Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 1/2008: Dómur frá 30. apríl 2008

Félag prófessora við ríkisháskóla gegn íslenska ríkinu, Félagi háskólakennara, Félagi háskólakennara á Akureyri og Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands.

Ár 2008, miðvikudaginn 30. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 1/2008:

     

Félag prófessora við ríkisháskóla

gegn

íslenska ríkinu,

Félagi háskólakennara,

Félagi háskólakennara á Akureyri og

Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið  að loknum munnlegum málflutningi 8. apríl sl.   

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

 

Stefnandi er Félag prófessora við ríkisháskóla, Loftskeytastöðinni v/Suðurgötu, Reykjavík.

Stefndu eru íslenska ríkið, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík, Félag háskólakennara, kt. 570172-0699, Loftskeytastöðinni, Reykjavík, Félag háskólakennara á Akureyri, kt. 600392-2399, Þingvallastræti, Akureyri og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands, kt. 570178-0329, Stakkahlíð, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

  1. Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að Félag prófessora við ríkisháskóla fari með samningsumboð fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga við stefnda, íslenska ríkið, vegna starfa þeirra sem prófessorar við ríkisháskóla.
  2. Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda íslenska ríkinu sé óheimilt að halda eftir af launum prófessora við ríkisháskóla, sem eru félagsmenn í Félagi prófessora við ríkisháskóla, gjöldum samkvæmt 2. málsgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 til Félags háskólakennara, Félags háskólakennara á Akureyri og Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands.
  3. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

 

Haldi hin stefndu stéttarfélög, eitt eða fleiri, ekki uppi vörnum í málinu verður fallið frá málskostnaðarkröfu á hendur viðkomandi.

 

Dómkröfur stefnda 

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Félagsdómi samkvæmt mati dómsins.

Með úrskurði Félagsdóms uppkveðnum 13. mars sl. var hafnað kröfu stefnda, íslenska ríkisins,  um frávísun á 2. kröfulið stefnanda.

 

Málavextir

Málavextir eru þeir að um hríð hefur aðild að kjarasamningum háskólakennara og eftir atvikum annarra  háskólamenntaðra starfsmanna ríkisháskólanna verið hagað þannig að við hvern ríkisháskóla, aðra en Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla-Háskólann á Hólum, hefur orðið til stéttarfélag háskólakennara, sem hvert fyrir sig hefur gert kjarasamninga við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.  Þessi félög eru sögð stofnanabundin stéttarfélög. Félag háskólakennara (FH) er elst þessara félaga og eiga rétt til inngöngu í það félag „starfsmenn Háskóla Íslands og tengdra stofnana sem hafa a.m.k. BA/BS próf frá viðurkenndum háskóla og gegna að lágmarki 1/3 hluta starfs við Háskóla Íslands eða tengdar stofnanir.“.  Samsvarandi takmarkanir gilda um rétt til aðildar að öðrum félögum háskólakennara.

Ekki eru til félög háskólakennara við Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann-Háskólann á Hólum, og mun vera allur gangur á því í hverjum stéttarfélögum háskólakennarar þar eru. 

Hinn 28. apríl 1987 var stofnað Félag prófessora í Háskóla Íslands (FPHÍ).  Í 2. gr. upphaflegu laganna var tilgangur félagsins tilgreindur í sjö töluliðum.  Í 6. lið var kveðið á um að félaginu væri ætlað að vinna að bættum kjörum félagsmanna. Styrking og samheldni prófessora voru sett fremst í forgangsröðun félagsins.  Er félagið var stofnað voru laun prófessora ákvörðuð í kjarasamningum FH.  Frá stofnun FPHÍ til ársins 1996 var félagið rekið sem deild innan FH.  Á því ári ákvað FPHÍ að segja sig úr FH.  Helstu ástæður voru að vægi prófessora innan FH hafði minnkað, vegna fjölgunar annarra kennara og þess að starfsmönnum nokkurra ríkisstofnana, sem tengdust HÍ, var heimiluð full aðild að FH.  Lítið hafði gengið í því að sinna hagsmunamálum prófessora innan FH.  Um sama leyti og FPHÍ sagði sig úr FH óskaði það eftir því að ákvörðunarvald um laun og önnur starfskjör prófessora  yrði fært undir kjaranefnd, sem þá starfaði samkvæmt lögum nr. 120/1992.  Urðu stjórnvöld við þeirri ósk með lögum nr. 150/1996.  Með 6. gr. þeirra laga var 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd breytt þannig að hún hljóðaði eftirleiðis svo:

Kjaranefnd ákveður laun og starfskjör embættismanna, annarra en þeirra sem taldir eru upp í 2. gr., lögreglumanna, tollvarða og fangavarða, sbr. ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Enn fremur ákveður nefndin laun og starfskjör heilsugæslulækna og prófessora, enda verði talið að þeir gegni þeim störfum sem aðalstarfi.

Í athugasemdum við breytinguna í greinargerð með breytingarlögunum frá 1996 segir um þetta:

Í frumvarpi til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem lagt var fyrir 120. löggjafarþing, var upphaflega gert ráð fyrir að háskólaprófessorar teldust embættismenn í skilningi frumvarpsins.  Við meðferð Alþingis var horfið frá því að svo stöddu og málinu vísað til frekari umfjöllunar innan Háskóla Íslands.  Varð það niðurstaða funda menntamálaráðherra með fulltrúum Háskóla Íslands að vegna sérstöðu starfa háskólaprófessora þætti rétt að leggja til að laun þeirra sem gegna prófessorsstöðu að aðalstarfi í skilningi stml. verði framvegis ákveðin af kjaranefnd.

Eftir að lagabreytingin tók gildi sinnti FPHÍ hagsmunagæslu prófessora við HÍ gagnvart kjaranefnd, m.a. með því að senda nefndinni álitsgerðir, andmæli og athugasemdir eftir atvikum hverju sinni.  Telur stefnandi að félagsmenn FPHÍ séu ekki félagsmenn í FH.  Prófessorar við hina ríkisháskólana stofnuðu annað félag, Prófessorafélag Íslands (PÍ), sem sinnti sambærilegu hlutverki og FPHÍ fyrir sína félagsmenn.  Eftir að starfskjör prófessora fóru eftir ákvörðunum kjaranefndar var ekki haldið eftir af launum þeirra neinu  stéttarfélags- eða samningsréttargjaldi.

Lögin um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 12/1992, með síðari breytingum, voru felld úr gildi með lögum um kjararáð nr. 47/2006.  Kjaradómur og kjaranefnd voru lögð niður en þeirra í stað sett á fót ein stjórnsýslunefnd, kjararáð að nafni.  Verkefni kjararáðs, samkvæmt lögunum, er skilgreint þannig að það skuli ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra og dómara og „annarra ríkisstarfsmanna, þegar kjör tiltekinna starfsstétta geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu“.  Um þetta síðastnefnda á kjararáð mat, sbr. nánar 4. og 5. gr. laganna.

Í dag fara starfskjör prófessora við ríkisháskóla samkvæmt ákvörðun kjaranefndar frá 28. júní 2005, ákvörðun kjararáðs frá 4. október 2006 og ákvörðun kjararáðs frá 19. desember 2006.  Fyrstnefnda ákvörðunin er heildarákvörðun þar sem kveðið er á um starfskjörin frá og með 1. febrúar 2005 í sjö töluliðum.  Í ákvörðunum kjararáðs var kveðið á um launahækkanir í prósentustigum.  Að öðru leyti héldu fyrri ákvarðanir gildi sínu.  Ákvörðunarorð síðastnefnda úrskurðarins er svohljóðandi:

Laun þeirra sem ákvörðunarvald kjararáðs nær til skulu hækka um 3,6% 1. október 2006.  Hinn 1. janúar 2007 skulu þau laun hækka um 2,9%.

Á fundi 9. janúar 2007 tók kjararáð fyrir að skera úr um hvort ráðið skyldi ákveða laun og starfskjör prófessora.  Í úrskurði ráðsins er gerð grein fyrir ýmsum athugasemdum, sem bárust kjararáði um álitaefnið.  Margir umsagnaraðilar lögðu áherslu á að með því kerfi, sem verið hafði við lýði, hafi tekist víðtæk sátt um samræmt vinnumatskerfi, stutt af rannsókna- og ritlaunasjóði, sem hefði haft mikla þýðingu bæði fyrir prófessora og starfsemi háskólanna yfirleitt.  Komst kjararáð að niðurstöðu um að ákvörðun launa og starfskjara prófessora heyrði ekki undir kjararáð samkvæmt lögunum.  Í forsendum fyrir niðurstöðunni segir orðrétt:

„Kjaradeilur og verkföll meðal prófessora valda röskun á starfi sem erfitt er að una við.  Á það einnig við um mörg önnur störf og hafa prófessorar ekki þá sérstöðu í því efni, að það réttlæti að vikið sé frá meginreglunni um að laun og starfskjör séu ákveðin í frjálsum samningum.  Störf prófessora fela ekki í sér fyrirsvar fyrir ríkið í samskiptum við starfsmenn í kjaramálum.  Háskólaráð, félög prófessora og einstakir prófessorar hafa fært mikilsverð rök fyrir þeirri afstöðu, að ekki skuli hrófla við núverandi fyrirkomulagi, sem hafi reynst vel undanfarinn áratug.  Vandséð er þó, að háskólarnir og samtök prófessora geti ekki samið um samræmt heildarkerfi, sem viðhaldi núverandi kerfi eða leysi það af hólmi.“   

Í framhaldi af úrskurði kjararáðs kom til skoðunar hvort FPHÍ og PÍ væru stéttarfélög í skilningi laga nr. 94/1986.  Prófessorar leituðu álits Sigurðar Líndal, fyrrum prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, sbr. bréf dags. 16. janúar 2007.  Í álitsgerð Sigurðar, sem er dagsett 13. febrúar 2007, með viðbót dags. 27. febrúar 2007 var komist að niðurstöðu um að FPHÍ uppfyllti að öllum líkindum skilyrði 3. tl. 5. gr. laganna til að eiga aðild að kjarasamningum við ríkið.  Þessi skilyrði eru orðuð svo í lögunum:

„Að félag taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri“ 

Í niðurlagi framhaldsálitsgerðarinnar benti Sigurður á að athugandi væri að sameina prófessorafélögin með stofnun Félags prófessora við ríkisháskólana.

Á fundi 16. maí 2007 var ákveðið að eftirleiðis yrði aðeins eitt félag prófessora.  Samþykkt voru ný lög FPHÍ, sem þaðan í frá skyldi heita Félag prófessora við ríkisháskóla, með breyttu hlutverki og inngönguskilyrðum, þannig að prófessorar annarra ríkisháskóla en Háskóla Íslands gætu átt rétt til inngöngu í félagið.  Samkvæmt 1. gr. nýrra laga félagsins heitir það Félag prófessora við ríkisháskóla (hér eftir FPR).  Samkvæmt 2. gr. geta félagsmenn verið allir prófessorar í fullu starfi við íslenska ríkisháskóla, þ.e. Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum, enda sé starfshlutfall þeirra við viðkomandi háskóla 50% eða hærra.  Prófessorar, sem látið hafa af starfi sínu við einhvern ríkisháskólanna fyrir aldurs sakir, vegna veikinda eða af öðrum sambærilegum ástæðum (professores emeriti), geti einnig verið félagsmenn.  Samkvæmt 3. gr. er hlutverk félagsins meðal annars að vinna að kjara- og réttindamálum prófessora.  Í framhaldi af fundinum var PÍ lagt niður. 

Með bréfi fjármálaráðuneytisins til FPR, dags. 5. júní 2007 var tilkynnt að ráðuneytið væri ekki sammála niðurstöðu Sigurðar Líndal.  Ráðuneytið teldi að ekki væri uppfyllt það skilyrði 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 að um væri að ræða félag sem tæki til „starfsmanna sem eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda“.  Ennfremur segir að ekki sé ljóst hvort önnur skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.  Loks segir í bréfinu:

„Einnig telur ráðuneytið að þau störf sem hér um ræðir falli undir samningssvið Félags háskólakennara, sbr. 1. mgr. 6. gr.  Af þessu leiðir að fjármálaráðherra telur sér ekki skylt að gera kjarasamning við Félag prófessora.

Stéttarfélög háskólakennara eru í dag stofnanabundin stéttarfélög og fara að mati ráðuneytisins hvert og eitt með samningsumboð allra háskólakennara hvert í sínum háskóla að Landbúnaðarháskólanum undanskildum.  Vegna þeirrar stöðu sem ljós er orðin í kjölfar ákvörðunar Kjararáðs að úrskurða ekki frekar um kjör prófessora er óskað eftir því að félag eða félög prófessora og eftir atvikum félög háskólakennara lýsi afstöðu sinni til samningsstöðu prófessora eigi síðan en 30. júní nk.  Í framhaldi af því mun ráðuneytið boða til fundar um ofangreint.“ 

Að beiðni FPR samdi Sigurður Líndal nýja álitsgerð af þessu tilefni, dags. 25. júní 2007.  Hann komst að niðurstöðu um að félagið uppfyllti áður tilvitnuð skilyrði 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 um að félagsmenn væru starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða menntun, sem jafna mætti til slíkra starfsréttinda.

Með bréfi Gísla Más Gíslasonar, formanns FPR, til fjármálaráðherra, dags. 27. júní 2007, var gerð grein fyrir álitsgerð Sigurðar, að FPR gerði niðurstöður hans að sínum og að félagið héldi til streitu kröfu sinni um að ráðuneytið viðurkenni félagið sem samningsaðila prófessora við ríkisháskóla gagnvart fjármálaráðuneytinu. Gsli Sigurðsson, formaður stjórnar Félags háskólakennara (FH), ritaði fjármálaráðherra einnig bréf, sem er dags. 28. júní 2007.  Þar kom fram að FH og FPR hafi átt ágætt samstarf og stjórn FH vænti þess að FPR og ráðuneytið myndu leiða deilu sína til lykta.  Fjármálaráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 10. júlí 2007, á þá leið að afstaða ráðuneytisins væri óbreytt og það féllist ekki á að FPR ætti rétt á samningsaðild við ríkið fyrir hönd prófessora.

Með bréfum fjármálaráðuneytisins, 28. ágúst 2007, til prófessora við ríkisháskóla var  tilkynnt um ákvörðun starfskjara.  Skýrt var frá því að til loka kjarasamninga félaga háskólakennara á árinu 2008 skuli laun prófessora taka sömu breytingum og kveðið er á um í kjarasamninga félaga starfsmanna háskólanna.  Þetta gildi um alla prófessora aðra en prófessora við Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum..  Nánar tiltekið hækki launatafla prófessora um 2,6%.  Stefnandi áréttar að þessi ákvörðun fjármálaráðuneytisins hafi verið einhliða.  Frá og með 1. september 2007 hóf ríkið gjaldtöku af launum prófessora til greiðslu samningsréttargjalda til hinna stefndu félaga háskólakennara.  FPR mótmælti með bréfi, dags. 11. september 2007.  

Með bréfi Gísla Sigurðssonar, formanns FH, dags. 13. september 2007, var fjármálaráðuneytinu meðal annars bent á að laun og starfskjör prófessora fari ekki samkvæmt samningum Félags háskólakennara við fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, heldur samkvæmt ákvörðun kjararáðs, áður kjaranefndar.

Ráðuneytið svaraði bréfunum frá 11. og 13. september 2007 með bréfum, dags. 10. október 2007 og 15. nóvember 2007.  Þar var lýst óbreyttri afstöðu ráðuneytisins til málsins.

FPR fól lögmanni sínum að láta í té álit á því hvort synjun fjármálaráðuneytisins á kröfu FPR um viðurkenningu á rétti til samningsaðildar væri lögum samkvæmt og hvort mögulegt væri að fá dóm Félagsdóms þar um.  Stjórn FPR ritaði greinargerð af því tilefni, sem er ódagsett, og formaður FPR gerði skriflega nánari grein fyrir helstu ástæðum þess að prófessorar sögðu skilið við Félag háskólakennara á sínum tíma.

 

Dómsvald Félagsdóms og aðild stefndu

Stefnandi kveður mál þetta lúta dómsvaldi Félagsdóms á grundvelli 1. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Samkvæmt því heyri það undir dómsvald Félagsdóms m.a. að dæma um ágreining er lúti að samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hverra starfsmanna samningsaðild þeirra nái.

Af ætlaðri réttarfarsnauðsyn sé félögum háskólakennara, þ.e. Félagi háskólakennara, Félagi háskólakennara við háskólann á Akureyri og Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands, einnig stefnt þannig að málsúrslit bindi þau og að þeim gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna kjósi þau það.  Stefnandi tekur það skýrt fram að hann líti svo á að hann eigi ekki nokkrum  ágreiningi við hin stefndu félög.  Yfirlýsing hvað varðar málskostnaðarkröfu skýrist af þessari afstöðu stefnanda til málsaðildar félaganna.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:

 

Krafa nr. 1 um viðurkenningu á kjarasamningsaðild:

Stefnandi kveðst byggja á því FPR sé stéttarfélag, sem uppfylli áður tilvitnuð skilyrði 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986, og hafi því öðlast rétt til að vera aðili að kjarasamningum við stefnda íslenska ríkið. Verði komist að gagnstæðri niðurstöðu um mat og túlkun á skilyrðunum í téðu lagaákvæði sé eftir sem áður byggt á að fallast beri á kröfuna á grundvelli félagafrelsisákvæðis 74. gr. stjórnarskrárinnar.  Verði nú gerð nánari grein fyrir þessum málsástæðum.

Ríkisvaldinu sé óheimilt að hafa afskipti af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna.  Í því felist að félagsmenn FPR verði ekki þvingaðir til þátttöku í öðru stéttarfélagi en þeir kjósa sjálfir.  Þessi regla verði leidd af félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi beint lagagildi á Íslandi, sbr. l. nr. 62/1994.  Einnig vísist til meginreglunnar um samningsfrelsi.  Starfsmaður verði ekki þvingaður til að fá stéttarfélagi, sem starfsmaður vilji ekki vera í, umboð til að gera kjarasamninga fyrir sig, án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar, sbr. forsendur Félagsdóms í máli nr. 9/1999, Vélstjórafélag Íslands gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. 

Prófessorar séu sérstök „starfsstétt“ í skilningi 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986.  Í lögum um háskóla nr. 63/2006 séu prófessorar sérstaklega tilgreindir, sbr. 17. gr. laga nr. 63/2006.  Sama eigi við í sérlögum um einstaka ríkisháskóla.  Einnig sé rík hefð fyrir því hér á landi sem erlendis að aðgreina prófessora sem starfsstétt og fjalla um málefni þeirra sérstaklega vegna margvíslegrar sérstöðu, eins og gerð sé grein fyrir í greinargerðum félags FPR.  Sérstaðan hafi meðal annars verið viðurkennd af menntamálaráðuneytinu og löggjafanum með því að starfskjör háskólaprófessora hafi, í meira en áratug, verið ákvörðuð með öðrum hætti heldur en laun annarra háskólakennara.  Fallist hafi verið á sjónarmið um að prófessorar ættu ekki samsvörun í einstökum háskólakennarafélögum, þar sem þeir yrðu í miklu minnihluta.  Prófessorar hafi því verið færðir undir kjaranefnd með lagabreytingu.  Þá sé gengið út frá því í forsendum úrskurðar kjararáðs frá 7. janúar 2007 að prófessorar geti samið um kjör sín með kjarasamningum. 

Prófessorar uppfylli einnig skilyrði um „lögformleg starfsréttindi eða formlega menntun sem jafna má til lögformlegra starfsréttinda“.  Samkvæmt 18. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla skulu prófessorar hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar, jafnframt því að þeir skulu hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi réttarsviði.  Þannig verði enginn prófessor nema að hann hafi fengið formlega viðurkenningu á hæfni sinni til að vera prófessor.  Þá sé meistaranám umfangsmikið og ítarlega skilgreint háskólanám, sem einnig sé lögformlegt skilyrði fyrir prófessorsstöðu.  Um meistaranám séu ítarleg ákvæði í auglýsingu menntamálaráðuneytisins nr. 80/2007.  Þar sé m.a. svohljóðandi skilgreining á meistaranámi:

Um er að ræða eins og hálfs til tveggja ára nám til 90-120 eininga á stigi 4.  Full námsframvinda eru lokapróf af stigi 2 eða sambærileg próf.  Yfirleitt er krafist fyrstu einkunnar.  Skólar geta sett frekari skilyrði fyrir aðgangi að námi á stigi 4.   Meistarapróf veitir aðgang að doktorsnámi á 3. þrepi.  Skólar geta krafist ákveðinnar lágmarkseinkunnar.  Umfang rannsóknar og/eða lokaverkefnis skal vera a.m.k. 30 einingar. 

Meistaranám sé miklu umfangsmeira heldur en ýmis önnur menntun sem grundvöllur starfsréttinda, sem hlotið hafi viðurkenningu á grundvelli 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986, til dæmis samkvæmt reglugerð nr. 792/2001 um brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna og reglum nr. 897/2001 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða.                 

Stefnandi leggur fram í málinu staðfestingu framkvæmdastjóra FPR á því að í félaginu séu alls 197 félagsmenn, allir starfandi prófessorar við ríkisháskólana.  Samanlagður fjöldi prófessora við skólana sé 237.  Samkvæmt þessu séu yfir 83% prófessoranna félagsmenn í FPR.  Fjöldaskilyrðum í 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 sé því fullnægt.  Það athugast að í yfirlýsingunni hafi láðst að geta um tvo prófessora við Háskóla-Háskólann á Hólum, sem einnig séu félagsmenn í stefnanda og hækki hlutfallið sem þeim nemi.  Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið uppfylli stefnandi öll skilyrðin í 3. tölulið 5. gr.

Til þess að synja FPR um kjarasamningsaðild þyrfti að komast að niðurstöðu um að það standist meðalhófsreglurnar í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að takmarka rétt prófessora til stofnunar stéttarfélags til þess að gæta hagsmuna sinna í kjarasamningum.  Í því sambandi komi til skoðunar aðdragandi málsins.  Með úrskurði kjararáðs frá 9. janúar 2007 hafi verið ákveðið að laun og starfskjör prófessora skyldu eftirleiðis ekki eiga undir kjararáð.  Hafi það byggst á því áliti kjararáðs að prófessorar hefðu ekki þá sérstöðu að unnt sé að réttlæta að vikið sé frá meginreglunni um að laun og starfskjör skuli ákveðin í frjálsum samningum.  Í úrskurðinum segi:  „Vandséð er þó, að háskólarnir og samtök prófessora geti ekki samið um samræmt heildarkerfi [leturbr. GJ], sem viðhaldi núverandi kerfi eða leysi það af hólmi.“  Augljóst sé að forsenda kjararáðs um að samtök prófessora og háskólarnir geti samið um samræmt heildarkerfi verði ekki virk ef prófessorum sé ætlað að gera kjarasamninga sína í gegnum mörg stéttarfélög þar sem þeir yrðu fyrirsjáanlega í minnihluta félagsmanna í hverju tilviki.  Með því væri ekki einungis horfið til kerfis sem hafi þótt óviðunandi og lagt hafi verið af fyrir meira en áratug síðan, heldur bættist við að prófessorar þyrftu að semja um laun sín gegnum fleiri stéttarfélög heldur en þá.  Engin trygging sé fyrir að samið verði um samræmt heildarkerfi við slíkar aðstæður.

Til þess að synja FPR um kjarasamningsaðild þyrfti að komast að niðurstöðu um að slík takmörkun á félagafrelsi standist kröfur félagafrelsisákvæðanna meðal annars um að vera nauðsynleg „í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi“.  Sérstaða prófessora í lagalegu og kjaralegu tilliti hafi komið fram í lögum allt frá árinu 1996.  Sú staðreynd að laun háskólaprófessora hafi allt frá árinu 1996 verið ákvörðuð með sértækum hætti, þ.e. öðrum hætti heldur en með kjarasamningum háskólakennarafélaga, sýni að enga nauðsyn beri til þess að takmarka frelsi prófessora til að vera í sjálfstæðu stéttarfélagi.   Fyrirrennarar FPR, þ.e. FPHÍ og PÍ, hafi allt frá árinu 1996 komið fram gagnvart ríkisvaldinu eins og stéttarfélag og gætt kjaralegra hagsmuna félagsmanna.  Þegar litið sé til þessara staðreynda sé ljóst að það standist ekki innbyggðar meðalhófsreglur í tilvitnuðum félagafrelsisákvæðum að hafna kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti til að koma fram sem stéttarfélag og fara með samningsumboð fyrir hönd félagsmanna sinna.  Við mat á því hvort stéttarfélag uppfylli skilyrðin í 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986 beri að túlka lagaskilyrðin til samræmis við félagafrelsisákvæðin.

Verði, gegn væntingum stefnanda, komist að niðurstöðu um að hann uppfylli ekki eitthvert umræddra skilyrða í 3. tl. 5. gr., þá sé sérstaklega á því byggt að víkja beri því til hliðar á grundvelli meginreglnanna um félagafrelsi og samningsfrelsi.  Fordæmi Félagsdóms sé fyrir slíkri niðurstöðu í máli nr. 9/1999, þar sem ótvíræðum skilyrðum um fjölda félagsmanna hafi verið vikið til hliðar af sérstökum ástæðum.  Í tilviki prófessora séu uppi mjög sérstakar ástæður, sem einnig réttlæti slíka niðurstöðu, verði komist að niðurstöðu um að stefnandi uppfylli ekki skilyrðin á annað borð.  Að öðrum kosti telur stefnandi að brotið væri gegn félagafrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.  

Að lokum sé bent á að allur gangur hefur verið á því hvernig stefndi, íslenska ríkið, hafi framfylgt einstökum ákvæðum er varða rétt stéttarfélaga til að gera kjarasamning við ríkið á grundvelli laganna nr. 94/1986.  Sem dæmi verði ekki betur séð en að þau félög, sem ráðuneytið nefni stéttarfélög háskólakennara og segi vera stofnanabundin stéttarfélög uppfylli ekki skilyrði laganna til að fá kjarasamningsaðild samkvæmt 2. tl. 5. gr. laganna.  Komi þar til að réttur til aðildar að þeim félögum sé ekki takmarkaður við starfsmenn tiltekinnar stofnunar, a.m.k. ekki í tilviki Háskóla Íslands.  Einnig kunni starfsmenn, sem ekki falli undir lögin nr. 94/1986, að eiga rétt til fullrar aðildar að félögunum.  Á hinn bóginn séu hömlur á því hverjir starfsmenn tiltekinnar stofnunar, sem falli undir lögin nr. 94/186, eigi rétt til aðildar að félögunum.  Önnur dæmi séu um að ekki hafi verið gerðar strangar kröfur hvað varðar skilyrðin í 3. tl. 5. gr., til dæmis í tilviki Sjúkraliðafélags Íslands og Félags slökkviliðsmanna, sem eigi viðurkenndan samningsrétt á grundvelli þess ákvæðis.  Fleiri dæmi um rúma túlkun séu í dómasafni Félagsdóms.   Séu það enn frekari rök gegn þröngri túlkun á skilyrðunum í þessu máli.     

 

Krafa nr. 2 er varðar óheimila gjaldtöku:

Eins og greini í kröfugerð krefst stefnandi enn fremur viðurkenningar á því að stefnda íslenska ríkinu sé óheimilt að halda eftir af launum prófessora við ríkisháskóla gjaldi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 til Félags háskólakennara, Félags háskólakennara á Akureyri og Félags háskólakennara við Kennaraháskóla Íslands.  Krafan byggist á sömu málsástæðum og krafa nr. 1 í málinu.

Til þess að halda eftir gjöldum af launum starfsmanns þurfi að koma til skýr og ótvíræð lagaheimild samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 7. gr. laganna nr. 94/1986 eigi starfsmaður, sem lögin taki til og sé eigi innan stéttarfélags samkvæmt lögunum, að greiða til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, „enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar.“  Hin stefndu félög háskólakennara hafi ekki gert samninga fyrir hönd félagsmanna FPR.  Laun félagsmanna FPR fari samkvæmt ákvörðunum kjaranefndar og kjararáðs, eins og hér að framan hafi verið rakið.  Skilyrði lagaákvæðisins til að halda eftir af launum félagsmanna gjöldum til þessara félaga séu því ekki uppfyllt og innheimtan því ólögmæt.

Málskostnaðarkrafa styðjist við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeildur.

 

Málsástæður stefnda, íslenska ríkisins, og lagarök

Um 1. tölulið dómkrafna

Stefndi byggir sýknukröfu sína á nokkrum atriðum varðandi 1. lið dómkrafna. Annars vegar sé á því byggt að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir samningsaðild stefnanda og hins vegar að félagið hafi ekki tilkynnt stefnda á þann hátt sem lög bjóða, telji það sig uppfylla skilyrðin. Byggir stefndi á því að hvort tveggja leiði sjálfstætt eða saman til sýknu af kröfum stefnanda. Einnig sé byggt á því samhliða að stefnandi hafi í raun ekki lagt fram haldbær gögn, m.a. um fjölda félagsmanna.

Stefnandi hafi byggt á því að félagið sé stéttarfélag sem uppfylli greint skilyrði laga til að öðlast rétt til að vera aðili að kjarasamningum við stefnda. Prófessorar séu sérstök „starfsstétt“ í skilningi 3. töluliðs 5. gr. laga nr. 94/1986. Þá uppfylli þeir einnig skilyrði um „lögformleg starfsréttindi eða formlega menntun sem jafna megi til lögformlegra starfsréttinda“ og öll skilyrði 3. töluliðs 5. gr. áðurnefndra laga. Þessu mótmælir stefndi og telur skilyrðin ekki uppfyllt.

Þrátt fyrir ákvæði 74. gr. stjórnarskrár sé það á hendi löggjafans að kveða nánar á um hvort félag uppfylli skilyrði til að fara með samningsumboð og til hverra starfsmanna eða hópa þeirra á vinnumarkaði það taki. Sjálfstæður réttur til að eiga samningsaðild fyrir tiltekna hópa starfsmanna verði þannig ekki leiddur af ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar. Í máli þessu geri stefnandi kröfur en ekki einstakir félagsmenn. Afstaða stefnda og löggjafans til þess hvort eða undir hvaða kringumstæðum stefnandi geti farið með samningsaðild, en ekki önnur félög eins og nú háttar, geti ekki skoðast sem andstæð 74. gr. stjórnarskrár. Verði að ganga út frá því að samningsumboð stéttarfélaga sé háð því að til þeirrar réttarstöðu sé stofnað að lögum eins og þau geri ráð fyrir, sbr. ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og lög nr. 94/1986. Fái þetta sérstaka stoð í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Engin rök standi því til þess að víkja til hliðar ákvæðum laga sem mæla nánar fyrir um skilyrði fyrir samningsumboði stéttarfélaga.

Í 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir:

„Önnur stéttarfélög eða félagasamtök en um ræðir í 4. gr. öðlast rétt til að vera samningsaðili samkvæmt lögum þessum sé a.m.k. eitt eftirtalinna skilyrða uppfyllt, sbr. þó 1. mgr. 6. gr.:

....

3. Að félag taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda og að þeir félagsmenn séu 40 eða fleiri.“

Stefnandi byggir ekki kröfur sínar á öðrum liðum 5. gr. enda ekki uppfyllt skilyrði laga í þeim tilvikum. Í athugasemdum með 5. gr. laganna segir um 3. tölulið að þar sé gert ráð fyrir samningsumboði fagfélaga, þ.e. félaga sem taki til a.m.k. tveggja þriðju hluta heillar starfsstéttar sem sé með lögformleg starfsréttindi eða uppfylli skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda. Enn fremur sé skilyrði að félagsmenn í fullu starfi séu eigi færri en 40. Skilyrði þessi séu ekki bundin við neinn einstakan vinnuveitanda heldur alla þá vinnuveitendur sem undir lögin geti heyrt. Opni lagaákvæði þetta því leið til þess að eitt og sama fagfélag geti tekið til starfsmanna hjá mörgum opinberum vinnuveitendum og annast gerð kjarasamninga við þá alla, hvern í sínu lagi eða sameiginlega eftir því sem verkast vill. Enn fremur segi að greinin taki til þeirra starfsstétta sem hafi starfsréttindi sem bundin séu í lögum eða reglugerðum svo og fagstétta sem þurfi hliðstæða sérhæfingu og sérþjálfun til þeirra starfa sem þær annist. Annars vegar sé um að ræða starfsstéttir, svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, fóstrur, sjúkraliða, verkfræðinga, arkitekta, tækni­fræðinga, sjúkraþjálfara o.s.frv., þar sem sérstök ákvæði í lögum eða reglugerð kveði á um starfsréttindi og rétt til notkunar á starfsheitum. Hins vegar sé um að ræða fagfélög starfsmanna sem lokið hafi hliðstæðu námi og sérhæfingu og framangreindar stéttir. Sé þar fyrst og fremst um að ræða háskólamenntaða starfsmenn.

Ákvæði 3. töluliðs 5. gr. byggi annars vegar á því að þeir sem falli undir hlutaðeigandi starfsstétt, hafi hlotið opinbert leyfi eða viðurkenningu til þess að mega starfa á ákveðnu sviði og kalla sig því heiti sem viðurkenningin lúti að. Hins vegar geti verið um að ræða fagstétt þar sem grundvöllur hennar sé sérstök menntun eða sérhæfing, án þess að sérstaka löggildingu eða viðurkenningu þurfi þar til. Dæmi um hina fyrrnefndu séu t.d. grunnskólakennarar en dæmi um hina síðarnefndu séu t.d. þeir sem hafi lokið námi í lögfræði eða viðskiptafræði.

Stefndi byggir á því að prófessorar geti ekki talist vera starfsstétt með lögformleg starfsréttindi. Prófessorar geti ekki talist vera með starfsréttindi sem bundin séu í lögum eða reglugerð né sé kveðið á um rétt þeirra til notkunar á starfsheiti í lögum eða reglugerðum eins og t.d. sé með kennara og hjúkrunarfræðinga. Engu breyti þótt kveðið sé á um störf kennara við háskóla í lögum um háskóla nr. 63/2006 en samkvæmt 18. gr. laganna skuli prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skuli jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði. Þá geti prófessorar ekki talist uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda eins og t.d. viðskiptafræðingar og sagnfræðingar enda séu þeir ekki allir með sömu menntun, þ.e. lokapróf úr sama fagi, auk þess sem þeir séu með mjög fjölbreytilegan bakgrunn. Þá verði ekki séð að prófessorar geti talist sérstök starfsstétt gagnvart dósentum, lektorum og aðjúnktum, sbr. 17. og 18. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

Stefnandi byggir á því að ríkisvaldinu sé óheimilt að hafa afskipti af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna. Í því felist að félagsmenn stefnanda verði ekki þvingaðir til þátttöku í öðru stéttarfélagi en þeir kjósi sjálfir. Einnig haldi stefnandi því fram að til að synja FPR um kjarasamningsaðild þurfi að komast að niðurstöðu um að það standist meðalhófsreglur 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 11. gr. mannréttinda­sáttmála Evrópu, að takmarka rétt prófessora til stofnunar stéttarfélags til þess að gæta hagsmuna sinna í kjarasamningnum. Þá haldi stefnandi því einnig fram að verði komist að niðurstöðu um að hann uppfylli ekki eitthvert skilyrði 3. töluliðs 5. gr. beri að víkja því til hliðar á grundvelli meginreglna um félagafrelsi og samnings­frelsi og vísar því til stuðnings til Félagsdóms í máli nr. 9/1999.

Stefndi mótmælir því að verið sé að þvinga félagsmenn stefnanda til þátttöku í öðru stéttarfélagi en þeir kjósi sjálfir. Þá mótmælir stefndi tilvísun stefnanda til 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu. Það sé ekki afstaða stefnda að prófessorar geti ekki stofnað stéttarfélag né að þeim sé skylt að eiga aðild að félögum háskólakennara. Það sé aftur á móti mat stefnda að stefnandi uppfylli ekki skilyrði 3. töluliðs 5. gr. laga nr. 94/1986 til að geta verið samningsaðili við stefnda. Að því leyti sem reyna myndi á ákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu telur stefndi meðalhófsreglu uppfyllta þótt samið sé um kaup og kjör prófessora undir flaggi annarra félaga en stefnanda. Verndarhagsmunir greindra ákvæða stjórnarskrár og MSE séu nægilega tryggðir með því að meðstefndu fari með samningsumboð fyrir félagsmenn stefnanda. Sé einnig á það bent, burtséð frá sönnun um fjöldaskilyrði, að verulegur fjöldi prófessora við ríkisháskóla sé ekki í röðum stefnanda. Stefndi mótmælir tilvísun stefnanda til Félagsdóms í máli nr. 9/1999 en það mál sé ekki sambærilegt sakarefninu.    

Stefnandi heldur því fram að allur gangur hafi verið á því hvernig stefndi hafi framfylgt einstökum ákvæðum er varði rétt stéttarfélaga til að gera kjarasamning við ríkið á grundvelli laganna nr. 94/1986. Í stefnu komi fram að dæmi um að ekki hafi verið gerðar strangar kröfur varðandi skilyrði 3. töluliðs 5. gr. séu til dæmis í tilviki Sjúkraliðafélags Íslands og Félags slökkviliðsmanna. Þess skuli getið að samkvæmt lögum nr. 58/1984 um sjúkraliða séu þeir starfsstétt með lögformleg starfsréttindi. Sama eigi við um slökkviliðsmenn, sbr. lög nr. 75/2000 um brunavarnir og reglugerð nr. 792/2001 um Brunamálaskóla og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

Í stefnu sé því haldið fram að réttur til aðildar í stéttarfélögum háskólakennara sé ekki takmarkaður við starfsmenn tiltekinnar stofnunar, a.m.k. ekki í tilviki Háskóla Íslands. Þar segi einnig að starfsmenn sem ekki falli undir lög nr. 94/1986 kunni að eiga rétt til fullrar aðildar að félögunum. Þá segi að hömlur séu á því hverjir starfsmenn tiltekinnar stofnunar, sem falli undir lög nr. 94/1986, eigi rétt til aðildar að félögum. Stefndi telur þessar fullyrðingar með öllu órökstuddar og á engan hátt útskýrt á hvern hátt hann geti rennt stoðum undir málatilbúnað stefnanda. Að einhverju leyti kunni að valda misskilningi hvernig félög héldu samningsumboði á grundvelli sérstakra ákvæða um samningsumboð eftir gildistöku laga nr. 94/1986, sbr. 4. gr. þeirra.

Kjarni málsins, þegar komi að 5. gr. laganna, sé sá hvort skilyrði þeirra sé uppfyllt en því telur stefndi ekki til að dreifa. Meginregla laganna sé að setja ákveðnar skorður við fjölda samningsaðila, sbr. 6. gr. laganna. Sé miðað við að eigi skuli nema eitt stéttarfélag hafa rétt til samningsgerðar við sama vinnuveitanda fyrir sömu starfsstétt, sbr. 3. tölulið 5. gr. Prófessorar teljist til starfstéttar háskólakennara, en ekki standi rök til þeirrar undantekningar að marka þeim sérstöðu með því að telja þá sérstaka starfstétt með lögformleg starfsréttindi eða sem uppfylli formlega menntun sem jafna megi til slíkra starfsréttinda. Lögin um háskóla nefni í sömu andrá helstu störf háskólakennara, sbr. 17. og 18. gr. háskólalaga og meistarapróf sé í tilvikum prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga sameiginlegt skilyrði, en ekki tekið út fyrir sviga hvað prófessora varðar. Menntun þeirra eða lögformleg starfsréttindi, eins og fyrr sé vikið að, geti verið hin sömu eða mismunandi, þvert á þau starfsheiti sem spanni svið háskólakennara. Þótt á stundum hafi sérstaða prófessora verið metin hafi það mat verið breytilegt með lögum og lögmæltum ákvörðunum þar til bærra stjórnvalda að því er varðar kaup þeirra og kjör. Hvað sem því líði leiði hugsanleg sérstaða einhvers hóps ekki til þess að skilyrði 5. gr. laga nr. 94/1986 sé uppfyllt.

Víkur þá að lögboðinni tilkynningarskyldu, telji félag sig geta haft samningsumboð. Í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 segi að stofnun nýs félags, sem fari með samnings­umboð samkvæmt 5. gr., skuli tilkynna a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samnings­tímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags. Kjarasamningar félaga háskólakennara gildi til 30. apríl 2008. Stefnandi hafi ekki tilkynnt fjármálaráðuneytinu formlega um stofnun hins nýja félags. Þá hafi félagið ekki lagt fram gögn til staðfestingar að það uppfylli öll skilyrði 3. töluliðs 5. gr. laganna. Telur stefndi að stefnandi hafi heldur ekki í þessu máli lagt fram fullnægjandi og haldbær gögn er sýni ótvírætt að skilyrði um fjölda félagsmanna sé uppfyllt. Lög nr. 94/1986 hafi verið túlkuð á þann veg að hagsmunahópar þurfi að leggja fram eftirfarandi upplýsingar til fullgildingar rétti sínum til samningsgerðar. Hafi stefndi lagt til grundvallar þá túlkun sem fram komi í sameiginlegu áliti stefnda og samningsaðila fyrir hönd sveitarfélaga frá 94/1986, dags. 13. janúar 1989, en það hafi verið kynnt bandalögum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Í þeirri túlkun sé lagt til grundvallar að í tilkynningu sé óhjákvæmilegt að leggja fyrir upplýsingar um eftirfarandi:

  1. Um fagsviðið, lögverndun starfsheitis eða lagaákvæði varðandi störfin.
  2. Um fjölda félagsmanna (stöðugildi) í starfi í starfsgreininni hjá öllum þeim vinnuveitendum sem undir lögin heyra.
  3. Um fjölda þeirra sem afstöðu hafa tekið til stofnunar hins nýja félags, þ.e. að fá upplýsingar um að þessi fjöldi sé 2/3 af lið 2 og þó aldrei færri en 40 (miðað við stöðugildi).
  4. Skrá yfir þá félagsmenn hjá viðkomandi vinnuveitanda, sem óska eftir að félagið fari með samningsumboð fyrir þá. Vinnuveitandi geti einnig óskað eftir skriflegri staðfestingu einstaklinga um félagaskiptin.
  5. Veittar upplýsingar samkvæmt liðum 3 og 4 skuli byggja á talningu starfsmanna í sama mánuði.

Ljóst sé að þessi atriði séu óhjákvæmileg til að tilkynning á grundvelli 6. gr. nái markmiði sínu og lagaskyldan til tilkynningarinnar sé ótvíræð. Hún miði að því að vinnuveitandi, eftir atvikum stefndi, geti metið það innan tilskilins frests hvort grundvöllur sé til þess að viðurkenna félag sem stéttarfélag með samningsumboð eftir ákvæðum laganna. Stefnanda og forsvarsmönnum félaganna mátti vera ljóst að stefndi gerði kröfur til þess að tilkynningarskyldu væri fullnægt og hvers efnis hún þyrfti að vera. Frestur til þessarar tilkynningar sé liðinn vegna þeirra kjarasamninga sem í gildi séu. Ekkert skjal í málinu sé unnt að skoða sem tilkynningu í skilningi laganna og óraunhæft að telja stefnu fyrir Félagsdómi til slíkrar tilkynningar. Þar sem stefnandi hafi ekki tilkynnt stefnda formlega um stofnun hins nýja félags og lagði ekki fram ofangreind gögn samhliða telji stefndi að félagið uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 og beri því að sýkna af kröfum stefnanda. Einnig komi til álita að vísa málinu sjálfkrafa frá Félagsdómi af þessum ástæðum, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Um 2. lið dómkrafna

Verði talið að undir lögsögu Félagsdóms heyri að dæma um þennan lið dómkrafna byggir stefndi á því að sýkna beri þar sem greiðsluskylda félagsmanna sé ótvíræð. Með vísun til þess sem haldið hafi verið fram til stuðnings frávísunarkröfu um þennan þátt sé einnig á því byggt að stefnandi geti ekki átt aðild að kröfunni og sé vísað í því tilviki til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/991 um meðferð einkamála. Verði ekki á það fallist byggir stefndi á því að engin rök standi til þess að víkja til hliðar lagaskyldu þeirri sem hvíli á félagsmönnum eftir 7. gr. laga nr. 94/1986.

Í 2. mgr. 7. gr. laganna segir: „Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar.“ Með bréfi til prófessora, dags. 28. ágúst 2007, ákvað fjármálaráðherra að laun prófessora breyttust frá 1. júlí í samræmi við ákvörðun kjararáðs frá 14. júní. Jafnframt var þar tilkynnt að til loka samningstímans myndu laun prófessora taka breytingum í samræmi við kjarasamning fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Félags háskólakennara, nema um annað yrði samið við viðkomandi stéttarfélag. Stefndi taldi að þar sem félög háskólakennara höfðu samið um kjör prófessora áður en þeir fóru undir úrskurðarvald kjaranefndar hefðu þau samnings­umboð vegna þessara starfa. Prófessorum bar því samkvæmt 2. mgr. 7. gr. áðurnefndra laga að greiða félagsgjald til Félags háskólakennara, Félags háskóla­kennara á Akureyri og Félags háskólakennara við Kennaraháskóla Íslands. Skylda til greiðslu gjalda til þess félags sem fari með samningsaðild fyrir starfsmenn brjóti hvorki í bága við 74. gr. stjórnarskrárinnar né 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 4/1998. Því sé mótmælt að 40. gr. stjórnarskrárinnar eigi við hér en ekki sé um álagningu skatta til ríkissjóðs að ræða.

Samkvæmt framansögðu fari um laun og önnur starfskjör þeirra félagsmanna sem ekki kjósi að vera innan vébanda meðstefndu samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eins og nú háttar. Gildir hið sama kjósi þeir að vera utan stéttarfélaga. Greiðsluskylda þeirra á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 sé því ótvíræð. Að öðru leyti sé vísað til fyrri málsástæðna til stuðnings sýknu af kröfulið þessum.

Að öðru leyti en að framan greinir og að því er tekur til dómkrafna allra sé málatilbúnaði stefnanda mótmælt. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er vísað til 65. og 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í máli þessu er ágreiningsefnið samningsaðild stefnanda, Félags prófessora við ríkisháskóla, samkvæmt greindum lögum nr. 94/1986, sbr. I. kafla laganna og þá einkum 5. gr. þeirra, sbr. skilyrði 3. tölul. þeirrar lagagreinar sem sérstaklega reynir á í málinu. Lýtur 1. kröfuliður í dómkröfum stefnanda að þessu ágreiningsefni. Af 1. kröfulið leiðir beint 2. kröfuliður í dómkröfunum þar sem þess er krafist að viðurkennt verði að stefnda, íslenska ríkinu, sé óheimilt að halda eftir af launum félagsmanna stefnanda gjöldum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 til tilgreindra stéttarfélaga sem eru meðstefndu í málinu.

Hinn 28. apríl 1987 var stefnandi settur á laggirnar og hét þá Félag prófessora í Háskóla Íslands (FPHÍ). Prófessorar við hina ríkisháskólana stofnuðu annað félag, Prófessorafélag Íslands (PÍ) er sinnti sambærilegu hlutverki. Á aðalfundi stefnanda, sem haldinn var hinn 16. maí 2007, sbr. fyrirliggjandi fundargerð, var félagslögum stefnanda breytt og ákveðið að eftirleiðis yrði aðeins eitt félag prófessora. Var heiti félagsins breytt í núverandi horf og hlutverki og inngönguskilyrðum breytt þannig að prófessorar annarra ríkisháskóla gætu átt rétt á inngöngu í félagið. Í framhaldi af þessum fundi var Prófessorafélag Íslands lagt niður. Samkvæmt gildandi félagslögum stefnanda er hlutverk félagsins m.a. að vinna að kjara- og réttindamálum prófessora, sbr. 1. tölul. 3. gr. félagslaganna. Í 2. gr. í upphaflegum félagslögum stefnanda var m.a. tilgreint að félaginu væri ætlað að vinna að bættum kjörum félagsmanna, sbr. 6. tölul. þessarar greinar félagslaganna.

Fram er komið að um árabil hefur aðild að kjarasamningum háskólakennara verið hagað þannig að við hvern ríkisháskóla, með tilgreindum undantekningum, hefur orðið til stéttarfélag háskólakennara sem hvert fyrir sig hefur gert kjarasamning við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og er Félag háskólakennara (FH) elst þessara félaga. Þegar  stefnandi var stofnsettur voru laun prófessora ákvörðuð í kjarasamningum Félags háskólakennara og fjármálaráðherra. Fram er komið að frá stofnun stefnanda og fram til ársins 1996 var félagið rekið sem deild innan Félags háskólakennara. Það ár sagði stefnandi sig úr því félagi, jafnframt því að ákvörðunarvald um laun og önnur starfskjör prófessora var að ósk stefnanda fært undir kjaranefnd er starfaði samkvæmt lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, sbr. lög nr. 150/1996, um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Laun og önnur starfskjör prófessora fóru síðan eftir ákvörðun kjaranefndar, sbr. síðast samkvæmt ákvörðun nefndarinnar frá 28. júní 2005, sbr. almennar leiðréttingar samkvæmt ákvörðunum kjararáðs frá 4. október og 19. desember 2006. Kjararáð var sett á stofn samkvæmt lögum nr. 47/2006, um kjararáð. Hinn 9. janúar 2007 komst kjararáð að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um laun og starfskjör prófessora heyrði ekki undir ráðið. Í kjölfarið hófst athugun stefnanda á stöðu sinni sem stéttarfélags og rétti til samningsaðildar, sbr. og þau bréfaskipti sem í málinu greinir. Í stefnu kemur fram af hálfu stefnanda að í dag, eftir greindar ákvarðanir, sé kjaraleg staða prófessora við ríkisháskóla sú að um laun og önnur starfskjör fari eftir greindum ákvörðunum kjaranefndar og kjararáðs, sbr. og bréf formanns Félags háskólakennara, dags. 13. september 2007, til fjármálaráðherra þar sem hið sama kemur fram. Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er tekið undir þetta í greinargerð, en jafnframt á það bent að aðalatriði málsins sé þó það að umræddir félagsmenn heyri ekki lengur undir ákvörðun kjararáðs um kaup og kjör. Framvegis fari það eftir kjarasamningum, en sé nú samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra, sbr. bréf hans, dags. 28. ágúst 2007, til prófessora við Háskóla Íslands en þar ákveður fjármálaráðherra breytingar á launum prófessora frá og með 1. júlí 2007 í samræmi við tilgreind viðmið og tekur jafnframt fram að skapast hafi ákveðið millibilsástand við það að laun og starfskjör prófessora heyri ekki lengur undir úrskurðarvald kjararáðs.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að félagið uppfylli skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 til þess að fara með samningsaðild vegna félagsmanna sinna. Telur stefnandi að í tilviki prófessora séu bæði uppfyllt skilyrði um sérstaka starfsstétt, sbr. hefð og tilgreiningu í 17. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, og skilyrði um lögformleg starfsréttindi eða formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda, svo sem nánar er rökstutt. Þá sé fjöldaskilyrðum 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 enn fremur fullnægt. Verði ekki á það fallist að greint ákvæði veiti félaginu samningsaðild vegna félagsmanna sinna er á því byggt að þá beri að víkja ákvæðinu til hliðar á grundvelli félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, er veittu sáttmála þessum, ásamt áorðnum breytingum samkvæmt tilgreindum samningsviðaukum, lagagildi hér á landi.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er því haldið fram að stefnandi uppfylli ekki skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, enda geti prófessorar hvorki talist starfsstétt með lögformleg starfsréttindi né talist uppfylla skilyrði um formlega menntun er jafna megi til slíkra starfsréttinda, svo sem nánar greinir. Þá mótmælir stefndi, íslenska ríkið,  því að þessi skilningur á 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 leiði þá til þess að ákvæðið stríði gegn greindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi. Stefndi, íslenska ríkið, teflir fram sem sérstakri málsástæðu að í tilviki stefnanda sé ekki fullnægt fyrirmælum 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 um tilkynningarskyldu er leiði sjálfstætt til sýknu eða eftir atvikum sjálfkrafa frávísunar málsins frá Félagsdómi.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986 gilda lögin um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986 segir að stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga fari með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Samkvæmt 5. gr. laganna geta önnur stéttarfélög eða félagasamtök en um ræðir í 4. gr. öðlast rétt til að vera samningsaðili samkvæmt lögunum að uppfylltum tilgreindum skilyrðum sem talin eru upp í þremur töluliðum. Skal a.m.k. eitt skilyrðanna vera uppfyllt, sbr. þó 1. mgr. 6. gr. laganna. Í fyrsta lagi, sbr. 1. tölul. 5. gr., skal félag taka til meiri hluta opinberra starfsmanna hjá ríki eða sveitarfélagi annarra en þeirra sem eru í stéttarfélögum sem eiga rétt til samninga samkvæmt 2. og 3. tölul. 5. gr. Í öðru lagi, sbr. 2. tölul. 5. gr., skal félag taka til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra hjá tiltekinni stofnun og séu félagar hundrað eða fleiri. Í þriðja lagi, sbr. 3. tölul. 5. gr., skal félag taka til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra og eru í starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða uppfylla skilyrði um formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda og séu félagsmenn 40 eða fleiri. Á síðastgreint skilyrði reynir í máli þessu, eins og fram er komið. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 ber að tilkynna stofnun nýs félags, sem fer með samningsumboð samkvæmt 5. gr., a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags.

Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 94/1986, er tekið fram að 3. töluliður greinarinnar geri ráð fyrir samningsumboði fagfélaga. Þá segir meðal annars svo í athugasemdunum:

Grein þessi tekur til þeirra starfsstétta sem hafa starfsréttindi sem bundin eru í í lögum eða reglugerðum svo og fagstétta sem þurfa hliðstæða sérhæfingu og sérþjálfun til þeirra starfa sem þær annast. Er hér annars vegar um að ræða starfsstéttir svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga, fóstrur, sjúkraliða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga, sjúkraþjálfara o.s.frv. þar sem sérstök ákvæði í lögum  eða reglugerð kveða á um starfsréttindi og rétt til notkunar á starfsheitum. Hins vegar er um að ræða fagfélög starfsmanna sem lokið hafa hliðstæðu námi og sérhæfingu og framangreindar stéttir. Er þar fyrst og fremst um að ræða háskólamenntaða starfsmenn.

Eins og fram er komið er tilgangur stefnanda samkvæmt gildandi félagslögum meðal annars sá að vinna að kjara- og réttindamálum prófessora. Með vísan til þess verður að telja að stefnandi sé stéttarfélag sem geti öðlast rétt til samningsaðildar samkvæmt 5. gr. laga nr. 94/1986, enda séu skilyrði þeirrar lagagreinar uppfyllt. Verður ekki ráðið að stefndi, íslenska ríkið, dragi þetta út af fyrir sig í efa.

Samkvæmt 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 er áskilið, eins og að framan getur, að félag taki til a.m.k. 2/3 hluta starfsmanna, sem undir lögin heyra og uppfylla þargreind skilyrði, og að þeir starfsmenn séu 40 eða fleiri. Samkvæmt fyrirliggjandi staðfestingu framkvæmdastjóra stefnanda, dags. 28. nóvember 2007, eru prófessorar við ríkisháskóla, sem eru félagsmenn í  stefnanda, 197 talsins af heildarfjölda prófessora 237. Í stefnu er vísað til þessa og talið að samkvæmt þessu sé fjöldaskilyrðum lagaákvæðisins fullnægt, enda séu 83% prófessoranna félagsmenn í stefnanda. Jafnframt er þess getið að í staðfestingunni hafi láðst að telja með tvo prófessora á Hólum í Hjaltadal er hækki hlutfallið. Við aðalmeðferð málsins lagði stefnandi fram nýjar upplýsingar, sbr. framlagt bréf framkvæmdastjóra stefnanda, dags. 1. apríl 2008, auk félagatals. Þar kemur fram að félagsmenn í stefnanda eru 199 talsins miðað við 31. mars 2008 af samtals 244 prófessorum eða 81,5%. Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, hefur komið fram, í tengslum við þá málsástæðu að ákvæða 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 hafi ekki verið gætt, að stefnandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi og haldbær gögn er sýni ótvírætt að greindum skilyrðum um fjölda félagsmanna sé fullnægt. Um framlagningu gagna og upplýsinga um slíkt vísar stefndi, íslenska ríkið, til sameiginlegs álits stefnda, Launanefndar sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar frá 13. janúar 1989. Við aðalmeðferð málsins lagði stefndi, íslenska ríkið, fram minnisblað fjármálaráðuneytisins, dags. 8. apríl 2008, þar sem gerðar eru athugasemdir við tilgreiningar á fjölda prófessora í greindu bréfi framkvæmdastjóra stefnanda, dags. 1. apríl 2008, auk þess sem fundið er að því að upplýsingar um félagsmenn stefnanda séu óstaðfestar, en ekki liggi fyrir skrá yfir félagsmenn félagsins. Ekki verður annað ráðið en að í greindri staðfestingu framkvæmdastjóra stefnanda, sbr. síðari upplýsingar, komi fram í öllum meginatriðum þær upplýsingar sem umrætt álit tiltekur, að undanskilinni skrá yfir þá félagsmenn sem óska eftir að félagið fari með samningsumboð fyrir. Sú skrá hefur verið lögð fram við meðferð máls þessa, eins og fyrr greinir. Þá hefur stefndi, íslenska ríkið, ekki haldið því fram að upplýsingar stefnanda um þetta séu að engu hafandi, enda varða framkomnar aðfinnslur óveruleg frávik. Að þessu athuguðu og þar sem óyggjandi má telja að fjöldi félagsmanna stefnanda sé yfir þeim mörkum, sem tilgreind eru í 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, bæði lágmarkshlutfalli og lágmarksfjölda, þykir stefnandi hafa sýnt nægilega fram á að fjöldaskilyrðum ákvæðisins sé fullnægt í tilviki félagsins. Víkur þá að skilyrðum ákvæðisins um starfsstétt með lögformleg starfsréttindi eða formlega menntun er jafna megi til slíkra starfsréttinda.

Eins og fram er komið lítur stefnandi svo á að í tilviki félagsins sé uppfyllt greint skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 hvort sem litið er til áskilnaðar ákvæðisins um „lögformleg starfsréttindi“ eða „formlega menntun sem jafna má til slíkra starfsréttinda“. Ekki verður á það fallist að prófessorar geti talist starfsstétt með lögformleg starfsréttindi í skilningi 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, enda eru prófessorar aðeins hluti af starfsliði (kennurum) háskóla og bera þetta starfsheiti. Í þessu sambandi nægir að vísa til löggjafar um háskóla, sbr. 17. gr. almennra laga um   háskóla nr. 63/2006 þar sem svo er mælt fyrir að starfsheiti kennara við háskóla skuli vera prófessor, dósent, lektor og aðjunkt. Geti háskólaráð sett nánari reglur um þessi efni og önnur starfsheiti sem það ákveður að nota. Hliðstæð ákvæði eru í gildandi sérlögum um háskóla, sbr. 11. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, 2. gr. laga nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri, og 2. gr. laga nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands. Þar með er þó ekki loku fyrir það skotið að greint skilyrði 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 geti talist uppfyllt í tilviki stefnanda, sbr. áskilnað um formlega menntun sem jafna megi til lögformlegra starfsréttinda. Þetta skilyrði er almennt orðað og í lögskýringargögnum er takmarkaða leiðsögn að fá, sbr. tilvitnun hér að framan í athugasemdir með 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 94/1986. Þar eru þó tilgreind fagfélög starfsmanna sem lokið hafa hliðstæðu námi og sérhæfingu og þargreindar fagstéttir og sérstaklega tekið fram að fyrst og fremst sé um að ræða háskólamenntaða starfsmenn.

Í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi og er stéttarfélaga, auk stjórnmálafélaga, þar sérstaklega getið í þessu sambandi. Í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, er veittu sáttmála þessum lagagildi hér á landi, er enn fremur mælt fyrir um rétt manna til að mynda félög, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum. Ljóst er að það telst frumhlutverk stéttarfélaga að annast samningsfyrirsvar félagsmanna sinna við kjarasamningsgerð. Að því athuguðu, sem hér hefur verið rakið, og með hliðsjón af meginreglu um samningsfrelsi, sbr. og sjónarmið í dómi Félagsdóms frá 23. desember 1999 í málinu nr. 9/1999: Vélstjórafélag Íslands gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar (Fd. XI:484), verður ekki talið að unnt sé að fara strangt í sakirnar við túlkun á greindum skilyrðum 5. gr. laga nr. 94/1986 og að allan vafa verði að skýra til samræmis við stjórnarskrárvarinn og lögverndaðan rétt manna til að stofna og starfa í stéttarfélögum.

Eins og fram er komið voru prófessorar seldir undir ákvörðunarvald kjaranefndar um kaup sitt og starfskjör með ákvörðun löggjafarvaldsins, sbr. 6. gr. laga nr. 150/1996, er breytti lögum nr. 120/1992. Í athugasemdum með 6. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 150/1996, kom fram að samkvæmt niðurstöðu funda menntamálaráðherra með fulltrúum Háskóla Íslands þætti rétt „vegna sérstöðu starfa háskólaprófessora“ að leggja til að laun þeirra er gegndu prófessorsstöðu að aðalstarfi í skilningi starfsmannalaganna yrðu framvegis ákveðin af kjaranefnd. Ekki er ljóst hvaða sérstöðu löggjafinn hefur haft hér í huga, en ekki þykir óvarlegt að álykta að þar hafi m.a. verið horft til menntunarkrafna. Hvað sem því líður er ljóst að prófessorar hafa þarna með ákvörðun löggjafarvaldsins verið teknir út úr hópi háskólakennara hvað varðar skipan kjaramála. Stóð svo þar til kjararáð ákvað hinn 9. janúar 2007 að ákvörðun launa og starfskjara prófessora heyrði ekki undir ráðið. Eins og stefnandi vísar til tók kjararáð fram að vandséð væri „að háskólarnir og samtök prófessora geti ekki samið um samræmt heildarkerfi, sem viðhaldi núverandi kerfi eða leysi það af hólmi“. Með þessu hefur prófessorum óneitanlega verið mörkuð sérstaða af hálfu löggjafarvaldsins hvað snertir fyrirkomulag kjaramála. Að því virtu og með vísan til orðalags skilyrðis 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986 um formlega menntun sem jafna megi til lögformlegra starfsréttinda, sbr. og fyrrgreind túlkunarviðhorf, þykir ekki varhugavert að telja að því skilyrði sé fullnægt í tilviki stefnanda.

Svo sem áður greinir ber stefndi, íslenska ríkið, því við að af hálfu stefnanda hafi þess ekki verið gætt að tilkynna um stofnun nýs félags, er fari með samningsumboð samkvæmt 5. gr. laga nr. 94/1986, í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laganna. Ljóst er samkvæmt þeim bréfaskiptum fjármálaráðherra og stefnanda sem fram fóru í kjölfar athugunar á kjaralegri stöðu prófessora eftir umrædda ákvörðun kjararáðs frá 9. janúar 2007, sbr. m.a. bréf fjármálaráðherra, dags. 5. júní 2007, til stefnanda, bréf stefnanda til fjármálaráðherra, dags. 27. júní 2007, og svarbréf fjármálaráðherra til stefnanda, dags. 10. júlí 2007, að þá þegar lá fyrir skýrt og ótvírætt af hálfu stefnanda, sem ekki duldist fjármálaráðherra, að stefnandi krafðist þess að samningsaðild félagsins yrði viðurkennd. Þegar litið er til kjaralegrar stöðu félagsmanna stefnanda á þessum tíma, sbr. ákvörðun kjaranefndar, dags. 28. júní 2005, og síðari almennar leiðréttingar kjararáðs og fjármálaráðherra, verður naumast séð að þau tímamörk, sem tilgreind eru í 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 og miðast við að tilkynnt sé a.m.k. þremur mánuðum fyrir lok samningstímabils þeirra kjarasamninga sem gilda fyrir félagsmenn hins nýja félags, eigi hér við.  Jafnvel þótt svo yrði litið á að greind tímamörk giltu lá þessi krafa fyrir fjármálaráðherra innan greindra tímamarka, enda renna þeir kjarasamningar, sem hér geta átt við, út hinn 30. apríl 2008. Að þessu athuguðu, og með vísan til þess sem að framan greinir varðandi kröfur til slíkra tilkynninga sem hér um ræðir, verður ekki talið að ákvæði 4. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 séu því til fyrirstöðu að krafa stefnanda um viðurkenningu á samningsaðild nái fram að ganga.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, er 1. kröfuliður í dómkröfum stefnanda tekinn til greina, enda verður ekki talið að 1. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 standi í vegi fyrir þeirri niðurstöðu.

Samkvæmt 2. kröfulið í dómkröfum stefnanda er krafist viðurkenningar á því að stefnda, íslenska ríkinu, sé óheimilt að halda eftir af launum prófessora við ríkisháskóla, sem eru félagsmenn í stefnanda, gjöldum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 til Félags háskólakennara, Félags háskólakennara á Akureyri og Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands.

Hér að framan er rakið hver kjaraleg staða félagsmanna stefnanda er nú. Með vísan til þess og niðurstöðu um 1. kröfulið í dómkröfum stefnanda, þar sem samningsaðild stefnanda er viðurkennd, ber að taka 2. kröfulið dómkrafnanna, sem leiðir beint að 1. kröfuliðnum, til greina.

Eftir þessum úrslitum málsins og einnig með tilliti til niðurstöðu í frávísunarþætti þess þykir rétt að stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 400.000 kr. í málskostnað. Aðrir stefndu, Félag háskólakennara, Félag háskólakennara á Akureyri og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands, hafa ekki látið málið til sín taka. Samkvæmt stefnu fellur stefnandi frá málskostnaðarkröfu á hendur þessum stefndu þar sem þeir halda ekki uppi vörnum í málinu.

 

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að stefnandi, Félag prófessora við ríkisháskóla, fari með samningsumboð fyrir félagsmenn sína við gerð kjarasamninga við stefnda, íslenska ríkið, vegna starfa þeirra sem prófessorar við ríkisháskóla. Viðurkennt er að stefnda, íslenska ríkinu, sé óheimilt að halda eftir af launum prófessora við ríkisháskóla, sem eru félagsmenn í stefnanda, gjöldum samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 til Félags háskólakennara, Félags háskólakennara á Akureyri og Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 400.000 kr. í málskostnað.        

   

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Kristján Torfason

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira