Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 23/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 5. febrúar 2014 var tekið fyrir mál nr. 23/2013, A, gegn fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga.

 

Kærð er ákvörðun fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga frá 6. nóvember 2013, þess efnis að loka máli kæranda hjá nefndinni.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Mál þetta varðar lokun barnaverndarmáls kæranda, A, hjá fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga, þar sem talið var að kærandi væri eldri en 18 ára og ætti því ekki rétt á þjónustu og meðferð á grundvelli barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Kærandi kom til landsins 26. ágúst 2013 með Norrænu og var síðan handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á leið til Kanada 28. ágúst 2013 fyrir að framvísa fölsuðu vegabréfi. Kærandi viðurkenndi það og kvaðst vera fæddur 1. júlí 1996 og væri því 17 ára gamall. Brugðist var við aðstæðum kæranda og honum veittur nauðsynlegur stuðningur af hendi fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga, sem fer með hlutverk barnaverndarnefndar, og Félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Vegna uppgefins aldurs kæranda var við meðferð máls hans höfð hliðsjón af barnaverndarlögum. Gerð var aldursgreining á kæranda og var það mat þeirra sérfræðinga sem hana unnu að kærandi væri eldri en tvítugur og sennilega nær þrítugu. Í kjölfarið var ákveðið, með bókun fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga, að loka máli kæranda á grundvelli framlagðra gagna.

 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt og að fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga verði gert að veita honum þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum.

 

Fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga telur að rétt hafi verið að loka máli kæranda.

 

 

Málefni kæranda bárust fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga með tilkynningu frá lögreglu 28. ágúst 2013 um að afganskur drengur hafi verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með falsað vegabréf á leið til Kanada. Drengurinn kvaðst vera fæddur 1. júlí 1996 en hann var án gildra skilríkja og gat því ekki fært sönnur á aldur sinn. Drengurinn kom ólöglega til landsins frá Noregi þar sem hann óskaði eftir hæli. Kærandi var færður í varðhald lögreglunnar á Suðurnesjum. Í ljósi uppgefins aldurs voru barnaverndaryfirvöld upplýst um stöðu drengsins í því skyni að hann fengi þjónustu og meðferð sem barn á grundvelli barnaverndarlaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

 

Í samráði við Barnaverndarstofu var ákveðið að leysa kæranda úr haldi og útvega honum samastað. Þá var honum komið í samband við Félagsþjónustu Reykjanesbæjar þar sem hann sótti rétt sinn sem hælisleitandi, en hann óskaði eftir hæli á Íslandi. Barnaverndarstarfsmaður sinnti réttindagæslu og ýmsum stuðningi við kæranda og fylgdi málum hans eftir, meðal annars hjá innanríkisráðuneytinu, Útlendingastofnun og Barnaverndarstofu.

 

Kærandi hafði áður sótt um hæli í Noregi og gekkst hann þar undir aldursgreiningu 29. nóvember 2012. Niðurstöður þeirrar greiningar voru þær að kærandi væri um það bil 18 ára gamall. Hann gæti þó allt eins verið yngri eða eldri. Ekki væri hægt að útiloka að hann hefði greint frá réttum aldri en það þyki ólíklegt.

 

Í ljósi þessara óljósu upplýsinga var óskað eftir því að kærandi undirgengist aldursgreiningu á ný og var hún framkvæmd 18. september 2013. Í greinargerð tannlæknanna Svend Richter og Sigríðar Rósu Víðisdóttur frá 20. september 2013 kemur meðal annars fram að aldursákvörðun út frá tönnum sé almennt mjög nákvæm hjá börnum og ungmennum fram að tvítugsaldri. Á því aldursskeiði, þegar tennur séu að myndast og þroskast, sé nákvæmni slíkrar greiningar almennt um eitt til tvö ár. Eftir tvítugt þegar allar tennur séu fullmyndaðar sé nákvæmni aldursgreininga út frá tönnum ekki meiri en 8–10 ár og minnki eftir því sem einstaklingar séu eldri. Í niðurstöðu greinargerðarinnar kemur fram að það sé mat sérfræðinganna að kærandi sé eldri en tvítugur og sennilega nær þrítugu. Þau telji nánast útilokað að uppgefinn aldur, 17 ár og tveir mánuðir, standist.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Eins og fram hefur komið lokaði fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga máli kæranda 6. nóvember 2013. Kærandi er ósáttur við þá ákvörðun og kveðst vera 17 ára gamall og eiga því rétt á því að farið sé með mál hans á grundvelli barnaverndarlaga. Hann bendir á að hvorug aldursgreiningin sem fram hafi farið á honum hafi útilokað þá staðreynd að uppgefinn aldur hans sé réttur. Þrátt fyrir að íslenska rannsóknin hafi falið í sér líkur fyrir því að aldur hans sé 19,7 ár, þá sé staðalfrávikið 1,4 ár sem þýði að aldur hans geti við í kringum uppgefinn aldur. Aldursgreining geti aldrei talist öruggur mælikvarði á aldur einstaklings líkt og niðurstaða íslensku rannsóknarinnar gefi til kynna.

 

Kærandi búi við kröpp kjör sem hælisleitandi og búi við óviðunandi aðstæður samkvæmt 2. gr. barnaverndarlaga. Með aðstoð barnaverndarnefndar sé þó hægt að gera aðstæður hans viðunandi. Ekki hafi verið útilokað að uppgefinn aldur kæranda sé réttur. Í ljósi markmiðs barnaverndarlaga um vernd barna og að hagsmunir þeirra skuli ávallt hafði í fyrirrúmi, sbr. 1. og 4. gr. laganna, beri að veita kæranda þjónustu sem barni.

 

 

 

III. Sjónarmið fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga

 

Í greinargerð fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga 19. nóvember 2013 eru raktir málavextir og meðferð máls þessa fyrir nefndinni.

 

Þar kemur fram að málefni kæranda hafi borist fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga með tilkynningu frá lögreglu 28. ágúst 2013 um að afganskur drengur hafi verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með falsað vegabréf á leið til Kanada. Drengurinn kvæðist vera fæddur 1. júlí 1996 en hafi verið án gildra skilríkja og hafi því ekki getað fært sönnur á aldur sinn. Drengurinn hafi verið tengdur Félagsþjónustu Reykjanesbæjar þar sem hann hafi sótt rétt sinn sem hælisleitandi og þá hafi barnaverndarstarfsmaður sinnt réttindagæslu og stuðningi við hann að auki.

 

Í greinargerðinni segir að gerð hafi verið aldursgreining á kæranda í Noregi 29. nóvember 2012. Niðurstöður þeirrar greiningar hafi veri óljósar og gefið til kynna að hugsanlega gæti kærandi verið að greina frá réttum aldri, en það væri þó ólíklegt. Í þessu ljósi hafi verið óskað eftir því að kærandi undirgengist aldursgreiningu á ný og hafi hún verið framkvæmd 18. september 2013. Í greiningunni hafi verið beitt þrenns konar aðferðum og ef tekin séu meðaltöl þeirra þriggja aðferða fáist að aldurinn sé að minnsta kosti 19,7 ár og staðalfrávik 1,4 ár. Í niðurstöðum matsins segi að það sé mat sérfræðinganna að kærandi sé eldri en tvítugur og sennilega nær þrítugu. Telji sérfræðingarnir nánast útilokað að uppgefinn aldur, sautján ár og tveir mánuðir, standist.

 

Með hliðsjón af framangreindu og þrátt fyrir staðalfrávik kæranda í hag, verði að telja að hann sé orðinn átján ára gamall og teljist því ekki vera barn. Í ljósi íslensku aldursgreiningarinnar hafi kærandi hlotið dóm sem fullorðinn einstaklingur í Héraðsdómi Reykjaness 7. október 2013 og hafi þeim dómsorðum verið áfrýjað fyrir hans hönd. Þá sé einnig að vænta niðurstaðna Útlendingastofnunar varðandi hælisumsókn kæranda innan tíðar.

 

Fram kemur að niðurstaða könnunar málsins samkvæmt 21. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnavernd, nr. 56/2004, hafi verið að kærandi væri að öllum líkindum ekki undir 18 ára aldri. Viðtöl við hann hafi leitt í ljós að líðan hans og staða væri góð, ásamt því að hann hafi myndað tengsl við samlanda sína. Í ljósi niðurstaðna íslensku aldursgreiningarinnar, þeirrar norsku og stöðu kæranda hafi það verið mat starfsmanna og nefndarmanna fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga að ekki væri þörf á að veita kæranda frekari þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum. Hafi því verið tekin ákvörðun um að loka máli kæranda og beina honum í þjónustu hjá Félagsþjónustu Reykjanesbæjar. Kærandi hafi verið upplýstur um málavexti og lokun málsins og hann hafi einnig verið upplýstur um rétt sinn til þess að kæra niðurstöðu könnunar máls til kærunefndar barnaverndarmála.

 

 

 

 

IV. Forsendur og niðurstaða

 

Kærandi var handtekinn þegar hann hugðist fara úr landi til Kanada 28. ágúst 2013 fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Hann kvaðst vera fæddur 1. júlí 1996 og vera því 17 ára og tveggja mánaða gamall. Í ljósi uppgefins aldurs kæranda var farið með mál hans með hliðsjón af barnaverndarlögum. Aldursgreining á kæranda sem gerð var í kjölfarið benti til þess að hann væri eldri, tvítugur eða þrítugur, og var barnaverndarmáli kæranda því lokað hjá fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga með bókun 6. nóvember 2013.

 

Hin kærða ákvörðun fjölskyldu- og velferðarnefndarinnar var tekin á grundvelli greinargerðar 16. október 2013 um könnun máls samkvæmt 21. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, nr. 56/2004. Eins og fram kemur í 23. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skal barnaverndarnefnd taka saman greinargerð þar sem meðal annars ber að lýsa niðurstöðum könnunar. Í greinargerðinni er mælt með því að máli kæranda verði lokað.

 

Kærandi krefst ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. Hann byggir á því að uppgefinn aldur hans sé réttur og bendir á að hvorug rannsóknin, sú norska eða sú íslenska, sem gerð hafi verið á aldri hans hafi útilokað þá staðreynd.

 

Í 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga kemur fram að börn eigi rétt á vernd og umönnun. Í 1. mgr. 3. gr. sömu laga segir að með börnum í lögum þessum sé átt við einstaklinga yngri en 18 ára. Fyrir liggur að leggja mat á þá ákvörðun fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga að loka barnaverndarmáli kæranda með þeim rökum að hann væri eldri en 18 ára gamall og ætti því ekki rétt á þeirri vernd og umönnun sem barnaverndarlögum er ætlað að tryggja börnum og ungmennum undir þeim aldri.

 

Í niðurstöðu norskrar aldursgreiningar Kvinne- og barneklinikken frá 29. nóvember 2012 kemur fram að kærandi sé um það bil 18 ára gamall. Hann geti þó allt eins verið yngri eða eldri. Ekki sé hægt að útiloka að hann hafi gefið upp réttan aldur en það þyki mjög ósennilegt. Í niðurstöðu íslenskrar aldursgreiningar, sem gerð var í september 2013 fyrir lögregluna á Suðurnesjum, kemur fram það mat að kærandi sé eldri en tvítugur og sennilega nær þrítugu. Telja sérfræðingarnir nánast útilokað að uppgefinn aldur, 17 ár og tveir mánuðir, standist.

 

Með tilliti til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu verður að telja afar ósennilegt að kærandi hafi verið yngri en 18 ára þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Kærandi telst því ekki barn í skilningi barnaverndarlaga samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þeirra og eiga lögin því ekki við um aðstæður hans. Með vísan til þessa var fjölskyldu- og velferðarnefnd Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga rétt að loka máli kæranda. Samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvörðun fjölskyldu- og velferðarnefndar Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga frá 6. nóvember 2013 um að loka máli A, er staðfest.

 

                            

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

 

 

                        Guðfinna Eydal                                             Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira