Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 10/2011: Dómur frá 19. desember 2011

Félag háskólakennara gegn íslenska ríkinu vegna Háskóla Íslands.

Ár 2011, mánudaginn 19. desember, er í Félagsdómi í málinu nr. 10/2011.

Félag háskólakennara

gegn

íslenska ríkinu

vegna Háskóla Íslands

kveðinn upp svofelldur

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 14. nóvember sl.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Elín Blöndal og Inga Björg Hjaltadóttir.

 

Stefnandi er Félag háskólakennara, Háskólabíói við Hagatorg, Reykjavík.

 

Stefndi er íslenska ríkið vegna Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið gegn grein 1.5.6 í kjarasamningi Félags háskólakennara og Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með því að greiða ekki akademískum starfsmönnum Raunvísindastofnunar Háskólans yfirvinnulaun fyrir kennslu umfram vinnuskyldu. Þá krefst stefndi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati Félagsdóms.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara krefst stefndi þess að málskostnaður verði látinn niður falla.

           

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum á þann veg að um áratugaskeið hafi verið ráðnir til stofnana Háskóla Íslands svonefndir akademískir starfsmenn, þ.e. sérfræðingar, fræðimenn eða vísindamenn á sérsviði hverrar stofnunar, sem ráðnir séu til rannsókna- og fræðistarfa. Þessir starfsmenn hafi ekki kennsluskyldu við háskólann en einstakar deildir Háskólans hafi þó frá upphafi leitað til þeirra um að taka að sér kennslu. Til að byrja með hafi umfang slíkrar kennslu hjá hverjum og einum nánast verið án takmarka en snemma hafi verið sett mörk á fjölda þeirra kennslustunda, sem hverjum starfsmanni var heimilað að taka að sér, með vísan til þess að slík vinna hlyti að koma niður á öðrum starfsskyldum ef í óhófi væri.

Á árinu 2001 hafi verið sett þak á leyfilegar yfirvinnustundir í kennslu í stofnanasamningi Háskóla Íslands og Félags háskólakennara og laun fyrir þá yfirvinnu fastsett við tiltekinn launaflokk. Um kennslu hvers og eins akademísks starfsmanns hafi svo verið gert sérstakt samkomulag fyrir hvert skólaár eða misseri.

Hinn 4. febrúar 2010 hafi háskólaráð ákveðið einhliða og án fyrirvara að frá og með 1. júlí 2010 skyldi greitt fyrir kennslu akademískra starfsmanna samkvæmt svokölluðum stundakennarataxta. Stefnandi hafi mótmælt þessum breytingum þegar í júní 2010 og talið með því farið gegn kjarasamningum félagsins.

Á fundi samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál hinn 1. september 2010 hafi stefndi ítrekað mótmæli sín og lagt fram álit lögmanns BHM á málinu. Á fundi sömu aðila hinn 15. september hafi fulltrúar Háskóla Íslands tilkynnt að ákvörðun háskólaráðs stæði. Ákvörðunin hafi svo komið til framkvæmda og laun fyrir kennslu akademískra starfsmanna því verið lækkuð frá og með október 2010.

Í janúar 2011 hafi lögmaður stefnanda ritað Háskóla Íslands bréf þar sem skorað hafi verið á stefnda að draga ákvörðun sína til baka og leiðrétta kjör hlutaðeigandi. Því bréfi hafi verið svarað með bréfi, dagsettu 20. janúar 2011, þar sem því hafi verið mótmælt að um brot á kjarasamningi væri að ræða, heldur væru viðkomandi störf aukastörf, sem ekki væru hluti starfsskyldna starfsmanna stofnana Háskólans, og því væri Háskólanum heimilt að greiða fyrir þá vinnu að eigin ákvörðun. Var jafnframt á það bent að Háskóli Íslands ætti ekki aðild að stofnanasamningi Raunvísindastofnunar, sem sæi sjálf um launavinnslu starfsmanna sinna, án aðkomu Háskólans. Þrátt fyrir það hafi stefndi fallið að hluta frá ákvörðun sinni og greitt þessum starfsmönnum óskilgreinda „þóknun“ eða launauppbót meðfram stundakennslulaunum. Þær greiðslur séu þó ekki í samræmi við greiðsluskyldu stefnda samkvæmt kjarasamningi og við það verði ekki unað. Af þeim sökum sé stefnanda því nauðsynlegt að leita atbeina Félagsdóms í málinu.

Stefndi lýsir málavöxtum þannig, að tveir starfsmenn Háskóla Íslands hafi á háskólaráðsfundi 4. febrúar 2010 lagt fram tillögu um greiðslur fyrir stundakennslu stafsmanna, sem ekki eru í kennarastarfi, samkvæmt stundakennarataxta og hafi henni verið ætlað að gilda háskólaárið 2010-2011 og sæta endurskoðun vorið 2011. Háskólaráð hafi samþykkt tillöguna en beint því til samráðsnefndar um kjaramál að leitað yrði leiða til að umbuna stundakennurum sérstaklega fyrir undirbúning námskeiða sem þeir kenna í fyrsta skipti.

Stefndi kveður aðdraganda framangreindrar ákvörðunar hafa verið þann, að lengi hefði staðið til að leiðrétta og samræma greiðslur fyrir stundakennslu þannig að jafnræði gilti í þeim efnum. Ár hvert sé umtalsverð kennsla við Háskóla Íslands innt af hendi af stundakennurum en þeir séu mjög fjölbreyttur hópur og ýmist starfandi innan skólans, við tengdar stofnanir en ekki síst úr hinum ýmsu greinum atvinnulífsins. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands, sé það sammerkt öllum stundakennurum við skólann að þeir hafi ekki kennslu við skólann skilgreinda sem hluta af starfsskyldum sínum. Í öllum tilvikum sé því um að ræða aukastarf en ekki hluta af aðalstarfi viðkomandi. Um árabil hafi einstaklingum, sem ekki starfi í Háskóla Íslands og á tengdum stofnunum, verið greitt samkvæmt tilteknum stundakennaratöxtum, sem hafi verið ákvarðaðir af Háskóla Íslands. Fyrir einstaklinga, sem starfi í Háskóla Íslands og stofnunum tengdum honum, hafi annað fyrirkomulag verið við lýði. Þar hafi gætt ósamræmis og ójafnræðis, sem ákveðið hafi verið að leiðrétta. Ætlunin hafi verið að tillagan, sem lögð var fyrir háskólaráð, myndi gilda í eitt ár en að þeim tíma liðnum yrði hún endurskoðuð. Tillagan hafi verið samþykkt af háskólaráði í janúar 2010 en ekki tekið gildi fyrr en 1. júlí sama ár. Hafi þannig verið gefinn fyrirvari og aðlögun fyrir þá aðila, sem málið varðaði. Þeir sérfræðingar Raunvísindastofnunar, sem hér um ræði, hafi því haft tök á því að ákveða hvort þeir tækju að sér stundakennslu eða ekki, enda sé stundakennsla ekki hluti af starfsskyldum þeirra, heldur valkvætt aukastarf.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að um kaup og kjör akademískra starfsmanna Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands fari samkvæmt kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra og af þeim samningi sé stefndi bundinn nú sem á liðnum árum. Sá kjarasamningur, sem stefnandi vísi hér til, hafi verið gerður í apríl 2001 og hafi hann verið endurnýjaður með viðbótarsamningi í febrúar 2005. Samkvæmt samningnum skyldu áður undirritaðir kjarasamningar halda gildi sínu eftir því sem við ætti. Kjarasamningurinn hafi enn verið framlengdur með samkomulagi þar um í júní 2008. Til fyllingar þessum samningum hafi svo verið gerðir sérstakir stofnanasamningar, með vísan til 11. kafla fyrrgreindra samninga, þar á meðal sérstakur samningur Raunvísindastofnunar og stefnanda árið 2006.

Fyrsti kafli stofnanasamningsins beri yfirskriftina „Almennar forsendur“ og í gr. 1.1 sé fjallað um gildissvið hans. Samkvæmt því byggi stofnanasamningurinn á gr. 11.3 í kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólakennara frá 2005. Þá nái hann til allra starfsmanna Raunvísindastofnunar, sem njóti ráðningarkjara samkvæmt fyrrgreindum kjarasamningi. Sé sá skilningur í samræmi við efni 11. kafla kjarasamningsins frá 2005 en samkvæmt því sé stofnanasamningur hluti af kjarasamningi. Að mati stefnanda sé því ljóst að almennur kjarasamningur stefnanda, sbr. nýrri samninga til endurnýjunar þess samnings, sé sá samningur sem gildi um kjör þeirra starfsmanna, sem hér um ræði, að viðbættum stofnanasamningum sem gerðir séu við einstakar stofnanir Háskólans, t.d. Raunvísindastofnun. Stefnda sé því að mati stefnanda ekki tækt að byggja á því að stofnanasamningur Raunvísindastofnunar og stefnanda sé sjálfstæður og óháður hinum fyrrgreinda kjarasamningi og stefndi þannig óbundinn af ákvæðum hans.

Þá byggir stefnandi einnig á því að samkvæmt ráðningarsamningum þeirra starfsmanna, sem hér um ræði, sé til þessa kjarasamnings vísað sérstaklega og því fari um kjör þeirra samkvæmt fyrrgreindu. Kjarasamningurinn frá 2005 fjalli ekki um kennsluyfirvinnu en um hana sé hins vegar fjallað í ákvæði 1.5.6 í samningnum frá 2001, sem samkvæmt hinum síðari haldi gildi sínu, eftir því sem við eigi. Að mati stefnanda verði því að líta svo á að þau ákvæði, sem ekki hafi verið tekin upp í samninginn 2005, gildi samkvæmt efni sínu um kjör þeirra sem undir samninginn falli, þar á meðal starfsmenn Raunvísindastofnunar, enda sé ekki sérstaklega um yfirvinnu fjallað í þeim stofnanasamningi. Samningurinn frá 2001 standi honum þannig til fyllingar.

Ákvæði stofnanasamnings Raunvísindastofnunar er varða yfirvinnu séu annars vegar gr. 2.6., þar sem fjallað sé um þak á yfirvinnu, og laun sérfræðinga í yfirvinnu. Þar sé sett hámark á tímafjölda yfirvinnu starfsmanna samkvæmt sérstakri töflu og þá skuli launin nema 1,0385% af mánaðarlaunum viðkomandi launaflokks en þau skuli þó ekki vera hærri en í launaflokki L09 án álags. Í gr. 1.4. þessa samnings sé fjallað um álagsgreiðslur vegna tímabundinna verkefna en samkvæmt því komi slíkar greiðslur ekki í stað yfirvinnu. Að öðru leyti sé ekki um yfirvinnu fjallað í þessum stofnanasamningi og fari því um annað en þar greinir samkvæmt hinum almenna kjarasamningi aðila.

Jafnframt byggir stefnandi á því að starfsmenn Raunvísindastofnunar séu í raun starfsmenn Háskóla Íslands. Um Háskóla Íslands fari samkvæmt lögum nr. 85/2008, um opinbera háskóla. Reglur Háskóla Íslands nr. 569/2009 byggi á þeim lögum og skipulag hans sé í samræmi við þær. Samkvæmt 1. gr. þeirra reglna sé Háskóla Íslands skipt í fræðasvið, deildir og stofnanir sem heyra undir háskólaráð. Stofnanir háskólans heyri svo ýmist undir háskólaráð, fræðasvið eða háskóladeild eða lúti sérstökum lögum, sbr. 25. gr. Í samræmi við það heyri Raunvísindastofnun undir Raunvísindadeild Háskólans en hún skiptist í tvær undirstofnanir, Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun og Jarðvísindastofnun.

Um háskólastofnanir, hlutverk þeirra og skipulag, hvar þær skuli vistaðar og um fjárhagsmálefni þeirra sé fjallað sérstaklega í II. kafla fyrrgreindra reglna nr. 569/2009. Þessar stofnanir séu því ekki sjálfstæðar stofnanir óháðar Háskóla Íslands, heldur undir hann settar í regluverki hans sjálfs. Sem dæmi sé ákvörðunarvald um ráðningu akademískra starfsmanna hjá rektor, sem veiti þau störf og ráði framgangi þeirra í starfi samkvæmt 5. gr. Þá sé í III. kafla reglnanna nánar fjallað um þá starfsmenn, m.a. um starfsskyldur þeirra. Þá sé í bráðabirgðaákvæði reglna um Háskóla Íslands kveðið á um að tilgreindar reglur, sem háskólaráð hafi sett og varði stofnanir Háskóla Íslands, haldi gildi sínu, þar á meðal reglur nr. 398/2004, um Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Allt leiði þetta að sömu niðurstöðu, þ.e. að deildirnar séu hluti af sömu heild, Háskóla Íslands.

Samkvæmt þessu sé ljóst að Raunvísindastofnun háskólans hafi ekki slíkt sjálfstæði frá Háskóla Íslands að litið verði á deildina sem sérstaka og óháða stofnun, án nokkurra tengsla við Háskólann í því samhengi sem hér um ræði. Augljóst sé að stofnunin sé fyrst og fremst vettvangur rannsóknarstarfs á vegum Háskólans í raunvísinum og að starfsmenn hennar séu um leið starfsmenn Háskóla Íslands, enda liggi endanlegt ákvörðunarvald um ráðningu þeirra, sem hér um ræði, hjá rektor Háskóla Íslands en ekki stjórn stofnunarinnar. Háskóla Íslands sé því ekki tækt að líta svo á að starfskjör þessara starfsmanna varði hann engu vegna þess að þeir séu starfsmenn Raunvísindastofnunar sem geri við þá sérstaka kjarasamninga. Þá breyti það heldur engu í þessu sambandi, að launaseðlar stefnanda séu ýmist gefnir út í nafni Háskóla Íslands eða Raunvísindastofnunar.

Breyti heldur engu sú staðreynd að fræðimenn einstakra stofnana eins og Raunvísindastofnunar geri ráðningarsamninga við þær stofnanir en ekki Háskóla Íslands. Samkvæmt regluverki stefnda séu stofnanir Háskólans, þar á meðal Raunvísindastofnun, hluti hans og undir hann settar. Stefndi geti því af þeirri ástæðu ekki vikið sér undan skyldu sinni til að virða kjör starfsmanna Raunvísindastofnunar samkvæmt gildandi kjarasamningi.  

Enn fremur byggir stefnandi á því að stefndi hafi í verki um áratugaskeið virt þau kjör, sem hér sé þrætt um. Framkvæmdin hafi verið þannig að í upphafi skólaárs eða annar hafi verið gerð áætlun um fyrirhugaða kennslu sérfræðings og hafi áætlanirnar verið gerðar á formi samnings með yfirskriftina „Lausráðinn stundakennari við Háskóla Íslands“. Fyrir þessa kennslu hafi stefndi svo greitt sérstaklega umsaminn yfirvinnutaxta þar til í nóvember 2010. Eftir það hafi þeir starfsmenn, sem skilað hafi slíkri áætlun, ritað undir þær með fyrirvara um lögmæti þessarar lækkunar. Hvað samninga um þessa vinnu akademískra starfsmanna varðar, hafi þannig í raun ekkert breyst nema endurgjaldið. Hafi stefndi því í raun viðurkennt í verki að um þessar greiðslur skuli fara samkvæmt þeim kjarasamningi sem á er byggt. Einhliða ákvörðun hans um að frá því skuli horfið fái því ekki staðist.

Stefnandi byggir á því að um skýringu á ákvæðum samninga um kaup og kjör akademískra starfsmanna, hvað hið umþrætta ákvæði varðar, hafi og skapast venja, þannig að þeir skuli þiggja laun samkvæmt ákvæði 1.5.6 fyrir yfirvinnu. Þeirri venju verði ekki breytt með einhliða ákvörðun stefnda.

Loks byggir stefnandi á því að stefndi hafi í raun fallið frá ákvörðun sinni að hluta eða viðurkennt ólögmæti þessarar lækkunar með því að bæta við greiðslur fyrir þessa kennslu, þóknun að eigin ákvörðun hverju sinni. Sú staðreynd blasi við af framlögðum launaseðlum Ármanns Höskuldssonar vísindamanns að eftir hina umþrættu breytingu, eða strax í desember 2010, hafi stefndi greitt, umfram þann taxta sem Háskólaráð hafði ákveðið að gilti, fasta þóknun til þessara starfsmanna auk stundakennaralauna. Sú þóknun vegi þó ekki nægilega til þess að greiðslan fyrir kennsluna sé í samræmi við ákvæði kjarasamninga, en samkvæmt launaseðli, dagsettum 1. nóvember 2010, hafi heildargreiðslan með þóknun numið 366.317 krónum en samkvæmt réttum taxta ætti hún að nema 560.950 krónum. Samkvæmt þessu hafi Ármanni verið greidd 65,30% réttra launa fyrir yfirvinnu í október. Samkvæmt launaseðli, dagsettum 1. apríl 2011, hafi greiðsla til sama starfsmanns fyrir kennslu í nóvember 2010 numið 315.637 krónum en hefði átt að nema 560.950 krónum. Hafi hann því fengið liðlega 56% réttra launa fyrir þann mánuð. Engar skýringar hafi verið færðar fram af hálfu stefnda fyrir þessum greiðslum og verði að mati stefnanda að líta svo á að með því hafi stefndi aðeins verið að reyna að bæta úr þeirri lögleysu, sem ákvörðun hans var, og hafi með þessu í verki viðurkennt að eiga að greiða hærri laun fyrir yfirvinnuna en ákvörðun háskólaráðs gerði ráð fyrir.

Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 80/1938 sem og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, auk laga nr. 55/1980, um lágmarkskjör og ógildi lakari kjara. Um dómsvald Félagsdóms vísast til 44. gr. og 45. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi vísar til þess að óumdeilt sé að um kaup og kjör akademískra starfsmanna Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir aðalstarf þeirra hjá Raunvísindastofnun fari eftir kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra. Þá sé ágreiningslaust að þeir séu starfsmenn Háskóla Íslands. Hins vegar mótmælir stefndi þeim skilningi stefnanda að samkvæmt samningnum frá því í febrúar 2005 skyldu áður undirritaðir kjarasamningar halda gildi sínu eftir því sem við ætti og að líta verði svo á að þau ákvæði kjarasamningsins frá 2001, sem ekki voru tekin upp í samninginn frá 2005, gildi áfram samkvæmt efni sínu um kjör þeirra, sem undir samninginn falla, og því sé ákvæði 1.5.6 í kjarasamningnum frá 2001 enn í gildi. Umrætt ákvæði hafi hljóðað svo: „Annist háskólakennari kennslu umfram það sem fellur innan eðlilegs vinnutíma hans skv. 2.7. skal greiða þá kennslu sem yfirvinnu enda hafi kennari jafnframt sinnt rannsóknarstörfum með fullnægjandi hætti að mati háskólaráðs.“

Í samkomulagi um breytingar og framlengingu á kjarasamningi flestra BHM félaga, þ.á m. stefnanda, dagsettu 28. febrúar 2005, með gildistíma 1. febrúar 2005 til 30. apríl 2008 segir í 1. gr. að gildandi kjarasamningur aðila framlengist til 30. apríl 2008 með þeim breytingum og fyrirvörum, sem í samningnum felist, og falli þá úr gildi án frekari fyrirvara. Í 5. gr. framangreinds samkomulags segi að nýr 1. kafli um kaup taki gildi 1. maí 2006. Samkvæmt því hafi 1. kafla í heild verið breytt og hann felldur úr gildi. Í 1. kafla gildandi kjarasamnings sé ekki að finna það ákvæði, sem verið hafði í grein 1.5.6 og reyndar enga sérstaka grein 1.5.5 né 1.5.6 um kennsluyfirvinnu.

Í heildarútgáfu kjarasamnings aðila, með gildistíma frá 1. febrúar 2005 til 30. apríl 2008, sem gefin hafi verið út í maí 2007, þar sem um sé að ræða samantekt á samningum aðila frá 30. apríl 2001 og 28. febrúar 2004 sem unnin hafi verið í samvinnu starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis og Félags háskólakennara, sé heldur ekki að finna þá grein 1.5.6, sem stefnandi vísi til í dómkröfu sinni. Stefnandi hefði því í síðasta lagi í maí 2007 átt að gera athugasemdir þegar þessi texti var unninn, hafi hann ætlað að halda því fram að ákvæði greinar 1.5.6 úr kjarasamningi aðila frá 2001 væri enn í gildi. Með vísan til ofangreinds sé ljóst að grein 1.5.6 í kjarasamningi aðila frá 2001 sé ekki lengur í gildi og verði því ekki byggt á henni til stuðnings kröfu stefnanda. Fái því ekki staðist að starfsmenn Raunvísindastofnunar geti átt rétt á að fá greidda yfirvinnu vegna stundakennslu á grundvelli greinar 1.5.6, sem ekki sé lengur til í kjarasamningi aðila, og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna af dómkröfu stefnanda sem vísi til hennar.

Þá sé ekki heldur unnt að fallast á sjónarmið stefnanda um að kjarasamningurinn geti tekið til aukastarfa starfsmanna. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, gildi lögin um alla starfsmenn, sem séu félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafi rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og séu ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Lögin gildi því ekki um starfsmenn í aukastörfum og stéttarfélög fari því ekki með kjarasamningsumboð vegna aukastarfa starfsmanna, sbr. Félagsdóm í máli nr. 1/1991 þar sem deilt hafi verið um kjarasamningsumboð vegna stundakennslu við Háskóla Íslands.

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, skuli háskólakennarar, þ.e. prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar hafa með höndum og bera ábyrgð á kennslu en háskólakennarar og sérfræðingar hafi með höndum sjálfstæðar vísindarannsóknir. Í 32. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 segi að starfsskylda starfsmanns, sem sé ráðinn til vísinda- og fræðistarfa, skiptist í rannsóknir og stjórnun. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands séu þeir starfsmenn, sem um ræði í máli þessu, í aðalstarfi hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands en þar starfi þeir sem sérfræðingar í fullu starfi. Stundakennsla, sem þeir hafi sinnt, sé hins vegar aukastarf, enda hafi verið gerður við þá sérstakur samningur um hana. Kennsla sé því ekki hluti af aðalstarfi þeirra.

Ákvæði um yfirvinnu í kjarasamningum eigi eingöngu við unnið aðalstarf starfsmanna en ekki aukastörf þeirra. Sé t.d. um að ræða starfsmann Háskóla Íslands, sem taki að sér aukavinnu við ræstingar, sé ljóst að hann fái ekki greitt fyrir það starf sem yfirvinnu í aðalstarfi sínu, heldur yrði greitt fyrir þá aukavinnu samkvæmt þeim taxta, sem um starf við ræstingu gildi. Háskólinn hafi því heimild til þess að greiða þeim starfsmönnum stofnana skólans, sem velja að taka að sér aukavinnu við skólann vegna verkefna sem eru ekki hluti af starfsskyldum þeirra, samkvæmt þeim taxta, sem ákveðinn er fyrir viðkomandi störf. Samkvæmt framangreindu sé því réttilega greitt fyrir stundakennslu þeirra starfsmanna, sem hér um ræði, eftir stundakennarataxta. Sé því mótmælt að um brot á kjarasamningi sé hér að ræða.

Að því er varðar þá málsástæðu stefnanda að samkvæmt ráðningarsamningum viðkomandi starfsmanna sé vísað til þessa kjarasamnings sérstaklega, bendir stefndi á að ráðningarsamningarnir eigi aðeins við um aðalstarf starfsmannanna en ekki aukastörf þeirra. Í framlögðum ráðningarsamningi segi í stöðluðum texta: „Yfirvinna háskólakennara er greidd í samræmi við ákvæði 1.5.6 í kjarasamningi FH og fjármálaráðherra. Þar segir m.a.: „Greiðslur fyrir yfirkennslu skulu inntar af hendi skv. áætlun, er háskólaráð samþykkir í upphafi haustmisseris ár hvert, en skulu endurskoðaðar og gerðar upp að ári liðnu“.“

Viðkomandi starfsmenn starfi sem sérfræðingar í fullu starfi og séu ekki háskólakennarar, sbr. 15. gr. laga nr. 85/2008. Þá sé ljóst að í staðlaðri grein í ráðningarsamningi þeim, sem lagður hafi verið fram í málinu, sé heldur ekki vísað til þeirrar brottföllnu greinar 1.5.6, sem stefnandi vísi til í stefnu. Í ráðningarsamningnum sé þannig vísað til greinar, sem verið hafi í kjarasamningi aðila með gildistíma frá 1. maí 1997 til 31. október 2000. Ráðningarsamningur sé gerður um aðalstarf viðkomandi starfsmanns og taki því eingöngu til þess. Tilvitnuð stöðluð grein í ráðningarsamningi geti samkvæmt því ekki átt við um aukastarf starfsmanns vegna stundakennslu, sem gerður hafi verið sérstakur samningur um.

Stefndi vísar á bug þeim málsástæðum stefnanda að stefndi hafi í verki um áratugaskeið virt þau kjör, sem hér sé deilt um, og að skapast hafi venja um skýringu á ákvæðum samninga um kaup og kjör akademískra starfsmanna varðandi hið umþrætta ákvæði 1.5.6 á þann veg að þeir skuli þiggja laun samkvæmt ákvæðinu fyrir yfirvinnu.

Á öllum skólastigum sé að einhverju leyti stuðst við stundakennslu, auk hefðbundinnar kennslu. Endurgjald fyrir stundakennslu sé ákveðið með sambærilegum hætti á öllum skólastigum, þ.e. einhliða af launagreiðanda. Háskóli Íslands hafi um nokkur árabil greitt þeim, sem gegndu aðalstarfi við skólann, sem ekki felur í sér kennslu, yfirvinnutaxta fyrir stundakennslu þeirra. Sú ákvörðun hafi ekki byggst á því að kennslan hafi verið hluti af aðalstarfi viðkomandi, né hafi hún falið í sér viðurkenningu á því. Skólinn hafi hins vegar talið eftirsóknarvert að fá fasta starfsmenn sína til þess að taka að sér stundakennslu sem aukastarf og hafi viljað umbuna þeim sérstaklega. Það sé í samræmi við það að stundakennarataxtar hafi verið lágmarkstaxtar og tíðkast hafi að deildir ákvæðu að greiða aukaþóknanir vegna stundakennslu til að laða til sín hæfustu stundakennarana. Á tímum niðurskurðar og vaxandi atvinnuleysis sé hins vegar eðlilegt að þessi tilhögun sæti endurskoðun í ljósri breyttra aðstæðna.

Ákvörðun um stundakennslu sé tekin fyrir hvert misseri fyrir sig, enda sé stundakennsla í tímavinnu og slík kennsla sé ákveðin vegna vöntunar á fastráðnum kennurum eða í sumum tilfellum til að tryggja tengsl við atvinnulífið. Hinn 4. febrúar 2010 hafi verið ákveðið á fundi háskólaráðs að sömu launataxtar skyldu gilda fyrir alla stundakennslu við Háskóla Íslands, þ.e. að miða skyldi við stundakennarataxta. Meginástæða ákvörðunarinnar hafi verið sú, að skapa frekara jafnræði meðal kennara og leiðrétta óréttláta framkvæmd þessara mála. Hafi Háskóla Íslands því verið heimilt að taka ákvörðun um að breyta greiðslum fyrir stundakennslu og greiða fyrir kennsluna með öðrum hætti, enda sé gerður sérstakur tímabundinn samningur við starfsmann um stundakennslu hverju sinni. Gert hafi verið ráð fyrir því að kjör stundakennara myndu breytast og verða samræmdar fyrir alla stundakennara sex mánuðum eftir að ákvörðun var tekin. Sérfræðingar Raunvísindastofnunar hafi því haft vitneskju um ákvörðun háskólaráðs í febrúar 2010 og haft hálfs árs fyrirvara um breytt kjör og því hafi þeir getað tekið ígrundaða ákvörðun um það, hvort þeir tækju að sér kennslu eða ekki. Jafnframt sé ljóst að ekki geti skapast venja þótt þeim hafi um tíma verið greitt fyrir stundakennslu með yfirvinnu.

Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi fallið frá ákvörðun sinni að hluta eða viðurkennt ólögmæti þessarar lækkunar með því að bæta við þóknun að eigin ákvörðun. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands geti, í ákveðnum tilvikum, verið nauðsynlegt vegna samkeppnissjónarmiða og gæða kennslu, að greiða þóknun ofan á stundakennarataxta til að fá stundakennara til starfans.

Með vísan til alls framangreinds fái sjónarmið stefnanda ekki staðist og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.  

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Dómkrafa stefnanda, Félags háskólakennara, er að viðurkennt verði að stefndi, íslenska ríkið, hafi brotið gegn grein 1.5.6 í kjarasamningi aðila með því að greiða ekki akademískum starfsmönnum Raunvísindastofnunar Háskólans yfirvinnulaun fyrir kennslu umfram vinnuskyldu. Stefndi krefst sýknu af þessari kröfu stefnanda.

Sá kjarasamningur, sem vísað er til í stefnu og hefur að geyma umrætt ákvæði, var gerður hinn 30. apríl 2001 milli málsaðila og skyldi gilda frá 1. apríl 2001 til 30. nóvember 2004. Kjarasamningur þessi var endurnýjaður með samkomulagi aðila frá 28. febrúar 2005, um breytingar og framlengingu á kjarasamningum aðila, og skyldi gilda frá 1. febrúar 2005 til 30. apríl 2008. Enn var kjarasamningurinn framlengdur í júní 2008 til að gilda frá 1. júní 2008 til 31. mars 2009, en þá skyldi samningurinn falla úr gildi án frekari fyrirvara. Þá liggur fyrir í málinu stofnanasamningur, dags. 28. apríl 2006, milli stefnanda og Raunvísindastofnunar Háskólans, þar sem vísað er til greinds kjarasamnings, dags. 28. febrúar 2005, svo og kjarasamningur aðila frá október 1998 er gilti frá 1. maí 1997 til 31. október 2000.

Raunvísindastofnun Háskólans er háskólastofnun, sbr. 4. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla. Stofnunin er hluti af raunvísinda- og jarðvísindadeildum verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, sbr. reglur nr. 685/2011, um Raunvísindastofnun Háskólans, áður reglur nr. 398/2004, sbr. og 27. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Í 28. gr. síðastgreindra reglna er fjallað um akademíska starfsmenn. Þar segir í 1. mgr. að akademískir starfsmenn Háskólans séu prófessorar, dósentar og lektorar. Heimilt sé að ráða til háskólans eða stofnana hans fólk til vísinda- eða fræðistarfa án kennsluskyldu. Skuli starfsheiti þeirra vera vísindamaður, fræðimaður og sérfræðingur. Óumdeilt er að þeir starfsmenn Raunvísindastofnunar Háskólans, sem dómkrafan tekur til, hafa ekki kennsluskyldu, en sinna engu að síður kennslu samkvæmt tilmælum þar að lútandi. Fyrir liggur að starfsmönnum þessum var greitt yfirvinnukaup fyrir kennsluna þar til Háskólaráð tók hina umdeildu ákvörðun sína hinn 4. febrúar 2010 að greiða stundakennarataxta fyrir þessa kennslu hinna akademísku starfsmanna er tók gildi hinn 1. júlí 2010, en mun hafa komið til framkvæmda í nóvember 2010.

Ágreiningslaust er að kjarasamningur málsaðila gildir um aðalstarf starfsmanna þessara hjá Raunvísindastofnun Háskólans og að þeir eru starfsmenn Háskóla Íslands. Hvað varðar umrædd kennslustörf greinir aðila hins vegar á. Telur stefnandi að kjarasamningur aðila gildi um umrædd kennslustörf. Stefndi heldur því hins vegar fram að um sé að ræða aukastörf sem falli utan kjarasamnings, sbr. lög nr. 94/1986.

Grein 1.5.6 í kjarasamningi aðila frá 30. apríl 2001 er svohljóðandi:

„Annist háskólakennari kennslu umfram það, sem fellur innan eðlilegs vinnutíma hans skv. 2.7, skal greiða þá kennslu sem yfirvinnu enda hafi kennari jafnframt sinnt rannsóknarstörfum með fullnægjandi hætti að mati háskólaráðs.“

Af hálfu stefnanda er dómkrafan í fyrsta lagi byggð á því að umræddur kjarasamningur frá 30. apríl 2001 gildi fullum fetum, þar á meðal greint ákvæði hans í grein 1.5.6, enda skyldu áður gerðir kjarasamningar halda gildi sínu samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins frá 28. febrúar 2005, og stofnanasamningur vera til fyllingar samningunum. Í þessu sambandi mótmælir stefnandi þeirri málsástæðu stefnda að um sé að ræða aukastörf sem falli utan gildissviðs kjarasamnings. Líta beri á umrædda starfsmenn sem starfsmenn Háskóla Íslands, enda sé Raunvísindastofnun Háskólans fyrst og fremst rannsóknarvettvangur á vegum Háskólans. Verði ekki fallist á þetta er því í öðru lagi borið við að stefndi hafi um áratugaskeið virt í verki þau kjör sem um ræðir svo sem nánar er lýst. Einhliða ákvörðun um að hverfa frá því fái því ekki staðist. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að skapast hafi venja um túlkun á ákvæðum samninga um kaup og kjör akademískra starfsmanna. Loks og í fjórða lagi teflir stefnandi því fram að stefndi hafi í raun fallið frá ákvörðun sinni að hluta eða viðurkennt ólögmæti kauplækkunarinnar með því að gauka að starfsmönnunum viðbótargreiðslum fyrir kennsluna sem þóknun samkvæmt eigin ákvörðun. Af hálfu stefnda er sýknukrafan fyrst og fremst byggð á því að umrætt ákvæði í grein 1.5.6 í kjarasamningunum sé ekki lengur til staðar, enda hafi ákvæðið fallið niður með kjarasamningnum frá 28. febrúar 2005. Í þessu sambandi er m.a. vísað til heildarútgáfu samningsins frá maí 2007, sem báðir aðilar hafi unnið að, en þar sé umrætt ákvæði ekki að finna. Þá mótmælir stefndi því að kjarasamningur aðila geti tekið til aukastarfa starfsmanna, sbr. ákvæði laga nr. 94/1986, en ákvæði um yfirvinnu í kjarasamningum eigi eingöngu við um aðalstarf. Stefndi mótmælir því að venja um framkvæmd hafi myndast eða að umrædd kjör hafi um langa hríð verið virt í verki. Þá geti ekki skipt máli þótt stefndi hafi í einhverjum tilvikum greitt þóknun ofan á stundakennarataxta.

Eins og málið er lagt fyrir veltur niðurstaðan á því hvort það ákvæði í kjarasamningnum frá 2001, sem vísað er til í dómkröfu stefnanda, gildi milli aðila um greiðslur fyrir kennslu umræddra starfsmanna samkvæmt beinum ákvæðum kjarasamnings eða efnislega fyrir venju, enda falli störfin ekki utan kjarasamnings sem valkvæð aukastörf ótengd aðalstarfi. Með umræddum samningi, dags. 28. febrúar 2005, voru kjarasamningar flestra aðildarfélaga Bandalags háskólamanna framlengdir með breytingum, þar á meðal kjarasamningur aðila máls þessa frá 30. apríl 2001. Samkvæmt 5. gr. hins fyrrnefnda samnings tók nýr 1. kafli um kaup gildi hinn 1. maí 2006. Í hinum nýja kafla er ekki að finna neitt ákvæði er svarar til greinar 1.5.6 í kjarasamningnum frá 2001. Slíkt ákvæði er heldur ekki í heildarútgáfu kjarasamnings aðila frá maí 2007, eins og stefndi bendir á, þrátt fyrir að útgáfa þessi hafi verið unnin í samvinnu við stefnanda. Verður því að fallast á það með stefnda að umrætt ákvæði hafi verið fellt úr gildi. Þegar af þessari ástæðu verður dómkrafa stefnanda  ekki tekin til greina á þeim grundvelli að umrætt ákvæði sé gildandi samkvæmt kjarasamningi. Er þá óþarft að fjalla frekar um gildi kjarasamningsákvæðisins með tilliti til aukastarfa sem um er deilt. Kemur þá til úrlausnar hvort dómkrafa stefnanda geti allt að einu náð fram að ganga á þeim grundvelli að skapast hafi venja um túlkun á samningsákvæðum um kaup og kjör akademískra starfsmanna þess efnis að þeim beri yfirvinnukaup fyrir kennsluna í samræmi við grein 1.5.6 í kjarasamningi frá 2001 eða að stefndi hafi viðurkennt í verki að kjörin skulu vera með þeim hætti.

Eins og stefnandi bendir á var umræddum starfsmönnum greitt í ríflega fimm ár eftir breytingarnar samkvæmt samningnum frá febrúar 2005 eftir gamla laginu, en óumdeilt er að svo hafi verið. Stefnandi heldur því fram að venja hafi skapast um skýringu á kjarasamningsákvæðum um að greiða skuli yfirvinnukaup fyrir kennsluna svo sem gert hafi verið ráð fyrir í grein 1.5.6. Af hálfu stefnda er því mótmælt að nokkur venja hafi fest sig í sessi að þessu leyti. Hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að umrætt kjarasamningsákvæði hafi fallið úr gildi með þeim breytingum sem áttu sér stað með kjarasamningunum frá 28. febrúar 2005. Við slíkar aðstæður verður að gera nokkuð strangar kröfur til myndunar venju sama efnis og hið niðurfellda ákvæði, enda er þá ekki um að ræða venju til skýringar og fyllingar á kjarasamningsákvæði. Að þessu athuguðu verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að venja hafi skapast í þessa veru og verður dómkrafa stefnanda ekki tekin til greina á þessum grundvelli. Þá verður ekki talið að dómkrafa stefnanda geti náð fram að ganga á þeim grundvelli að stefndi hafi virt í verki umrædd kjör eða greitt umfram taxta.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda 250.000 kr. í málskostnað.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið vegna Háskóla Íslands, er sýkn af kröfu stefnanda, Félags háskólakennara, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 kr. í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Kristjana Jónsdóttir

Gylfi Knudsen

Elín Blöndal

Inga Björg Hjaltadóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira