Hoppa yfir valmynd

Mál 10/2002

Úrskurður vegna kæru Danielle Palade Somers, Ólafs Jónssonar  og Henri Palade Ólafssonar,  vegna töku Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á hundum í eigu þeirra frá 2. júlí 2003.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003, miðvikudaginn 2. júlí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr.  10/2002 kæra Danielle Palade Somers, Ólafs Jónssonar  og Henri Palade Ólafssonar,  vegna töku Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á hundum í eigu þeirra.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður

I.

Kæra Daniellu Palade Somers, Ólafs Jónssonar og Henri Palade Ólafssonar, hér eftir nefnd kærendur, ásamt meðfylgjandi gögnum barst nefndinni frá umhverfisráðuneyti með bréfi ráðuneytisins dags. 16.  desember 2002.  Með kærunni fylgdu 20 fylgiskjöl sem varða samskipti kærenda, dýraeftirlits umhverfisdeildar Akureyrar, heilbrigðisfulltrúa Norðurlands eystra, yfirlýsingar sýslumanns og vörslumanna dýra, afrit bréfa frá dýralækni og líffræðingi og frekari gögn.

Afrit af kæru og öðrum gögnum kærenda voru send kærða, heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, í maí sl.  Kærði  sendi greinargerð  til nefndarinnar ásamt 41 fylgiskjali sem eru afrit bréfa sem sýna samskipti kærenda og kærða vegna máls þessa, auk afrita af bréfum kærða til kærenda svo og ljósrit mynda af hundum, afrit af úrskurði um húsleitarheimild, tilkynningum um kvartanir og fleira.  Afrit greinargerðar kærða  og annarra gagna sem með fylgdu voru send kærendum og þeim gefinn kostur á að senda athugasemdir sínar við greinargerð og fram komin gögn.  Kærendur ítrekuð kröfur sínar munnlega við formann nefndarinnar og ítrekuðu enn á ný að málinu yrði hraðað.  Kærendur sendu ennfremur framhaldskæru til nefndarinnar 23. júní s.l. vegna húsleitarheimildar og töku hundanna 5. júní 2003 ásamt ljósritum af gögnum sem málið varða.  Ennfremur barst nefndinni viðauki við framhaldskæru vegna máls þessa 30. júní, dags. 24. s.m. og fylgdu með ýmiss konar viðbótargögn ljósrit af áður komnum gögnum svo og ljósrit úr dagblöðum v. málsins og fleira.   Óskað var eftir að nefndin fjallaði um húsleit sem framkvæmd var.

II.

Málavextir eru þeir að allt frá því á árinu 2001 hefur kærði sent kærendum bréf varðandi lóðahreinsun og hundahald. Með bréfi dags. 1. júlí 2002 tilkynnti kærði kærendum að fyrirhuguð væri taka hunda af heimili þeirra.  Vísar kærði til stuðnings aðgerðum sínum til samþykktar um hundahald á Akureyri, þess að ekki eru leyfi fyrir hundum kærenda svo og þess að hundar hafa ekki verið færðir til hreinsunar.  Með bréfi sýslumannsins á Akureyri dags. 28. ágúst 2002, var gerð krafa um húsleit hjá kærendum og heimild til  töku á hundum sem séu án leyfis í vörslu kærenda.  Úrskurður héraðsdóms var dagsettur sama dag og heimilaði hann húsleit og töku hundanna.  Voru hundarnir teknir úr vörslu kærenda með valdi 29. ágúst 2002 og fluttir að Leirum á Kjalarnesi.  Hinn 30. ágúst 2002 sóttu kærendur um leyfi til dýrahalds í atvinnuskyni til lögreglustjórans á Akureyri sem framsent var heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra.  Beiðninni var hafnað með bréfi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra dags. 9. september 2002 og vísað til þess að um væri að ræða óásættanlega atvinnustarfsemi inni í íbúðabyggð og ennfremur að kærendur hefðu ekki leyfi Akureyrarbæjar til hundahalds.  Með yfirlýsingu dagsettri 16. september 2002 var kærendum heimilað að fá í vörslu sína þá 16 hunda sem af þeim höfðu verið teknir, enda hafi kærendur komið hundunum í vörslu til Birnu Björnsdóttur og Hólmgeirs Valdimarssonar. Í yfirlýsingu sýslumanns dags. 16. September 2002, kemur fram að kærendum sé óheimilt að hafa hundana á Akureyri.  Með bréfi kærða dags. 6. janúar 2003 var kærendum send aðvörun vegna hundahalds.  Var kærendum gefinn kostur á að hætta dýrahaldi og eða fara með hundana frá Akureyri innan 10 daga frá móttöku bréfsins.  Með bréfi dags. 25. febrúar 2003 sendu kærði og bæjarlögmaður Akureyrarbæjar bréf til sýslumannsins á Akureyri þar sem óskað var eftir aðstoð lögreglu til húsleitar.

Úrskurður um húsleit var að nýju kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra og hundarnir aftur teknir úr vörslum kærenda 5 júní 2003 og eru nú að Leirum á Kjalarnesi.

III.

Kæra kærenda er ódagsett en barst úrskurðarnefnd frá umhverfisráðneyti með bréfi dags. 10. desember 2002.  Kærðar eru aðgerðir, ákvarðanir og framkvæmdir stjórnvalda gagnvart kærendum og gæludýraeign þeirra í ágúst og september s.l. svo og með framhaldskæru aðgerðir í júní 2003.  Í greinargerð og gögnum kærenda kemur fram að þau telja sig hafa sætt einelti af hálfu stjórnvalda og að réttur sé brotinn bæði á þeim og 16 chihuahua hundum þeirra.  Lýsa kærendur að ýmis brot hafi verið framin við töku dýranna  og að kærendur hafi sætt harðræði.  Kærendur halda því fram að ekki sé um að ræða kvartanir á hundahaldi frá nágrönnum og að um sé að ræða aðgerðir kærða án nokkurra utanaðkomandi kvartana.

Með framhaldskæru sem barst formanni úrskurðarnefndar 23. júní s.l. eru síðustu aðgerðir heilbrigðiseftirlits kærðar en hundar kærenda voru teknir að nýju úr vörslum þeirra hinn 5. júní s.l.og að nýju fluttir að Leirum á Kjalarnesi.  Lýsa kærendur því að þeir hafi nú sótt um leyfi til hundahalds 16 chihuahua hunda sinna. Kærendur óska þess sérstaklega að málinu verði flýtt.  Telja kærendur að taka hundanna sé lögbrot,  brot á dýraverndarlögum, jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga og almennum mannréttindum sínum.  Hafi kærendur fengið að vera í friði með hunda sína um nokkurra ára bil, þar til á árinu 2001 þegar upp hafi hafist miklar aðgerðir gegn þeim.  Hafi þá bæði verið krafist lóðahreinsunar og lögð hafi verið fram kæra á hendur kæranda Ólafi fyrir að stunda hundarækt.  Síðan þá hafi aðgerðir yfirvalda á hendur þeim verið linnulítið í gangi og hafi nú endað með  töku dýranna.  Í viðauka við framhaldskæru er þess óskað að úrskurðarnefnd fjalli um húsleit þá sem fram hafi farið hinn 5. júní s.l. og ítrekað að um sé að ræða mannréttindabrot og valdníðslu stjórnvalda.

IV.

Í umsögn kærða er krafist frávísunar á stjórnsýslukærunni í heild eða að hluta vegna aðildarskorts þar sem kæruefni beinist að fleiri aðilum en kærða.  Þá er ennfremur krafist frávísunar vegna vanreifunar kröfunnar þar sem kæruatriði séu mjög óljós og vanreifuð.

Í umsögn sinni reifar kærði  kvartanir sem borist hafa og vísar til meðfylgjandi gagna auk þess sem kærði greinir frá málinu á sama máta og kærendur og má ljóst vera að ekki er deilt um málavexti.  Greinir heilbrigðiseftirlitið frá bréfum til kæranda Ólafs vegna lóðahreinsunar svo og til kæru og bréfa sendum kærendum vegna hundahalds á heimili og lóð sinni.  Þann 14. nóvember 2001 kveður heilbrigðiseftirlitið að kærða Ólafi hafi verið veitt áminning vegna brota á samþykktum Akureyrarbæjar um hundahald.  Lýst er kvörtunum vegna hunda á árinu 2002 svo og ítrekunum um lóðahreinsun. Eins og fyrr er greint frá voru hundar kærenda teknir úr vörslum þeirra í ágúst 2002 og aftur nú í júní 2003.

Heilbrigðiseftirlit lýsir málsástæðum svo að allt frá árinu 2001 hafi verið reynt að fá kærendur til að verða við tilmælum um lóðahreinsun, sækja um hundaleyfi greiða hundaleyfisgjald, en án árangurs.  Bendir kærði á að ekki hafi verið brotinn réttur á kærendum.  Sendar hafi verið viðvaranir vegna hundanna  og margoft skorað á kærendur að hreinsa lóð sína. Telur kærði sig hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni svo og farið eftir meðalhófs- og andmælareglu við gang málsins. Þá er því lýst yfir að kærandi telji sig framfylgja jafnræðisreglu með því að gera kröfu til kærenda um að fara að lögum og reglum eins og aðrir hundaeigendur verði að gera.

V.

Svo sem fram er komið greinir aðila á um töku hunda úr vörslu eigenda í tvígang og meðferð málsins hjá stjórnvöldum.

Kærði gerir þær kröfur að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd vegna aðildarskorts og vanreifunar.  Enda þótt kærðar séu aðgerðir ýmissa aðila í máli þessu kemur skýrt fram að kæran beinist gegn kærða.   Ekki verður því fallist á að um aðildarskort sé að ræða.  Ekki verður heldur fallist á að kröfur kærenda séu vanreifaðar  enda verður að telja  að málavextir séu nægilega skýrt fram komnir með framlagningu gagna beggja aðila.

Valdsvið úrskurðarnefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 nær einungis til aðgerða heilbrigðiseftirlits hvort farið hafi verið að settum reglum við aðgerðir þeirra.  Aðrar kröfur eiga ekki undir nefndina og verða því ekki teknar til umfjöllunar. Svo sem fram er komið í gögnum málsins og aðilar eru sammála um hafa aðgerðir heilbrigðiseftirlits staðið lengi.  Hefur kærði sent kærendum erindi bréflega svo sem aðvaranir vegna hundahalds án leyfis og áskoranir um lóðahreinsun.  Var kærendum veittur möguleiki á því að lagfæra lóð sína svo sem þeir og gerðu og var því fallið frá frekari kröfum á hendur þeim vegna lóðahreinsunar.  Hins vegar brugðust kærendur ekki við aðvörunum kærða vegna hundahalds.  Hefur því kærði sinnt andmælarétti og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og gætir jafnframt að jafnræðisreglu með því að framfylgja þeirri samþykkt sem gildir fyrir hundaeigendur í umdæmi heilbrigðiseftirlisins.  Samkvæmt samþykkt um hundahald á Akureyri nr. 360/2001, má  veita leyfi til hundahalds að uppfylltum ákveðnum skilyrðum svo sem þeim að greiða beri leyfisgjald og færa skuli hunda til hreinsunar.  Einnig er ákvæði í samþykktinni um  að óleyfilega hunda og hunda sem ganga lausir skuli eftirlitsmaður handsama og færa í sérstaka hundageymslu

Ekki er um það deilt í máli þessu að kærendur hafa ekki leyfi til hundahalds.  Þau hafa áður sótt um leyfi til hundahalds í atvinnuskyni en þeirri umsókn var hafnað.  Þau hafa nú sótt um leyfi fyrir 16 hundum,  en svar hefur ekki borist frá yfirvöldum.

Miðað við málavexti eins og þeir nú  liggja fyrir nú er ljóst að heilbrigðiseftirliti ber að fylgjast með því að reglum um hundahald sé fylgt. Þar sem ekki er leyfi fyrir hundum kærenda er ljóst að Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra er heimilt  og ber raunar að taka leyfislausa hunda í sína vörslu.  Ekki verður talið að kærði hafi farið offari í aðgerðum sínum.

Um lagarök vísast til laga nr. 7/1998 og samþykktar um hundahald á Akureyri nr. 360/2001.

Úrskurðarorð :

Með tilvísan til framangreinds verður ekki fallist á að aðgerðir kærða, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, við töku hunda úr vörslu kærenda hafi verið ólögmætar.

______________________

Lára G. Hansdóttir

 ____________________________                   ______________________________

Gunnar Eydal hrl.,                                                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.,


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira