Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 2/2015: Dómur frá 30. mars 2015

Stéttarfélag lögfræðinga, f.h. Önnu Sigríðar Örlygsdóttur og Sigríðar Maríu Jónsdóttur gegn Reykjavíkurborg.

Ár 2015, mánudaginn 30. mars, er í Félagsdómi í málinu nr. 2/2015

Stéttarfélag lögfræðinga,

f.h. Önnu Sigríðar Örlygsdóttur og

Sigríðar Maríu Jónsdóttur

(Jón Sigurðsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

 

Mál þetta var dómtekið 11. mars 2015.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Kolbrún Benediktsdóttir, Guðni Á. Haraldsson, Elín Blöndal og Gísli Gíslason.

Stefnandi er Stéttarfélag lögfræðinga, Borgartúni 6, Reykjavík, f.h. Önnu Sigríðar Örlygsdóttur, Geitlandi 43, Reykjavík, og Sigríðar Maríu Jónsdóttur, Huldulandi 28, Reykjavík.

Stefnda er Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi:

Að stefndu, Reykjavíkurborg, sé skylt að greiða Önnu Sigríði Örlygsdóttur, kt. 130768-4239, og Sigríði Maríu Jónsdóttur, kt. 101270-2979, laun samkvæmt skilgreiningunni „lögfræðingur 5, lfl. 336, embættis eða meistarapróf í lögfræði“ í gr. 1.3.1 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

           

Dómkröfur stefndu

Stefnda krefst sýknu af dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

 

Málavextir

Stefnandi höfðar mál þetta fyrir hönd tveggja félagsmanna sinna, Önnu Sigríðar Örlygsdóttur og Sigríðar Maríu Jónsdóttur, sem báðar starfa sem lögfræðingar hjá Barnavernd Reykjavíkur sem fellur undir velferðarsvið stefndu. Báðar eru þær starfsmenn stefndu samkvæmt ráðningarsamningum og fer um kjör þeirra eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga sem starfsmenn stefndu og félagsmenn stefnanda.

Með sameiginlegu bréfi lögfræðinganna til velferðarsviðs stefndu, dagsettu 19. mars 2014, fóru þær fram á endurskoðun á grunnröðun lögfræðinga hjá Barnavernd Reykjavíkur samkvæmt kjarasamningi með tilliti til starfslýsingar. Lögfræðingarnir bentu á að þeim væri raðað undir grunnröðun launaflokks 331, þ.e. sem svonefndum lögfræðingi 4 samkvæmt gr. 1.3.1 í kjarasamningi. Það mat teldu þær vera rangt með vísan til verkefna, sem þær sinni dags daglega, og ábyrgð. Vísuðu þær í því sambandi til starfslýsingar um störf þeirra. Töldu lögfræðingarnir sér hins vegar rétt raðað sem lögfræðingum 5 í launaflokki 336 samkvæmt sama ákvæði og fóru fram á leiðréttingu og endurröðun.

Í grein 1.3.1 framangreinds kjarasamnings koma fram skilgreiningar starfa og grunnröðun, sbr. m.a. eftirgreint:

 

Lögfræðingur 4, lfl. 331, embættis eða meistarapróf í lögfræði.

Starfsmaður hefur umsjón með og ber ábyrgð á lögfræðitengdum

verkefnum innan borgarkerfisins. Með umsjón er m.a. átt við

skipulagningu, samhæfingu og stjórnun á tilteknum verkefnum.

Starfsmaður getur líka sinnt málflutningi fyrir dómstólum og farið með

fyrirsvar fyrir Reykjavíkurborg gagnvart dómstólum, ráðuneytum, öðrum

sveitarfélögum, sjálfstæðum stjórnsýslunefndum, stofnunum, fyrirtækjum

og öðrum aðilum.

 

Lögfræðingur 5, lfl. 336, embættis eða meistarapróf í lögfræði.

Starfsmaður sinnir stefnumörkun, áætlanagerð og gerir tillögur að

samhæfingu við stefnu stofnunar/Reykjavíkurborgar. Starfsmaður hefur

samskipti við og fer með fyrirsvar gagnvart ráðuneytum, öðrum

sveitarfélögum, úrskurðarnefndum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum

aðilum. Starfsmaður getur haft fjárhagslega ábyrgð og mannaforráð.

 

Velferðarsvið stefndu ritaði lögfræðingunum svarbréf, dagsett 29. september 2014, þar sem því var hafnað að gerð yrði breyting á framangreindri röðun í launaflokka. Kemur þar fram það mat mannauðsdeildar stefndu að með tilliti til verkefna og ábyrgðar, sem tiltekin séu í starfslýsingu lögfræðinga hjá Barnavernd, falli starf þeirra undir starf lögfræðings 4 samkvæmt kjarasamningsákvæðinu. Með bréfi starfsmannastjóra stefndu, dagsettu 6. okt. 2014, staðfesti hún fyrra mat sitt að þessu leyti. Kemur fram í bréfinu að meginábyrgð lögfræðinga Barnaverndar sé á lögfræðilegum verkefnum innan borgarkerfisins, auk þess sem þeir hafi fyrirsvar gagnvart Alþingi, ráðuneytum, barnaverndarstofu, umboðsmanni Alþingis, öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum og stofnunum. Samkvæmt starfslýsingu sé það ekki meginstarf lögfræðinga Barnaverndar að annast stefnumörkun og áætlanagerð né gera tillögur í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar.  

Stefnandi kveðst hafa gert þá kröfu á hendur stefndu að hún breytti röðun félagsmanna stefnanda til samræmis við kröfur framangreindra lögfræðinga. Hafi stefnandi tekið málið fyrir á fundum samstarfsnefndar sem sé kjarasamningsbundinn vettvangur samningsaðila til lausnar ágreiningi. Hinn 23. október 2014 hafi verið haldinn fundur í samstarfsnefnd þar sem málið var rætt og hafi þar komið fram ítrekuð afstaða stefnda um synjun á kröfu stefnanda. Hið sama hafi gerst þegar málið kom til kasta samstarfsnefndar að nýju á fundi hinn 10. nóvember s.á. 

Hinn 25. nóvember 2014 ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefndu og áréttaði kröfur stefnanda og tilkynnti um málshöfðun fyrir Félagsdómi. Stefnandi lýsir því í stefnu að stefnda hafi ekki snúið sér til lögmannsins með svör heldur hafi sviðsstjóri velferðarsviðs stefndu boðað lögfræðingana hjá Barnavernd til fundar við sig í desember sama ár. Í kjölfarið kveðst stefnandi svo hafa móttekið frá stefndu afrit af bréfi deildarstjóra kjaradeildar og starfsmannastjóra stefndu til velferðarsviðs stefndu, dagsett 2. janúar 2015, sem hafi innihaldið rökstuðning um launaröðun lögfræðinganna. Í ljósi óbreyttrar afstöðu stefndu til krafna stefnanda, hafi stefnanda verið nauðsynlegt að höfða mál þetta, sem lögmaður stefnanda hafi boðað aftur með tilkynningu, dagsettri 6. janúar 2015.

Stefnda gerir ekki athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda í stefnu en vekur athygli á tveimur atriðum. Í fyrsta lagi kveðst stefnda sammála þeirri málflutningsyfirlýsingu stefnanda að samstarfsnefnd stefnanda og stefndu „sé kjarasamningsbundinn vettvangur samningsaðila til lausnar ágreiningi. Í öðru lagi vekur stefnda athygli Félagsdóms á því að Barnavernd sé frekar lítil og afmörkuð stofnun, ein fjölmargra undirstofnana Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar samkvæmt framlögðu skipuriti.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja stefnukröfur sínar á því að stefnda hafi með synjun á því að raða Önnu Sigríði Örlygsdóttur og Sigríði Maríu Jónsdóttur, félagsmönnum stefnanda og lögfræðingum hjá Barnavernd Reykjavíkur í launaflokk, sem er auðkenndur sem lögfræðingur 5, lfl. 336, embættis eða meistarapróf í lögfræði, brotið gegn gr. 1.3.1 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga með gildistíma 1. maí 2011 til 31. mars 2014, með síðari framlengingum og viðbótum. Lögfræðingar Barnaverndar eigi samningabundna og lögvarða kröfu á því að þeim verði raðað í umræddan launaflokk samkvæmt kjarasamningsákvæðinu og fá greidd laun frá stefndu samkvæmt því. Er vísað í því sambandi til hliðsjónar til ákvæðis 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Stefnandi vísar til þess að framangreindum lögfræðingum Barnaverndar sé raðað samkvæmt hugtakinu lögfræðingur 4 í kjarasamningi, þ.e. í launaflokk 331, og lúti stefnukrafan að því að þær verði færðar til í launaflokki og raðað sem lögfræðingi 5 samkvæmt ákvæði um röðun í launaflokka í lið 1.3 í kjarasamningi.

Stefnandi byggir stefnukröfur sínar á því að raða beri lögfræðingunum í launaflokkinn lögfræðingur 5 og greiða þeim laun samkvæmt því, þar sem skilgreining í gr. 1.3.1 í kjarasamningi eigi sannanlega best við um störf þeirra, m.a. þegar litið sé til starfslýsingar þeirra. Í framlögðum starfslýsingum þeirra sé helstu verkefnum í starfi lýst m.a. með eftirfarandi hætti:

 

Samskipti við og fer með fyrirsvar gagnvart úrskurðarnefndum, Alþingi, ráðuneytum, Barnaverndarstofu, umboðsmanni Alþingis, öðrum sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum hvað varðar atriði er varða málsmeðferð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, heimildir til aðgangs að gögnum, umsagnir um lagafrumvörp og fyrirsvar vegna kærumála og kvartana/annað það sem lýtur að túlkun og beitingu lagaákvæða er varða starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Annast undirbúning funda Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Seta á fundum nefndarinnar og ráðgjöf um lögfræðileg álitaefni. Annast gerð bókana og úrskurða nefndarinnar. Staðgengill framkvæmdastjóra á fundum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Samskipti og undirbúningur fyrir mál sem falin eru borgarlögmanni til meðferðar. Tengiliður við borgarlögmann vegna þeirra mála sem þar eru til meðferðar.

Stefnumörkun, gerð áætlana og áætlanagerð er varðar lögfræðileg atriði er varða starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur. Í því felst samræming á túlkun laga og reglugerða sem varða starfsemina s.s. með samningi reglna og staðlaðra eyðublaða sem og að annast fræðslu og lögfræðilega ráðgjöf til starfsmanna, nefndarmanna og eftir atvikum foreldra/barna.

 

Við samanburð á starfslýsingunum og skilgreiningu á lögfræðingi 5 í launaflokki 336 sé ljóst að flest þau atriði, sem eiga undir hugtakið lögfræðingur 5, sé einnig að finna í starfslýsingunum. Meðal þessara atriða sé eftirfarandi:

  • „Stefnumörkun, gerð áætlana og áætlanagerð“ í starfslýsingu, sbr. að starfsmaður „sinnir stefnumörkun, áætlanagerð“ samkvæmt „lögfræðingur 5“ í kjarasamningsákvæðinu.
  • „Samskipti við og fer með fyrirsvar gagnvart úrskurðarnefndum, Alþingi, ráðuneytum, Barnaverndarstofu, umboðsmanni Alþingis, öðrum sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum“ í starfslýsingu, sbr. að starfsmaður „hefur samskipti við og fer með fyrirsvar gagnvart ráðuneytum, öðrum sveitarfélögum, úrskurðarnefndum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum aðilum“ samkvæmt lögfræðingi 5 í kjarasamningsákvæðinu.

  • Sem hluti af framangreindu sé að lögfræðingar Barnaverndar Reykjavíkur fari m.a. með fyrirsvar gagnvart úrskurðarnefndum, þ.e. kærunefnd barnaverndarmála, en fyrirsvar fyrir úrskurðarnefndum sé sérstaklega hluti af skilgreiningu á lögfræðingur 5 í kjarasamningsákvæðinu en sé hins vegar ekki hluti af starfsskyldum lögfræðings 4.

  • „...samræming á túlkun laga og reglugerða sem varða starfsemina s.s. með samningu reglna og staðlaðra eyðublaða ...“ í starfslýsingu, sbr. að starfsmaður „gerir tillögur að samhæfingu við stefnu stofnunar/Reykjavíkurborgar“ samkvæmt lögfræðingi 5 í kjarasamningsákvæðinu.  

Framangreindur samanburður leiði í ljós að röðun lögfræðinganna í launaflokka samræmist í þeirra tilviki mun betur verkefnum þeim sem færð eru undir skilgreininguna lögfræðingur 5 en lögfræðingur 4 samkvæmt ákvæðinu. Eigi mun fleiri atriði í starfslýsingu undir fyrr greinda hugtakið en það síðarnefnda. Þegar af þeirri ástæðu beri stefndu samningsbundin skylda til þess að raða lögfræðingunum í launaflokka samkvæmt dómkröfu.

Stefnandi bendir á að samkvæmt starfslýsingum lögfræðinganna séu þær staðgenglar framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur á fundum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þær séu því næstu starfsmenn/yfirmenn við framkvæmdastjóra innan Barnaverndar Reykjavíkur. Laun framkvæmdastjóra muni vera ákvörðuð af kjaranefnd stefndu en taki ekki mið af kjarasamningi. Með tilliti til þessa skipulags verði að telja stefnukröfu um röðun lögfræðinganna sem lögfræðingi 5, þ.e. í efstu röðun samkvæmt kjarasamningi, bæði réttmæta og sanngjarna.

Stefnandi kveður ýmsum lögfræðingum annars staðar innan borgarkerfisins, þ.e. hjá stefndu, raðað í launaflokka sem lögfræðingar 5 samkvæmt gr. 1.3.1 í kjarasamningi. Eigi þetta m.a. við um fimm af sjö lögfræðingum sem starfa hjá borgarlögmanni stefndu og eru undirmenn borgarlögmanns. Áætlanagerð og stefnumótun munu þó ekki vera hluti af starfsskyldum þeirra lögfræðinga, ólíkt því sem segi í starfslýsingum lögfræðinga Barnaverndar Reykjavíkur. Meðal annars af þeim ástæðum eigi starfslýsing þeirra lögfræðinga mun síður við um lögfræðing 5, heldur en starfslýsing lögfræðinga Barnaverndar Reykjavíkur. Með því að raða þessum lögfræðingum í launaflokk sem lögfræðingi 5 samkvæmt gr. 1.3.1 í kjarasamningi en raða lögfræðingum Barnaverndar Reykjavíkur sem lögfræðingi 4 sé þeim síðarnefndu mismunað en sú mismunun brjóti m.a. gegn ákvæðum kjarasamnings, meginreglum vinnuréttar og jafnræðisreglum 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Stefnandi bendir á að stefnda viðurkenni í bréfum, dagsettum 6. október 2014 og 2. janúar 2015, að stefnumótun og áætlanagerð og gerð tillagna í samræmi við stefnu stefndu sé hluti af starfslýsingu lögfræðinga Barnaverndar Reykjavíkur, enda þótt rangt sé farið með þegar þar segi að í starfslýsingum komi fram að þessir verkþættir séu ekki „megin starf“ lögfræðinga Barnaverndar Reykjavíkur. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að afstaða stefndu til þessara starfsþátta og umfangs starfa lögfræðinga Barnaverndar Reykjavíkur sé á skjön við það sem fram komi í tölvuskeyti framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur til starfsmannastjóra velferðarsviðs stefndu, dagsettu 8. september 2014, þar sem m.a. komi greinilega fram að stefnumótun og áætlanagerð séu veigamikill hluti af störfum lögfræðinganna. Þá sé einnig farið rangt með í seinna bréfinu þegar sagt sé að lögfræðingur 5 feli í sér stjórnunarstarf. Sé það ómálefnaleg afstaða stefnda, sem eigi sér ekki stoð í kjarasamningsákvæðinu, að halda því fram að þessir starfsþættir þurfi að vera megin starf viðkomandi til þess að raða beri starfsmanni í launaflokk sem lögfræðingi 5, hvað þá að það hugtak feli endilega í sér stjórnunarstöðu.

Stefnandi vísar til þess að Barnavernd Reykjavíkur sé sérstök stjórnsýslueining innan kerfis stefndu og falli undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þegar af þeirri ástæðu sé Reykjavíkurborg stefnt til varnar í málinu.

Auk framangreindra lagatilvísana kveðst stefnandi byggja kröfur sínar fyrst og fremst á gildandi kjarasamningi aðila, sbr. kjarasamning fyrir tímabilið 1. maí 2011 til 31. mars 2014, sem framlengdur hafi verið með samningi um breytingu og framlengingu á kjarasamningi aðila, dagsettum, 16. apríl 2014. Stefnandi vísar einnig til almennra reglna um skuldbindingargildi samninga og meginreglna vinnuréttar og kröfuréttar. Vísað er til laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá er vísað til laga nr. nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þ.m.t. 3. tl. 1. mgr. 26. gr., sbr. einnig IV. kafla, þ.m.t. 44. gr., og laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt sé honum nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefndu.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda bendir á að stefnandi byggi dómkröfu sína á því að stefnda hafi brotið gegn grein 1.3.1 í kjarasamningi aðila með því að framangreindum tveimur lögfræðingum er ekki raðað í tiltekinn launaflokk samkvæmt samningnum. Þá feli krafa stefnanda einnig í sér að lögfræðingarnir tveir, sem starfa hjá Barnavernd Reykjavíkur, verði færðir milli launaflokka og raðað sem lögfræðingi 5 samkvæmt ákvæði um röðun í launaflokka í lið 1.3. í kjarasamningi, þ.e. að Félagsdómur raði þeim í launaflokk og ákvarði þannig launakjör þeirra.

Stefnandi þurfi bæði að sanna að stefnukrafan eigi undir verksvið Félagsdóms og takist sú sönnun, þurfi hann jafnframt að sanna að stefndu beri skylda til að greiða þeim laun samkvæmt skilgreiningunni lögfræðingur 5 í launaflokki 336 í kjarasamningi aðila.

Stefnda bendir á að í málinu sé ekki deilt um efni kjarasamnings aðila heldur lúti ágreiningur aðila að röðun í launaflokka. Hins vegar séu málsaðilar sammála um að samstarfsnefnd þeirra skeri úr um slíkan ágreining, eins og kveðið sé á um í gr. 15 í kjarasamningnum. Samstarfsnefndin hafi reynt að gera það en ekki hafi náðst samkomulag um niðurstöðu. Stefnda líti svo á að tilfærsla milli launaflokka sé algerlega í höndum samráðsnefndarinnar og þurfi einróma niðurstöðu hennar eða kjarasamning til að flytja einstaklinga milli launaflokka. Annað fyrirkomulag um framkvæmd kjarasamnings sé ekki mögulegt. Röðun í launaflokka, hvort heldur sem er hjá ríki eða stefndu, sé ekki og geti ekki verið á valdsviði Félagsdóms. Falli dómkrafa stefnanda því utan verksviðs Félagsdóms svo sem því sé lýst og það afmarkað í 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og 1. og 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Þá byggir stefnda á því að í stefnu sé ekki að finna haldbær rök stefnanda fyrir því hvers vegna raða eigi lögfræðingunum tveimur í fyrrnefndan launaflokk 5 en stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því. Ekki sé heldur rökstutt hvernig stefnda eigi að hafa brotið í bága við grein 1.3.1 í kjarasamningnum. Þá sé heldur ekki gerð grein fyrir því samkvæmt hvaða samningi eða lögum stefnandi telji lögfræðinga Barnaverndar eiga samningsbundna og lögvarða kröfu á að vera raðað í umræddan launaflokk. 

Stefnda byggir á því að röðun lögfræðinganna tveggja í næstefsta launaflokk löglærðra starfsmanna Reykjavíkurborgar sé rétt og í samræmi við skilgreiningu í kjarasamningi um starf lögfræðings í 4. lfl. 331. Samstarfsnefnd hafi ekki tekið ákvörðun um annað og því sé ákvörðun hennar endanleg úrlausn málsins.

Stefnda bendir á að samanburður stefnanda á skilgreiningum einstakra launaflokka í kjarasamningum og starfslýsingum einstaklinga sé ekki raunhæfur. Skilgreining starfa í kjarasamningi sé almenn og eigi við um alla starfsmenn stefndu, hvar sem þeir vinna, en starfslýsing einstaklings geti átt við starf á tilteknum afmörkuðum vinnustað. Sé samanburður í stefnu því ekki marktækur. Möguleg seta á fundum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í stað framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur breyti engu um röðun í launaflokka og jafngildi ekki stöðu staðgengils í skilningi vinnuréttar.

Stefnda vísar til þess að umræddir tveir lögfræðingar séu hluti af mjög stóru rekstrarsviði Barnaverndarnefndar og undir stjórn sérstaks framkvæmdastjóra. Margt sé því ofsagt í stefnu um stefnumótun og áætlanagerð þeirra.  Þá snúist mál þetta ekki um röðun annarra lögfræðinga stefndu í launaflokka en fáum þeirra sé raðað í launaflokk 5. Slíkir starfsmenn þurfi að hafa mikið frumkvæði í starfi, vinna sjálfstætt, sinna lögfræðiráðgjöf á breiðu sviði, hafi flestir mannaforráð og beri beina ábyrgð á starfi sínu og þeim sem vinna undir stjórn þeirra. Stefnda mótmælir rakalausum fullyrðingum í stefnu um mismunun við röðun í launaflokka og aðdróttunum um brot gegn 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Telji stefnda að þessi ummæli hafi engin sjáanleg tengsl við deiluefni málsins.

 

Niðurstaða

Í dómkröfukafla stefnu er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefndu sé skylt að greiða þeim Önnu Sigríði Örlygsdóttur og Sigríði Maríu Jónsdóttur laun samkvæmt skilgreiningunni lögfræðingur 5, lfl. 336 í gr. 1.3.1 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga. Gildistími kjarasamningsins var upphaflega frá 1. maí 2011 til 31. mars 2014 en með samningi Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga, dagsettum 16. apríl 2014, var kjarasamningurinn framlengdur til 31. ágúst 2015.

Í stefnu kemur fram að stefnandi byggir stefnukröfu sína á því að stefnda hafi með synjun sinni á því að raða tilgreindum lögfræðingum í hinn tiltekna launaflokk brotið gegn framangreindu kjarasamningsákvæði. Er hér enda ekki um eiginlega fjárkröfu að ræða. Jafnframt liggur fyrir sú afstaða stefndu í greinargerð að ágreiningur málsins lúti að röðun í launaflokka. Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn ljóst að framsetning dómkrafna stefnanda lúti að því að fá úr því skorið, hvort stefnda hafi brotið gegn ákvæðum gr. 1.3.1. í umræddum kjarasamningi með röðun framangreindra lögfræðinga í launaflokka. Að þessu virtu og þegar litið er til alls málatilbúnaðar stefnanda í heild sinni, þykir verða að líta á kröfugerð stefnanda sem kröfu um að viðurkennt verði að framangreindum lögfræðingum verði raðað í tiltekinn launaflokk. Verður ekki á það fallist með stefndu að framangreindir lögfræðingar sem félagsmenn í stefnanda eigi ekki lögvarða hagsmuni að þessu leyti.

Stefnda byggir á því að það sé eingöngu á sviði samstarfsnefndar samkvæmt 15. kafla umrædds kjarasamnings að leiða til lykta ágreining aðila um röðun starfa í launaflokka og sé það þannig ekki á valdsviði Félagsdóms, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og 1. og 2. tölulið 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Náist ekki samkomulag í nefndinni, eins og gerst hafi í ágreiningi aðila þessa máls, verði því að bíða næstu kjarasamninga og semja þá um ágreiningsefnið.

Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, dæmir Félagsdómur í málum sem rísa milli samningsaðila um ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Eins og áður er rakið deila málsaðilar um það, hvort stefnda hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings með því að raða framangreindum starfsmönnum rangt í tiltekinn launflokk samkvæmt beinu ákvæði kjarasamnings og með hliðsjón af staðfestum starfslýsingum. Lýtur ágreiningur aðila því að skilningi á kjarasamningi og fellur því samkvæmt framangreindu lagaákvæði undir valdsvið Félagsdóms.

Samkvæmt grein 15.1.12 í kjarasamningi aðila skal samstarfsnefnd m.a. hafa það hlutverk að fjalla um forsendur starfaflokkunar og röðun einstakra starfa í launaflokka. Eins og að framan er rakið náðist ekki samkomulag í samstarfsnefnd um þann ágreining er hér er til umfjöllunar. Þannig liggur ekki fyrir niðurstaða samstarfsnefndar í máli þessu sem aðilar eru bundnir af og getur stefnandi því lagt réttarágreining þennan fyrir Félagsdóm með vísan til 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í málinu liggja frammi starfslýsingar vegna beggja framangreindra lögfræðinga. Kemur þar fram að helstu verkefni þeirra felist m.a. í samskiptum við og fyrirsvari „gagnvart úrskurðarnefndum, Alþingi, ráðuneytum, Barnaverndarstofu, umboðsmanni Alþingis, öðrum sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum hvað varðar atriði er varða málsmeðferð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, heimildir til aðgangs að gögnum, umsagnir um lagafrumvörp og fyrirsvar vegna kærumála og kvartana/annað það sem lýtur að túlkun og beitingu lagaákvæða er varða starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Annast undirbúning funda Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Seta á fundum nefndarinnar og ráðgjöf um lögfræðileg álitaefni. Annast gerð bókana og úrskurða nefndarinnar. Staðgengill framkvæmdastjóra á fundum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Samskipti og undirbúningur fyrir mál sem falin eru borgarlögmanni til meðferðar. Tengiliður við borgarlögmann vegna þeirra mála sem þar eru til meðferðar.

Stefnumörkun, gerð áætlana og áætlanagerð er varðar lögfræðileg atriði er varða starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur. Í því felst samræming á túlkun laga og reglugerða sem varða starfsemina s.s. með samningi reglna og staðlaðra eyðublaða sem og að annast fræðslu og lögfræðilega ráðgjöf til starfsmanna, nefndarmanna og eftir atvikum foreldra/barna.“

Í málavaxtakafla hér að framan er gerð grein fyrir skilgreiningu starfa eins og hún er sett fram í grein 1.3.1 í kjarasamningnum, annars vegar að því er varðar launaflokk sem auðkenndur er sem lögfræðingur 4, lfl. 331, embættis- eða meistarapróf í lögfræði og hins vegar að því er varðar launaflokkinn lögfræðingur 5, lfl. 336, embættis- eða meistarapróf í lögfræði. Þegar skilgreiningar þessara starfa í kjarasamningi eru bornar saman við efni framangreindra starfslýsinga lögfræðinganna tveggja er það mat dómsins að fallast verði á það með stefnanda að starfslýsingarnar falli betur að skilgreiningu kjarasamningsins á starfi lögfræðings 5, lfl. 336, en starfi lögfræðings 4, lfl. 331. Þannig segir í starfslýsingunum að verkefni lögfræðinganna tveggja séu m.a. stefnumörkun, gerð áætlana og áætlanagerð en í skilgreiningu starfs lögfræðings samkvæmt launaflokki lögfræðings 5, lfl. 336, segir að starfsmaður sinni m.a. stefnumörkun og áætlanagerð. Þessara verkefna er hins vegar ekki getið í skilgreiningu starfs lögfræðings í launaflokki lögfræðingur 4, lfl. 331. Þá er í starfslýsingunum mælt fyrir um að lögfræðingarnir sjái um samskipti við og fari með fyrirsvar gagnvart úrskurðarnefndum, Alþingi, ráðuneytum, Barnaverndarstofu, umboðsmanni Alþingis, öðrum sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum. Í skilgreiningu starfs lögfræðings samkvæmt launaflokki lögfræðings 5, lfl. 336, segir að starfsmaður hafi samskipti við og fari með fyrirsvar gagnvart ráðuneytum, öðrum sveitarfélögum, úrskurðarnefndum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum aðilum. Í skilgreiningu starfs lögfræðings í launaflokki lögfræðings 4, lfl. 331, er hins vegar mælt fyrir um að starfsmaður geti líka sinnt slíkum störfum öðrum en fyrirsvari fyrir úrskurðarnefndum.  Loks verður ekki á það fallist með stefndu að það sé skilyrði fyrir röðun starfsmanns í launaflokk lögfræðings 5, lfl. 336, að hann hafi fjárhagslega ábyrgð og mannaforráð, enda er í kjarasamningsákvæðinu einungis tilgreint að slík ábyrgð geti verið til staðar. Bendir orðalagið til þess að fjárhagsleg ábyrgð og mannaforráð ráði ekki úrslitum við röðun í launaflokkinn.

Óumdeilt er að umræddar starfslýsingar eru unnar af stefndu og samþykktar af lögfræðingunum tveimur í mars 2014, þ.e. eftir að kjarasamningurinn tók gildi. Framkvæmdastjóri stefndu staðfesti starfslýsingarnar og er ekkert komið fram um að þær séu rangar. Að öllu framangreindu virtu verður dómkrafa stefnanda tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Reykjavíkurborg, er skylt að greiða Önnu Sigríði Örlygsdóttur, kt. 130768-4239, og Sigríði Maríu Jónsdóttur, kt. 101270-2979, laun samkvæmt skilgreiningunni lögfræðingur 5, lfl. 336, embættis eða meistarapróf í lögfræði, í gr. 1.3.1 í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Stéttarfélags lögfræðinga.

Stefnda greiði stefnanda, Stéttarfélagi lögfræðinga f.h. Önnu Sigríðar Örlygsdóttur og Sigríðar Maríu Jónsdóttur, 350.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Kolbrún Benediktsdóttir

Guðni Á. Haraldsson

Elín Blöndal

Gísli Gíslason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira