Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 17/2015: Dómur frá 9. maí 2015

Íslenska ríkið gegn Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins.

Ár 2015, sunnudaginn 10. maí, er í Félagsdómi í málinu nr. 17/2015

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Félagi háskólamenntaðra

starfsmanna Stjórnarráðsins

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 9. maí 2015.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Elín Blöndal og Inga Björg Hjaltadóttir

Stefnandi er fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.

Stefndi er Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Borgartúni 6, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

  1. Að viðurkennt verði með dómi að verkfall Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, sem boðað var með bréfi til Fjársýslu ríkisins, dagsettu 22. apríl 2015, og hefjast skal hinn 11. maí 2015, kl. 00:00, sé ólögmætt.

  2. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.

           

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk þess sem krafist er málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati réttarins.

 

Málavextir

Kjarasamningur Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, með síðari breytingum og viðaukum, rann út hinn 28. febrúar 2015. Samningar milli deiluaðila hafa því verið lausir frá 1. mars sl. Samninganefndir deiluaðila hittust tvisvar sinnum áður en kjaradeilu þeirra var vísað til ríkissáttasemjara. Stefndi kveðst hafa ákveðið að efna til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna um það, hvort efna skyldi til tímabundinna verkfalla, fyrst 9. apríl sl. sem allir félagsmenn stefnda utan ráðuneyta skyldu taka þátt í, og svo frá 20. apríl til 8. maí 2015 sem takmarkaðist við félagsmenn sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins.

Stefnandi höfðaði mál fyrir Félagsdómi sem þingfest var 31. mars sl. og krafðist þess að boðuð tímabundin verkföll stefnda yrðu dæmd ólögmæt með þeim rökum að þau samræmdust ekki ákvæðum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stefndi krafðist sýknu af kröfum stefnanda. Með dómi, uppkveðnum 6. apríl sl., var stefndi sýknaður af dómkröfum stefnanda.

Hinn 22. apríl sl. barst Fjársýslu ríkisins tilkynning um boðun verkfalls hjá stefnda. Í tilkynningunni kemur fram að á félagsfundi þann sama dag hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stefnda, sem starfi hjá Fjársýslu ríkisins, um boðun ótímabundins verkfalls frá klukkan 00:00 hinn 11. maí 2015. Í tilkynningunni greinir að á kjörskrá hafi verið 35 félagsmenn, 24 þeirra hafi greitt atkvæði og þar af hafi 19 samþykkt boðun ótímabundins verkfalls. Er tekið fram í tilkynningunni að þessi niðurstaða fullnægi kröfum 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Kom fram í skýrslu Gunnars H. Hall, fjársýslustjóra ríkisins, við aðalmeðferð málsins að framangreind tilkynning hefði borist honum 22. apríl sl. með rafrænum hætti. Hann hefði síðan óskað eftir því við stefnda að Fjársýslu ríkisins yrðu sendar upplýsingar og gögn um framkvæmd atkvæðagreiðslu um umrædda verkfallsboðun hinn 28. apríl sl.

Samkvæmt vitninu, Söru Lindar Guðbergsdóttur, lögfræðingi hjá kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, fékk hún upplýsingar um umrædda verkfallsboðun þegar hún skoðaði heimasíðu BHM 27. apríl sl. Hafi fjármála- og efnahagsráðuneytið þá fyrst orðið hennar áskynja og kvaðst vitnið í kjölfarið hafa óskað eftir frekari upplýsingum um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðunina frá stefnda og jafnframt óskað eftir afriti af atkvæðaseðlum. Kvað hún ráðuneytið aldrei hafa fengið formlega tilkynningu um verkfallsboðun frá stefnda.

Í svari stefnda við ósk ráðuneytisins um upplýsingar og gögn kom fram að tilkynningar um verkfallsboðun hafi verið sendar ríkissáttasemjara og Fjársýslu ríkisins í samræmi við 16. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í stefnu er því lýst að stefnandi hafi með eftirgangsmunum fengið send gögn um hana hinn 29. apríl sl. Þann dag sendi Fjársýsla ríkisins erindi til stefnda þar sem fram kom að tilkynningu um verkfallsboðun samkvæmt 16. gr. laga nr. 94/1986 væri ranglega beint að Fjársýslu ríkisins. Fjársýsla ríkisins innti stefnda eftir viðbrögðum við erindi sínu með tölvupósti hinn 4. maí sl. Stefnandi kveður engin svör hafa borist frá stefnda.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi leggur mál þetta fyrir Félagsdóm samkvæmt heimild í 2. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefnandi vísar til þess, að í 3. kafla laga nr. 94/1986 sé fjallað um verkföll og komi þar fram ströng skilyrði og takmarkanir sem löggjafinn hafi sett fyrir verkfallsboðun þeirra stéttarfélaga sem lögin nái til. Eitt þeirra skilyrða sé að finna í 16. gr. laga nr. 94/1986. Segi þar: „Ákvörðun um vinnustöðvun ber að tilkynna ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist gegn skemmst 15 sólarhringum áður en hún skal hefjast. Verkfallsboðun skal vera skrifleg og tilkynnt viðtakanda á sannanlegan hátt.“ Í lögskýringargögnum segi um 16. gr. laganna að hún sé samhljóða 19. gr. gildandi laga um BSRB sem eigi rætur að rekja til laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Sé þar að finna sambærilegt ákvæði, einnig í 16. gr. laga nr. 80/1938. Segi þar einnig að „ákvörðun um vinnustöðvun, sem hefjast á í þeim tilgangi að knýja fram breytingu eða ákvörðun um kaup og kjör, ber að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem hún beinist aðallega gegn, 7 sólarhringum áður en tilætlunin er að hún hefjist.“ Í lögskýringargögnum segi þar um 16. gr.: „Það er oft hægara að ná samkomulagi, þegar vitað er, að vinnustöðvun er gerð eftir ákveðinn tíma. Auk þess fara oft forgörðum, þegar vinnustöðvun er gerð fyrirvaralaus, verðmæti, sem tjón er fyrir aðila og þjóðfélagið í heild að eyðileggist og sem bjarga má, ef vitað er, hvenær vinnustöðvun hefst, nokkru áður en hún byrjar. Í greininni er þess vegna sett ákvæði um, að ákvörðun um vinnustöðvun verði að tilkynna sáttasemjara og gagnaðila 7 sólarhringum áður en hún á að hefjast. Er hér höfð hliðsjón af ákvæðum danskra, norskra og sænskra laga.“

Af lögskýringargögnum, sögu og tilgangi tilkynningarskyldu samkvæmt 16. gr. laganna sé ljóst að löggjafinn hafi gert ráð fyrir því að túlka bæri ákvæðið á þá leið að tilkynningu skyldi beint að gagnaðila, viðsemjanda við kjarasamningsgerð, enda hafi aðrir aðilar, til að mynda einstaka stofnanir, ekki tök á því að bregðast við tilkynningu um vinnustöðvun og reyna að afstýra henni með samkomulagi. Hafi verið andstætt lögum að beina henni að Fjársýslu ríkisins.

Af skýrum texta 2. og 3. gr. laga nr. 94/1986 megi ráða að óumdeilt sé að vinnuveitendur, í skilningi laganna, séu eftir atvikum, fjármála- og efnahagsráðherra, sem fari með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga starfsmanna ríkisins, sjálfseignarstofnanir, sem starfi í almannaþágu, séu í fjárlögum eða njóti fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði og að lokum sveitarstjórnir, sem fari með fyrirsvar síns sveitarfélags að því er varðar kjarasamning við starfsmenn sína. Sé um að ræða grundvallarreglu, sem gildi nema beinlínis sé vikið frá henni með lögum. Sú túlkun sé mikilvæg svo tryggt sé að öllum aðgerðum stéttarfélaga og tilkynningum sé beint að réttum aðilum, enda hafi aðrir en þeir, sem fenginn er samningsréttur til kjarasamningsgerðar samkvæmt lögum þessum, ekki heimildir til þess að bregðast við verkfallsboðunum og grípa til viðeigandi úrræða til að sporna við þeim.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 sé það fjármála- og efnahagsráðherra sem semji um kaup og kjör fyrir hönd ríkisins við stéttarfélög starfsmanna ríkisins en einstaka stofnanir hafi hins vegar ekki umboð til kjarasamningsgerðar við stéttarfélög. Þessari staðreynd til stuðnings sé vakin athygli á að ef litið væri svo á að einstaka stofnanir hefðu þennan samningsrétt við stéttarfélögin, þyrfti varla að vera fyrir hendi sérstök heimild í 2. mgr. 3. gr. til handa ráðherra að fela einstaka ríkisstofnunum að annast framkvæmd kjarasamninga fyrir sína hönd. Í athugasemdum í greinargerð með breytingalögum nr. 119/1990 segi um 1. gr.: „með framkvæmd kjarasamninga er í þessu samhengi átt við útreikninga á launum og launavinnslu eða þær ráðstafanir sem þarf til þess að unnt sé að borga starfsmönnum laun“. Umrædd heimild til útfærslu afmarkaðra þátta kjarasamnings feli því ekki í sér framsal á samningsumboði í neinni mynd. Réttur til kjarasamningsgerðar og ákvarðana um kjaramál liggi því alfarið og eingöngu hjá fyrrgreindum vinnuveitendum samkvæmt 2. og 3. gr. laganna, þ.e. fjármála- og efnahagsráðherra í þessu tilviki, og viðeigandi stéttarfélögum.

Stefnandi telur að við túlkun lagaákvæða, er varði hlutverk ráðherra, sé mikilvægt og óhjákvæmilegt að horfa til skilgreiningar á hlutverki ráðherra við skýringu orða, hugtaka og orðasambanda í tveimur eða fleiri lagaákvæðum í sömu lögum. Ástæðan sé fyrst og fremst sú að ákvæði í sama lagabálki séu jafnan hluti af sama málefnasviði og því þjóðfélagslega samhengi sem lögin hafi orðið til í og þar af leiðandi hvaða hlutverki ráðherra hafi verið ætlað að gegna samkvæmt þessum tilteknu lögum. Sjónarmið þessi sé mikilvægt að hafa í huga við túlkun á hugtökunum vinnuveitendur, gagnaðili og samningsaðili í lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, svo dæmi séu tekin. Ætla megi að löggjafinn hafi með lögunum ætlað að skapa heildstætt og samræmt kerfi efnisreglna þar sem samsvarandi orð og hugtök hafi sömu eða eðlislíka merkingu. Við þessa túlkun verði að líta til gildissviðs laganna, til hverra þau taki og í hvaða tilgangi þau séu sett. Verði því að skýra ákvæði 16. gr. laganna í ljósi hlutverks ráðherra samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna. Þá verði að gera skýran greinarmun á annars vegar ákvæðum laga nr. 94/1986 og hlutverki ráðherra við gerð kjarasamnings og sem aðila að vinnudeilum eða vinnustöðvunum og hins vegar hlutverki stofnana varðandi tiltekin réttindi og skyldur starfsmanna samkvæmt lögum nr. 70/1996, sem og um einstök ráðningarsambönd.

Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/1986 sé mælt fyrir um heimild stéttarfélags, sem sé samningsaðili samkvæmt lögunum, til að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett séu í lögum þessum. Líkt og skýr texti ákvæðisins beri með sér, sé um að ræða beitingu úrræðis til að knýja á um framgang krafna við kjarasamningsgerð við vinnuveitendur. Þannig sé heimild til verkfallsboðunar skilyrt við að tilgangur verkfalls sé að stuðla að framgangi krafna stéttarfélags í deilu um kjarasamning. Af ákvæðum 14. gr. megi leiða að verkfallsaðgerðir verði að beinast að viðsemjanda/gagnaðila í kjarasamningi. Ljóst sé að stofnanir hafi ekki sjálfstætt samningsumboð til kjarasamningsgerðar. Verkfallsrétturinn nái því ekki til þess að knýja á um gerð stofnanasamninga við einstaka stofnanir, enda fari slíkar útfærslur tiltekinna þátta kjarasamnings fram undir friðarskyldu. Því neyðarúrræði sem verkfallsvopnið í raun sé, sé því eingöngu hægt að beina að viðsemjanda stéttarfélags við kjarasamningsgerð, ekki að einstaka stofnunum. Óumdeilt sé að aðilar að kjarasamningi þeim, sem verkfallsboðun sé beint gegn, séu fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og hið stefnda stéttarfélag, sbr. kjarasamning aðila með síðari breytingum og viðaukum frá 1. febrúar 2005.

Stefnandi kveðst byggja á að heimild stéttarfélags til verkfallsaðgerða sé bundin þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru fram í lögum þessum. Í ljósi þess hve íþyngjandi verkfallsaðgerðir séu fyrir alla aðila kjarasamninga, verði að gera ríkar kröfur til samningsaðila að þær form- og efniskröfur, sem gerðar séu í lögum nr. 94/1986 séu í hávegum hafðar og að hafið sé yfir allan vafa að rétt sé staðið að atkvæðagreiðslu, boðun og tilkynningu um verkfall.

Sé litið til innra samhengis ákvæða laga nr. 94/1986 og þess, að af ótvíræðu orðalagi 2. og 3. gr. laganna megi ráða að óumdeilt sé að vinnuveitendur, í skilningi laganna, séu eftir atvikum, fjármála- og efnahagsráðherra, sem fari með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga starfsmanna ríkisins, sjálfseignarstofnanir, sem starfi í almannaþágu, séu á fjárlögum eða njóti fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði og að lokum sveitarstjórnir, sem fari með fyrirsvar síns sveitarfélags að því er varðar kjarasamning við starfsmenn sína. Af þessu leiði að ekki sé unnt að leggja almennan málskilning á hugtakið vinnuveitandi eins og það hugtak sé notað í lögum nr. 94/1986, ólíkt því sem notað sé um hugtakið vinnuveitandi á almennum markaði. Sem dæmi megi nefna að lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, taki til hvers manns sem skipaður sé, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, án tillits til þess hvort og þá hvaða stéttarfélagi hann tilheyri, enda verði starf hans talið aðalstarf, sbr. 1. gr. laganna. Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996 sé hugtakið starf skilgreint en því sé yfirleitt átt við starf í þjónustu ríkisins.

Það fari svo eftir ákvæðum laga hvaða stjórnvald veiti starf, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1996, og sé það þannig hlutverk forstöðumanns að ráða í önnur störf en embættismanna hjá viðkomandi stofnun, sbr. 2. mgr. 5. gr. Þannig sé forstöðumanni veittur ákveðinn stjórnunarréttur til að ákveða og stjórna því hvaða starfsmenn veljist til starfa hjá viðkomandi stofnun og viðkomandi forstöðumaður sé yfirmaður starfsmannsins, þ.e. honum hafi verið falið með lögum að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur viðkomandi ríkisstarfsmanns. Þá hafi jafnframt verið talið rétt að forstöðumenn njóti til þess ákveðins svigrúms í starfsmannamálum þeirra stofnana sem þeir stýri, sem m.a. birtist í því að almennt sé ekki unnt að skjóta ákvörðunum í starfsmannamálum til æðra stjórnvalds, nema það sé sérstaklega tekið fram í lögum. Starfsmennirnir séu engu að síður í þjónustu ríkisins, sbr. 1. gr. laga nr. 70/1996. Leggja verði áherslu á að ekki sé vikið að því í lögum nr. 70/1996 að um starfsmenn stofnana sé að ræða, heldur sé talað um starfsmenn ríkisins, sbr. t.d. 41. gr. laganna þar sem fram komi að starfsmenn ríkisins skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Jafnframt sé gert ráð fyrir því í 7. gr. laganna að starf í þjónustu ríkisins sé auglýst á opinberum vettvangi, sbr. ummæli í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 70/1996. Þar komi jafnframt fram að  starfsmenn ríkisins hafi verið um 25 þúsund talsins þegar lögin voru sett en starfi hjá embættum, stofnunum og fyrirtækjum sem séu mjög ólík innbyrðis. Þá greiði ríkið laun samkvæmt 140 kjarasamningum til einstaklinga í 175 mismunandi stéttarfélögum.

Við skoðun á samhengi ákvæða laga nr. 70/1996 og þess sem fram komi í greinargerð með lögunum sé ljóst að litið sé á ríkið sem vinnuveitanda en ekki einstaka stofnanir, þótt forstöðumenn þeirra njóti ákveðins stjórnunarréttar og hafi lagalegt umboð til að taka ákvarðanir um réttindi og/eða skyldur ríkisstarfsmanna upp að ákveðnu marki. Þessu til stuðnings megi benda á að í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 70/1996 komi jafnframt fram að tilgangur með setningu laganna hafi verið þríþættur, m.a. sá að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnanna og jafnframt auka möguleika þeirra á því að taka ákvarðanir sem varða stjórnun og starfsmannahald. Hins vegar væru jafnframt gerðar auknar kröfur til forstöðumanna og ábyrgð aukin. Sú tilhögun breyti engu um að fjármála- og efnahagsráðherra fari með samningsumboð fyrir hönd ríkissjóðs, sé aðili að vinnudeilum og teljist vera sá sem vinnustöðvun skuli beinast gegn í skilningi 16. gr. laga nr. 94/1996, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga og 5. tölulið 2. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta nr. 71/2013. Þá geri ákvæði laga nr. 70/1996 skýran greinarmun því hverjar heimildir forstöðumanna eru til ákvörðunar launa og ráðninga starfsmanna annars vegar og hins vegar á réttindum sem ákveðin séu samkvæmt kjarasamningi sem ráðherra standi að. Birtist það augljóslega í þeim ákvæðum sem stefnandi hafi hér reifað og að auki í 18. gr. og 24. gr. laga nr. 94/1986.

Til stuðnings túlkun sinni og mikilvægis lagatúlkunar kveðst stefnandi einnig vísa til 23. gr. laga nr. 94/1986. Þar segi: „Ákvarðanir um samninga eða annað, er varðar kjör starfsmanna og fer eftir lögum þessum, verða aðeins teknar af þeim sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem samningurinn nær til. Enginn starfsmaður má taka þátt í atkvæðagreiðslu eða ákvörðun um kjaramál nema í einu stéttarfélagi sem er samningsaðili samkvæmt lögum þessum.“ Í þessu felist að einungis þeir, sem starfi hjá þeim vinnuveitendum sem tiltekinn kjarasamningur taki til, geti tekið ákvarðanir um hann, svo sem samþykkt uppsögn og boðun verkfalls. Geti þar verið um að ræða eitt félag að hluta eða heild eða fleiri félög að hluta eða heild eftir því hvernig aðild að viðkomandi kjarasamningi hafi verið háttað. Sé hér til að mynda átt við það þegar sú staða komi upp sem lýst sé svo glögglega í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 en þar segi: „Félög, sem skv. 4. gr. hafa samningsrétt við hluta vinnuveitenda og uppfylla jafnframt skilyrði 3. tl. 5. gr. um lögformleg starfsréttindi eða ígildi þeirra, öðlast rétt til samninga við aðra vinnuveitendur með sama hætti og önnur félög sem falla undir 5. gr.“ Þennan samningsrétt geti stéttarfélög öðlast ef þau tilkynni viðsemjanda um samningsumboðið a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gildi fyrir hina nýju félagsmenn. 

Þegar höfð sé hliðsjón af athugasemdum í greinargerð um inntak 23. gr. laga nr. 94/1986 sé ljóst að ákvörðunarrétturinn, sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 23. gr., nái til kjarasamninga eingöngu og sé nánari skýring á samningsumboði vinnuveitenda samkvæmt lögunum annars vegar og stéttarfélögum hins vegar. Líkt og í öðrum ákvæðum laganna sé átt við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, sjálfseignastofnanir og sveitarfélög þegar rætt er um vinnuveitendur, sbr. 2. og 3. gr. sömu laga.

Þar sem verkfallsboðun hafi ekki verið beint að stefnanda, fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs í ljósi framangreinds, heldur Fjársýslu ríkisins, sé boðunin ólögmæt og beri því að taka kröfur stefnanda til greina.

Þá kveðst stefnandi einnig byggja á því að í reynd hafi tilkynning um verkfall aldrei borist stefnanda frá stefnda með sannanlegum hætti en með eftirgangsmunum hafi tekist að fá gögn og upplýsingar síðar, þ.e. 29. apríl, en þótt það yrði talin tilkynning í samræmi við lögin, yrði skilyrðið um lögboðinn frest til verkfallsboðunar ekki talið uppfyllt, sbr. 16. gr. laga nr. 94/1986.

Stefnandi kveðst einnig byggja á öðrum málsástæðum sjálfstætt og framangreindu til stuðnings. Í 15. gr. laganna sé mælt fyrir um að boðun verkfalls verði því aðeins lögmæt að ákvörðun um hana hafi verið tekin í almennri leynilegri allsherjaratkvæðagreiðslu í hverju stéttarfélagi sem sé samningsaðili. Til að samþykkja verkfallsboðun þurfi a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfi hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra samþykkt hana. Af textaskýringu megi ráða að gert sé ráð fyrir að um boðun verkfalls fari fram allsherjaratkvæðagreiðsla. Í athugasemdum í greinargerð sé vísað til þess að framkvæmdin sé eins og mælt sé fyrir um í samningalögum BSRB. Þá sé gert ráð fyrir að verkfallsákvörðunin verði tekin í hverju stéttarfélagi fyrir sig. Í frumvarpi til samningalaga BSRB sé vísað til þess að þeirri tilhögun, að atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun skuli fara fram með allsherjaratkvæðagreiðslu í hverju stéttarfélagi fyrir sig, sé ætlað að tryggja að vilji félagsmanna fyrir verkfalli sé fyrir hendi og tryggja enn fremur að fáir menn hafi það ekki í valdi sínu að hefja verkföll.

Stefnandi bendir á að tilgangur 15. gr. laganna sé sá, að ákvörðun um verkfallsboðun verði ekki tekin af litlum hluta félagsmanna stéttarfélagsins. Eins og ótvírætt orðalag lagaákvæðisins bendi til, hafi ætlun löggjafans einmitt verið sú að jafn mikilvæg ákvörðun og þessi væri aldrei tekin af minna en ríflega fjórðungi félagsmanna. Ákvörðunin sé talin alvarleg og þýðingarmikil. Krafa um allsherjaratkvæðagreiðslu sé til þess fallin að tryggja að vilji félagsmanna viðkomandi stéttarfélags, sem möguleika eigi á að taka þátt í atkvæðagreiðslu vegna vinnudeilna og félagsmanna sem varði efni kjarasamnings, komi afdráttarlaust í ljós. Í ljósi þessara ströngu skilyrða og orðalags ákvæðisins sé óhjákvæmilegt að skýra greinina á þann hátt að með allsherjaratkvæðagreiðslu sé átt við að allir félagsmenn, sem kjarasamningur viðkomandi stéttarfélags nái til og starfi hjá viðsemjanda, taki þátt í atkvæðagreiðslu.

Þá gerir stefnandi athugasemdir við boðun atkvæðagreiðslu um verkfall hjá stefnda, sem og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar, en hún samrýmist ekki þeim kröfum, sem gerðar séu í 15. gr. laga nr. 94/1986. Í erindi frá stefnda til stefnanda, dagsettu 29. apríl sl., sé að finna lýsingu á fundarboði og framkvæmd atkvæðagreiðslu stefnda um boðun verkfalls hjá félagsmönnum stefnda sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins. Í erindi stefnda komi fram eftirfarandi lýsing: „Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins boðaði til fundar 22. apríl 2015. Fundarboð var sent með tölvupósti 21. apríl á 35 félagsmenn FHSS sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins og njóta verkfallsréttar. Að auki var hringt í alla viðkomandi sama dag til að fylgja fundarboði eftir. Á fundinn þann 22. apríl mættu 24 af boðuðum félögum. Á fundinum var samþykkt að ganga til atkvæðagreiðslu um að boða til ótímabundins verkfalls frá miðnætti 11. maí 2015. Atkvæðaseðlar voru afhentir gegn kvittun fyrir móttöku og séð var til þess að fólk gæti greitt atkvæði í einrúmi. Atkvæðum var safnað í læstan kassa. Farið var afsíðis til talningar. Vottar að atkvæðagreiðslu voru fjórir. Talið var tvisvar og gengið úr skugga um að allir viðstaddir væru sammála um talningu. Niðurstaða atkvæðagreiðslu var skráð á blað og lesin upp fyrir fundarmenn að því loknu.“

Ákvæði 15. gr. laganna mæli fyrir um leynilega kosningu en sú framkvæmd, sem lýst sé hér að framan, uppfylli ekki þau lagafyrirmæli um leynilega kosningu. Um framkvæmd kosninga vísar stefnandi til  laga nr. 52/1959 með síðari breytingum. Kveðst stefnandi einnig vísa til dóms Félagsdóms nr. 4/1988 um þá túlkun.

Að auki geri stefnandi athugasemdir við það að ekki hafi öllum félagsmönnum stefnda verið gefinn kostur á að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun, heldur einungis þeim sem starfi hjá Fjársýslu ríkisins og hafi verkfallsrétt að mati félagsins, samkvæmt upplýsingum frá stefnda hinn 29. apríl sl. Ákvörðun um verkfallsboðun skuli tekin í allsherjaratkvæðagreiðslu samkvæmt skýru orðalagi 15. gr. Við túlkun á því hvaða félagsmenn eigi rétt á að taka þátt í allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboðun, verði að hafa hliðsjón af 22. gr. laga nr. 94/1986 þar sem sérstaklega sé tekið fram að þau stéttarfélög, sem hafi samnings- og verkfallsrétt samkvæmt lögunum, semji einnig um laun þeirra félaga sinna sem óheimilt sé að gera verkfall samkvæmt 19. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að hafa ekki eiginlegan verkfallsrétt, verði að telja að þeir hafi engu að síður sama rétt og aðrir félagsmenn til þátttöku í ákvörðunum um kjaramál, sbr. 23. gr. laga nr. 94/1986. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 94/1986 sé hinum almennu félagsmönnum í stéttarfélögum, hverjum og einum, ætlað sjálfum að taka ákvörðun um boðun vinnustöðvunar og bera þannig ábyrgð á henni. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 94/1986 sé það skilyrði lögmætrar verkfallsboðunar að leynileg allsherjaratkvæðagreiðsla, meðal allra félagsmanna, hafi farið fram í viðkomandi stéttarfélagi. Samkvæmt framangreindu sé boðun og atkvæðagreiðsla stefnda um verkfallsboðun ólögmæt.

Að virtu orðalagi 15. gr., 1. mgr. 23. gr. laganna og framangreindum athugasemdum verði að leggja til grundvallar að þeir einir taki þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfi hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur taki til. Óraunhæft sé að ætla að einungis þeir starfsmenn viðkomandi stofnunar, sem standi í reynd að atkvæðagreiðslu um verkfall, myndu einir greiða atkvæði um kjarasamninginn sem stofnað yrði til.

Þegar litið sé til alls framangreinds sé ljóst að vilji löggjafans hafi staðið til þess að fjármála- og efnahagsráðherra færi með samningsumboð f.h. ríkissjóðs við kjarasamningsgerð við stéttarfélög og að samningsrétturinn næði ekki til einstakra stofnana. Sé mikilvægt að aðilar þeir, sem gildissvið laganna nái til, séu sammála um að vinnuveitendur, viðsemjendur eða gagnaðilar stéttarfélags í skilningi laganna séu fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs, sjálfseignastofnanir og sveitarfélög.

Með vísan til þessa alls telji stefnandi að taka beri kröfur hans til greina.

Um málskostnaðarkröfu kveðst stefnandi vísa til 21. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveður málatilbúnað stefnanda ekki vera svo ljósan sem æskilegt væri og geri það honum erfiðara fyrir við að taka til varna í máli þessu. Stefna málsins sé vart í samræmi við áskilnað e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um glögga og gagnorða lýsingu samhengis málsástæðna og framsetning málatilbúnaðar stefnanda sé á köflum næsta óljós. Þá sýnist stefnan einnig í þessu samhengi stangast á við reglu 101. gr. lagana um munnlega málsmeðferð þar sem hún virðist fela í sér skriflegan málflutning að miklu leyti þar sem lagaákvæði og lögskýringagögn séu endurrituð. Að auki gæti verulegrar klifunar þar sem sömu málsástæðum virðist gerð skil oftsinnis með ólíku orðalagi.

Þá virðist Félagsdómur krafinn svara við lögspurningum af hálfu stefnanda í andstöðu við 25. gr. laga nr. 91/1991 þegar því sé slegið fram að: „[s]tefnandi kveður mikilvægt að fá úrlausn Félagsdóms á inntaki og innra samræmi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.“ Loks sé óhjákvæmilegt að vekja athygli á því, að málsókn stefnanda sé í flestu tilliti í brýnni mótsögn við niðurstöðu Félagsdóms frá 7. apríl síðastliðinn í máli nr. 10/2015. Stefnandi staðhæfi margsinnis í stefnu að ályktanir hans af efni lagaákvæða og lögskýring­argagna séu óumdeildar, þótt þær gangi jafnvel þvert á afdráttarlausa niðurstöðu Félags­dóms í tilvitnuðum dómi. Sá dómur hafi lotið að sömu kjaradeildu milli sömu málsaðila og að verkfalli sem stefndi hafi beint að sömu stofnun stefnanda. Nær res judicata réttar­áhrifum dóms verði ekki komist, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Tilbrigði í málsatvikum, sem stefnandi kjósi að setja í forgrunn máls þessa, breyti því ekki að í raun sýnist stefnandi vera að freista þess að fá hnekkt efnislegri niðurstöðu nýgengins dóms sem tekið hafi á málsástæðum þeim sem stefnandi haldi á lofti í máli þessu. Að mati stefnda sé óhjákvæmilegt að horfa til þessa þegar lagt sé mat á það, hvort málatilbúnaður stefnanda eigi við þau rök að styðjast að rök standi til efnislegrar umfjöllunar um kröfugerð hans.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að tilkynning um verkfallsboðun vegna verkfalls félagsmanna stefnda, sem starfi hjá Fjársýslu ríkisins sem hefjast á við upphaf dags hinn 11. maí 2015, sé á allan hátt löglega út send og fram komin samkvæmt 16. gr. laga nr. 94/1986. Í nefndri 16. gr. sé kveðið á um það, að ákvörðun um vinnustöðvun beri að tilkynna ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist gegn skemmst 15 sólarhringum áður en vinnustöðvun skuli hefjast. Sé sú túlkun stefnanda röng að sá sem vinnustöðvun beinist gegn í skilningi laga nr. 94/1986 sé alltaf fjármála- og efnahagsráðherra. Vísar stefnandi að þessu leyti fyrrnefnds dóms Félagsdóms í málinu nr. 10/2015 sem rekið hafi verið á milli sömu aðila vegna sömu kjaradeilu og það mál sem hér sé til úrlausnar. Eitt af þeim atriðum sem til úrlausnar hafi verið í því máli, hafi verið að stefnandi (sá sami og í þessu máli) hafi talið að skýra bæri orðalagið „þeim sem verkfallið beinist gegn“ í 15. gr. laga nr. 94/1986 þannig að þar væri átt við fjármálaráðherra sem fari með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga. Vísi tilvitnað orðalag ákvæðisins þannig til stefnanda sjálfs, íslenska ríkisins, en ekki til einstakra vinnustaða. Hafi stefnandi í þessum efnum meðal annars skírskotað til ákvæða 3. gr. laganna.

Niðurstaða Félagsdóms um þetta atriði hafi hins vegar verið sú að horfa yrði til þess, hverjir teldust vera atvinnurekendur eða vinnuveitendur í almennum skilningi, sbr. eftirfarandi:

„Þá telur dómurinn að við úrlausn á því hvað átt sé við með orðalaginu „þeim sem verkfallið beinist gegn“ verði að horfa til þess, hverjir teljist vera atvinnurekendur eða vinnuveitendur í almennum skilningi. Ekki verður fallist á það með stefnanda að vegna þess að hann er gagnaðili stefnda að gildandi kjarasamningi, verði að líta svo á að hann sé atvinnurekandi eða vinnuveitandi sem verkfallsaðgerð beinist gegn í framangreindum skilningi. Fyrir liggur að forstöðumenn einstakra stofnana ríkisins sjá almennt um að ráða starfsfólk stofnana sinna og gera við það ráðningarsamninga, sbr. 5. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá fara forstöðumenn stofnana með almennar stjórnunarheimildir gagnvart starfsmönnum þeirra og taka ákvarðanir er lúta að réttindum þeirra og skyldum. Sú almenna regla gildir um slíkar ákvarðanir að þeim verður ekki skotið til æðra stjórnvalds, sbr. 49. gr. laga nr. 70/1996. Teljast stofnanirnar því vera atvinnurekendur og vinnuveitendur starfsmannanna í þessum skilningi en ekki ríkið sjálft.“

Ekki verði séð að nein efni séu til að skilja orðalagið „þeim sem verkfallið beinist gegn“ á annan hátt í 16. gr. laganna heldur en Félagsdómur hafi talið að gilti um sama orðalag í 15. gr. þeirra. Skírskotun stefnanda nú til 3. gr. laganna haggi ekki þessari túlkun, ekki frekar en við úrlausn Félagsdómsmáls nr. 10/2015.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun félagsins hafi verið lögmæt og í fullu samræmi við fyrirmæli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og venjur á vinnumarkaði.

Stefndi mótmælir málsástæðu stefnanda um að öllum aðgerðum stéttarfélaga og tilkynningum beri að beina að fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem ekki hafi aðrir en hann, sem fenginn er réttur til kjarasamningsgerðar samkvæmt lögunum, heimildir til þess að bregðast við verkfallsboðunum og grípa til viðeigandi úrræða til að sporna við þeim. Þetta kunni að vera ágæt hugmynd og de lege ferenda mætti haga kerfi kjarasamningalaganna á þennan veg. Kenning stefnanda standist hins vegar ekki og vísun hans til lögskýringagagna geti ekki breytt því sem leiði af einföldum málskilningi á orðalagi 16. gr. laganna um þann „sem verkfallið beinist gegn.“

Stefndi vísar til þess að hann hafi efnt til atkvæðagreiðslu um umrædda vinnustöðvun eins og að framan sé rakið. Félagið hafi boðað til sérstaks kjörfundar 22. apríl 2015 og hafi fundarboðið verið sent með tölvupósti hinn 21. apríl á 35 félagsmenn stefnda sem starfi hjá Fjársýslu ríkisins og njóti verkfallsréttar. Um sé að ræða sömu félagsmenn og hafi greitt atkvæði um yfirstandandi verkfall. Til frekara öryggis hafi verið hringt í alla viðkomandi sama dag til að fylgja fundarboði eftir. Á fundinn hafi mætt 24 félagsmenn af þeim 35 sem boðaðir hafi verið og hafi verið gengið til atkvæðagreiðslu um boðun verkfallsins. Atkvæðaseðlar hafi verið afhentir gegn kvittun fyrir móttöku og þá hafi verið séð til þess að fólk greiddi atkvæði í einrúmi. Atkvæðum hafi síðan verið safnað í læstan kassa og farið afsíðis til talningar. Fjórir vottar hafi verið að atkvæðagreiðslunni og hafi atkvæði verið talin tvisvar og loks gengið úr skugga um að allir viðstaddir væru sammála um talningu. Niðurstaða atkvæðagreiðslu hafi verið skráð á blað og lesin upp fyrir fundarmenn að því loknu.

Stefndi kveður málsástæðu stefnanda um að framangreind framkvæmd atkvæðagreiðslu sé ekki með þeim hætti að kosning teljist uppfylla lagafyrirmæli um leynilega kosningu vera óskiljanlega. Sá háttur, sem stefndi hafi haft á við atkvæðagreiðsluna, að efna til kjörfundar með þeim sem atkvæðisréttar njóti, sé á engan hátt í andstöðu við kjarasamningalögin eða almennu vinnulöggjöfina. Framkvæmd atkvæðagreiðslunnar sjálfrar sé hefðbundin og raunar nánast eins og tíðkast hafi um áratuga skeið í öllum almennum félögum og einnig í verkalýðsfélögum. Síðast þegar stefndi hafi efnt til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hafi atkvæðagreiðslan verið rafræn og hafi sú framkvæmd ekki sætt andmælum af hálfu stefnanda. Þá sé vísan stefnanda til dóms Félagsdóms í málinu nr. 4/1988 afar torskilin, þar sem atvik í því máli hafi verið ósambærileg, auk þess sem sá dómur hafi verið byggður á því að viðkomandi stéttarfélagi hafi verið óheimilt að framselja vald sitt til verkfallsboðunar. Þar sé því enga efnisúrlausn að finna um það atriði sem stefnandi vísi til.

Stefndi byggir á því að framkvæmd framangreindrar atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls hafi verið í samræmi við ákvæði l. nr. 94/1986, um kjarasamning opinberra starfsmanna, og sambærileg ákvæði almennu laganna um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.

Þá byggir stefndi á því að rétturinn til þess að gera verkföll sé grundvallarréttur, sem tryggður er með 74. gr., sbr 75. gr., stjórnarskrárinnar og sbr. 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Allar takmarkanir á verkfallsrétti beri því að túlka þröngt. Samkvæmt 14. gr. ­laga nr. 94/1986 séu heimildir stéttarfélaga til að gera verkföll bundin þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett séu í þeim lögum.

Að því er varðar málatilbúnað stefnanda um að skilja beri 15. gr. laga nr. 94/1986 þannig að með allsherjaratkvæðagreiðslu sé átt við að allir félagsmenn sem kjarasamningur viðkomandi stéttarfélags nái til og starfi hjá viðsemjanda verði að taka þátt í atkvæðagreiðslu vísar stefndi til dóms Félagsdóms í máli nr. 10/2015 þar sem leyst sé úr þessu álitaefni á algjörlega afgerandi hátt:

„Ekki verður heldur fram hjá því litið að einungis hluti félagsmanna stefnda mun leggja niður störf í þeim staðbundnu verkföllum er um ræðir. Við verkfall fellur niður vinnuskylda starfsmanna en að sama skapi fellur niður skylda vinnuveitanda til þess að greiða þeim laun. Þeir félagsmenn stefnda sem verkfallið nær ekki til halda hins vegar sínum launum. Það hlýtur því að teljast eðlilegt að þeir einir sem leggja niður störf hafi þann rétt að taka einir ákvörðun um hvort þeir fari í verkfall eða ekki en ekki að aðrir félagsmenn, sem halda áfram störfum, geti þar haft úrslitaáhrif.

Þegar litið er til alls framangreinds og orðalags 15. gr. laga nr. 94/1986 verður að leggja til grundvallar að þeim einum beri að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sem starfa hjá vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem verkfall beinist gegn og viðkomandi kjarasamningur tekur til. Samkvæmt framansögðu telst viðkomandi ríkisstofnun vera vinnuveitandi starfsmannanna í þessum skilningi en ekki ríkið sjálft. Ágreiningslaust virðist að áðurgreindar niðurstöður atkvæðagreiðslna þeirra, sem mál þetta lýtur að, sýni að meira en helmingur félagsmanna í Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, sem starfa annars vegar hjá Fjársýslu ríkisins og hins vegar hjá ríki utan ráðuneyta, hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunum og meiri hluti þeirra hafi samþykkt framangreind boðuð verkföll á hvorum vinnustað fyrir sig. Að þessu virtu og með vísan til alls framangreinds verður að telja að framangreindar atkvæðagreiðslur sem verkfallsboðanir stefnda byggjast á hafi verið í samræmi við ákvæði 15. gr. laga nr. 94/1986.“

Loks mótmælir stefndi öllum öðrum málsástæðum stefnanda sem röngum.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í greinargerð sinni bendir stefndi á að málatilbúnaður stefnanda sé ekki svo ljós sem æskilegt væri og geri það stefnda erfiðara fyrir við að taka til varna í máli þessu. Sé stefnan vart í samræmi við áskilnað e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um glögga og gagnorða lýsingu samhengis málsástæðna, auk þess sem hún sýnist einnig stangast á við reglu 101. gr. lagana um munnlega málsmeðferð. Fallast má á það með stefnda að framlögð stefna er löng og efnismikil og ekki að öllu leyti svo skýr sem æskilegt er. Hins vegar er það mat dómsins að ljóst sé hver er grundvöllur málsins. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að einn megintilgangur ákvæða 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er að tryggja stefnda rétt til að kynna sér málatilbúnað stefnanda í því skyni að eiga þess sanngjarnan kost að verjast kröfum hans að því er alla þætti þeirra varðar, er það mat dómsins að framlögð stefna sé ekki svo óskýr að það varði frávísun. Þá telst málatilbúnaður stefnanda ekki með þeim hætti að öðru leyti að tilefni sé til þess að vísa málinu frá án kröfu, sbr. ákvæði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. 

Með lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, var lögfest sú meginregla að þeim starfsmönnum ríkisins, sem lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, tóku til, sbr. nú lög nr. 70/1996, væri heimilt að gera verkfall með þeim takmörkunum einum sem tilteknar eru í lögunum. Verkfallsréttur stéttarfélaga nýtur verndar samkvæmt 1. mgr. 74. stjórnarskrárinnar.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort boðað hafi verið verkfalls félagsmanna, Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins, með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 16. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í ákvæðinu segir að ákvörðun um vinnustöðvun beri að tilkynna ríkissáttasemjara og þeim sem hún beinist gegn skemmst 15 sólarhringum áður en hún skal hefjast. Skal verkfallsboðunin vera skrifleg og kynnt viðtakanda á sannanlegan hátt.

Ágreiningslaust er að ríkissáttasemjara og Fjársýslu ríkisins var tilkynnt skriflega og innan tilskilinna tímamarka um niðurstöðu atkvæðagreiðslu meðal 35 félagsmanna í stefnda sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins um boðun ótímabundins verkfalls þeirra frá og með 11. maí 2015 ef samningar hefðu ekki náðst fyrir þann tíma. Þá liggur fyrir að hvorki var fjármála- og efnahagsáðherra eða ráðuneyti hans send tilkynning um verkfallsboðunina né var tilkynningin framsend ráðuneytinu fyrr en 29. apríl sl.

Stefnandi telur að af 16. gr.  laga nr. 94/1986 leiði að stefnda hafi borið að tilkynna fjármála- og efnahagsráðherra um verkfallsboðunina, en hann fari með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt lögunum, eins og kveðið sé á um í 3. gr. laganna. Þar sem tilkynningin hafi ekki borist réttum viðtakanda í tæka tíð áður en verkfallið átti að hefjast sé vinnustöðvunin ólögmæt. Stefndi er á öndverðum meiði og telur Fjársýslu ríkisins vera réttan viðtakandi tilkynningarinnar þar sem vinnustöðvunin beinist einvörðungu gegn þeirri stofnun. Um þá skýringu vísar stefndi meðal annars til dóm Félagsdóms frá 6. apríl 2015 í málinu nr. 10/2015.

Í fyrrgreindum dómi Félagsdóms í málinu nr. 10/2015 var úr því leyst hverjir félagsmanna stefnda ættu að greiða atkvæði um boðun verkfalls sem einskorðað væri við félagsmenn er störfuðu hjá Fjársýslu ríkisins. Reyndi þar á túlkun 15. gr. laga nr. 94/1986 sem áskilur að a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem „starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn“, þurfi að hafa tekið átt í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun og meiri hluti þeirra að hafa samþykkt hana til þess að hún teljist samþykkt. Eins og fyrirhugað verkfall var afmarkað komst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að þeir félagsmenn, sem störfuðu hjá Fjársýslu ríkisins, hefðu einir atkvæðisrétt samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði um boðun verkfallsins.

Ágreiningur aðila að þessu leyti lýtur ekki að því með hvaða hætti stéttarfélag ákveður að boða til vinnustöðvunar, heldur að túlkun á lögmæltum skilyrðum 16. gr. laga nr. 94/1986 um tilkynningu um verkfallsboðun. Verður að skýra þessi skilyrði í ljósi tilgangs þeirra. Leggja verður til grundvallar að slík tilkynning þjóni þeim tilgangi að gera þeim sem fer með samningsumboðið viðvart um vinnustöðvunina þannig að hann fái ráðrúm til að koma í veg fyrir það tjón sem hlýst af verkfalli með því að gera kjarasamning við viðkomandi stéttarfélag. Þá verður að líta til inntaks verkfallsréttar, en verkfall er gert í þeim tilgangi einum að stuðla að framgangi krafna stéttarfélags í deilu um kjarasamning, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/1986. Af þessari ástæðu verður að túlka fyrrgreint ákvæði 16. gr. laga nr. 94/1986 á þá leið að tilkynna beri fjármála- og efnahagsráðherra, sem er samningsaðili stefnda um gerð kjarasamnings fyrir hönd ríkissjóðs, um fyrirhugað verkfall.

Með vísan til dóms Félagsdóms frá 15. október 1984 í málinu nr. 10/1984 verður að líta svo á að misbrestur á því að tilkynna réttum aðila í tæka tíð um fyrirhugaða vinnustöðvun leiði til þess að taka beri til greina kröfu um viðurkenningu á því að verkfallið sé ólögmætt. Gengur sú niðurstaða ekki gegn heimild stefnda til að gera verkfall sem varin er af stjórnarskrá. Verður því, þegar af þessari ástæðu, að fallast á kröfu stefnanda, íslenska ríkisins.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

D ó m s o r ð:

Viðurkennt er að verkfall stefnda, Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, sem boðað var með bréfi til Fjársýslu ríkisins, dagsettu 22. apríl 2015, og hefjast skal hinn 11. maí 2015, kl. 00:00, er ólögmætt.

Málskostnaður fellur niður.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Guðni Á. Haraldsson

Ásmundur Helgason

Elín Blöndal

Inga B. Hjaltadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira