Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3l8/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 38/2017

Þriðjudaginn 9. maí 2017

A
gegn
Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Kári Gunndórsson lögfræðingur.

Með bréfi 25. janúar 2017 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B sem tilkynnt var með bréfi 11. janúar 2017 um að synja um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli er varðar son kæranda C.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Barnsmóðir kæranda á X börn, þar af einn son með kæranda. Kærandi og barnsmóðir hans gerðu með sér samning um sameiginlega forsjá drengsins X 2016 en fram til þess tíma fór móðir drengsins ein með forsjá hans. Samkvæmt samningnum skyldi drengurinn eiga lögheimili hjá kæranda en móðir drengsins skyldi hafa umgengni við hann aðra hvora helgi. Kostnaður við umgengni skyldi skiptast á milli foreldra en kærandi er búsettur á D og móðir drengsins í B.

Með bréfi 4. janúar 2017 óskaði kærandi eftir gögnum Barnaverndar B um son sinn C. Með bréfi 11. janúar 2017 hafnaði barnaverndin beiðni kæranda á grundvelli 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Fram kemur í bréfinu að fyrirliggjandi gögn séu til komin vegna vinnslu barnaverndar á þeim tíma er kærandi var ekki forsjáraðili drengsins.

Í ofangreindu bréfi til kæranda kemur eftirfarandi fram auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Þar sem þær upplýsingar liggja fyrir að þú hyggist nota gögn þessi vegna umgengnismáls hjá sýslumanni vísa ég til þess að skv. 72. gr. barnalaga hefur sýslumaður heimild til þess að fá aðgang að skriflegum gögnum málsins ef hann telur þess þörf við úrlausn málsins. Þá hefur þú heimild til munnlegra upplýsinga um vinnslu málsins sem þú getur fengið með því að hafa samband við félagsráðgjafa sem er ábyrgur fyrir vinnslu málsins...“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá afhent gögn barnaverndarmáls er varða son hans.

Í kæru kemur fram að samkvæmt gildandi umgengnissamningi fari drengurinn frá D til B aðra hvora helgi í umgengni til móður og dveljist hjá henni frá föstudegi til sunnudags. Ítrekað hafi komið upp sú staða að móðir hafi ekki skilað drengnum til kæranda á réttum tíma. Þá hafi drengurinn verið ósofinn, vannærður og illa lyktandi þegar móðir hafi skilað honum.

Móðir hafi farið ein með forsjá drengsins þar til hann flutti til kæranda í X 2016. Barnaverndarmáli í B hafi því verið lokað og samið um sameiginlega forsjá og að lögheimili drengsins flyttist frá móður til föður.

Kærandi hyggist nota gögnin sem rökstuðning í beiðni sinni varðandi umgengni barnsins við móður. Samkvæmt munnlegum upplýsingum sem kærandi hafi fengið hjá starfsmanni Barnaverndar B sé það niðurstaða forsjárhæfnismats að móðir sé ekki talin geta sinnt börnum sínum á viðunandi hátt.

Þá hafi komið fram áhyggjur af hegðun og líðan barnsins, meðal annars hjá kæranda og leikskóla, en grunur leiki á að rekja megi þetta til aðstæðna og/eða atvika á heimili móður.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B 8. febrúar 2017 kemur fram að Barnavernd B hafi haft afskipti af málefnum barnsmóður kæranda og barna hennar frá því í X 2014. Á þeim tíma hafi móðirin ein haft forsjá sonar þeirra kæranda.

Mál barnanna hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann X 2016. Þá hafi móðir samþykkt fjögurra mánaða vistun barnanna, þar með talið drengsins sem mál þetta varðar, utan heimilis og að undirgangast forsjárhæfnismat. Drengurinn hafi verið vistaður hjá stuðningsfjölskyldu sinni.

Niðurstaða forsjárhæfnismatsins hafi verið sú að forsjárhæfni móður væri alvarlega skert. Málið hafi verið lagt fyrir barnaverndarnefndina 23. júní 2016 þar sem tillaga að forsjársviptingu hafi verið samþykkt.

Aðstæður hjá stuðningsfjölskyldu drengsins hafi breyst og því hafi hann verið vistaður hjá foreldrum kæranda þar til kærandi kom heim frá vinnu erlendis X 2016.

Áður en komið hafi til forsjársviptingar móður hafi hún og kærandi gert samkomulag um sameiginlega forsjá drengsins með lögheimili hjá kæranda. Málinu hafi verið lokað sem barnaverndarmáli X 2016.

Með bréfi 4. janúar 2017 hafi kærandi farið fram á afrit af gögnum barnaverndar varðandi drenginn. Beiðninni hafi verið synjað á grundvelli 45. gr. bvl. þar sem hann hafi ekki farið með forsjá drengsins þegar málið hafi verið unnið sem barnaverndarmál. Hann hafi verið upplýstur um að sýslumaður gæti kallað eftir nauðsynlegum gögnum við úrlausn umgengnismáls.

Barnaverndarnefndin vísar til 3. mgr. 3. gr. bvl. en samkvæmt lagaákvæðinu sé með hugtakinu foreldrar að jafnaði átt við þá sem fari með forsjá barns. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. mgr. 3. gr. bvl., beri barnaverndarnefnd að gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna, foreldra og annarra sem nefndin hafi afskipti af. Í athugasemdum með frumvarpi til bvl. komi fram að í samræmi við markmið með barnavernd sé gert ráð fyrir víðtækri samvinnu við foreldra um beitingu úrræða þegar þess sé þörf. Jafnframt sé gert ráð fyrir heimildum til beitingar þvingunarúrræða gegn foreldrum þegar nauðsyn krefji. Í þessum tilvikum sé eingöngu átt við foreldra sem fari með forsjá barna sinna samkvæmt ákvæðum barnalaga. Einnig komi fram í fyrrgreindum athugasemdum að orðalagið „að jafnaði“ sem fram komi í 3. mgr. 3. gr. bvl. vísi til þess að í einstaka tilvikum sé fjallað um réttarstöðu foreldra sem misst hafi forsjá barna sinna samkvæmt ákvæðum bvl. en njóti samt tiltekinna réttinda samkvæmt ákvæðum laganna.

Á hinn bóginn beri að líta til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5186/2007. Þar segi að þegar forsjárlaust foreldri fari fram á aðgang að gögnum máls verði að leysa úr álitaefni hverju sinni á grundvelli heildstæðs mats á hagsmunum og tengslum hins forsjárlausa foreldris við það úrlausnarefni sem til meðferðar sé. Við slíkt mat verði meðal annars að huga að því hvort og þá hvaða áhrif hugsanlegar ákvarðanir eða beiting úrræða barnaverndarnefndar í máli á grundvelli bvl. kunni að hafa á réttindi og skyldur forsjárlauss foreldris í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig sé nauðsynlegt að horfa til þess hvort hagsmunir foreldris séu slíkir að því sé þörf á að njóta verndar þeirra réttaröryggisreglna sem sérstaklega sé mælt fyrir um í VIII. kafla bvl. um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd.

Kærandi hafi ekki haft aðkomu að vinnslu Barnaverndar B og drengurinn hafi ekki verið fósturvistaður hjá kæranda fyrr en undir lok málsins. Kærandi hafi ekki haft reglulega umgengni við drenginn og vinnsla málsins hafi ekki haft áhrif á réttindi hans eða skyldur sem forsjárlaust foreldri. Þá hafi Barnaverndarnefnd B ekki talið þörf á frekari afskiptum eftir að kærandi tók við umsjá drengsins. Að öllu virtu sé það mat Barnaverndarnefndar B að kærandi hafi ekki haft slíka hagsmuni eða tengsl við barnaverndarmálið að hann geti talist aðili máls í skilningi 45. gr. bvl.

Kærandi rökstyðji kröfu sína þannig að honum sé nauðsynlegt að fá gögnin vegna umgengnismáls hjá sýslumanni. Hann þurfi gögn til að rökstyðja breytingu á umgengni drengsins við móður. Í því sambandi vísar barnaverndin til 72. gr. barnalaga um heimild sýslumanns til aðgangs að gögnum barnaverndarnefnda. Hagsmunir kæranda af því að fá gögnin afhent frá Barnaverndarnefnd B séu því ekki þess eðlis að rétt sé að afhenda honum gögn er hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar um barnsmóður hans. Einnig rökstyðji kærandi kröfu sína með því að grunur leiki á að aðstæður á heimili móður drengsins séu óviðunandi og rekja megi hegðunarfrávik og vanlíðan hans til umgengni við móður. Barnaverndarnefnd hafi engin gögn eða upplýsingar um hvernig aðstæður séu á heimili móður eftir að lögheimili drengsins hafi verið fært til kæranda og málinu lokað hjá barnavernd.

Með hliðsjón af ofangreindu er það mat Barnaverndarnefndar B að kærandi sé ekki aðili að umræddu barnaverndarmáli í skilningi 45. gr. bvl. og stjórnsýslulaga.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda 4. janúar 2017 til Barnaverndar B um aðgang að gögnum er varða son hans, C.

Barnaverndin synjaði beiðni kæranda með bréfi 11. janúar 2017 með vísan til heimildar í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að takmarka aðgang að gögnum. Byggði barnaverndin á því að kærandi hefði ekki hafa slíka hagsmuni eða tengsl við barnaverndarmálið að hann gæti talist aðili máls í skilningi 45. gr. bvl. Í ákvæðinu, sem fjallar um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls, segir að barnaverndarnefnd geti með „rökstuddum úrskurði“ takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum barnaverndarmáls ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra.

Í máli þessu liggur fyrir að Barnavernd B tók ákvörðun í málinu sem var tilkynnt með bréfi 11. janúar 2017. Bréfið er undirritað af starfsmanni fyrir hönd barnaverndar. Bréfið ber ekki með sér að barnaverndarnefnd hafi fjallað um beiðni kæranda á fundi og/eða falið þeim starfsmanni sem undirritar bréfið afgreiðslu málsins, enda væri slíkt framsal til einstakra starfsmanna óheimilt og gengi á svig við ákvæði 4. mgr. 14. gr. bvl. Að áliti úrskurðarnefndar hefur Barnaverndarnefnd B ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um þá kröfu kæranda sem til úrlausnar er í málinu, eins og áskilið er í skýru ákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl., og liggur því fyrir að hin kærða ákvörðun var ekki tekin með þeim hætti sem bvl. gera kröfu um.

Að þessu gættu er óhjákvæmilegt að vísa málinu til Barnaverndarnefndar B til löglegrar málsmeðferðar og ákvörðunar að nýju.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B frá 11. janúar 2017 um að synjun kröfu kæranda, A, um afhendingu gagna í barnaverndarmáli er varðar son hans, er vísað til Barnaverndarnefndar B til löglegrar málsmeðferðar og ákvörðunar að nýju.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira