Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 02090048

 

Með bréfi frá 16. október 2002 kærðu landeigendur Reykjahlíðar ehf. úrskurð Skipulagsstofnunar frá 9. september 2002, um mat á umhverfisáhrifum rannsóknaborana á vestursvæði við Kröflu í Skútustaðahreppi. Með bréfi, sem barst ráðuneytinu þann 22. október 2002, barst nánari rökstuðningur kærenda.

 

I.  Hin kærða ákvörðun og málsatvik

 

Þann 9. september 2002 kvað Skipulagsstofnun upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum rannsóknarborana á vestursvæði við Kröflu í Skútustaðahreppi. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að fallist var á fyrirhugaðar rannsóknarboranir eins og þeim er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila. Framkvæmdaraðili er Landsvirkjun.

 

Framangreind kæra var þann 23. október 2002, var  send til umsagnar Skipulagsstofnunar, Skútustaðahrepps, Landsvirkjunar og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og þann 3. febrúar 2003 til umsagnar Umhverfisstofnunar. Með bréfi, frá 5. nóvember 2002, barst umsögn Skipulagsstofnunar. Með bréfi, frá 4. nóvember 2002, barst umsögn Skútustaðahrepps. Með bréfi, frá 19. nóvember 2002, barst umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Með bréfi, frá 14. nóvember 2002, barst umsögn Landsvirkjunar. Með bréfi, frá 14. apríl 2003, barst umsögn Umhverfisstofnunar. Með bréfum frá 27. nóvember 2002 og 16. apríl 2003 voru kærendum og framkvæmdaraðila gefinn kostur á að gera athugasemdir við fram komnar umsagnir. Með bréfi, frá 6. desember 2002 bárust athugasemdir kærenda við fram komnar umsagnir. Með bréfi, frá 30. apríl 2003, bárust athugasemdir framkvæmdaraðila við umsögn Umhverfisstofnunar.

 

II.         Krafa um frávísun

Framkvæmdaraðili gerir í umsögn sinni þá kröfu að framangreindri kæru landeigenda Reykjahlíðar ehf. verði vísað frá þar sem kærugrundvöllur þeirra sé því ekki í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum og líta beri framhjá tilraunum lögmanns kærenda til að marka kærunni grundvöll innan ramma laganna, eftir að kærufrestur er liðinn. Bent er á að tilkynning um kæru úrskurðarins hafi verið send umhverfisráðuneytinu á síðasta degi kærufrests, þann 16. október 2002. Vísað er til bréfs kærenda, frá 16. október 2002, þar sem segir:

 

?Ber þar hæst fyrirhuguð nýtingaráform félagsins og einstakra félagsmanna sjálfra á þeim landgæðum, sem um er fjallað í úrskurðinum?

 

Bent er á að nánari rökstuðningur var sendur með öðru bréfi kærenda, frá  22. október 2002. Þá segir að tæpast verði séð að athugasemdir landeigenda Reykjahlíðar ehf. beinist að úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum rannsóknarborana á vestursvæði Kröflu. Sá hluti greinargerðar lögmanns kærenda er lúti að þeim atriðum sem fallið gætu undir mat á umhverfisáhrifum sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, sé ómarkviss, órökstuddur eða byggður á misskilningi. Fremur virðist vera um að ræða kröfugerð vegna námu- og vatnsréttinda eins og glöggt megi sjá af síðari hluta greinargerðar lögmanns kærenda. Kærendum hafi gefist tækifæri til athugasemda í því matsferli sem fram hefur farið. Engar athugasemdir hafi þó borist.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til sömu ummæla kærenda í bréfi þeirra, dags. 16. október 2002. Telur Skipulagsstofnun þegar af þeirri ástæðu að kæran eigi ekki að hafa áhrif á niðurstöðu hins kærða úrskurðar þar sem henni virðist beint til rangs stjórnvalds og ætti að berast sveitarstjórn Skútustaðahrepps sem innlegg í umræðu um undirbúning endurskoðunar aðalskipulags.

 

Í umsögn Skútustaðahrepps er vísað til bréfs kærenda, frá 16. október 2002, í heild sinni. Í umsögninni segir að líta beri á það bréf sem hina eiginlegu kæru. Í III. og IV. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum komi glögglega fram hvernig málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum skuli vera háttað. Í einu og öllu hafi verið farið að lögum við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Kærendum hefði því átt að vera í lófa lagið að kynna skipulagsyfirvöldum viðhorf félagsins og einstakra félagsmanna til hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar á meðan á kynningu skipulagsyfirvalda stóð. Telur sveitarfélagið að ekki séu efni til að taka kæruna til greina.

 

III.            Kæruatriði og umsagnir um þau

 

1.

Krafa kærenda er að hinn kærði úrskurður verði ógiltur og lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að krefja rannsóknaraðila um frekari gagnaöflun og upplýsingar um þau atriði sem tilgreind eru í kæru. Í kæru landeiganda Reykjahlíðar segir að úrskurðurinn sé kærður í því skyni að kynna skipulagsyfirvöldum viðhorf félagsins og einstakra félagsmanna til hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar sem úrskurðurinn fjallar um. Í frekari rökstuðningi kærenda er vísað til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974 og að fyrirhugaðar framkvæmdir séu á jaðri vinsæls ferðamannasvæðis. Kærandi telur þörf á því að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að gera gleggri grein fyrir þeim aðgerðum sem hann hyggst viðhafa til að lágmarka truflun á aðgangi ferðamanna og fjárhagslegt tjón allra viðkomandi aðila í því sambandi.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að áhrif fyrirhugaðra rannsóknarborana á ferðamennsku séu fyrst og fremst vegna hávaða frá framkvæmdinni og sjónrænna áhrifa hennar. Í því sambandi er vísað til niðurstöðu Skipulagsstofnunar um hávaða í hinum kærða úrskurði þar sem fram kemur að stofnunin telji áhrif hávaða af völdum borunar og blásturs verði óveruleg. Einnig er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um sjónræn áhrif en þar segir að stofnunin telji að blástur borhola muni hafa óveruleg sjónræn áhrif í för með sér þar sem um tímabundnar aðgerðir verður að ræða og utan aðal ferðamannatíma. Borun muni hins vegar hafa sjónræn áhrif í för með sér þar sem hún fari fram a.m.k. að hluta á ferðamannatíma. Lagning vegslóða og gerð borteiga muni hafa veruleg og óafturkræf áhrif á ásýnd Leirhnjúkshrauns. Í umsögninni segir að stofnunin telji ekki þörf á að gera frekari grein fyrir áhrifum rannsóknarborana á ferðamennsku. Ef um vinnslu jarðhita verði að ræða á svæðinu muni þær framkvæmdir hljóta viðeigandi málsmeðferð. Hagsmunaaðilar geti þá komið að sjónarmiðum sínum um hugsanlega hættu á fjárhagslegu tjóni vegna áhrif framkvæmda á ferðamennsku og aðra þætti.

 

Í umsögn Landsvirkjunar segir að ekki sé gert ráð fyrir því að truflun verði á aðgangi ferðamanna að svæðinu vegna væntanlegra rannsókna. Ekki hafi borist  neinar ábendingar eða athugasemdir frá landeigendum þar að lútandi eða um að þeir kynnu að verða fyrir tjóni af þeim sökum né í hverju það væri fólgið. Vísað er til þess að úrskurður Skipulagsstofnunar geri ráð fyrir því að lokað verði fyrir almenna umferð eftir vegslóða sem lagður yrði að borsvæðinu a.m.k. á varptíma til að draga úr áhrifum á ránfugla. Landsvirkjun hafi gert ráð fyrir því í matsskýrslu að vegslóðanum yrði ekki lokað fyrir almennri umferð eftir að framkvæmdum lýkur nema ef í ljós komi við reglulegt eftirlit á svæðinu að hún trufli dýralíf. Þessi afstaða hafi verið tekin til að mæta óskum frá landeigendum til að greiða götu þeirra í sveitinni sem starfa við ferðamennsku. Ekki verði séð að sú takmörkun sem kveðið er á um í úrskurðinum varðandi umferð um vegslóðann hafi veruleg áhrif á notkunargildi hans. Skipulagsstofnun telji að áhrif hávaða af völdum borunar og tímabundins blásturs verði óveruleg.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar er, varðandi aðgerðir til lágmörkunar truflunar á aðgangi ferðamanna og fjárhagslegu tjóni viðkomandi í því sambandi, vísað til ályktunar stjórnar Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn frá 17. júlí 2002 um að ekki verði hægt að mæla með frekari vinnslu jarðvarma á Kröflusvæðinu fyrr en fyrir liggur landnýtingar- og verndaráætlun. Í ályktuninni segi einnig að ef hafin verði vinnsla á vestursvæði verði nýtt ósnortið land brotið undir orkuöflun og komið hafi fram að Landsvirkjun hafi hug á vinnslu á vinsælum ferðamannastöðum. Því sé nauðsynlegt að hraða landnýtingar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Náttúrurannsóknarstöðin hafi það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um allt það er lýtur að framkvæmd laga um verndun Mývatns og Laxár skv. lögum þar um. Náttúruvernd ríkisins hafi, í umsögn sinni um matsskýrslu tekið undir framangreinda athugasemd stjórnar rannsóknarstöðvarinnar og það sé niðurstaða stofnunarinnar að gerð landnýtingar- og verndaráætlunar fyrir Kröflusvæðið beri að setja sem eitt af skilyrðum fyrir því að leyfi verði veitt fyrir tilraunaborunum á vestursvæði við Kröflu. Vísað er til þess að Náttúruvernd ríkisins hafi í umsögn sinni um matsskýrslu bent á að tímabært sé að endurskoða útgefið náttúruverndarkort fyrir Mývatnssveit sem matsskýrslan byggi á varðandi verndargildi svæðisins. Skipulagsstofnun hafi tekið undir þau sjónarmið að mikilvægt væri að unnin yrði landnýtingar- og verndaráætlun fyrir Kröflusvæðið áður en leyfi yrði veitt fyrir rannsóknarboranir á vestursvæði Kröflu. Vegslóði að borteigum muni þvera gönguleiðir sem liggja vestan Þríhyrninga og suðvestur Þríhyrningadal. Óröskuð svæði þar sem njóta má útivistar verði æ verðmætari og megi því ætla að svæðið verði vinsælla til útivistar þegar horft sé til framtíðar. Ekki sé hægt að líta á svokallað vestursvæði sem eðlilegt framhald eða hluta af því vinnslusvæði sem nú þegar sé í notkun heldur sé verið að fara inn á svæði þar sem nýting jarðhita sé ekki fyrir hendi í dag.

 

2.

Kærendur telja að óvissa ríki um rennslisleiðir grunnvatns á svæðinu og dreifingu eða þynningu mengunarefna. Fullnægjandi upplýsingar um þá þætti liggi ekki fyrir í dag og er í því sambandi vísað til niðurlags úrskurðarins. Niðurstöður rannsókna þar um þyrftu að vera eins glöggar og kostur er áður en ráðist verður í framkvæmdir sem spillt geta lífríkinu.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar er bent á að um tímabundna förgun affallsvatns sé að ræða sem, að mati stofnunarinnar, hafi óveruleg áhrif á lífríki Mývatns. Einnig er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um óvissu um rennslisleiðir grunnvatns og áherslu Skipulagsstofnunar á að framkvæmdaraðili afli frekari upplýsinga um þessa þætti hið fyrsta. Niðurstöður slíkra rannsókna ásamt vöktun á afdrifum og áhrifum affallsvatns muni að mati stofnunarinnar getað varpað ljósi á það hvort lífríki Mývatns stafi hætta af förgun affallsvatns vegna framkvæmda við Kröflu. Í umsögninni segir að stofnunin telji nauðsynlegt að upplýsingar um rennslisleiðir grunnvatns og dreifingu mengunarefna liggi fyrir áður en vinnsla jarðhita hefst á svæðinu, ef til þess kemur í framtíðinni. Hins vegar sé ekki nauðsynlegt að gera slíkar kröfur áður en rannsóknarboranir geta hafist þar sem um tímabundna framkvæmd er að ræða.

 

Í umsögn Landsvirkjunar er vísað til þess að í matsskýrslu hafi verið gerð grein fyrir tveimur leiðum til að farga affallsvatni þ.e. annars vegar í hraun á vestursvæði eða hins vegar í Hlíðardalslæk.  Við borun rannsóknarhola muni væntanlega fást upplýsingar um grunnvatnskerfið í hrauninu sem varpi ljósi á þá óvissu sem ríkir um gerð þess og rennslisleiðir og þá dreifingu/þynningu affallsvatns meðan á skammtímablæstri hola stendur. Í þessu sambandi megi benda á að eftir áratuga förgun affallsvatns í sprungur frá jarðhitavirkjuninni í Bjarnarflagi hafi mælingar við útstreymisstaði í Mývatn sýnt vart merkjanleg áhrif snefilefna frá förguninni. Vestursvæðið sé mun lengra frá Mývatni en Bjarnarflag. Skipulagsstofnun hafi fallist á báðar leiðir framkvæmdaraðila en hafi lagt áherslu á að tryggt yrði að ekki myndist lón eða óþarfa ummerki á yfirborði við losun ofan í hraunið og þess gætt að heildarrennsli í Hlíðardalslæk aukist ekki við losun í lækinn. Ennfremur er vísað til niðurstöðu í hinum kærða úrskurði um þetta atriði.

 

Í umsögn Skútustaðahrepps segir að all miklar rannsóknir hafi verið gerðar á rennsli grunnvatns á Mývatnssvæðinu og þá ekki síst vegna virkjanaframkvæmda á Kröflusvæðinu og á Námafjallssvæðinu. Bent er á skýrslu Hrefnu Kristmannsdóttur o.fl. frá því í apríl 1999. Fram kemur að sveitarstjórn Skútustaðahrepps telur ekki efni til að taka kæruna til greina.

 

Í umsögn iðnaðarráðuneytisins segir að víðtæk rannsókn á rennslisleiðum grunnvatns hafi farið fram á nærliggjandi svæðum um árabil sem að mati iðnaðarráðuneytisins hafi gefið vísbendingar um dreifingu grunnvatns til Mývatnssvæðisins.

 

?Ráðuneytið tekur undir orð Skipulagsstofnunar í niðurstöðum úrskurðarins um að eðlilegt sé við fyrirhugaðar rannsóknarboranir að framkvæmdaraðili vakti afdrif og kanni áhrif affallsvatns til að ganga úr skugga um afdrif og áhrif vatnsins fyrir lífríki Mývatns. Eðlilegt er að slíkt sé gert í tengslum við rannsóknarboranir þannig að frekari upplýsingar liggi fyrir ef til raforkuvinnslu kemur á svæðinu síðar.?

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað til umsagnar Hollustuverndar ríkisins um matsskýrslu. Ekki hafi verið talin ástæða til að leggjast gegn losun affallsvatns í sprungur ofan í hraunið. Þó sé þörf á ítarlegri rannsóknum á streymi grunnvatns, stefnu þess og þynningu mengunarefna áður en haldið verður lengra með framkvæmdir og hugsanlega virkjun. Losun affallsvatns í Hlíðardalslæk væri ásættanleg enda væri svipuðu magni affallsvatns á Kröflusvæðinu dælt niður í dýpri jarðlög þannig að heildarrúmmál í læknum myndi ekki aukast. Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafi fyrir sitt leyti fallist á tilraunaboranir á vestursvæði með ákveðnum skilyrðum. Það sé mat Umhverfisstofnunar að hægt sé að fallast á fyrirhugaða förgun affallsvatns vegna rannsóknarborana þar sem um tímabundna aðgerð er að ræða og framkvæmdaraðili hyggi á eftirlit og vöktun eftir að rannsóknarholum hefur verið hleypt upp sbr. umfjöllun í úrskurði Skipulagsstofnunar.

 

3.

Kærendur telur rétt að sú kvöð verði sett á umferð um vegslóðann að landeigendur og aðilar á hans vegum hefðu frjálsa för um hann. Þannig væri hægt að halda fjölda vegslóða um svæðið í lágmarki.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til hins kærða úrskurðar þar sem fram kemur að stofnunin telur eðlilegt að lokað verði fyrir almenna umferð um vegslóða að borstæði a.m.k. á varptíma til að draga úr áhrifum á ránfugla. Hins vegar segir að landeigendur og framkvæmdaraðili geti gert með sér samkomulag um umferðarrétt.

 

Í umsögn Landsvirkjunar er vísað til þess sem segir að framan um aðgerðir til að lágmarka truflun á aðgangi ferðamanna o.s.frv.

 

Í umsögn iðnaðarráðuneytisins er vísað til þess að Skipulagsstofnun telji eðlilegt að lokað verði fyrir almenna umferð eftir vegslóða að borsvæði a.m.k. á varptíma en engar kröfur séu gerðar þar um. Á þeim tíma sé ferðamannatímabil á svæðinu ekki hafið að neinu marki og það hljóti að vera samkomulagsatriði milli landeigenda og Landsvirkjunar á hvern hátt vegslóðinn verði nýttur í framtíðinni fyrir slíka umferð eins og verið hefur með aðra slóða á svæðinu.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað til þess að eftirlitsráðgjafi stofnunarinnar hafi lagt til að gerðar yrðu breytingar á fyrirhuguðu vegstæði til að minnka rask vegna  framkvæmdanna og draga úr sjónrænum áhrifum þeirra. Þær tillögur hafi falist í því að leggja veginn sem mest á helluhraunum þar sem veglagning yfir gróft apalhraun skilji eftir sig áberandi sár. Einnig væri mun auðveldara að afmá veginn af helluhrauni en apalhrauni en sjálfsagt hljóti að teljast að vegurinn verði fjarlægður ef ekki verði af nýtingu jarðgufu á vestursvæðinu við Kröflu. Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafi tekið undir þessar tillögur. Framkvæmdaraðili hafi fallist á að gera breytingar á legu vegarins sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar. Umhverfisstofnun telji að gera eigi ráð fyrir því að vegurinn verði fjarlægður verði ekki um að ræða nýtingu jarðhita á svæðinu í kjölfar rannsóknaborana. Því sé mikilvægt að halda allri umferð um slóðann í lágmarki og að hún einskorðist við þá umferð sem nauðsynleg er vegna rannsóknaborananna. Hafa verði í huga að um svæðið liggi gönguleiðir og því mikilvægt að halda raski og sjónrænum áhrifum í lágmarki sem og hljóðmengun. Engin ástæða sé til að hann verði opinn fyrir almennri umferð. Líta megi á lokun vegarins fyrir almennri umferð sem mótvægisaðgerð þar sem ránfuglar verði þar með fyrir minni truflun vegna framkvæmdanna sbr. ábendingar í yfirliti Náttúrufræðistofnunar Íslands um fálka, smyril og hrafn á vestursvæðinu við Kröflu. Bæði hrafn og fálki séu á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Einnig er vísað til umsagnar Náttúruverndar ríkisins um matsskýrslu þar sem fram kom að setja bæri það skilyrði fyrir framkvæmdunum að gengið yrði frá borplönum, holum, vegum, bílastæðum og öðru þannig að sem minnst ummerki sæjust, ef í ljós kæmi að holurnar yrðu ekki nýtanlegar.

 

4.

Í kæru segir ennfremur að ekki hafi verið tekið til sérstakrar umfjöllunar að landeigendur hyggjast taka umrætt landsvæði og auk þess jarðhitasvæði í grennd við það til nýtingar í eigin þágu. Þær áætlanir séu þó í mótun og séu enn ekki tilbúnar til að senda til Orkustofnunar. Fyrir liggi að efnistaka á svæðinu sé ekki ótakmörkuð og ljóst sé að landeigendur sjálfir eigi námur og jarðefni á eigin landi, jafnt jarðefni sem kalt vatn. Forgangur þeirra til landgæða sé lögvarinn. Réttur til mannvirkjagerðar á afmörkuðu svæði jarðarinnar byggist væntanlega á samningi við landeigendur frá 1971. Framkvæmdaraðili hafi tekið efni úr Grænugilsaxlarnámu í sambandi við þær framkvæmdir. Landsvirkjun hafi nýlega hafnað því að greiða fyrir numið efni úr námum á svæðinu. Því muni landeigendur ekki una. Fyrirhuguð efnistaka Landsvirkjunar, jafnt úr námum sem köldum lindum kynni því að raskast að óbreyttu. Er í því sambandi vísað til 26. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.

 

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að rétt sé að taka sjálfstæða afstöðu til áforma kærenda um nýtingu svæðisins á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlaga og annarra laga eftir því sem við á. Samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1996-2015 sé vestursvæði Kröflu skilgreint sem ?afréttir/óbyggt svæði?. Framkvæmdir á svæðinu kalli því á breytingu á aðalskipulagi. Skipulagsstofnun telur ágreining um greiðslur fyrir töku efnis og vatns ekki falla undir mat á umhverfisáhrifum en bendir á að heimildir framkvæmdaraðila þurfi að vera skýrar áður en leyfi eru veitt til framkvæmda.

 

Í umsögn Landsvirkjunar segir að kærendur, landeigendur Reykjahlíðar hafi ekki skilað inn athugasemdum við matsáætlun eða matsskýrslu. Bent er á að kærendur taka sjálfir fram að þær áætlanir séu í mótun og ekki tilbúnar. Varðandi ágreining um endurgjald fyrir efnistöku kemur fram að Landsvirkjun telur það atriði ekki hluta af mati á umhverfisáhrifum. Ítarleg grein sé gerð fyrir efnistöku og frágangi á námu sbr. lög um náttúruvernd. Iðnaðarráðherra hafi þann 18. júní 2002, veitt Landsvirkjun rannsóknarleyfi á öllu Kröflusvæðinu. Framkvæmdaleyfi hafi verið veitt þann 26. september 2002 fyrir gerð vegslóða og borteiga á vestursvæði. Leyfi Náttúruverndar ríkisins fyrir framkvæmdum við vegslóðagerð hafi verið veitt þann 8. október 2002 með ákveðnum skilyrðum. Vísað er til samnings frá 18. mars 1971 milli landeigenda Reykjahlíðar og þáverandi iðnaðarráðherra um að jarðhitaréttindi á afmörkuðu svæði í landi Reykjahlíðar ásamt jarðhita þeim, sem þar væri að finna og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans skyldu þaðan í frá vera ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar. Árið 1985 hafi ríkissjóður gert samning við Landsvirkjun um sölu á Kröfluvirkjun. Í samningnum komi fram að með mannvirkjum þeim og eignum sem tilheyra Kröfluvirkjun og Landsvirkjun eignist með samningnum teljist fullur og ótakmarkaður réttur til hagnýtingar á þeirri jarðhitaorku sem finnast kynni á Kröflusvæðinu. Skuli óheimilt án samþykkis Landsvirkjunar að stofna þar til annarrar vinnslu er haft geti áhrif á þessa nýtingu.

 

Í umsögn iðnarráðuneytisins er vísað til framangreinds samnings milli eigenda Reykjahlíðar og ríkisins frá árinu 1971 og samnings um sölu á Kröfluvirkjun frá 1985. Varðandi nýtingaráform landeigenda lítur ráðuneytið svo á að nýting umrædds svæðis sé að fullu heimil Landsvirkjun samkvæmt áðurgreindum samningum. Landeigendum sé hins vegar heimilt að rannsaka og nýta nærliggjandi svæði utan hins afmarkaða svæðis í samningum aðila að fengnum tilskildum leyfum stjórnvalda. Varðandi efnistöku telji ráðuneytið að Landsvirkjun hafi eingöngu nýtt jarðefni og námur í þágu rannsókna og orkunýtingar á Kröflusvæðinu eins og fyrrgreindir samningar aðila kveði á um. Í ljósi þessa telji ráðuneytið að staðfesta beri hinn kærða úrskurð.

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað til þess að Náttúruvernd ríkisins hafi ekki gert athugasemdir við fyrirhugaða efnistöku en bent hafi verið á að æskilegt væri að unnin yrði áætlun um frekari efnisvinnslu og frágang í samræmi við lög um náttúruvernd.

 

IV.            Niðurstaða.

 

1.

Framkvæmdaraðili gerir í umsögn sinni þá kröfu að framangreindri kæru landeigenda Reykjahlíðar ehf. verði vísað frá þar sem kærugrundvöllur þeirra sé því ekki í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum og líta beri framhjá tilraunum lögmanns kærenda til að marka kærunni grundvöll innan ramma laganna, eftir að kærufrestur er liðinn. Athugsemdir landeigenda Reykjahlíðar ehf. beinist tæpast að úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum rannsóknarborana á vestursvæði Kröflu. Sá hluti greinargerðar lögmanns kærenda er lúti að þeim atriðum sem fallið gætu undir mat á umhverfisáhrifum sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, sé ómarkviss, órökstuddur eða byggður á misskilningi.

 

Framangreind kæra barst ráðuneytinu með bréfi frá 16. október 2002. Nánari rökstuðningur kærenda barst ráðuneytinu barst ráðuneytinu þann 22. október 2002. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 skal kæra vera skrifleg. Ekki eru frekari formkröfur gerðar til kæru í lögunum. Slíkar kröfur koma heldur ekki fram í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Ekki verða því gerðar frekari kröfur til kæru vegna úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum en að hún sé skrifleg. Þá eru ekki sérstakar takmarkanir á framlagningu kæranda á frekari gögnum eftir að kæra er komin fram samkvæmt fyrrgreindum lögum. Ráðuneytið telur skýrt af bréfum kærenda, dags. 16. október 2002 sbr. bréf þeirra sem barst ráðuneytinu þann 22. október 2002, að um kæru sé að ræða, hvaða ákvörðun hafi verið kærð og hverjar séu málsástæður kærenda. Er því kröfu framkvæmdaraðila um frávísun kærunnar hafnað.

 

2.

Krafa kærenda er að hinn kærði úrskurður verði ógiltur.

 

Kærandi telur þörf á því að lagt verði fyrir framkvæmdaraðila að gera gleggri grein fyrir þeim aðgerðum sem hann hyggst viðhafa til að lágmarka truflun á ferðamennsku.

 

Í matsskýrslu er gerð grein fyrir áætluðum fjölda ferðamanna í Mývatnssveit og áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á ferðamennsku og útivist. Byggt er á könnun frá árinu 2001 á áhrifum virkjunarframkvæmda við Kröflu á ferðamenn og þjónustu við þá. Er gert ráð fyrir því að gerð vegslóða, borstæða og borteiga, borun og blástur borhola valdi tímabundið aukinni umferð og hækkun hljóðstigs í nágrenni framkvæmdasvæðisins. Auk þess leiði framkvæmdin til sjónrænna áhrifa á vestursvæði. Í matsskýrslu segir að vestursvæðið hafi hingað til ekki dregið til sín ferðamenn sem heimsækja Kröflusvæðið. Ferðaþjónustuaðilar sem leitað hafi verið álits hjá um nýtingu þessara gönguleiða telji umrætt svæði mjög lítið sótt af ferðamönnum enda gönguleiðirnar lítt kynntar. Ætla megi að 50 þúsund erlendir og innlendir ferðamenn hafi farið um Kröflusvæðið sumarið 2000 eða nær helmingur allra þeirra gesta sem höfðu einhverja viðdvöl í Mývatnssveit og 10-15 þúsund gestir á öðrum tíma. Talið er að hávaði og gufuleiðslur samfara framkvæmdum við jarðvarmanýtingu séu þeir þættir sem trufli ferðamenn mest. Þeir ferðamenn sem nýta sér gönguleiðir frá Leirhnjúki til suðurs og suðvesturs muni verða fyrir sjónrænum áhrifum meðan vegslóða- og borteigagerð standi yfir og eftir að framkvæmdum lýkur. Umferð um framkvæmdasvæðið muni einnig aukast tímabundið. Minnsta fjarlægð vegslóðans frá gönguleið meðfram Syðri-Sátu sé um 620 metrar en vegslóðinn þveri hins vegar gönguleiðir sem liggi vestan Þríhyrninga og suðvestur Þríhyrningadal. Á þessum stöðum megi reikna með að sjónrænna áhrifa gæti hvað mest. Í matsskýrslunni eru útreikningar á hljóðstigi á ferðamannastöðum vegna borunar rannsóknarhola en borun einnar holu er talin taka 50-60 daga. Er talið að hljóðstig á tilgreindum gönguleiðum verði á bilinu 37-50 dB(A). Einnig er reiknað hljóðstig vegna hola í blæstri en gert er ráð fyrir að blástursprófanir muni standa yfir í 4-6 mánuði. Gert er ráð fyrir að töluvert meiri hávaði skapist af blástursprófunum en talið er að hljóðstig á sömu gönguleiðum verði á bilinu 23-75 dB(A) við blástursprófanir. Fram kemur að fyrirhugað sé að koma nýjum og öflugri hljóðdeyfi fyrir við skiljustöð Kröflustöðvar. Við borun rannsóknarhola á vestursvæði sé fyrirhugað að nota eldri gerð hljóðdeyfa til að byrja með sem auðveldara er að fjarlægja en verði ákveðið að bora fleiri en tvær rannsóknarholur komi til greina að setja upp öflugri hljóðdeyfi. Í matsskýrslu kemur fram að tímasetning framkvæmda við gerð vegslóða, borstæða og við boranir ráðist af veðurfari á framkvæmdasvæðinu. Reynt verði að láta borholur blása utan aðal ferðamannatímans og ferðamönnum verði veittar upplýsingar um framkvæmdina á upplýsingaskiltum meðan á framkvæmdum stendur.

 

Ráðuneytið telur lýsingu framkvæmdar og greinargerð um áætluð áhrif hennar á ferðamennsku og útivist ítarlega. Um er að ræða tímabundna framkvæmd. Áhrif rannsóknarborunar á hljóðvist eru tímabundin.  Komið hefur fram að með breyttri legu vegarins sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar hafa skapast frekari möguleikar á því að afmá vegslóðann að framkvæmdum loknum, verði ekki af frekari framkvæmdum á svæðinu. Með hliðsjón af framansögðu er þessari kröfu kærenda því hafnað. 

 

Kærendur telja að óvissa ríki um rennslisleiðir grunnvatns á svæðinu og dreifingu eða þynningu mengunarefna og vísa til niðurlags hins kærða úrskurða í því sambandi þar sem fjallað er um förgun affallsvatns. Í hinum kærða úrskurði segir að Skipulagsstofnun leggi áherslu á nauðsyn þess að framkvæmdaraðili afli frekari upplýsinga um þessa þætti hið fyrsta.  Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að unnt sé að fallast á fyrirhugaða förgun affallsvatns vegna rannsóknarborana þar sem um tímabundna aðgerð er að ræða og framkvæmdarðili hyggur á eftirlit og vöktun eftir að rannsóknarholum hefur verið hleypt upp sbr. umfjöllun í hinum kærða úrskurði. Með vísun til umsagnar Umhverfisstofnunar, fyrirhugaðra rannsókna og þess að um tímabundna framkvæmd er að ræða telur ráðuneytið ekki tilefni til að hinn kærði úrskurður verði ógiltur af þessum sökum.

 

Kærendur krefjast þess að sú kvöð verði sett á umferð um vegslóðann að landeigendur og aðilar á hans vegum hafi frjálsa för um hann. Kærendur telja að þannig væri hægt að halda fjölda vegslóða um svæðið í lágmarki. Í hinum kærða úrskurði segir að eðlilegt sé að lokað verði fyrir almenna umferð a.m.k. á varptíma til að draga úr áhrifum á fugla. Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að líta megi á lokun vegarins sem mótvægisaðgerð þar sem ránfuglar verði þar með fyrir minni truflun vegna framkvæmdanna. Sams konar ábending kom fram í áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands til Landsvirkjunar, dags. 30. apríl 2002, þar sem fram kemur að fálki, smyrill og hrafn eigi sér aðsetur á Dalfjalli á vestursvæði Kröflu en fálki og hrafn eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Við fyrirhugaða framkvæmd er gert ráð fyrir einum vegslóða. Ekki hafa komið fram upplýsingar um að fyrirhugað sé að leggja aðra vegslóða samtímis eða í tengslum við þá framkvæmd sem til umfjöllunar er í þessu máli þannig að umferðarréttur kærenda um fyrirhugaðan vegslóða geti talist mótvægisaðgerð. Ráðuneytið fellst því ekki á að unnt sé að halda fjölda vegslóða í lágmarki með því að setja kvöð um umferð landeigenda. Ráðuneytið tekur undir niðurstöðu Skipulagsstofnunar í hinum kærða úrskurði um þetta atriði. Með vísan til þess sem að framan segir er þessari kröfu kærenda því hafnað.

 

Kærendur gera athugasemd við að í hinum kærða úrskurði hafi ekki verið tekið til sérstakrar umfjöllunar að landeigendur hyggjast taka umrætt landsvæði og auk þess jarðhitasvæði í grennd við það til nýtingar í eigin þágu. Í kærunni kemur fram að áætlanir séu í mótun og ekki tilbúnar til að senda til Orkustofnunar. Fyrir liggi að efnistaka á svæðinu sé ekki ótakmörkuð og landeigendur eigi forgang að þeim landgæðum. Umfjöllunarefni hins kærða úrskurðar eru fyrirhugaðar rannsóknarboranir Landsvirkjunar á vestursvæði Kröflu. Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum er að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar sbr. 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Í matsskýrslu skal tilgreina þau áhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir kann að hafa á umhverfi og samspil einstakra þátta í umhverfinu. Áform kærenda um nýtingu fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis hafa ekki verið mótuð né hrint í framkvæmd. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að leggja mat á áhrif framkvæmdarinnar á eignir eða starfsemi kæranda að því leyti. Samkvæmt X. kafla laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998 getur landeigandi krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir vegna röskunar eða skemmda á landi og mannvirkjum.

 

Í matsskýrslu er gerð grein fyrir efnisþörf vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Gert er ráð fyrir að nær allt efni í vegslóð og borteiga verði tekið úr opinni námu við Grænagilsöxl en lítilsháttar af fylliefni geti nýst úr skeringum. Ráðuneytið lítur svo á að álitaefni um rétt til afnota af framkvæmdasvæði og umfang þess falli utan mats á umhverfisáhrifum enda ekki um að ræða leyfi til framkvæmda. Breytist forsendur framkvæmdaraðila varðandi efnistöku fer um nýja efnistökustaði samkvæmt VI. kafla laga um náttúruvernd, nr. 44/1999 og 3. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Skútustaðahreppi, nr 36/1974 og lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 eftir því sem við á. Ráðuneytið fellst því ekki á framangreinda málsástæðu kærenda.

 

4.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að í Mývatnssveit sé landslag, jarðmyndanir og lífríki á heimsmælikvarða. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á jarðmyndanir og landslag segir: 

 

?Skipulagsstofnun telur að fyrirhugaðar  framkvæmdir með lagningu vegslóðar og gerð borteiga á vestursvæði Kröflu muni hafa veruleg og óafturkræf áhrif í för með sér á Leirhnjúkshraun og á ásýnd hraunbreiðunnar, sem er athyglisverð landslagsheild og með mikið verndargildi.?

 

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað til tillagna eftirlitsráðgjafa stofnunarinnar um breytingar á fyrirhuguðu vegstæði til að minnka rask vegna  framkvæmdanna og draga úr sjónrænum áhrifum þeirra. Þær tillögur hafi falist í því að leggja veginn sem mest á helluhraunum þar sem veglagning yfir gróft apalhraun skilji eftir sig áberandi sár. Auðveldara sé að afmá veginn af helluhrauni en apalhrauni en sjálfsagt hljóti að teljast að vegurinn verði fjarlægður ef ekki verði af nýtingu jarðgufu á vestursvæðinu við Kröflu. Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn hafi tekið undir þessar tillögur. Framkvæmdaraðili hafi fallist á að gera breytingar á legu vegarins sbr. úrskurð Skipulagsstofnunar. Umhverfisstofnun telur að gera eigi ráð fyrir því að vegurinn verði fjarlægður verði ekki um að ræða nýtingu jarðhita á svæðinu í kjölfar rannsóknaborana.

 

Samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 nýtur eldhraun sérstakar verndar og skal forðast röskun þess eins og kostur er. Fyrirhuguð framkvæmd er á svæði sem nýtur verndar samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974. Samkvæmt 1. gr. laganna er tilgangur þeirra að stuðla að verndun Mývatns- og Laxársvæðisins í Suður-Þingeyjarsýslu og skv. 3. gr. laganna er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask, á því landssvæði sem lögin taka til, óheimilt nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til.

 

Með hliðsjón af gögnum málsins telur ráðuneytið að unnt sé að afmá fyrirhugaðan vegslóða verði ekki af frekari vinnslu á vestursvæði að ræða. Í úrskurði ráðuneytisins, frá 30. desember 1999, um mat á umhverfisáhrifum um veg nr. 56 yfir Vatnaheiði eða Kerlingarskarð á Snæfellsnesi var kveðið á um að þáverandi Kerlingarskarðsvegur skyldi afmáður í tengslum við tiltekinn veglagningarkost framkvæmdaraðila. Borun rannsóknarholu fylgir ávallt ákveðin óvissa eðli málsins samkvæmt. Ráðuneytið telur að ástæða sé til að lágmarka umhverfisáhrif vegna rannsóknarborunar sbr. einnig úrskurð ráðuneytisins vegna mats á umhverfisáhrifum borunar rannsóknarholu og vegagerðar í Grændal, Ölfusi frá 27. nóvember 2001.

 

Með vísun til þess sem að framan segir er úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum rannsóknaborana á vestursvæði við Kröflu í Skútustaðahreppi frá 9. september 2000, staðfestur með því skilyrði að vegslóði að fyrirhuguðum borplönum verði fjarlægður verði ekki um að ræða nýtingu jarðhita á svæðinu í kjölfar rannsóknaborana. Vinna við framkvæmd og frágang skal unnin í samráði við Umhverfisstofnun og skal stofnunin leita umsagnar viðkomandi sveitarfélaga og landeigenda.

 

Úrskurðarorð:

Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum rannsóknaborana á vestursvæði við Kröflu í Skútustaðahreppi frá 9. september 2000 er staðfestur  með eftirfarandi skilyrði:

 

Vegslóði að fyrirhuguðum borplönum skal fjarlægður verði ekki um að ræða nýtingu jarðhita á svæðinu í kjölfar rannsóknaborana. Vinna við framkvæmd og frágang skal unnin í samráði við Umhverfisstofnun og skal stofnunin leita umsagnar viðkomandi sveitarfélaga og landeigenda.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta