Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 1/2013

Mál þetta lýtur að kröfu móður um rýmri umgengni við tvö börn sín. Hinn kærði úrskurður var staðfestur með vísan til 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
 

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2013 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A vegna barna hennar, B og C, nr. 1/2013.

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Með bréfi, dags. 11. janúar 2013, skaut Ómar Örn Bjarnþórsson hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar G frá 11. desember 2012 til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðurinn varðar umgengni kæranda, A, við börn sín, þau B og C. Kærandi var svipt forsjá barna sinna með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2012 og var sá dómur staðfestur fyrir Hæstarétti 7. mars 2013. Börnin lúta forsjár barnaverndarnefndar G. Þeim hefur verið ráðstafað í fóstur.

 

Samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar G frá 11. desember 2012 er umgengni barnanna við kæranda með eftirfarandi hætti:

 

Barnaverndarnefnd G ákveður að B, og C, hafi umgengni við móður sína þrisvar á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram í janúar, maí og september ár hvert. Umgengni fari fram undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar G og í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar G.“

 

Kærandi krefst þess að hún fái umgengni við börnin annan hvern föstudag í 2‒4 klukkustundir í senn.

 

Fósturforeldrum barnanna þykir það ekki ráðlegt að umgengni móður við þau verði með þeim hætti sem krafist er.

 

Barnaverndarnefnd G krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

II.

Málavextir

 

Kynforeldrar B og C eru kærandi og D, en kærandi fór ein með forsjá þeirra. Börnin hafa verið á núverandi fósturheimili síðan í mars 2012 en áður voru þau í fóstri hjá móðurforeldrum sínum frá 12. maí 2011. Móðir þeirra var svipt forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2012 og var sá dómur staðfestur fyrir Hæstarétti 7. mars 2013 eins og fram hefur komið. Ástæða þess er löng saga móður um áfengis- og fíkniefnaneyslu og fram kemur í gögnum málsins að hæfni hennar til þess að annast börn síns sé mjög skert af völdum áfengis- og vímuefnaneyslu og andlegra erfiðleika. Auk fíknivanda glímir móðir við bipolar sjúkdóm, persónuleikaröskun og blandna kvíða- og geðlægðarröskun. Samkvæmt bréfi E, ráðgjafa í Krísuvík, þar sem kærandi var í meðferð, dags. 28. desember 2012, hafði kærandi þá náð nokkrum árangri í meðferð þar.

 

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi þjáðst af fæðingarþunglyndi eftir fæðingu B auk annarra veikinda. Hafi foreldrar D annast stúlkuna mikið fyrsta árið. Kærandi hafi átt erfitt með að tengjast stúlkunni. Þá hafi dóttir D annast C mikið þegar kærandi hafi fallið við fimm mánaða aldur hans og kærandi hafi farið í meðferð. Fram kemur að eftir að kærandi féll í mars 2011 hafi hún hitt börnin þrisvar sinnum á heimili foreldra sinna, í júlí, nóvember og desember 2011. Í gögnum málsins kemur fram að um stuttar heimsóknir kæranda og föður barnanna hafi verið að ræða og hafi þau verið undir áhrifum. Kærandi hitti börnin síðan einu sinni sumarið 2011 í sumarbústað með foreldrum sínum. Síðan hafi kærandi hitt börnin 17. ágúst og í september 2012 í umgengni á vegum Barnaverndar G. Umgengni hennar við börnin í þessi tvö skipti hafi verið mjög erfið. B hafi ekki munað eftir henni og verið feimin. Stúlkan hafi leitað mikið til fósturforeldra sinna. C hafi verið aðeins opnari, en óöruggur og feiminn.

 

F sálfræðingur gerði tengslamat á tengslum barnanna við fósturforeldra. Fram kemur að tengslamyndun við fósturforeldrana hefur tekist vel og virðast börnin njóta ástar, umhyggju og öryggis í umsjá fósturforeldra. Börnin séu þó ennþá óörugg og þurfi fullvissu um að þau muni ekki þurfa að fara aftur af heimilinu.

III.

Afstaða kæranda

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hún telji þá umgengni sem úrskurður barnaverndarnefndar G kveði á um vera alltof sjaldan og í alltof stuttan tíma í einu. Kærandi byggi á því að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem þeim eru nákomnir skv. 1. mgr. 74 gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Sé sá réttur í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggi jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins skv. 2. mgr. 74. gr. laganna. Telji kærandi með engu móti hafa verið sýnt fram á að slíkt eigi við í máli þessu. Þvert á móti hafi umgengni kæranda við börnin gengið vel og kærandi fallist á að umgengni verði undir eftirliti og að hún gangi í gegnum vímuefnapróf áður en umgengni eigi sér stað.

 

Kærandi mótmælir því að lagt sé til grundvallar niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndar að börn hennar muni ekki eftir henni og að tengsl hennar og barnanna séu ekki sterk. Því mótmælir kærandi sérstaklega í ljósi þess að hún hafi ítrekað farið fram á að metin séu tengsl hennar við börnin og að slíkt mat verði framkvæmt af sérfræðingi. Telji kærandi að ef takmarka eigi svo verulega umgengni hennar við börn sín, á þessum grundvelli, hljóti að þurfa að liggja fyrir viðhlítandi gögn sem styðji þá niðurstöðu.

 

IV.

Afstaða fósturforeldra

 

Af hálfu fósturforeldra kemur fram að umgengni barnanna við kynmóður sína hafi farið vel fram en að þau séu afar þreytt og óörugg eftir umgengni. Það gleðji fósturforeldra að kynmóðir vilji gefa börnunum meiri gaum en þeir telji það ekki endilega vera þeim fyrir bestu. Bent er á að börnin séu ung og hafi ekki skilning á aðstæðum. Þau hafi hins vegar mikla þörf fyrir ást, umhyggju og athygli sem fósturforeldarnir veiti þeim eftir bestu getu. Börnin hafi tekið stakkaskiptum á því ári sem þau hafi verið hjá fósturforeldrunum og uni sér við leik og störf. Þeim þyki ekki ráðlegt að breyta tilveru þeirra með umgengni annan hvern föstudag í 3‒4 klukkustundir í senn. Umgengnin hafi haft mikil áhrif á öryggi og líðan barnanna sem séu í varnalegu fóstri til 18 ára aldurs. Þau séu enn að vinna úr þeirri tengslaröskun sem þau urðu fyrir vegna brotthvarfs móður sinnar úr lífi sínu og þykir fósturforeldrunum að svo stöddu ekki stætt á meiri breytingum er varðar daglegt líf þeirra.

 

 

V.

Afstaða barnaverndarnefndar G

 

Af hálfu barnaverndarnefndar G kemur fram að jákvæðar breytingar hafi orðið á líðan og hegðun barnanna eftir að þau fluttu á heimili fósturforeldra sinna og virðist aðlögun hafa gengið vel. F sálfræðingur hafi gert tengslamat á tengslum barnanna við fósturforeldra. Þar komi fram að tengslamyndun við fósturforeldra hafi tekist vel og virðist börnin njóta ástar, umhyggju og öryggis í umsjá fósturforeldra. Börnin séu þó ennþá óörugg og þurfi fullvissu um að þau muni ekki þurfa að fara aftur af heimilinu.

 

 

Bent er á að í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, komi fram að barn á rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eigi með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. 74. gr. sömu laga nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni beri meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun sé ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til þess að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

 

Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til barn verður lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Af gögnum málsins sé ljóst að jákvæðar breytingar hafi orðið á líðan og hegðun barnanna eftir að þau fluttu á heimili fósturforeldra sinna og virðist aðlögun hafa gengið mjög vel. Þá hafi tengslamyndun við fósturforeldra tekist vel og virðist börnin njóta ástar, umhyggju og öryggis í umsjá fósturforeldranna. Þá megi ráða af gögnum málsins að ekki séu sterk tengsl milli barnanna og móður.

 

VI.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um rýmri umgengni við tvö börn sín, þriggja og fimm ára gömul, en hinn kærði úrskurður kveður á um. Börnin eru vistuð hjá fósturforeldrum en móðir þeirra, kærandi þessa máls, hefur verið svipt forsjá barnanna fyrir dómi.

 

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, á barn rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. 74. gr. sömu laga nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til þess að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

 

 

Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni barnanna við kæranda þrisvar á ári í allt að tvær klukkustundir í senn undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar G. Kærandi krefst umgengni við börnin annan hvern föstudag í 2‒4 klukkustundir í senn.

 

Börnin hafa verið í fóstri hjá núverandi fósturforeldrum frá því í mars 2012, en áður voru þau í fóstri hjá móðurforeldrum sínum frá 12. maí 2011. Börnunum hefur vegnað vel á fósturheimilinu og hafa tekið þar framförum. Þau hafa aðlagast vel og fóstrið hefur gengið vel.

 

Eins og rakið hefur verið og gögn þessa máls bera með sér hefur kærandi lítið komið að umönnun barna sinna nánast frá fæðingu þeirra. Börnin dvöldu í um eitt ár hjá föðurforeldrum sínum og síðar hjá móðurforeldrum sínum. Á þeim tíma sinnti kæranda lítið umgengni við börnin. Umgengnin var sjaldan og hún varði stutt og stundum var kærandi undir áhrifum vímuefna. Bæði börnin eru fjarlæg kæranda og yngra barnið, B, þekkir hana varla. Að mati kærunefndar barnaverndarmála liggur fyrir að tengsl kæranda við börnin eru lítil. Af þeim sökum þykja engin efni til að verða við þeirri beiðni kæranda að gert verði sérstakt mat á tengslum hennar og barnanna.

 

 

B og C eru í fóstri sem ætlað er að vara til 18 ára aldurs þeirra. Tilgangur umgengni þeirra við kynmóður sína er að þau þekki uppruna sinn en ekki sá að efla tengsl eða stuðla að tengslum sem ekki eru til staðar. Í ljósi alls framangreinds og þegar litið er til hagsmuna barnanna af því að sem mest ró, stöðugleiki og jafnvægi ríki í lífi þeirra, verður ekki talið að rýmri umgengni en sú umgengni sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði þjóni þörfum þeirra og hagsmunum, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Því er hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar G frá 11. desember 2012 staðfestur.

 

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar G frá 11. desember 2012 um umgengni A við börn sín, B og C, er staðfestur.

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

Gunnar Sandholt                            Jón R. Kristinsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira