Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 18. september 2013 var tekið fyrir mál nr. 12/2013, A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna dóttur hans og B, C.

 

Kærð er ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur, frá meðferðarfundi 23. apríl 2013, þar sem ákveðið var að loka máli kæranda.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Mál þetta varðar barnaverndarmál A, vegna dóttur hans, C. Kærandi hefur haft áhyggjur af því að móðir stúlkunnar hafi verið í tengslum við mann, D, sem hafi verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart þroska­heftri stúlku sem og vörslu á barnaklámi, og hafi hann umgengist dóttur kæranda. Kærandi hefur ítrekað tilkynnt barnaverndaryfirvöldum að barnsmóðir hans umgangist kynferðis­brotamann. Málið var til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur en ákveðið var á meðferðarfundi Barnaverndar 23. apríl 2013 að loka því. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar barnaverndarmála 23. maí 2013. 

 

Kærunefnd barnaverndarmála hefur áður kveðið upp úrskurð í máli kæranda vegna dóttur hans af sömu ástæðum og hér eru á ný til umfjöllunar. Kærandi var þá ósáttur við að könnun Barnaverndar Reykjavíkur á málinu skyldi hafa verið lokað 13. mars 2012 og kærði þá ákvörðun til kærunefndar barnaverndarmála sem kvað upp úrskurð 10. apríl 2013. Kærunefndin taldi að ekki hefðu verið forsendur til þess að loka málinu á þeim tíma eins og gert var áður en aflað hafði verið viðhlítandi upplýsinga um líðan barnsins, aðbúnað þess og hagi. Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur var því felld úr gildi með úrskurði kærunefndarinnar. Gögn þessa fyrra máls eru meðal gagna þess máls sem hér er til úrlausnar.

 

Í niðurstöðu greinargerðar frá meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur 23. apríl 2013 kemur eftirfarandi ákvörðun fram:

 

,,Um er að ræða fimm ára gamla telpu sem ekki verður annað séð en að búi við gott atlæti hjá báðum foreldrum sínum sem fara með sameiginlega forsjá. Faðir tilkynnti til Barnaverndar Reykjavíkur um áhyggjur sínar af telpunni, vegna sambands móður telpunnar við mann sem er dæmdur kynferðisbrotamaður. Einnig komu fram í tilkynningu áhyggjur föður af því að telpan gisti hjá manni sem faðir telur eiga við geðrænan vanda að etja og sé af þeim sökum ekki hæfur til að sinna börnum. Málið var kannað og kemur ekkert fram við könnun málsins sem bendir til þess að afskipta á grundvelli barnaverndarlaga sé þörf. Allur aðbúnaður á báðum heimilum telpunnar er til fyrirmyndar og upplýsingar sem bárust varðandi líðan telpunnar og umhyggju foreldra fyrir telpunni, frá leikskóla og heilsugæslu, voru góðar. Ekkert kom fram í viðtölum við telpuna sem bendir til þess að hún óttist vini móður né að henni hafi verið gert nokkuð illt. Þvert á móti talaði telpan á jákvæðum nótum um hluti sem hún og móðir gera með vinum móður. Í viðtölum við telpuna kom fram að hún virðist í nánum tengslum við báða foreldra og vera vel sinnt á allan hátt.

 

Faðir hefur áður ítrekað tilkynnt sömu áhyggjur til Barnaverndar Reykjavíkur og hefur ekki verið sáttur við þau málalok sem hafa orðið og gert athugasemdir við vinnulag Barnaverndar Reykjavíkur.

 

Það er mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að viðhlítandi gagna um líðan barnsins, aðbúnað þess og hagi, hafi nú verið aflað og því tímabært að taka ákvörðun um framhald málsins. Það er niðurstaða starfsmanna á grundvelli þess sem fram hefur komið við könnun málsins að ekki sé ástæða til þess að beita úrbótum á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna aðstæðna telpunnar í umsjá beggja foreldra sinna.“

 

Málinu var því lokað að nýju með framangreindri ákvörðun sem kærandi hefur nú kært með tölvupósti til kærunefndar barnaverndarmála 23. maí 2013. Hann krefst ógildingar á ákvörðuninni og þess að ítarleg könnun fari fram á málinu um vanrækslu barnsins.

 

Barnavernd Reykjavíkur krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

 

Fyrsta tilkynning í fyrra máli kæranda barst Barnavernd Reykjavíkur frá honum 17. nóvember 2011, þess efnis að maður sem dæmdur hafði verið fyrir kynferðisofbeldi gegn þroskaheftri stúlku og fyrir vörslu á barnaklámi væri kærasti móður stúlkunnar og umgengist stúlkuna. Í gögnum málsins er gerð grein fyrir frekari tilkynningum og meðferð málsins frá fyrstu tilkynningu kæranda og þar til málinu var lokað 13. mars 2012. Eins og fram hefur komið felldi kærunefnd barnaverndarmála þá ákvörðun úr gildi með úrskurði 10. apríl 2013.

Í gögnum málsins er gerð grein fyrir meðferð þess hjá Barnavernd Reykjavíkur frá því að ný tilkynning barst frá kæranda 2. maí 2012 eftir að málinu hafði verið lokað 13. mars 2012, og þar til því var lokað að nýju 23. apríl 2013.  Á þeim tíma var meðal annars rætt við báða foreldra stúlkunnar í október og nóvember 2012, stúlkuna sjálfa í tvígang, bæði á heimili föður og á heimili móður, í febrúar og mars 2013, aflað var upplýsinga frá leikskóla stúlkunnar , sem bárust 3. janúar 2013, frá Heilsugæslunni í Grafarvogi sem bárust 4. desember 2012 og frá Heilsugæslunni í Lágmúla sem bárust 11. desember 2012. Ennfremur var kallað eftir upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um báða foreldra.

Í gögnum málsins, svo sem greinargerð frá meðferðarfundi 23. apríl 2013, er m.a. gerð grein fyrir heimsóknum á heimili beggja foreldra stúlkunnar. Þar kemur fram sem og í viðtölum við hana sjálfa að afar vel er að henni búið. Viðtölin hafi leitt í ljós að ekki væri hægt að sjá annað en að stúlkan væri lífsglöð og að henni væri vel sinnt á allan hátt. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla stúlkunnar líður henni vel og hún er alltaf glöð og kát. Umhirða hennar er til fyrirmyndar og hún er með allt með sér sem hún á að hafa og er hrein og snyrtileg. Hún mætir vel og ef hún er í fríi eða veik er látið vita. Stúlkan er vel stödd námslega, á góð samskipti við önnur börn og á margar vinkonur. Fram kemur að samskipti við foreldra hafi verið góð. Stúlkan sé einstakleg ljúf og góð, eigi auðvelt með samskipti og sé í góðu andlegu jafnvægi. Samkvæmt læknisvottorði Jóns Bjarnasonar læknis, dags. 11. desember 2012, kom ekkert fram í mati hans á nótum varðandi almennar áhyggjur af heilsufari stúlkunnar. Í umsögn Heilsugæslunnar í Grafarvogi, dags. 4. desember 2012, kemur fram að stúlkan hefur þroskast og dafnað eðlilega en fram kemur að foreldrar hafi afþakkað bólusetningar fyrir stúlkuna.

Dóttir kæranda laut áður sameiginlegri forsjár föður og móður sinnar, B, en þau eru fráskilin. Móðir stúlkunnar fer nú ein með forsjá hennar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. júlí 2013 sem kærandi hefur lagt fram í málinu. Dómurinn fól matsmanni að meta persónulega eiginleika og hagi stúlkunnar ásamt tengslum hennar við foreldra sína. Lagt var Bene-Anthony fjölskyldutengslapróf  fyrir stúlkuna. Niðurstaða matsmannsins var sú að stúlkan væri í góðum og nánum tengslum við foreldra sína og systkini sín sammæðra. Hún virtist ekki upplifa neitt vont frá sínum nánustu og flest neikvæðu skilaboðanna leggi hún til hliðar. Um stúlkuna segir matsmaðurinn að hún hafi alist upp með báðum foreldrum sínum til tveggja og hálfs árs aldurs en hafi frá þeim tíma haft lögheimili hjá móður en notið ríkrar umgengni við föður sinn. Á heimili móður hafi hún alist upp með tveimur eldri systkinum og séu tengsl hennar við þau góð. Það sé hverju barni þroskavænlegt að alast upp með systkinum sínum. Stúlkan sé í góðum tengslum við ættingja sína, föður og móður megin. Stúlkan sé einstaklega skýr og vel gerð, örugg með sig og í góðu jafnvægi. Það sé augljóst að báðir foreldrar hennar hafi hlúð vel að henni og það fyrirkomulag sem verið hafi á umgengni stúlkunnar við foreldra sína hafi gefist mjög vel.

Um tengsl foreldranna við stúlkuna segir matsmaðurinn að hún sé í góðum tengslum við báða foreldra sína. Tengslin séu ástrík og örugg. Deila foreldranna virðist ekki hafa gert stúlkuna óörugga eða haft neikvæð áhrif á tengsl hennar við foreldrana. Tengslapróf gefi til kynna að tengslin kunni að vera ívið sterkari við móður þar sem hún fái fleiri skilaboð í heildina. Jafnframt ýti það undir örugga tengslamyndun að stúlkan hafi verið á brjósti í tvö ár.

Í dómnum segir að matsmaður hafi sérstaklega verið beðinn að leggja mat á hvernig foreldrar ræktu skyldu sína til að vernda stúlkuna gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi ,,í tengslum við mann sem stefnda hefur átt í einhverskonar sambandi við undanfarið eitt og hálft ár, en þessi maður hefur hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn þroskaheftri stúlku og vörslu á barnaklámi“.

Matsmaðurinn segir áhyggjur kæranda af samskiptum móður við dæmdan kynferðisafbrotamann, sem einnig hafi verið dæmdur fyrir vörslu á barnaklámi, skiljanlegar í ljósi þess að kynferðislegt ofbeldi og barnaklám ógni öryggi barna. Það sé á ábyrgð foreldra að tryggja að maður með slíkan dóm hvorki gæti barns né sé nokkurn tíma einn með því. Móðir hafi skýrt matsmanni frá eðli vináttu sinnar við D. Þau séu AA-félagar og í tengslum við þann félagsskap hafi þau umgengnist fyrir utan AA-fundi. Móðir sé félagslynd og eigi marga vini innan AA-samtakanna og staðhæfi að ekki sé eðlismunur á vináttu hennar og D og vináttu hennar við aðra AA-félaga. Félagsskapur þeirra fari fram utan heimilis hennar og þar hafi D aldrei verið gestkomandi.

Fram kemur að móðir sé vel gefin kona, reglusöm og lifi heilbrigðu lífi. Ekkert í persónugerð hennar bendi til þess að dómgreind hennar á þarfir barnanna sé skert eða að hún sé ófær um að vernda börn sín fyrir aðsteðjandi hættum. Hún eigi þrjú mannvænleg börn og hafi borið hitann og þungann af uppeldi tveggja eldri barna sinna. Hún hafi sýnt það í verki að hún leggi alúð við uppeldishlutverk sitt. Það sé því álit matsmanns að móðir sé hæf til að meta hvenær hættur séu á ferðinni og bregðast á viðunandi hátt við þeim.

 

 

 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Eins og fram hefur komið lokaði Barnavernd Reykjavíkur máli dóttur kæranda 23. apríl 2013. Enn femur hefur komið fram að málið sé tilkomið vegna samskipta móður stúlkunnar við dæmdan kynferðisbrotamann annars vegar og umönnunar og gistingar stúlkunnar hins vegar hjá fyrrverandi sambýlismanni móðurinnar, sem kærandi telur óhæfan til þess að annast hana. Kærandi er ósáttur við þá ákvörðun og að ekki hafi þótt ástæða til frekari afskipta Barnaverndar Reykjavíkur af málinu. Barnaverndin gefi í skyn að um sé að ræða einkamál fjölskyldunnar en það dragi kærandi í efa. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ítarlegri könnun samkvæmt lögum fari fram í kjölfarið um vanrækslu barnsins. Jafnframt er þess óskað í greinargerð kæranda sem fyldi kærunni að kærunefndin kalli eftir gögnum sem nauðsynleg séu til að unnt sé að meta hvort barnið búi við stöðuga og síendurtekna vanrækslu í umsjón móðurinnar.

 

Kærandi gerir athugasemdir við það að í gögnum málsins fylgi ekki dagálar af fundum foreldra með ráðgjöfum Barnaverndar vegna funda 24. september, 25. október og 1. nóvember 2012.

 

Kærandi bendir á að ekki sé að sjá á Niðurstöðu könnunar eða við lestur á greinargerðum að Barnavernd Reykjavíkur vinni eftir eða taki tillit til Handbókar barnaverndarstarfsfólks eða notist við Skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnavernd sem Barnaverndarstofa hafi gefið út.

 

Kærandi átelur afstöðu Barnaverndar sem komi fram í afskipta- og aðgerðaleysi. Hann telur að það sé íhugunarvert hvaða skilaboð sé verið að gefa foreldrum. E.t.v. tali Barnavernd of mikið í véfréttastíl sem erfitt sé að túlka eða skilja. Mögulega liggi fyrir viðkvæmar upplýsingar sem ekki sé hægt að fjalla um í niðurstöðum máls, en samskipti foreldra og Barnaverndar verði að vera þannig að traust sé til staðar og fullvissa um að hagsmunir barns séu öllum öðrum hagsmunum ofar, þar á meðal hagsmunum eða einkamálum foreldra, þannig að tryggt sé að farið sé að lögum og stjórnarskrárbundinn réttur barnsins til verndar og tryggrar umönnunar sé virtur.

 

 

III. Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

 

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 23. júlí 2013 er meðferð máls þessa fyrir Barnavernd Reykjavíkur rakin ítarlega.

 

Fram kemur að samkvæmt 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Það sjónarmið vegi einnig þungt að öll afskipti barnaverndarnefnda af málefnum fjölskyldu feli í sér íhlutun í mál sem venjulegast mundu teljast einkamál. Af þessum sökum m.a. sé það meginregla að könnun máls gangi ekki lengra en þörf sé á hverju sinni, sbr. 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga. Það sé hins vegar álitamál og huglægt mat hverju sinni hversu langt skuli ganga til að fullnægja framangreindum sjónarmiðum.

 

Í máli þessu hafi verið óskað eftir upplýsingum frá heilsugæslu, lögreglu, þjónustumiðstöð og leikskóla. Þá hafi í tvígang verið rætt við barnið auk þess sem rætt hafi verið við foreldra þess. Eftir könnun í málinu hafi niðurstaðan verið sú að ekki hafi þótt ástæða til frekari afskipta á grundvelli barnaverndarlaga og hafi foreldrum verið kynnt sú niðurstaða.

 

 

 

IV. Forsendur og niðurstaða

Kærandi krefst ógildingar á þeirri ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur að loka máli hans vegna dóttur hans 23. apríl 2013. Hann krefst þess einnig að ítarleg könnun fari fram á málinu um vanrækslu barnsins. Barnavernd Reykjavíkur telur að ekki hafi verið ástæða til frekari afskipta af málinu á grundvelli barnaverndarlaga.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga er markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum laganna, allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Enn fremur segir þar að í þessu skyni skuli barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skuli að­stoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefji.

Að mati kærunefndar barnaverndarmála liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um aðstæður stúlkunnar eins og fram hefur komið með þeim hætti að unnt sé að taka ákvörðun í máli þessu í samræmi við hagsmuni og þarfir hennar. Barnavernd Reykjavíkur hefur kannað málið eftir tiltækum leiðum auk þess sem fyrir liggur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. júlí 2013 um forsjá stúlkunnar. Í dóminum kemur fram að dómkvaddur var matsmaður, m.a. til þess að meta eiginleika og hagi stúlkunnar ásamt tengslum hennar við foreldra. Að þessu virtu þykja ekki efni til að kalla eftir frekari gögnum í málinu áður en kærunefndin kveður upp úrskurð í því.

 

Í málinu liggur fyrir niðurstaða könnunar sem gerð var af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur í tilefni af því að aflað var upplýsinga um aðstæður barnsins til þess að unnt væri að meta þörf fyrir úrræði samkvæmt barnaverndarlögum. Samkvæmt því sem þar kemur fram var við könnun málsins ekki hægt að sjá annað en að barninu liði vel, það væri í góðu jafnvægi og að vel var hugsað um það þegar könnunin fór fram  seint á árinu 2012 og fyrr á þessu ári.

 

Í umsögn leikskólastjóra 3. janúar 2013 kemur fram að stúlkunni líði vel og að hún sé alltaf glöð og kát. Umhirða sé til fyrirmyndar og hún mæti vel. Hún sé mjög vel stödd námslega. Stúlkan eigi mjög góð samskipti við önnur börn, hún eigi margar vinkonur og sé vinsæl. Foreldrar eigi góð samskipti við leikskólann. Stúlkan sé eintaklega ljúf og góð stúlka sem eigi auðvelt með samskipti og hún sé í mjög góðu andlegu jafnvægi.

 

Barnavernd Reykjavíkur aflaði fullnægjandi læknisfræðilegra gagna varðandi almennt heilsufar stúlkunnar og þroska.  

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður að telja að Barnavernd Reykjavíkur hafi aflað viðhlítandi gagna um aðstæður stúlkunnar, almennt heilsufar hennar, andlega geðheilsu og þarfir. Kærunefndin telur því legið hafi fyrir upplýsingar sem þörf var á til þess að unnt væri að taka ákvörðun um að loka málinu eins og gert var af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Samkvæmt því og með vísan til 22. og 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber að staðfesta mat Barnaverndar um að rétt hafi verið að loka málinu og er hin kærða ákvörðun því staðfest með vísan til þessa.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 23. apríl mars 2012 um að hætta könnun á aðstæðum dóttur kæranda, A, er staðfest.

 

                            

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

 

            Guðfinna Eydal                                                                    Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira