Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 632/2017 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að endurnýja dvalarleyfi kæranda vegna náms að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. desember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 632/2017

Í stjórnsýslumáli nr. KNU17100052

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. október 2017, kærði [...] hrl., f.h. [...], kt. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2017, um að synja kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms.Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn hennar um endurnýjað dvalarleyfi verði samþykkt. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar þann 10. nóvember 2015 og fékk leyfið veitt með gildistíma frá 18. febrúar 2016 til 18. febrúar 2017. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna náms þann 23. desember 2016 og fékk hún leyfið útgefið með gildistíma frá 19. janúar 2017 til 15. júlí 2017. Kærandi sótti um endurnýjun á því leyfi 13. júní 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2017, var kæranda synjað um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms. Óljóst er hvenær ákvörðunin var afhent kæranda. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 20. október 2017. Kærunefnd óskaði þann sama dag eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd 26. og 31. október 2017. Kærandi skilaði ekki inn sérstakri greinargerð enda voru málsástæður kæranda raktar í kæru málsins.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lokið fimmtán einingum á vorönn 2017 og það teljist 50% námsárangur en litið er svo á að fullt nám sé 30 ECTS á önn. Kærandi sé að sækja um fyrstu endurnýjun og því sé ljóst að kærandi hafi ekki lokið 75% af fullu námi á námsárinu og hún uppfylli ekki skilyrði endurnýjunar samkvæmt 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið fram að 65. gr. laganna kveði skýrlega á um að fullur námsárangur teljist a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Samkvæmt 52. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 telst háskólaárið frá 1. júlí til jafnlengdar næsta ár. Kennsluár háskólans skiptist í tvö misseri, haustmisseri frá 20. ágúst til 18. desember og vormisseri frá 4. janúar til 10. maí. Þar sem kærandi stundaði einungis nám við Háskóla Íslands á vormisseri námsárið 2016/2017 yrði að miða við þá önn við endurnýjun.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi hafið nám sitt við Háskóla Íslands á vorönn 2017. Á þessari fyrstu önn hafi hún lokið 15 ECTS einingum sem teljist 50% árangur. Kærandi stefni ótrauð á að ljúka 100% einingafjölda yfirstandandi annar í námi sínu, haustannar 2017, en hún hafi þegar hafið próftöku og lokið hluta af önninni með góðum árangri.

Kærandi rekur ákvæði 5. mgr. 65. gr. og lögskýringargögn að baki ákvæðinu í greinargerð sinni. Að mati kæranda sé tekið af skarið í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu að við mat á því hvort námsárangur teljist viðunandi skuli líta til tveggja fyrstu annanna í háskólanámi og kanna hvort útlendingur hafi lokið a.m.k. 75% af heildareiningafjölda þeirra. Jafnframt komi fram að markmið ákvæðisins sé að koma til móts við útlendinga sem af ýmsum ástæðum kunni að eiga erfitt með að fóta sig í upphafi náms. Þetta sé jafnframt rökrétt í ljósi þess að krafa um 75% árangur á önn kunni í raun að fela í sér mun strangari kröfur sé litið til einingafjölda einstakra námskeiða í námi. Þannig myndi slík krafa t.d. fela í sér að kærandi hefði þurft að ljúka 83% árangri. Í munnlegum samskiptum kæranda við Útlendingastofnun hafi kæranda verið skýrlega tjáð að 50% námsárangur á stakri önn dygði henni svo lengi sem hún næði öllum prófunum á næstu önn.

Af hálfu kæranda er því haldið fram með vísan til orðalags ákvæðisins og athugasemda greinargerðarinnar að það hljóti að teljast vafasamt að heimilt sé að marka dvalarleyfi á grundvelli 65. gr., sem veitt sé vegna fulls náms útlendings hér á landi, svo stuttan gildistíma að það taki aðeins til einnar annar.

Kærandi telji að af framangreindu sé ljóst að hún uppfylli kröfur 5. mgr. 65. gr. laganna. Að minnsta kosti hafi hún ekki enn fengið færi á að sýna fram á að hún uppfylli kröfur um fullnægjandi námsárangur á tveimur fyrstu önnum námsins líkt og ákvæði laganna geri skýrlega ráð fyrir. Í hinni kærðu ákvörðun sé sérstök áhersla lögð á það orðalag ákvæðisins að miðað sé við „námsár“ og því næst vísað til reglna Háskóla Íslands um það hvenær námsár teljist hefjast og því ljúka. Afstaða stofnunarinnar sé því sú að ástæða þess að kærandi fái ekki tækifæri til að ná a.m.k. 75% árangri á tveimur önnum, eins og lögin geri augljóslega ráð fyrir, sé sú að annirnar þurfi báðar að vera á sama kennsluári. Að mati kæranda geti þetta ekki staðist.

Í fyrsta lagi sé hin þrönga túlkun stofnunarinnar í andstöðu við þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum um ákvæðið er fylgdu frumvarpi til laganna.

Í öðru lagi gangi hin þrönga skýring stofnunarinnar einfaldlega ekki upp. Jafnvel þótt kærandi hefði náð 100% árangri á fyrstu önninni (þ.e. vorönn 2017) hefði hún þar með aðeins lokið 50% af heildareiningarfjölda „námsársins“ sem hafi hafist 20. ágúst 2016 og lokið 10. maí 2017, enda hafi hún ekki verið við nám haustið 2016. Samkvæmt þessu gæti útlendingur sem hæfi háskólanám sitt á vorönn ekki uppfyllt skilyrði stofnunarinnar, jafnvel þótt hann stæðist öll próf enda myndi viðkomandi ekki hafa lokið 75% af öllum einingum kennsluársins.

Í þriðja lagi brjóti túlkun Útlendingastofnunar gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993. Engin málefnaleg sjónarmið réttlæta að útlendingur sem hefji nám á haustmisseri sé í betri aðstöðu til þess að uppfylla skilyrði 65. gr. laganna heldur en sá sem hefji nám á vormisseri. Kærandi telji að með þessari túlkun sé með ólögmætum hætti brotið gegn jafnræði. Þá geti kærandi þess að henni hafi verið tjáð af starfsfólki Háskóla Íslands að henni dygði að ljúka 50% af einingum vorannar ef hún lyki öllum einingum haustannar 2017. Kærandi bendi á að starfsfólk háskólands sjálfs virðist þannig alls ekki styðja túlkun Útlendingastofnunar.

Í fjórða lagi bryti það gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að gefa kæranda ekki færi á að ljúka prófum sínum á yfirstandandi haustönn. Kærandi hafi lagt gríðarlega vinnu og fyrirhöfn á sig til þess að aðlagast nýju umhverfi, stunda háskólanám á Íslandi og ná tökum á íslenskri tungu. Það styttist óðum í lokapróf haustannar 2017 og sé ýmsum verkefnum sem vega í lokeinkunn nú þegar lokið, sem kærandi hafi staðist. Yrði ákvörðun stofnunarinnar staðfest þyrfti kærandi væntanlega að yfirgefa Ísland einmitt á þeim tíma sem hún lyki hvort eð er prófum á sinni annarri önn. Engar knýjandi ástæður mæli með því að gefa kæranda ekki kost á að sýna fram á námsárangur sinn í samræmi við skýran vilja löggjafans eins og hann verði ráðinn með túlkun í samræmi við lögskýringargögn laganna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 13. júní 2017 um endurnýjun á dvalarleyfi, sbr. 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Í 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga kemur fram að dvalarleyfi samkvæmt 65. gr. skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en tólf mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 80/2016 kemur m.a. fram að við endurnýjun dvalarleyfis, sbr. 5. mgr., þarf að sýna fram á fullnægjandi námsárangur en með því er átt við að útlendingur hafi staðist samanlagt 75% af heildareiningafjölda tveggja anna og er nóg að leyfishafi nái t.d. 50% af heildareiningafjölda fyrstu annar ef hann nær a.m.k. 100% á næstu önn. Er þannig komið til móts við þá erlendu námsmenn sem kunna af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með að fóta sig í náminu á fyrstu mánuðunum í nýju landi og við nýjar aðstæður eða ef skortur á framboði á námskeiðum í háskóla hamlar þátttöku í fullu námi.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi 15 ECTS einingum á vorönn 2017, sem var hennar fyrsta námsönn við Háskóla Íslands. Kærandi var því með 50% námsárangur á vorönn 2017. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er námsár skilgreint í samræmi við skilgreiningu á háskólaári í 52. gr. reglna Háskóla Íslands, þ.e. frá 1. júlí til jafnlengdar næsta ár. Kærandi heldur því fram að í hinni kærðu ákvörðun sé fremur þröngri textaskýringu beitt við túlkun 5. mgr. 65. gr. laganna.

Hugtakið „námsár“ er ekki skilgreint í lögum um útlendinga. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpinu er ekki vísað til námsárs, líkt og gert er í sjálfu lagaákvæðinu, heldur er talað um annir, heildareiningafjölda tveggja anna sem og fyrstu önn og seinni önn. Í athugasemdum 65. gr. er að finna nánari útlistun á því hvernig ákvæðið skuli túlkað en þar segir orðrétt: „Við endurnýjun dvalarleyfis, sbr. 5. mgr., þarf að sýna fram á fullnægjandi námsárangur en með því er átt við að útlendingur hafi staðist samanlagt 75% af heildareiningafjölda tveggja anna og er nóg að leyfishafi nái t.d. 50% af heildareiningafjölda fyrstu annar ef hann nær a.m.k. 100% á næstu önn.“

Að mati kærunefndar verður ákvæði 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga ekki túlkað með svo þrengjandi lögskýringu að þeir nemendur sem hefja nám á vorönn hafi einungis eina önn til að ná kröfum um námsframvindu. Í ljósi lögskýringargagna sem fylgdu ákvæðinu telur kærunefnd að leggja verði til grundvallar að upphaf námsárs miðist við þá önn sem útlendingur hefur nám og ljúki einu almanaksári seinna. Nái útlendingur þannig 50% af heildareiningafjölda fyrstu annar, sama hvaða önn það er, hefur hann tækifæri til að ná a.m.k. 100% einingafjölda á næstu önn, líkt og kveðið er á um í athugasemdum við ákvæðið, til þess að uppfylla skilyrðið um að hafa lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Hefur nefndin hér m.a. í huga það sem fram kemur í athugasemdum ákvæðisins að með námsframvindureglum sé verið að reyna að koma til móts við þá erlendu námsmenn sem kunna af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með að fóta sig í náminu á fyrstu mánuðunum í nýju landi.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt er fyrir stofnunina að endurnýja dvalarleyfi kæranda vegna náms á haustönn 2017 að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.Lagt er fyrir Útlendingastofnun að endurnýja dvalarleyfi kæranda vegna náms að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to renew the appellant´s residence permit on the grounds of education, subject to other conditions of the Act on Foreigners.

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                              Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira