Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2013.

 

Úrskurður er kveðinn upp 15. maí 2013 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 3/2013: A gegn barnaverndarnefnd B vegna stúlkunnar C. Á fundi kærunefndarinnar 24. apríl síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því skv. 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Kærð er ákvörðun Barnaverndar B frá 1. febrúar 2013 varðandi fjárhæð styrks til að greiða fyrir lögmannskostnað vegna aðstoðar Leifs Runólfssonar hdl. við kæranda í barnaverndarmáli.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Mál þetta varðar veitingu fjárstyrks á grundvelli 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, vegna barnaverndarmáls A hjá barnaverndarnefnd B, en málið varðar dóttur hennar C.

 

Dóttir kæranda lýtur forsjár barnaverndarnefndar B, en kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2012. Stúlkan hefur verið vistuð á heimili föðurforeldra sinna frá því í júní 2011 og verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá 16. október 2012. Málið hefur verið til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum frá því að stúlkan var mánaðargömul. Kærandi hefur notið aðstoðar ýmissa lögmanna í tengslum við meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd eins og rakið er í gögnum þess. Leifur Runólfsson hdl. tók við sem lögmaður kæranda í lok mars 2012.

 

Kæra Leifs Runólfssonar hdl., fyrir hönd A, er dagsett 21. febrúar 2013. Þar er kærð ákvörðun Barnaverndar B frá 1. febrúar 2013 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð skv. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Samkvæmt ákvörðun Barnaverndar B var ákveðið að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 5,75 klukkustundum á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts eða samtals 72.163 krónur, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins var umrætt vinnuframlag 7,25 klukkustundir. Kærandi krefst þess að greitt verði fyrir 7,25 klukkustundir í stað 5,75 klukkustunda. Barnavernd B krefst þess að sá styrkur sem samþykktur var í bréfi, dags. 1. febrúar 2013, verði staðfestur af hálfu kærunefndar barnaverndarmála. Telji kærunefndin sér ekki fært að staðfesta fyrrgreint er óskað eftir leiðbeiningum frá nefndinni um hvernig haga skuli styrkveitingum og mati í sambærilegum málum.

 

 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Lögmaður kæranda bendir á að ástæða þess að löggjafinn hafi sett ákvæði um að barnaverndarnefnd ætti að greiða aðila máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar hafi verið gert til að tryggja andmælarétt aðilanna. Til þess að hægt sé að tryggja raunverulegan andmælarétt þurfi lögmaður að ræða ítarlega við skjólstæðing sinn, rita greinargerðir, mæta á fundi hjá barnaverndarnefnd og tilkynna aðila um niðurstöður barnaverndarnefndar. Allt taki þetta tíma. Skjólstæðingur kæranda búi nú í D. Hún sé af erlendu bergi brotin og eigi við andleg veikindi að stríða. Það að þurfa að ræða við hana á erlendri tungu og veikindi hennar geri það að verkum að öll samskipti við hana séu mjög erfið og tímafrek. Lögmaðurinn hafi skrifað þriggja blaðsíðna greinargerð og prentað hana út í níu eintökum eins og gerð sé krafa um. Hann hafi mætt á barnaverndarnefndarfundinn og rökstutt málið. Bið hafi verið eftir að komast á fundinn og eftir fundinn hafi hann rætt við skjólstæðing sinn í síma. Töluverð samskipti hafi verið við kæranda í lok desembermánaðar til þess að ná sáttum eins og barnaverndarnefnd hafi farið fram á áður en til úrskurðar kæmi. Lögmaðurinn hafi aðeins skrifað lágmarkstíma á mál þetta. Auk þess hafi ekki verið tekið fyrir aukakostnað, svo sem símhringingar til D.

 

 

III. Sjónarmið Barnaverndar B

 

Í bréfi Barnaverndar B, dags. 3. apríl 2013, kemur fram afstaða til krafna kæranda fyrir kærunefndinni um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar. Þar er aðkoma lögmannsins að máli kæranda rakin og tekið fram að mál stúlkunnar hafi verið tekið fyrir 11. desember 2012 á fundi barnaverndarnefndar B. Lögmaðurinn hafi mætt á þann fund og lagt fram greinargerð sína, dags. 8. desember 2012. Lögmaðurinn hafi í kjölfarið óskað eftir styrkveitingu sem næmi 7,25 klukkustundum en samþykkt hafi verið að greiða fyrir 5,75 klukkustunda vinnu lögmannsins og hafi sú ákvörðun verið kynnt lögmanninum með bréfi, dags. 1. febrúar 2013.

 

Barnavernd B gerir í fyrrgreindu bréfi sínu grein fyrir því fyrir hvað umræddur styrkur var veittur og að hann sé í samræmi við tímaskýrslur lögmannsins að öðru leyti en því að lögmaðurinn krefst greiðslu fyrir 4,5 klukkustundir fyrir vinnu við greinargerð en styrkur var veittur fyrir 3 klukkustundir fyrir þá vinnu. Fram kemur af hálfu Barnaverndar B að það hafi þótt sanngjarnt miðað við eðli málsins og umfang þess og í ljósi þess að málið hafi verið vel kunnugt lögmanninum. Sé það í samræmi við styrkveitingar Barnaverndar B í sambærilegum málum en rétt sé að benda á að Barnavernd B beri að gæta jafnræðis við ákvörðunartöku varðandi styrkveitingar sem og annað. Enn fremur er lögð áhersla á að ekki sé unnt að halda því fram að Barnavernd B beri að greiða án athugasemda þá reikninga frá lögmannsstofum sem berist heldur verði að meta umfang og eðli máls hverju sinni.

 

 

IV. Forsendur og niðurstaða

 

Kærandi krefst þess að hnekkt verði ákvörðun Barnaverndar B samkvæmt bréfi frá 1. febrúar 2013 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar. Í bréfinu kemur fram að ákveðið hafi verið að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemi 5,75 klukkustundum á 10.000 króna tímagjaldi, en samkvæmt tímaskýrslu lögmanns kæranda var vinnuframlag 7,25 klukkustundir.

 

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð sinn. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð skv. 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur.

 

Barnaverndarnefnd B samþykkti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga, 27. maí 2008. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að Barnaverndarnefnd B veiti foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlags til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Samkvæmt 4. gr. reglnanna skulu foreldrar velja sér sjálfir lögmann. Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um að með beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli fylgja tímaskýrsla lögmannsins. Fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skuli tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Viðmiðunargjald er ákveðið af framkvæmdastjóra Barnaverndar B í samráði við lögfræðinga nefndarinnar.

 

Samkvæmt framangreindum reglum er heimilt að meta fjárhæð styrks vegna lögmanns­aðstoðar með hliðsjón af eðli og umfangi málsins. Þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin skal tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda. Af ákvörðun barnaverndarnefndar B verður ekki ráðið að tekið hafi verið tillit til efnahags kæranda þegar fjárstyrkurinn var ákveðinn enda liggja ekki fyrir upplýsingar í gögnum málsins um efnahag kæranda.

 

Af tímaskýrslu lögmanns kæranda verður ráðið að ritun greinargerðar hefur krafist undirbúnings af hans hálfu. Í hinni kærðu ákvörðun þykja ekki fram komnar fullnægjandi röksemdir fyrir því að takmarka styrkfjárhæð við 5,75 klukkustundir þrátt fyrir að vinnuframlag lögmanns kæranda sé samkvæmt tímaskýrslu hans 7,25 klukkustundir.

 

Með vísan til þessa verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við framangreindar reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar. Ber með vísan til þess að fella ákvörðunina úr gildi og vísa málinu til meðferðar að nýju skv. 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sbr. 25. gr. laga nr. 80/2011.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvörðun Barnaverndar B, sem tilkynnt var með bréfi 1. febrúar 2013, um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna meðferðar máls kæranda, A, fyrir barnaverndarnefnd B er felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar að nýju.

 

                            

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira