Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 323/2ö16

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 323/2016

Föstudaginn 4. nóvember 2016

A og B

gegn

Barnaverndarnefnd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru 30. ágúst 2016, kærði D hdl., fyrir hönd A, og B, bæði til heimilis að E, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar C um að aflétta ekki nafnleynd vegna tilkynningar til Barnaverndar C.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Þann X 2016 barst Barnavernd C tilkynning vegna barns kærenda, F. Á tilkynningarblaði kemur fram að tilkynnandi telji að móðir drengsins hafi verið í mikilli neyslu á sterkum verkjalyfjum um árabil og sé enn. Fram kemur að tilkynnandi hafi óskað nafnleyndar. Barnavernd C ákvað að hefja könnun málsins samkvæmt 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) og voru kærendur boðaðir í viðtal X 2016. Þá var aflað umsagna, auk þess sem kærandi B fór í lyfjaleit.

Að könnun lokinni var talið að ekki væri ástæða til aðgerða og var ákvörðun tekin um að loka málinu. Með bréfi nefndarinnar 28. júní 2016 var kærendum tilkynnt að ekki væri ástæða til frekari afskipta og að málinu hafi því verið lokað af hálfu Barnaverndar C. Þann 4. ágúst 2016 óskuðu kærendur þess að nafnleynd yrði aflétt en beiðni þeirra var hafnað með hinni kærðu ákvörðun 8. ágúst 2016.

Í ákvörðun Barnaverndarnefndar C frá 8. ágúst 2016 kemur eftirfarandi fram, auk þess sem þar var bent á kæruheimild:

„Barnavernd C ber að virða ósk tilkynnenda um nafnleynd nema sérstakar ástæður mæli gegn því sbr. 19. gr. barnaverndarlaga. Tilgangur nafnleyndar tilkynnenda er að tryggja virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Jafnframt vísar löggjafinn til þess sjónarmiðs að verði tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hag barna þó full þörf væri á afskiptum hennar.

Í þessu tilviki liggur ekki fyrir grunur um að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi tilkynningu þannig að ástæða sé til þess að grípa til refsiákvæða barnaverndarlaga.

Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að það sé umbj. þínum mikilvægt að vita hver tilkynnandi er verður ekki talið að fyrir hendi séu aðstæður til þess að aflétta megi nafnleynd“

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að nafnleynd vegna ofangreindrar tilkynningar verði aflétt.

Í kæru kemur fram að í kjölfar tilkynningar hafi Barnavernd C boðað kærendur í viðtal, óskað hafi verið eftir upplýsingum frá Landspítala og Heilsugæslunni G, auk þess sem kærandi B fór í lyfjaleit. Í öllum tilvikum hafi borist þau svör að engin grunur væri um misnotkun lyfja, hvorki fyrir, á eða eftir meðgöngu. Í umsögn Heilsugæslunnar G hafi meðal annars komið fram að þvert á móti virtust kærendur vera „mjög umhyggjumsöm og ábyrgir foreldrar.“ Þá hafi komið fram að samskipti við kærendur hefðu verið með miklum ágætum og hið sama ætti við um aðbúnað barnsins samkvæmt heimavitjun hjúkrunarfræðings. Hið sama hefði komið fram í umsögn Landspítalans, þ.e. að samskipti við kærendur hefðu verið góð og engar grunsemdir um neitt ólöglegt. Þá hafi komið fram að þau lyf sem kærandi B hefði fengið á meðgöngu hefðu verið lyf sem hún fékk ávísuð á göngudeild mæðraverndar og engin ástæða væri til að ætla að hún hefði misnotað ávanabindandi lyf. Niðurstaða lyfjaleitar sem fór fram X 2016 hafi einnig verið neikvæð. Niðurstöður könnunar hafi því verið ótvíræðar. Ekkert hafi komið fram sem bent hafi til þess að móðir hefði misnotað lyf eða aðbúnaður barnsins væri með einhverjum hætti ekki eins og best verði á kosið.

Kærendur byggja kröfu sína um að nafnleynd verði aflétt einkum á því að um tilhæfulausa tilkynningu hafi verið að ræða og þær upplýsingar sem tilkynnandi veitti hafi beinlínis verið rangar og villandi.

Kærendur vísa til þess að árið 1997 hafi félagsmálaráðherra skipað nefnd sem hafi fengið það hlutverk að semja frumvarp það sem varð að barnaverndarlögum nr. 80/2002. Í nefndinni hafi setið fjölmargir sérfróðir aðilar á sviði barnaréttar og stjórnsýsluréttar. Nefndin hafi meðal annars lagt til að horfið yrði frá þeirri meginreglu að sá sem tilkynnti til barnaverndarnefndar ætti rétt á nafnleynd. Nefndin hafi þvert á móti lagt til að meginreglan yrði sú að aðilar ættu ekki rétt á nafnleynd nema sérstakar ástæður mæltu með því. Það hafi verið talið í samræmi við almenn viðhorf í stjórnsýslurétti um opna málsmeðferð hjá stjórnvöldum og í góðu samræmi við vandaða og réttláta stjórnsýslu.

Þrátt fyrir framangreint hafi verið farin sú leið að byggja á þeirri meginreglu að tilkynnandi skyldi njóta nafnleyndar, enda óskaði hann þess, sbr. 19. gr. bvl. Þótt þetta ákvæði feli í sér tiltekna meginreglu varðandi nafnleynd tilkynnanda í barnaverndarmálum verði hins vegar að hafa það í huga að ákvæðið feli jafnframt í sér undanþágu frá almennum meginreglum íslensks stjórnsýsluréttar, sem ofangreind nefnd hafi vísað til í tillögu sinni, og beri því að túlka ákvæðið þröngt með hliðsjón af því.

Sú nafnleynd sem kveðið sé á um í 2. mgr. 19. gr. bvl. hafi verið talin nauðsynleg til þess að tryggja virkni og árangur í barnaverndarstarfi. Þannig sé nauðsynlegt að tryggja nafnleynd tilkynnenda til þess að stuðla að því að upplýsingar um aðbúnað barna berist greiðlega til barnaverndarnefndar. Á hinn bóginn beri að gæta þess eftir því sem er kostur að ákvæðið verði ekki vopn í höndum aðila sem hafi það eitt að markmiði að valda öðrum skaða og vanlíðan, enda sé það ekki tilgangur laganna að gera fólki kleift að brjóta gegn hagsmunum annarra, t.d. með ærumeiðandi tilkynningum í skjóli nafnleyndar. Af þeim sökum geti barnaverndarnefnd til dæmis ákveðið að aflétta nafnleynd ef rökstuddur grunur er um það að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu til nefndarinnar, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um meðferð barnaverndarmála.

Lögin geri þannig ráð fyrir þeirri meginreglu að tilkynnandi skuli njóta nafnleyndar, en þó með þeim fyrirvara að réttur aðila máls geti staðið til þess að fá nafnleynd aflétt að tilteknum skilyrðum uppfylltum, t.d. ef líkur standi til þess að tilgangur tilkynningar hafi raunverulega verið sá að valda aðilum máls skaða frekar en að gæta hagsmuna viðkomandi barns.

Kærendur hafi hafnað því í viðtali barnaverndarnefndar að þau væru í miklu áfalli yfir því að slík tilkynning hefði borist og upplýst strax um þann grun sinn að illur hugur stæði að baki tilkynningunni, enda væri hún með öllu tilhæfulaus og enginn fótur fyrir tilkynningarefninu. Eins og fram hafi komið staðfesti könnun barnaverndarnefndar framangreint um að tilkynningin hafi verið með öllu tilhæfulaus. Því komi til skoðunar hvort tilkynnandi hafi komið hinni tilhæfulausu tilkynningu á framfæri við Barnaverndarnefnd C gegn betri vitund.

Við eftirgrennslan kærenda um hver tilkynnandinn væri hafi þeim verið tjáð að tilkynnandi nyti nafnleyndar, en væri „það tengdur“ kærendum að barnaverndarnefnd teldi sér ekki stætt á öðru en að kanna málið nánar. Hvað sem öðru líði verði að minnsta kosti að ætla að tengsl tilkynnanda við kærendur séu slík að barnaverndarnefnd hafi mátt líta svo á að tilkynnandi hafi þekkt vel til aðstæðna kærenda, enda hefði að öðrum kosti vart geta talist rökstuddur grundur um að tilefni væri til þess að hefja könnun málsins. Þar sem tilkynnandi væri „nátengdur“ kærendum yrði að ganga út frá því að honum hafi verið ljóst það sem fram komi í gögnum málsins, þ.e. að ekki hafi verið um neina lyfjamisnotkun að ræða hjá kæranda B. Enn fremur verði að telja að tilkynnanda hafi mátt vera það full ljóst að aðbúnaður barnsins væri eins og best verði á kosið og ekkert tilefni hafi verið til að ætla nokkuð annað.

Að öllu framangreindu virtu standi allar líkur til þess að tilkynnandi hafi vísvitandi veitt rangar og villandi upplýsingar þegar hann sendi framangreinda tilkynningu til barnaverndarnefndar gegn betri vitund. Verði því að telja að skilyrði þess að aflétta nafnleynd séu uppfyllt, sbr. meðal annars 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd.

Kærendur taka fram að mál þetta hafi reynst þeim verulega þungbært og valdið fjölskyldunni mikilli vanlíðan, ekki síst kæranda B. Kærendur eigi eitt barn saman en samanlagt eigi þau átta börn. Þau kveðast aldrei áður hafa komið við sögu barnaverndarnefndar, hvorki í C né annars staðar. Kærendur telja að tilkynnandi hafi með aðdróttunum sínum gróflega brotið gegn æru kærenda sem og friðhelgi einkalífsins og heimilis þeirra. Aflétting nafnleyndar sé meðal annars forsenda þess að kærendur geti fyllilega gætt réttar síns í málinu.

Kærandi vísar til þeirra sjónarmiða sem Barnaverndarnefnd C kveðst leggja til grundvallar ákvörðun á því hvort hefja skuli könnun máls, þ.e. hversu alvarlegar ávirðingar komi fram í tilkynningu, hversu nákvæm tilkynningin sé, af hverju tilkynningin stafi og í hvaða aðstöðu tilkynnandi sé til að þekkja aðstæður. Aðilar máls séu sammála um að þær ávirðingar, sem fram hafi komið í tilkynningunni, hafi verið mjög alvarlegar. Þær hafi hins vegar verið rangar og verði því að telja ólíklegt að það sjónarmið hafi ráðið för með tilliti til þess að kærendur hafi fyrst verið boðuð til viðtals með bréfi 16. maí 2016, þ.e. rétt um mánuði eftir að tilkynningin barst. Þá hafi sú lýsing, sem fram komi í tilkynningunni til barnaverndarnefndarinnar, verið ónákvæm. Það hafi svo verið með öllu óljóst af hverju tilkynningin stafi, enda með öllu tilhæfulaus. Eftir standi að tilkynnandi hafi verið í góðri afstöðu til að þekkja aðstæður kærenda. Raunar hljóti tilkynnandi að hafa verið talinn í það góðri aðstöðu til að þekkja aðstæður að ákvörðun um að hefja könnun virtist aðallega hafa verið byggð á þessu atriði.

Kærendur hafna alfarið ummælum í greinargerð Barnaverndarnefndar C um að heilbrigðisstarfsmenn séu bundnir sama trúnaði og starfsmenn barnaverndarnefnda og því ætti könnun máls ekki að vera ærumeiðandi. Að mati kærenda verði þessi ummæli ekki skilin öðruvísi en svo að Barnaverndarnefnd C telji að það sé ekkert athugavert við það að senda barnaverndaryfirvöldum rangar og villandi tilkynningar þar sem barnaverndarstarfsmenn séu bundnir trúnaði. Að mati kærenda samhæfist staðhæfingin ekki gildandi lögum. Engar upplýsingar liggi fyrir um hverjir hafi fengið upplýsingar um könnun máls eftir að bréf voru send til Landspítalans og Heilsugæslunnar G. Það sé því með engu móti hægt að fullyrða að sömu trúnaðarskyldur hvíli á þeim og starfsmönnum barnaverndar.

Kærendur ítreka að þeim hafi verið tjáð af starfsmanni Barnaverndar C að tilkynnandi væri „það tengdur“ kærendum að ekki hafi verið stætt á öðru en að kanna málið betur. Því hafni kærendur þeim málflutningi Barnaverndarnefndar C að um misskilning hafi verið að ræða.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar C

Í greinargerð Barnaverndarnefndar C 13. september 2016 kemur fram að X 2016 hafi borist tilkynning um vanrækslu ungabarns frá aðila sem hafi óskað nafnleyndar. Tilkynnt hafi verið um að móðir hafi verið í neyslu sterkra verkjalyfja um árabil og hafi nýverið eignast barn.

Ákvörðun um að hefja könnun máls sé ávallt tekin með hagsmuni barnsins í huga á grundvelli innihalds tilkynningar. Þau atriði sem skipti máli í því sambandi séu meðal annars hversu alvarlegar ávirðingar komi fram í tilkynningu, hversu nákvæm hún sé, af hverju tilkynningin stafi, í hvaða aðstöðu tilkynnandi sé til að þekkja aðstæður o.s.frv., sbr. frumvarp með bvl.

Tilkynningarefni í málinu hafi verið alvarlegt og barnið sem um ræði rétt rúmlega X gamalt og því enn einvörðungu í umsjá foreldra. Hafi því verið talin ástæða til þess að hefja könnun máls samkvæmt 5. mgr. 21. bvl.

Barnaverndarnefnd C starfi samkvæmt þeirri meginreglu að könnun máls gangi ekki lengra en þörf sé á hverju sinni. Í könnun hafi verið aflað upplýsinga frá foreldrum og heilbrigðisstarfsmönnum sem séu bundnir sama trúnaði og barnaverndarstarfsmenn. Könnun máls hjá barnavernd eigi því ekki vera ærumeiðandi fyrir þá foreldra þótt vissulega geti það ferli verið aðilum þungbært og séu starfsmenn meðvitaðir um það. Barnavernd C beri einnig að virða ósk tilkynnanda um nafnleynd nema sérstakar ástæður mæli gegn því, sbr. 19. gr. bvl.

Í 19. gr. bvl. sé farin sú leið að byggja á nafnleynd tilkynnanda sem aðalreglu. Það byggist á því að sjónarmið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi vegi þyngst þeirra sjónarmiða sem upp séu talin í frumvarpi til barnaverndarlaga. Nauðsynlegt sé að upplýsingar um aðbúnað barna berist greiðlega til barnaverndarnefndar. Sé tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd myndi það fæla þá frá því að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf væri á afskiptum hennar. Ákvæði um nafnleynd endurspegli sérstöðu barnaverndarmála innan stjórnsýslunnar, að börn séu ekki talin þess umkomin að gæta hagsmuna sinna sjálf með því að snúa sér til barnaverndaryfirvalda.

Barnaverndarnefnd C hafi ekki séð ástæðu til að ætla að tilkynnendur hafi vísvitandi ætlað sér að koma á framfæri rangri eða villandi tilkynningu eða hafi ætlað sér að valda hlutaðeigandi skaða. Í kæru hafi komið fram að starfsmaður barnaverndar hafi sagt foreldrum að tilkynnandi væri „það tengdur að barnaverndarnefnd teldi sér ekki stætt á öðru en að kanna málið nánar“. Um misskilning hafi verið að ræða sem rétt væri að leiðrétta. Starfsmaður barnaverndar hafi ekki tjáð sig um tilkynnanda eða hvort hann væri eða væri ekki tengdur foreldrum. Foreldrar hafi hins vegar verið þess fullviss að tilkynnandi væri þeim tengdur en starfsmaður hafi hvorki játað né neitað, enda megi hann ekki upplýsa foreldra um tilkynnanda. Það væri því ekki hægt að fullyrða, eins og gert væri í kæru, að tilkynnandi hafi þekkt til aðstæðna og vísvitandi gegn betri vitund sent barnaverndarnefnd tilkynningu um meinta lyfjamisnotkun móður.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Barnaverndarnefndar C þess efnis að hafna kröfu kærenda um að barnaverndarnefndin aflétti nafnleynd í tilefni af tilkynningum sem hefðu borist nefndinni.

Reglur um nafnleynd koma fram í 19. gr. bvl. Reglurnar tengjast reglum um tilkynningarskyldu sem fram koma í 16. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 16. gr. laganna er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Í 2. mgr. 19. gr. bvl. kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. laganna eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessi regla kemur einnig fram í 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Þar segir að fái barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Samkvæmt þessu er meginreglan sú að nafnleynd verðui ekki aflétt nema í þeim undantekningartilvikum að sérstakar ástæður séu fyrir því.

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um grun um óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndarnefnd að hefja ekki könnun máls nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til þess. Könnun í máli því, sem hér er til meðferðar hjá Barnavernd C, hófst í kjölfar tilkynningar er barst um lyfjanotkun kæranda B. Aflað var upplýsinga um aðbúnað barns kærenda og aðstæður kæranda B. Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að kærandi B hafi átt við krónísk veikindi að stríða og þurft að fá sterk verkjalyf samkvæmt læknisráði. Í viðtali Barnaverndar C við kærendur veittu þau einnig þær upplýsingar að kærandi hefði notað verkjalyf sem hún hafi fengið ávísuð frá lækni en þau hafi hún aldrei misnotað.

Með vísan til þess, sem fram hefur komið í málinu og hér að framan er rakið varðandi aðstæður kæranda B, verður ekki fallist á þær staðhæfingar kærenda að umræddar tilkynningar hafi verið tilhæfulausar, að þær eigi ekki við nein rök að styðjast eða að um rangar ásakanir eða ósannindi sé að ræða. Verður nafnleynd þar af leiðandi ekki aflétt með vísan til þess að komið hafi verið á framfæri villandi eða röngum tilkynningum til barnaverndarnefndarinnar. Þá liggur heldur ekki fyrir í málinu að aðrar sérstakar ástæður séu fyrir því að aflétta beri nafnleyndinni. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar C frá 8. ágúst 2016 um að synja kröfu kærenda, A og B, um að aflétta nafnleynd af tilkynningum varðandi aðstæður sonar þeirra, F, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira