Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 20/2013.

Kröfu kæranda um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna sonar hans var synjað skv. 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

 

 

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

Miðvikudaginn 11. desember 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 20/2013, A gegn barnaverndarnefnd Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu. Málið varðar tilkynningu til barnaverndarnefndar undir nafnleynd vegna sonar kæranda, B. Upp var kveðinn svofelldur

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi 9. október 2013 kærði Leifur Runólfsson hdl., fyrir hönd A, ákvörðun barnaverndarnefndar Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu frá 20. september 2013 um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar til nefndarinnar.

 

Barnaverndarnefndin hafði áður tekið ákvörðun um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar, sem barst starfsmanni nefndarinnar, er varðaði son kæranda, B, en sú ákvörðun var tekin 18. apríl 2013. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar barnaverndarmála sem taldi með úrskurði 21. ágúst 2013 að viðhlítandi rökstuðning skorti fyrir ákvörðuninni og felldi hana úr gildi.

 

Með hinni kærðu ákvörðun tók barnaverndarnefndin mál kæranda fyrir að nýju í kjölfar úrskurðar kærunefndarinnar frá 21. ágúst 2013 og hafnaði kröfu kæranda um að aflétta nafnleynd vegna tilkynningarinnar. 

 

Kærandi krefst þess að nafnleyndinni verði aflétt.

 

Af hálfu barnaverndarnefndar Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu kemur fram að virða beri ósk tilkynnanda um nafnleynd með vísan til 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og hafnar því að nafnleyndinni verði aflétt.

 

I

Helstu málavextir

 

Félagsmálastjóra Stranda- og Reykhólahrepps barst tilkynning undir nafnleynd 14. mars 2013 varðandi drenginn B. Í tilkynningunni kom fram að drengurinn byggi við andlegt og tilfinningalegt ofbeldi á heimili sínu. Talað væri með niðurlægjandi hætti til hans og hann kallaður nöfnum. Foreldrar hans segi við hann að hann borði of mikið og sé feitur. Enn fremur hafi hann verið spurður hvort hann væri aumingi. Félagsmálastjóri kannaði málið og taldi að könnunin hefði ekkert leitt í ljós er ýtti undir efni barnaverndartilkynningarinnar og því væri ekki þörf á frekari afskiptum á grundvelli barnaverndarlaga vegna málsins.

 

Barnaverndarnefnd Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu staðfesti ákvörðun félagsmálastjórans á fundi 11. júní 2013. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar barnaverndarmála.

 

Í niðurstöðu úrskurðar kærunefndarinnar frá 21. ágúst 2013 segir að ekki komi fram í hinni kærðu ákvörðun félagsmálastjóra, sem staðfest var af barnaverndarnefnd Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu, viðhlítandi rökstuðningur fyrir mati á því að ekki væru sérstakar ástæður fyrir hendi til að aflétta nafnleyndinni. Bent var á að í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri fjallað um efni rökstuðnings ákvarðana stjórnvalda. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar beri í rökstuðningi fyrir ákvörðun að greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við mat stjórnvaldsins. Þar sem þessa hafi ekki verið gætt af hálfu barnaverndarnefndarinnar var hin kærða ákvörðun felld úr gildi með úrskurðinum og málinu  vísað til nýrrar meðferðar barnaverndarnefndar Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga.

 

Barnaverndarnefndin tók málið aftur til meðferðar í kjölfar úrskurðarins og tók á ný ákvörðun í því 20. september 2013 sem hefur verið kærð til kærunefndar barnaverndarmála og er hér til meðferðar eins og fram hefur komið.

 

 

 

 


 

II

Sjónarmið kæranda

 

Kærandi bendir á að nafnleynd geti eingöngu náð til einstaklinga sem tilkynni samkvæmt 16. gr. barnaverndarlaga. Komi því einungis til greina einstaklingar, en ekki starfsmenn stofnana, svo sem skóla. Í 19. gr. barnaverndarlaga sé vissulega farin sú leið að byggja á nafnleynd tilkynnanda sem aðalreglu. Það byggist á því að sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi vegi þyngst þeirra sjónarmiða sem upp séu talin í frumvarpi til barnaverndarlaga. En sé ætlað að tilkynnandi hafi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu vísvitandi, séu sterk rök sem mæli með því að aflétta nafnleynd, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd.

 

Kærandi telji allar líkur á að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri tilkynningu. Þar geti ýmsar ástæður legið að baki. Kærandi búi í fámennu sveitarfélagi. Hann standi í málarekstri fyrir dómstólum við sveitunga sinn vegna deilna um landamerki á milli tveggja jarða. Vissulega hafi sveitungar hans skoðanir á þessum málarekstri hans. Sumir standi með honum og aðrir á móti honum. Kærandi hafi einnig verið óhræddur við að tjá skoðanir sínar í gegnum tíðina, svo sem stjórnmálaskoðanir.

Kærandi bendir á að sé tilkynning til stjórnvalds röng í meginatriðum geti það verið refsivert samkvæmt XV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt bréfi félagsmálastjórans hafi könnunin ekkert leitt í ljós sem ýtt hafi undir efni tilkynningarinnar. Megi því ætla að um hafi verið að ræða ranga tilkynningu í meginatriðum frá tilkynnanda. Það sé því nauðsynlegt fyrir kæranda að fá það á hreint hver hafi borið ábyrgð á tilkynningunni svo að hann geti ákveðið hvort að tilefni sé til að kæra hina röngu tilkynningu til lögreglu. Því sé farið fram á að nafnleynd verði aflétt hið fyrsta, enda hafi tilkynningin ekki átt við nein rök að styðjast.

 

Markmið barnaverndar sé ekki að standa vörð um þá sem gefi vísvitandi rangar eða villandi tilkynningar um aðbúnað og aðstæður barna. Það sé mjög svo íþyngjandi fyrir áberandi mann í fámennu samfélagi að geta ekki varist röngum ásökunum um meðal annars aðbúnað og aðstæður barna hans. Kæranda sé umhugað um heilsu og hag barna sinna. Honum sé jafnframt umhugað um mannorð sitt og sinnar fjölskyldu. Þrátt fyrir að auðveldara væri fyrir kæranda að láta mál þetta kyrrt liggja, telji hann nauðsynlegt að bregðast við þegar hann sé sakaður um svo alvarlegan hlut sem tilkynningu þessa. Þegar ráðist sé að aðila með svona lágkúrulegum hætti verði að bregðast við. Það sé honum, fjölskyldu hans og börnum fyrir bestu. Því sé það ólíðandi að aðili geti komið höggstað á heila fjölskyldu og falið sig á bak við nafnleynd. Það sé engum til góðs.

 

Kærandi telur að uppfyllt séu lagaleg skilyrði til að aflétta nafnleynd tilkynnanda, enda sé ljóst að hér hafi verið um vísvitandi ranga tilkynningu að ræða eða í besta falli mjög svo villandi tilkynningu frá tilkynnanda til barnaverndarnefndar til þess eins gerð að koma höggstað á kæranda og hans fjölskyldu.

 

 

III

Sjónarmið barnaverndarnefndar Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu

 

Af hálfu barnaverndarnefndar kemur fram í greinargerð 28. október 2013 að þáverandi félagsmálastjóra á Reykhólum hafi borist tilkynning þess efnis að B byggi við andlegt og tilfinningalegt ofbeldi á heimili sínu. Foreldrar töluðu niðurlægjandi til hans, kölluðu hann nöfnum og fleira. Félagsmálastjórinn hóf könnun málsins, ræddi við drenginn og við foreldra hans og fékk upplýsingar frá skóla og heilsugæslu. Drengurinn viðurkenndi að móðir hans hefði einu sinni kallað hann feitan og að honum liði ekki vel á heimili sínu vegna ósamkomulags milli móður hans og eldri systur. Ekkert hafi komið fram frá skóla eða heilsugæslu sem bent hafi til að drengurinn sætti vanrækslu. Foreldra hafi grunað að tilkynnandi væri heimilismaður en í bréfi til foreldra sem sent hafi verið 18. apríl 2013 hafi þeim verið tjáð að svo væri ekki.

 

Í greinargerðinni kemur enn fremur fram að tilkynnandi þekki til á heimili fjölskyldunnar og hafi að sögn fyrrverandi félagsmálastjóra verið trúverðugur. Ekki hefði verið tekið við tilkynningunni hefði svo ekki verið. Núverandi félagsmálastjóri hafi nýverið haft samband við tilkynnanda og spurt frekar út í efni tilkynningarinnar. Hafi tilkynnandi sagt að hann hefði heyrt móður segja við drenginn að hann væri of feitur og að hann mætti ekki borða eitthvað vegna þess. Einnig hafi hún spurt hann hvort eitthvað væri að honum og sagt að hann gerði ekkert rétt þegar honum hafi orðið á smávægilega mistök. Tilkynnandi hafi sagt að drengurinn hefði verið niðurlútur og dapur á eftir.

 

Þá kemur fram í greinargerðinni að þáverandi félagsmálastjóri hafi ákveðið að tala fyrst við drenginn til þess að foreldrar fengju ekki tækifæri til þess að hafa áhrif á framburð hans. Alltaf megi deila um slíka málsmeðferð og erfitt sé að vinna slík mál í jafn litlu samfélagi og Reykhólar séu án þess að einhverjir fái vitneskju um. Ekki sé hægt að líta framhjá því að drengurinn hafi viðurkennt fyrir þáverandi félagsmálastjóra að móðir hans hafi einu sinni kallað hann feitan og að honum liði ekki vel heima vegna ósamkomulags á heimilinu. Samt hafi verið ákveðið að láta málið niður falla og ekki talin ástæða til frekari vinnslu við það.

 

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að í 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segi að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Í 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga komi fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

 

Í athugasemdum við 19. gr. laganna í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til barnaverndarlaga sé því nánar lýst að tvö sjónarmið vegist á varðandi nafnleynd tilkynnanda. Annars vegar komi til skoðunar sjónarmið um réttláta málsmeðferð, þar sem upplýsingar um hver hafi tilkynnt um ófullnægjandi aðbúnað barns geti skipt máli svo andmælaréttur þess sem tilkynning beinist að verði virtur. Hins vegar komi til skoðunar sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi þar sem síður megi gera ráð fyrir að tilkynningar berist ef nafnleynd sé ekki virt. Hafi síðarnefnda sjónarmiðið verið lagt til grundvallar í núgildandi barnaverndarlögum, þó þannig að unnt sé að aflétta nafnleynd tilkynnanda ef sérstakar ástæður mæli gegn því að hún verði virt. Þegar ekkert hafi komið í ljós sem ýtt hafi undir efni tilkynningarinnar hafi ekki verið talin þörf á frekari afskiptum. Þótt könnun hafi lokið með þessum hætti án þess að taka þyrfti ákvörðun um sérstök úrræði samkvæmt barnaverndarlögum verði slíkt ekki talið til marks um að með tilkynningunni hafi tilkynnandi komið á framfæri vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum.

 

Í áðurnefndri greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að nefndin telji ástæðu til að virða nafnleyndina. Tilkynnandi hafi verið trúverðugur og beri hag drengsins fyrir brjósti. Nefndin telji ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu. Barnaverndarnefnd Húnaþings vestra hafnar því að aflétta nafnleynd í málinu.

 

IV

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.  Í 2. mgr. 19. gr. laganna kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

 

Í athugasemdum við 19. gr. sem fylgdi frumvarpi til barnaverndarlaga er því nánar lýst að tvö sjónarmið vegist á varðandi nafnleynd tilkynnanda. Annars vegar komi til skoðunar sjónarmið um réttláta málsmeðferð, þar sem upplýsingar um hver hafi tilkynnt um ófullnægjandi aðbúnað barns geti skipt máli svo andmælaréttur þess sem tilkynning beinist að verði virtur. Hins vegar komi til skoðunar sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi þar sem síður megi gera ráð fyrir að tilkynningar berist ef nafnleynd er ekki virt. Var síðarnefnda sjónarmiðið lagt til grundvallar í núgildandi barnaverndarlögum, þó þannig að unnt er að aflétta nafnleynd tilkynnanda ef sérstakar ástæður mæla gegn því að hún verði virt.

 

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um grun um óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndarnefnd að hefja könnun máls og komast til botns í því hvort sá grunur sé á rökum reistur. Könnun í máli því sem hér hefur verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu hófst í kjölfar tilkynningar er barst um andlegt og tilfinningalegt ofbeldi gagnvart syni kæranda sem hann hefði orðið fyrir á heimili sínu. Rætt var við þá sem taldir voru geta varpað ljósi á málið og enn fremur var aflað upplýsinga hjá Reykhólaskóla og heilsugæslu um drenginn. 

 

Við könnun málsins, sem fram fór af hálfu barnaverndarnefndarinnar, kom ekkert fram sem réttilega verður metið þannig að kærandi hafi sérstaka hagsmuni af því að nafnleynd verði aflétt. Kærandi var af hálfu nefndarinnar upplýstur um efni tilkynningarinnar þótt nafnleyndar væri gætt. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bent gæti til að tilkynningin ætti ekki við nein rök að styðjast. Barnaverndar­nefndin taldi að þrátt fyrir að málið hefði verið fellt niður að könnun lokinni yrði það ekki haft til marks um að með tilkynningunni hefði verið komið á framfæri vísvitandi eða villandi upplýsingum.

 

Með vísan til þessa verður ekki talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem mæli gegn því að nafnleyndin verði virt. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til að aflétta nafnleyndinni á grundvelli 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga.  


 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun barnaverndarnefndar Húnaþings vestra og héraðsnefndar Strandasýslu þess efnis að synja kröfu A um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna sonar hans, B, er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

Guðfinna Eydal                     Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira