og raski stöðugleika í lífi barns. Samkvæmt gögnum máls var kveðinn upp úrskurður um umgengni kæranda við börnin X 2018 en lögmaður kæranda gerði kröfu um frekari útfærslu á gildandi umgengni með bréfi, dags. X 2018, og aukna umgengni með bréfi, dags. X 2018. Í málinu liggur fyrir að Barnaverndarnefnd B fjallaði um umgengni kæranda við börn sín á fundi X 2019 og með úrskurði X 2019 var umgengni ákveðin þar til lokaniðurstaða dómstóla lægi fyrir.

Af hálfu Barnaverndarnefndar B hefur komið að dráttur á uppkvaðningu úrskurðar hafi verið vegna þess að nefndin hafi gert ráð fyrir dómi Landsréttar í X 2019 um skipan forsjár yfir börnum kæranda. Ætlun nefndarinnar hafi verið að úrskurða um umgengni þegar niðurstaða Landsdóms lægi fyrir en hennar var að vænta í X 2019. Landsréttur hafi hins vegar óvænt X2019 vísað málinu heim í hérað þar sem það sé til meðferðar. Í kjölfar þess hafi barnaverndarnefndin skipað börnunum talsmann til að kanna afstöðu þeirra til umgengni og úrskurðað um umgengni X 2019.

Samkvæmt framangreindum skýringum er ljóst að Barnaverndarnefnd B hefur hagað meðferð málsins með markvissum hætti. Í máli þessu lá fyrir að dóms var að vænta sem að mati nefndarinnar gat haft áhrif á það hvernig umgengni við kæranda yrði háttað. Fallast verður á, í ljósi hagsmuna barnanna, að rétt hafi verið bíða niðurstöðu Landréttar um forsjá barnanna áður en erindi kæranda væri tekið til afgreiðslu. Þegar ljóst var að frekari bið væri á niðurstöðu dómstóla úrskurðaði barnaverndarnefndin um umgengni kæranda. Verður því ekki fallist á að um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu hafi verið að ræða í þessu tilfelli. Þá telur úrskurðarnefndin að afgreiðsla erinda kæranda hafi ekki tekið lengri tíma en afgreiðsla sambærilegra mála. Með vísan til þess verður ekki fallist á að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Barnaverndarnefndar B að gæta þess, þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast, að skýra aðila máls frá því, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir að í máli kæranda lægi fyrir úrskurður Barnaverndarnefndar B um umgengni kæranda við börn sín frá X 2018 þar sem fram kom að hann héldi gildi sínu þar til Landréttur hefði komist að niðurstöðu um skipan forsjár, telur úrskurðarnefndin að barnaverndarnefndin hefði átt að svara erindum kæranda frá X 2018 og X 2018 í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrirsjáanlegt var að afgreiðsla myndi tefjast. Bar þá barnaverndarnefndinni að upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar væri að vænta, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Barnaverndarnefndar B í máli A var í samræmi við málshraðareglu 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

 

Kári Gunndórsson

Hrafndís Tekla Pétursdóttir                             Sigríður Ingvarsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira