Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 40/2017

Mánudaginn 29. maí 2017.

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með kæru 31. janúar 2017 kærði C hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð B frá 15. desember 2016 vegna umgengni kæranda við son sinn, D. Er þess krafist að regluleg umgengni verði aðra hvora helgi auk rýmri umgengni í skólafríum, um jól, páska og yfir sumartímann.

B fer með störf barnaverndar­nefndar [...].

I. Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er fæddur árið X og lýtur forsjá B. Móðir drengsins, sem á X eldri börn, fór áður ein með forsjá hans en var svipt forsjánni með dómi Héraðsdóms Reykjaness X 2016. Drengurinn fór í tímabundið fóstur X 2014 en hann hefur verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá þeim tíma. Hann hefur verið í varanlegu fóstri hjá þeim síðan í X 2016.

Í tilefni af fyrrgreindu forsjársviptingarmáli var gerð sálfræðileg matsgerð á kæranda en hún er dagsett X 2016. Matsmaður kom á heimili kæranda og fylgdist með samskiptum hennar við drenginn og eldri systkini hans. Í matsgerðinni kemur fram að drengurinn sé með ofvirkniröskun, þroskahömlun og málþroskaröskun. Hann þurfi á miklu aðhaldi og stuðningi að halda bæði varðandi nám og athafnir daglegs lífs. Til að sinna daglegri umönnun drengsins þurfi innsæi í takmarkanir hans, færni í hegðunarmótandi aðferðum, reglufestu og úthald. Kærandi hafi hafnað lyfjameðferð fyrir drenginn, látið hjá líða að sinna heimanámi hans, talþjálfun og almennu hreinlæti hans. Við komu í fóstur hafi þurft að kenna drengnum ýmsa grunnfærni daglegs lífs. Var það niðurstaða matsmanns að kærandi hefði ekki þá innsýn, úthald og færni í uppeldisaðgerðum sem þurfi til að veita drengnum nægilega góða umönnun í daglegu lífi. Þá hafi komið fram hjá kennara drengsins að hann hafi sýnt gríðarlegar framfarir, bæði í námi og félagslega, eftir að hann fór til fósturforeldra. Hann hefði til dæmis verið ólæs áður en hann kom til þeirra en verið kominn með X í lestrareinkunn íX 2016 .

Frá því að drengurinn var vistaður í fóstur hefur hann verið í reglulegri umgengni við kæranda. Í upphafi fósturvistunar náðist samkomulag um umgengni tvær helgar í mánuði auk símatíma einu sinni í viku. Eftir að drengurinn var vistaður í varanlegt fóstur varð ágreiningur um umgengnina.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við drenginn var með úrskurði B 15. desember 2016 ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar eftir því sem þurfa þætti. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„B ákveður að drengurinn D, hafi umgengni við móður sína A, fjórum sinnum á ári í þrjá tíma í senn, tvisvar sinnum að vori og tvisvar að hausti. Umgengni skal fara fram undir eftirliti fulltrúa barnaverndar eftir því sem barnavernd telur þörf hverju sinni. Móður er heimilt að hringja í drenginn á símatíma, í heimasíma á fósturheimili.“

II. Sjónarmið kæranda og kröfur

Kærandi óskar þess að regluleg umgengni verði ákveðin frá föstudegi til sunnudags aðra hvora helgi. Rýmri umgengni verði í skólafríum, um jól og páska og yfir sumartímann.

Kærandi telur að ákvörðun um umgengni hafi að miklu leyti byggst á mati fósturforeldra á slæmri líðan drengsins í kjölfar umgengni, svo og mati þeirra á því hvað valdi þeirri líðan. Í umsögn fósturforeldra 22. nóvember 2016, sem orðrétt hafi verið tekin upp í tillögu starfsmanna barnaverndar í málinu, komi fram að fósturforeldrar tengi næturvætu drengsins við umgengni við kæranda. Þau telji næturvætu hafa aukist þegar drengurinn hafi verið í umgengni hjá kæranda yfir nótt og virðist tengja það meintu sinnuleysi kæranda. Í vottorði E læknis X 2016 komi fram að breyting til batnaðar hafi orðið á næturvætu drengsins síðastliðið sumar og að fósturmóðir hafi rekið það til þess að drengurinn hafi hætt að gista hjá kynforeldrum í umgengni.

Hjá fósturforeldrum komi einnig fram að breytingar hafi orðið á líðan drengsins síðastliðið haust. Þá hafi orðið vart við aukna næturvætu, aukna truflandi hljóðamyndun, mótþróa, drengurinn hafi hótað að skaða sjálfan sig og fleira. Þessi slæma breyting á líðan drengsins hafi orðið á þeim tíma er umgengni og dagleg samskipti við kæranda hafi minnkað mikið.

Kærandi telur ekki ólíklegt að það hafi haft áhrif á líðan drengsins að hann hafi orðið fyrir álagi vegna óreglulegs umgengnistíma og óvissu. Einnig hafi hann saknað kæranda og annars heimilisfólks.

Að mati kæranda væri réttast að óska sérstaklega eftir áliti matsmanns á því hvaða áhrif umgengni, eða vöntun á umgengni, hafi á drenginn og hvernig best sé að haga umgengni til framtíðar. Undir rekstri forsjársviptingarmáls á hendur kæranda fyrir héraðsdómi hafi verið leitað álits matsmanns á forsjárhæfni kæranda. Sá matsmaður sé vel að sér um málefni kæranda og drengsins.

Ákveðið hafi verið að drengurinn dvelji í varanlegu fóstri hjá núverandi fósturforeldrum til 18 ára aldurs. Við ákvörðun um umgengni verði að taka tillit til þess að drengurinn sé nokkuð stálpaður en hann verði X ára í X 2017. Hann hafi alist upp á heimili kæranda til X ára aldurs en umgengni fyrsta árið hafi verið mjög regluleg og samskipti mikil. Drengurinn sé yngstur X systkina sem öll búi á eða í námunda við heimili kæranda. Móðuramma og fleiri ættingjar búi einnig í nágrenninu. Þá eigi drengurinn X systurdætur sem fæðst hafi á árinu X og þyki miður að fá ekki að kynnast þeim betur. Þetta sé fjölskylda drengsins og allar líkur verði að telja á því að þangað leiti drengurinn þegar hann verði lögráða eftir aðeins örfá ár. Mikilvægt sé því að rækta fjölskyldutengsl og haga umgengni með það í huga að hann upplifi sig ekki útundan í þeim hópi.

Loks minni kærandi á að engin óregla sé á heimili hennar og hún eigi ekki við geðrænan vanda að etja. Forsjársviptingin hafi byggst á því að daglegri umsjá og utanumhaldi væri ábótavant vegna þeirra takmarkana sem drengurinn glími við.

III. Afstaða B

B tekur undir nauðsyn þess að umgengni, og þar með taldir símatímar, séu áreiðanlegir þannig að umgengni hefjist á tilsettum tíma og ljúki á tilsettum tíma. Barnið þurfi að geta treyst því að haft sé samband við upphaf símatíma og að umgengni fari fram á þeim tíma sem ákveðinn hafi verið. Töluverður misbrestur hafi verið á samstarfi af hálfu kæranda.

Kærandi hafi takmarkað nýtt símatíma til þess að eiga samskipti við drenginn en verið í sambandi við hann utan símatíma. Kærandi hafi ekki byrjað að nýta sér símatíma fyrr en á haustmánuðum 2016 en þegar hún hafi nýtt sér símatíma hafi hún hringt seint. Það valdi drengnum kvíða þegar hann eigi von á símtali kl. 20:00 en kærandi hringi ekki fyrr en kl. 20:30 ef hún hringi á annað borð.

Kærandi hafi einnig mætt seint í umgengni og látið umgengni falla niður vegna baksturs heima við. Það sé mikilvægt fyrir drenginn að hann geti farið í umgengni og síðan aftur til fósturforeldra á sem þægilegastan máta. Það geti ekki farið fram hjá drengnum hve ósátt kærandi sé við fóstrið en þegar eftirlit hafi verið haft með umgengni hafi umgengnin litast af vanlíðan kæranda.

B telur það langsótt að rekja tilfinningalegan óstöðugleika drengsins á haustmánuðum til samskipta við kæranda eða lítillar umgengni. Dómur héraðsdóms um forsjársviptingu kæranda hafi þá nýlega verið fallinn. Systkini drengsins og móðurforeldrar auk kæranda hafi verið í sambandi við hann í gegnum samskiptaforrit á netinu. Drengurinn sé viðkvæmur fyrir óstöðugleika og áreiti en á þessum tíma hafi hann verið í mikilli óvissu og margir að hafa áhrif á hann.

Í dag sé drengurinn sáttari við stöðu sína en hann hafi fengið meiri frið. Dregið hafi úr næturvætu, truflandi hljóðamyndun og mótþróa og hann hafi ekki hótað sjálfsskaða nýlega.

Kærandi hafi verið svipt forsjá þar sem hún hafi ekki verið metin hæf til að búa drengnum viðunandi uppeldisaðstæður. Markmið fósturs sé að drengurinn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni sem tekið hafi að sér uppeldi hans. Hinn kærði úrskurður sé í samræmi við markmið hins varanlega fósturs. Takmörkuð umgengni við kæranda sé meðal annars leið til að stuðla að stöðugleika í lífi drengsins. Meiri sátt á fósturheimilinu komi ekki í veg fyrir að drengurinn geti leitað til upprunafjölskyldu sinnar þegar forsjárskyldum fósturforeldra ljúki. Nýti kærandi sér símatíma aðra hvora viku og samveru fjórum sinnum á ári muni það tryggja möguleika drengsins til að þekkja uppruna sinn.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 9. maí 2017 kemur fram að þegar drengurinn hafi fyrst komið til þeirra í tímabundið fóstur hafi hann farið í umgengni til kæranda tvær helgar í mánuði. Síðar á fósturtíma hafi bæst við umgengni við föður drengsins og fjölskyldu hans. Dvöl yfir nótt hafi haft mikil áhrif á líðan og hegðun drengsins. Hann hafi kvartað undan þreytu en í umgengni hafi hann fengið að vaka lengi. Til að mynda hafi hann oft sést virkur á samfélagsmiðlum til Xá nóttunni og hafi þá sofið lengi fram eftir næsta dag. Þegar hann hafi komið aftur á fósturheimili hafi hann sýnilega verið mjög þreyttur, þrútinn til augna og fölur. Hann hafi átt erfitt með að sofna á sunnudagskvöldum vegna þess hve seint hann hafi vaknað að deginum.

Samkvæmt E barnalækni sé mikilvægt að drengurinn taki morgunlyf ekki seinna en um kl. 11 um helgar en drengurinn sé meðal annars að taka þrjú lyf vegna næturvætu. Fósturforeldrar vakni snemma og fari með drenginn á salerni en hann leggi sig síðan aftur. Þetta geri þau til að drengurinn vakni þurr. Þessu hafi ekki verið viðhaldið í umgengni, hvorki hjá móður né föður og því hafi hann oft vaknað blautur þar. Að eigin sögn taki hann lyfin um kl. 13 en hann hafi sjálfur séð um lyfjaskömmtun í umgengni. Drengurinn þoli mjög illa rask á daglegu skipulagi. Fósturforeldrar hafi farið með hann í sumarbústað, ferðalög innanlands og til útlanda sem hafi reynst honum erfitt.

Í upphafi fósturvistunar hafi kærandi getað hringt í drenginn einu sinni í viku. Kærandi hafi þó ekki nýtt sér símatíma fyrr en síðastliðið haust. Nú hafi drengurinn ekki heyrt í kæranda síðan 6. febrúar síðastliðinn en þá hafi kærandi hringt í símatíma.

Fósturforeldrar hafi komið jafnvægi á skipulag í tengslum við næturvætu. Læknir telji ekki æskilegt að uppbrot verði á því skipulagi. Því leggja fósturforeldrar til að umgengni verði ekki yfir nótt heldur dagspart, þrisvar sinnum á ári og þá undir eftirliti svo að hagsmunir og velferð drengsins sé í forgrunni og umgengni séu á réttum forsendum.

V. Niðurstaða

Drengurinn D er tæplega X ára og lýtur forsjá B. Hann hefur verið í fóstri frá X 2014, þar af varanlegu fóstri frá því í X 2016 er kærandi var svipt forsjá hans með dómi.

Með hinum kærða úrskurði frá 15. desember 2016 var umgengni drengsins við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanns barnaverndar eftir því sem þurfa þætti. Umgengni skyldi fara fram tvisvar sinnum að vori og tvisvar að hausti. Kæranda skyldi heimilt að hringja í drenginn á símatíma, í heimasíma á fósturheimili.

Í málinu krefst kærandi þess að regluleg umgengni verði ákveðin frá föstudegi til sunnudags aðra hvora helgi. Rýmri umgengni verði í skólafríum, um jól, páska og yfir sumartímann.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Sama regla kemur fram í 1. mgr. 41. gr. bvl., en þar segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Það fer eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga barnaverndarnefnd ber að afla um viðkomandi mál til þess að rannsókn teljist fullnægjandi.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að séu barni fyrir bestu. Skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndar-yfirvalda, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. bvl. skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Ákvæðið er nánari útfærsla meginreglu barnaverndarstarfs þess efnis að barnaverndaryfirvöld skuli í störfum sínum taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til, sbr. 2. mgr. 4. gr. bvl. Er þetta til dæmis gert með þeim hætti að talsmaður aflar afstöðu barns en samkvæmt 31. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd er hlutverk talsmanns að ræða við barnið og koma á framfæri sjónarmiðum þess. Barnaverndarnefnd ber samkvæmt framangreindum lagaákvæðum að meta hvort þörf er á að skipa barni talsmann.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur afstaða drengsins, sem er tæplega X ára gamall, til þeirrar ráðstöfunar sem gripið var til með hinum kærða úrskurði ekki verið könnuð. Í máli þessu telur úrskurðarnefndin að þörf hafi verið á því að fá fram afstöðu drengsins til efnis og framkvæmdar þeirrar umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði en það hafi verið hluti af því að rannsaka málið á fullnægjandi hátt. Með vísan til þessa verður að telja að rannsókn málsins hafi að þessu leyti verið ábótavant, sbr. 1. mgr. 41. gr. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna þessa ágalla á málsmeðferð B verður að telja að sú ákvörðun sem tekin var með hinum kærða úrskurði sé ólögmæt. Ber með vísan til þess að fella hann úr gildi, sem leiðir til þess að taka þarf ákvörðun að nýju að gættum viðeigandi málsmeðferðarreglum, en samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl., sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015, getur úrskurðarnefnd velferðarmála vísað málinu til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Úrskurður B frá 15. desember 2016 varðandi umgengni A við son sinn, D, er felldur úr gildi og er málinu vísað til B til meðferðar að nýju.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eyda

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira