Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2016: Dómur frá 6. júní 2016

Ár 2016, mánudaginn 6. júní, er í Félagsdómi í málinu nr. 3/2016:

Alþýðusamband Íslands,

f.h. Félags bókagerðarmanna

vegna Þórs Theodórssonar

 (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins

f.h. Samtaka iðnaðarins

vegna Prentmets ehf.

(Ragnar Árnason hrl.)

                       

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 18. maí sl.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir dómsforseti, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Valgeir Pálsson og Karl Ó. Karlsson.

 

Stefnandi er  Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Félags bókagerðarmanna, Stórhöfða 31, Reykjavík vegna Þórs Theodórssonar, Laxatungu 6, Mosfellsbæ.

Stefndi er  Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, f.h. Samtaka iðnaðarins, kt. 511093-2019, Borgartúni 35, Reykjavík vegna Prentmets ehf., kt. 470193-2559, Lynghálsi 1, 110 Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær:

Að uppsögn stefnda á Þór Theodórssyni, öryggistrúnaðarmanni Prentmets ehf., þann 25. september 2014, verði dæmd brot á 11. gr. laga nr. 80/1938 og ólögmæt af þeim sökum.

Að Þór Theodórssyni verði dæmdar bætur að fjárhæð 1.391.283 krónur ásamt dráttarvöxtum af allri upphæðinni samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. september 2015 til þingfestingardags þessa máls, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

Málavextir

Þór Theodórsson hóf störf sem sölumaður hjá stefnda vorið 2014 og á sama tíma var Karl Bjarnason ráðinn til sömu starfa hjá stefnda. Óumdeilt er að báðir voru ráðnir sem sölumenn til að afla nýrra viðskiptavina fyrir stefnda. Karl lét af störfum í lok árs 2014. Í október 2014 tók Þór við stöðu öryggistrúnaðarmanns starfsmanna hjá stefnda til tveggja ára.

Stefndi er prentsmiðja sem rekur þrjár starfsstöðvar, í Reykjavík, á Akranesi og á Selfossi. Sölu- og markaðsdeild er í Reykjavík og þar starfa nú fimm sölumenn/viðskiptastjórar ásamt framkvæmdastjóra sem jafnframt annast sölustjórnun.

Af framlögðum ársreikningum stefnda rekstrarárin 2013 og 2014 og yfirliti um tekjur félagsins á árinu 2015 verður ráðið að sölutekjur fyrirtækisins hafa lækkað á milli ára. Sölutekjur voru tæplega 920 milljónir 2012 en tæplega 760 milljónir 2015. Ársreikningarnir gefa einnig til kynna að á tímabilinu 2012 til 2014 hafi fyrirtækið dregið úr rekstrarútgjöldum. Rekstrarhagnaður (EBITDA) fór lækkandi og var rúmar 14 milljónir króna 2014 á sama tíma og fjármagnsgjöld voru rúmar 55 milljónir króna. Í greinargerð stefnda kemur fram að á árinu 2015 hafi stöðugildum hjá stefnda fækkað úr 72 í 57.

Óumdeilt er að á árinu 2015 störfuðu eftirtaldir starfsmenn við sölustörf hjá stefnda, auk framkvæmdastjóra stefnda:

Friðrik Ingvar Friðriksson, f. 1950, 11 ára starfsreynsla hjá stefnda og í sölu frá 1990. Hóf störf í prentverki 1974.

Magnús Matthíasson, f. 1946, 9 ára starfsreynsla hjá stefnda og sölu frá 1976. Hóf störf í prentverki 1962.

Rafn Árnason, f. 1946, 13 ára starfsreynsla hjá stefnda og hóf störf í prentverki 1963. Rafn var jafnframt aðstoðarmaður framkvæmdastjóra og sinnti einungis sölustörfum að hluta.

Rúnar Gunnarsson, f. 1965, 12 ára starfsreynsla hjá stefnda og í sölu frá 1985. Hóf störf í prentverki 1983.

Örvar Þór Guðmundsson, f. 1977, 15 ára starfsreynsla hjá stefnda og sölu frá 2004. Hóf störf í prentverki 1995.

Þór Theodórsson, f. 1980, 1,3 ára (16 mánaða) starfsreynsla hjá stefnda

 

Með bréfi, dagsettu 25. september 2015, var Þór sagt upp störfum hjá stefnda frá þeim degi með eins mánaðar uppsagnarfresti. Í bréfinu kemur fram að þess sé óskað, ef vilji Þórs standi til þess, að Þór vinni í tvo mánuði og að uppsögnin verði þá endurskoðuð um mánaðamótin nóvember/desember ef meiri árangur náist í sölunni. Stefndi kveðst hafa sagt Þór upp störfum þar sem hann hefði haft stystan starfsferil hjá stefnda, auk þess sem hann hefði ekki náð þeim árangri í starfi sem ætlast hafi verið til.

Stefndi var krafinn um uppgjör launa með bréfi lögmanns Þórs, dagsettu 15. desember 2015, en kröfunni var hafnað með bréfi Samtaka atvinnulífsins, dagsettu 8. janúar 2016.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að Þór Theodórsson hafi notið sérstakrar verndar í starfi sem öryggistrúnaðarmaður, sbr. 9. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt ákvæðinu sé atvinnurekendum óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að þeim hafi verið falin trúnaðarmannsstörf. Þá skuli trúnaðarmenn njóta forgangs til vinnu þegar atvinnurekendur fækki starfsfólki.

Í ákvæðum 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1939 felist að trúnaðarmanni eigi ekki að segja upp starfi við fækkun starfsmanna, nema vinuveitandi sýni fram á ríkar ástæður til þess. Uppsögn sé ólögmæt nema fyrirtæki sýni fram á ekki hafi verið svigrúm til að komast hjá henni. Í þessum efnum dugi ekki almennar staðhæfingar um lykilhlutverk þeirra starfsmanna sem haldi vinnunni. Stefnandi bendir á að enn starfi minnst fimm starfsmenn hjá stefnda með sama starfstitil og Þór hafði, skv. heimasíðu stefnda.

Þá bendir stefnandi á, að jafnvel þótt fallist yrði á með stefnda að hann hafi ekki brotið gegn ákvæði fyrri málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1939, hefði hann allt að einu átt að beina áminningu til starfsmanns, áður en honum var sagt upp störfum með vísan til þess að sala hefði ekki verið nægilega góð hjá fyrirtækinu. Því sé uppsögnin ólögmæt allt að einu og að starfsmaður eigi rétt til bóta af þeim sökum.  

Stefnandi bendir á að samkvæmt venju þyki hæfilegt að miða bætur við laun í þrjá mánuði frá þeim tíma sem starfsmaður lét af störfum og því krefst stefnandi bóta sem nema launum starfsmannsins í þrjá mánuði, alls að fjárhæð 1.391.283 krónur. Krafa stefnanda um greiðslu vangoldinna launa sundurliðist þannig:

 

Laun á uppsagnarfresti     (3 x kr. 381.840,-)                                                          kr.             1.145.520

Orlof skv. kjarasamningi 25 d. á ári  (10,64%)                                                        „                   121.883

Orlofsuppbót fyrir þrjá mánuði skv. kjarasamn.(kr. 42.000,-/4)                         „                     10.500

Desemberuppbót fyrir þrjá mánuði skv. kjarasamn. (kr. 82.000,-/4)                 „                     20.500

Bifreiðarstyrkur skv. launakjörum (3 x kr. 30.960,-)                                              „                     92.880

                                                                                                                               -----------------------

Samtals                                                                                                                           kr.              1.391.283

Um lögsögu Félagsdóms vísar stefnandi til 1. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og um aðild til 1. mgr. 45. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988. Um dráttarvexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og um varnarþing til 33. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að uppsögn stefnanda hafi ekki verið andstæð 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og sé því lögmæt. Þegar fyrir hafi legið að ekki yrði hjá því komist að fækka starfsmönnum í söludeild, hafi stefndi haft ríkar ástæður til að segja stefnanda upp störfum frekar en öðrum starfsmönnum í sömu deild.

Stefndi byggir á því að áætlanir um markaðssókn hafi ekki gengið eftir en umtalsverður samdráttur orðið í sölu og því orðið tap á rekstri stefnda. Markmið stefnda um að fjölga föstum viðskiptavinum, sem stefnandi hafi sérstaklega verið ráðinn til, hafi ekki gengið eftir. Því hafi verið óhjákvæmilegt að fækka starfsmönnum.

Stefndi tekur fram að við töku ákvörðunar um það, hverjum yrði sagt upp í söludeild, hafi verið horft til starfsaldurs hjá stefnda og í skyldum störfum og verðmætasköpunar starfsmanna í þágu stefnda.

Aðrir sölumenn í söludeild stefnda hafi verið með níu til 15 ára starfsaldur hjá stefnda, auk þess sem þeir hefðu einnig búið að langri reynslu úr öðrum deildum stefnda eða úr sambærilegum störfum í greininni. Þeir hefðu einnig tryggt mikilvæg persónuleg tengsl við stóra viðskiptavini. Þegar horft hafi verið til þess að stefnandi hafi sérstaklega verið ráðinn til að afla nýrra viðskiptavina og honum verið kunnugt um þá forsendu ráðningar, hafi legið beint við að segja frekar stefnanda upp störfum en öðrum sölumönnum.

Stefndi byggir á því að vernd öryggistrúnaðarmanna sé ekki algild, þeir skuli „að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni“. Verði að veita vinnuveitanda ákveðið svigrúm til að tryggja fjárhags- og markaðsstöðu. Ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980, um vernd öryggistrúnaðarmanna, hafi fyrst og fremst verið sett til að koma í veg fyrir ómálefnalega uppsögn öryggistrúnaðarmanns. Um sé að ræða öryggisventil þannig að öryggistrúnaðarmaður þurfi ekki að sýna sérstaklega fram á að uppsögn hafi mátt rekja til starfa hans sem öryggistrúnaðramanns.

Stefndi kveður að ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980 hafi hins vegar ekki verið ætlað að setja vinnuveitanda svo þröngar skorður að hann þyrfti að segja upp verðmætum, þaulreyndum starfsmönnum til þess eins að veita öryggistrúnaðarmanni forgang til starfa. Við mat á því hvort ákvæði 2. mgr. 9. gr. verndi rétt til starfs, sé óhjákvæmilegt að líta til þess hvort réttlætanlegt hafi verið, með hliðsjón af starfsreynslu og þekkingu samstarfsmanna í sömu deild, að segja frekar upp öðrum starfsmanni en öryggistrúnaðarmanni. Að mati stefnda hafi hann ekkert val átt í þeim efnum.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda og dómurinn taki kröfu stefnanda um „vangreidd laun“ til meðferðar, byggir stefndi á því að samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938 sé Félagsdómi heimilt, í tengslum við mál sem falli undir valdsvið dómsins samkvæmt 44. gr., að dæma skaðabætur. Ekki sé þó í stefnu byggt á þessari heimild laganna og séu því kröfur stefnanda vanreifaðar. Tjón stefnanda, sem sé forsenda bótakröfu, sé einnig vanreifað. Ekki sé rakið í stefnu hvort stefnandi hafi verið atvinnulaus og í atvinnuleit þá þrjá mánuði, sem krafist sé launa fyrir, og hvort hann hafi notið einhverra tekna eða bóta á tímabilinu. Krafa stefnanda sé því í andstöðu við e- og f- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, og beri því að vísa kröfunni frá dómi ex officio.

Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við 130. gr. l. nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Með málshöfðun sinni leitar stefnandi viðurkenningar á því að uppsögn stefnda 25. september 2015 á Þór Theodórssyni, sem hafi verið öryggistrúnaðarmaður hjá Prentmeti ehf., hafi falið í sér brot á 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Jafnframt krefst stefnandi þess að Þór Theodórssyni verði dæmdar skaðabætur að fjárhæð 1.391.283 krónur ásamt dráttarvöxtum.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, skal atvinnurekandi í fyrirtækjum, þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri, tilnefna einn aðila af sinni hálfu sem öryggisvörð og starfsmenn að tilnefna annan úr sínum hópi sem öryggistrúnaðarmann. Skulu þeir í sameiningu fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lögin. Eins og fram kemur í 2. mgr. 9. gr. sömu laga njóta öryggistrúnaðarmenn þeirrar verndar sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í 11. gr. laga nr. 80/1938 er trúnaðarmönnum veitt ákveðin vernd í starfi. Samkvæmt orðum greinarinnar er annars vegar óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá gjalda þess á annan hátt að þeim hefur verið falið að gegna trúnaðarmannsstörfum. Hins vegar skal trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni þegar atvinnurekandi þarf að fækka við sig starfsfólki. Í dómaframkvæmd Félagsdóms hefur ákvæði þetta einnig verið túlkað á þá leið að trúnaðarmanni verði jafnan ekki sagt upp störfum vegna ávirðinga í starfi nema að hann hafi áður fengið viðvörun eða áminningu og með því verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt.

Aðila greinir ekki á um að Þór Theodórsson hafi verið tilnefndur til að vera öryggistrúnaðarmaður hjá Prentmeti ehf. eftir að hann var ráðinn til fyrirtækisins í maí 2014. Hann naut því þeirrar verndar í starfi sem kveðið er á um í 11. gr. laga nr. 80/1938 þegar honum var sagt upp sem sölumaður á sölu- og markaðsdeild fyrirtækisins með uppsagnarbréfi 25. september 2015.

Ástæða uppsagnarinnar var ekki tilgreind í uppsagnarbréfinu. Með bréfi stefnda 8. janúar 2016 var sú skýring gefin á starfslokum hans að fyrirtækið hafi þurft að bregðast við veltusamdrætti síðustu ára með því að fækka starfsmönnum til að draga úr rekstrarkostnaði. Hafi ráðning Þórs til fyrirtækisins árið 2014 verið þáttur í tilraun til þess að afla nýrra viðskiptavina svo snúa mætti vörn í sókn. Sú tilraun hafi hins vegar ekki skilað viðunandi árangri. Jafnframt hafi Þór orðið uppvís að því að ganga inn í verkefni fyrir eldri viðskiptavini sem aðrir sölumenn hafi átt að sinna, sölumenn sem hafi unnið lengi hjá fyrirtækinu. Með því hafi hann gengið þvert á fyrirmæli framkvæmdastjóra og hagað sér í ósamræmi við forsendur ráðningar hans. Kemur þar fram að Þór hafi verið áminntur munnlega um að láta af þessari háttsemi án þess að það hafi skilað árangri.

Eins og fram kemur í greinargerð stefnda er Prentmet ehf. prentsmiðja með þrjár starfsstöðvar, í Reykjavík, Akranesi og Selfossi. Ársreikningar Prentmets ehf. rekstrarárin 2013 og 2014 hafa verið lagðir fram, sem og yfirlit um tekjur félagsins á árinu 2015. Þessi gögn staðfesta að sölutekjur fyrirtækisins hafa lækkað á milli ára. Voru þær tæplega 920 milljónir árið 2012 en tæplega 760 milljónir árið 2015. Ársreikningarnir gefa einnig til kynna að á tímabilinu 2012 til 2014 hafi fyrirtækið dregið úr rekstrarútgjöldum. Rekstrarhagnaður (EBITDA) fór eftir sem áður lækkandi og var aðeins rúmar 14 milljónir árið 2014 á sama tíma og fjármagnsgjöld voru rúmar 55 milljónir króna.

Þessar upplýsingar koma heim og saman við það sem fram kom í skýrslu Ólafs J. Straumlands, fjármálastjóra Prentmets ehf., fyrir dómi. Gat hann þess að samdrætti í sölutekjum hafi verið m.a. mætt með því að draga hægt og bítandi úr starfsmannakostnaði. Það hafi þó ekki dugað, því fyrirtækið hafi um nokkurt skeið ekki haft nægar tekjur til að standa undir gjöldum. Bætti hann við að rekstrarhagnaður síðasta árs hafi ekki verið nægur, en ársreikningur fyrir það rekstrarár liggur ekki fyrir. Lýsti hann því að tveir stórir viðskiptavinir hafi sagt skilið við fyrirtækið árið 2014 auk þess sem hækkun launa með nýjum kjarasamningum hafi verið ákveðið áfall fyrir rekstur fyrirtækisins.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður á það fallist að meginástæða uppsagnar Þórs Theodórssonar hafi verið samdráttur í rekstri Prentmets ehf. Ekkert bendir til þess að verkefni er tengjast hlutverki hans sem öryggistrúnaðarmanns hafi verið tilefni starfsloka hans. Eins og atvikum var háttað verður heldur ekki talið að nauðsynlegt hafi verið að áminna hann eða veita honum formlega viðvörun áður en honum var sagt upp störfum á þessum grunni.

Þegar fækka þarf starfsmönnum vegna samdráttar í rekstri njóta trúnaðarmenn ekki fortakslausrar verndar samkvæmt 11. gr. laga nr. 80/1938. Þeir skulu hins vegar öðru jöfnu sitja fyrir um vinnu við þær aðstæður. Þarf vinnuveitandinn þá að sýna fram á að málefnalegar ástæður réttlæti að trúnaðarmanni sé sagt upp fremur en öðrum.

Hér horfir svo við að Prentmet ehf. hefur um nokkurt skeið þurft að draga úr starfsmannakostnaði vegna samdráttar í tekjum. Fram kom í skýrslu Guðmundar R. Guðmundssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, fyrir dómi að stöðugildum hafi fækkað umtalsvert í öllum deildum fyrirtækisins. Stefnandi hefur ekki andmælt því sem fram kemur í greinargerð stefnda að samtals hafi þeim fækkað úr 72 í 57 á árinu 2015 og að 11 öðrum starfsmönnum hafi verið sagt þar upp meðan Þór starfaði þar. Staðhæfingar um að Þór hafi verið upplýstur um að tilgangur ráðningar hans árið 2014 hafi verið að afla nýrra viðskiptavina fá stoð í framburði Karls Bjarnasonar fyrir dómi. Karl var ráðinn á sama tíma og Þór til að afla nýrra viðskiptavina og kvað hann Þór hafa unnið að því sama. Gat hann þess fyrir dómi að talað hafi verið um það við hann að hann þyrfti að ná að selja fyrir einhverja lágmarksupphæð á mánuði til að ná viðunandi launakjörum. Kvaðst hann hafa látið af starfinu í lok árs 2014 þegar hann sá að „þetta væri ekki að ganga“. Liggur því fyrir að Þór hafi verið eini sölumaðurinn á árinu 2015 sem sérstaklega hafði verið ráðinn í því skyni að afla nýrra viðskiptavina. Aðrir sölumenn höfðu áratugalanga starfsreynslu hjá fyrirtækinu og sinntu þeim viðskiptavinum sem höfðu verið lengi í viðskiptum við Prentmet ehf. Sölutekjur héldu áfram að dragast saman á árinu 2015 og er ljóst að áætlun um að fjölga viðskiptavinum var ekki að skila viðhlítandi árangri. Eins og atvikum er háttað þykir því stefndi hafa sýnt nægjanlega fram á, að þrátt fyrir þá vernd í starfi sem Þór naut á grundvelli 11. gr. laga nr. 80/1938, hafi verið réttlætanlegt að láta fækkun starfsmanna í sölu- og markaðsdeild bitna á starfi Þórs fremur en á öðrum starfsmönnum deildarinnar. Af þessum sökum verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að láta hvorn aðila bera sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Félagsdómi.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka iðnaðarins vegna Prentmets ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Félags bókagerðarmanna vegna Þórs Theodórssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Ásmundur Helgason

Valgeir Pálsson

 

Sératkvæði Guðna Á. Haraldssonar og Karls Ó. Karlssonar

Við lýsum okkur sammála því sem kemur fram í forsendum meirihluta dómsins í 1. til og með 8. málsgrein. Við erum ennfremur sammála því að meginástæða uppsagnar Þórs Theodórssonar hafi verið samdráttur í rekstri Prentmets ehf. og að ekkert bendi til þess að verkefni er tengjast hlutverki hans sem öryggistrúnaðarmanns hafi verið tilefni starfsloka hans. Ósannað sé því að Þór hafi verið látinn gjalda starfa sinna sem trúnaðarmanns eða að uppsögnin hafi falið í sér brot gegn 1. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938.

Þegar fækka þarf starfsmönnum vegna samdráttar í rekstri njóta trúnaðarmenn ekki fortakslausrar verndar samkvæmt 2. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938. Þeir skulu hins vegar öðru jöfnu sitja fyrir um vinnu við þær aðstæður. Þarf vinnuveitandinn þá að sýna fram á að málefnalegar ástæður réttlæti að trúnaðarmanni sé sagt upp fremur en öðrum, en af dómaframkvæmd Félagsdóms verður ráðið að mjög ríkar sönnunarkröfur eru lagðar á atvinnurekanda í þeim efnum, sbr. til að mynda dóma réttarins í málum nr. 6/2011 og 5/1993.

Hér horfir svo við að Prentmet ehf. hefur um nokkurt skeið þurft að draga úr starfsmannakostnaði vegna samdráttar í tekjum. Fram kom í skýrslu Guðmundar R. Guðmundsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, fyrir dómi að stöðugildum hafi fækkað umtalsvert í öllum deildum fyrirtækisins. Um þessa fullyrðingu framkvæmdastjórans nýtur engra frekari gagna við. Hins vegar upplýsti framkvæmdastjórinn að á því tímamark þegar Þór var sagt upp störfum hafi verið starfandi um 60 starfsmenn hjá fyrirtækinu og að í sölu- og markaðsdeild fyrirtækisins hafi starfað 6 manns. Við mat á því hvort uppsögn Þórs teljist stangast á við ákvæði 2. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938 er ekki nægjanlegt að leggja einungis mat á stöðuna út frá því sjónarhorni að horfa til einnar deildar í fyrirtækinu sem auk þess er skipuð miklum minnihluta starfsmanna eða innan við 20%. Sýna verður fram á eða a.m.k. leiða líkum að því að ómögulegt hafi verið að ná fram nauðsynlegri hagræðingu í rekstri með fækkun starfsmanna í öðrum deildum fyrirtækisins. Stefndi ber sem atvinnurekandi sönnunarbyrðina í þeim efnum og þá sönnunarbyrði hefur stefndi ekki axlað. Með hliðsjón af því og eins og atvikum er háttað verður þannig fallist á það með stefnanda að uppsögn Þórs hafi falið í sér brot gegn 2. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938 og sé af þeim sökum ólögmæt.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta samtals að fjárhæð 1.391.283 krónur. Fram kemur að bótafjárhæðin taki mið af launum Þórs í 3 mánuði frá því að hann lét af störfum hjá Prentmeti ehf. Upplýst er að Þór fékk vinnu hjá nýjum atvinnurekanda í mars 2016. Ennfremur er upplýst að fram til þess tíma naut Þór einungis greiðslna atvinnuleysisbóta, auk uppgjörs áunnins orlofs. Að virtri niðurstöðu málsins og með hliðsjón af kröfugerð stefnanda og að teknu tilliti til atvinnuleysisbóta þykir stefnandi eiga rétt til skaðabóta úr hendi stefnda, sem þykja hæfilega ákvarðaðar 950.000 krónur, með þeim vöxtum sem krafist er. Eftir þessum úrslitum beri ennfremur að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

 

Guðni Á. Haraldsson             Karl Ó. Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira