Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 630/2017 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 630/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100057

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. október 2017 kærði [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2017, um að synja henni um dvalarleyfi vegna náms.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli náms.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi vegna vistráðningar hér á landi með gildistíma frá 23. febrúar 2015 til 23. febrúar 2016 og í framhaldinu dvalarleyfi vegna náms með gildistíma frá 12. apríl 2016 til 1. febrúar 2017. Það leyfi hafi verið endurnýjað með gildistíma frá 16. febrúar 2017 til 15. júlí 2017. Hinn 30. júní 2017 hafi kærandi lagt fram umsókn um endurnýjun á leyfinu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. september 2017, var umsókn kæranda synjað. Kærandi móttók ákvörðun Útlendingastofnunar þann 9. október 2017. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 23. október 2017. Kæru fylgdu greinargerð og fylgigögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til skilyrða fyrir veitingu dvalarleyfis vegna náms í 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í 15. tölul. 3. gr. laga um útlendinga væri orðið nám skilgreint sem samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram færi á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerði sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Fram kom að kærandi væri nemandi á [...] við Menntaskólann í Kópavogi. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 þyrfti nemandi einungis að hafa lokið grunnskólanámi eða jafngildri undirstöðumenntun eða vera 16 til að geta hafið nám í framhaldsskóla. Væru kröfur til undirbúningsmenntunar í framhaldsskólum ekki þær sömu og gert væri ráð fyrir í lögum um útlendinga, sbr. 1. mgr. 65. gr. og 15. tölul. 3. gr. laganna. Af þeirri ástæðu bæri að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna náms.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að hún hafi haft dvalarleyfi vegna náms frá 12. apríl 2016 til 15. júlí 2017. Kærandi sé hálfnuð með starfsnám á [...] og stundi nú bóklegt nám við menntaskólann í Kópavogi. Í meðmælabréfum með kæru kemur m.a. fram að vinnuveitendur hennar telji kæranda mikilvægan starfsmann á vinnustaðnum.

Kærandi byggir kröfu sína á því að hún hafi ekki haft neinar forsendur til að telja að staða hennar myndi breytast með breyttri útlendingalöggjöf. Kærandi hafi haft hug á að ljúka við námið og valið að stunda [...] hér á landi vegna gæða námsins. Ljóst sé að kærandi muni vanefna starfsnámssamning sinn verði henni gert að yfirgefa landið fyrir lok gildistíma hans. Vísar kærandi til þess að í eldri lögum um útlendinga nr. 96/2002 hafi iðnnám verið nægjanlegur grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis vegna náms. Kærandi hafi með lögmætum hætti öðlast rétt til dvalarleyfis og hafi haft réttmætar væntingar til að ætla að hún gæti lokið námi sínu. Sé hin kærða ákvörðun afar íþyngjandi fyrir kæranda sem þyrfti að hætta í miðju námi og ólíklegt að námið yrði metið annars staðar. Þá hafi dvalarleyfi kæranda verið endurnýjað þann 16. febrúar 2017, eftir að lög nr. 80/2016 um útlendinga hafi tekið gildi. Kærandi hafi í því ljósi ekki haft ástæðu til að ætla að staða hennar hefði breyst með gildistöku nýrra laga og að hún hafi réttmætar væntingar til að ljúka námi sínu hér á landi.

Í lögskýringargögnum með lögum nr. 80/2016 um útlendinga sé hvergi vikið að því af hvaða tilefni orðið „iðnnám“ hafi verið fellt út úr skilgreiningu um nám. Hagsmunaaðilum hafi ekki verið kynnt að til stæði að fella iðnnám út úr skilgreiningunni og girða þar með fyrir að ríkisborgarar utan EES-svæðisins geti stundað iðnnám hér á landi. Telur kærandi líklegt að um mistök hafi verið að ræða, enda sé verulegur skortur á menntuðum iðnaðarmönnum hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að kæru á synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna náms hér á landi, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Synjun Útlendingastofnunar er byggð á því að kærandi stundi ekki nám á háskólastigi eða nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í málinu liggur fyrir að kærandi stundar nám í [...] við Menntaskólann í Kópavogi sem felst m.a. í starfsnámi á [...].

Í 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Þá segir í b-lið 2. mgr. 65. gr. að skilyrði fyrir veitingu leyfisins sé að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla.

Í 15. tölul. 3. gr. laga um útlendinga er orðið nám skilgreint sem samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fari á vinnustöðum, eða annað það nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þá kemur fram í athugasemdum við 65. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 80/2016 að dvalarleyfi vegna náms sé veitt útlendingum sem hyggjast stunda fullt nám hér á landi og sé forsenda leyfisins sú að umsækjandi hafi fengið skólavist í viðurkenndum háskóla á Íslandi. Við mat á því hvort um fullt nám sé að ræða skuli að jafnaði miða við 30 ECTS á önn eða samsvarandi.

Kærunefnd telur að skýra beri ákvæði 65. gr. laga um útlendinga til samræmis við 15. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi laganna. Verður b-liður 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga því ekki skýrður á annan veg en að það sé skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna náms að útlendingur stundi fullt og samfellt nám á háskólastigi eða annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla.

Í máli þessu er ljóst að kærandi stundar nám í matreiðslu við Menntaskólann í Kópavogi. Skólinn hefur viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til kennslu á framhaldsskólastigi, sbr. 12. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Menntaskólans í Kópavogi eru almenn skilyrði til innritunar í grunndeild [...] að nemandi hafi fengið einkunnina A, B+ eða B í íslensku, ensku og stærðfræði við lok grunnskóla. Hafi nemandi verið undir því viðmiði (C+) geti hann innritast í grunndeild [...] en taki áfanga á fyrsta þrepi í viðkomandi greinum. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla segir að nemendur, sem hefji nám í háskóla, skuli hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi.

Verður samkvæmt framangreindu ekki talið að nám kæranda í [...] við Menntaskólann í Kópavogi geti talist fullt nám á háskólastigi eða annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi þann 6. janúar 2017, eftir að lög nr. 80/2016 um útlendinga höfðu tekið gildi, lagt fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi sínu. Útlendingastofnun hafi þann 16. febrúar 2017 endurnýjað dvalarleyfi kæranda með gildistíma til 15. júlí 2017. Í greinargerð byggir kærandi á að í því ljósi hafi hún haft réttmætar væntingar um að hún uppfyllti skilyrði laga nr. 80/2016 um veitingu dvalarleyfis vegna náms. Dvalarleyfi vegna náms eru tímabundin leyfi sem að jafnaði eru ekki gefin út til lengri tíma en eins árs. Gildistími dvalarleyfisins er því oftast skemmri en sá tími sem þarf til að ljúka tilteknu námi eins og reyndin var í tilviki kæranda. Af niðurstöðu Útlendingastofnunar og kærunefndar í málinu er ljóst að eftir gildistöku laga nr. 80/2016 uppfyllti kærandi ekki lagaskilyrði fyrir dvalarleyfi vegna náms. Var ákvörðun Útlendingastofnunar um að endurnýja dvalarleyfi kæranda þann 16. febrúar 2017 því ekki í samræmi við 65. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Það er mat kærunefndar að sjónarmið um réttmætar væntingar kæranda geti hins vegar ekki leitt til þess að dvalarleyfi hennar verði endurnýjað öðru sinni þegar fyrir liggur að hún uppfyllir ekki skilyrði 65. gr. laga um útlendinga fyrir dvalarleyfi vegna náms. Með vísan til alls framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                       Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira