Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

 

Úrskurður er kveðinn upp 31. október 2013 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 16/2013: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna barnanna A, B og C. Á fundi kærunefndarinnar 4. október síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Kærð er ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur, sbr. bréf 11. september 2013, um styrki til að greiða fyrir lögmannskostnað vegna aðstoðar Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl. og Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl. við kæranda í barnaverndarmáli.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Mál þetta varðar barnaverndarmál A, vegna barna hennar, þeirra A, B, og D.

 

Dætur kæranda lúta forsjár hennar en B, sem er fjölfötluð, var tekin úr umsjón kæranda í janúar 2012. Faðir stúlknanna, D, sem búsettur er í E, hefur komið að umönnun þeirra, en samband foreldranna hefur verið óstöðugt. Áhyggjur hafa verið af uppeldisaðstæðum telpnanna í umsjá foreldra og hafa verið afskipti af högum þeirra á grundvelli barnaverndarlaga bæði hér á landi og í Bretlandi. Kærandi samþykkti tímabundna vistun B utan heimilis í eitt ár á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 30. apríl 2013.

 


 

Kæra Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl. fyrir hönd Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl., er dagsett 17. september 2013. Þar er kærð ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 11. september 2013 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var kæranda veittur styrkur til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 23 klst. á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts eða samtals 288.650 krónur, samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur að mál dætra kæranda hafi farið fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur tvisvar sinnum á umræddu tímabili, þ.e. 28. maí og 25. júní 2013, en ekki hafi verið mætt af hálfu kæranda 28. maí 2013. Samkvæmt ákvörðuninni er veittur styrkur vegna greinargerðarskrifa samtals fimm klst., vegna mætingar lögmanns á fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 25. júní 2013 og funda með kæranda, samtals 10,25 klst. Vegna símtala og tölvupósta samtals sex klst. Þá var veittur styrkur vegna samskipta við kærunefnd barnaverndarmála samtals 0,75 klst. og styrkur vegna lesturs gagna ein klst.

 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Barnavernd Reykjavíkur gert að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna 30,9 klst. á tímagjaldinu 10.000 krónur auk virðisaukaskatts.

 

Barnavernd Reykjavíkur krefst þess að samþykktur styrkur í bréfi barnaverndar 11. september 2013 verði staðfestur af hálfu kærunefndarinnar.

 

 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi byggir á því að ekkert bendi til þess að tímaskráning lögmanns sé meiri en raunveruleg vinna í málinu og enn fremur sé ekkert sem bendi til þess að um vinnu sé að ræða sem ekki tengist meðferð málsins fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

 

Veittur sé fimm klst. styrkur vegna greinargerðaskrifa vegna fundar hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur 14. júní 2013. Greinargerðin hafi verið unnin á níu klst., þ.m.t. ferð til skoðunar gagna hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Lögmaðurinn hafi þurft að vinna tvær greinargerðir, samtals átta blaðsíður af texta. Ekki sé óalgengt viðmið að það taki um eina klst. að fullvinna hverja blaðsíðu af lögfræðilegum texta. Í þessu máli bætist við tími vegna ferða til og frá húsnæði OPUS lögmanna í miðborg Reykjavíkur í húsnæði barnaverndar í Borgartúni og verulegt óhagræði af því að þurfa að skrifa niður punkta úr gögnum í húsnæði barnaverndar og fullvinna síðan greinargerð á skrifstofu lögmanns. Augljóst sé að ekki sé verið að gera kröfu um óeðlilega háa þóknun miðað við það verk sem um ræði. Barnavernd Reykjavíkur beri ábyrgð á því fráleita vinnulagi að lögmaður þurfi að skoða öll gögn á starfsstöð barnaverndar og þurfi þar með að greiða fyrir allt það óhagræði sem verði af því, þ.m.t. lengri tíma sem fari í greinargerðaskrif en ella.

 

Veittur sé styrkur fyrir mætingar lögmanns á fundi með barnaverndarnefnd Reykjavíkur 25. júní 2013 og funda með kæranda samtals 10,25 klst. Óljóst sé hvernig umrædd tala sé fengin enda verði ekki séð að svo langur tími hafi farið í fundi með kæranda og fundi með barnaverndarstarfsmönnum og barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Samkvæmt talningu lögmanns sé um sex klst. að ræða, fundi 30. júlí 2013, 22. júlí 2013, 25. júní 2013 og 20. júní 2013. Líklegast hafi starfsmaður barnaverndar víxlað tímaskráningu fyrir fundi og tímaskráningu vegna símtala og tölvupósta, en samkvæmt skráningu sé veittur styrkur vegna þess sex klst.

 

Veittur sé styrkur vegna tölvupóstsamskipta og símtala eingöngu í sex klst. Sú tímaskráning sé fráleit. Nauðsynlegt sé fyrir lögmann að hafa samráð við umbjóðanda sinn á meðan meðferð máls standi, sérstaklega í tengslum við meðferð máls fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Lögmaður sem ekki viðhafi slíkt samráð við umbjóðanda sinn væri með því að brjóta í bága við siðareglur lögmanna og hugsanlega einnig lög um lögmenn. Tölvupóstsamskipti og símtöl hafi verið veruleg á þessu tímabili, í mörgum tilvikum að frumkvæði starfsmanna barnaverndar. Væri eðlilegt ef slík samskipti væru ekki greidd að viðkomandi starfsmaður tilkynni lögmanni það, ómögulegt sé fyrir lögmann að gera annað en að viðhafa þessi samskipti. Þegar lögmaður hafi ekki gögn málsins fyrir framan sig við meðferð þess sé einnig enn meiri þörf á því að hann þurfi að ræða við umbjóðanda sinn í gegnum síma eða tölvupóst og afla upplýsinga frá starfsmönnum barnaverndar. Gerð sé krafa um að fjárstyrkur vegna símtala og tölvupóstsamskipta við starfsmenn barnaverndar, kæranda og aðra sem málinu tengjast verði 14,15 klst. í samræmi við tímaskýrslu lögmanns.

 

Ekki eru gerðar athugasemdir við styrk vegna samskipta við kærunefnd barnaverndarmála, samtals 0,75 klst., og styrk vegna yfirlesturs gagna í húsnæði barnaverndar 27. maí 2013, ein klst. vegna fundar 28. maí 2013.

 

Bent er á að kærandi hafi ekki verið á vinnumarkaði undanfarin ár, meðal annars vegna mikilla veikinda dóttur sinnar, B, auk þess sem hún eigi tvö önnur börn sem einnig hafi þurft að sinna. Augljóst sé að hún hafi ekki fjárráð til þess að standa straum af lögmannskostnaði í máli þessu. Hafi það veruleg áhrif á fjárhag hennar þurfi hún að greiða lögmanni sínum þóknun í þeim tilvikum sem beiðnum um fjárstyrk á grundvelli 47. gr. barnaverndarlaga sé hafnað.

 

III. Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

 

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 14. október 2013 kemur fram afstaða til krafna kæranda fyrir kærunefndinni um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar.

 

Fram kemur að kærandi hafi óskað eftir styrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna tímabilsins frá 14. maí til 1. ágúst 2013, samtals 30,9 klst. Hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur tvisvar sinnum á tímabilinu, þ.e. 28. maí og 25. júní 2013. Aðeins hafi verið mæting í annað skiptið, þ.e. 25. júní. Ákveðið hafi verið að lokinni athugun á tímaskýrslu lögmannsstofunnar, umfangi málsins og gögnum og í samræmi við 47. gr. barnaverndarlaga að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur samtals 23 klst. á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts.

 

Varðandi greinargerðaskrif hafi mátt lesa af tímaskýrslu lögmanns að unnar hefðu verið sjö klst. vegna þess, en ekki níu klst. líkt og lögmaður bendi á í bréfi sínu 23. september 2013. Af bréfi lögmanns megi ráða að hann telji að barnavernd hafi ekki tekið tillit til skoðunar gagna. Er því mótmælt enda hafi þær ferðir væntanlega verið skráðar sem fundir í tímaskýrslu lögmanns og hafi verið greitt vegna þess.

 

Ekki hafi verið mæting á fund nefndarinnar 28. maí 2013. Kærandi hafi mætt ásamt lögmanni sínum á fund nefndarinnar 25. júní 2013 og hafi lögmaðurinn lagt fram greinargerðir á þeim fundi. Hafi verið ákveðið að veita kæranda fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar fyrir þessa vinnu sem nemi fimm klst. í stað sjö klst., á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts. Var það mat meðal annars byggt á því að lögmaður kæranda þekkti málið mjög vel enda búinn að vera lengi með aðkomu að því og mæta ítrekað á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur og kæra það til Hæstaréttar.

 

Barnavernd Reykjavíkur bendir á að í kæru lögmanns til kærunefndar barnaverndarmála 17. september 2013 komi fram sú skoðun lögmannsins að barnaverndin beri ábyrgð á því að lögmaður þurfi að skoða öll gögn á starfsstöð barnaverndar og þurfi þar með að greiða fyrir það óhagræði sem verði af því, þ.m.t. lengri tíma sem fari í greinagerðaskrif en ella. Barnavernd Reykjavíkur vísar þessu á bug og bendir á að það fyrirkomulag sem nú sé viðhaft sé byggt á 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga sem kveði á um að barnaverndarnefnd geti takmarkað aðgang aðila að gögnum með rökstuddum úrskurði. Í kjölfar þess að lögmaður og kærandi hafi birt viðkvæmar persónu- og heilsufarsupplýsingar um dætur kæranda á Netinu hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur úrskurðað á grundvelli 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga 16. október 2012. Hafi það verið mat nefndarinnar að brotið hafi verið gróflega á rétti barnanna til friðhelgi einkalífs og hafi það verið niðurstaðan að kæranda og lögmönnum hennar yrði aðeins unnt að kynna sér gögn máls dætranna á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur undir eftirliti og óheimilt yrði að afhenda þeim ljósrit gagna. Hafi úrskurðurinn verið staðfestur af kærunefnd barnaverndarmála 10. apríl 2013.

 

Krafa kæranda um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna mætinga lögmanns á fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 25. júní 2013 og funda með kæranda samkvæmt tímaskýrslu vegna 10,25 klst. var samþykkt.

 

Barnavernd Reykjavíkur ákvað að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur sex klst. vegna tölvupósta og símtala, en samkvæmt tímaskýrslu lögmanns eru tilteknar 12,5 klst. í þennan þátt. Hafi það mat barnaverndar byggst á því að matskennt sé hve langur tími fari í að semja tölvupósta og í símtöl. Auk þess fjalli margir tölvupóstanna um meðlags- og húsnæðismál kæranda og er bent á að samkvæmt 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar skuli veita fjárstyrk vegna málsmeðferðar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur áður en nefndin kveður upp úrskurð. Veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar, þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Eftir að hafa skoðað þau tölvupóstsamskipti sem vísað hafi verið til í tímaskýrslu hafi það engu að síður verið mat lögfræðinga Barnaverndar Reykjavíkur að koma til móts við kæranda og rýmka reglur um styrkveitingar eins og hægt væri og veita henni styrk sem svaraði sex klst. vegna símtala og tölvupósta.

 

Barnavernd Reykjavíkur fellst á að greiða kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 0,75 klst. vegna samskipta við kærunefnd barnaverndarmála.

 

Barnavernd Reykjavíkur fellst á að greiða kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur einni klst. vegna lesturs gagna.

 

Barnavernd Reykjavíkur bendir á að frá 1. febrúar 2012 og til 11. september 2013 hafi verið samþykkt að styrkja kæranda á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga til greiðslu 215,25 klst. á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts sem nemi rúmlega 2.700.000 krónum. Barnavernd Reykjavíkur ítrekar að skylda til styrkveitinga samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga sé bundin við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd áður en nefndin kveði upp úrskurð og einnig í tengslum við málsmeðferð fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem barnaverndarnefnd setur. Þá beri að hafa í huga að barnaverndarnefnd Reykjavíkur skuli gæta jafnræðis við ákvörðunartöku varðandi styrkveitingar og sé því ekki unnt að halda því fram að barnaverndarnefndinni beri að greiða án athugasemda þá reikninga frá lögmannsstofum sem berist heldur verði að meta umfang og eðli máls hverju sinni. Fyrrgreindur styrkur sé í samræmi við reglur um styrkveitingar þó þannig að reglurnar hafi verið túlkaðar eins rúmt og hægt sé vegna eðlis máls og umfangs þess. Hafi verið leitast við að koma til móts við kæranda með hagsmuni dætra hennar að leiðarljósi og í raun verið greitt umfram skyldu ef miðað sé við sambærileg mál.

 

 

 

IV. Forsendur og niðurstaða

 

Kærandi krefst þess að hnekkt verði ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur samkvæmt bréfi frá 11. september 2013 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar, en Barnavernd Reykjavíkur ákvarðaði lögmanni færri tíma en kærandi telur að séu að baki vinnu lögmannsins í málinu.

 

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þ.m.t. með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð sinn. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur.

 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur samþykkti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga, 27. maí 2008. Samkvæmt 1. gr. reglnanna veitir barnaverndarnefnd Reykjavíkur foreldrum fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en nefndin kveður upp úrskurð. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fundi nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum.

 

Samkvæmt 4. gr. reglnanna skulu foreldrar velja sér sjálfir lögmann. Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um að með beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli fylgja tímaskýrsla lögmannsins. Fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skuli tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Viðmiðunargjald er ákveðið af framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur í samráði við lögfræðinga nefndarinnar.


 

Í tímaskýrslu lögmanna kæranda eru skráðar sjö klst. vegna vinnu við greinargerð sem lögð var fram á fundi hjá barnaverndarnefnd 25. júní 2013 og tvær klst. vegna ferðar til skoðunar gagna hjá barnaverndarnefndinni sem var samkvæmt því sem fram kemur í tímaskýrslunni 24. júní s.á. Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 14. október 2013 kemur fram að aðeins hafi verið samþykktar fimm klst. vegna greinargerðarskrifa en vegna funda voru samþykktar 10,25 klst., þar af tvær klst. vegna ferðar í Barnavernd Reykjavíkur 24. júní s.á. Af tímaskýrslunni verður ráðið að tímafjöldi fyrir fundi, sem lagður var til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun, er í samræmi við tímaskýrslu lögmann­anna.

 

Vísað er til þess af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur að tímafjöldinn vegna greinargerðarinnar hafi verið ákveðinn með tilliti til tímaskýrslu lögmannanna, umfangi málsins og gögnum. Þá kemur fram í tímaskýrslunni að tvær klst. daginn fyrir fundinn hjá barnaverndar­nefndinni 25. júní síðastliðinn hafi auk frágangs á greinargerðinni farið í að undirbúa fundinn. Með hliðsjón af þessu verður að telja að tímafjöldi vegna greinargerðar lögmanna, funda og undirbúnings þeirra hafi verið ákveðinn í samræmi við reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga.

 

Af hálfu kæranda er talið að tímafjöldi vegna símtala og tölvupóstsamskipta hafi verið vanáætlaður með hinni kærðu ákvörðun en hann var ákveðinn sex klst. Vísað er til þess af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur að metið hafi verið hve langur tími fari í að semja tölvupóst og í símtöl. Auk þess fjalli margir tölvupóstanna um meðlags- og húsnæðismál kæranda en ekki sé veittur fjárstyrkur til þeirra verka samkvæmt reglunum. Tímaskýrsla lögmannanna staðfestir að skráðir hafa verið tímar sem barnaverndin vísar þarna til og eru vegna verka sem ekki er gert ráð fyrir að fjárstyrkur nái til samkvæmt reglunum. Með vísan til þessa verður að telja að tímafjöldi vegna tölvupósta og símtala hafi verið hæfilega ákveðinn í hinni kærðu ákvörðun.

 

Engar athugasemdir eru gerðar af hálfu kæranda vegna ákvörðunar um styrk vegna samskipta við kærunefnd barnaverndarmála eða lestur gagna vegna fundar 28. maí sl.

 

Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að fella hina kærðu ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur úr gildi eins og kærandi krefst. Með vísan til þess er hún staðfest.

 


 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi 11. september 2013, um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna meðferðar máls kæranda, A, fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er staðfest.

 

                            

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira